Hæstiréttur íslands

Mál nr. 170/2003


Lykilorð

  • Kærumál
  • Hjón
  • Fjárslit


Föstudaginn 16

 

Föstudaginn 16. maí 2003.

Nr. 170/2003.

Sævar Örn Helgason

(Hilmar Ingimundarson hrl.)

gegn

Línu Jia

(Þórður Clausen Þórðarson hrl.)

 

Kærumál. Hjón. Fjárslit.

Málsaðilar stofnuðu til hjúskapar í febrúar 1997, en S leitaði lögskilnaðar í ágúst 2000. Var lagt til grundvallar að aðilar hafi ekki búið saman frá því í febrúar 1999. L keypti eignarhlut í fasteign í september 1999, en seldi hann aftur í febrúar 2001. S hafði hvorki sýnt að hann hafi lagt neitt af mörkum til kaupa á eigninni né hafði hann leitt líkur að því að fjárhagsleg tengsl hafi verið milli hans og L eftir þann tíma, sem miðað var við að samvistum þeirra hafi lokið. Þegar litið var til þessa, svo og lengdar hjúskapar aðilanna og fjárhags þeirra að öðru leyti, var fallist á niðurstöðu héraðsdóms um að umræddur eignarhluti kæmi óskert í hlut L við opinber skipti til fjárslita milli aðilanna.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Gunnlaugur Claessen.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 30. apríl 2003, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 8. maí sl. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2003, þar sem fallist var á kröfu varnaraðila um að andvirði eignarhluta, sem hún átti í fasteigninni Hamraborg 20a í Kópavogi og auðkenndur er nr. 0101, kæmi óskert í hennar hlut við opinber skipti til fjárslita milli hennar og sóknaraðila vegna hjónaskilnaðar. Kæruheimild er í 133. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. Sóknaraðili krefst þess að fasteign þessi komi til helmingaskipta við fjárslit aðilanna og varnaraðila verði gert að greiða sér 2.684.887 krónur. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur og sér dæmdur málskostnaður í héraði ásamt kærumálskostnaði.

Samkvæmt þjóðskrá ber varnaraðili, sem nefnd er Rui Jia í hinum kærða úrskurði, nú nafnið Lína Jia.

Eins og nánar greinir í úrskurði héraðsdómara stofnuðu málsaðilarnir til hjúskapar í febrúar 1997, en sóknaraðili mun hafa leitað lögskilnaðar 3. ágúst 2000. Verður fallist á með héraðsdómara að leggja verði til grundvallar þá staðhæfingu varnaraðila að aðilarnir hafi ekki búið saman frá því í febrúar 1999. Varnaraðili keypti fyrrnefndan eignarhlut í fasteign 3. september 1999, en seldi hann aftur 20. febrúar 2001. Sóknaraðili hefur hvorki sýnt að hann hafi lagt neitt af mörkum til kaupa á þessari eign né hefur hann leitt líkur að því að fjárhagsleg tengsl hafi verið milli hans og varnaraðila eftir þann tíma, sem miða verður við samkvæmt áðursögðu að samvistum þeirra hafi lokið. Þegar litið er til þessa, svo og lengdar hjúskapar aðilanna og fjárhags þeirra að öðru leyti, verður að fallast á að skilyrði séu hér til að beita ákvæði 1. mgr. 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 varðandi umrædda fasteign við fjárslit milli þeirra. Með þessum athugasemdum og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður niðurstaða hans staðfest á þann hátt, sem í dómsorði greinir, en með því að varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn fyrir sitt leyti getur ekki komið til frekari álita krafa hennar um breytingu á ákvæði úrskurðarins um málskostnað.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Við opinber skipti til fjárslita milli sóknaraðila, Sævars Arnar Helgasonar, og varnaraðila, Línu Jia, vegna hjónaskilnaðar kemur andvirði eignarhluta nr. 0101 í fasteigninni Hamraborg 20a í Kópavogi óskert í hlut varnaraðila.

Ákvæði hins kærða úrskurðar um málskostnað er staðfest.

Sóknaraðili greiði varnaraðila 150.000 krónur í kærumálskostnað.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 16. apríl 2003.

                Ágreiningsmál þetta, sem tekið var til úrskurðar 19. mars sl., barst Héraðsdómi Reykjaness 6. janúar 2003 frá skiptastjóra í samræmi við 112. gr. laga nr. 20/1991. 

 Sóknaraðili er Rui Jia, kt. 290960-2079, Háteigsvegi 48, Reykjavík en varnaraðili er Sævar Örn Helgason, kt. 140844-5789, Reykjavíkurvegi 68, Hafnarfirði.

