Hæstiréttur íslands
Mál nr. 115/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Fjármálafyrirtæki
- Slitameðferð
- Sértökuréttur
- Réttindaröð
|
|
Þriðjudaginn 13. mars 2012. |
|
Nr. 115/2012.
|
Íslandsbanki hf. (Jón Auðunn Jónsson hrl.) gegn SPB hf. (Tómas Jónsson hrl.) |
Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slitameðferð. Sértökukrafa. Réttindaröð.
B hf., sem nú ber heitið Í hf., lýsti kröfum við slit S hf., á grundvelli innstæðu á gjaldeyrisreikningi sem var í vörslum hins síðarnefnda og kostnaðar sem féll til við kröfulýsingu, og krafðist þess að þeim yrði skipað í réttindaröð við slitin aðallega sem sérstökukröfum samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en til vara sem forgangskröfum samkvæmt 112. gr. sömu laga. Deila aðila laut einungis að stöðu krafnanna í skuldaröð við slit S hf. Vísað var til þess að sá aðili sem krefðist afhendingu eignar úr þrotabúi á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991 yrði að sýna fram á eignarrétt sinn að henni og eignin yrði að vera sérgreind í vörslum búsins. Talið var að innstæða á innlánsreikningi uppfyllti ekki skilyrði um sérgreiningu og var kröfu Í hf. þar að lútandi því hafnað. Þá var vísað til þess að kröfur Í hf. væru undanskildar tryggingu samkvæmt 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta og að þegar af þeirri ástæðu nytu þær heldur ekki forgangsréttar við slit S hf. Var kröfum Í hf. því hafnað.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Greta Baldursdóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. febrúar 2012 sem barst héraðsdómi degi síðar og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2012, þar sem hafnað var kröfum sóknaraðila um að kröfur sem hann lýsti við við slit varnaraðila nytu rétthæðar aðallega samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o. fl., en til vara samkvæmt 112. gr. sömu laga. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. laganna. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og að kröfum hans að fjárhæð 2.757.120,35 evrur og 62.250 krónur verði skipað í réttindaröð við slit varnaraðila aðallega sem sértökukröfum samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991, en til vara sem forgangskröfum samkvæmt 112. gr. sömu laga. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að kröfur sóknaraðila njóti ekki réttar samkvæmt 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991. Þegar af þeirri ástæðu að kröfur sóknaraðila eru undanskildar tryggingu samkvæmt 6. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta njóta þær ekki heldur forgangsréttar samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Vísast jafnframt um þetta til dóms Hæstaréttar 2. júní 2010 í máli nr. 184/2010. Samkvæmt þessu verður hinn kærði úrskurður staðfestur.
Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, Íslandsbanki hf., greiði varnaraðila, SPB hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 2. febrúar 2012.
Mál þetta var þingfest 24. janúar 2011 og tekið til úrskurðar 11. janúar sl.
Sóknaraðili er Íslandsbanki hf., Borgartúni 18, Reykjavík.
Varnaraðili er SPB hf., Rauðarárstíg 27, Reykjavík.
Dómkröfur sóknaraðila eru þær aðallega að krafa hans nr. 178 á kröfuskrá þrotabús varnaraðila að fjárhæð 2.757.120,35 evrur og 62.250 krónur verði viðurkennd sem krafa utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en til vara krefst hann þess að krafan verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. sömu laga. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.
Dómkröfur varnaraðila eru þær að hann verði sýknaður af öllum kröfum sóknaraðila. Þá krefst hann málskostnaðar úr hendi sóknaraðila að teknu tilliti til virðisaukaskatts.
Við aðalmeðferð málsins kom fram að nafni sóknaraðila var breytt úr Byr hf. í Íslandsbanki hf. við sameiningu þessara tveggja félaga.
I
Varnaraðili var um árabil viðskiptabanki og annaðist meðal annars greiðslumiðlun fyrir viðskiptavini sína. Hann var í samstarfi um greiðslumiðlun, meðal annars við þýska bankann Bayerische Landesbank og átti hjá þeim banka gjaldeyrisreikning þar sem evrur voru geymdar sem hann bæði átti sjálfur og annaðist milligöngu um vegna hlutverks síns sem greiðslumiðlunarbanki.
