Hæstiréttur íslands

Mál nr. 73/2000


Lykilorð

  • Fiskveiðistjórn
  • Veiðileyfi
  • Ólögmætur sjávarafli
  • Gjaldtaka
  • Frávísunarúrskurður staðfestur
  • Málshöfðunarfrestur
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 15

 

Fimmtudaginn 15. júní 2000.

Nr. 73/2000.

Íslenska ríkið

(Guðrún Margrét Árnadóttir hrl.

Ásdís Rafnar hdl.)

gegn

Vinnslustöðinni hf.

(Helgi Jóhannesson hrl.

Baldvin Hafsteinsson hdl.)

                                                

Fiskveiðistjórn. Veiðileyfi. Ólögmætur sjávarafli. Gjaldtaka. Frávísunarúrskurður staðfestur. Málshöfðunarfrestur. Sératkvæði.

 

Skip V hafði leyfi til veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum á grundvelli reglugerðar nr. 190/1997, sem sett var með stoð í lögum nr. 38/1990 og lögum nr. 151/1996. Í 4. gr. reglugerðarinnar kom fram að skipum, sem leyfi hefðu til veiðanna, væri heimilt að veiða 233.000 lestir af síld á árinu. Þá var kveðið á um í reglugerðinni að Fiskistofa (F) myndi þegar áætlað leyfilegt heildarveiðimagn væri að nást fella úr gildi öll leyfi til síldveiða. Sjávarútvegsráðherra breytti reglugerðinni með reglugerð nr. 323/1997 og þar var kveðið á um að við fyrstu löndun eftir 31. maí féllu úr gildi veiðileyfi þeirra skipa, sem áður hefðu landað síld úr stofninum. Síðar setti ráðherra reglugerðir nr. 339/1997 og 478/1997, en í síðastnefndu reglugerðinni segir að landi skip ekki fullfermi í fyrstu löndun eftir 31. maí 1997 sé því heimilt að fara í fleiri veiðiferðir, enda færi samanlagður afli þess eftir 31. maí ekki yfir það magn, sem mest hefði verið landað úr því skipi á síldarvertíðinni fyrir þann tíma. Skip V veiddi 5283 lestir á vertíðinni. Mestur afli í einni veiðiferð var 1634 lestir. Eftir 31. maí fór skipið tvær veiðiferðir og landaði alls 2443 lestum, sem var 809 lestum umfram heimild, sbr. 1. gr. reglugerðar nr. 478/1997. Í janúar 1998 tilkynnti F V um þetta og að til stæði að leggja á hann sérstakt gjald vegna umframaflans, sbr. heimild 4. gr. reglugerðar nr. 190/1997, sbr. 12. gr. laga nr. 151/1996 og laga 1. gr. 37/1992 um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Mótmælti V gjaldinu, en greiddi það með fyrirvara og höfðaði síðan mál til endurgreiðslu á fjárhæðinni. Talið var að meginreglan væri sú að öllum íslenskum skipum væru heimilar veiðar utan lögsögu Íslands með þeim takmörkunum, sem settar væru að lögum. Í 4. gr. laga nr. 151/1996 komi skýrt fram, að sjávarútvegsráðherra skuli binda veiðar íslenskra skipa á úthafinu sérstökum leyfum við ákveðnar aðstæður. Sé ekki umdeilt að slíkar aðstæður hafi verið fyrir hendi um norsk-íslenska síldarstofninn við setningu reglugerðar nr. 190/1997. Þá var talið ótvírætt að ráðherra hefði verið heimilt að setja nauðsynleg skilyrði fyrir útgáfu leyfanna. Talið var að heimildir skips V til frekari veiða en gert var ráð fyrir í reglugerð nr. 323/1997 væru ívilnandi ráðstöfun útgerðinni til handa. Voru veiðar skipsins eftir 31. maí 1997 umfram það magn, sem mest hafði verið landað úr einni veiðiferð á vertíðinni, taldar fara í bága við skilyrði, sem sett voru samkvæmt 4. gr. laga nr. 151/1996, og því ólögmætar. Var íslenska ríkið sýknað af öllum kröfum V.

 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 24. febrúar 2000. Hann krefst þess aðallega, að hinum áfrýjaða úrskurði verði hrundið og hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað frá héraðsdómi. Til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum stefnda. Í báðum tilvikum er krafist málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til þrautavara krefst áfrýjandi lækkunar stefnufjárhæðar og niðurfellingar málskostnaðar á báðum dómstigum.

Stefndi krefst þess, að aðalkröfu áfrýjanda verði hrundið og héraðsdómur staðfestur. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Í héraði var Fiskistofu stefnt til endurgreiðslu á álögðu gjaldi samkvæmt 2. mgr. 1. gr. laga nr. 37/1992 um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla en sjávarútvegsráðherra fyrir hönd íslenska ríkisins einungis til réttargæslu. Samkvæmt 3. mgr. 1. gr. laganna skal gjald þetta renna í sérstakan sjóð í vörslu sjávarútvegsráðuneytisins og skal verja fé úr honum í þágu hafrannsókna og eftirlits með fiskveiðum eftir nánari ákvörðun sjávarútvegsráðherra. Hann hefur því ákvörðunarvald um þá hagsmuni stefnda, sem sakarefnið varðar, og hefði verið rétt að stefna honum einum fyrir hönd íslenska ríkisins, sbr. 5. mgr. 17. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Af hálfu ríkisins var þó tekið til varna í héraði samhliða Fiskistofu og stendur það jafnframt að áfrýjun málsins. Hefur áfrýjandi þannig verið í  fyrirsvari í málinu frá upphafi og verða þessir stefnuhættir þá ekki látnir varða stefnda réttarspjöllum.

II.

Með úrskurði héraðsdóms 9. september 1999 var þeirri kröfu áfrýjanda hafnað, að málinu yrði vísað frá dómi, þar sem liðinn væri málshöfðunarfrestur 4. mgr. 10. gr. laga nr. 37/1992. Með skírskotun til forsendna úrskurðarins verður hann staðfestur.

III.

Atvikum málsins er lýst í héraðsdómi og varða þau veiðar skips stefnda, Sighvats Bjarnasonar VE 81, á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum vorið og sumarið 1997. Ágreiningur aðila lýtur að því, hvort 4. gr. reglugerðar nr. 190/1997 um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum 1997 með síðari breytingum hafi brostið lagastoð og álagning gjalds á stefnda samkvæmt 1. gr. laga nr. 37/1992 verið ólögmæt. Stefndi telur, að veiðum hafi borið að stjórna á grundvelli 6. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands en ekki aðeins 4. gr. laganna, eins og gert var.                  

