Hæstiréttur íslands
Mál nr. 691/2015
Lykilorð
- Veðleyfi
- Sjálfskuldarábyrgð
- Ógilding samnings
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 12. október 2015. Hann krefst sýknu af kröfum stefndu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndu krefjast staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Með hinum áfrýjaða dómi voru teknar til greina kröfur stefndu um að felld yrðu úr gildi veðréttindi sem þau veittu í fasteign sinni að Glæsivöllum 13 í Grindavík fyrir þremur lánum sem dóttir þeirra og tengdasonur tóku á tímabilinu mars 2003 til maí 2004 auk þess sem tekin var til greina krafa stefnda Sverris um að ógilt yrði sjálfskuldarábyrgð hans á láni sem dóttir hans tók í mars 2006.
Í málinu liggur fyrir að tvö fjármálafyrirtæki, sem áfrýjandi leiðir rétt sinn frá, sinntu ekki fortakslausri skyldu sinni samkvæmt 3. grein samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, sem þau voru aðilar að, til að meta greiðslugetu lántakenda við veitingu fyrrnefndra fjögurra lána. Áfrýjandi reisir málatilbúnað sinn á því að niðurstaða slíks greiðslumats hefði í engu tilviki verið forsenda þess að stefndu gengjust í ábyrgð fyrir dóttur sína og tengdason. Því til stuðnings tefldi hann í héraði meðal annars fram þeirri málsástæðu að stefndu hafi verið kunnugt um bága fjárhagsstöðu lántakendanna enda hafi umrædd lán verið tekin til að greiða upp eldri skuldir og vanskil. Fyrir Hæstarétti byggir áfrýjandi á hinn bóginn á því að ekki geti komið til þess að ógilda veðsetningu og ábyrgð vegna lánanna að því marki sem andvirði þeirra hafi farið til greiðslu á eldri skuldbindingum sem stefndu voru í ábyrgð fyrir. Þar sem þessi málsástæða var ekki höfð uppi með þessum hætti undir rekstri málsins í héraði fær hún ekki komist að fyrir Hæstarétti, sbr. 2. mgr. 163. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Að þessu gættu verður héraðsdómur staðfestur með vísan til forsendna hans.
Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Landsbankinn hf., greiði stefndu Sverri Þorgeirssyni og Birnu Rut Þorbjörnsdóttur, samtals 750.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. júlí 2015
Mál þetta, sem dómtekið var 3. júlí síðastliðinn, er höfðað 12. desember 2014.
Stefnendur eru Sverrir Þorgeirsson og Birna Rut Þorbjörnsdóttir, Glæsivöllum 13, Grindavík.
Stefndi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík.
Stefnendur gera eftirfarandi dómkröfur:
Í fyrsta lagi að felld verði úr gildi veðsetning sem stefnendur veittu í fasteign sinni að Glæsivöllum 13, Grindavík, fastanúmer 223-1464, á 4. veðrétti, nú á 3. veðrétti, með undirritun á skuldabréf númer 0121-74-424444, upphaflega að fjárhæð 4.000.000 króna, útgefið af Þórarni Brynjari Kristjánssyni til Sparisjóðsins í Keflavík 25. mars 2003.
Í öðru lagi að felld verði úr gildi veðsetning sem stefnendur veittu í fasteign sinni að Glæsivöllum 13, Grindavík, fastanúmer 223-1464, á 5. veðrétti, nú á 4. veðrétti, með undirritun á skuldabréf númer 0143-74-430201, upphaflega að fjárhæð 3.000.000 króna, útgefið af Sóleyju Sverrisdóttur til Landsbanka Íslands hf. 14. maí 2004.
Í þriðja lagi að felld verði úr gildi veðsetning sem stefnendur veittu í fasteign sinni að Glæsivöllum 13, Grindavík, fastanúmer 223-1464, á 6. veðrétti, nú á 5. veðrétti, með undirritun á skuldabréf númer 0121-74-425511, upphaflega að fjárhæð 800.000 króna, útgefið af Þórarni Brynjari Kristjánssyni til Sparisjóðsins í Keflavík 19. maí 2004.
Í fjórða lagi að ógilt verði sjálfskuldarábyrgð stefnenda á skuldabréfi númer 0143-74-431295, útgefnu 13. júlí 2008, upphaflega að fjárhæð 1.500.000 krónur, útgefið af Þórarni Brynjari Kristjánssyni til Landsbanka Íslands hf.
Í fimmta lagi að ógilt verði með dómi sjálfskuldarábyrgð stefnenda á skuldabréfi númer 0121-74-429918, útgefnu 25. mars 2009, upphaflega að fjárhæð 2.270.000 krónur, útgefnu af Þórarni Brynjari Kristjánssyni til Sparisjóðsins í Keflavík.
Stefnandinn Sverrir Þorgeirsson gerir svofellda dómkröfu:
Að ógilt verði sjálfskuldarábyrgð stefnanda á skuldabréfi númer 0143-74-431075, útgefnu 28. mars 2006, upphaflega að fjárhæð 750.000 krónur, útgefnu af Sóleyju Sverrisdóttur til Landsbanka Íslands hf.
Loks gera stefnendur kröfu um að stefndi greiði þeim málskostnað.
Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar.
I
Þann 29. september 2002 gaf dóttir stefnenda, Sóley Sverrisdóttir, út óverðtryggt skuldabréf númer 4424 til Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 900.000 krónur. Stefnendur gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir efndum skuldarinnar og staðfestu með undirritun sinni á lánsumsókn á útgáfudegi skuldabréfsins að hafa kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbankans um persónuábyrgðir. Með bréfi 3. janúar 2003 fengu stefnendur senda tilkynningu um vanskil á láninu. Um var að ræða greiðslu af láninu á gjalddaga 2. desember 2002. Þá fengu stefnendur sendar tilkynningar um vanskil á gjalddögunum 2. janúar, 2. febrúar og 2. mars 2003. Þann 8. apríl 2003 var gerð breyting á greiðslu-skilmálum bréfsins þar sem vanskilum lánsins var bætt við höfuðstól lánsins. Stefnendur rituðu undir skilmálabreytinguna sem sjálfskuldarábyrgðarmenn.
Þórarinn Brynjar Kristjánsson, tengdasonur stefnenda, gaf út verðtryggt skuldabréf númer 21991 til Landsbanka Íslands hf. 9. apríl 2003, upphaflega að fjárhæð 1.100.000 krónur. Stefnendur gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir láninu. Vanskil urðu á greiðslum lánsins og fengu stefnendur sendar tilkynningar um vanskilin með bréfi 3. nóvember 2003, 2. febrúar, 3. mars, 2. apríl og 3. maí 2004.
Þann 25. mars 2003 gaf Þórarinn Brynjar Kristjánsson út veðskuldabréf númer 0121-74-424444 til Sparisjóðsins í Keflavík upphaflega að fjárhæð 4.000.000 króna. Stefnendur gengust í ábyrgð fyrir láninu og var fasteign þeirra að Glæsivöllum 13 í Grindavík sett að veði til tryggingar láninu sem hvíldi á 4. veðrétti á eigninni. Gerðar voru breytingar á greiðsluskilmálum skuldabréfsins 18. maí 2004, 30. janúar og 22. ágúst 2006 og 25. mars 2009. Undirrituðu stefnendur allar skilmálabreytingarnar. Á þá síðastnefndu rituðu stefnendur undir svohljóðandi yfirlýsingu: „Ég undirritaður hef kynnt mér efni bréfs þessa og geri mér grein fyrir í hverju ábyrgð mín sem veðleyfisgjafa er fólgin og tel hana samrýmast greiðslugetu minni. Jafnframt hef ég kynnt mér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni gildandi samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.“
Þann 30. apríl 2004 gengust stefnendur í sjálfskuldarábyrgð fyrir Sóleyju Sverrisdóttur vegna skuldbindinga hennar á Visa-kreditkorti sem hún var með hjá Landsbankanum. Skrifuðu stefnendur undir sitt hvora ábyrgðaryfirlýsinguna að fjárhæð 200.000 krónur hvor.
Þann 14. maí 2004 gaf Sóley Sverrisdóttir út veðskuldabréf númer 0143-74-430201 til Landsbanka Íslands hf., upphaflega að fjárhæð 3.000.000 króna. Mun andvirði skuldabréfsins meðal annars hafa verið notað til þess að greiða upp skuldabréf númer 4424 og 21991. Fasteign stefnenda að Glæsivöllum 13 í Grindavík var sett að veði til tryggingar láninu sem hvíldi á 5. veðrétti á eigninni. Gerðar voru breytingar á greiðsluskilmálum skuldabréfsins 2. október 2006, 21. apríl 2009 og 10. maí 2011.
Þann 19. maí 2004 gaf Þórarinn Brynjar Kristjánsson út veðskuldabréf númer 0121-74-425511 til Sparisjóðsins í Keflavík, upphaflega að fjárhæð 800.000 krónur. Fasteign stefnenda að Glæsivöllum 13 var sett að veði til tryggingar láninu sem hvíldi á 6. veðrétti á eigninni. Gerðar voru breytingar á greiðsluskilmálum skuldabréfsins 30. janúar 2006, 22. ágúst 2006, 25. mars 2009 og 20. október 2010. Stefnandi Sverrir skrifaði undir síðastnefndu skilmálabreytinguna fyrir hönd skuldarans samkvæmt umboði frá honum.
Þann 10. janúar 2005 undirritaði stefnandi, Birna Rut Þorbjörnsdóttir, yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar Þórarins Brynjars á tékkareikningi hans hjá Landsbankanum númer 0143-26-1092 að fjárhæð 300.000 krónur. Stefnandi staðfesti að hún óskaði ekki eftir því að bankinn mæti greiðslugetu reikningseiganda. Þann 7. júní 2005 undirritaði Birna Rut yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar Sóleyjar Sverrisdóttur á tékkareikningi hennar hjá Landsbankanum númer 0143-26-2728 að fjárhæð 175.000 krónur. Stefnandi staðfesti að hún óskaði ekki eftir því að bankinn mæti greiðslugetu reikningseiganda.
Þann 28. mars 2006 gaf Sóley Sverrisdóttir út verðtryggt skuldabréf númer 0143-74-431075 til Landsbanka Íslands að fjárhæð 750.000 krónur. Stefnandi Sverrir tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á endurgreiðslu lánsins. Á skuldabréfinu er merkt við staðlaðan texta um að óskað sé eftir undanþágu frá mati á greiðslugetu greiðanda og staðfesti stefnandi Sverrir það með því að setja upphafsstafi sína aftan við textann. Skuldabréfinu var skilmálabreytt tvisvar sinnum þar sem vanskilum var bætt við höfuðstól bréfsins, 18. maí 2009 og 10. maí 2011.
Þann 10. júní 2008 undirritaði stefnandi Sverrir yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar Þórarins Brynjars á tékkareikningi hans hjá Landsbankanum númer 0143-26-1092 að fjárhæð 500.000 krónur. Stefnandi staðfesti að hann óskaði ekki eftir því að bankinn mæti greiðslugetu reikningseiganda.
Þann 13. júlí 2008 gaf Þórarinn Brynjar Kristjánsson út skuldabréf númer 0143-74-431295 til Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 1.500.000 krónur. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu tóku stefnendur á sig sjálfskuldarábyrgð á láninu með áritun á skuldabréfið. Á skuldabréfinu kemur fram að stefnendur óska eftir undanþágu frá mati á greiðslugetu greiðanda. Sótti Þórarinn um lánið sama dag og skuldabréfið var undirritað. Þá var niðurstaða lánamats einnig undirrituð af stefnendum og Þórarni Kristjánssyni. Þar segir meðal annars að ábyrgðarmönnum sé bent á að kynna sér stöðu vanskila. Gerð var breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfsins 10. maí 2011.
Þann 25. mars 2009 gáfu Þórarinn Brynjar Kristjánsson og Sóley Sverrisdóttir út skuldabréf númer 1109-74-429918 til Sparisjóðsins í Keflavík að fjárhæð 2.270.000 krónur. Til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu tóku stefnendur á sig sjálfskuldarábyrgð á láninu með áritun á skuldabréfið sjálft. Í fylgiskjali með skuldabréfinu sem ber yfirskriftina „Til ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga 1109-74-429918“ voru reitir þar sem ábyrgðamenn gátu merkt við hvort þeir óskuðu eftir því að greiðslugeta greiðanda yrði metin (já) eða (nei) og hvort þeir þeir hefðu séð greiðslumat. Stefnendur merktu ekki í neinn þessara reita en rituðu upphafsstafi sína á þar til gerða línu. Í skjalinu, undir yfirskriftinni „Niðurstaða greiðslumats“ hefur verið merkt við svohljóðandi staðlaðan texta: „Niðurstaða greiðslumats bendir til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar.“ Gerð var breyting á greiðsluskilmálum skuldabréfsins 20. október 2010.
Á árinu 2012 munu stefnendur hafa óskað eftir því við stefnda að ábyrgðir þeirra og veðsetningar yrðu felldar úr gildi. Með bréfi 26. júní 2012 hafnaði stefndi beiði stefnenda að því er varðaði lánin númer 0121-74-424444 og 0143-74-430201. Þann 2. júlí 2012 sendi stefnandi Birna Rut Þorbjörnsdóttir kvörtun til Úrskurðarnefndar um viðskipti fjármálafyrirtækja. Tók kvörtunin til ábyrgðar hennar vegna lána númer 424444, 430201, 4424, 431295, 425511 og 429918 og þess krafist að þær yrðu felldar úr gildi og veðsetning afmáð í kjölfarið. Með bréfi stefnda 13. ágúst 2012 til úrskurðarnefndarinnar var gerð sú krafa að kröfu stefnanda yrði hafnað.