                Dómkröfur sóknaraðila eru þær að við skipti á félagsbúi hennar og varnaraðila vegna hjónaskilnaðar verði sóknaraðila heimilað samkvæmt 104. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 að taka að óskiptu úr hjúskapareign nettóeignarhluta sóknaraðila í Hamraborg 20a, eignarhluta 0101, Kópavogi og að varnaraðili verði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar.

                Dómkröfur varnaraðila eru þær að framangreindri kröfu um skipti verði hafnað og að staðfest verði niðurstaða skiptastjóra að við skipti á félagsbúi aðila skuli helmingaskiptaregla 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 gilda um skiptin á milli þeirra. Jafnframt að tekin verði til greina endurgjaldskrafa varnaraðila þess efnis að sóknaraðili greiði varnaraðila 2.684.887 krónur.  Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I.

                Sóknaraðili kveður málavexti þá að hún hafi komið til Íslands árið 1996 en hún sé menntuð á sviði nálarstungu og nudds.  Hún hafi haft meðferðis hingað til lands fé í dollurum sem hún hafi ætlað til þess að setja hér á stofn nálarstungu-og nuddstofu en hluta þeirrar fjárhæðar hafi hún fengið að láni hjá vinum og vandamönnum.  Hún eigi eina dóttur, Xibei Zhang, fædda 3. júní 1986 og búi hún hjá móður sinni.  Eftir komu sína til landsins hafi hún í fyrstu búið hjá bróður sínum að Skólavörðustíg 18 í Reykjavík.

                Í febrúar 1997 hafi hún gifst varnaraðila og þau hafið sambúð í lok apríl sama ár.  Hafi hún þá flutt ásamt dóttur sinni til varnaraðila að Víðihvammi 14 í Kópavogi og hafi þau búið þar um tíma. Í desember 1998 hafi þau flutt að Flúðaseli í Reykjavík.  Sóknaraðili segir að sambúðin hafi gengið illa. Varnaraðili hafi ekki stundað fasta vinnu og fjármál hans verið í ólestri. Hann hafi ekkert lagt til framfærslu fjölskyldunnar en neytt allra bragða til þess að ná af henni fé sem hún hafði aflað sér og einnig reynt að komast í það fé er hún hafi haft með sér frá Kína.  Á þessum stutta sambúðartíma hafi aldrei stofnast fjárhagsleg samstaða með þeim og bú varnaraðila hafi verið tekið til gjaldþrotaskipta 9. desember 1999.

                Í febrúar 1999 hafi slitnað upp úr sambúð aðila og hafi sóknaraðili farið til Kína ásamt dóttur sinni og dvalið þar í sex mánuði.  Sóknaraðili kveðst hafa komið frá Kína í ágúst 1999 og ráðist þá í að koma upp nálarstungu-og nuddstofu í Kópavogi.  Með kaupsamningi 3. september 1999 hafi hún keypt eignarhluta að Hamraborg 20a í þessu skyni.  Hún hafi tekið við húsnæðinu 1. september 1999 og hafi þær mæðgur flust þangað fljótlega og búið þar.  Fyrsta mánuðinn eftir komu sína frá Kína hafi hún þó búið hjá systur sinni.

                Sóknaraðili kveðst hafa greitt 1.000.000 krónur við undirritun kaupsamnings með því fé sem hún hafi komið með frá Kína.  Varnaraðili hafi ekki komið nálægt þessum kaupum en hann hafi þó mætt með henni til aðstoðar við kaupsamningsgerð  þar sem hún tali ekki íslensku og lélega ensku.  Þau hafi hins vegar ekki tekið upp sambúð eftir að hún hafi komið frá Kína.

                Sóknaraðili kveður varnaraðila hafa tekið sambúðarslitum mjög illa. Hafi hann ofsótt hana og haft í hótunum. Ofsóknir þessar hafi stigmagnast og að lokum hafi varnaraðili verið úrskurðaður í nálgunarbann og dæmdur í Hæstarétti í 15 mánaða óskilorðsbundið fangelsi fyrir líkamsárás á starfsmann á nuddstofunni og fyrir eignaspjöll.

                Sóknaraðili kveðst hafa keypt eignina að Hamraborg 20a á 7.200.000 krónur og hafi kaupsamingsgreiðslur átt að greiðast þannig: Við undirritun kaupsamnings, 1.000.000 krónur. Gegn skilyrtu veðleyfi við undirritun kaupsamnings, 4.500.000 krónur. Hinn 15. desember 1999, 1.000.000 krónur og hinn 15. mars 2000, 700.000 krónur.

                Sóknaraðili kveðst hafa greitt fyrstu greiðsluna að fjárhæð 1.000.000 krónur með dollurum er hún hafi komið með frá Kína.  Aðra greiðslu að fjárhæð 4.500.000 hafi hún greitt með því að fá lán í banka.  Hefur afrit þess veðskuldabréfs verið lagt fram í málinu.  Seinni greiðslur hafi hún greitt með sjálfsaflafé að hluta en einnig með dollurum.

