Hæstiréttur íslands
Mál nr. 273/2000
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Vistun barns
- Gjafsókn
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 14. desember 2000. |
|
Nr. 273/2000. |
K (Hilmar Ingimundarson hrl.) gegn M (Dögg Pálsdóttir hrl.) |
Börn Forsjá. Vistun barns. Gjafsókn. Sératkvæði.
Við sambúðarslit M og K gerðu þau samkomulag um að M færi með forsjá barna þeirra A og B, en B hafði þá þegar verið komið í fóstur, og var gerður samningur milli aðila um umgengnisrétt K við börnin. M hafði ekki tök á að sinna uppeldi A og stuttu eftir sambúðarslitin samþykkti K að A færi í fóstur til C og D til 18 ára aldurs og var gerður vistunarsamningur við fósturforeldra á grundvelli 40. gr. barnalaga. Á árinu 1998 óskaði M eftir því að C og D fengju forsjá A, en K mótmælti því og höfðaði mál þar sem hún krafðist þess að sér yrði dæmd forsjáin. Samkvæmt skýrslu sálfræðings var talið að A byggi við gott atlæti og fengi gott uppeldi og taldi hann ekki rétt að raska þessum aðstæðum. M hafði lýst því yfir, að hann myndi hafa telpuna áfram í fóstri hjá C og D. Talið var að ekki hefði verið sýnt fram á það að hagsmunum A væri betur borgið hjá K, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 20/1992 og var staðfest niðurstaða héraðsdóms um, að með tilliti til framtíðar væri óforsvaranlegt að raska högum A og best væri að M hefði áfram forsjá telpunar og var M dæmd forsjáin.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjandi skaut máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 13. júlí 2000. Hún krefst þess, að sér verði dæmd forsjá dóttur málsaðila, A, f. [...] 1992, og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti eins og málið væri ekki gjafsóknarmál.
I.
Eins og lýst er í héraðsdómi voru aðilar máls þessa í óvígðri sambúð frá 1992 til 1997. Við sambúðarslit varð samkomulag milli þeirra um, að stefndi færi með forsjá beggja barna þeirra, A og B, f. [...] 1994, en drengnum hafði þá þegar verið komið í fóstur. Í tengslum við sambúðarslitin var gerður samningur milli aðila um umgengnisrétt áfrýjanda við börnin. Stefndi hafði ekki tök á að sinna daglegu uppeldi telpunnar sökum mikillar vinnu. Stuttu eftir sambúðarslit um haustið 1997 samþykkti áfrýjandi, að stefndi kæmi dóttur þeirra í fóstur hjá C og D til 18 ára aldurs telpunnar. Var gerður við þau vistunarsamningur á grundvelli 40. gr. barnaverndarlaga nr. 58/1992, sbr. 35. gr. laga nr. 160/1998. Í júlí 1998 lýsti stefndi því yfir hjá sýslumanni, að hann óskaði eftir því, að fósturforeldrarnir fengju forsjá telpunnar. Áfrýjandi samþykkti ekki, að þeim yrði veitt forsjá hennar og höfðaði hún mál þetta, þar sem hún krefst þess, að sér verði dæmd forsjáin.
II.
Áfrýjandi styður kröfu sína um forsjá telpunnar við það, að breyting á forsjá sé réttmæt vegna breyttra aðstæðna, sbr. 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 20/1992. Gögn málsins bera með sér, að áfrýjandi hafi haldið sér frá áfengi í rúm tvö ár og gildir það sama um núverandi eiginmann hennar. Þau hafa til skamms tíma búið í vernduðu umhverfi á vegum Byrgisins og Krossins. Kveður áfrýjandi, að hún hafi samþykkt að telpan færi í fóstur á þeirri forsendu, að hún hefði ríflegan umgengnisrétt við hana, en svo hafi ekki orðið, og hafi samband hennar og fósturforeldra verið erfitt.
Samkvæmt skýrslu sálfræðings, sem kannaði hæfni aðila og fósturforeldra sem uppalenda og tengsl þeirra við telpuna býr telpan við gott atlæti og fær ágætis uppeldi hjá fósturforeldrum, sem eru vel hæf til að gegna foreldrahlutverki. Telur hann ekki rétt að raska þessum aðstæðum. Þess vegna sé annaðhvort forsjá fósturforeldra eða forsjá föður, sem lætur uppeldi telpunnar í hendur fósturforeldranna, öruggasti kosturinn fyrir telpuna. Stefndi hefur lýst því yfir, að hann muni ekki raska högum barnsins frá því sem er, heldur hafa hana áfram hjá fósturforeldrunum. Afstaða áfrýjanda er ekki eins afgerandi um þetta, en fyrir Hæstarétti var því haldið fram, að áfrýjandi væri fyrst og fremst að fara fram á forsjá telpunnar til þess að hafa sterkari stöðu gagnvart fósturforeldrum um umgengni. Samkvæmt fyrrgreindu mati sálfræðingsins eru áfrýjandi og eiginmaður hennar tilbúin til að takast á við umgengni við telpuna. Gögn málsins bera með sér, að sýslumaður hafi til meðferðar kröfu áfrýjanda um umgengnisrétt við dóttur sína, og bíður það mál niðurstöðu þessa máls.
Það var niðurstaða héraðsdóms, sem skipaður var sérfróðum meðdómendum, að með tilliti til framtíðar væri óforsvaranlegt að raska högum barnsins og best væri, að stefndi hefði áfram forsjá þess. Ekki hefur verið sýnt fram á það í málinu, að hagsmunum telpunnar væri betur borgið hjá áfrýjanda, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 20/1992. Samkvæmt framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms ber að staðfesta hann.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður málsaðila fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði svo sem í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun talsmanns hennar, 175.000 krónur.
Gjafsóknarkostnaður stefnda, B, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningslaun talsmanns hans, 175.000 krónur.
Sératkvæði
Hjartar Torfasonar
Málsaðilar staðfestu slit á óvígðri sambúð sinni með yfirlýsingu 19. ágúst 1997, eftir að hafa daginn áður gengið frá samningi um umgengnisrétt áfrýjanda við börn þeirra, sem vera áttu í forsjá stefnda. Í framhaldi af því tóku þau ákvörðun um að koma dóttur sinni í fóstur eða vistun hjá hjónum í H, og samþykkti áfrýjandi eða staðfesti hana fyrir sitt leyti með yfirlýsingu 11. október sama ár. Samkvæmt þeim gögnum málsins, er varða sambúðarslitin og aðstæður fjölskyldunnar á þessum tíma, virðast þessar ráðstafanir svo tengdar, að líta megi á hina síðari sem þátt í sambúðarslitunum. Er þá ekki unnt að telja þá staðreynd, að dóttirin var falin umsjá fósturforeldranna, til breytingar á högum stefnda frá því að slitin voru staðfest. Hins vegar er þá ekki heldur unnt að meta afstöðu áfrýjanda svo, að hún hafi fallið frá þeim sjónarmiðum um tiltölulega rúma umgengni við dótturina, sem lýst var í áðurgreindum samningi, með því að veita samþykki við ráðstöfuninni til fósturs. Hafi stefndi talið á þeim tíma, að forsendur samningsins væru brostnar við þá ráðstöfun, hefði hann á móti átt að bjóða áfrýjanda, að forsjá dótturinnar yrði hjá þeim báðum sameiginlega, þannig að líkur yrðu á jafnræði milli þeirra í samskiptum við barnið.
Í málinu er um það deilt, hvor aðila skuli fara með forsjá dótturinnar til næstu frambúðar að minnsta kosti, og verður að leysa úr ágreiningnum í ljósi þess, hvernig aðstæður þeirra og barnsins horfa við í dag. Fram er komið, að mikil breyting til batnaðar hafi orðið á högum áfrýjanda, þótt hún virðist ekki enn hafa náð því öryggi og festu í daglegu lífi sínu, sem æskilegt sé að njóta til að geta gegnt forsjárskyldum. Jafnframt liggur fyrir álit sálfræðings þess efnis, að brýn nauðsyn sé að bæta tengsl dótturinnar við móður sína og rækta þau reglubundið. Aðstæður föðurins virðast hins vegar óbreyttar að mestu. Það mælir gegn framhaldandi forsjá hans, að hann hefur ekki sýnt í verki undanfarin ár, að hann sé reiðubúinn til að leggja sig fram um að treysta umrædd tengsl. Á hinn bóginn virðist ljóst, að barnið sé í góðri og öruggri höfn hjá fósturforeldrum sínum, sem notið hafa trausts af hálfu föðurins. Þau hafa lýst vilja til að eyða þeirri tortryggni, sem vart hefur orðið í skiptum þeirra og móðurinnar, og verður að treysta því, að það geti gengið farsællega eftir í næstu framtíð. Verður þannig að taka undir þau sjónarmið, sem mestu virðast hafa ráðið um niðurstöðu héraðsdóms.