Með úrskurði Úrskurðarnefndar um viðskipti fjármálafyrirtækja 4. janúar 2013 í málinu númer 118/2012 var kröfum stefnanda vegna skuldabréfa númer 425511, 431295 og 429918 vísað frá, en fallist á ógildingu veðsetningar fasteignar stefnenda með skuldabréfum 424444 og 430201. Rök nefndarinnar fyrir frávísun voru að stefnendur höfðu ekki á fyrri stigum borið kröfur er varðaði þær skuldbindingar undir stefnda. Því var þeim kröfum, með vísan til 5. gr. samþykkta fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki, vísað frá. Með bréfi 16. janúar 2013 tilkynnti stefndi að hann sætti sig ekki við niðurstöður úrskurðarnefndarinnar.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 9. október 2008 tók Nýi Landsbanki Íslands hf. við eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 22. apríl 2010 var eignum og skuldum Sparisjóðsins í Keflavík ráðstafað til Spkef sparisjóðs og með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 5. mars 2011 tók NBI hf. við rekstri, eignum og skuldbindingum Spkef sparisjóðs.
Stefndi sendi stefnendum sem ábyrgðarmönnum bréf 18. febrúar 2010, 1. janúar 2011, 1. janúar 2012, 5. janúar og 31. desember 2013 þar sem fram kemur yfirlit yfir ábyrgðir þeirra hjá bankanum. Var jafnframt upplýst um stöðu ábyrgðanna, það er ábyrgðarfjárhæð og vanskil.
II
Stefnendur kveða óumdeilt að lán Landsbanka Íslands hf., sem um sé deilt í máli þessu, hafi flust til stefnda með ákvörðun Fjármálaeftirlitins. Framangreind ákvörðun hafi verið tekin með heimild í 100. gr. a í lögum nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Sama eigi við um eignir og skuldir Sparisjóðs Keflavíkur sem ráðstafað hafi verið til Spkef sparisjóðs og síðar til stefnda, en stefndi hafi tekið yfir réttindi og skyldur Spkef með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins 5. mars 2011.
Stefnendur byggi á því að forverar stefnda hafi vegna aðildar sinnar að Samtökum banka og fjármálafyrirtækja verið bundnir af reglum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 og ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt samkomulaginu. Stefnendur byggi í öllum tilfellum á því að skuldarar á lánunum hafi ekki verið greiðslumetnir sem skyldi áður en ábyrgðir hafi verið veittar en ljóst sé að sú skylda hafi hvílt á forvera stefnda á þeim tíma að greiðslumeta skuldara á fullnægjandi hátt með vísan til framangreinds. Byggt sé á því að skylt hafi verið að meta greiðslugetu skuldara bæði við upphaflega lánveitingu og einnig við skilmálabreytingar sem áttu sér stað síðar.
Hvað varði skuldabréf númer 424444, útgefið 25. mars 2003, sé á því byggt að ekkert greiðslumat hafi farið fram á aðalskuldara og sé það óumdeilt. Vísað sé til þess að stefndi sé bundinn af efni fyrrgreinds samkomulags frá 1. nóvember 2001 og að forvera stefnda hafi borið að greiðslumeta aðalskuldara Þórarin. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins skal tryggt að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöður greiðslumats áður en hann gangist í ábyrgð. Bendi niðurstaða greiðslumats til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar, en ábyrgðarmaður óskar eftir því að lán verði veitt engu að síður, skal hann staðfesta það skriflega. Verði stefndi að bera hallann af því að hafa ekki greiðslumetið aðalskuldara Þórarin fyrir lánveitinguna og hvaða áhrif það hefði haft á ábyrgðarmenn til að veita ábyrgðina. Stefnendum hafi ekki verið kunnugt um fjárhagsstöðu skuldara og sé því hafnað að vanskil á láni sem Sóley Sverrisdóttir hafi tekið, númer 0143-74-4424, hafi áhrif á skyldur forvera stefnda. Þess megi geta að í mars 2003 hafi tveir gjalddagar á láni Sóleyjar verið í vanskilum. Rétt sé að taka fram að aðalskuldari og Sóley Sverrisdóttir hafi búið hjá stefnendum á árinu 2002 og allt til mánaðamóta janúar-febrúar 2003 og hafi verið flutt út áður en til lánveitingarinnar hafi verið stofnað. Á því sé byggt af hálfu stefnenda að gerðar skilmálabreytingar hafi ekki áhrif á skyldur stefnda en greiðslumat hafi heldur ekki verið framkvæmt við skilmálabreytingar lánanna. Tekið sé að öllu leyti undir niðurstöðu Úrskurðarnefndar um fjármálafyrirtæki að ógilda eigi veðsetningu fasteignar stefnenda með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936. Þá liggi ekki fyrir og því sé mótmælt að stefnendum hafi verið kunnugt um og fengið afhent upplýsingabækling forvera stefnda um ábyrgðir.
Varðandi skuldabréf númer 430201, útgefið 14. maí 2004, sé á því byggt að greiðslumat hafi ekki farið fram á aðalskuldara og sé það óumdeilt. Vísað sé til þess að stefndi sé bundinn af efni fyrrgreinds samkomulags frá 1. nóvember 2001 og að forvera stefnda hafi borið að greiðslumeta aðalskuldara Sóleyju Sverrisdóttur. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins skuli tryggt að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöður greiðslumats áður en hann gangist í ábyrgð. Bendi niðurstaða greiðslumats til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar, en ábyrgðarmaður óski eftir því að lán verði veitt engu að síður, skuli hann staðfesta það skriflega. Verði stefndi að bera hallann af því að hafa ekki greiðslumetið aðalskuldara Sóleyju fyrir lánveitinguna og hvaða áhrif það hefði haft á ábyrgðarmenn til að veita ábyrgðina. Stefnendum hafi ekki verið kunnugt um fjárhagsstöðu skuldara og því sé hafnað að vanskil á láni sem Sóley Sverrisdóttir hafi tekið, númer 0143-74-4424, hafi áhrif á skyldur forvera stefnda. Lán númer 4424 hafi verið greitt upp með láni þessu. Í maí 2004 hafi einn gjalddagi á láni Sóleyjar verið í vanskilum. Á fylgiskjali með lánveitingunni sé hvergi getið um greiðslumat, tekjur lántaka eða skuldir. Á því sé byggt af hálfu stefnenda að gerðar skilmálabreytingar hafi ekki áhrif á skyldur stefnda en greiðslumat hafi heldur ekki verið framkvæmt við skilmálabreytingarnar. Sé að öllu leyti tekið undir niðurstöðu Úrskurðarnefndar um fjármálafyrirtæki um að ógilda eigi veðsetningu fasteignar stefnenda með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Hvað varði skuldabréf númer 425511, útgefið 19. maí 2004, sé á því byggt að greiðslumat hafi ekki farið fram á aðalskuldara og sé það óumdeilt. Stefnendur vísi til þess að heildarskuldbindingar skuldara hafi verið yfir 1.000.000 króna þegar lánsveðið hafi verið veitt og því hafi borið að greiðslumeta skuldara þrátt fyrir að lánsfjárhæð hafi verið 800.000 krónur. Vísað sé til þess að stefndi sé bundinn af efni fyrrgreinds samkomulags frá 1. nóvember 2001 og að forvera stefnda hafi borið að greiðslumeta aðalskuldara Þórarin. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins skuli tryggt að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöður greiðslumats áður en hann gangist í ábyrgð. Bendi niðurstaða greiðslumats til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar, en ábyrgðarmaður óski eftir því að lán verði veitt engu að síður, skuli hann staðfesta það skriflega. Verði stefndi að bera hallann af því að hafa ekki greiðslumetið aðalskuldara Þórarin fyrir lánveitinguna og hvaða áhrif það hefði haft á ábyrgðarmenn að veita ábyrgðina. Stefnendum hafi ekki verið kunnugt um fjárhagsstöðu skuldara. Á því sé byggt af hálfu stefnenda að gerðar skilmálabreytingar hafi ekki haft áhrif á skyldur stefnda en greiðslumat hafi heldur ekki verið framkvæmt við skilmálabreytingarnar. Þá liggi ekki fyrir og sé því mótmælt að stefnendum hafi verið kunnugt um og fengið afhentan upplýsingabækling forvera stefnda um ábyrgðir.
Þann 13. júlí 2008 hafi skuldabréf númer 0143-74-431295 að fjárhæð 1.500.000 krónur verið gefið út af Þórarni Brynjari Kristjánssyni til Landsbanka Íslands hf., forvera stefnda. Stefndu hafi tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á láninu til tryggingar skilvísri og skaðlausri greiðslu með áritun á skuldabréfið sjálft. Fram komi á skuldabréfinu sjálfu að stefnendur hafi óskað eftir undanþágu frá mati á greiðslugetu greiðanda þó svo að það hafi verið óheimilt. Samhliða undirritun skuldabréfsins hafi verið gengið frá lánsumsókn en þá hafi legið fyrir niðurstaða greiðslumats 13. júlí 2008. Skuldabréfinu hafi verið skilmálabreytt 10. maí 2011. Stefnendur byggi á því að fyrrgreind lánsumsókn og greiðslumat sé haldið fjölmörgum annmörkum og ekki unnt að sjá hver niðurstaða þess hefði orðið ef réttar upplýsingar hefðu verið notaðar og samræmis gætt í tilgreiningu tekna annars vegar og greiðslubyrði og ætluðum framfærslukostnaði og föstum útgjöldum hins vegar. Byggt sé á því að það standi stefnda nær að bera hallann af þeirri óvissu hvort skuldarar hefðu staðist greiðslumat ef upplýsingar hefðu verið rétt tilgreindar, svo og því hvort stefnendur hefðu veitt veðheimildir og ábyrgðir ef réttilega hefði verið staðið að gerð greiðslumatsins í umrætt sinn. Vísað sé til þess að tilkynningar um vanskil Þórarins á öðrum lánum, áður en til lánveitingar samkvæmt skuldabréfi númer 431295 hafi verið stofnað, liggi ekki fyrir. Byggt sé á því að forveri stefnda hafi haldið upplýsingum frá stefnendum, meðal annars því sem fram komi í umsókn vegna lánsins. Starfsmaður bankans hafi útfyllt lánsumsóknina eftir á og það jafnvel eftir að stefnendur hafi undirritað umsóknina. Stefnendur hafi ritað undir 13. júlí 2008 en í umsókninni sé vísað til gagna frá 14. júlí sama ár. Þá séu tekjur og skuldir ekki tilgreindar á lánsumsókn og þær tekjur og skuldir sem tilgreindar séu í niðurstöðu greiðslumats eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum en stefnendur hafi komist að því löngu síðar. Á þeim tíma sem greiðslumatið hafi verið unnið hafi lántaki haft fyrir fjölskyldu að sjá sem saman stóð af honum sjálfum, sambýliskonu og barni þeirra, en annað barn þeirra hjóna kom í heiminn síðar sama ár eða í nóvember 2008. Því sé með öllu fráleitt að miða lánamat við 0 krónur á mánuði í rekstrarkostnað fasteigna en á þessum tíma hafi lántaki greitt 85.000 krónur á mánuði í leigugreiðslur. Miðað við að áætluð greiðslubyrði eldri lána standist þá sé ljóst að greiðslubyrði lántaka hafi verið verulega neikvæð við framkvæmd lánamatsins eða um 36.300 krónur og þá eigi eftir að gera ráð fyrir rekstrarkostnaði húsnæðis.
Tilgreind vanskil 3. júlí 2008 samkvæmt lánamati séu 10.000 krónur og eignastaða sögð neikvæð um 1.985.000 krónur en greiðslugeta til staðar. Ljóst megi vera að forveri stefnda hafi með engu móti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt samkomulaginu frá 1. nóvember 2001. Ef niðurstaða greiðslumats bendir til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar, en ábyrgðarmaður óski engu að síður eftir því að lán verði veitt engu að síður, skuli hann staðfesta það skriflega. Það hafi ekki verið gert í þessu tilfelli. Stefnendur byggi á því að stefndi verði að bera hallann af því að greiðslumat hafi ekki réttilega farið fram og þá hver hefði verið niðurstaða þess ef réttum upplýsingum hefði verið komið á framfæri við ábyrgðarmenn og hvort stefnendur hefðu eftir sem áður gengist í ábyrgð fyrir Þórarin eftir að hafa kynnt sér rétt mat. Stefnendur byggi á því að þeim hafi ekki verið kunnugt um fjárhagsstöðu Þórarins en ekkert komi fram í lánamati að ábyrgðarmenn hafi heimild til og geti kynnt sér þau gögn sem liggja að baki matinu. Á því sé byggt af hálfu stefnenda að gerð skilmálabreyting hafi ekki áhrif á skyldur stefnda en greiðslumat hafi heldur ekki verið framkvæmt við skilmálabreytinguna.
Hvað varði skuldabréf númer 1109-74-429918 að fjárhæð 2.270.000 krónur sé byggt á því að greiðslumat sem framkvæmt hafi verið af hálfu forvera stefnda hafi í engu verið í samræmi við þær kröfur sem gera verði til fjármálastofnana. Í lánsumsókn/greiðslumati sé ekki vísað til neinna gagna fyrir greiðslumat, launaseðla, skattframtöl, greiðsluseðla eða annað. Þá sé ekki tilgreind hjúskaparstaða eða fjöldi barna og engin tilgreining á föstum útgjöldum eða framfærslukostnaði. Með vísan til þessa megi ljóst vera að greiðslumat hafi ekki verið framkvæmt í umrætt sinn. Skyldur fjármálafyrirtækja samkvæmt samkomulagi 1. nóvember 2001 hafi að meginstefnu verið að greiðslumeta einstaklinga en ekki eingöngu að kynna niðurstöður greiðslumats. Jafnframt hafi forveri stefnda brotið ákvæði samkomulagsins með því að láta ekki ábyrgðarmenn að baki veðskuldabréfinu staðfesta það skriflega að þeir vildu gangast í ábyrgð þrátt fyrir að greiðslumat benti til þess að greiðandi geti ekki staðið við skuldbindingar sínar. Slík staðfesting hafi þó verið gerð við síðustu skilmálabreytingu veðskuldabréfsins í október 2010. Ljóst megi vera að allar forsendur hafi verið brostnar við hrun íslenska fjármálakerfisins haustið 2008 og ljóst að stefnendur hafi verið að reyna að bjarga því sem bjargað varð með skuldbindingum sínum eftir það tímamark, hvort sem um hafi verið að ræða nýtt lán eða skilmálabreytingar, enda byggi stefnendur á því að athafnir þeirra á þeim tíma hafi ekki áhrif á skyldur forvera stefnda fyrir það tímamark.