IV.

 Í 1. mgr. 4. gr. laga nr. 151/1996 segir, að öllum íslenskum skipum séu heimilar veiðar utan lögsögunnar með þeim takmörkunum, sem leiðir af lögum og reglum settum með stoð í þeim. Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. skal ráðherra með reglugerð binda veiðar íslenskra skipa á úthafinu sérstökum leyfum, sé það nauðsynlegt vegna alþjóðlegra samningsskuldbindinga Íslands, til þess að fullnægja almennum skyldum ríkisins til verndunar lifandi auðlindum hafsins, sbr. 3. gr., eða til að vernda hagsmuni Íslands að því er varðar fiskstofna, sem um ræðir í 5. gr. laganna. Í þessum tilvikum eru veiðar óheimilar án slíkra leyfa og skulu þau bundin þeim skilyrðum, sem nauðsynleg eru.

  Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 kemur fram, að um veiðar utan lögsögu Íslands úr stofnum, sem veiðast bæði innan og utan hennar, íslenskum deilistofnum, skuli gilda ákvæði laga um stjórn fiskveiða, eftir því sem við geti átt. Sé tekin ákvörðun um að takmarka heildarafla úr slíkum stofni, sem samfelld veiðireynsla sé á, mælir 2. mgr. 5. gr. laganna fyrir um ákvörðun aflahlutdeildar einstakra skipa á grundvelli veiðireynslu þeirra miðað við þrjú hin bestu af undangengnum sex veiðitímabilum. Í 6. mgr. 5. gr. segir, að sé ekki fyrir hendi samfelld veiðireynsla úr viðkomandi stofni, skuli ráðherra ákveða aflahlutdeild einstakra skipa. Við þá ákvörðun skuli hann meðal annars taka mið af fyrri veiðum skips en geti einnig miðað við stærð skipsins, gerð þess og búnað og önnur atriði, er máli skipti. Þá er í ákvæðinu heimild til handa ráðherra til að ráðstafa veiðiheimildum til skipa þeirra útgerða, sem á móti afsala af viðkomandi skipi mestum aflaheimildum á tegundum, sem heildarafli er takmarkaður af.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 190/1997, sem sett var með stoð í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða og lögum nr. 151/1996, skyldi þeim skipum, er leyfi hlytu til síldveiða, heimilt á árinu 1997 að veiða 233.000 lestir af síld úr norsk-íslenska síldarstofninum, en það var það aflamagn, er kom í hlut Íslands í samningum strandríkjanna. Síðan var svo kveðið á, að Fiskistofa myndi fella öll leyfi til síldveiða úr gildi með tilkynningu í útvarpi eða til strandstöðva, þegar hún áætlaði, að leyfilegt heildarveiðimagn væri að nást.

Eins og rakið er í héraðsdómi var í lok maí litið svo á, að eftirstöðvar aflamagnsins myndu nægja hverju skipi til að fara eina veiðiferð og ná fullfermi. Sjávarútvegsráðherra breytti því áðurnefndri reglugerð með reglugerð nr. 323/1997 og var í henni kveðið svo á, að veiðileyfi síldarskipanna féllu úr gildi við fyrstu löndun eftir 31. maí 1997. Með breytingarreglugerð nr. 339/1997 var skipi heimilað að fara í aðra veiðiferð, ef það landaði ekki fullfermi í fyrstu löndun eftir 31. maí, en samanlagður afli skipsins úr þessum tveimur veiðiferðum mátti þó ekki fara yfir það magn, sem það hefði mest landað úr einni veiðiferð á síldarvertíðinni til þessa. Enn var vertíðin lengd með breytingarreglugerð nr. 478/1997, þar sem skipi var með sömu skilmálum heimilað að fara í fleiri en eina veiðiferð til viðbótar.

Óumdeilt er, að skipið Sighvatur Bjarnason VE 81 veiddi alls 5283 lestir af síld úr norsk-íslenska síldarstofninum á vertíðinni 1997, en mestur afli þess í einni veiðiferð nam 1634 lestum. Eftir 31. maí fór það í tvær veiðiferðir og landaði alls 2443 lestum, sem voru 809 lestir umfram heimildir í framangreindum reglugerðum.

V.

Samkvæmt framansögðu er meginreglan sú, að öllum íslenskum skipum eru heimilar veiðar utan lögsögu Íslands með þeim takmörkunum, sem settar eru að lögum. Ísland hafði gengist undir þá alþjóðlegu samningsskuldbindingu, að veiðar íslenskra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum færu ekki umfram 233.000 lestir á síldarvertíðinni, sem hófst 3. maí 1997, sbr. 2. gr. og 4. gr. reglugerðar nr. 190/1997. Til frekari takmarkana á heildarafla úr þessum stofni var ekki gripið, þannig að reyndi á 6. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996. Í 4. gr. laganna kemur hins vegar skýrlega fram, að sjávarútvegsráðherra skuli binda veiðar íslenskra skipa á úthafinu sérstökum leyfum við ákveðnar aðstæður. Ekki er umdeilt í málinu, að slíkar aðstæður hafi verið fyrir hendi um norsk-íslenska síldarstofninn við setningu reglugerðar nr. 190/1997. Þá er ótvírætt, að ráðherra var heimilt að setja nauðsynleg skilyrði fyrir útgáfu leyfanna. Það gerði hann í reglugerðinni með þeim áskilnaði, að leyfi yrðu felld úr gildi með tilkynningu Fiskistofu, þegar uggvænt þætti, að leyfilegt heildarveiðimagn væri að nást. Áður en til þess kom breytti ráðherra reglugerðinni tvívegis, 28. maí og 6. júní 1997, og skilyrti lok veiðanna við tiltekið aflamagn eftir 31. maí 1997, eins og að framan greinir. Var síðari reglugerðarbreytingin gerð tveimur dögum fyrir fyrstu löndun Sighvats Bjarnasonar VE 81 eftir 31. maí 1997 og verður að líta á heimild skipsins til frekari veiða en gert var ráð fyrir í reglugerð nr. 323/1997 sem ívilnandi ráðstöfun útgerðinni til handa. Veiðar skipsins eftir þetta umfram það magn, sem mest hafði verið landað úr einni veiðiferð á síldarvertíðinni, fóru í bága við þau skilyrði, sem sett voru samkvæmt 4. gr. laga nr. 151/1996, og voru því ólögmætar. Ber þannig að sýkna áfrýjanda af öllum kröfum stefnda.