                Rekstur nuddstofunnar hafi gengið illa og að lokum hafi hún neyðst til þess að selja fasteignina. Hafi fyrrverandi eiginmaður hennar, Zhan Wei, keypt eignina á 10.000.000 króna þann 20. febrúar 2001.

                Sóknaraðili rökstyður mál sitt með því að fasteignin hafi eingöngu verið keypt fyrir fé sem sóknaraðili hafi komið með í búið og með afrakstri af vinnu hennar eftir að sambúð aðila hafi verið lokið. Hún hafi tekið lán frá vinum og kunningjum til þess að standa undir kaupunum og rekstri á nuddstofunni. Hún hafi tekið á sig þær veðskuldir er á eigninni hafi hvílt og síðan selt eignina til þess að létta á skuldastöðu sinni og endurgreiða þeim er höfðu lánað henni..  Sanngirnissjónarmið leiði til þess að víkja beri frá helmingakiptareglunni. Skilyrði 104. gr. laga nr. 31/1933 séu uppfyllt.  Hjúskapur hafi staðið skamma hríð og fjárhagsleg samstaða hafi ekki verið með aðilum. Engin gögn hafi verið lögð fram um að varnaraðili hafi aflað tekna á sambúðartímanum. Varnaraðili hafi verið úrskurðaður gjaldþrota 9. ágúst 1999 og engar eignir fundist í búi hans.  Varnarðili hafi aldrei lagt fram neitt til eignamyndunar í búinu.  Sóknaraðili hafi keypt eignina hafið rekstur nuddstofunnar um sjö mánuðum eftir að þau hafi slitið samvistum.  Búið hafi verið að gera árangurslaust fjárnám hjá varnaraðila á þeim tíma er hún hafi keypt fasteignina.  Það yrði bersýnilega ósanngjarnt ef varnaraðili fengi eitthvað í sinn hlut af hjúskapareign sóknaraðila.

II.

                Varnaraðili kveður þau hafa keypt eign að Víðihvammi 14 í Kópavogi og hafi notað andvirði þeirrar eignar til þess að kaupa fasteignina að Hamraborg 20a, Kópavogi.  Þau hafi enn verið í sambúð á þeim tíma og hafi sóknaraðili flutt til hans er hún hafi komið frá Kína í ágúst 1999.  Þau hafi ekki slitið samvistum fyrr en í júní eða júlí 2000.  Hann hafi sótt um skilnað 3. ágúst 2000.  Varnaraðili kveðst hafa aðstoðað sóknaraðila við að setja upp nuddstofu að Hamraborg 20a.  Hafi hann aðstoðað við að innrétta húsnæðið og lagt til efni og vinnu.  Nuddstofan hafi verið formlega opnuð 1. desember 1999 og hafi varnaraðili unnið á nuddstofunni við afgreiðslu ásamt því að sjá um auglýsingar.  Þá hafi varnaraðili staðið að því að fá kínverskan nuddara til landsins til að starfa á nuddstofunni.  Sameiginlegt fjárfélag hafi verið með aðilum allan tímann og ekki gerður kaupmáli um fasteignina.

                Sóknaraðili hefur viðurkennt að varnaraðili hafi hjálpað henni að mála fasteignina.  Það sé hins vegar ekki rétt að hann hafi verið í afgreiðslu enda hafi engin slík móttaka eða afgreiðsla verið á staðnum.  Þá mótmælir hún því að varnaraðili hafi keypt efni eða lagt til efni við breytingar á húsnæðinu.  Þá hafi varnaraðili farið með henni í bankann er hún hafi fengið lán að fjárhæð 4.500.000 krónur.  Hún hafi litið á það sem formskilyrði að hann hafi þurft að skrifa undir skuldabréfið sem maki hennar þar sem þau hafi á þessum tíma enn verið skráð sem hjón.

                Af hálfu varnaraðila er á því byggt að við skiptin eigi að gilda helminga­skiptaregla samkvæmt 103. gr. hjúskaparalaga nr. 31/1933.  Sóknaraðila hafi ekki tekist að sýna fram á að víkja eigi frá þeirri reglu.  Sóknaraðila hafi ekki tekist að sýna fram á að hún hafi getað ein og óstudd keypt Hamraborg 20a.  Endurgjaldskröfu sína reisir varnaraðili á 107. gr. laga nr. 31/1993. 

III.