Þann 28. mars 2006 hafi skuldabréf númer 0143-74-431075 að fjárhæð 750.000 krónur verið gefið út af Sóleyju Sverrisdóttur til Landsbanka Íslands hf. Hafi stefnandi Sverrir Þorgeirsson tekið á sig sjálfskuldarábyrgð á láninu. Fram komi á skuldabréfinu að stefnandi hafi óskað eftir undanþágu frá mati á greiðslugetu greiðanda þó svo að það hafi verið óheimilt. Skuldabréfinu hafi verið skilmálabreytt 10. maí 2011. Sé á því byggt að greiðslumat hafi ekki farið fram á aðalskuldara og sé það óumdeilt. Stefnendur vísi til þess að heildarskuldbindingar skuldara hafi verið yfir 1.000.000 króna þegar ábyrgðin hafi verið veitt og því hafi borið að greiðslumeta skuldara þrátt fyrir að lánsfjárhæð hafi verið 750.000 krónur. Vísað sé til þess að stefndi sé bundinn af efni fyrrgreinds samkomulags 1. nóvember 2001 og að forvera stefnda hafi borið að greiðslumeta aðalskuldara Sóleyju. Samkvæmt 3. mgr. 4. gr. samkomulagsins skuli tryggt að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöður greiðslumats áður en hann gangist í ábyrgð. Bendi niðurstaða greiðslumats til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar, en ábyrgðarmaður óski eftir því að lán verði engu að síður veitt, skuli hann staðfesta það skriflega. Verði stefndi að bera hallann af því að hafa ekki greiðslumetið aðalskuldara Sóleyju fyrir lánveitinguna. Stefnendum hafi ekki verið kunnugt um fjárhagsstöðu skuldara. Á því sé byggt af hálfu stefnenda að gerðar skilmálabreytingar hafi ekki áhrif á skyldur stefnda en greiðslumat hafi heldur ekki verið framkvæmt við skilmálabreytingarnar.
Með vísan til framanritaðs séu sjálfskuldarábyrgðir og veðsetningar stefnenda þar af leiðandi ógildanlegar með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og beri að víkja til hliðar. Í nefndu lagaákvæði segi að samningi megi víkja til hliðar í heild eða að hluta, eða breyta, ef það yrði talið ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskiptavenju að bera samning fyrir sig. Þá segir í 2. mgr. 36. gr. samningalaga að við mat samkvæmt 1. mgr. skuli litið til efnis samnings, stöðu samningsaðila, atvika við samningsgerðina og atvika sem síðar komu til. Stefnendur haldi því fram að það geti ekki talist til góðrar viðskiptavenju í skilningi 36. gr. laganna að stefndi, sem ekki hafi fylgt eigin reglum, haldi uppi kröfum á hendur stefnendum á grundvelli fyrrgreindra sjálfskuldarábyrgðar og veðsetninga. Þá verði að gera enn ríkari kröfur en ella til stefnda um að starfa í samræmi við góða og eðlilega viðskiptahætti í viðskiptum sínum við stefnendur, sbr. til að mynda 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Einnig verði að horfa til þess að stefndi hafi í krafti stöðu sinnar og sérfræðiþekkingar sem fjármálafyrirtæki yfirburðastöðu gagnvart stefnendum sem hafi ekki sérstaka þekkingu á þessu sviði. Þetta leiði allt til þess að með vísan til 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 beri að ógilda sjálfskuldarábyrgðirnar og veðsetningarnar.
Þá vísi stefnendur til sjónarmiða samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, einkum 1. mgr. 4. gr., þar sem fram komi að lánveitandi skuli meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán þar sem ábyrgðarmaður gangist í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka. Byggi stefnendur á því að lög um ábyrgðarmenn eigi við um síðar tilkomnar skilmálabreytingar sem gerðar hafi verið eftir gildistöku laganna 4. apríl 2009. Þá sé á því byggt, sérstaklega er varði fyrstu tvær dómkröfurnar, að stefndi hafi skuldbundið sig samkvæmt Samþykktum fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki til þess að fara að úrskurðum nefndarinnar og það innan fjögurra vikna frá útsendingu úrskurðarins, sbr. 11. gr.
Stefnendur kveðast vísa til þess að fjárhagur aðalskuldara lánanna hafi verið þeim hulinn og þau ekki í aðstöðu til að skoða eða kynna sér fjárhag þeirra sjálfstætt. Þrátt fyrir að aðalskuldarar lánanna hafi búið tímabundið á heimili stefnenda eða á árinu 2002 og til mánaðamóta janúar og febrúar 2003, enda dóttir þeirra og tengdasonur, þá hafi stefnendur ekki haft nein tækifæri til að kanna með fjárhagsstöðu þeirra, enda fullorðið fólk á þeim tíma og leysi það ekki fjármálafyrirtæki undan ábyrgð sinni. Stefnda hafi borið að greiðslumeta og kynna greiðslumatið fyrir stefnendum eða gefa þeim kost á að kynna sér það en það var ekki gert. Það leysi stefnda ekki undan ábyrgð þó svo að í einhverjum tilfellum hafi verið merkt við reit þar sem þess sé óskað að greiðslugeta skuldara verði ekki metin. Ekki sé vitað hver hafi merkt við það, enda hafi það engin áhrif sökum skilyrðislausrar skyldu stefnda.
Þá sé loks á því byggt að í þeim tilfellum þar sem upphafleg lánsfjárhæð nái ekki 1.000.000 króna hafi verið um það að ræða að heildarskuldbindingar aðalskuldara hafi verið yfir þeirri fjárhæð þegar ábyrgðir eða lánsveð voru veitt og heildarábyrgðir og lánsveð stefnenda yfir þeirri fjárhæð sem getið er um í 3. gr. samkomulagsins.
Hvað lagarök varðar vísa stefnendur til samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Jafnframt vísa stefnendur til almennra meginreglna samninga-, kröfu- og veðréttar. Um varnarþing er meðal annars vísað til samningsvarnarþings, sbr. 3. mgr. 42. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Um samaðild til sóknar er vísað til 18. og 19. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um málskostnað styðst við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, einkum 129. og 130. gr. Þar sem stefnendur eru ekki virðisaukaskattsskyldir krefjast þeir þess að fá skattinn dæmdan úr hendi stefnda samkvæmt lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
III
Stefndi kveðst krefjast sýknu á þeim grundvelli að skuldbinding stefnenda samkvæmt umdeildum ábyrgðum samkvæmt skuldabréfum nr. 424444, 430201, 425511, 431295, 429918 og 431075 sé bindandi fyrir þau og engin skilyrði séu til þess að ógilda ábyrgðirnar á grundvelli 36. gr. laga nr. 7/1936 eða af öðrum ástæðum. Stefndi telji að Sparisjóðurinn í Keflavík og Landsbanki Íslands hafi í öllum atriðum farið að ákvæðum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Öll sönnunarbyrði fyrir því að um ógilda ábyrgðarskuldbindingar sé að ræða hvíli á stefnendum og hafi þau ekki sýnt fram á með málatilbúnaði sínum að skilyrði til ógildingar samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936 séu uppfyllt. Skuldbinding stefnenda samkvæmt skuldabréfunum feli í sér bindandi loforð og samning um að eign stefnenda, Glæsivellir 13 í Grindavík, eða persónuleg ábyrgð stefnenda standi til tryggingar á skuldum lántaka komi til greiðslufalls á lánunum.
Stefndi kveðst telja að samkomulag um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sé samantekt verklagsreglna sem settar hafi verið til að draga úr vægi ábyrgðarskuldbindinga við lánveitingar. Samkomulagið hafi ekki lagagildi eða feli í sér ófrávíkjanlegar formreglur sem sjálfkrafa hafi þær afleiðingar að ógilda beri skuldbindingu ábyrgðarmanns þó að ákvæðum þess hafi ekki verið fylgt til hlítar. Telji stefndi að heildarmat á aðstæðum þurfi að fara fram. Nauðsynlegt sé að meta allar aðstæður við lánveitinguna, svo sem samning aðila, aðkomu stefnenda að lántökum dóttur sinnar Sóleyjar og tengdasonar, Þórarins Brynjars, hjá Sparisjóðnum í Keflavík og hjá Landsbanka Íslands hf. auk annarra atriða sem varpað geti ljósi á það hvort ógilda beri skuldbindingu stefnenda í samræmi við 36. gr. laga nr. 7/1936. Þurfi stefnendur að sýna fram á að það sé ósanngjarnt eða stríði gegn góðri viðskiptavenju fyrir stefnda að bera umdeildar skuldbindingar stefnenda fyrir sig.
Stefnendur hafi undirritað skuldabréf númer 424444 sem ábyrgðarmenn 25. mars 2003. Með undirritun sinni hafi þau sett fasteign sína að Glæsivöllum 13 sem tryggingu fyrir láni tengdasonar síns að fjárhæð 4.000.000 króna. Sömu vottar séu að undirritun lántaka og maka hans og stefnenda og sé ljóst að allir þessir aðilar hafi undirritað bréfið á sama tíma. Áður hafi stefnendur gengist í sjálfskuldarábyrgð fyrir dóttur sína vegna skuldabréfs númer 4424, sem hún hafi gefið út 29. september 2002 til Landsbanka Íslands hf. Það lán hafi verið tekið til þess að greiða vanskil Sóleyjar hjá S24, greiða upp víxil í Íslandsbanka og skuldabréf hjá Landsbankanum. Á umsókn með láninu hafi stefnendur staðfest að hafa kynnt sér upplýsingabækling Landsbankans um persónuábyrgðir. Hafi stefnendur því þekkt efni samkomulagsins um að framkvæma ætti mat á greiðslugetu lántakanda ef lánsfjárhæðin væri hærri en 1.000.000 króna. Í bæklingnum sé ábyrgðarmönnum einnig bent sérstaklega á að kynna sér fjárhagsstöðu lántakandans. Hafi stefnendur ekki kynnt sér efni upplýsingabæklingsins þrátt fyrir að hafa staðfest með undirritun sinni að hafa gert það þá sé sú vanræksla alfarið á ábyrgð þeirra. Þegar stefnendur hafi undirritað skuldabréf númer 424444 höfðu þau fengið margar tilkynningar frá Landsbankanum um vanskil á skuldabréfi númer 4424 og vitað að lánið hafi verið tekið til þess að greiða vanskil Sóleyjar á öðrum lánum. Fram komi í stefnu að aðeins tveir gjalddagar hafi verið í vanskilum þegar stefnendur hafi undirritað skuldabréfið en það sé ekki rétt, fjórir gjalddagar hafi verið í vanskilum. Þrátt fyrir vanskilin hafi stefnendur engan reka gert að því að afla sér upplýsinga um fjárhagslega stöðu lántaka og maka hans og bendi það til þess að fjárhagsleg geta lántaka og maka hans hafi ekki verið ákvörðunarástæða fyrir því að þau tókust á hendur ábyrgðina. Fjárhæð láns númer 4424 hafi verið 950.000 krónur og gátu stefnendur því undanskilið Landsbanka Íslands hf. frá því að framkvæma greiðslumat við lántökuna.
Þegar stefnendur hafi gengist í sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfum númer 4424, 21991 og 424444 fyrir dóttur sína og tengdason hafi þau búið heima hjá stefnendum, en fram komi á skuldabréfunum að Glæsivellir 13 sé lögheimili Sóleyjar og Þórarins Brynjars. Hafi stefnendur á þessum tíma því verið upplýstir um fjárhagslega stöðu Þórarins Brynjars þegar þau hafi gengist í sjálfskuldarábyrgðina og veitt veð í fasteign sinni. Hafi stefnendur gert sér grein fyrir því að lántakarnir hafi verið í greiðsluerfiðleikum og myndu væntanlega ekki standast greiðslumat. Tilgangur samkomulagsins sé að ábyrgðarmenn taki upplýsta ákvörðun um að taka að sér ábyrgðina byggða á mati á greiðslugetu skuldara áður en skrifað sé undir skuldaskjöl. Í ljósi þess sem stefnendur vissu eða máttu vita um fjárhagsstöðu lántakenda var jákvæð niðurstaða greiðslumats ekki ákvörðunarástæða fyrir stefnendur til að gangast í ábyrgð fyrir skuldabréfi númer 424444. Bréfinu hafi verið skilmálabreytt fjórum sinnum að beiðni skuldara þar sem vanskilum var bætt við höfuðstól. Stefnendur hafi skrifað undir framangreindar skilmálabreytingar án þess að gera athugasemdir við ábyrgðir sínar, meintan skort á greiðslumati eða öðru sem þau hafi talið að leitt gæti til þess að ábyrgð þeirra væri niður fallin. Með skilmálabreytingu 25. mars 2009 hafi stefnendur jafnframt lýst því yfir að þau gerðu sér grein fyrir í hverju ábyrgð þeirra sem veðleyfisgjafa væri fólgin og teldu hana samrýmast greiðslugetu sinni. Jafnframt hefðu þau kynnt sér upplýsingabækling Sparisjóðsins um ábyrgðir og efni gildandi samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Bendi þessi undirritun þeirra til þess að þau hafi vitað að dóttir þeirra og tengdasonur væru í fjárhagsvandræðum en að það hafi ekki haft nein áhrif á ákvörðun þeirra að gangast í ábyrgð fyrir skuldbindingum þeirra.