Eftir þessum úrslitum þykir rétt, að stefndi greiði áfrýjanda málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti, eins og segir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði úrskurður er staðfestur.

Áfrýjandi, íslenska ríkið, er sýkn af kröfum stefnda, Vinnslustöðvarinnar hf.

Stefndi greiði áfrýjanda samtals 500.000 krónur í málskostnað í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

Sératkvæði

Hjartar Torfasonar

Ég er samþykkur I. - IV. kafla í atkvæði annarra dómenda.

Lög nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands virðist eiga að skilja svo, að 4. gr. geymi grundvallarákvæðin um rétt til þeirra veiða á íslenskum skipum og heimildir og skyldur sjávarútvegsráðherra til að binda þær leyfum og hafa þær undir opinberri stjórn að öðru leyti. Þessi ákvæði standi þó ekki ein, heldur í beinum tengslum við ákvæði 5. gr. og 6. gr., þar sem fjallað er annars vegar um veiðar utan lögsögunnar á íslenskum deilistofnum, sem veiðast bæði innan og utan hennar, og hins vegar um aðrar veiðar utan lögsögunnar, þar sem á reynir um nauðsyn til takmörkunar heildarafla úr tilteknum stofnum. Þegar ráðherra ákveður leyfisbindingu veiða úr fiskistofnum á úthafinu samkvæmt 2. mgr. 4. gr. hafi hann þannig ekki óheft svigrúm til mats um það, hvaða skilyrðum kunni að vera nauðsynlegt að binda leyfin, heldur þurfi hann einnig að líta til ákvæða 5. gr. og/eða 6. gr., þar sem mælt er um, hvernig standa skuli að stjórn á veiðum, sem háðar eigi að vera takmörkun heildarafla. Jafnframt þurfi hann að líta til laga um stjórn fiskveiða innan lögsögunnar, þegar deilistofnar eigi í hlut, sbr. 1. mgr. 5. gr.

Af orðum og markmiðum laganna  verður ekki séð, að unnt sé í þessu tilliti að gera greinarmun á aflatakmörkun, sem ákveðin er með samningi Íslands við önnur ríki, og takmörkunum, sem ráðherra ákveði að eigin frumkvæði vegna verndunarþarfa eða annarrar nauðsynjar. Hinn svonefndi norsk-íslenski síldarstofn, sem hér er um deilt, var þannig háður aflatakmörkun, þar sem umsaminn hlutur Íslands í heildarveiði á stofninum var hámarkið. Hefði samfelld reynsla verið á veiði úr honum, þegar fjalla þurfti um leyfi til veiða á árinu 1997, hefði ráðherra því að öðru jöfnu verið bundinn af ákvæðum 2. mgr. 5. gr. við ákvörðun um það, hvernig haga skyldi veiðum á þeim hlut úr stofninum, sem Íslandi stóð til boða. Óumdeilt er, að svo var ekki, en af því leiddi, að ráðherrann þurfti að líta til fyrirmæla 6. mgr. 5. gr. við þessa ákvörðun.

Ákvæði 6. mgr. 5. gr. um stjórn veiða úr deilistofni, þar sem samfelldrar veiðireynslu nýtur ekki við, gera ráð fyrir, að hún fari eigi að síður fram með úthlutun aflahlutdeildar til einstakra skipa, eftir aðferðum að vali ráðherra, sem þar eru tekin dæmi um. Telur stefndi, að þau hafi verið tæmandi um heimildir ráðherra til að ákvarða tilhögun síldveiða ársins 1997. Svo var þó ekki í raun réttri, og má meðal annars ráða það af greinargerð þeirri, er fylgdi frumvarpi til laganna á sínum tíma. Þar var beinlínis tekið fram í umsögn um 6. mgr. 5. gr., að við framkvæmd á ákvæðum hennar bæri að líta til þeirra athugasemda, sem fram væru settar um 1. mgr. 6. gr. frumvarpsins, en í þeim væri þó ekki tæmandi talið, hvaða viðmiðanir ráðherra gæti lagt til grundvallar við úthlutun veiðiheimilda og hvaða aðferðum hann gæti þar beitt. Var greinilega gefið til kynna, að rýmkandi skýring á 6. mgr. 5. gr. ætti við.

Þessar athugasemdir styðja að vísu málstað stefnda að því leyti, að þar var einnig við það miðað að öðru jöfnu, að úthlutun aflahlutdeildar til einstakra skipa yrði grundvallarþáttur í stjórn veiða úr deilistofnum, þar sem heildarafli væri takmarkaður. Þeim mögulega skilningi, að ráðherra ætti að vera við þetta bundinn í öllum tilvikum, var hins vegar rutt til hliðar í meðförum málsins á Alþingi, þar sem hinn norsk-íslenski síldarstofn var meðal þess, er sérstaklega var um fjallað. Má einkum ráða þetta af áliti meiri hluta sjávarútvegsnefndar, sem mælti með samþykkt frumvarpsins með tilteknum fyrirvara um skilning á ákvæðum þess. Var fyrirvarinn aðallega á þá leið, að veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum yrðu „á grundvelli leyfa til veiðanna á sambærilegum forsendum og verið hafa“, og að veiðireynsla úr þessum stofni „myndi ekki grunn að fastri aflahlutdeild“. Enginn vafi er á því, að þetta efni nefndarálitsins hafi átt stuðning þorra þingmanna og verið meðal forsendna þess, að frumvarpið varð að lögum. Verður vilji löggjafans að þessu leyti enn síður dreginn í efa  þegar þess er gætt, að Alþingi samþykkti sérstök lög um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum aðeins tveimur árum síðar, sbr. lög nr. 38/1998. Var það upphaf þeirra laga, að ákvæði 5. gr. laga nr. 151/1996 skyldu ekki gilda um úthlutun veiðiheimilda úr þessum stofni.