Byr sparisjóður átti gjaldeyrisreikning nr. IG 1100-38-710001 í evrum sem var í vörslu varnaraðila. IG mun standa fyrir ,,innlendir gjaldeyrisreikningar“. Hinn 16. mars 2009 óskaði sóknaraðili eftir því að millifærðar yrðu af þessum reikningi 2.500.000 evrur inn á tiltekinn reikning í eigu Seðlabanka Íslands hjá þýska bankanum Dresdner Bank, en þaðan skyldi greiðslan færast inn á tiltekinn reikning sóknaraðila hjá Seðlabankanum.
Varnaraðili sendi samdægurs út símgreiðslu með SWIFT-skeyti til Bayerische Landesbank. Þar var afhendingardagur greiðslunnar (,,value“) ákveðinn 20. mars 2009. Sama dag og símgreiðslan var send var millireikningur á nafni Byrs sparisjóðs í kerfum varnaraðila, með númerið 0000165SPJEM0EUR75H, skuldfærður um sömu fjárhæð. Að sögn varnaraðila var millireikningurinn eingöngu notaður í bókhaldslegum tilgangi þegar um innlagnir og úttektir af IG-reikningum var að ræða þar sem afhending á erlendum gjaldeyri fari ekki fram fyrr en a.m.k. tveimur dögum eftir að beiðni um millifærslu á sér stað. Því sé eingöngu á þessum reikningi verið að halda utan um beiðnir í kerfum varnaraðila fram að afhendingardegi. Fyrir liggur að á afhendingardegi greiðslunnar, 20. mars 2009, var IG reikningur sóknaraðila skuldfærður og skuld á millireikningi jafnframt sléttuð út.
Hinn 21. mars 2009 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar varnaraðila og ákvað ráðstöfun tiltekinna eigna og skuldbindinga til Seðlabanka Íslands og Nýja Kaupþings banka hf. Hinn 28. mars 2009 tók Fjármálaeftirlitið yfir vald hluthafafundar varnaraðila, vék stjórn hans frá og skipaði honum skilanefnd. Þetta var gert með vísan til þágildandi ákvæða 100. gr. a laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Í millitíðinni, 23. mars 2009, var varnaraðila veitt greiðslustöðvun sem standa átti til 15. júní 2009, en áður en sá tími var á enda, eða 22. apríl 2009, hófst slitameðferð varnaraðila og var honum skipuð slitastjórn 19. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög. Hinn 17. apríl 2009 breytti Fjármálaeftirlitið ákvörðun sinni frá 21. mars 2009, meðal annars með því að Byr sparisjóður yfirtók skuldbindingar varnaraðila gagnvart Allianz og skyldi taka við endurgjaldi fyrir.
Bayerische Landesbank framkvæmdi ekki umbeðna millifærslu til Dresdner Bank og 23. mars 2009 skýrði þýski bankinn varnaraðila frá því að ekki yrði orðið við neinum beiðnum frá varnaraðila á meðan óvissa væri um stöðu hans. Hinn 25. september 2009 greindi Bayerische Landesbank varnaraðila frá því að innstæða á reikningi hans hefði verið notuð til skuldajöfnunar við skuldir hans við bankann. Varnaraðili mótmælti framangreindri skuldajöfnun og mun það ágreiningsefni enn vera óútkljáð.
Frestdagur við slit varnaraðila er 15. desember 2008. Slitastjórn varnaraðila gaf út innköllun til skuldheimtumanna 25. maí 2009. Kröfulýsingarfrestur rann út 3. nóvember 2009. Byr sparisjóður lýsti kröfu í bú varnaraðila að fjárhæð 2.757.120,35 evrur, auk kröfu að fjárhæð 62.250 krónur fyrir ritun kröfulýsingar, sem móttekin var 2. nóvember 2009 af slitastjórn varnaraðila. Var kröfunni lýst sem sértökukröfu sem skipað skyldi í réttindaröð samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.