Stefnendur hafi undirritað veðskuldabréf númer 430201 14. maí 2004 og samþykkt að veita dóttur sinni veð í fasteign sinni fyrir fjárhæð lánsins, 3.000.000 króna. Kveðst stefndi vísa til þess sem fram komi í umfjöllun um lán 424444 um vitneskju stefnenda um fjárhag lántakanda. Að auki hafi stefnendur fengið sendar tilkynningar vegna vanskila á láni númer 21991. Einnig bendi stefndi á að stefnendur hafi undirritað ábyrgð á Visa-kreditkorti fyrir dóttur sína Sóleyju 30. apríl 2004 að fjárhæð 200.000 krónur. Sex dögum áður en stefnendur hafi undirritað skuldabréfið hafi þau undirritað skilmálabreytingu á láni númer 4424, þar sem vanskilum lánsins hafi verið bætt við höfuðstól þess. Stefnendur hafi því verið meðvituð um fjárhagserfiðleika Sóleyjar og Þórarins Brynjars þegar þau hafi tekið ákvörðun um að lána þeim veð í eign sinni í annað sinn. Stefnandi Sverrir hafi undirritað lánsumsókn með láninu þar sem hann staðfesti að hafa kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbankans um persónuábyrgðir. Þá hafi Sverrir einnig merkt í reit þar sem hann hafi fallið frá ósk um að Landsbankinn framkvæmdi greiðslumat á lántakandanum. Stefnendur hafi því vitað að gera ætti greiðslumat en þau hafi fallið frá því þar sem þau hafi vitað um fjárhagserfiðleika lántaka og maka hans. Af framangreindu sé ljóst að mat á greiðslugetu hafi ekki verið ákvörðunarástæða fyrir stefnendur til að gangast í ábyrgð á bréfinu.
Skuldabréfi númer 430201 hafi verið skilmálabreytt þrisvar sinnum að beiðni skuldara þar sem vanskilum hafi verið bætt við höfuðstól. Stefnendur hafi skrifað undir framangreindar skilmálabreytingar án þess að gera athugasemdir við ábyrgðir sínar, meintan skort á greiðslumati eða öðru sem þau hafi talið að leitt gæti til þess að ábyrgð þeirra væri niður fallin.
Þann 19. maí 2004 undirrituðu stefnendur veðskuldabréf númer 425511 og veittu veð í fasteign sinni fyrir fjárhæð lánsins, 800.000 krónum. Þegar stefnendur hafi undirritað lánið hafi þau gengist fimm sinnum áður í ábyrgðarskuldbindingar, ýmist fyrir dóttur sína eða tengdason og síðustu ábyrgðina, vegna láns númer 430201, hafi þau undirritað fimm dögum áður. Þá hafi stefnendur undirritað tvær skilmálabreytingar vegna áður útgefinna ábyrgða, það er 8. apríl 2004 vegna láns númer 4424 og 18. apríl 2004 vegna láns númer 424444. Með vísan til þessa, auk þess sem áður hefur komið fram í umfjöllun um lán númer 424444 og 430201, telji stefndi alveg ljóst að stefnendum hafi verið fullkunnugt um greiðsluvanda Sóleyjar og Þórarins Brynjars en samt sem áður hafi þau haldið áfram að gangast í sjálfskuldarábyrgðir fyrir þau. Telji stefndi það sanna að jákvætt greiðslumat hafi ekki verið ákvörðunarástæða fyrir stefnendur til að takast á hendur þessar ábyrgðir.
Veðskuldabréfinu hafi verið skilmálabreytt fjórum sinnum að beiðni skuldara þar sem vanskilum hafi verið bætt við höfuðstólinn. Stefnendur hafi ritað undir framangreindar skilmálabreytingar án þess að gera athugasemdir við ábyrgðir sínar, meintan skort á greiðslumati eða öðru sem þau hafi talið að leitt gæti til þess að ábyrgð þeirra væri niður fallin. Samkvæmt skilmálabreytingu 25. mars 2009 hafi stefnendur jafnframt lýst því yfir að þau gerðu sér grein fyrir í hverju ábyrgð þeirra sem veðleyfisgjafa væri fólgin og teldu hana samrýmast greiðslugetu sinni. Jafnframt hefðu þau kynnt sér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni gildandi samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Samkvæmt skilmálabreytingu 20. október 2010 rituðu stefnendur undir svohljóðandi yfirlýsingu: „Ég undirritaður hef kynnt mér efni skjals þessa auk upphaflegs skuldaskjals og geri mér grein fyrir í hverju ábyrgð mín sem eiganda hinnar veðsettu eignar er fólgin. Ef undirritaður er ekki skuldari og veðsetningin heyrir undir lög um ábyrgðarmenn, nr. 32/2009, samþykki ég efni bréfs þessa með tilvísun til viðfests samnings um lánsveð.“ Stefndi telji að stefnendur séu bundnir af öllum þeim skilyrðum sem þau undirriti í skilmálabreytingum við öll lán sem um sé deilt í málinu og mótmæli stefndi þeirri málsástæðu stefnenda að undirritun undir skilmálabreytingar lánanna hafi engin áhrif á réttarstöðu stefnenda. Stefnendur séu bundnir við þær yfirlýsingar sem þau gáfu við undirritun hverrar skilmálabreytingar.
Þann 28. mars 2006 hafi stefnandinn Sverrir tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfi númer 431075 útgefnu af Sóleyju til Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 750.000 krónur. Í 13. tölulið bréfsins komi fram að með undirritun sinni á bréfið staðfesti sjálfskuldarábyrgðaraðilar að þeir hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings bankans um persónuábyrgðir og veðsetningar þriðja aðila, en Landsbankinn sé aðili að samkomulagi fjármálafyrirtækja, stjórnvalda og Neytendasamtakanna um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Þegar stefnandinn Sverrir hafi undirritað lánið hafði hann átta sinnum áður tekist á hendur ábyrgð á láni dóttur sinnar eða tengdasonar. Þá hafi hann undirritað þrjár skilmálabreytingar vegna áður útgefinna ábyrgða, það er 8. apríl 2004 vegna láns númer 4424, 18. apríl 2004 vegna láns númer 424444 og 30. janúar 2006 vegna láns númer 425511. Með vísan til þessa og allra þeirra tilkynninga sem stefnendur höfðu móttekið vegna vanskila Sóleyjar og Þórarins Brynjars á lánum sínum telur stefndi alveg ljóst að stefnandanum Sverri hafi verið fullkunnugt um greiðsluvanda lántaka. Þess vegna hafi hann merkt við reit á skuldabréfinu þar sem hann hafi fallið frá ósk um að Landsbankinn gerði greiðslumat á greiðanda lánsins. Stefnandinn Sverrir hafi einnig undirritað lánsumsókn með láninu og staðfesti þar að hafa kynnt sér upplýsingabækling Landsbankans um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila auk samkomulags um sama efni sem fjármálastofnanir eigi aðild að. Einnig hafi hann merkt í reit þar sem fallið sé frá ósk um að bankinn mæti greiðslugetu greiðanda. Skuldabréfinu hafi verið skilmálabreytt tvisvar sinnum að beiðni skuldara þar sem vanskilum hafi verið bætt við höfuðstól og hafi stefnandinn Sverrir skrifað undir framangreindar skilmálabreytingar án þess að gera athugasemdir við ábyrgðir sínar, meintan skort á greiðslumati eða öðru sem hann hafi talið að leitt gæti til þess að ábyrgð hans væri niður fallin.
Þann 13. júlí 2008 hafi stefnendur tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfi númer 431295, útgefnu af Þórarni Brynjari til Landsbanka Íslands hf. að fjárhæð 1.500.000 krónur. Í 5. tölulið bréfsins komi fram að ábyrgð sjálfskuldarábyrgðaraðila gildi jafnt þótt greiðslufrestur verði veittur á láninu einu sinni eða oftar, uns skuldin sé að fullu greidd. Í 13. tölulið komi fram að með undirritun sinni á bréfið staðfesti sjálfskuldarábyrgðaraðilar að þeir hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbankans um persónuábyrgðir og veðsetningar þriðja aðila, en bankinn sé aðili að samkomulagi fjármálafyrirtækja, stjórnvalda og Neytendasamtakanna um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga. Með undirritun á lánsumsóknina hafi stefnendur staðfest að hafa kynnt sér efni bæklings um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila, auk samkomulags um sama efni sem fjármálastofnanir eigi aðild að. Þegar stefnendur hafi undirritað lánið hafi þau gengist níu sinnum áður í ábyrgðarskuldbindingar, ýmist fyrir dóttur sína eða tengdason. Þá hafi þau undirritað fjórar skilmálabreytingar vegna áður útgefinna ábyrgða, það er 8. apríl 2004 vegna láns númer 4424, 18. apríl 2004 og 22. júní 2006 vegna láns númer 424444 og 30. janúar 2006 vegna láns númer 425511. Þegar stefnendur hafi undirritað skuldabréfið hafi þau einnig fengið tilkynningar um vanskil á láni númer 431075 en þau hafi undirritað það skuldabréf aðeins þremur mánuðum áður.
Með undirritun sinni á bréfið hafi stefnendur staðfest að þau féllu frá ósk um greiðslumat á greiðanda lánsins. Það hafi þau gert þrátt fyrir að hafa staðfest að hafa kynnt sér upplýsingabækling Landsbankans um persónuábyrgðir og þar með að bankanum hafi borið að greiðslumeta lántakann. Þetta bendi til þess að jákvætt greiðslumat hafi ekki verið ákvörðunarástæða fyrir stefnendur til þess að gangast í ábyrgðina.
Stefnendur haldi því fram að lánsumsóknin sé haldin fjölmörgum annmörkum þar sem meðal annars tekjur og skuldir lántaka séu ekki tilgreindar. Þessu hafni stefndi og bendi á að þessar upplýsingar séu aldrei skráðar í lánsumsókn heldur komi þær fram í niðurstöðum greiðslumatsins. Varðandi undirritanir á lánsumsóknina vilji stefndi taka fram að framkvæmdin sé sú að lántaki og maki hans fylli út umsóknina ásamt ábyrgðaraðilum. Þau hafi undirritað umsóknina 13. júlí 2008 og skili henni til bankans þann dag. Í síðasta hluta umsóknarinnar sé reitur sem sé eingöngu fylltur út af starfsmanni bankans og þar komi fram grunnupplýsingar um skilyrði lánsins, það er fjölda gjalddaga, lengd lánstímans, hvort lánið sé með jöfnum afborgunum eða jöfnum greiðslum, hvernig lánið sé tryggt, hvaða reikning eigi að skuldfæra fyrir afborgunum og hvernig eigi að ráðstafa láninu. Fram komi að lántaki óski eftir því að andvirði lánsins verði notað til þess að greiða heilmildir á tékkareikningum hjá Landsbankanum og einnig hjá Glitni. Það séu engar fjárhæðir tilgreindar í umsókninni og því ekki miðað við stöðu lánsins 14. júlí eins og stefnendur haldi fram. Útibússtjóri undirriti síðan umsóknina og staðfesti að lánið hafi verið veitt. Dagsetning undirritunar hans sé óljós þar sem upphaflega hafi verið skrifað 13. júlí en síðan hafi verið skrifað ofan í dagsetninguna og 13 breytt í 14. Það sé mögulegt að útibússtjórinn hafi ekki undirritað lánsumsóknina fyrr en 14. júlí en það breyti engu því að þann 13. júlí hafi lánsumsóknin verið samþykkt, skuldabréfið gefið út og undirritað. Skuldabréfið hafi verið útbúið í samræmi við þær upplýsingar sem fram komi á lánsumsókn.
Þrátt fyrir ósk stefnenda um að Landsbankinn þyrfti ekki að gera greiðslumat hafi það engu að síður verið gert. Niðurstöður greiðslumatsins hafi verið jákvæðar, það er lántakinn hafi verið talinn geta staðið við greiðslur af láninu eftir að búið hafi verið að draga frá tekjum hans framfærslukostnað og afborganir af öðrum lánum. Stefnendur haldi því fram að greiðslumatið sé rangt en því mótmæli stefndi. Stefndi bendi á að greiðslumat sé uppreiknuð staða á tekjum og útgjöldum og þannig sé fundið út hvað lántaki geti greitt af háum lánum. Staða lántaka geti breyst frá einum tíma til annars og byggi stefndi á því að launatölur sem komu fram í matinu hafi verið réttar á þeim tíma. Stefndi bendi einnig á að sambúðarkona lántaka hafi haft tekjur en ekki hafi verið tekið tillit til þeirra í greiðslumatinu en eðlilegt sé að hluti þeirra komi til greiðslu á framfærslukostnaði. Stefndi byggi á því að framfærslukostnaður sem fram komi í greiðslumati sé í samræmi við framfærslukostnað Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna. Sá kostnaður sem lagður sé til grundvallar í greiðslumatinu byggður á upplýsingum frá lántaka og maka hans og sé gerður fyrirvari í greiðslumatinu vegna þess. Einnig sé sérstakur áskilnaður um að ábyrgðarmenn kynni sér stöðu vanskila.