Í ljósi þessarar afstöðu löggjafans við samþykkt laga nr. 151/1996 verða ákvæði 6. mgr.  5. gr. þeirra ekki skilin á annan veg en þann, að ráðherra hafi verið fullheimilt að leyfa veiðar á gildissviði þessarar málsgreinar með annarri tilhögun en þeirri, að úthlutað yrði aflahlutdeild til einstakra skipa, sem ákveðin væri fyrirfram og að öðru leyti sambærileg við venjulega aflahlutdeild eftir lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Að minnsta kosti hafi það átt við um hinn norsk-íslenska síldarstofn, sem greinilega var talinn hafa nokkra sérstöðu meðal íslenskra deilistofna. Hafi í raun verið til þess ætlast, að skipan veiða úr þessum stofni yrði í öðrum farvegi fyrst um sinn.

Samkvæmt 4. gr. reglugerðar nr. 190/1997 var ákvörðun ráðherra um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum vorið 1997 á þá leið, að ekki væri nauðsynlegt að binda leyfi til veiðanna öðrum skilyrðum en því, að ekki yrði farið fram úr því heildarveiðimagni, sem komið hefði í hlut Íslands í samningum við önnur ríki, 233.000 lestum. Síðari breytingar á reglugerðinni breyttu ekki þessari megintilhögun, þ.e. að veiðar leyfishafa skyldu vera frjálsar að þessu marki, heldur var reglugerðin einungis löguð að því, hvernig til tókst um að ná markinu. Ákvörðunin studdist við efnislega lögmæt sjónarmið, sem áfrýjandi hefur gert viðhlítandi grein fyrir, og átti nægilega stoð í ákvæðum 4. gr. og 5. gr. laga nr. 151/1996, svo sem þau hafa hér verið skýrð. Veiðar á skipi stefnda í júní 1997 voru því ólögmætar að því leyti, sem afli varð umfram mögulegan hlut þess í umræddu heildarmagni. Telja verður og, að stefnda og skipstjóra hans hafi verið ljóst, hvar mörkin lágu.

Á þessum forsendum er ég sammála niðurstöðu annarra dómenda.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 29. nóvember 1999.

I

   Mál þetta, sem dómtekið var að loknum munnlegum málflutningi 1. nóvember sl. er höfðað með stefnu, sem árituð er um viðtöku 21. september 1998.

   Stefnandi er Vinnslustöðin hf., kt. 700269-3299, Hafnargötu 2, Vestmannaeyjum.

   Stefndi er Fiskistofa, kt. 660892-2069, Ingólfsstræti 1, Reykjavík. Þá er sjáv­ar­út­vegs­ráðherra, fyrir hönd íslenska ríkisins, stefnt til réttargæslu.

   Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að viðurkennt verði með dómi að álagning gjalds, sem lagt var á hann vegna meints umframafla Sighvats Bjarnasonar VE-81 úr norsk-íslenska síldarstofninum, hafi verið ólögmæt þar sem fullnægjandi lagastoð hafi skort fyrir álagningu þess. Í öðru lagi krefst stefnandi þess að stefndi endurgreiði sér 4.854.500 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. mars 1998 til 30. apríl sama ár en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar.

   Stefndi krafðist aðallega frávísunar en þeirri kröfu var hafnað með úrskurði 9. sept­ember sl. Í þessum þætti málsins krefst stefndi sýknu og málskostnaðar en til vara að stefnukröfurnar verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

   Engar kröfur eru gerðar á hendur réttargæslustefnda en hann hefur sótt þing og gerir sömu kröfur og stefndi.

 

II

   Ágreiningsefni málsaðila snýst um veiðar skips stefnanda, Sighvats Bjarnasonar VE-81, á síld úr norsk-íslenska síldarstofninum vorið og sumarið 1997. Sjávar­út­vegs­ráð­herra setti reglugerð um veiðarnar 17. mars þ.á. og er hún nr. 190/1997. Reglu­gerðin var sett með stoð í lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða og lögum nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands. Samkvæmt 1. gr. reglugerðarinnar þurfti leyfi stefnda til veiðanna og er óumdeilt að skip stefnanda hafði það. Í 4. gr. reglu­gerðarinnar segir að skipum þeim, er leyfi hafi til veiðanna, sé heimilt að veiða 233 þúsund lestir af síld úr þessum stofni á árinu. Síðan segir: „Þegar Fiskistofa áætl­ar að leyfilegt heildarveiðimagn sé að nást fellir hún öll leyfi til síldveiða úr gildi með til­kynningu í útvarpi eða til strandstöðva. Veiðar eftir að leyfi eru felld úr gildi varða við­urlögum samkvæmt ákvæðum 7. gr. reglugerðar þessarar auk upptöku andvirðis ólög­mæts afla samkvæmt lögum nr. 37/1992.”

   Samkvæmt gögnum málsins munu veiðarnar hafa gengið vel og á sjó­manna­dag­inn reiknaðist stefnda svo til að eftirstöðvar kvótans nægðu hverju skipi, er leyfi hafði, til að fara eina veiðiferð, næði það þá fullfermi. Sjávarútvegsráðherra breytti því reglu­gerðinni með reglugerð nr. 323/1997 og er í henni kveðið svo á að við fyrstu lönd­un eftir 31. maí falli úr gildi veiðileyfi þeirra skipa, sem áður höfðu landað síld úr stofn­inum á yfirstandandi vertíð.

   Nú brá hins vegar svo við að veiðarnar gengu ekki sem skyldi og setti sjáv­ar­út­vegs­ráðherra tvær reglugerðir, fyrst nr. 339/1997 og síðar nr. 478/1997, er felldi þá fyrri úr gildi, er kváðu á um hvernig flotanum væri heimilt að ljúka veiðum á þessari ver­tíð. Í 1. gr. reglugerðar nr. 478/1997 segir: „Landi skip ekki fullfermi í fyrstu lönd­un eftir 31. maí 1997, er því heimilt að fara í fleiri veiðiferðir, enda fari sam­an­lagð­ur afli þess eftir 31. maí ekki yfir það magn sem mest hefur verið landað úr því skipi á síldarvertíðinni fyrir þann tíma.”

   Óumdeilt er að skip stefnanda veiddi alls 5283 lestir á vertíðinni. Mestur afli í einni veiðiferð var 1634 lestir. Eftir 31. maí fór það í tvær veiðiferðir og landaði alls 2443 lestum, sem voru 809 lestir umfram heimild, sbr. nefnda 1. gr. reglugerðar nr. 478/1997.

