Hæstiréttur íslands

Mál nr. 86/2015


Lykilorð

  • Kærumál
  • Viðurkenningarkrafa
  • Vanreifun
  • Frávísunarúrskurður staðfestur


                                     

Miðvikudaginn 11. febrúar 2015.

Nr. 86/2015.

Hýsir ehf.

(Jakob Traustason fyrirsvarsmaður)

gegn

íslenska ríkinu

(Daníel Isebarn Ágústsson hrl.)

Kærumál. Viðurkenningarkrafa. Vanreifun. Frávísunarúrskurður staðfestur.

Með dómi Hæstaréttar í máli nr. 435/2013 var máli H ehf. á hendur Í, til heimtu skaðabóta, vísað frá dómi sökum vanreifunar. H ehf. höfðaði mál á ný og krafðist viðurkenningar á skaðabótaskyldu Í vegna tjóns sem hann taldi sig hafa orðið fyrir er kærunefnd útboðsmála felldi niður tvö rammasamningsútboð vegna lyfjakaupa og ógilti það þriðja. Í úrskurði héraðsdóms, sem staðfestur var í Hæstarétti með vísan til forsendna hans, sagði m.a. að þótt H ehf. leitaðist nú við, með eigin nálgunarútreikningum í stefnu, að gera grein fyrir meintu tjóni sínu yrði ekki talið að hann hefði með þeirri umfjöllun sinni leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þessa. Þá yrði ekki talið að hann hefði nú fremur en áður gert nægilega skýra grein fyrir því á hvaða lagagrundvelli hann reisti bótakröfur sínar. Var málatilbúnaður H ehf. talin fara gegn d., e. og f. lið 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og var málinu því vísað frá dómi.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Markús Sigurbjörnsson hæstaréttardómari og Guðrún Erlendsdóttir og Karl Axelsson settir hæstaréttardómarar.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 19. janúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 29. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. janúar 2015, þar sem máli sóknaraðila á hendur varnaraðila var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar, en til vara að sér verði heimilað að leiða vitni og afla matsgerðar áður en afstaða verði tekin til kröfu varnaraðila um að málinu verði vísað frá dómi. Þá krefst sóknaraðili aðallega málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar, til vara að málskostnaður á báðum dómstigum verði felldur niður, en að því frágengnu verði hann hafður í lágmarki.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur og gerist þess þá ekki þörf að taka sérstaklega afstöðu til áðurgreindrar varakröfu sóknaraðila hér fyrir dómi.

Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað svo sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Hýsir ehf., greiði varnaraðila, íslenska ríkinu, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. janúar 2015.

I.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 10. desember sl. um frávísunarkröfu stefnda, er höfðað af Hýsi hf., Barónsstíg 3, Reykjavík, á hendur fjármála- og efnahagsmálaráðuneytinu, íslenska ríkinu, ríkissjóði, kærunefnd útboðsmála og Ríkiskaupum, með stefnu birtri 5. mars 2014.

Stefnandi gerir eftirfarandi dómkröfur í stefnu:

„1. Að með dómi verði viðurkennt að stefndu beri, in solidum, bótaábyrgð gagnvart stefnanda á tjóni og missi hagnaðar sem stefnandi varð fyrir sökum þess að með tveimur úrskurðum, í kærumálum nr. 32/2002 og 36/2002, báðir uppkveðnir 13. febrúar 2003, felldi kærunefnd útboðsmála niður tvö rammasamningsútboð á vegum Ríkiskaupa, útboð nr. 13128, auðkennt „Lyf fyrir sjúkrahús“ og útboð nr. 13174, auðkennt „Lyf fyrir sjúkrahús - Blóð-storkuþáttur VIII“, ásamt vegna þess að kærunefndin ógilti að auki rammasamningsútboð nr. 13249, auðkennt „Lyf fyrir sjúkrahús - Blóðstorkuþáttur VIII“ með því að fyrirskipa Ríkiskaupum í úrskurði kærumáls nr. 21/2003 að bjóða út að nýju lyf sem boðin voru út í þessu útboði.

2. Til vara með kröfu nr. 1, að með dómi verði viðurkennt að stefndu beri, in solidum, bótaábyrgð gagnvart stefnanda, á tjóni og missi hagnaðar, sem stefnandi var fyrir (í fyrsta lagi) sökum þess að Ríkiskaup hafnaði öllum tilboðum í útboði nr. 13249 og til vara endurtóku ekki heldur þetta útboð á þann hátt að bjóða mætti sömu lyf í sama magnviðmið og gert var í útboði þessu, ásamt (í öðru lagi) að Ríkiskaup endurtók ekki útboð nr. 13128, á þann hátt að óskað væri tilboða í sömu lyf og á sama magngrundvelli og gert var í því útboði. (um nánari nafngift útboðanna er vísað í 1. kröfulið)

3. Til vara að með dómi verði viðurkennt að stefndu beri in solidum, bótaábyrgð gagnvart stefnanda er nemi kostnaði, vinnu og öðru tjóni sem hann varð fyrir og þurfti að leggja í vegna þátttöku í rammasamningsútboðum nr. 13128, nr. 13174, nr. 13249 og nánar eru tilgreind í kröfulið nr. 1 að ofan og þátttöku í samningskaupaútboði nr. 13356 og öll fóru fram á vegum Ríkiskaupa.