Sama dag og stefnendur hafi undirritað skuldabréfið hafi þau ásamt lántaka skrifað undir niðurstöður matsins. Samkvæmt skjalinu hafi stefnendur ritað undir eftirfarandi yfirlýsingu: „Framangreindar upplýsingar um skuldir og fjárhagsstöðu greiðanda eru að hluta til frá honum sjálfum komnar. Að því leyti eru forsendur mats á greiðslugetu hans og niðurstöður/ályktanir dregnar af þeim upplýsingum á hans ábyrgð. Þær eru því án ábyrgðar fyrir Landsbanka Íslands hf.“ Þá hafi stefnendur staðfest að hafa fengið, kynnt sér og skilið matið á greiðslugetu greiðanda og samþykkt það sem fullnægjandi fyrir sig. Þau hafi einnig staðfest að hafa kynnt sér upplýsingabækling Landsbankans um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila. Stefnendur hafi því haft alla möguleika til þess að kynna sér öll gögn að baki greiðslumatinu og hafi sérstaklega verið skorað á þau að gera það til að þau skildu niðurstöðu matsins. Þau hafi enda staðfest með undirritun sinni að þau skildu niðurstöðu matsins og hafi sjálf tekið þá ákvörðun að kynna sér ekki gögnin að baki matinu. Beri þau sjálf ábyrgð á þeirri ákvörðun sinni. Skuldabréfinu hafi verið skilmálabreytt einu sinni að beiðni skuldara þar sem vanskilum hafi verið bætt við höfuðstól. Stefnendur hafi skrifað undir framangreinda skilmálabreytingu án þess að gera athugasemdir við ábyrgð sína, meintan skort á greiðslumati eða öðru sem þau töldu að leitt gæti til þess að ábyrgð þeirra væri niður fallin.
Þann 25. mars 2009 hafi stefnendur tekist á hendur sjálfskuldarábyrgð á skuldabréfi númer 429918, útgefnu af Þórarni Brynjari til Sparisjóðsins í Keflavík að fjárhæð 2.270.000 krónur. Þegar stefnendur hafi undirritað lánið höfðu þau gengist ellefu sinnum áður í ábyrgðarskuldbindingar, ýmist fyrir dóttur sína eða tengdason. Þá hafi þau undirritað níu skilmálabreytingar vegna áður útgefinna ábyrgða og fengið fjölda tilkynninga um vanskil þeirra. Samkvæmt skuldabréfinu hafi stefnendur ritað undir svohljóðandi yfirlýsingu: „Ég undirritaður hef kynnt mér efni bréfs þessa og geri mér grein fyrir í hverju ábyrgð mín er fólgin og tel hana samrýmast greiðslugetu minni. Jafnframt hef ég kynnt mér upplýsingabækling um ábyrgðir og efni gildandi samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.“ Stefnendur hafi einnig sama dag undirritað skjal sem ber fyrirsögnina Lánsumsókn/greiðslumat. Þar staðfesti þau að hafa fengið og kynnt sér bækling sparisjóðanna um sjálfskuldarábyrgðir. Í V. kafla skjalsins sem beri fyrirsögnina niðurstaða greiðslumats komi fram að greiðslumatið bendi til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar. Einnig komi fram að lántaki heimili að ábyrgðarmönnum verði veittar upplýsingar um niðurstöðu könnunar á greiðslugetu og að ábyrgðarmenn kynni sér þau gögn sem greiðslumatið er byggt á. Sparisjóðurinn í Keflavík hafi gert greiðslumat á lántaka. Það hafi verið neikvætt og gefið til kynna að lántakandi gæti ekki efnt skuldbindingar sínar miðað við þáverandi fjárhagsstöðu. Á greiðslumatinu hafi jafnframt verið tekið fram að meira en helmingi lánsupphæðar yrði varið til greiðslu á skuldum lántakanda hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Þrátt fyrir neikvætt greiðslumat hafi stefnendur staðfest með undirritun sinni á það að þau óskuðu samt sem áður eftir að gangast í sjálfskuldarábyrgðina. Sparisjóðurinn hafi gert sitt hvorn samninginn um sjálfskuldarábyrgð við stefnendur. Í þeim samningi hafi stefnendur staðfest að hafa kynnt sér skilmála samningsins og niðurstöðu greiðslumats og að þau samþykktu ábyrgð sína og skilmála hennar og skilmála skuldbindingar skuldara. Jafnframt hafi þau staðfest að þeim hafi verið afhentur fræðslubæklingur sparisjóðsins um sjálfskuldaábyrgðir og að þau hafi kynnt sér hann. Skuldabréfinu hafi verið skilmálabreytt einu sinni að beiðni skuldara þar sem vanskilum hafi verið bætt við höfuðstól. Stefnendur hafi skrifað undir framangreinda skilmálabreytingu án þess að gera athugasemdir við ábyrgð sína, meintan skort á greiðslumati eða öðru sem þau hafi talið að leitt gæti til þess að ábyrgð þeirra væri niður fallin.
Stefndi kveðst telja að skilyrðum 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga sé ekki fullnægt í málinu. Þegar stefnendur hafi gengist í sjálfskuldarábyrgðir sínar hafi þau þekkt fjármál dóttur sinnar og tengdasonar, enda hafi þau búið heima hjá þeim. Í heildina hafi stefnendur gengist í 12 ábyrgðir fyrir þau hjá Landsbanka Íslands hf. og Sparisjóðnum í Keflavík. Þegar stefnendur hafi undirritað ábyrgð á skuldabréfi númer 424444 hafi þau verið búin að fá tilkynningu um vanskil á fyrsta láninu sem þau hafi gengist í ábyrgð fyrir en það hafi engin áhrif haft á vilja þeirra til að gangast í ábyrgð fyrir dóttur sína og tengdason. Samtals hafi stefnendur skrifað undir 16 skilmálabreytingar á þessum lánum þar sem vanskilum hafi verið bætt við höfuðstól. Að mati stefnda sýni sagan að stefnendum hafi verið ljóst að Sóley og Þórarinn Brynjar hafi verið illa stæð fjárhagslega. Hafi þau oft tekið lán til þess að greiða upp vanskil og eftirstöðvar lána hjá stefnda og öðrum lánastofnunum. Hafi stefnendur vitað til hvers lánin hafi verið notuð, enda hafi þau mjög oft verið í ábyrgð fyrir þeim lánum sem verið var að greiða í skil eða upp. Hafi stefnendur viljað gera allt sem í þeirra valdi stóð til að hjálpa þeim, þar á meðal að gangast í ábyrgðir. Þetta hafi stefnendur gert þó að þeim væri ljóst að óvíst væri að Sóley og Þórarinn Brynjar gætu greitt allar skuldbindingar sínar og að eitthvað af þeim kynni að falla á þau. Vilji stefnenda hafi komið fram í því að þegar þau gengust í ábyrgðir hafi þau alltaf óskað eftir því að stefndi og forverar hans þyrftu ekki að meta greiðslugetu lántaka. Sjáist þetta einnig á því að þegar Sparisjóðurinn í Keflavík hafi gert greiðslumat og niðurstaða þess hafi verið neikvæð hafi stefnendur eftir sem áður viljað gangast í sjálfskuldarábyrgðina. Það sé því ekki ósanngjarnt eða andstætt góðri viðskipta-venju að stefndi telji stefnendur bundna af ábyrgðum sínum.
Stefnendur vísi til þess að þau hafi ekki verið upplýst um tilvist samkomulagsins. Þessari málsástæðu hafni stefndi sem rangri. Í lánsumsókn með skuldabréfi númer 4424, sem stefnendur hafi undirritað 27. september 2002, hafi þau staðfest að hafa kynnt sér upplýsingabækling um persónuábyrgðir. Þau hafi því strax frá fyrstu ábyrgð, sem þau hafi gengist í fyrir dóttur sína, verið upplýst um tilvist samkomulagsins og hafi það síðan verið þannig við hverja ábyrgð sem þau tókust á hendur fyrir hana eða tengdason sinn.
Þá hafni stefndi þeirri málsástæðu stefnenda að hann sé skuldbundinn til þess að fara að úrskurðum nefndar um viðskipti við fjármálafyrirtæki. Í 2. mgr. 12. gr. samþykkta fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki sé heimild fyrir stefnda að hafna því að una niðurstöðu nefndarinnar. Hæstiréttur hafi staðfest þessa heimild í dómum sínum.
Stefndi fullyrðir að Landsbanki Íslands hf. hafi í einu og öllu í máli þessu farið eftir ákvæðum laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og þannig unnið í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti.
Stefnendur halda því fram að greiðslumeta þurfi lántaka í hvert skipti sem skilmálabreyting er gerð á láni. Þessu hafnar stefndi og bendir á að þessi málsástæða sé ekki í samræmi við dómafordæmi Hæstaréttar. Þá hafnar stefndi þeirri málsástæðu stefnenda að ákvæði laga nr. 32/2009 um ábyrgðarmenn eigi við um lögskipti stefnenda og Landsbanka Íslands hf. og Sparisjóðsins í Keflavík. Stefnendur hafi gengist í umdeildar ábyrgðir áður en lög um ábyrgðarmenn tóku gildi þann 4. apríl 2009. Telji stefndi að stefnendur geti ekki byggt á lögum sem ekki höfðu tekið gildi þegar þau gengust í ábyrgðir sínar. Að mati stefnda skiptir ekki máli þó að stefnendur hafi undirritað skilmálabreytingar eftir að lög 32/2009 tóku gildi, því að lögin taka eingöngu til nýrra lánveitinga en ekki breytinga á eldri lánum.
Stefnendur fullyrði að þau hafi í mörgum tilvikum merkt við reit þar sem þess sé óskað að greiðslugeta skuldara verði ekki metin. Haldi þau því síðan fram að ekki sé vitað hver hafi merkt í þennan reit. Stefndi geri athugasemd við þessa fullyrðingu en hún feli í sér að stefnendur telji að stefndi hafi breytt lánaskjölum eftir að stefnendur hafi undirritað þau. Stefndi skori á stefnendur að útskýra hvað þau eigi við með þessu en stefndi bendi á að stefnendur hafi sett upphafsstafi sína við reitina sem þau hafi fyllt út í og að mati stefnda sé óumdeilt að stefnendur hafi sjálfir skrifað upphafsstafi sína á lánaskjölin og lánsumsóknirnar.
Loks kveðst stefndi telja að krafa stefnenda um ógildingu ábyrgða þeirra sé fallin niður vegna tómlætis af þeirra hálfu. Eigi þetta sérstaklega við um ábyrgðir sem þau hafi gengist í með undirritun á skuldabréf númer 424444, 430201 og 425511. Stefnendur hafi undirritað skuldabréfið númer 424444 25. mars 2003. Af hálfu stefnenda séu ekki lögð fram nein gögn um það hvenær þau hafi gert athugasemd við gildi þessarar ábyrgðar sinnar en stefndi hafi svaraði því með bréfi 26. júní 2012. Þá hafi verið liðin meira en níu ár frá því að þau hafi gengist í ábyrgðina og þar til þau hafi haft uppi efasemdir um gildi hennar. Stefnendur hafi skrifað undir skuldabréf númer 430201 og 425511 í maí 2004 og því hafi verið liðin meira en átta ár frá því að þau hafi gengist í ábyrgðirnar og þar til þau hafi haft uppi efasemdir um gildi þeirra. Einnig bendi stefndi á að stefnendur hafi með athöfnum sínum sýnt fram á það að þau hafi litið svo á að þau væri bundin við samþykki sitt og að ábyrgðirnar væru gildar. Sjáist það á því að stefnendur undirrituðu allar 16 skilmálabreytingarnar sem gerðar hafi verið á lánunum. Einnig fengu stefnendur tilkynningar um hver áramót yfir þau lán sem þau voru í ábyrgð fyrir auk margra tilkynninga um vanskil á bréfunum. Stefnendur hafi aldrei mótmælt né gert athugasemdir við að fá þessi bréf.
Hvað lagarök varðar vísar stefndi til samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, einkum 1. - 4. gr. og til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga. Einnig sé vísað til laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, einkum 19. gr. og svo til meginreglna samningaréttar um að samningar skuli standa. Krafa stefnda um málskostnað byggist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála og krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt. Stefndi er ekki virðisaukaskattsskyldur og ber honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir þessum skatti úr hendi stefnenda.
IV
Stefnendur gáfu skýrslur fyrir dómi við aðalmeðferð málsins, svo og Valdimar Einarsson, fyrrverandi útibússtjóri stefnda.
Ágreiningur máls þessa snýst um gildi sjálfskuldarábyrgða og veðsetninga á fasteign stefnenda, Glæsivöllum 13, Grindavík, fyrir lánum sem dóttir og tengdasonur stefnenda, Sóley Sverrisdóttir og Þórarinn Brynjar Kristjánsson, tóku hjá forverum stefnda, það er Landsbanka Íslands hf. og Sparisjóði Keflavíkur á árunum 2003-2009: Um er að ræða lán númer 0121-74-424444; 0143-74-430201; 0121-74-425511; 0143-74-431295; 0121-74-429918 og 0143-74-431075. Krefjast stefnendur þess að veðsetning í fyrrnefndri fasteign stefnenda verði felld úr gildi að því er varðar þrjú fyrst töldu lánin, en að ógilt verði með dómi sjálfskuldarábyrgð stefnenda að því varðar þrjú síðast töldu lánin.
Stefnendur byggja kröfur sínar á því að forverar stefnda hafi vegna aðildar sinnar að Samtökum banka og fjármálafyrirtækja verið bundnir af reglum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem undirritað var 1. nóvember 2001, en ekki staðið við skyldur sínar samkvæmt samkomulaginu. Stefnendur byggja einnig á því að sjálfskuldarábyrgðir þeirra og veðsetningar séu ógildanlegar samkvæmt 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga og beri að víkja til hliðar. Stefndi hafnar þessum sjónarmiðum og krefst sýknu af kröfum stefnenda.