                Vitnið Sveinbjörn Kristjánsson, fyrrverandi eigandi Hamraborgar 20a, staðfesti frásögn sóknaraðila um að hún hafi greitt útborgunargreiðslu með dollurum.  Vitnið Ragna Freyja Karlsdóttir hefur verið í nálarstungu og nuddi hjá sóknaraðila frá því í september eða október 1999.  Hún sagðist vera kennari og hafi jafnframt tekið að sér að kenna dóttur sóknaraðila íslensku. Hún hafi því oft komið á heimili þeirra mæðga allan þann tíma er þær hafi búið að Hamraborg 20a, alveg frá því í september eða október 1999 þar til nýlega er þær hafi flutt.  Hún kveðst ekki hafa orðið vör við annað en að mæðgurnar byggju einar að Hamraborg 20a og hafi hún aðeins einu sinni rekist á varnaraðila þar.  Vitnið Ragnar Hansen var giftur systur sóknaraðila 1996 til 1999 og rak bílapartasölu með varnaraðila.  Hann sagði að sóknaraðili hafi búið að Reykjavíkurvegi 68 með varnaraðila eftir að hún hafi komið frá Kína.  Vitnið Wang Bing er gift syni varnaraðila.  Hún sagðist hafa komið til landsins í febrúar 2000 og  búið að Reykjavíkurvegi 68, Hafnarfirði. Þá hafi aðilar þessa máls búið þar. Vitnið Xibei Zhang, dóttir sóknaraðila, sagði þær mæðgurnar hafa búið fyrst hjá systur sóknaraðila eftir að þær hafi komið frá Kína í ágúst 1999 en síðan flutt að Hamraborg 20a.

IV.

                Aðilar gengu í hjónaband í febrúar 1997 og sótti varnaraðili um lögskilnað 3. ágúst 2000.  Deilt er um hvenær aðilar slitu samvistum.  Sóknaraðili heldur því fram að það hafi verið er hún hélt til Kína til sex mánaða dvalar í febrúar 1999.  Eftir það hafi þau ekki búið saman.  Varnaraðili heldur því aftur á móti fram að aðilar hafi búið saman í um tíu mánaða skeið eftir að sóknaraðili hafi komið frá Kína.  Báðir aðilar hafa leitt vitni fyrir dóminn til þess að bera um þetta atriði.  Frásögn sóknaraðila og hennar vitna um þetta atriði er mun trúverðugari en frásögn varnaraðila og hans vitna.  Verður því byggt á því að aðilar hafi slitið samvistum í febrúar 1999 og að eftir það hafi ekki verið með þeim fjármálaleg samstaða.

                Sóknaraðili heldur því fram að hún hafi komið með dollara frá Kína sem hún hafi fengið að láni hjá vinum og vandamönnum.  Þessa dollara hafi hún meðal annars notað til þess að kaupa eignina að Hamraborg 20a.  Seljandi þeirrar eignar kom fyrir dóm og staðfesti að greiðsla við kaupsamningsgerð að fjárhæð 1.000.000 krónur hafi verið greidd með dollurum.  Sóknaraðili hefur einnig gert grein fyrir því hvernig hún stóð að öðrum greiðslum samkvæmt kaupsamningi og hvernig hún sjálf greiddi af skuldabréfinu er hún tók vegna kaupanna.  

                Varnaraðili hefur aftur á móti ekki sýnt fram á að hann hafi komið að kaupunum, hvorki með kvittunum né öðrum gögnum er sýna fram á greiðslu hans.  Hann hefur ekki sýnt fram á með framlagningu skattframtals að hann hafi yfirleitt haft nokkrar tekjur á þessu tímabili.  Hann heldur því fram að söluverð eignar er hann hafi átt að Víðihvammi 14, Kópavogi hafi að hluta runnið til kaupa á eigninni að Hamraborg 20a.  Auðvelt ætti að vera að leggja fram gögn því til sönnunar en það hefur varnaraðili látið undir höfuð leggjast. Verður því talið ósannað að varnaraðili hafi lagt fé til kaupanna.

                Þegar þess er gætt að aðilar höfðu slitið sambúð og fjárfélagi rúmum sex mánuðum áður en sóknaraðili festi kaup á hinni umdeildu fasteign og engar vísbendingar eru í málinu um að sóknaraðili hafi lagt fé til kaupanna eða haft tekjur á þessu tímabili, þykir mega víkja frá meginreglu 103. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993 um helmingaskipti.  Verður talið að skilyrði 104. gr. sömu laga séu fyrir hendi þar sem helmingaskipti yrðu samkvæmt öllu framansögðu bersýnilega ósanngjörn. 

                Eftir þessari niðurstöðu verður varnaraðili úrskurðaður til þess að greiða sóknaraðila 150.000 krónur í málskostnað þ.m.t. virðisaukaskatt.

                Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

ÚRSKURÐARORÐ

                Við fjárskipti milli sóknaraðila, Rui Jia, og varnaraðila, Sævars Arnar Helgasonar, skal við það miðað að andvirði eignarhluta nr. 0101 í Hamraborg 20a, Kópavogi komi í hlut sóknaraðila.

                Varnaraðili greiði sóknaraðila 150.000 krónur í málskostnað.