Með þessum athugasemdum er ég sammála atkvæði annarra dómenda.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 17. apríl 2000.
I.
Mál þetta var þingfest hinn 3. febrúar 1999, en tekið til dóms að loknum munnlegum málflutningi, hinn 14. mars sl.
Stefnandi er K, en stefndi M.
Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur:„
1. Að stefnanda verði dæmd forsjá dóttur málsaðila A, kt. [...]92-[...].
2. Að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað að skaðlausu samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi eins og málið væri eigi gjafsóknarmál.”.
Stefndi gerir eftirfarandi dómkröfur:
Að kröfu stefnanda um forsjá dótturinnar A kt. [...]92-[...] verði hafnað og að stefnda verði dæmd forsjá hennar og að stefnandi verði dæmd til að greiða stefnda málskostnað að skaðlausu, samkvæmt framlögðum málskostnaðarreikningi, eins og málið væri eigi gjafsóknarmál og að 24,5% virðisaukaskattur leggist við tildæmda málskostnaðarfjárhæð.
II. Málavextir.
Stefnandi og stefndi bjuggu saman í óvígðri sambúð frá 29. júlí 1992 til 1. júlí 1997. Á sambúðartímabilinu eignuðust þau tvö börn, A, hinn [...] 1992 og B hinn [...] 1994. Við sambúðarslitin varð það að samkomulagi milli aðila að stefndi færi með forsjá barnanna og var það samkomulag staðfest af Sýslumanninum á F hinn 19. ágúst 1997. Jafnframt var gerður samningur í viðurvist fulltrúa sýslumanns, um umgengni stefnanda við A og B, sem dagsettur er 18. sama mánaðar. Umgengni stefnanda við A var á þá lund að hún myndi hitta barnið á F a.m.k. einu sinni í mánuði og vera ein með því „í nokkra klukkutíma”, en þegar húsnæðismál stefnanda hefðu lagast og „verið komin í fastar skorður óskar hún eftir að fá barnið aðra hvora helgi, frá föst-sunnud.”, eins og bókað var. Þá var bókað um umgengni einn mánuð að sumri og um umgengni á jólum og hátíðisdögum.”. Um umgengni við B var sagt að um væri að ræða „samkomulag milli foreldra. Miðast við aldur hans og þroska.”.
Í kjölfar þessa var hins vegar báðum börnunum komið í fóstur. Var stúlkunni, sem deilt er um forsjá vegna í máli þessu, komið í fóstur hjá hjónunum C og D, til heimilis að [...], H. Stefnandi samþykkti þessa ráðstöfun með yfirlýsingu, dagsettri 11. október 1997, sem einnig var undirrituð af C. Yfirlýsing þessi var móttekin af Hagstofu hinn 15. október 1997. Hinn 22. október 1997 staðfesti sýslumaður skjal um samning um meðlagsgreiðslur, þannig að stefnandi skyldi greiða áfram einfalt meðlag með stúlkunni, en greiðslur skyldu renna til Cog D.
Hinn 20. júlí 1998 mætti stefndi og C hjá sýslumanni og var bókað þar um vilja stefnda til að fela C og eiginmanni hennar forsjá stúlkunnar. Vegna þessarar ráðagerðar leitaði Sýslumaðurinn á F umsagnar barnaverndarnefndar H með bréfi hinn 21. júlí 1998. Sömuleiðis var leitað umsagnar stefnanda með bréfum dagsettum 21. júlí 1998 og 18. ágúst 1998. Að ósk stefnanda var málið sent Sýslumanninum í V með bréfi 26. ágúst 1998. Eftir boðunarbréfi Sýslumannsins í V dagsettu 14. september 1998 mætti stefnandi til fyrirtöku hjá Sýslumanninum í V 22. september 1998 og lýsti sig mótfallna fyrirhugaðri breytingu á forsjá. Stefnandi kvaðst þó vilja samþykkja áframhaldandi fóstur stúlkunnar veturinn 1998-1999, en tilkynnti jafnframt að hún hygðist fara í dómsmál í því skyni að sér yrði dæmd forsjáin. Jafnframt lagði stefnandi fram sérstakar óskir um umgengni við dóttur sína.
Með bréfi dagsettu 24. september 1998 sendi Sýslumaðurinn á F lögmanni stefnanda gögn er hann hafði með höndum og vörðuðu málið.
Með bréfi barnaverndarnefndar H til Sýslumannsins á F, dagsettu 25. september 1998 var mælt með því að C og D yrði falin forsjá hennar, „enda telji nefndin að umönnun og aðbúnaði barnsins sé mjög vel sinnt.”.
Með bréfi hinn 15. október 1998 tilkynnti Sýslumaðurinn á F stefnanda að hún hefði frest til 1. janúar 1999 til að sýna fram á að hún hefði höfðað mál um forsjá barnsins. Hefði það ekki verið gert myndi embættið staðfesta samning milli stefnda annars vegar og C og D hins vegar um að stefndi hefði falið þeim forsjá barnsins. Með bréfum hinn 14. október 1998 tilkynnti Sýslumaðurinn á F stefnda, C og D að stefnanda hefði verið veittur umræddur frestur.
Með bréfi lögmanns stefnanda, dagsettu 28. október 1998, til C og D, var fullyrt að frá ágúst 1997 til þess dags hefðu þau hindrað stefnanda í að hafa eðlilega umgengni við stúlkuna en einn og hálfur mánuður væri frá því að stefnandi hefði hitt hana. Var óskað eftir að stefnandi fengi að rækja umgengni við dóttur sína og jafnframt tilkynnt um að stefnandi hygðist fara í forsjármál.
Málið var höfðað með stefnu , dagsettri 30. desember 1998, en birtri 19. janúar 1999. Með bréfi dagsettu 5. janúar 1999 tilkynnti sýslumaður C og D að samningur við stefnda um forsjá dótturinnar yrði ekki staðfestur að svo stöddu.
Hinn 30. mars 1999 mætti stefndi hjá sýslumanni og var bókað eftir honum að hann óskaði eftir að draga til baka yfirlýsingu sína um að hann vildi fela C og D forsjá stúlkunnar. Ástæðu afturköllunarinnar kvað stefndi vera þá að hann byggist við að stefnandi myndi draga til baka kröfu um að henni yrði falin forsjá barnsins, auk þess sem hann væri ósáttur við fyrirkomulag umgengni sinnar við barnið.
Hinn 9. apríl 1999 sendi lögmaður stefnanda C og D á ný bréf þar sem kvartað var yfir hindrun við umgengni stefnanda við A. Jafnframt því var tilkynnt um að stefnandi hefði „rift fóstursamningi” um stúlkuna og sýslumanni jafnframt sent bréf um þá yfirlýsingu.
Með bréfi, dagsettu 6. júlí 1999, til Sýslumannsins á F, krafðist stefnandi úrskurðar um umgengni sína við A. Hinn 20. ágúst 1999 sendu C og D bréf til sýslumanns, þar sem því var lýst að stefnandi hefði ekki rækt umgengisskyldur sínar og kváðu þau ekki forsvaranlegt að umgengni stefnanda við stúlkuna ætti sér stað án eftirlits, auk þess sem þau nefndu að umgengni stefnda við barnið hefði verið með ágætum. Bréf þetta var jafnframt sent lögmanni stefnanda sem ritaði sýslumanni svarbréf hinn 8. september 1999 og ítrekaði ósk um skjóta afgreiðslu málsins. Með bréfi hinn 18. október 1999 til sýslumanns var sú ósk enn ítrekuð af hálfu stefnanda.
Með bréfi lögmanns stefnda til sýslumanns, dagsettu 23. janúar 2000, var þess farið á leit að beðið yrði með úrskurð sýslumanns um umgengni stefnanda við dóttur sína uns niðurstaða fengist í forsjármálinu. Sú ósk var ítrekuð með bréfi lögmannsins til sýslumanns hinn 28. febrúar 2000.