Ekki er um það deilt í málinu að forverar stefnda, Landsbanki Íslands hf. og Sparisjóðurinn í Keflavík, hafi verið bundnir af Samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga sem undirritað var 1. nóvember 2001. Aðilar að samkomulaginu eru Samtök banka og verðbréfafyrirtækja fyrir hönd aðildarfélaga sinna, Samband íslenskra sparisjóða fyrir hönd sparisjóða, Neytendasamtökin og viðskiptaráðherra. Í 1. gr. samkomulagsins segir að aðilar samkomulagsins séu sammála um gildi þeirrar stefnu að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga og að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans. Felur samkomulagið í sér meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er skuldaábyrgð eða veð í eigu annars einstaklings eru sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Í 2. gr. segir að samkomulagið taki til allra sjálfskuldarábyrgða og einfaldra ábyrgða á skuldabréfalánum, víxlum og öðrum skuldaskjölum. Þá tekur samkomulagið til þess er einstaklingur hefur gefið út leyfi til þess að veðsetja fasteign sína til tryggingar skuldum annars einstaklings. Í 3. gr. er kveðið á um mat á greiðslugetu. Þar segir í 1. mgr. að sé skuldaábyrgð eða veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu beri fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda, nema ábyrgðamaður óski sérstaklega eftir með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Skuli taka tillit til neyslu og annarra fastra útgjalda áður en ráðstöfunarfé til greiðslu skuldbindinga sé reiknað út. Í 3. mgr. 3. gr. samkomulagsins segir að þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. sé fjármálafyrirtæki skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemur meira en 1.000.000 króna. Í 1. mgr. 4. gr. segir að fjármálafyrirtækjum beri að gefa út upplýsingabæklinga um skuldaábyrgðir og veðsetningar og dreifa með skjölum sem afhent eru ábyrgðarmönnum til undirritunar. Í bæklingnum skuli meðal annars koma fram hvaða skyldur felast í ábyrgðinni, heimild ábyrgðarmanns til að segja ábyrgðinni upp og heimild hans til að óska eftir því að greiðslumat verði ekki gert. Í 2. mgr. 4. gr. segir að með undirritun lánsumsóknar eða annarra gagna, sem fyllt eru út í tengslum við afgreiðslu láns, staðfesti ábyrgðarmaður að hann hafi kynnt sér efni upplýsingabæklings um ábyrgðir. Loks er í 3. mgr. greinarinnar tekið fram að tryggt skuli að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gangist í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það.
Landsbanki Íslands hf. gaf út upplýsingabækling í nóvember 2001. Þar er að finna upplýsingar til ábyrgðarmanna og þeirra sem leggja til veðtryggingar. Þar segir meðal annars að ábyrgðarmenn skuli kynna sér vandlega fjárhagslega stöðu aðalskuldara áður en ábyrgð er undirrituð og að ekki sé úr vegi að leita eftir heimild aðalskuldara til þess að fá upplýsingar hjá bankanum um viðskiptastöðu hans á þeirri stundu þegar ábyrgðin er veitt. Þá er greint þar frá samkomulaginu 1. nóvember 2001 og talin upp í tíu liðum helstu atriði þess. Í þriðja lið þeirrar upptalningar segir að meta skuli greiðslugetu lántaka nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert. Sé lán hærra en 1.000.000 krónur skuli greiðslumat fara fram.
Þá hefur stefndi lagt fram ódagsettan upplýsingabækling sem merktur er „Sparisjóðurinn“ og ber heitið „Ábyrgðarmenn og veðleyfisgjafar“ sem hann kveður þann bækling sem vitnað sé til í lánaskjölum frá Sparisjóðnum í Keflavík. Þar segir að markmið með gerð bæklingsins sé að upplýsa um það sem felist í því að ganga í sjálfskuldarábyrgð eða að veð í eigu annars einstaklings sé sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu.
Stefndi heldur því fram að stefnendur hafi kynnt sér efni þessara bæklinga og fengið þá í hendur með öðrum gögnum vegna þeirra lána sem um ræðir í málinu, en það kannast stefnendur ekki við samkvæmt framburði þeirra fyrir dóminum.
Fyrir liggur að stefnendur gengust í sjálfskuldarábyrgð fyrir dóttur sína, Sóleyju Sverrisdóttur, fyrir láni upphaflega að fjárhæð 900.000 krónur til fimm ára samkvæmt skuldabréfi númer 4424, sem gefið var út 29. september 2002 til Landsbanka Íslands hf. Í lánsumsókn kemur fram að andvirði lánsins verði ráðstafað inn á tékkareikning 143-26-2728 og er sú ráðstöfun undirrituð af Sóleyju Sverrisdóttur. Í skjali sem ber yfirskriftina „Framboðnar tryggingar“ kemur fram undir liðnum „Útfyllist af banka“ í reitnum „Skilyrði/skýringar“: „greiða yfirdrátt í S24 = 360.000, greiða skuldabréf 0143-74-4307, greiða víxil í Íslandsbanka í [K]eflavík = 350.000,-“. Stefnendur staðfestu með nafnritun sinni á undir staðlaðan texta á lánsumsókn lántakans að þau hefðu kynnt sé efni bæklings um persónuábyrgðir. Í málinu hafa verið lagðar fram vanskilatilkynningar vegna þess láns sem sýna að 3. janúar 2003 var gjalddagi 2. desember 2012 í vanskilum og námu vanskilin 26.716,50 krónum. Þann 3. febrúar 2003 var gjalddagi 2. janúar 2003 í vanskilum og nam fjárhæð vanskila 26.292,50 krónum. Þann 3. mars 2003 var gjalddagi 2. febrúar 2003 í vanskilum og var vanskilafjárhæð 25.948,60 krónur og þann 2. apríl 2003 var gjalddagi 2. mars 2003 í vanskilum en fjárhæð vanskila nam 25.645 krónum. Af þessu má sjá að á nefndu tímabili hafi vanskil ekki varað lengur en í einn mánuð í senn. Eftir þetta urðu vanskil á láninu næst í júní 2003.
Verður nú vikið að einstökum skuldabréfum sem um er deilt í málinu:
Skuldabréf númer 0121-74-424444. Þann 25. mars 2003 gaf tengdasonar stefnenda, Þórarinn Brynjar Kristjánsson, út veðskuldabréf að fjárhæð 4.000.000 króna til Sparisjóðsins í Keflavík. Lánið samkvæmt veðskuldabréfinu var til 12 ára og var fyrsti gjalddagi þess 25. apríl 2003. Settu stefnendur fasteign sína að Glæsivöllum 13 í Grindavík að veði með 4. veðrétti til tryggingar greiðslum samkvæmt skuldabréfinu. Í málinu er óumdeilt að greiðslumat fór ekki fram á lántakanum; tengdasyni stefnanda, þrátt fyrir að sú skuldaábyrgð sem veðheimild stefnenda tók til væri langt umfram þá fjárhæð sem miðað er við í 3. mgr. 3. gr. samkomulagsins frá 1. nóvember 2001. Þá bendir ekkert í gögnum málsins til þess að stefnendum hafi verið kynntur fyrrnefndur upplýsingabæklingur um „ábyrgðarmenn og veðleyfisgjafa“. Í framlögðum gögnum liggja ekki fyrir upplýsingar um hvernig lánsfénu var varið en stefndi vísar til þess að á þessum tíma hafi dóttir stefnenda staðið í vanskilum við annað fjármálafyrirtæki, það er Landsbanka Íslands hf. Verður ekki fallist á það með stefnda að þáverandi vanskilastaða dóttur stefnenda við Landsbanka Íslands hf. á þeim tíma hafi eitt og sér veitt stefnendum tilefni til þess að afla sér upplýsinga um fjárhagslega stöðu tengdasonar stefnenda og maka hans, það er dóttur stefnenda. Það fær ekki breytt þessu áliti dómsins þótt í hlut eigi tengdasonur stefnenda eða að hann og dóttir stefnenda hafi búið á heimili stefnenda á árinu 2002 og allt til mánaðarmóta janúar/febrúar 2003.
Að framan er rakið að markmið samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 hafi verið að draga úr vægi ábyrgðar einstaklinga og að lánveitingar væru miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans. Með samkomulaginu voru settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum að skuldaábyrgð eða veð í eignum annars einstaklings væri sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Í 3. mgr. 3. gr. samkomulagsins er að finna þá afdráttarlausu reglu að greiðslumeta skuli skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuld viðkomandi skuldara er hærri en 1.000.000 króna. Verður samkvæmt þessu talið að forvera stefnda hafi borið að láta fara fram greiðslumat í samræmi við samkomulagið 1. nóvember 2001. Það er því að mati dómsins á áhættu stefnda að greiðslugeta útgefanda veðskuldabréfsins var ekki metin, og eftir atvikum stefnendum sem veðsölum var ekki gerð grein fyrir því ef niðurstaða mats benti til að aðalskuldarinn gæti ekki staðið undir skuldbindingum sínum. Stefndi verður því að bera hallann af þeirri ákvörðun að skuldabréfalánið var veitt án þess að viðhöfð væru áður þau vönduðu vinnubrögð sem samkomulagið 1. nóvember 2001 gerði ráð fyrir. Að öðrum kosti er vandséð að ná hefði mátt fram því meginmarkmiði samkomulagsins að ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga gerðu sér eftir atvikum ljósa grein fyrir þeirri áhættu sem þeir tækjust á herðar með því að gangast í slíka ábyrgð. Samkvæmt þessu og með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga er fallist á með stefnendum að ósanngjarnt sé af stefnda að bera fyrir sig og byggja rétt á fyrrgreindu veðleyfi stefnenda. Að mati dómsins hafa stefnendur ekki sýnt tómlæti um gæslu réttar síns þannig að réttarspjöllum varði. Þá er hér talið skipta máli að verulegur aðstöðumunur var með aðilum stefnenda við Sparisjóðinn í Keflavík. Fyrir liggur að stefnendur bjuggu ekki yfir sérþekkingu á sviði fjármála eða viðskipta en sparisjóðurinn bjó yfir sérfræðiþekkingu á þeim viðskiptum sem um ræðir og á honum hvíldu lögbundnar skyldur um vönduð vinnubrögð og heilbrigða viðskiptahætti samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Að mati dómsins hefur það ekki áhrif á framangreint sanngirnismat samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936, sem fram fer vegna aðstæðna við lánveitingu í öndverðu, að láni því sem um ræðir var skilmálabreytt alls fjórum sinnum að beiðni aðalskuldarans með samþykki stefnenda, síðast 25. mars 2009.
Skuldabréf númer 0143-74-430201. Þann 14. maí 2004 gaf dóttir stefnenda, Sóley Sverrisdóttir, út veðskuldabréf að fjárhæð 3.000.000 króna til Landsbanka Íslands hf. Lánið samkvæmt veðskuldabréfinu var til 20 ára og var fyrsti gjalddagi þess 2. júlí 2004. Settu stefnendur fasteign sína að Glæsivöllum 13 í Grindavík að veði með 5. veðrétti til tryggingar greiðslum samkvæmt skuldabréfinu. Í málinu er óumdeilt að greiðslumat fór ekki fram á lántakanum; dóttur stefnanda, þrátt fyrir að sú skuldaábyrgð sem veðheimild stefnenda tók til væri langt umfram þá fjárhæð sem miðað er við í 3. mgr. 3. gr. samkomulagsins frá 1. nóvember 2001. Í stöðluðu fylgiskjali með lánsumsókn vegna lánsins sem ber fyrirsögnina „Framboðnar tryggingar“ eru efst samliggjandi reitir til útfyllingar vegna fasteignaveðs. Í þessa reiti hefur verið skráð hvaða fasteign væri um að ræða, hverjir væru þinglýstir eigendur veðs og kennitölur þeirra. Ber skjalið með sér að stefndi hefur skráð þessar upplýsingar í þar til gerða reiti. Fyrir neðan hina útfylltu reiti eru afmarkaðir og samliggjandi reitir sem bera fyrirsögnina „Veð í bifreið“ en þeir eru óútfylltir á skjalinu. Þar fyrir neðan eru afmarkaðir og samliggjandi reitir undir yfirskriftinni „Sjálfskuldarábyrgð“. Þar er hægt að fylla út upplýsingar um nafn, kennitölu, heimili, starf og símanúmer. Samliggjandi þar fyrir neðan er stærri reitur þar sem stendur: „Hef kynnt mér efni bæklings um persónuábyrgðir“. Til hliðar er lína fyrir undirskrift og hefur stefnandi Sverrir ritað nafn sitt þar. Undirskrift stefnanda Birnu er ekki á skjalinu. Í samliggjandi reit fyrir neðan er textinn „Óska eftir mati bankans á greiðslugetu greiðanda“. Þar er annars vegar hægt að merkja við „Já“ eða „Nei“ og hefur verið merkt við „Nei“ Engin lína fyrir undirskrift eða upphafsstafi er við þessa möguleika. Fyrir neðan þetta eru samskonar samliggjandi reitir sem augljóslega eru gerðir ef um tvo sjálfskuldar-ábyrgðarmenn er að ræða. Með vísan til þess sem greint hefur verið frá um uppsetningu fylgiskjals þessa verður að telja að það hafi í það minnsta verið óskýrt fyrir stefnendur enda var undirritun stefnanda Sverris á þeim hluta skjalsins sem átti við ef um sjálfskuldarábyrgð væri að ræða.
Neðst á fylgiskjalinu eru samliggjandi reitir undir yfirskriftinni „Útfyllist af banka“. Undir liðnum „Skilyrði/Skýringar“ segir: Greiða upp allar skuldbindingar hjá LÍ og lán hjá S24. Visakorti sagt upp.“ Fyrir liggur að láni þessu var skilmálabreytt alls þrisvar sinnum að beiðni aðalskuldarans með samþykki stefnenda, síðast 10. maí 2011.
