Hæstiréttur íslands

Mál nr. 445/1999


Lykilorð

  • Fjársvik
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 24

 

Fimmtudaginn 24. febrúar 2000.

Nr. 445/1999.

Ákæruvaldið

(Bragi Steinarsson vararíkissaksóknari)

gegn

Guðlaugi Veigari Eyjólfssyni

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

 

Fjársvik. Skilorðsrof.

G var á árinu 1997 dæmdur til 10 mánaða fangelsis fyrir þjófnað, en refsingin var bundinn skilorði til þriggja ára. Með broti gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 var G talinn hafa rofið skilorð dómsins og var refsing hans fyrir bæði brotin ákveðin í einu lagi fangelsi í eitt ár. Að gættri 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, þótti ekki verða hreyft við refsiákvörðun héraðsdómara, en G undi við sakfellingu hans. Í ljósi sakaferils G og brotanna, sem honum voru nú gefin að sök, voru ekki talin efni til þess að skilorðsbinda refsingu G. Var dómur héraðsdóms um ákvörðun viðurlaga því  staðfestur.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Gunnlaugur Claessen og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. október 1999 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun og jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þess að refsing ákærða verði þyngd frá því, sem ákveðið var í héraðsdómi.

Ákærði krefst þess að refsing verði milduð og bundin skilorði.

Í málinu er ákærða gefið að sök að hafa brotið gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með því að hafa 2. júní 1998 með blekkingum fengið nafngreindan starfsmann Rafþjónustu Sigurdórs á Akranesi til að afhenda sér gegn greiðslufresti í nafni Ísvers ehf., sem ákærði var í forsvari fyrir, þrjú sjónvarpstæki og eitt myndbandstæki, að samanlögðu verðmæti 167.755 krónur, þótt honum hafi verið eða mátt vera ljóst að hvorki hann né félagið gæti staðið skil á kaupverðinu. Ákærði dvaldi erlendis þegar kæra á hendur honum vegna þessarar háttsemi var borin fram við lögreglu 18. september 1998, en lögregluskýrsla af þessu tilefni var tekin af honum í Svíþjóð 8. mars 1999. Hann gekkst þar við sakargiftum eins og fyrir héraðsdómi. Hann unir sakfellingu samkvæmt hinum áfrýjaða dómi, en leitar endurskoðunar á viðurlögum.

Eins og greinir í héraðsdómi var ákærði dæmdur 30. desember 1997 í tíu mánaða fangelsi fyrir brot gegn 244. gr. almennra hegningarlaga, en við rannsókn þess máls hafði hann sætt gæsluvarðhaldi í fimm daga. Refsing samkvæmt dóminum var bundin skilorði til þriggja ára. Með broti sínu nú hefur ákærði rofið skilorð samkvæmt þeim dómi og verður að ákveða refsingu hans í einu lagi, sbr. 60. gr. almennra hegningarlaga, eins og þeim var breytt með 7. gr. laga nr. 22/1955. Refsinguna verður að ákveða með tilliti til 77. gr. og 255. gr. almennra hegningarlaga, sbr. og 76. gr. laganna. Að gættu þessu og ákvæði 3. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994, verður ekki hreyft við refsiákvörðun héraðsdómara. Í ljósi sakaferils ákærða og brotanna, sem honum er nú ákveðin refsing fyrir, eru ekki efni til að binda hana skilorði.

Samkvæmt framansögðu verður héraðsdómur staðfestur. Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Guðlaugur Veigar Eyjólfsson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 40.000 krónur.

 

 

 

 

 


 

Dómur Héraðsdóms Vesturlands  31. ágúst 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var hinn 25. ágúst sl., er höfðað fyrir dóminum með svofelldu ákæruskjali sýslumannsins á Akranesi dagsettu 30. júní 1999 á hendur ákærða Guðlaugi V. Eyjólfssyni, kt. 181247-3479, Stórholti 15, Ísafirði „fyrir fjársvik, með því að hafa, miðvikudaginn 2. júní 1998, með blekkingum fengið Hlyn Sigurdórsson, kt. 160561-4249, starfsmann Rafþjónustu Sigurdórs, til að afhenda sér í nafni fyrirtækis ákærða, Ísvers ehf., kt. 650297-2969, þrjú sjónvarpstæki og eitt vídeótæki, að verðmæti samtals kr. 167.755,-, úr verslun Rafþjónustu Sigurdórs, kt. 260925-4319, Skagabraut 6, Akranesi, gegn því að greiða síðar fyrir vörurnar en á þessum tíma var engin starfsemi í fyrirtækinu og kærði(sic) í miklum fjárhagserfiðleikum og var ljóst eða mátti vera ljóst að hvorki hann, né fyrirtækið Ísver ehf, myndi geta greitt fyrir vörurnar.

Telst þetta varða við 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Bótakrafa.

Þess er krafist að ákærði greiði Rafþjónustu Sigurdórs, kt. 260925-4319, skaðabætur að upphæð kr. 167.755,- auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25.6.1998 til greiðsludags.”

Sækjandi málsins gerir einnig þá kröfu að ákærði verði dæmdur til greiðslu alls sakarkostnaðar, þó ekki saksóknarlauna í ríkissjóð.

Við þingfestingu málsins játaði ákærði þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og kvað atvikum þar rétt lýst.

Með skýlausri játningu ákærða, sem fær stoð í gögnum málsins er sannað að ákærði gerðist sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæruskjali.

Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Samkvæmt sakavottorði ákærða hefur hann tvisvar undirgengist sátt vegna umferðalagabrots árið 1971 og árið 1981 og árið 1984 gekkst hann undir sátt vegna brots gegn 247. og 248. gr. almennra hegningarlaga.  Hann hlaut dóm fyrir ölvunarakstur árið 1974.  Hinn 30. desember 1997 var ákærði dæmdur í 10 mánaða fangelsi skilorðsbundið í þrjú ár fyrir brot 244 gr. almennra hegningarlaga.

Dómurinn frá 30. desember 1997 verður nú tekinn upp, en ákærði rauf skilorð hans með broti sínu sem hér er fjallað um.  Refsing hans, sem ákveðin er með hliðsjón af  77. gr. almennra hegningarlaga  þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 12 mánuði.  Með vísan til 76. gr. almennra hegningarlaga ber að draga frá refsivistinni gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 11. til 15. september 1996.

Rafþjónustu Sigurdórs, hefur krafið ákærða um skaðabætur að fjárhæð 167.755,- krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. júní 1998 til greiðsludags.

Ákærði hefur viðurkennt bótaskyldu sína og véfengir ekki fjárhæð hennar.  Samkvæmt því verður ákærði dæmdur til að greiða Rafþjónustu Sigurdórs 167.755 krónur í skaðabætur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. júní 1998, en ekki er ágreiningur um upphafsdag dráttarvaxta.

Þá ber að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Inga Tryggvasonar hdl., 30.000 krónur.

Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

Dómsorð :

Ákærði, Guðlaugur V. Eyjólfsson, sæti fangelsi í 12 mánuði.

Frá refsivistinni skal draga gæsluvarðhald er ákærði sætti frá 11. september 1996 til 15. september 1996.

Ákærði greiði Rafþjónustu Sigurdórs 167.755 krónur í skaðabætur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 25. júní 1998 til greiðsludags.

 

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Inga Tryggvasonar, héraðsdómslögmanns, 30.000 krónur auk virðisaukaskatts.