Hæstiréttur íslands
Mál nr. 186/2008
Lykilorð
- Umferðarlagabrot
- Bifreið
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Svipting ökuréttar
- Nytjastuldur
- Fíkniefnalagabrot
|
|
Fimmtudaginn 27. nóvember 2008. |
|
Nr. 186/2008. |
Ákæruvaldið(Daði Kristjánsson, settur saksóknari) gegn Atla Erni Jenssyni (Logi Guðbrandsson hrl.) |
Umferðarlagabrot. Bifreiðir. Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Svipting ökuréttar. Nytjastuldur. Fíkniefnalagabrot.
A var sakfelldur fyrir vörslur fíkniefna, nytjastuld og akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Var hann dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 300.000 krónur og sviptur ökurétti í eitt ár.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 22. febrúar 2008 af hálfu ákæruvaldsins sem krefst þyngingar á refsingu og að ákærði verði dæmdur til að sæta ökuréttarsviptingu.
Ákærði krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
Eins og greinir í héraðsdómi voru ákærða gefin að sök fíkniefnalagabrot samkvæmt I. og II. kafla ákæru. Ákærði játaði brot sín samkvæmt þessum köflum ákærunnar en neitaði hins vegar að hafa framið nytjastuld og umferðarlagabrot sem greinir í III. kafla hennar. Ákærði var sakfelldur fyrir brot sem honum eru gefin að sök í I. og II. kafla ákæru sem og nytjastuld og brot gegn 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga nr. 50/1987 samkvæmt III. kafla ákærunnar, en hann sýknaður af broti gegn 45. gr. a. umferðarlaga. Er ágreiningur með aðilum um þá niðurstöðu héraðsdóms er lýtur að sýknu ákærða. Við flutning málsins fyrir Hæstarétti lýsti ákæruvaldið því yfir að kröfu sína um þyngingu refsingar bæri að túlka þannig að ákærði skyldi einungis dæmdur til hærri sektar fyrir brot sín.
Eins og nánar er rakið í héraðsdómi var ákærði færður á lögreglustöð eftir að hafa ekið niður girðingu við Miklubraut í Reykjavík og var í kjölfarið tekið úr honum blóðsýni. Samkvæmt matsgerð Jakobs Kristinssonar dósents í lyfja- og eiturefnafræðum mældust 20 ng/ml af amfetamíni og 315 ng/ml af fíkniefninu MDMA í blóði ákærða. Í vætti Jakobs kemur fram, að magn amfetamíns í blóði ákærða hafi verið svo lítið að það geti ekki hafa haft áhrif á aksturshæfni ákærða. Þá sé svo lítið vitað um áhrif MDMA að ekki sé unnt að segja til um áhrif af neyslu efnisins á akstur ákærða. Efnið sé talið of hættulegt til að gera tilraunir á því í mönnum. Af hálfu ákærða eru ekki vefengdar niðurstöður matsgerðarinnar um magn fíkniefna í blóði hans.
Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga má enginn stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum settum samkvæmt þeim. Samkvæmt fylgiskjali I við reglugerð nr. 233/2001 um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni telst amfetamín til slíkra efna, en samkvæmt 2. mgr., sbr. 4. mgr. 2. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni er varsla og meðferð þess háttar efna bönnuð á íslensku yfirráðasvæði. Efnið MDMA telst einnig til slíkra efna samkvæmt 1. mgr. 2. gr., sbr. 6. gr. laganna. Í 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga er kveðið á um að ökumaður teljist vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega ef efni af þeim toga, sem um ræðir í 1. mgr. sömu lagagreinar, mælist í blóði eða þvagi hans. Með þessu hefur löggjafinn ákveðið að litið skuli svo á að þannig sé komið fyrir ökumanni, sem um ræðir í 1. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga, óháð mati eftir öðrum forsendum á því hvort hann sé í reynd undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Ekki er á valdi dómstóla að hreyfa við þessari ákvörðun löggjafans sem reist er á málefnalegum grunni, sbr. dóma Hæstaréttar 19. júní 2008 í máli nr. 260/2008 og 30. október 2008 í máli nr. 226/2008. Með því að óumdeilt er í málinu að bæði amfetamín og MDMA greindust í blóði ákærða, sem tekið var í kjölfar aksturs hans, hefur hann þannig brotið gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga.