Stefndi vísar til þess að á þeim tíma er stefnendur undirrituðu skuldabréfið hafi þau fengið vanskilatilkynningar frá LBI vegna ofangreinds láns nr. 4424 og láns 021991. Þau hafi því vitað um greiðsluerfiðleika dóttur sinnar og tengdasonar og að andvirði hins nýja láns yrði notað til að greiða þessi lán upp. Í málinu liggur ekkert fyrir um að stefnendum hafi verið kunnugt um hvernig ráðstafa átti lánsfénu enda var sá hluti fylgiskjalsins sem varðaði ráðstöfun þess fylltur út af banka. Stefndi hefur lagt fram tilkynningu um vanskil vegna skuldabréfs 4424 sem dagsett er 3. maí 2004 og þar kemur fram að einn gjalddagi þess láns er í vanskilum, það er gjalddagi 2. apríl 2004 að fjárhæð 23.245 krónur. Einnig hefur stefndi lagt fram vanskilatilkynningu vegna láns 021991 en á þeim tíma sem hér um ræðir var gjalddagi 2. apríl 2004 í vanskilum og var fjárhæð hans samkvæmt tilkynningunni 16.524 krónur. Verður ekki fallist á það með stefnda að nefndar vanskilatilkynningar vegna dóttur stefnenda og tengdasonar við Landsbanka Íslands hf. á þeim tíma hafi eitt og sér veitt stefnendum vitneskju um fjárhagslega stöðu þeirra.
Að framan er rakið að markmið samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 hafi verið að draga úr vægi ábyrgðar einstaklinga og að lánveitingar væru miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans. Með samkomulaginu voru settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum að skuldaábyrgð eða veð í eignum annars einstaklings væri sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Í 3. mgr. 3. gr. samkomulagsins er að finna þá afdráttarlausu reglu að greiðslumeta skuli skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuld viðkomandi skuldara er hærri en 1.000.000 króna. Verður samkvæmt þessu talið að forvera stefnda hafi borið að láta fara fram greiðslumat í samræmi við samkomulagið 1. nóvember 2001. Það er því að mati dómsins á áhættu stefnda að greiðslugeta útgefanda veðskuldabréfsins var ekki metin. Stefndi verður því að bera hallann af því að umrætt lán var veitt án þess að áður væru viðhöfð þau vinnubrögð sem samkomulagið 1. nóvember 2001 gerði ráð fyrir. Að öðrum kosti er vandséð að ná hefði mátt fram því meginmarkmiði samkomulagsins að ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga gerðu sér eftir atvikum ljósa grein fyrir þeirri áhættu sem þeir tækjust á hendur með því að gangast í slíka ábyrgð. Samkvæmt þessu og með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga er fallist á með stefnendum að ósanngjarnt sé af stefnda að bera fyrir sig og byggja rétt á fyrrgreindu veðleyfi stefnenda. Að mati dómsins hafa stefnendur ekki sýnt tómlæti um gæslu réttar síns þannig að réttarspjöllum varði. Þá er hér talið skipta máli að verulegur aðstöðumunur var með aðilum. Í málinu liggur fyrir að stefnendur hafa ekki sérþekkingu á sviði fjármála eða viðskipta en bankinn bjó yfir sérfræðiþekkingu á lánsviðskiptum og á honum hvíldu lögbundnar skyldur um vönduð vinnubrögð og heilbrigða viðskiptahætti samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Að mati dómsins hefur það ekki áhrif á framangreint sanngirnismat samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936, sem fram fer vegna aðstæðna við lánveitingu í öndverðu, að láni því sem um ræðir var skilmálabreytt alls þrisvar sinnum að beiðni aðalskuldarans með samþykki stefnenda, síðast 10. maí 2011.
Skuldabréf númer 1109-74-425511. Þann 19. maí 2004 undirrituðu stefnendur veðskuldabréf og settu með því fasteign sína, Glæsivelli 13 í Grindavík, að veði með 6. veðrétti til tryggingar láni að fjárhæð 800.000 krónur, sem tengdasonur þeirra, Þórarinn Brynjar Kristjánsson, tók hjá Sparisjóðnum í Keflavík. Lánið var til 8 ára og var fyrsti gjalddagi 3. júní 2004. Ekki er upplýst um hvernig lánsfénu var ráðstafað. Fimm dögum áður en stefnendur undirrituðu veðskuldabréfið höfðu þau gengist í ábyrgð fyrir dóttur sína fyrir láni númer 430201 og undirritað tvær skilmálabreytingar vegna eldri skuldbindinga hennar. Stefnendur gerðu ekki kröfu til þess að fá upplýsingar um fjárhag lántakans eða maka hans. Að framan er rakið að markmið samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001 var að draga úr vægi ábyrgðar einstaklinga og að lánveitingar væru miðaðar við greiðslugetu greiðanda og eigin tryggingar hans. Með samkomulaginu voru settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum að skuldaábyrgð eða veð í eignum annars einstaklings væri sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Í 3. mgr. 3. gr. samkomulagsins er að finna þá afdráttarlausu reglu að greiðslumeta skuli skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemur meira en 1.000.000 króna. Ekki er um það deilt að forveri stefnda mat ekki greiðslugetu lántaka þegar lánið var veitt.
Fyrir liggur að tæpum fjórtán mánuðum áður höfðu stefnendur veitt Þórarni Brynjari veð í fasteign sinni vegna skuldabréfaskuldar að fjárhæð 4.000.000 króna til 12 ára við Sparisjóðinn í Keflavík (skuldabréf nr. 0121-74-424444). Samkvæmt skilmála-breytingu sem dagsett er 18. maí 2004, eða daginn áður en skuldabréf það sem hér er til skoðunar var gefið út, nam skuld samkvæmt eldra skuldabréfinu 4.174.044 krónum þann dag. Með hinu nýja láni voru ábyrgðir stefnenda gagnvart lánum Þórarins Brynjars við Sparisjóðinn í Keflavík alls 4.974.044 krónur. Það var því fortakslaus skylda forvera stefnda, samkvæmt samkomulagi um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga frá 1. nóvember 2001, að greiðslumeta lántaka.
Stefndi telur að með vísan til forsögu málsins hafi verið ljóst að stefnendum hafi verið fullkunnugt um greiðsluvanda dóttur sinnar og tengdasonar en hafi samt sem áður haldið áfram að gangast í sjálfskuldarábyrgðir fyrir þau. Við mat á þessari málsástæðu stefnda telur dómurinn að í fyrsta lagi verði að horfa til þess að vanskil dóttur stefnenda og tengdasonar voru einatt til skamms tíma eins og áður hefur verið rakið. Í öðru lagi hafi forverar stefnda verið reiðubúnir til að skilmálabreyta skuldum þeirra í stað þess að ganga að fasteign stefnenda sem þeim hefði verið heimilt. Af því er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að dóttir stefnenda og tengdasonur hafi verið talin geta greitt skuldirnar þó lánstími væri í einhverjum tilvikum lengdur. Í þriðja lagi verður ekki annað ráðið af málavöxtum og fyrirliggjandi gögnum en að forverar stefnda hafi talið forsvaranlegt að lána dóttur stefnenda og tengdasyni síaukið fé. Verður að draga þá ályktun af þessum þremur atriðum að forverar stefnda hafi talið viðskiptin eftirsóknarverð. Með hliðsjón af þessu telur dómurinn að málsatvik geti ekki hafa horft þannig við stefnendum að ljóst væri að dóttir þeirra og tengdasonur væru í fjárhagserfiðleikum. Verður því ekki fallist á sjónarmið stefnda þar að lútandi.
Samkvæmt því sem rakið hefur verið er það mat dómsins að forvera stefnda hafi borið að láta fara fram greiðslumat í samræmi við samkomulagið 1. nóvember 2001. Það verður því að teljast á áhættu stefnda að greiðslugeta útgefanda veðskuldabréfsins var ekki metin. Stefndi verður í samræmi við það að bera hallann af því að lánið var veitt án þess að áður væru viðhöfð þau vinnubrögð sem samkomulagið 1. nóvember 2001 gerði ráð fyrir. Að öðrum kosti er vandséð að ná hefði mátt fram því meginmarkmiði samkomulagsins að ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga gerðu sér eftir atvikum ljósa grein fyrir þeirri áhættu sem þeir tækjust á hendur með því að gangast í slíka ábyrgð. Samkvæmt þessu og með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga er fallist á með stefnendum að ósanngjarnt sé af stefnda að bera fyrir sig og byggja rétt á fyrrgreindu veðleyfi stefnenda. Að mati dómsins hafa stefnendur ekki sýnt tómlæti um gæslu réttar síns þannig að réttarspjöllum varði. Þá er hér talið skipta máli að verulegur aðstöðumunur var með aðilum. Í málinu liggur fyrir að stefnendur hafa ekki sérþekkingu á sviði fjármála eða viðskipta en sparisjóðurinn bjó yfir sérfræðiþekkingu á lánsviðskiptum og á honum hvíldu lögbundnar skyldur um vönduð vinnubrögð og heilbrigða viðskiptahætti samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Að mati dómsins hefur það ekki áhrif á framangreint sanngirnismat samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936, sem fram fer vegna aðstæðna við lánveitingu í öndverðu, að láni því sem um ræðir var skilmálabreytt alls fjórum sinnum, síðast 20. október 2010.
Skuldabréf númer 0143-74-431075. Þann 28. mars 2006 undirritaði stefnandi Sverrir skuldabréf þar sem hann tókst á hendur sjálfskuldarábyrgð á greiðslum láns að fjárhæð 750.000 krónur. Lántaki var Sóley Sverrisdóttir og lánveitandi var Landsbanki Íslands hf. Lánið var til ríflega fimm ára og var fyrsti gjalddagi þess 5. maí 2006. Í lið fjögur í stöðluðum skilmálum skuldabréfsins er reitur þar sem nafn ábyrgðarmanns er ritað ásamt textanum: „Óskar eftir undanþágu frá mati á greiðslugetu greiðanda“. Merkt hefur verið við textann með krossi. Fyrir aftan textann er lína og þar hefur stefnandi Sverrir ritað upphafsstafi sína. Þá segir í 13. lið staðlaðra skilmála að með undirritun sinni á skuldabréfið staðfesti sjálfskuldarábyrgðaraðili að hafa kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila en Landsbankinn sé aðili að samkomulagi fjármálafyrirtækja, stjórnvalda og neytendasamtakanna um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.
Svo sem fram er komið höfðu báðir stefnendur undirritað ábyrgðaryfirlýsingar fyrir dóttur sína og tengdason og skilmálabreytingar á þeim ábyrgðum, auk þess að veita veð í fasteign sinni án þess að gera kröfu til þess, svo vitað sé, að fá upplýsingar um fjárhag dóttur sinnar og tengdasonar. Í þessu tilviki verður þó að líta til þess að á tímabilinu 18. maí 2004 til 28. mars 2006 höfðu stefnendur ekki undirritað neina skilmálabreytingu vegna lána dóttur sinnar hjá forverum stefnda og ekki fengið neinar vanskilatilkynningar vegna láns hennar nr. 0143-74-430201 hjá forvera stefnda samkvæmt gögnum málsins. Þau höfðu á hinn bóginn undirritað tvær skilmálabreytingar vegna lána tengdasonar síns Þórarins Brynjars en þær voru báðar 30. janúar 2006 og á þeim tíma var einn gjalddagi á hvoru láni í vanskilum. Annars vegar var um að ræða skilmálabreytingu vegna láns nr. 0121-74-424444 upphaflega að fjárhæð 4.000.000 króna og hins vegar láns nr. 1109-74-425511 upphaflega að fjárhæð 800.000 krónur. Bæði voru lánin við Sparisjóðinn í Keflavík.
Stefndi telur að með vísan til forsögu málsins hafi stefnendum verið fullkunnugt um greiðsluvanda dóttur sinnar og tengdasonar en hafi samt sem áður óskað eftir að falla frá því að greiðslumat færi fram. Við mat á þessari málsástæðu stefnda telur dómurinn að í fyrsta lagi verði að horfa til þess að á þessum tíma höfðu stefnendur hvorki undirritað skilmálabreytingar á umdeildum lánum dóttur sinnar hjá forverum stefnda né fengið vanskilatilkynningar vegna þess láns sem hún gaf út til Landsbanka Íslands hf. 14. maí 2004 (nr. 0143-74-430201). Af því er ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að dóttir stefnenda hafi staðið í skilum með skuldbindingar sínar á umræddu tímabili. Þá verður ekki annað ráðið af málavöxtum og fyrirliggjandi gögnum en að forverar stefnda hafi talið forsvaranlegt að lána dóttur stefnenda umræddar 750.000 krónur. Verður að draga þá ályktun af þessum þremur atriðum að forverar stefnda hafi talið viðskiptin eftirsóknarverð. Með hliðsjón af þessu tekur dómurinn ekki undir það sjónarmið stefnda að stefnanda Sverri væri fullkunnugt um greiðsluvanda lántaka.
Eins og hér hefur verið rakið stóð Sóley dóttir stefnenda á þessum tíma í skuld við forvera stefnda vegna skuldabréfaláns sem hún gaf út 14. maí 2004 (nr. 0143-74-430201) upphaflega að fjárhæð 3.000.000 króna til 20 ára. Samkvæmt skilmálum þess láns hafði 21 gjalddagi verið greiddur af láninu og stóðu því eftir af lánstímanum ríflega 18 ár eða 219 afborganir. Samkvæmt því var langstærstur hluti þeirrar lánsfjárhæðar ógreiddur og augljóst að stefnandi Sverrir ábyrgðist meira en 1.000.000 króna af skuldum Sóleyjar við forvera stefnda fyrir 28. mars 2006 er 750.000 króna skuldabréf var gefið út. Samkvæmt öllu þessu er það mat dómsins að forvera stefnda hafi borið að láta fara fram greiðslumat í samræmi við samkomulagið 1. nóvember 2001. Það verður því að teljast á áhættu forvera stefnda að greiðslugeta útgefanda skuldabréfsins var ekki metin. Stefndi verður í samræmi við það að bera hallann af því að lánið var veitt án þess að áður væru viðhöfð þau vinnubrögð sem samkomulagið 1. nóvember 2001 gerði ráð fyrir. Að öðrum kosti er vandséð að ná hefði mátt fram því meginmarkmiði samkomulagsins að ábyrgðarmenn fjárskuldbindinga gerðu sér eftir atvikum ljósa grein fyrir þeirri áhættu sem þeir tækjust á hendur með því að gangast í slíka ábyrgð. Samkvæmt þessu og með vísan til 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga er fallist á með stefnendum að ósanngjarnt sé af stefnda að bera fyrir sig og byggja rétt á fyrrgreindri ábyrgð stefnanda Sverris. Að mati dómsins hefur stefnandi ekki sýnt tómlæti um gæslu réttar síns þannig að réttarspjöllum varði. Einnig er hér talið skipta máli að verulegur aðstöðumunur var með aðilum. Í málinu liggur fyrir að stefnandi Sverrir hefur ekki sérþekkingu á sviði fjármála eða viðskipta en bankinn bjó yfir sérfræðiþekkingu á lánsviðskiptum og á honum hvíldu lögbundnar skyldur um vönduð vinnubrögð og heilbrigða viðskiptahætti samkvæmt 1. mgr. 19. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.