Slitastjórn varnaraðila hafnaði kröfunni 8. desember 2009 en Byr sparisjóður mótmælti þeirri afstöðu samdægurs. Hinn 2. febrúar 2010 var haldinn fundur vegna ágreinings Byrs sparisjóðs og varnaraðila um viðurkenningu á kröfu sparisjóðsins. Hvorki tókst að jafna ágreininginn á þeim fundi né á framhaldsfundum sem haldnir voru 23. mars, 22. júní og 29. september 2010. Með bréfi slitastjórnar varnaraðila, dagsettu 3. desember 2010 og mótteknu sama dag, var ágreiningi málsaðila um kröfuna beint til Héraðsdóms Reykjavíkur til úrlausnar, sbr. 171. gr. laga nr. 21/1991.
Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins frá 22. apríl 2010 tók sóknaraðili, Byr hf., yfir öll kröfuréttindi Byrs sparisjóðs nema þau sem voru sérstaklega undanskilin. Við aðalmeðferð málsins var upplýst að Byr hf. hefði nú sameinast Íslandsbanka hf. og hefði nafni þess verið breytt í Íslandsbanka hf.
Varnaraðili hét áður Sparisjóðabanki Íslands hf.
II
Sóknaraðili kveðst byggja á því að innstæða hans á IG reikningi nr. 100-38-710001 hjá varnaraðila hafi átt að greiðast að fullu. Nýi Kaupþing banki hf. hafi tekið skuldbindinguna yfir en varnaraðili hafi átt að greiða fyrir hana að fullu. Þegar innstæðan hafi loks verið flutt hafi vantað 2,5 milljónir evra inn á reikninginn.
Sóknaraðili vísi til þess að innstæðan á reikningnum, og sú fjárhæð sem varnaraðili hafi átt að millifæra fimm dögum fyrir þrot bankans, hafi verið innstæður samkvæmt skilgreiningu laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar o.fl. og einnig samkvæmt tilskipun Evrópusambandsins um innstæðutryggingar. Heimild varnaraðila til að draga á reikning sóknaraðila hafi takmarkast við það að færa hann beint inn á reikning Seðlabanka Íslands. Engra milliliða hafi verið þörf og ekkert hindrað að færslan gæti gengið fyrir sig með eðlilegum hætti.
Ekki standist sú skýring varnaraðila að fjárhæðin hafi verið í sjóðum bankans þegar Fjármálaeftirlitið hafi tekið stjórn hans yfir daginn eftir, þar sem greiðslan hafi aldrei farið í sjóði hans. Um beina millifærslu hafi verið að ræða af reikningi varnaraðila inn á reikning seðlabankans. Millifærsla af slíkum reikningi feli, eins og í öllum slíkum viðskiptum, í sér tvær færslur, úttekt og innlegg. Öll bókhaldskerfi geri kröfu um að færslum sé lokið með þeim hætti, að öðrum kosti gangi þær til baka. Úttekt varnaraðila af reikningi sóknaraðila hafi aðeins verið hálfnuð aðgerð. Hafi ekki verið unnt að ljúka færslunni vegna hindrana á hinum endanum hafi úttektin átt að ganga til baka, ekki að leggjast inn á sjóði viðkomandi banka. Því verði að líta svo á að fjárhæðin sé eftir sem áður innstæða þótt hún, af ástæðum sem hafi varðað varnaraðila eingöngu, hafi ekki verið nákvæmlega inni á hinum tilgreinda reikningi þegar varnaraðili hafi farið í þrot.
Sóknaraðili byggi á því að umrædd fjárhæð hafi ekki verið í sjóðum varnaraðila og ekki í bókum hans sem eign eða vörslufé, annars eðlis en innstæða. Fyrirmælin um ráðstöfun hennar hafi verið að færa hana úr því að vera innstæða á einum reikningi yfir í að vera innstæða á öðrum. Hún hafi ekki átt að fá neina aðra meðferð í millitíðinni og hafi aldrei komist í umráð varnaraðila. Í þessu tilviki hafi reikningur sóknaraðila verið skuldfærður en engin debetfærsla hafi átt sér stað. Slíkar aðstæður samræmist fyllilega skilgreiningu 1. mgr. 1. gr. tilskipunar Evrópusambandsins um innstæðutryggingar.