III. Málsástæður og lagarök stefnanda.
Stefnandi segir að hún hafi samþykkt þá tilhögun að dóttir hennar skyldi fara í fóstur með þeirri forsendu að engin breyting skyldi verða á umgengni hennar við dóttur sína. Hins vegar hafi mál þróast þannig að fósturforeldrar stúlkunnar hafi gert allt til þess að hindra stefnanda í að umgangast dóttur sína með eðlilegum hætti.
Þá segir stefnandi það vera þungamiðju þessa máls að stefndi hafi lýst vilja sínum um að fósturforeldrarnir fái forsjá stúlkunnar, en stefnandi hafi algjörlega hafnað því.
Eins og málavextir beri með sér sé ljóst að stefndi sé algjörlega óhæfur til að fara með forsjá dóttur málsaðila. Sérstaklega þegar það er haft í huga að stefndi sé reiðubúinn til að láta forsjána í hendur fólks sem sé á engan hátt skyld stúlkunni, auk þess sem fósturforeldrarnir hafi einnig sýnt af sér slíka framkomu gagnvart stefnanda að ljóst sé að þeim sé ekki treystandi til að hafa forsjána.
Stefnandi bendir einnig á að aðstaða hennar sé nú önnur og mun betri en var fyrir ári síðan. Stefnandi hafi gengið í hjónaband og stofnað heimili með eiginmanni sínum í Ó. Persónulegir erfiðleikar stefnanda séu nú að baki og treysti hún sér til að búa dóttur sinni viðunandi aðstæður og heimili.
Stefnandi reisir kröfur sínar á 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 20/1992, sbr. og 29. gr. og 57. gr.- 67. gr. sömu laga.
Um málskostnað vísar stefnandi til 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV. Málsástæður og lagarök stefnda.
Stefndi byggir kröfu sína um að honum verði dæmd forsjá dóttur sinnar á ákvæðum 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 20/1992, þar sem skýrt komi fram að krefjist annað foreldra þess að samningi um forsjá verði breytt verði slík krafa aðeins tekin til greina að breyting þyki réttmæt vegna breyttra aðstæðna og með tilliti til hags og þarfa barnsins. Stefndi telur að hvorki hafi aðstæður stefnanda breyst með þeim hætti að réttlætanlegt sé að fallast á kröfu stefnanda, né að slík niðurstaða sé í hag stúlkunnar. Í þessu sambandi byggir stefndi einnig á 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992, þar sem kveðið sé á um að við ákvörðun um forsjá barns skuli byggt á því hvað barni sé fyrir bestu. Stefndi kveðst hafa í hyggju að gera samning við fósturforeldra stúlkunnar um að þau fái forsjá hennar, sbr. ákvæði 3. mgr. 33. gr. barnalaga nr. 20/1992. Stefndi kveður dóttur sína hafa búið hjá fósturforeldrum sínum um liðlega eins árs skeið og aðbúnaður hennar þar hinn besti. Aðstæður hennar séu því þannig að ekkert réttlæti breytingu að teknu tilliti til haga og þarfa hennar.
Stefndi vill í þessu sambandi nefna að vegna áforma stefnda um að fela fósturforeldrum forsjá stúlkunnar hafi Barnaverndarnefnd H fjallað um málið, rætt við fósturforeldra og starfsfólk leikskólans sem hún var á. Nefndin telji að umönnun og aðbúnaði stúlkunnar sé í góðu lagi hjá fósturforeldrum og mæli með því að þeim verði falin forsjáin eins og stefndi áformi, verði áframhaldandi forsjá hans með dótturinni staðfest með dómi.
Stefndi kveður stefnanda hafa afsalað sér forsjá dóttur málsaðila við sambúðarslit aðila þar sem hún hafi ekki talið sig geta boðið dóttur sinni sómasamlegt líf vegna persónulegra vandamála sinna, en engin gögn séu því til sönnunar að aðstæður stefnanda hafi breyst til hins betra.
Þá kveður stefndi að hæfi stefnanda til að ala upp barn sé skert eins og komi glöggt fram í bréfum frá félagsráðgjafa og barnalækni á Landspítala vegna dvalar sonar aðila á spítalanum á tímabilinu frá fyrri hluta árs 1995 til ársloka 1996. Aðbúnaður barnsins og framkoma móður hafi verið með þeim hætti að heilbrigðisstarfsmönnum hafi þótt ástæða til að tilkynna barnaverndarnefnd um málið. Þessi bréf gefi til kynna að stefnandi sé ófær um að annast uppeldi barna og þá einnig stúlkunnar.
Kröfu sína um málskostnað reisir stefndi á ákvæðum XXI. kafla um laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, en kröfu um virðisaukaskatt á málskostnað á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, en stefndi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og honum sé því nauðsyn til að fá skatt þennan tildæmdan úr hendi stefnanda.
V.
Með bréfi dómsins hinn 10. maí 1999 var óskað eftir áliti sálfræðings að undangenginni könnun, á högum og aðstæðum aðila og fósturforeldra og tengslum barnsins við foreldra og fósturforeldra. Vegna anna sálfræðingsins dróst að gera þá könnun og var hann leystur frá starfanum jafnframt því sem Guðrún Einarsdóttir sálfræðingur var fengin til verksins hinn 8. september sl. Hún skilaði skriflegri greinargerð til dómsins í nóvember sl.
Í skýrslu sálfræðingsins segir m.a.: „
II. Gerð skýrslunnar
Skýrsla þessi er byggð á markvissum viðtölum, fundum, heimsóknum og símtölum við aðila málsins. Engin sálfræðileg próf voru lögð fyrir málsaðila. Undirrituð mat það svo að niðurstöður prófa (t.d. greindarprófa, persónuleikaprófun og tengslamats) myndu ekki bæta við neinum þeim upplýsingum um málið sem ekki höfðu þegar komið fram við ofangreindar aðstæður.
Leitast var við að meta þrjá þætti hjá þeim fullorðnu aðilum sem að málinu koma, þ.e. hæfni (sem uppalendur), tengsl við dótturina og á hvaða grundvelli vilji eða óskir viðkomandi byggðust. Hjá dótturinni var leitast við að meta tilfinningatengsl við þá fullorðnu, líðan og vilja. Ákveðið var að leggja ekki formlegt tengslamat fyrir stúlkuna þar sem tilfinningatengsl hennar við þá fullorðnu aðila sem að málinu koma hafa endurmótast algjörlega á síðustu tveimur árum og byggja á því hverjar hennar aðstæður eru í dag samanborið við þær aðstæður sem ríktu þegar hún bjó hjá foreldrum sínum.
III. Niðurstöður einstakra viðtala, funda og/eða heimsókna
Leitast var við að meta þrjá þætti hjá móður, föður og fósturforeldrum: Í fyrsta lagi, hæfni viðkomandi til að gegna foreldrahlutverki. Hæfnin var metin á grundvelli a) lífsstíls eða lífvenja (þ.e. hvernig uppeldi á barni samræmdist lífsstíl viðkomandi), b) aðstæðna-umhverfis, c) ábyrgðartilfinningu og d) hversu miklu máli foreldrahlutverkið skipti viðkomandi. Í öðru lagi, tilfinningatengsl við dótturina. Tilfinningatengslin voru metin á grundvelli a) tjáðrar umhyggju og ástar og b) tryggðar og trausts í samskiptum við dótturina. Í þriðja lagi, vilja viðkomandi varðandi framtíðarfyrirkomulag á samskiptum við dótturina.
1. Viðtal á F við fósturforeldra, C og D, til heimilis að [...] í H, þ. 15.09.´99.
_____________________________________________________________________
Almenn atriði
Fósturforeldrar segja fósturdótturina A hafa komið til sín í fóstur haustið ´97 á grundvelli kunningsskapar þeirra við föður og fósturforeldra sem höfðu tekið yngri bróður stúlkunnar í fóstur. Haustið ´97 voru fósturforeldrar barnlausir en eiga nú nokkurra mánaða tvíbura. Í máli fósturforeldra kom fram að nokkurra erfiðleika hafi gætt fyrst hjá A er hún kom til þeirra. Stúlkan pissaði undir og svaf illa og virtist mjög öryggislaus. Fósturforeldrar tóku einnig fram að þegar A kom til þeirra virtist hún vera vön að annast sig sjálf og gera ekki sömu kröfu til fullorðinna og barna er siður. Þau lýstu A þannig að hún hefði fremur hegðað sér eins og fullorðin kona en eins og fimm ára barn.