Að mati dómsins hefur það ekki áhrif á framangreint sanngirnismat samkvæmt 36. gr. laga nr. 7/1936, sem fram fer vegna aðstæðna við lánveitingu í öndverðu, að láni því sem um ræðir var skilmálabreytt tvisvar sinnum; 18. maí 2009 og 10. maí 2011.
Skuldabréf númer 1143-74-431295. Þann 13. júlí 2008 undirrituðu stefnendur skuldabréf með óskiptri sjálfskuldarábyrgð til tryggingar láni að fjárhæð 1.500.000 króna sem Þórarinn Brynjar Kristjánsson tók hjá Landsbanka Íslands hf. Lánið var til ríflega átta ára og var fyrsti gjalddagi þess 1. september 2008. Í lið fjögur í stöðluðum skilmálum skuldabréfsins er reitur þar sem nafn ábyrgðarmanna eru hvort fyrir neðan annað og við hliðina á hvoru nafni fyrir sig er textinn: „Óskar eftir undanþágu frá mati á greiðslugetu greiðanda“. Merkt hefur verið við textann með krossi í báðum tilvikum. Fyrir aftan textann er lína og þar hafa stefnendur ritað upphafsstafi sína. Þá segir í 13. lið staðlaðra skilmála að með undirritun sinni á skuldabréfið staðfesti sjálfskuldarábyrgðaraðili að hafa kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbanka Íslands hf. um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila en Landsbankinn sé aðili að samkomulagi fjármálafyrirtækja, stjórnvalda og neytendasamtakanna um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga.
Á framlögðu skjali sem ber heitið „Lánsumsókn einstaklings“ eru reitir fyrir undirritun ábyrgðarmanna sem stefnendur hafa bæði undirritað. Í texta sem er í aðgreindum kassa fyrir framan línu til undirritunar segir: „Hef kynnt mér efni bæklings um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila, auk samkomulags um sama efni sem fjármálastofnanir eiga aðild að.“ Þar fyrir neðan segir í sérstökum reit: „Óska eftir mati bankans á greiðslugetu greiðanda:“ Hægt er að merkja við „Já“ eða „Nei“. Hvorugt stefnenda hefur merkt við þetta. Þrátt fyrir þetta hefur bankinn greiðslumetið lántakann Þórarin Brynjar en í málinu er lagt fram skjal sem ber yfirskriftina „Niðurstöður lánamats“. Samkvæmt skjalinu eru útborguð mánaðarlaun Þórarins Brynjars 440.000 krónur á mánuði, áætluð greiðslugeta hans að teknu tilliti til skulda 39.716 krónur á mánuði, skuldir með nýju láni 14.042.383 krónur og eignastaða neikvæð um 1.985.000 krónur. Fyrir neðan tölulegar upplýsingar er feitletrað: „Ábyrgðarmönnum er sérstaklega bent á að kynna sér stöðu vanskila“. Í skjalinu segir síðan undir fyrirsögninni „Fyrirvari og forsendur um niðurstöður“. Framangreindar upplýsingar um skuldir og fjárhagsstöðu greiðanda eru að hluta til frá honum sjálfum komnar. Að því leyti eru forsendur mats á greiðslugetu hans og niðurstöður/ályktunar dregnar af þeim upplýsingum á hans ábyrgð. Þær eru því án ábyrgðar fyrir Landsbanka Íslands hf.“ Undir fyrirsögninni „Staðfesting“ segir loks: „Greiðandi og ábyrgðarmenn hafa fengið afrit afhent, kynnt sér og skilið þetta mat á greiðslugetu greiðanda og samþykkt það sem fullnægjandi fyrir sig. Þeir hafa einnig kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbankans um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila.“ Báðir stefnendur undirrita skjalið.
Stefnendur halda því fram að lánsumsókn og greiðslumat sé haldið fjölmörgum annmörkum sem þau hafi ekki komist að fyrr en eftir á. Þau kveða ekki unnt að sjá hver niðurstaða þess hefði verið ef réttar upplýsingar hefðu verið notaðar og samræmis gætt í tilgreiningu tekna annars vegar og greiðslubyrði og ætluðum framfærslukostnaði og föstum útgjöldum hins vegar. Þau kveða að tekjur lánataka hafi verið ranglega tilgreindar í greiðslumatinu. Þar komi fram að tekjurnar séu 440.000 krónur á mánuði en í raun hafi tekjur verið um 270.000 krónur á mánuði eftir greiðslu skatta. Þessu til staðfestingar framvísa stefnendur álagningarseðli Þórarins Brynjars árið 2009. Þá telja stefnendur að forveri stefndi hafi haldið upplýsingum frá þeim með því að upplýsa þau ekki um hvernig lánsfé yrði ráðstafað.
Í margnefndu samkomulagi um notkun ábyrgða og skuldbindinga er ekki kveðið á um skyldu lánveitanda til að kynna ábyrgðarmanni í öllum tilvikum gögn til grundvallar niðurstöðu greiðslumats. Í málinu liggur fyrir að forveri stefnda gerði mat á greiðslugetu lántaka og staðfestu stefnendur með undirritun sinni að hafa kynnt sér matið. Verður ekki fallist á með stefnendum greiðslumatið hafi verið haldið fjölmörgum annmörkum enda hafa þau ekki sýnt fram á það með haldbærum gögnum Þá ber skjalið með sér að stefnendum var afhentur bæklingur um þýðingu þess að gangast undir sjálfskuldarábyrgð og undirrituðu þau yfirlýsingu þess efnis að hafa „kynnt sér efni upplýsingabæklings Landsbankans um persónuábyrgðir og veðtryggingar þriðja aðila.“ Samkvæmt þessu fullnægði forveri stefnda skyldum sínum samkvæmt samkomulaginu frá 1. nóvember 2001 og verður ekki fallist á með stefnendum að ógilda beri sjálfskuldarábyrgðir þeirra á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Skuldabréf númer 1109-74-429918. Þann 25. mars 2009 undirrituðu stefnendur sem sjálfskuldarábyrgðaraðilar skuldabréf til tryggingar láni að fjárhæð 2.270.000 krónur sem Þórarinn Brynjar Kristjánsson gaf út til Sparisjóðsins í Keflavík. Var lánið samkvæmt skuldabréfinu til 20 ára og fyrsti gjalddagi 1. maí 2009.
Fyrir liggur fylgiskjal með skuldabréfinu sem ber fyrirsögnina „Til ábyrgðarmanna fjárskuldbindinga 1109-74-429918“. Þar segir meðal annars í lið III. sem ber heitið „Upplýsingabæklingur o.fl.“ að sjálfskuldarábyrgðarmenn staðfesti með undirritun sinni að þeir hafi fengið og kynnt sér bækling sparisjóðanna um sjálfskuldarábyrgðir. Undir lið IV. „Greiðslumat o.fl.“ segir „Óskar ábyrgðarmaðurinn eftir því að greiðslugeta greiðandi verði metin?“ Þar fyrir neðan er skema þar sem hægt er að merkja við „Já“ eða „Nei“, síðan er lína fyrir upphafsstafi ábyrgðarmanns. Loks segir „Greiðslumat séð ( )“. Stefnendur setja upphafsstafi sína á þar til gerða línu en merkja ekki við skemað að öðru leyti. Loks er í skjalinu liður V. „Niðurstaða greiðslumats“. Þar er hægt að merkja við tvo kosti: ( ) „Niðurstaða greiðslumats bendir til þess að greiðandi geti efnt skuldbindingar sínar“. Og ( ) „Niðurstaða greiðslumats bendir til þess að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar“. Kross hefur verið merktur við neðri kostinn. Í málinu liggur fyrir annað fylgiskjal „Niðurstaða greiðslumats“. Þar eru tilgreindar upplýsingar um lántaka og umrætt lán. Er síðan feitletrað undir fyrirsögninni „Niðurstaða greiðslumats“: Niðurstaða greiðslumats bendir til þess að lántakandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar miðað við núverandi fjárhagsstöðu“. Undir liðnum „Ráðstöfun lánsfjár“ er merkt við að meira en helmingi lánsupphæðar verði varið til greiðslu á skuldum lántaka hjá sparisjóðnum.
Að því virtu sem nú hefur verið rakið þykir óhjákvæmilegt að álykta á annan veg en þann að niðurstaða greiðslumats hafi ekki verið forsenda þess að stefnendur gengust í ábyrgð til tryggingar því láni sem um ræðir. Það ákvæði 4. gr. í fyrrnefndu samkomulagi 1. nóvember 2001 sem að framan er rakið felur í sér að greiðslumat skuli gert á lántakanum og að ábyrgðarmanni og/eða veðsala gefist kostur á að kynna sér slíkt greiðslumat. Með undirritun sinni undir framannefnd skjöl staðfestu stefnendur að þau hefðu kynnt sér upplýsingabækling lánveitandans og væru meðvituð um að líkur væru á að lántaki gæti ekki staðið við skuldbindingu samkvæmt skuldabréfinu. Var þannig undir stefnendum sjálfum komið að óska eftir því að fá upplýsingar um mat forvera stefnda á greiðslugetu aðalskuldara áður en hann veitti samþykki sitt fyrir því að gangast í sjálfskuldarábyrgð til tryggingar láni númer 429918. Samkvæmt þessu fullnægði forveri stefnda skyldum sínum samkvæmt samkomulaginu frá 1. nóvember 2001 og verður ekki fallist á með stefnendum að ógilda beri sjálfskuldarábyrgðir þeirra á grundvelli 1. mgr. 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Kröfum sínum til stuðnings vísa stefnendur til sjónarmiða samkvæmt lögum um ábyrgðarmenn nr. 32/2009, einkum 1. mgr. 4. gr., þar sem segi að lánveitandi skuli meta hæfi lántaka til að standa í skilum með lán það sem ábyrgðamaður gangist í ábyrgð til tryggingar efndum lántaka. Ekki er fallist á þessa málsástæðu stefnenda og er henni hafnað. Lög nr. 32/2009 um ábyrgðamenn tóku gildi 4. apríl 2009 og taka einvörðungu til ábyrgða sem gengist var í eftir gildistöku laganna en ekki til breytinga á greiðsluskilmálum eldri lána.
Samkvæmt því sem rakið er að framan er niðurstaða dómsins sú að fella ber úr gildi veðsetningar sem stefnendur, Sverrir Þorgeirsson og Birna Rut Þorbjörnsdóttir, veittu í fasteign sinni að Glæsivöllum 13, Grindavík, fastanúmer 223-1464, með undirritun á veðskuldabréf númer 0121-74-424444, upphaflega að fjárhæð 4.000.000 krónur; veðskuldabréf númer 0143-74-430201, upphaflega að fjárhæð 3.000.000 krónur og veðskuldabréf númer 0121-74-425511, upphaflega að fjárhæð 800.000 krónur. Einnig ber að ógilda sjálfskuldarábyrgð stefnanda Sverris Þorgeirssonar á skuldabréfi númer 0143-74-431075, sem gefið var út 28. mars 2006, upphaflega að fjárhæð 750.000 krónur. Stefndi skal vera sýkn af kröfu stefnenda um að felldar verði úr gildi sjálfskuldarábyrgðir þeirra á skuldabréfi númer 0143-74-431295, sem gefið var út 13. júlí 2008, upphaflega að fjárhæð 1.500.000 krónur og á skuldabréfi númer 0121-74-429918, sem gefið var út 25. mars 2009, upphaflega að fjárhæð 2.270.000 krónur.
Með vísan til þessarar niðurstöðu og samkvæmt 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála verður stefndi dæmdur til að greiða stefnendum hluta af málskostnaði þeirra, 992.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti.
Jón Höskuldsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
D ó m s o r ð:
Felldar eru úr gildi veðsetningar sem stefnendur, Sverrir Þorgeirsson og Birna Rut Þorbjörnsdóttir, veittu í fasteign sinni að Glæsivöllum 13, Grindavík, fastanúmer 223-1464, með undirritun á veðskuldabréf númer 0121-74-424444, útgefið 25. mars 2003, upphaflega að fjárhæð 4.000.000 krónur; veðskuldabréf númer 0143-74-430201, útgefið 14. maí 2004, upphaflega að fjárhæð 3.000.000 krónur og veðskuldabréf númer 0121-74-425511, útgefið 19. maí 2004, upphaflega að fjárhæð 800.000 krónur.
Sjálfskuldarábyrgð stefnanda, Sverris Þorgeirssonar, á skuldabréfi númer 0143-74-431075, útgefið 28. mars 2006, upphaflega að fjárhæð 750.000 krónur, er ógilt.
Stefndi, Landsbankinn hf., skal vera sýkn af kröfu stefnenda um að felldar verði úr gildi sjálfskuldarábyrgðir þeirra á skuldabréfi númer 0143-74-431295, útgefið 13. júlí 2008, upphaflega að fjárhæð 1.500.000 krónur og á skuldabréfi númer 0121-74-429918, útgefið 25. mars 2009, upphaflega að fjárhæð 2.270.000 krónur.
Stefndi greiði stefnendum 992.000 krónur í málskostnað.