   Með bréfi 20. janúar 1998 tilkynnti stefndi stefnanda um þetta og jafnframt að til stæði að leggja á hann sérstakt gjald vegna umframaflans og vísaði til heimildar í 4. gr. reglugerðar nr. 190/1997, sbr. 12. gr. laga nr. 151/1996 svo og til laga nr. 37/1992 um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla. Var stefnanda gefinn kostur á að gera at­hugasemdir varðandi magntölur og verðið á aflanum, sem stefndi lagði til grund­vall­ar. Stefnandi gerði ekki tölulegar athugasemdir við niðurstöðu stefnda en mótmælti grund­velli álagningarinnar með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga 151/1996. Taldi hann afla­út­hlutunarkerfið, sem byggðist á reglugerð nr. 190/1997, ekki eiga sér lagastoð. Stefndi hafnaði þessum sjónarmiðum og lagði gjald á stefnanda, sem nemur stefnu­fjár­hæðinni. Stefnandi greiddi gjaldið 30. mars 1998 með fyrirvara um lögmæti álagn­ingarinnar.

   Fyrri hluta árs 1998 var málið til kærumeðferðar innan stjórnsýslunnar og var kröf­um stefnanda hafnað á öllum stigum. Höfðaði hann þá mál þetta til endurgreiðslu á fjárhæðinni.

 

III

   Stefnandi byggir málatilbúnað sinn á þeirri málsástæðu að tiltekin ákvæði reglu­gerð­ar nr. 190/1997, um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum, með síðari breyt­ingum, sem kveða á um úthlutun aflaheimilda úr stofninum, sé ekki gild réttar­heim­ild að íslenskum rétti þar sem ákvæði reglugerðarinnar skorti efnislega lagastoð og á grundvelli slíkrar réttarheimildar verði ekki lagt gjald á stefnanda.

   Reglugerð nr. 190/1997 sé sett með heimild í lögum nr. 151/1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands og lögum nr. 38/1990 um stjórn fiskveiða. Í þeim lögum sé lög­fest sú grundvallarregla að hlutdeild í heildarafla úr viðkomandi fiskistofni sé úthlutað sér­staklega til einstakra skipa samkvæmt ákvörðun ráðherra og á grundvelli veiði­reynslu, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996. Eins og sjá megi af orðalagi greinarinnar sé ráðherra skylt að ákveða aflahlutdeild úr viðkomandi stofni til einstakra skipa, sé ekki fyrir hendi samfelld veiðireynsla. Samfelld veiðireynsla úr norsk-íslenska síld­ar­stofn­inum hafi ekki verið fyrir hendi á þeim tíma sem Sighvatur Bjarnason VE-81 veiddi og til umfjöllunar er í málinu. Þessi grundvallarregla sé síðan ítrekuð í at­huga­semd­um við 6. gr. frumvarps til laga um fiskveiðar utan lögsögu Íslands en þar segi, „þegar ekki er um að ræða veiðireynslu sem telst samfelld skal ráðherra skv. 5. mgr. engu að síður ákveða aflahlutdeild einstakra skipa.“ Varðandi frekari viðmiðanir fyrir ráð­herra sem honum beri að leggja til grundvallar við úthlutun aflaheimilda og hafa til hlið­sjónar við val á aðferðum, sem beita skuli við slíka úthlutun, sé vísað til at­huga­semda við 1. mgr. 5. gr. frumvarpsins. Samkvæmt henni skulu gilda ákvæði laga nr. 38/1990 um veiðar utan lögsögu Íslands úr stofnum, sem veiðast bæði innan og utan hennar, úr íslenskum deilistofnum, þó með hliðsjón af öðrum ákvæðum greinarinnar. Í athugasemdum við 1. mgr. 5. gr. segi að í 1. málsgrein sé lagt til að ákvæði laga um stjórn fiskveiða gildi eftir því sem við geti átt um veiðar utan íslensku lögsögunnar úr íslenskum deilistofnum, það er stofnum sem veiðast bæði innan og utan lög­sögu­mark­anna. Þá segi að telja verið mjög æskilegt að samræmd stjórn gildi um veiðar á slík­um stofnum hvort sem þær fari fram innan eða utan lögsögu. Þannig hafi verið farið með mál er varði nýtingu loðnustofnsins og þar hafi kvóta verið úthlutað til skipa án til­lits til þess hvort hann sé veiddur innan eða utan lögsögumarka og gildi allar sömu regl­ur um veiðarnar án tillits til þess hvar þær fari fram.

   Úthlutun aflaheimilda samkvæmt reglugerð nr. 190/1997 sem sett var á grund­velli laga nr. 38/1990 og laga nr. 151/1996 geri hins vegar ekki ráð fyrir úthlutun á afla­hlutdeild til einstakra skipa, heldur kveði hún á um úthlutun á heildarafla til alls flot­ans án takmarkana á hvert skip, sbr. 4. gr. reglugerðarinnar. Stefnandi heldur því fram að þessi regla um úthlutun aflaheimilda sé algjörlega á skjön við grund­vall­ar­regl­ur framangreindra laga þó svo að reglugerðin sé sett með stoð í þeim. Telur stefnandi því að þau ákvæði reglugerðarinnar sem mæli fyrir um úthlutun aflaheimilda, og fari þvert gegn þeim grundvallarreglum sem lögfestar séu í hinum settu lögum sem reglu­gerð­in byggist á, séu ekki gildandi réttarheimildir að íslenskum rétti sem byggja megi á, þar sem þau eigi sér ekki efnislega lagastoð og uppfylli þar með ekki þær kröfur sem svokölluð lögmætisregla geri til réttarreglna samkvæmt íslenskum stjórnarfars- og stjórn­skipunar­rétti.

   Við lögfestingu reglugerða, sem settar séu með heimild í settum lögum, verði að gera þær kröfur að þær uppfylli þau skilyrði sem áðurnefnd lögmætisregla leggi lög­gjaf­anum og stjórnsýslustofnunum á herðar. Lögmætisreglan feli það meðal annars í sér að þegar stjórnvald setji reglur á grundvelli settra laga, þá verði þær reglur að eiga sér ótvíræða stoð í lögum. Með því sé átt við að þær verði að eiga sér formlega og efn­islega lagastoð. Enginn vafi leiki á því í þessu máli að reglugerð nr. 190/1997 sé lög­fest á stjórnskipulegan hátt að forminu til. Hins vegar telur stefnandi hina efn­is­legu annmarka hennar svo verulega að lagastoð skorti algjörlega fyrir henni. Sú regla sem fram komi í 4. gr. reglugerðarinnar og kveði á um úthlutun á heildarafla til alls flotans í stað þess að úthluta aflahlutdeild í fiskistofni til einstakra skipa, eins og hin settu lög geri ráð fyrir, rúmist engan veginn innan efnismarka þeirra laga sem reglan er sett með stoð í, uppfylli ekki kröfur lögmætisreglunnar og sé því ekki gildandi rétt­ar­heimild að íslenskum rétti.