A er öll önnur í dag að sögn fósturforeldranna og henni gengur vel í skóla (er í 2. bekk) og hegðun hennar heima fyrir er orðin eðlileg og aldursmiðuð. Þegar fósturforeldrar voru spurð út í umgengnismál fósturdóttur þeirra við móður sína kom fram í máli þeirra að ekki hefði verið hægt að treysta á móður í byrjun. Henni stóð kannski til boða að koma á tilteknum tíma en kom ekki. Málin hafa svo þróast þannig að fósturforeldrar vilja ógjarnan að A fari til móður sinnar nema undir eftirliti frá barnaverndarnefnd. Þau segja að A treysti sér heldur ekki til að fara til móður.
Hæfni til að gegna foreldrahlutverki
Ef miðað er út frá lífsstíl og venjum fósturforeldranna þá er ljóst að hæfni þeirra til að gegna foreldrahlutverki er ágæt. Fósturforeldrar lifa reglubundnu lífi. Faðir vinnur úti og móðir er heima nú til að sinna litlu tvíburunum. Engin óregla er á heimilinu og lífsskoðanir foreldra virðast heilbrigðar með tilliti til uppeldisins á A. Þau virðast veita henni bæði hlýju og aga.
Umhverfi og heimilisaðstæður eru góðar. Ættingjar A í föðurlegg búa í nágrenni við fósturforeldrana í H. Síðan er yngri bróðir A einnig í H og er kunningsskapur á milli fósturforeldra A og fósturforeldra yngri bróður. A umgengst bæði ættingja sína og yngri bróður.
Ábyrgðartilfinning fósturforeldra gagnvart fósturdótturinni virðist mjög mikil og þau virðast hafa sterka verndartilfinningu gagnvart A, jafnsterka og hún væri þeirra eigið barn. Foreldrahlutverkið virðist skipta fósturforeldra miklu máli og með tímanum hafa þau styrkst í sínu hlutverki sem foreldrar A. Fósturforeldrar vilja alls ekki missa foreldrahlutverkið gagnvart A jafnvel þó þau hafi nú eignast tvö börn sjálf. Þau segja að ef eitthvað er þá hafi þau styrkst í hlutverki sínu sem foreldrar A með tilkomu tvíburanna.
Tilfinningatengsl við fósturdótturina
Fósturforeldrar tjáðu mikið umhyggju sína og ást til A. Þau virðast vera tilbúin til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að vernda þau tilfinningatengsl sem hafa myndast á milli þeirra og fósturdótturinnar. Fósturforeldrar hafa greinilega gegnt því hlutverki í lífi A undanfarin tvö ár að vera hennar akkeri í lífinu. Kannski það akkeri sem hana hafði svolítið vantað áður þegar hún var enn undir verndarvæng foreldra sinna því ýmis alvarleg vandamál steðjuðu að fjölskyldu A áður fyrr. Samskipti fósturforeldra við A virðast mjög eðlileg og í góðum farvegi. Þau eru ákveðin við A en mjög gefandi við hana.
Vilji um fyrirkomulag á samskiptum
Fósturforeldrar vilja fá forræði A til sín. Samkomulag um slíkt hafði verið gert á sínum tíma við föður telpunnar. Þau vilja að umgengni A og móður verði undir eftirliti barnaverndarnefndar. Umgengni A við föður vilja þau hafa óbreytta.
2. Viðtal við A f. [...]´92 á F þ. 17.09.´99.
_____________________________________________________________________
A er opin og hress stúlka. Hún tjáir sig auðveldlega, talar um væntumþykju sína til C og D sem hún kallar mömmu og pabba. Hún segist vilja vera áfram hjá fósturforeldrum þar til hún verði fullorðin. A vill halda áfram að hitta „M pabba" annað slagið á sunnudögum eins og verið hefur hingað til. Aðspurð segist hún helst ekki vilja hitta mömmu sína. A segist ekki vera búin að gleyma henni en hana langi ekkert sérstaklega til að hitta hana og alls ekki fara í burtu með henni frá núverandi heimili sínu, hvorki yfir dag né nótt.
A lýsir lífi sínu heima og í skólanum. Hún lítur á litlu tvíburana, sem fósturforeldrar hafa eignast, sem bræður sína. Hún segir frá reglulegum heimsóknum sínum til yngri bróður síns sem er einnig í fóstri í H. A segist eiga marga vini og ættingja í H og þar vilji hún vera. Hún lýsir einnig væntumþykju sinni til fósturforeldranna og er farin að ókyrrast í sætinu og spyr hvort mamma (fósturmamman) fari ekki að koma til að sækja hana.
Ekki var talin ástæða til að leggja fyrir A formlegt tilfinningatengslapróf því útkoman yrði svipuð og hún segir frá hér að ofan. Hafa ber í huga þegar yfirlýsingar A eru skoðaðar að hún hefur nú í tvö ár lagt allt sitt traust á fósturforeldrana og hefur uppskorið vellíðan og tilfinningu um það að hún sé elskuð og vernduð. Hún hefur lítið umgengist móður sína á þessu tímabili og þekkir í raun ekki móður sína eins og hún er í dag. A man eingöngu eftir móður sinni frá því fyrir tveimur árum og þá var móðir virkur drykkjumaður. Einnig voru erfiðleikar í samskiptum móður og föður sem áttu rætur sínar í vandamálum bæði föður og móður við að vera ábyrgir og heilbrigðir uppalendur. Tilfinningatengsl A hljóta því eðli málsins samkvæmt að vera sterkust við fósturforeldrana nú.
3. Viðtal við föður, M á F þ. 29.09´99. Faðir hefur lögheimili á F, [...] en býr og starfar í V.
_____________________________________________________________________
Almenn atriði
Faðir lýsir fortíðinni, erfiðleikum í sambandi hans og K móður A. Faðir segir að mikil drykkja hafi verið á móður og hafi hún yfirgefið heimilið og farið til núverandi eiginmanns síns. Faðir sótti um forræði barnanna (Aog yngri bróður) í kjölfarið á brotthvarfi móður af heimilinu og samþykkti móðir það án nokkurs hiks. Faðir varð síðan atvinnulaus og fékk atvinnu og húsnæði á G. Afi og systir föður tóku þá að sér að sjá um börnin. Faðir kom síðan börnunum í fóstur í H hjá sitt hvorum hjónunum. Móðir samþykkti fóstur A hjá C og D.
Faðir lýsir því að engir fastir tímar séu í umgengni hans við A hjá fósturforeldrunum. Reglan er sú að hann hringi með dags fyrirvara. Yfirleitt heimsækir faðir A hana aðra hverja helgi. Faðir segir að smávægileg vandamál hafi komið upp í umgengnismálunum við dóttur sína hjá fósturforeldrunum vegna minnkandi samgangs á milli systkinanna. Faðir kvartaði við opinber yfirvöld en sagði að eftir á að hyggja hefði hann átt að kvarta beint við fósturforeldrana. Regla er komin á samgang systkinanna núna og hefur því faðir ekki yfir neinu að kvarta varðandi umgengni sína við A hjá fósturforeldrunum.
Faðir segir frá því að A hafi í fyrstu, eftir að móðir fór að heiman, pissað niður eftir hringingar frá henni. Hann bætir við að A vilji ekki hitta mömmu sína. A hefur heldur ekki mikil tengsl við móðurömmu, eingöngu í gegnum síma. Stúlkan hefur hins vegar tengsl við ættingja föður og býr föðurbróðir hennar í næsta húsi við fósturforeldrana. Einnig hefur A tengsl við föðurafa sinn. M telur að móðir sé virkur alkóhólisti á háu stigi og að eiginmaður móður sé ofbeldisfullur alkóhólisti. Faðir hefur ekkert samband við móður og segir að A hafi nánast ekkert hitt móður í tvö ár, kannski þrisvar og svo eitthvert símasamband.
Hæfni til að gegna foreldrahlutverki.
Lífsstíll M samræmist illa uppeldi barna því hann vinnur svo mikið að lítið rúm væri fyrir daglega umönnun barns. M virðist hafa valið sér þetta lífsmynstur og má spyrja hvort hann sé haldinn vinnufíkn (þ.e. að vinnan sé notuð sem flótti frá því að takast á við daglegt líf og þá sérstaklega fjölskyldulíf)? Umhverfi M gerir heldur ekki ráð fyrir barni eða börnum. Hann segist eiga unnustu en hann býr einn og þröngt.