Aðalkrafa sóknaraðila byggist á því að fjárhæðin 2,5 milljónir evra hafi verið innstæða, hvort sem hún hafi verið á tilgreindum reikningi sóknaraðila, eða reynt hafi verið að ljúka færslu hennar með innleggi á reikning seðlabankans, þegar varnaraðili hafi farið í þrot. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi varnaraðila verið gert að greiða kröfuna og honum gert að afhenda eignir sínar til greiðslu á þessari skuldbindingu. Sú réttarstaða sem innstæðum hjá varnaraðila hafi verið sköpuð með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins samræmist best réttarstöðu utan skuldaraðar þar sem bankanum hafi verið gert að ráðstafa öllum eignum sínum fyrst til að ljúka greiðslu þessara krafna að fullu.
Varakrafa sóknaraðila byggist á því að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi skapað kröfum vegna innstæðna hjá varnaraðila rétthæð umfram aðrar kröfur í búið. Fallist dómurinn ekki á að krafa sóknaraðila njóti réttarstöðu utan skuldararaðar, sé þess krafist að hún njóti sömu stöðu og hún hefði notið samkvæmt 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, án tillits til þess hvort sóknaraðili teljist tryggður í skilningi laga nr. 98/1999.
Sóknaraðili styðji kröfur sína við lög nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki og lög nr. 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl. Jafnframt vísi sóknaraðili til laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, auk tilskipunar Evrópusambandsins nr. 31994L0019. Krafa um málskostnað byggist á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 178. gr. laga nr. 21/1991.
III
Varnaraðili vísar til þess að aðila málsins greini einungis á um rétthæð kröfu sóknaraðila. Varnaraðili andmæli því að krafa sóknaraðila geti notið rétthæðar sem krafa utan skuldaraðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. eða sem forgangskrafa á grundvelli 112. gr. sömu laga.
Varnaraðili byggi á því að ekki sé uppfyllt það skilyrði fyrir því að krafan njóti rétthæðar samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 að meint eign eða réttindi séu sérgreind og í vörslum þrotabús. Áður en símgreiðslan hafi verið send til Bayerishce Landesbank 16. mars 2009 hafi varnaraðili gengið úr skugga um að skráð innlán sóknaraðila á IG-reikningi væri nægilegt og að næg innstæða væri jafnframt á gjaldeyrisreikningi varnaraðila hjá Bayerische Landesbank. Umræddir fjármunir hafi þar af leiðandi ekki verið sérgreindir hjá varnaraðila enda kveði IG-reikningur eingöngu á um hver sé fjárhæð innláns sóknaraðila hjá varnaraðila. Fjármunirnir hafi ekki heldur verið sérgreindir á reikningi varnaraðila hjá Bayerische Landesbank enda hafi þar verið fjármunir í eigu varnaraðila og ýmissa viðskiptamanna hans.
Umrædd símgreiðsla hafi falið í sér að féð skyldi flytja af reikningi varnaraðila hjá Bayerische Landesbank yfir á reikning Seðlabanka Íslands hjá Dresdner Bank, sem hafi verið falið að ráðstafa þeim með tilteknum hætti. Féð hafi aldrei verið afhent. Varnaraðili hafi misst vörslu fjármunanna ásamt öðrum fjármunum á reikningnum þegar þýski bankinn hafi hafnað því að verða við fyrirmælum varnaraðila, fryst innstæðuna á reikningnum og skuldajafnað loks fjármununum á honum upp í kröfur sínar á hendur varnaraðila. Skilanefnd varnaraðila hafi þannig aldrei haft umrædda fjármuni í vörslum sínum og ekki heldur slitastjórn varnaraðila, eftir að formleg slitameðferð varnaraðila hafi byrjað 22. apríl 2009 og slitastjórn verið skipuð honum 19. maí sama ár.
Varnaraðili hafni varakröfu sóknaraðila um að krafan eigi að njóta rétthæðar samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sem byggist á því að hún hafi verið innstæða og hafi átt að greiðast að fullu með ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins frá mars og apríl 2009 um yfirtöku skuldbindinga varnaraðila. Varnaraðili vísi til þess að samkvæmt ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins skyldi yfirtaka miðast við stöðu innstæðna á yfirtökudegi. Yfirtökudagur hafi verið 28. apríl 2009 og þá hafi umræddir fjármunir ekki verið í vörslum varnaraðila og geti því ekki notið réttarverndar sem innstæða.