   Þá bendir stefnandi á að 8. maí 1998 hafi verið samþykkt lög á Alþingi um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum og í 1. gr. þeirra segi „ákvæði 5. gr. laga nr. 151/ 27. desember 1996, um fiskveiðar utan lögsögu Íslands gilda ekki um úthlutun veiði­heimilda úr norsk-íslenska síldarstofninum.” Í athugasemdum við 1. gr. frum­varps­ins segi að samkvæmt 4. gr. laga nr. 151/1996 skuli sjávarútvegsráðherra binda veiðar íslenskra skipa á úthafinu sérstökum leyfum sé það nauðsynlegt vegna al­þjóð­legra samningsskuldbindinga Íslands. Skuli leyfin bundin skilyrðum sem nauðsynleg séu. Þá segir að á vertíðinni 1997 hafi veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum verið leyf­isbundnar á grundvelli þessara heimilda. Öll skip sem leyfi höfðu til veiða í at­vinnu­skyni hafi átt kost á leyfi til síldveiðanna. Að öðru leyti miði stjórn síldveiðanna fyrst og fremst að því að tryggja að heildarafli íslenskra skipa fari ekki yfir leyfilegt heild­armagn. Hafi því hvorki komið til úthlutunar aflahlutdeildar né aflamarks til ein­stakra skipa. Flestir séu sammála um að sú leið sem farin var við stjórn veiðanna á þeirri vertíð hafi verið mjög óhagkvæm, m.a. fyrir þær sakir að hún stuðlaði að auk­inni sókn vanbúinna skipa. Það sé því ekki fýsilegt að stjórna veiðum áfram á sama hátt og í því sambandi sé einnig rétt að benda á að fram hafi komið skoðanir um að draga megi í efa að þessi aðferð hefði fullnægjandi lagastoð.

   Í 2. gr. nefndra laga hafi síðan verið tekið upp úthlutunarkerfi á afla­hlutdeild til ein­stakra skipa úr norsk-íslenska síldarstofninum fyrir árin 1998, 1999 og 2000 og þar með snúið af þeirri leið sem farin var árið á undan. Að mati stefnanda liggi því í aug­um uppi að löggjafinn hafi verið meðvitaður um að skort hafi á efnislega lagastoð, sem hið fyrra aflaúthlutunarkerfi byggði á, og hafi lögleitt breytingar sem séu sam­svar­andi ofangreindum grundvallarreglum laga nr. 151/1996 og laga nr. 38/1990, sem gildi um úthlutun afla til einstakra skipa.

 

IV

   Stefndi byggir á því að lög nr. 38/1990, sem vísað sé til í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996, ráðgeri að allar veiðar séu leyfisbundnar en af því leiði ekki að allar veiðar sam­kvæmt þeim lögum séu háðar aflatakmörkunum. Eingöngu þær veiðar, sem háðar séu aflatakmörkunum, leiði til úthlutunar aflamarks á grundvelli aflahlutdeildar, sbr. 7. gr.  Stefnandi virðist skilja 5. gr. svo að það sé fortakslaust skylt að skipta þeim heild­ar­afla, sem í hlut Íslands komi, upp á milli skipa í formi aflahlutdeildar, án tillits til þess hvort Ísland ákveði að takmarka afla sinn frekar en úthlutun til þess segi til um. Það liggi fyrir að Ísland hafi fengið úthlutað ákveðnum kvóta úr norsk-íslenska síld­ar­stofn­inum 1997. Íslensk stjórnvöld tóku ekki ákvörðun um að takmarka veiðar frekar en sá kvóti sagði til um, sem þau höfðu þó heimild til að gera samkvæmt 3. og 4. gr. laga nr. 151/1996. Er ákvörðun hafði verið tekin um stjórnun veiðanna var talið, með til­liti til sérstöðu norsk-íslenska síldarstofnsins, að fyrir því væri lagastoð í 4. gr. laga nr. 151/1996 að haga stjórnun veiðanna með þessum hætti og studdist það við af­greiðslu Alþingis á þeim lögum. Þegar virt séu ákvæði 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. verði því ekki séð að það sé réttur skilningur að skylt sé að taka ákvörðun um skiptingu á heild­arafla á milli skipa í formi aflahlutdeildar samkvæmt þeim reglum sem kveðið er á um í 5. gr.

   Stefndi heldur því fram að samkvæmt þessu hafi ráðherra ekki verið skylt að fara þá leið samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 að úthluta skipi stefnanda afla­hlut­deild. Ráðherra hafi verið heimilt að lögum að stjórna veiðum á grundvelli 4. gr. lag­anna eins og hann gerði. Álagning sérstaks gjalds á stefnanda sé því í einu og öllu að lögum.

   Hefði ráðuneytið farið þá leið að úthluta aflahlutdeild á grundvelli 6. mgr. 5. gr. sé með öllu óljóst hver hlutdeild skips stefnanda hefði orðið í slíkri úthlutun. Sam­felld veiðireynsla úr stofninum í skilningi 2. mgr. 5. gr. laganna hafi ekki verið fyrir hendi og því hefði þurft að byggja á 6. mgr. Samkvæmt 6. mgr. 5. gr. sé unnt að taka tillit til ýmissa annarra atriða en veiðireynslu og jafnvel bjóða útgerðum aflahlutdeild í síld gegn því að afsala sér veiðiheimildum í öðrum tegundum. Þannig hefði ráðherra getað látið margt annað en veiðireynslu ráða úthlutun aflahlutdeildar.

   Þá vekur stefndi sérstaklega athygli á því að jafnvel þótt fallist yrði að einhverju marki á málsástæður og lagarök stefnanda þá sé það engu að síður staðreynd að stefnandi hafði ekki yfir að ráða úthlutaðri aflahlutdeild, sem gæti valdið því að sá afli, er honum var gert að greiða sérstakt gjald af, yrði löglegur samkvæmt lögum nr. 151/1996 og lögum nr. 37/1992. Veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum voru leyf­is­bundn­ar 1997 samkvæmt 1. gr. reglugerðar nr. 190/1997 sem átti ótvíræða lagastoð í 4. gr. laga nr. 151/1996. Samkvæmt því geti stefnandi ekki reist rétt sinn til verð­mæt­is aflans á því að veiðar hafi verið frjálsar.