Ábyrgðartilfinning M er töluverð, því hann vill börnunum sínum allt hið besta og hefur vit á að koma þeim fyrir í öruggu fóstri þegar hann getur ekki sinnt þeim. Foreldrahlutverkið virðist ekki skipta M höfuðmáli í lífinu en hann leggur samt metnað sinn í að hafa regluleg tengsl við dóttur sína.
Tilfinningatengsl við dótturina
Faðir tjáði mjög einlægt væntumþykju sína til dótturinnar og sagði einnig frá tilfinningum um sorg og missi þegar hann þurfti að setja börnin frá sér í fóstur. Faðir leggur mikið upp úr því að A geti treyst því að hann hafi samband reglulega við hana og geri eitthvað með henni. Tilfinningatengsl föður við dóttur sína eru því allnokkur. Faðir sagði einnig frá því að A kallaði hann alltaf pabba þegar þau væru saman og talaði þá um D pabba ef hún minntist á fósturpabba sinn.
Vilji varðandi fyrirkomulag á samskiptum við dótturina
Faðir tjáði sig mjög ákveðið um það að hans vilji væri að halda óbreyttu fyrirkomulagi, þ.e. að A verði áfram í fóstri hjá C og D og að hann héldi forræðinu. Þegar hann var spurður um hvað honum finndist um það ef fósturforeldrar fengju forræði yfir dóttur hans eins og hafði komið til tals sagði hann að það vildi hann alls ekki. Hann sagði ennfremur að hann væri þegar búinn að missa mikið með því að setja A í fóstur en ef forræðið færi yfir til fósturforeldranna þá finndist honum að hann hefði tapað henni alveg og hann mætti ekki til þess hugsa.
4. Fundur (þ.13.10.´99) með K, eiginmanni og lögfræðingi í V. Heimsókn á heimili K og eiginmanns í Rockville á Miðnesheiði og viðtal við K á heimili hennar þ. 15.10. ´99.
_____________________________________________________________________
Almenn atriði
Móðir segist hafa átt við alvarlegt áfengisvandamál að stríða áður, en hefur verið laus við drykkju í næstum tvö ár. Það sama gildi um manninn hennar (R). Hún segir frá því að samband hennar við föður barnanna hafi ekki gengið upp og áfengisvandamál hennar hafi ekki verið eina vandamálið. K upplifði sig sem kúgaða af fyrrverandi sambýlismanni. Hún kynntist núverandi eiginmanni sínum í neyslu og hann kom henni síðan inn á Vog. Hún féll þegar hún kom af Vogi og fór þangað aftur í meðferð. Síðan leituðu K og eiginmaður hennar til Byrgisins sem er kristilegt samfélag fyrir fyrrverandi áfengis- og vímuefnaneytendur. Þau voru fyrst í Hlíðardalsskóla en komu í Rockville á Miðnesheið í mars ´99 og mega vera þar eins lengi og þau vilja, að því gefnu að þau séu laus við áfengi og vímuefni og taki þátt í kristilegu samfélagi. K og eiginmaður hennar vinna við að dytta að og gera upp húsnæðið í Rockville. Þess ber að geta að í Rockville eru íbúðir fyrir skjólstæðinga Byrgisins og á stefnuskránni er að byggja þar samfélag einstaklinga og fjölskyldna sem áður voru í klóm drykkju og vímuefna en byggja nú líf sitt á kristilegum grunni eða „orði Jesú" eins og þau orða það sjálf.
Móðir segir frá því að sonur hennar hafi farið strax í fóstur eftir að hún fór að heiman en A aðeins seinna. K hélt að hún fengi dóttur sína hálfsmánaðarlega til sín en það hefur ekki gengið eftir að hennar sögn. K segist ekki hafa treyst sér til að koma strax í heimsókn eftir að A fór í fóstur enda var hún ennþá í rugli. Fór svo tvisvar í heimsókn ´98 en lítið eftir það. Hitti A síðast í apríl ´99 og fékk þá ekki að hitta hana nema í 1 klst. Móðir segir að fósturforeldrar hafi alfarið neitað að eiginmaður hennar kæmi og hitti A. K segir að fósturforeldrar hafi bannað henni að hitta dóttur sína síðan í apríl ´99 og gefið þá skýringu að best sé að bíða og sjá hvernig forræðismálið fari. K er mjög ósátt við þessa „meðferð fósturforeldranna" á sér eins og hún orðað það sjálf.
K tjáir einnig að hún og eiginmaður hennar ætli sér að vera áfram í Rockville annað standi ekki til. Þeim hjónum líður vel þarna í íbúðinni sinni og þau sækja reglulega samkomur. K segist ekki vera heilaþvegin af Orðinu en að hún leggi mikið upp úr Biblíunni sem hjálpi henni til að lifa frá degi til dags. Fram kemur að þau hjónin K og R fá tvö börn R til sín hálfsmánaðarlega yfir helgi til Rockville.
Hæfni til að gegna foreldrahlutverki
Ljóst er að lífsstíll drykkju og vímuefnaneyslu samræmist ekki barnauppeldi. Óljóst er hvenær fólk er tilbúið í raun að takast á við dagleg verkefni barnauppeldis eftir meðferð við áfengis- og vímuefnasýki. Mér virðist að K og eiginmaður hennar séu að reyna að byggja sér nýtt líf eftir ruglið og að þau finni verulegt hald og traust í þessu kristilega samfélagi sem þau eru þátttakendur í. Þetta samfélag hjálpar þeim ekki eingöngu til að halda sér frá áfengi og vímuefnum heldur glæðir lífið nýrri merkingu og von sem ekki var til staðar áður.
Á hinn bóginn er ljóst að K og eiginmaður hennar eru ekki tilbúin til að lifa „venjubundnu lífi" utan Byrgisins þar sem almennar venjur ríkja. Þau hjónin stunda t.d. ekki ennþá launavinnu á hinum almenna vinnumarkaði. Þó má segja að K og eiginmaður hennar séu fyllilega tilbúin til að takast á við reglulega umgengni við A og séu fullfær um að hafa hana hjá sér í takmarkaðan tíma á reglulegum grundvelli. Aðstæður K eru þær að þau hjónin hafa íbúð út af fyrir sig og geta því auðveldlega boðið A til sín. Ábyrgðartilfinning K virðist allnokkur því henni er mjög umhugað um A og gerir sér grein fyrir að líf sitt áður fyrr hafi verið ábyrgðarlaust. Foreldrahlutverkið virðist skipta K verulegu máli nú og er það ástæða þess að hún sækir þetta forræðismál.
Tilfinningatengsl við dótturina
K tjáði ást sína og umhyggju fyrir dótturinni á eðlilegan hátt. Hún upplifir það að fósturforeldrar séu markvisst að brjóta niður tilfinningasamband A við sig með því að banna henni að hitta dóttur sína. Ljóst er að vegna drykkjuvandamála sinna áður voru veruleg takmörk fyrir því hvaða öryggi K gat veitt dóttur sinni. Nú þegar drykkjuvandamál móður eru fyrir bí þá þarf að byggja upp traust á nýjum grunni á milli A og móður hennar.
Vilji varðandi fyrirkomulag á samskiptum við dótturina
K tjáði undirritaðri að það sem hefði fengið hana til að fara af stað með forræðismálið væru umgengnismálin við fósturforeldrana annars vegar og vilji föður til að gefa sitt forræði á telpunni eftir til fósturforeldra. K segist hafa samþykkt fóstur á sínum tíma vegna þess að hún hélt að það yrði aðeins í stuttan tíma. Hún segist ekki hafa áttað sig á að hún væri að skrifa undir fóstursamning til átján ára aldurs. Vilji K er sá að endurnýja samband sitt við dótturina og fá forræðið yfir henni til sín eða þá að fá sameiginlegt forræði með föður. Hún segist samt gera sé grein fyrir því að ekki sé hægt að rífa barnið frá fósturforeldrunum.
IV. Mat á niðurstöðum og samantekt
1. Möguleg úrræði
Úrræðin í forræðisdeilunni um A gætu mögulega verið fimm:
A. Fósturforeldrar fengju forræði yfir A.
B. Faðir fengi forræðið áfram en tæki A til sín.
C. Óbreytt ástand, áframhaldandi dvöl hjá fósturforeldrum með forræði föður.
D. Móðir færi með forsjá A.
E. Sameiginlegt forræði móður og föður yfir dóttur sinni.
Þessir fimm möguleikar eru ólíkir að innihaldi og einnig misjafnlega öruggir varðandi uppeldi A.