4. Jafnframt er krafist að í sama dómi verði viðurkennt að stefndu beri, in solidum, bótaskyldu á tjóni sem stefnandi hefur orðið fyrir og nemur vöxtum að því hámarki sem lög heimila, frá 1. júlí 2003 og til greiðsludags, af fjárhæð sem stefnandi síðar kann að fá sér dæmda á grundvelli viðurkenningardóms sem mál þetta er höfðað til og m.a. vísað til laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu.

5. Ennfremur er þess krafist að í sama dómi verði stefndu in solidum dæmd til að greiða kr. 1.369.450, auk dráttarvaxta skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingum frá 9. september 2013 til greiðsludags.

Stefnandi krefst í öllum tilvikum málskostnaðar að skaðlausu úr hendi stefndu annað hvort skv. málskostnaðarreikningi eða að mati réttarins, auk virðisaukaskatts á málskostnað.“

Stefndu krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá dómi. Verði ekki fallist á kröfu um frávísun málsins í heild krefjast stefndu fjármála- og efnahagsmálaráðuneytið, ríkissjóður, kærunefnd útboðsmála og Ríkiskaup þess að kröfum á hendur þeim verði vísað frá dómi. Til vara er þess krafist að stefndu verði sýknaðir af öllum kröfum stefnanda. Þá krefjast stefndu í öllum tilvikum málskostnaðar úr hendi stefnanda að mati dómsins.

Stefnandi krefst þess í þessum þætti málsins að frávísunarkröfum stefndu verði hafnað og að stefndu verði gert að greiða honum málskostnað.

II.

Með dómi Hæstaréttar í málinu nr. 435/2013 var staðfestur úrskurður héraðsdóms um að vísa frá dómi kröfugerð stefnanda máls þessa á hendur stefnda sem sprottin var af sömu rótum. Með höfðun máls þessa leitar stefnandi á ný dóms um viðurkenningu á bótaskyldu stefndu vegna tjóns sem hann telur sig hafa orðið fyrir vegna þess að kærunefnd útboðsmála hafi með úrskurðum sínum í málum nr. 32/2002 og 36/2002 fellt niður tvö rammasamningsútboð sem Ríkiskaup efndu til vegna lyfjakaupa, en einnig vegna þess að kærunefndin hafi, með úrskurði í málinu nr. 21/2003, ógilt þriðja rammasamningstilboðið með því að fyrirskipa Ríkiskaupum að bjóða út að nýju lyf sem boðin voru út í því útboði. Er í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar lýst helstu málavöxtum sem kröfugerð stefnanda er sprottin af.

III.

Til stuðnings kröfu sinni um frávísun málsins frá dómi vísar stefndi til þess að sá sem höfði mál til viðurkenningar á skaðabótaskyldu verði að leiða nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni af nánar tilteknu tilefni, gera grein fyrir því í hverju tjón hans felist og hver tengsl þess séu við ætlað skaðaverk. Í stefnu og fylgiskjölum séu ekki leiddar líkur, hvað þá sýnt fram á með sannanlegum hætti, að stefnandi hafi orðið fyrir tjóni. Ekki sé heldur gerð fullnægjandi grein fyrir orsakatengslum hins meinta tjóns og meintrar saknæmrar háttsemi. Jafnvel þótt talið yrði að svo væri þá sé hið meinta tjón verulega fjarlæg og ósennileg afleiðing af þeirri háttsemi sem stefnandi telji saknæma. Eigi þetta við um allar kröfur stefnanda. Stefnandi geri ekki fullnægjandi grein fyrir meintum missi hagnaðar og hann hafi einungis lagt fram eigin útreikninga og staðhæfingar um það tjón.

Auk þessa sé ekki að finna í stefnu nægilega haldgóða umfjöllun um lagagrundvöll bótakröfunnar að öðru leyti. Við það bætist að málsgrundvöllur stefnanda í heild sé mjög óljós. Sé málatilbúnaður hans þannig hvorki í samræmi við ákv. 2. mgr. 25. gr. né d-, e-, f- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Verði ekki fallist á að vísa málinu frá í heild sinni sé á því byggt að vísa verði því frá að hluta. Verði þannig fallist á að stefnandi hafi leitt líkur að tjóni vegna kostnaðar við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði verði engu að síður að vísa frá kröfum um missi hagnaðar. Þessar tvær tegundir skaðabóta sé ekki hægt að dæma í einu lagi, þ.e. bæði vangildis- og efndabætur. Þá sé vaxtakrafa stefnanda ódómtæk vegna vanreifunar og ónógrar tilgreiningar á því hvaða vaxta sé krafist viðurkenningar á. Loks liggi fyrir að kröfuliður 5 í stefnu sé vegna meints tjóns af rekstri dómsmáls milli sömu aðila, þ.e. héraðsdómsmálsins nr. E-528/2013 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og Hæstaréttarmálsins nr. 435/13. Tekin hafi verið afstaða til þessarar kröfu með ákvörðun málskostnaðar í tilgreindu máli og hafi krafan því áður verið dæmd. Hafi sá dómur res judicata áhrif í máli þessu. Með vísan til meginreglu 2. mgr. 116. gr. laga nr. 91/1991 verði krafan því ekki borin aftur undir dómstóla.