   Þá bendir stefndi á að þegar skip stefnanda hafði farið í sína síðustu veiðiferð hafi veiði­leyfi þess verið fallið niður, en það hafði gerst með löndun 2. júní samkvæmt ákvæð­um reglugerðar nr. 323/1997. Þegar ákveðið hafði verið með reglugerð nr. 339/1997 að miða ekki við einstaka veiðiferð heldur að hvert skip næði magni sem svar­aði til eins fullfermis, átti skipið samkvæmt heimild í þeirri reglugerð óveiddar 452 lestir. Skipið hafi hins vegar landað 1261 lest af síld 22. júní 1997 og hafi um­fram­afli þess því verið orðinn 809 lestir. Heimild til veiðanna í þeirri veiðiferð varð að lögum ekki sótt til annarra heimilda en reglugerðar nr. 339/1997. Stefnandi hafi haldið skipinu til veiða án nokkurs fyrirvara um lögmæti reglugerðarinnar í því skyni að ná þeim afla er hún heimilaði. Bresti þá reglugerð lagastoð leiði það einfaldlega til þess að veiðar skipsins hafi verið löglausar og allur afli því ólögmætur. Því sé ljóst að sér­stakt gjald sé of lágt en ekki of hátt. Gætu sjónarmið stefnanda því hugsanlega leitt til þess að taka bæri upp álagninguna til hækkunar en aldrei til þeirrar niðurstöðu að hon­um bæri endurgreiðsla.

 

V

   Stefnandi krefst þess í fyrsta lagi að viðurkennt verði með dómi að álagning gjalds á hann vegna meints umframafla Sighvats Bjarnasonar VE-81 verði dæmd ólög­mæt og í öðru lagi krefst hann endurgreiðslu gjaldsins, sem hann hafði greitt með fyrir­vara. Krafan um endurgreiðslu byggir á því að álagningin hafi verið ólögmæt og er fyrri dómkrafa stefnanda því í raun málsástæða, sem síðari dómkrafan er byggð á. Af þessu leiðir að ekki er hægt að dæma um fyrri kröfuna og verður henni vísað frá dómi, enda felur úrlausn um síðari dómkröfuna í sér úrlausn um lögmæti álagn­ing­ar­inn­ar.

   Það er óumdeilt að norsk-íslenski síldarstofninn er svokallaður íslenskur deili­stofn, en samkvæmt 1. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996 um fiskveiðar utan lögsögu Íslands, eru fiskistofnar, sem úr er veitt bæði innan og utan lögsögunnar nefndir þessu nafni. Þá er í greininni kveðið á um, að um veiðar utan lögsögu Íslands úr íslenskum deili­stofnum skuli gilda lög um stjórn fiskveiða nr. 38/1990 eftir því sem við geti átt, sbr. þó ákvæði nefndrar 5. gr. Ennfremur er óumdeilt að ekki var fyrir hendi samfelld veiði­reynsla úr þessum stofni árið 1997 en í 6. mgr. 5. gr. segir, að sé hún ekki fyrir hendi skuli ráðherra ákveða aflahlutdeild einstakra skipa. Í II. kafla hér að framan var gerð grein fyrir því hvernig sjávarútvegsráðherra stjórnaði veiðunum þar til leyfilegum heild­arafla Íslendinga var náð. Einstökum skipum var ekki úthlutað aflahlutdeild heldur veiddu þau þar til heildaraflanum var náð.  

   Það er meginmálsástæða stefnda að ráðherra hafi verið heimilt að hafa þennan hátt á með vísan til 4. gr. laga nr. 151/1996. Þessi grein laganna fjallar um veiðar íslenskra skipa utan lögsögu Íslands og segir þar í 2. mgr. að ráðherra skuli með reglu­gerð binda veiðar íslenskra skipa á úthafinu sérstökum leyfum sé það nauðsynlegt vegna alþjóðlegra skuldbindinga eða til þess að vernda hagsmuni Íslands að því er varðar fiskistofna sem um ræðir í 5. gr., þ.e. íslenska deilistofna. Síðan segir að veiðar í þessum tilvikum séu óheimilar án slíkra leyfa, sem binda megi þeim skilyrðum, sem nauð­synleg séu.

   Þrátt fyrir að í 4. gr. sé vísað á þennan hátt til veiða úr fiskistofnum, sem 5. gr. fjall­ar um, getur dómurinn ekki fallist á að í 4. gr. sé að finna heimild til handa ráð­herra til að setja reglugerð um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum á þann hátt sem hann gerði. Í 5. gr. eru skýr ákvæði um það hvernig að veiðum úr íslenskum deili­stofnum skuli staðið þegar ákvörðun hefur verið tekin um að takmarka heildarafla úr þeim, eins og hér var raunin. Annars vegar er um að ræða stofna, sem samfelld veiði­reynsla er á og hins vegar stofna þar sem slík reynsla er ekki fyrir hendi. Í 6. mgr. greinarinnar segir að sé ekki fyrir hendi samfelld veiðireynsla úr viðkomandi stofni skuli ráðherra ákveða aflahlutdeild einstakra skipa. Síðar er svo gerð grein fyrir hvernig standa skuli að þeirri ákvörðun en það skipti ekki máli hér.

   Með vísan til þess, sem nú hefur verið rakið, er fallist á það með stefnanda að ráð­herra hafi verið óheimilt að ákveða veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum 1997 á þann hátt, sem hann gerði með setningu reglugerðar nr. 190/1997 með síðari breyt­ing­um. Heldur hafi honum borið að ákveða aflahlutdeild, sbr. 6. mgr. 5. gr. laga nr. 151/1996. Reglugerðina skortir þess vegna lagastoð að þessu leyti.

    Í II. kafla var því lýst hvernig ráðherra stjórnaði veiðunum með reglugerðinni og breyt­ingum á henni og hvernig skip stefnanda veiddi 809 lestir umfram það er reglu­gerðin leyfði að mati stefnda. Í 4. gr. reglugerðarinnar segir að veiðar eftir að leyfi eru felld úr gildi varði viðurlögum auk upptöku andvirðis ólögmæts afla samkvæmt lögum nr. 37/1992. Samkvæmt 2. tl. 1. gr. laganna telst ólögmætur sá sjávarafli sem er um­fram þann hámarksafla sem veiðiskipi er settur og vísaði stefndi til þessarar heimildar þegar hann lagði gjaldið á stefnanda.   