Varnaraðili byggi á því að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi verið framkvæmd þannig varðandi innlánsskuldbindingar sparisjóða að þær hafi verið látnar fylgja bankanúmeraseríunni 1100 þar sem reikningar sparisjóðanna hafi tengst uppgjörskerfum Fjölgreiðslumiðlunar og Seðlabanka Íslands. Byr sparisjóður hafi síðan yfirtekið bankanúmeraseríuna 1100 þegar hann hafi tekið yfir uppgjör á innlendri greiðslumiðlun sparisjóðanna. Fyrir þessa skuldbindingu skyldi Byr sparisjóður fá hluta af því endurgjaldi, sem varnaraðili hafi látið af hendi. Eins og fram komi í ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins hafi innbyrðis skipting þess alfarið verið í höndum Seðlabanka Íslands, Nýja Kaupþings banka hf. (nú Arion banka hf.) og Byrs sparisjóðs. Krafa sóknaraðila geti því ekki notið rétthæðar samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991 á grundvelli 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 6. gr. l. nr. 44/2009. Einnig byggi varnaraðili á því að jafnvel þó að umrædd fjárhæð hefði verið í vörslum varnaraðila þá hefði krafa sóknaraðila ekki notið tryggingaverndar samkvæmt lögum nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, enda undanskilji 6. mgr. 9. gr. laganna innstæður fjármálafyrirtækja tryggingavernd.
Varnaraðili vísi til laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., almennra reglna samninga- og kröfuréttar, laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, laga nr. 98/1999 um innstæðutryggingar og tryggingakerfi fyrir fjárfesta, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu og laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Málskostnaðarkrafa varnaraðila sé byggð á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991. Krafa um virðisaukaskatt byggist á lögum nr. 50/1988 um virðisaukaskatt.
IV
Ágreiningur aðila málsins snýst eingöngu um hvaða stöðu krafa sóknaraðila skuli hafa í skuldaröð við slitameðferð á búi varnaraðila. Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafan verði viðurkennd sem sértökukrafa á grundvelli 109. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en til vara sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. sömu laga. Varnaraðili hefur samþykkt kröfuna sem almenna kröfu samkvæmt 113. gr. laganna, en kostnað sem eftirstæða kröfu samkvæmt 114. gr.
Fyrir liggur að sóknaraðili óskaði 16. mars 2009 eftir því að 2.500.000 evrur yrðu millifærðar af IG-reikningi hans hjá varnaraðila inn á tiltekinn reikning sóknaraðila hjá Seðlabanka Íslands. Elín Þorsteinsdóttir, forstöðumaður reikningshalds varnaraðila, lýsti því fyrir dóminum að varnaraðili hefði átt evrureikning hjá þýska bankanum Bayerische Landesbank þar sem geymdar hefðu verið evrur í eigu varnaraðila og viðskiptavina hans. Ef erlend mynt hafi verið lögð inn á reikning viðskiptamanns hafi hún farið út af reikningi bankans á gjaldeyrisreikning hans hjá erlendum banka. Sá reikningur hafi verið í nafni bankans, en svokallaðir IG-reikningar hafi haldið utan um innstæðu hvers viðskiptamanns á reikningnum. Eiginlegir peningar hafi því verið hjá erlenda bankanum. Í máli Laufeyjar Birnu Ómarsdóttur, sérfræðings í fjárstýringu hjá sóknaraðila, kom fram að sóknaraðila hafi verið ljóst að einhver milliliður hafi þurft að koma að viðskiptunum, en þó hafi honum ekki verið kunnugt um hver það væri. Þá kom fram hjá Önnu Hildu Guðbjörnsdóttur, forstöðumanni erlendrar greiðslumiðlunar hjá sóknaraðila, en varnaraðila á þeim tíma sem um ræðir, að erlendan gjaldeyri þyrfti að geyma hjá erlendum banka. Sérstakt samkomulag hefði verið á milli varnaraðila og sparisjóða um að millifærslur yrðu skuldfærðar á svokölluðum „value“ degi, en ekki sama degi og beðið væri um þær, eins og tíðkaðist með aðra viðskiptavini.