Verði ekki fallist á frávísun krafna með vísan til framangreinds beri þó a.m.k. að vísa frá öllum kröfum á hendur fjármála- og efnahagsráðuneyti, ríkissjóði, kærunefnd útboðsmála og Ríkiskaupum, enda hafi framangreind stjórnvöld ekki aðildarhæfi.

Stefnandi bendir á til stuðnings kröfu sinni vegna þessa þáttar málsins að málsástæður stefndu vegna frávísunarkröfu hans séu órökstuddar og komi of seint fram. Þá verði að hafa í huga að stefnandi sé ólöglærður og að hann hljóti að hafa meira svigrúm í málatilbúnaði sínum vegna þess. Loks liggi ljóst fyrir að málatilbúnaður í stefnu sé ekki óljósari en svo að stefndu hafi getað tekið til varna.

IV.

Í ljósi kröfugerðar stefnanda er málinu réttilega beint að stefnda, íslenska ríkinu, og er ekki þörf á aðild annarra þeirra sem stefnt er í málinu.

Í dómi Hæstaréttar í málinu nr. 435/2013 var komist að þeirri niðurstöðu að hvorki hefði komið nægilega skýrt fram í héraðsdómsstefnu á hvaða lagagrundvelli kröfur stefnanda um bætur sér til handa væru reistar né væri þar gerð grein fyrir því tjóni sem hann teldi sig hafa orðið fyrir. Kröfur stefnanda nú sýnast að meginstefnu til samhljóða þeim kröfum sem hann gerði fyrir héraðsdómi í fyrra málinu en með þeirri viðbót að nú krefst hann þess að auki í 5. kröfulið að stefnda verði gert að greiða honum tiltekna fjárhæð, auk dráttarvaxta. Kveðst hann byggja þá kröfu á því að í frávísun fyrra málsins hafi falist „saknæmar athafnir og athafnaleysi fyrirsvarsmanna stefndu og réttarbrot af hálfu þeirra dómara við héraðsdóm Reykjavíkur og Hæstarétt Íslands sem að málinu komu“.

Ákvæði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála miða að því að grundvöllur máls sé í upphafi málsmeðferðar skýrt og greinilega markaður svo að stefndi hafi færi á að bregðast við málsókninni með málefnalegum hætti. Þannig segir meðal annars í 1. mgr. 80. gr. að í stefnu skuli greina svo glöggt sem verða megi dómkröfur stefnanda, sbr. d-lið, og þær málsástæður sem stefnandi byggir málssókn sína á, svo og önnur atvik sem þurfi að greina til þess að samhengi málsástæðna verði ljóst, sbr. e-lið, enda skuli lýsing þessi vera gagnorð og svo skýr að ekki fari milli mála hvert sakarefnið sé.

Það er mat dómsins að dómkröfur stefnanda í stefnu séu bæði verulega óskýrar og ómarkvisst fram settar. Sömuleiðis er lýsing málsástæðna og samhengi þeirra við dómkröfur alls ekki svo skýrt sem skyldi.

Eins og fram kemur í áður tilvitnuðum dómi Hæstaréttar í málinu nr. 435/2013 hefur í dómaframkvæmd verið við það miðað að það sé skilyrði fyrir beitingu heimildar skv. 2. mgr. 25. gr. laga nr. 21/1991 til að leita viðurkenningardóms um skaðabótaskyldu að sá sem mál höfðar leiði nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni af nánar tilteknu tilefni, geri grein fyrir því í hverju tjónið felist og hver tengsl þess séu við atvik máls. Enda þótt stefnandi leitist nú við, með eigin nálgunarútreikningum í stefnu, að gera grein fyrir meintu tjóni sem hann hafi orðið fyrir, vegna missis hagnaðar af því að tilgreind útboð hafi verið „ólöglega og á saknæman hátt felld úr gildi og eða gerð ógild af kærunefnd útboðsmála“, verður ekki talið að hann hafi með þeirri umfjöllun sinni leitt nægar líkur að því að hann hafi orðið fyrir tjóni vegna þessara útboða eða þeirra stjórnvaldsákvarðana sem teknar voru af kærunefnd útboðsmála vegna þeirra. Þá verður ekki talið að hann hafi nú fremur en áður gert nægilega skýra grein fyrir því á hvaða lagagrundvelli hann reisi bótakröfur sínar.

Með hliðsjón af því sem að framan er rakið er það niðurstaða dómsins að málatilbúnaður stefnanda fari gegn ákv. d-, e- og f-liða 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991 og að ekki verði því hjá því komist að vísa máli þessu frá dómi.

Stefnandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað.

Ásgeir Magnússon héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Úrskurðarorð:

Máli þessu er vísað frá dómi.

Stefnandi, Hýsir ehf., greiði stefnda, íslenska ríkinu, 300.000 krónur í málskostnað.