   Hér að framan var komist að þeirri niðurstöðu að ekki hafi verið heimilt að ákveða veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum með reglugerð nr. 190/1997 eins og gert var. Af þessu leiðir að álagning sérstaks gjalds á stefnanda, sem byggð var á ákvæð­um reglugerðarinnar, var ólögmæt og verður því fallist á kröfur stefnanda og stefndi dæmdur til að endurgreiða honum gjaldið, þ.e. stefnufjárhæðina með vöxtum eins og krafist er og nánar greinir í dómsorði og 500.000 krónur í málskostnað.

   Arngrímur Ísberg héraðsdómari kvað upp dóminn en hann fékk málið til með­ferð­ar eftir uppkvaðningu úrskurðar 9. september sl. þar sem frávísunarkröfu stefnda var hafnað.

Dómsorð:

   Framangreindri kröfu stefnanda er vísað frá dómi.

   Stefndi, Fiskistofa, greiði stefnanda, Vinnslustöðinni hf., 4.854.500 krónur með vöxt­um samkvæmt 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. mars 1998 til 30. apríl 1998 en með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags og 500.000 krónur í málskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur fimmtudaginn 9. september 1999

                Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar í dag er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Vinnslustöðinni hf. kt. 700269-3299, Hafnargötu 2, Vestmannaeyjum, gegn Fiskistofu, kt. 660892-2069, Ingólfsstræti 1, Reykjavík, og íslenska ríkinu til réttargæslu, með stefnu áritaðri um birtingu 21. september 1998.

                Dómkröfur stefnanda eru þessar:

1.  Stefnandi gerir fyrir það fyrsta þá dómkröfu að viðurkennt verði með dómi

að álagning gjalds, sem lagt var á hann vegna meints umframafla Sighvats Bjarnasonar VE-81 úr norsk-íslenska síldarstofninum, hafi verið ólögmætt þar sem fullnægjandi lagastoð hafi skort fyrir álagningu þess.

2.  Þá gerir stefnandi þá dómkröfu að stefndi endurgreiði sér 4.854.500 kr. ásamt vöxtum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 30. mars 1998 til 30. apríl 1998 og með dráttarvöxtum skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, frá þeim degi til greiðsludags.

3. Loks er krafist málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefnda, ásamt virðisaukaskatti.

     Dómkröfur stefndu eru þessar:

                Aðallega að máli þessu verði vísað frá dómi og stefndu tildæmdur málskostnaður úr hendi stefnanda að mati réttarins.

                Til vara er þess krafist að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda og þeim tildæmdur málskostnaður úr hendi hans að mati réttarins.

                Til þrautavara er þess krafist að stefnukröfurnar verði lækkaðar og máls­kostnaður verði í því tilviki látinn niður falla.

                                Mál þetta var tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi um frá­vís­un­ar­kröfu stefndu.

                Frávísunarkrafa stefndu byggist á því að mál þetta sé of seint höfðað samkvæmt fyrirmælum laga nr. 37/1992 um sérstakt gjald vegna ólögmæts sjávarafla, en í 4. mgr. 10. gr. laganna komi fram að ágreining um skyldu til greiðslu gjalds megi bera undir dómstóla enda sé það gert innan 30 daga frá uppkvaðningu úrskurðar úrskurðarnefndar samkvæmt 6. gr. laganna. Í þessu tilviki liggi það fyrir að úrskurður úrskurðarnefndar hafi legið fyrir hinn 20. maí síðastliðinn. Stefna í málinu sé árituð um birtingu hinn 21. septem­ber 1998 og þingfest hinn 6. október s.á. eða löngu eftir að frestir samkvæmt 10. gr. voru liðnir. Með vísan til þess er krafist frávísunar málsins.

                Stefnandi krefst þess að frávísunarkröfu stefndu verði hafnað og stefndu verði gert að greiða málskostað að mati dómsins. Stefnandi byggir á því að málið snúist um það grundvallaratriði hvort reglugerð nr. 190/1997 um stjórn veiða úr norsk-íslenska síldarstofninum sé gild réttarheimild. Málshöfðunarfrestur samkvæmt lögum nr. 37/1992 eigi einungis við um það þegar aðili vilji bera undir dómstóla ágreining um afla eða magn samkvæmt 1. gr. laganna.

Niðurstaða

                Álagning sérstaks gjalds vegna umframafla af síld úr norsk-íslenska síldarstofninum að fjárhæð 4.854.500 kr. var lagt á stefnanda hinn 27. febrúar 1998. Með kæru dags. 12. mars 1998 kærði stefnandi álagninguna til stefnda og krafðist þess að álagningin yrði felld niður. Með úrskurði stefnda dags. 18. mars 1998 var þeirri kröfu hafnað. Með kæru dags. 23. mars 1998 kærði stefnandi þann úrskurð til úrskurðarnefndar samkvæmt 6. gr. laga nr. 37/1992. Með úrskurði úrskurðarnefndar uppkveðnum 20. maí 1998 var úrskurður stefnda frá 18. maí 1998 staðfestur. Mál þetta höfðaði stefnandi með stefnu áritaðri um birtingu 21. september 1998.

                Við greinda málsmeðferð á stjórnsýslustigi byggði stefnandi á því að álagningin væri ólögmæt vegna þess að aflaúthlutun samkvæmt reglugerð nr. 190/1997 skorti lagastoð. Hins vegar mótmælti stefnandi hvorki aflamagni né andvirði meints umframafla Sighvats Bjarnasonar VE 81 á norsk-íslenskri síld á árinu 1997. Í áliti úrskurðarnefndar er tekið fram að hlutverk hennar sé að úrskurða álagningu gjalds samkvæmt 1. gr. laga nr. 37/1992, en það sé ekki á valdsviði nefndarinnar að úrskurða hvort reglugerð nr. 190/1997 eigi sér næga lagastoð. Stefnandi á rétt á því að bera það álitaefni undir undir dómstóla og er ekki bundinn af málshöfðunarfresti 4. mgr. 10. gr. laga nr. 37/1992 þar um. Ber því að hafna kröfu stefndu um frávísun málsins, en ákvörðun um málskostnað bíður efnisdóms í málinu.

Eggert Óskarsson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.

Ú r s k u r ð a r o r ð :

                Máli þessu er ekki vísað frá dómi.

Málskostnaður bíður efnisdóms í málinu.