Reikningur sóknaraðila var upphaflega skuldfærður 18. mars 2009 í samræmi við beiðni sóknaraðila um að dagsetningu yrði flýtt, en færslan var bakfærð daginn eftir með vaxtadag 18. mars. Ekkert liggur fyrir um hvers vegna þessi færsla fór fram. Reikningurinn var aftur skuldfærður 20. mars 2009, en fjárhæðin skilaði sér ekki inn á reikning sóknaraðila hjá Seðlabanka Íslands þar sem Bayerische Landesbank framkvæmdi ekki millifærsluna.
Aðalkrafa sóknaraðila um að krafa hans verði viðurkennd sem sértökukrafa samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 byggist á því að um innstæðu hafi verið að ræða, hvort sem hún hafi verið á reikningi sóknaraðila, eða reynt hafi verið að ljúka færslu hennar með innleggi á reikning seðlabankans, þegar varnaraðili hafi farið í þrot. Með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi varnaraðila verið gert að greiða kröfuna og honum gert að afhenda eignir sínar til greiðslu á þessari skuldbindingu. Sú réttarstaða sem innstæðum hjá varnaraðila hafi verið sköpuð með ákvörðun Fjármálaeftirlitsins samræmist best réttarstöðu utan skuldaraðar þar sem bankanum hafi verið gert að ráðstafa öllum eignum sínum fyrst til að ljúka greiðslu þessara krafna að fullu.
Samkvæmt 109. gr. laga nr. 21/1991 skal afhenda eign eða réttindi í vörslum þrotabús þriðja manni ef hann sannar eignarrétt sinn að þeim. Öðrum rétthöfum skal með sama hætti afhenda eignir eða réttindi sem þrotabúið á ekki tilkall til. Þegar krafa er gerð um afhendingu eignar úr þrotabúi á grundvelli þessarar lagagreinar hefur í framkvæmd verið talið að sá sem krefjist hennar þurfi að sýna fram á eignarrétt að henni og að féð þurfi að liggja sérgreint í vörslum búsins. Innstæða á innlánsreikningi hefur ekki verið talin fela í sér sérgreiningu á ákveðnum fjármunum í vörslu fjármálafyrirtækis heldur greiðslukröfu á hendur því, sbr. meðal annars dóm Hæstaréttar í málinu nr. 656/2011. Þykir ekki unnt að fallast á að skilyrði séu uppfyllt til þess að sóknaraðili geti, á grundvelli 1. mgr. 109. gr. laga nr. 21/1991, krafist afhendingar fjárins frá varnaraðila á grundvelli eignarréttar yfir peningum í vörslum hans. Verður aðalkröfu sóknaraðila því hafnað.
Varakrafa sóknaraðila, um að krafan verði viðurkennd sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, byggist á því að ákvörðun Fjármálaeftirlitsins hafi skapað kröfum vegna innstæðna hjá varnaraðila rétthæð umfram aðrar kröfur, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Samkvæmt ákvörðunum Fjármálaeftirlitsins skyldu innstæður flytjast yfir miðað við stöðu og vexti á yfirtökudegi. Á þeim degi, 28. apríl 2009, hafði reikningur sóknaraðila verið skuldfærður og var því ekki um innstæðu að ræða, en með innstæðu er vísað til kröfu á banka í formi veltu- eða sparifjárreikninga, sbr. 3. mgr. 9. gr. laga nr. 98/1999 og dóm Hæstaréttar í málinu nr. 175/2011. Þá er ljóst að krafa sóknaraðila nýtur ekki tryggingaverndar laga nr. 98/1999, sbr. 6. mgr. 9. gr. laganna. Getur krafan því ekki notið rétthæðar sem forgangskrafa samkvæmt 112. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, og verður varakröfu sóknaraðila því jafnframt hafnað.
Eftir þessum úrslitum verður sóknaraðila gert að greiða varnaraðila málskostnað sem þykir, eftir atvikum og með hliðsjón af umfangi málsins, vera hæfilega ákveðinn 300.000 krónur.
Barbara Björnsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp þennan úrskurð.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð:
Kröfum sóknaraðila, Íslandsbanka hf., á hendur varnaraðila, SPB hf., er hafnað.
Sóknaraðili greiði varnaraðila 300.000 krónur í málskostnað.