2. Mat á úrræðum
Vert er að hafa í huga að mat á uppeldisaðstæðum barna fela alltaf í sér óvissu og ónákvæmni að einhverju marki. Slíkt mat byggir einnig á vissum gildum um það hverjar heppilegustu uppeldisaðstæðurnar séu. Í forræðisdeildu sem þessari fer ekki hjá því að finna þurfi út hvaða úrræði séu best með tilliti til velferðar A óháð óskum þeirra fullorðnu. Lítum á eftirfarandi töflu sem sýnir hvernig hægt er að lýsa þeim fullorðnu sem uppalendum gagnvart A. Einnig sjáum við hvernig ofannefnd úrræði (A-E) birtast í þessu samhengi.
Tafla 1
|
|
Hæfni |
Tengsl |
Vilji |
|
|
|
Fósturforeldrar |
Ágæt |
Náin |
Vilja forsjá |
A |
|
|
Faðir |
Sæmileg |
Friðsamleg |
Vill forsjá og fóstrun að auki |
B C |
|
|
Móðir |
Sæmileg |
Hafa fjarlægst |
Vill forsjá |
D |
|
|
|
|
|
|
E= |
B+D |
Það má draga þá ályktun út frá þessari töflu að úrræði A (forræði fósturforeldra) og úrræði C (forræði föður en uppeldi í höndum fósturforeldra) séu vænlegustu kostirnir fyrir A eins og málin standa nú. Úrræði B (forræði föður sem tæki A til sín), úrræði D (forræði móður) og úrræði E (sameiginlegt úrræði móður og föður) eru mun óöruggari kostir með tilliti til uppeldis á A. Mögulegt sjötta úrræði, þ.e. forræði móður og áframhaldandi fóstur A hjá núverandi fósturforeldrum hefur ekki verið nefnt hér sem mögulegt úrræði og þá fyrst og fremst vegna þeirra samskiptaörðugleika sem hafa verið á milli móður og fósturforeldra. Tel ég óraunsætt að ætla að móðir og fósturforeldrar gætu sætt sig við þá stöðu mála
Samantekt
A virðist líða vel við þær aðstæður sem hún býr nú. Hún býr við gott atlæti og fær ágætis uppeldi hjá fósturforeldrum sínum í H. Ekki þykir sýnt að rétt sé að raska þessum aðstæðum A í neinum grundvallaratriðum. Þess vegna er annaðhvort forræði fósturforeldra eða forræði föður, sem lætur uppeldi A í hendur fósturforeldra, öruggustu niðurstöðurnar fyrir A í þessu deilumáli.
Samskipti A við föður sinn og móður eru einnig mjög mikilvæg, bæði fyrir foreldrana en ekki síður fyrir stúlkuna sjálfa. Eftir því sem A eldist og þroskast mun uppruninn skipta hana meira og meira máli. Samskipti A við föður sinn virðast í friðsamlegum farvegi en tengslin við móðurina hafa slitnað og getur það haft vissar afleiðingar fyrir A seinna meir þegar hún fer að fóta sig í lífinu á eigin spýtur, því upprunaleg móðir hefur ætíð fyrirmyndargildi fyrir dóttur sína.
Það virðist sem núverandi ástand með forræði föður og uppeldi A í höndum fósturforeldra hafi gengið upp að hluta til vegna þess að faðir er tiltölulega óvirkur og nokkuð laus við afskiptasemi gagnvart uppeldi fósturforeldranna. Öfugt er farið með móður A, hún er afskiptasamari og kröfuharðari gagnvart fósturforeldrum og vill ekki lúta þeim. Móðirin lendir því í deilum við fósturforeldrana. Fósturforeldrar skynja móður A sem ógnun við sitt heimili og við A og verja því stúlkuna gegn móður sinni eins og A væri þeirra eigin dóttir og móðirin utanaðkomandi aðili sem hefði enga mikilvæga þýðingu fyrir þroska A.
Deilur fósturforeldra og móður eiga rætur sínar í valdabaráttu um forræði yfir A. Algengast er að faðir og móðir deili um forræði barna sinna. Í þessu máli stendur faðirinn að vissu leyti fyrir utan deilu móður og fósturforeldra um forræðið en þó ekki alveg því hann gaf það í skyn að hann vildi alls ekki missa forræði yfir dótturinni eins og látið var liggja að í fyrri gögnum um þetta mál.
Að lokum: Forræðið skiptir höfuðmáli á meðan A er barn en tengsl við upprunann fara að vega þungt þegar barn breytist í fullorðna manneskju. Best væri að A fengi ákjósanlegustu uppeldisaðstæðurnar nú á meðan hún er barn en fengi auk þess að rækta reglulega tengsl sín við föður og móður. Tengsl eða tengslaleysi við föður og móður munu einnig, ásamt uppeldinu, vega þungt í því hvernig henni gengur að feta sig í lífinu sem fullorðinn einstaklingur.”.
Sálfræðingurinn ítrekaði fyrir dómi að færi svo að stefnanda yrði dæmd forsjáin þá væri stúlkunnar vegna ekki rétt að raska núverandi skipan mála um að barnið skuli vera í umsjá C og D. Vitnið sagði föður vera tiltölulega óvirkan og lausan við afskiptasemi gagnvart uppeldi dóttur sinnar, en léti fósturforeldrana um það. Vitnið kvað stúlkuna hafa virkað fjarlæga stefnanda, enda ekki hafa verið í miklum samvistum við hana síðastliðinn tvö ár. Hins vegar hefði hún ekki gleymt stefnanda, en setja allt sitt traust á C og D, þar sem hún hafi fundið ákveðið öryggi og vellíðan og væri hún glöð og sæl í dag. Sálfræðingurinn kvaðst ekki þekkja til núverandi dvalarstaðar stefnanda, en meðan athugunin hafi farið fram hafi stefnandi búið á Rockwille. Þó breyting hafi orðið á búsetu stefnanda þá eigi það ekki að hafa afgerandi áhrif á niðurstöður vitnisins, þar sem röskun á högum stúlkunnar yrði henni allt að einu afar erfið. Vitnið kvaðst ekki hafa fengið á tilfinninguna við samtal sitt við stúlkuna að afstaða hennar til stefnanda hafi mótast af annarlegum þrýstingi frá C og D, heldur telja að stúlkan hafi tjáð sér það sem henni hafi búið í brjósti og hafi tilfinningar hennar verið mjög eðlilegar. Þá kvaðst vitnið ekki hafa fundið gegnum viðtal sitt við barnið að C og D væru að reyna að eyðileggja tengsl hennar við stefnanda. Hins vegar bæri að hafa í huga að um væri að ræða unga stúlku sem ekki hafi hitt móður sína um langan tíma. Vitnið kvað stúlkuna hafa virkað eðlilega stúlku, að öllu leyti.
Fyrir dómi kom fram hjá stefnanda að hún hefði hætt drykkju fyrir tæpum tveimur árum og væri líf hennar í föstum skorðum. Frá 13. janúar sl. hafi hún og eiginmaður hennar, R, búið í áfangaheimilinu Krossgötum að [...]. Ástæður þess að þau hjón hafi flutt frá Rockwille séu þær helstar að þau eigi ekki bifreið auk þess sem þau ættu auðveldara með að sækja samkomur á vegum Krossins. Þau hefðu sérstaka íbúð, en þau gætu einnig matast í matsal hússins. Þau gætu búið þar svo lengi sem þau vilji og það væri stefnan hjá þeim að búa þar um langa hríð. Stefnandi kvaðst selja bækur í gegnum síma á vegum Krossins og vera virk í starfi þar en eiginmaður hennar væri einnig við vinnu. Stefnandi kvaðst stundum hafa átt ágæt samtöl við dóttur sína í síma, en hún sé þvinguð ef fósturforeldrar hennar eru nálægt meðan hún talar í síma. Stefnandi kvað fósturforeldrana hafa hindrað umgengni sína við stúlkuna og ekki hafa fengið að vita ástæðu þess. Stefnandi kvað það þó rétt vera að hún hafi í þrígang boðað komu sína á heimili fósturforeldranna, en ekki staðið við það, þar sem hún hafi ekki treyst sér til þess, heldur talið sig þurfa frekari tíma til þess að jafna sig og safna kjarki áður en hún hitti hana. Nú þegar hún telji sig hafa forsendur til að rækja umgengni sína við barnið þá sé henni ekki leyft það. Stefnandi kvað forsendu þess að hún samþykkti að dóttir sín færi í fóstur hafi verið þá að hún fengi umgengnisrétt við barnið. Þær vanefndir á samningnum og ósk föður um breytingar á forsjá barnsins, hefði orðið til þess að hún hafi höfðað þetta mál. Stefnandi kvað eiginmann sinn eiga tvö börn og rækja umgengni sína við börnin þannig að þau dvelji hjá þeim hjónum um hverja helgi.
Af hálfu stefnanda kom þó fram að fái hún forsjá barna sinna þá kæmi allt eins til greina að hún myndi ekki reyna að hnika við fóstursamningnum, a.m.k. fyrsta árið, ef umgengni yrði gætt.
Stefndi bar fyrir dómi að fyrirkomulag á umgengni hans við dóttur sína væri með besta móti og ekkert út á það að setja. Færi svo að dómur féllist á kröfu hans um forsjá, myndi hann ekki reyna að freista þess að stúlkan yrði tekin úr fóstri, enda liði henni nú vel. Stefndi gat ekki nefnt ástæðu þess að hann óskaði eftir því að fósturforeldrarnir fengju forsjána, en sagðist hafa sett fram þá ósk í reiðiskasti vegna ónæðis frá stefnanda sem óskað hafi eftir að forsjáin yrði sameiginleg. Þá gat stefndi ekki skýrt frá ástæðum þess að hann dró þá ósk sína til baka. Stefndi sagði stefnanda ekki hafa sinnt umgengni við stúlkuna sem skyldi eftir að honum var falin forsjáin og áður en stúlkunni var komið í fóstur, hún hafi t.d. eitt sinn farið með hana til móðurömmu sinnar, en drukkið áfengi þannig að hann hafi þurft að ná í barnið þaðan. Stefndi kvað stefnanda hafa haft frumkvæði að því að stúlkunni var komið í fóstur, en sér hafi skilist á stefnanda að hún hafi ekki viljað að barnið dveldi hjá honum þar sem hann hafi búið og byggi enn í foreldrahúsum.
Vitnið C kvað stúlkunni hafa augljóslega vanist því að sjá mikið um sig sjálf, er hún fyrst kom til þeirra hjóna. Stúlkunni hafi þó greinilega ekki liðið mjög vel, hún hafi pissað undir á nóttunni og oft vaknað upp með andfælum. Þá hafi hún sífellt verið að spyrja þau D hvort þau færu nokkuð frá henni eða myndu skilja hana eftir eina, en hún hafi sagt þeim að oft hefði hún verið skilin eftir ein heima með bróður sínum. Vitnið kvað stúlkuna hafa treyst D strax, en hins vegar hafi það tekið vitnið langan tíma að vinna trúnað hennar, sem hafi haft á orði að „mömmum væri ekki treystandi”. Vitnið kvað stúlkunni líða vel nú um stundir og vera „allt annað barn” Vitnið kvað umgengni stefnda við dóttur sína hafa gengið vel. Framkvæmdin væri ekki njörfuð niður, heldur væri farið eftir samkomulagi hverju sinni. Hið sama væri ekki að segja um umgengni stefnanda við stúlkuna. Fyrst eftir að stúlkan flutti til þeirra D hafi stefnandi hringt í tíma og ótíma. Stefnanda hafi verið boðið að koma í heimsókn, en hún ekki sagst treysta sér til að koma, en stefnandi hafi einnig ítrekað sagst ætla að koma tiltekinn dag í nóvember 1997, en ekki staðið við það. Einnig séu dæmi þess að þau hafi á árinu 1997 meinað stefnanda að fá barnið vegna upplýsinga frá móður stefnanda að stefnandi væri ekki í standi til að hafa barnið. Síðar, eða á árinu 1998, hafi stefnandi og R eiginmaður hennar, flutt til Ú og stöðugt verið að biðja þau hjón um að senda stúlkuna með flugi þangað. Þau hafi reynt að útskýra fyrir stefnanda hvers vegna það gengi ekki, en þá hafi R, eiginmaður stefnanda, hringt í vitnið og hótað þeim hjónum málaferlum og sagt að hann myndi „negla” þau eins og hann hafi komist að orði. Vegna þessarar framkomu R, sem þau hafi vitað að hefði komist ítrekað í kast við lögin og með hliðsjón af því sem á undan hafði gengið hafi þau tekið þá ákvörðun að stefnandi skyldi ekki hitta stúlkuna nema heima hjá þeim hjónum og þá myndi R ekki vera með í för. Vitnið kvað ástæðu þess að ár hafi liðið frá því að þau fengu stúlkuna í fóstur og þar til stefnandi heimsótti hana vera þá að stefnandi hafi ekki viljað koma í heimsókn án R, en það hafi þau hjón þvertekið fyrir. Þá nefndi vitnið að ástæða þessarar neitunar sé einnig sú að stúlkunni væri órótt er stefnandi hringdi í hana, en eftir samráð við fagaðila þá hafi þau D eigi að síður fengið stúlkuna með fortölum að tala við stefnanda í síma og í eitt sinn hafi vitnið þurft að skipa stúlkunni að gera það. Kvað vitnið stúlkuna óttast að stefnandi kæmi og tæki sig af heimili þeirra hjóna og hefði sá ótti komið upp í ágúst 1998, strax eftir að stefnandi kom fyrst í heimsókn og hafi stúlkan oft spurt af hverju hún þyrfti að hitta móður sína, þó bróðir hennar þyrfti ekki að gera það. Vitnið kvað það rétt vera sem fram komi í einu bréfa lögmanns stefnanda til vitnisins að þau hafi ekki svarað er stefnandi hafi hringt til þeirra á fyrirfram ákveðnum tíma, eða klukkan 19:00, laugardaginn 16. október 1999. Ástæða þess hafi verið sú að þau hafi ekki getað verið heima hjá sér þá, en ekki getað náð í stefnanda til að tilkynna henni um það. Vitnið kvað það rétt vera að sambærilegt tilvik hefði einnig komið upp síðar. Vitnið kvað þau hjón ætíð hafa kosið að stúlkan myndi halda sambandi við móður sína, en slíkt þyrfti að vera eftir ákveðinni reglu en vitnið kvaðst hafa tilkynnt stefnanda að hún skyldi ekki hringja í dóttur sína nema á ákveðnum tímum, en stefnandi hafi þó stundum gleymt að hringja. Kvaðst vitnið telja að stefnandi ætti að fá frekari umgengni smátt og smátt, meðan stefnandi væri að koma skikk á líf sitt. Fram kom hjá vitninu að samband stúlkunnar við bróður sinn væri mikið og gott.
Vitnið D kvað þau hjón alla tíð hafa viljað koma á eðlilegri umgengni stúlkunnar við foreldra sína. Stefndi hafi sinnt sínum skyldum vel og verið liðlegur við að taka tillit til þarfa stúlkunnar, t.d. sleppt heimsóknum ef hún hafi þurft að fara í afmæli vina sinna o. s. frv. Hins vegar hafi stefnandi engan vegin sinnt sínum skyldum allt fram í ágúst 1998. Stefnandi og R eiginmaður hennar hafi hringt í þau hjón í tíma og ótíma, en þau ekki treyst stefnanda og R fyrir því að fá stúlkuna í heimsókn m. a. til Ú á árinu 1998. Bæði hafi stúlkan verið mjög óörugg vegna samskipta sinna við stefnanda sem lýsi sér m. a. í því að hún hafi átt andvökunætur og hafi stundum pissað undir eftir sum símtölin. Þá kvaðst vitnið ekki hafa viljað fá R á sitt heimili vegna fortíðar hans og ekki treysta því fyllilega að stefnandi sé nægilega örugg í sínu lífi til að fá barnið í heimsókn til sín. Vitnið þvertók hins vegar fyrir það að hann og eignkona sín hafi reynt að hafa áhrif á stúlkuna í þessu sambandi, heldur hafi þau haft samband við ýmsa fagaðila vegna þessa ástands svo þau mættu komast að sem réttastri afstöðu varðandi umgengni stefnanda við stúlkuna. Vitnið sagði stúlkuna hafa tekið miklum stakkaskiptum til hins betra frá því að hún kom til þeirra í fóstur. Vitnið kvaðst vilja að stúlkan myndi hafa samskipti við stefnanda, en slíkar breytingar yrðu að gerast hægt og kvaðst vitnið ekki vilja taka mikla áhættu í sambandi við umgengni stúlkunnar við stefnanda.
Vitnið Gunnar Þorsteinsson, forstöðumaður Krossins, kvað stefnanda og eiginmann hennar hafa sýnt einurð við að snúa lífi sínu til betri vegar. Hafi stefnandi einnig fengið afbragðs vitnisburð frá starfsmönnum Byrgisins, er sæju um heimilið á Rockwille. Vitnið sagði aðstöðu þeirra til búsetu vera ágæta í áfangaheimili safnaðarins, þau hefðu til umráða 40-50 fermetra íbúð, svefnherbergi, stofu, baðherbergi og eldhús í nýju og vönduðu húsi. Þau hafi einnig aðgang að mötuneyti hússins. Vitnið sagði að ráðgjafar væru á staðnum sem fylgdust með þroska íbúa og viðgangi. Hjá vitninu kom einnig fram að aðstaða væri til að hafa börn á staðnum, þó enn sem komið væri byggju þar engin börn að staðaldri. Vitnið nefndi einnig að þeir sem lengst hefðu dvalið á áfangaheimilinu hafi gert það í tvö ár, en hins vegar væri íbúum ekki sett nein tímamörk í því sambandi.
VI. Niðurstöður
Eins og fram kemur í mati Guðrúnar Einarsdóttur sálfræðings eru málsaðilar báðir sæmilega hæfir til að ala upp dóttur þeirra. Þá lætur sálfræðingurinn þess getið að hæfni fósturforeldranna til að ala upp stúlkuna sé ágæt.
Upplýst er að á meðan stefnandi var í óreglu virðist sem hún hafi sinnt börnum sínum afar slælega. Raunar svo að starfsfólk Landspítalans sá ástæðu til að gera Félagsmálastofnun F viðvart um aðbúnað B, fyrst með bréfi, dagsettu 10. mars 1995 og aftur með bréfum 17. júní 1996 og 16. desember 1996. Vegna óreglu stefnanda varð það að samkomulagi milli aðila að stefndi fengi forsjá barna þeirra er þau slitu samvistir sumarið 1997. Hins vegar virðist stefndi ekki heldur hafa verið í stakk búinn til að sinna uppeldi þeirra sem skyldi enda var þeim báðum komið í fóstur strax um haustið 1997. Var það gert með samþykki stefnanda.
Ekki er með öllu upplýst hvenær stefnandi hætti áfengisdrykkju, en af upplýsingum stefnanda og öðrum gögnum málsins mun það hafa verið fyrir u. þ. b. einu og hálfu ári. Síðan þá hefur hún búið við verndaðar aðstæður. Er það mat Guðrúnar Einarsdóttur, sálfræðings, að nýlegar búsetubreytingar stefnanda hafi ekki haft afgerandi áhrif á álit hennar á hæfni stefnanda til að ala upp dóttur sína.
Stefnandi hefur ekki oft hitt dóttur sína frá því að málsaðilar slitu samvistir og síðast hittust þær í maí 1999. Í þessu sambandi verður að geta þess að ágreiningur hefur verið milli stefnanda og fósturforeldra stúlkunnar um hvernig haga skuli umgengnismálum. Þrátt fyrir að gengið sé út frá því að stefnandi fái ekki að njóta umgengni við dóttur sína sem skyldi, eru skýringar fósturforeldra á því skiljanlegar, m. a. þegar litið er til forsögu málsins sem markast af því að stefnandi rækti ekki umgengniskyldur sínar við barnið og heimsótti hún dóttur sína fyrst eftir að ár var liðið frá því að barninu var komið í fóstur. Í þessu sambandi verður að hafa í huga að umgengni föður við stúlkuna er með eðlilegum hætti og í ágætri sátt við fósturforeldra stúlkunnar. Kemur raunar fram hjá Guðrúnu Einarsdóttur, sálfræðingi, að hún telji að fósturforeldrar stúlkunnar hafi ekki reynt að hafa óeðlileg áhrif á stúlkuna í afstöðu hennar til móður. Þrátt fyrir að stúlkan sé einungis átta ára gömul og afstaða hennar, eins og annarra barna á þessum aldri, mótist mjög af umhverfinu verður að hafa í huga að stúlkan lýsti í viðtali við Guðrúnu Einarsdóttur sálfræðing mikilli væntumþykju í garð fósturforeldra sinna og ótta við breytingar á sínum högum. Lýsti sálfræðingurinn stúlkunni nú sem eðlilegri og lífsglaðri ungri stúlku sem búi við öruggar og góðar aðstæður enda hafi fósturforeldrar hennar auðsýnt henni öryggi og hlýju. Þá verður ekki annað ráðið af skýrslu sálfræðingsins, framburði stefnda og fósturforeldra stúlkunnar fyrir dómi, en að stúlkan sé í góðu sambandi við stefnda.
Aðstæður stefnda eru hinar sömu og er hann fékk forsjá barnsins og hefur hann lýst því yfir að hann vilji alls ekki raska högum barnsins frá því sem er. Þrátt fyrir að stefnandi hafi snúið lífi sínu til betri vegar og teljist sæmilega hæfur uppalandi, er ekki mjög langt síðan hún hætti drykkju. Þá er helst á stefnanda að skilja að verði henni dæmd forsjáin í máli þessu muni það hafa breytingar í för með sér fyrir barnið, því stefnandi muni innan ekki langs tíma freista þess að fá barnið úr höndum fósturforeldranna. Auk þess ber að nefna, að verði stefnanda dæmd forsjá, er ýmislegt sem bendir til að umgengni barnsins við fósturforeldra og föður muni ekki verða með þeim hætti, sem væru því fyrir bestu. Þannig hafa samskipti og umgengni við telpuna og fósturforeldra hingað til verið brotakennd og erfið, sem að miklum hluta má gera stefnanda ábyrga fyrir. Telpan er nú í góðu tilfinningasambandi við fósturforeldra og föður, sem nauðsynlegt er að viðhalda. Óljóst er nú hversu áreiðanleg stefnandi yrði í að virða umgengni, fengi hún forsjánna. Einnig má hafa í huga, að stefnandi býr nú við mjög verndaðar aðstæður á vegum trúfélagsins Krossins og hefur notið talsverðs aðhalds frá þeim aðila og þannig tekist að ná tökum á áfengisvandamáli sínu. Verður vart talið að um framtíðarbúsetu sé að ræða. Mjög óljóst er á þessu stigi málsins hversu hæf stefnandi yrði til að fóta sig við sjálfstæða búsetu síðar meir og þar með einnig að skapa barninu þroskavænleg skilyrði.
Úr máli þessu verður að leysa í samræmi við það sem talið er barninu fyrir bestu, samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 20/1992. Þá verður breyting á forsjá barnsins einungis tekin til greina að hún þyki réttmæt með tilliti til breyttra aðstæðna, hags og þarfa barnsins, samkvæmt 1. mgr. 35. gr. sömu laga.
Þegar litið er til alls framanritaðs, sérstaklega þess að aðstæður barnsins eru nú ákjósanlegar, telpan lifir nú góðu og heilbrigðu lífi við öryggi og væntumþykju þar sem hún fær að þroskast eðlilega og ótvíræður vilji hennar stendur til að vera þar áfram, er óforsvaranlegt að högum barnsins verði raskað. Samkvæmt því skal stefndi hafa forsjá barnsins.
Rétt þykir að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, 395.474 krónur greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Hilmars Ingimundarsonar, hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur. Hefur þá verið tekið tillit til skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt.
Gjafsóknarkostnaður stefnda, 373.500 krónur, sem er þóknun lögmanns stefnda, Daggar Pálsdóttur, hæstaréttarlögmanns, greiðist úr ríkissjóði. Hefur þá verið tekið tillit til skyldu stefnanda að greiða virðisaukaskatt.
Dóm þennan kveða upp Ólafur Börkur Þorvaldsson, dómstjóri og meðdómsmennirnir Margrét Bárðardóttir og Ragna Ólafsdóttir, sálfræðingar.
Dómsorð:
Stefndi, M, skal fara með forsjá dóttur málsaðila, A, sem fædd er [...] 1992.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnanda, K, 395.474 krónur, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin þóknun lögmanns stefnanda, Hilmars Ingimundarsonar, hæstaréttarlögmanns, 373.500 krónur.
Gjafsóknarkostnaður stefnda, 373.500 krónur, sem er þóknun lögmanns stefnda, Daggar Pálsdóttur, hæstaréttarlögmanns, greiðist úr ríkissjóði.