Ákærði er í máli þessu fundinn sekur um nytjastuld, vörslur fíkniefna og umferðarlagabrot. Hann er fæddur 1982 og hefur samkvæmt sakavottorði ekki áður gerst sekur um refsiverða háttsemi. Verður hann dæmdur til greiðslu sektar að fjárhæð 300.000 krónur, en greiðist hún ekki fer um vararefsingu samkvæmt því sem í dómsorði greinir. Ákærði verður jafnframt sviptur ökurétti, en að teknu tilliti til þess mikla magns ólöglegra efna sem mældust í blóði hans verður ökuréttarsvipting ákveðin eitt ár frá uppsögu dóms þessa.
Verjandi ákærða lýsti því yfir fyrir Hæstarétti að hann gerði ekki kröfu um málsvarnarlaun sér til handa í héraði eða fyrir Hæstarétti, kæmi til þess að ákærði yrði sakfelldur fyrir öll þau brot sem ákært er fyrir. Ákærða verður gert að greiða umkrafinn sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað, eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Ákærði, Atli Örn Jensson, greiði 300.000 krónur í sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppsögu dóms þessa, en sæti ella fangelsi í 20 daga.
Ákærði er sviptur ökurétti í eitt ár frá uppsögu dóms þessa.
Ákærði greiði allan sakarkostnað í héraði og áfrýjunarkostnað málsins, samtals 113.844 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 13. desember 2007.
Mál þetta var dómtekið að loknum munnlegum málflutningi 1. nóvember s.l.
Mál þetta er höfðað með ákæru útgefinni 31. ágúst s.l. á hendur Atla Erni Jenssyni, kt. 190182-3129, Stuðlabergi 112, Hafnarfirði, nú Laugavegi 161, Reykjavík fyrir eftirtalin brot:
I.
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa laugardaginn 7. október 2006, í bifreiðinni JS-847, á Strandgötu í Hafnarfirði, haft í vörslum sínum 0,61 g af kókaíni sem lögreglan fann við leit á ákærða og 0,73 g af marihuana sem ákærði framvísaði og lögregla fann við leit í bifreiðinni.
ML.036-2006-12095.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985 og lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002 og auglýsingu nr. 232, 2001 varðandi meðferð ákærða á kókaíni.
II.
Fyrir fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 23. nóvember 2006, í bifreiðinni VO-528, sem lagt hafði verði fyrir utan Smáralindina í Kópavogi, haft í vörslum sínum 0,64 g af hassi sem lögregla fann við líkamsleit á ákærða og 0,17 g af kókaíni sem lögregla fann við leit í bifreiðinni, á lögreglustöðinni í Kópavogi, Dalvegi 18.
ML.037-2006-10817.
Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. og 6. gr., laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974, sbr. lög nr. 13, 1985 og lög nr. 68, 2001, og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr., reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitsskyld efni nr. 233, 2001, sbr. reglugerð nr. 848, 2002 og auglýsingu nr. 232, 2001 varðandi meðferð ákærða á kókaíni.
III.
Fyrir nytjastuld og umferðarlagabrot, með því að hafa að morgni laugardagsins 17. febrúar 2007, tekið bifreiðina AR-022 af gerðinni Audi A6 í eigu Gilberts Grétars Sigurðssonar, kt.100481-3599, ófrjálsri hendi þar sem hún stóð fyrir utan íbúðarhúsnæðið að Tröllateig 10 í Mosfellsbæ, og ekið henni að Hagamel 18 í Reykjavík, þaðan ekið bifreiðinni austur Hringbraut og Miklabraut, svo óvarlega að hann ók niður girðingu á Miklubraut til móts við Rauðarárstíg í Reykjavík, auk þess sem ákærði var undir áhrifum amfetamíns og vímuefnisins MDMA við aksturinn, en þau efni eru ávana- og fíkniefni sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði og af þeim sökum telst ákærði hafa verið óhæfur til að stjórna ökutækinu örugglega.
ML. 007-2007-11295.
Telst þetta varða við 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 20, 1956 og 1. mgr. 4. gr., 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a , sbr. 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 5. gr. laga nr. 66, 2006.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til sviptingar ökuréttar skv. 101. og 102. gr. nefndra umferðarlaga, sbr. 25. gr. laga nr. 44, 1993 og 18. gr. laga nr. 66, 2006, og jafnframt að framangreind fíkniefni sem hald var lagt á verði gerð upptæk, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65, 1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233, 2001."
Ákærður hefur viðurkennt brot þau sem lýst er í I. og II. lið ákæru og er ákærður dæmdur fyrir þau brot samkvæmt heimild í 125. gr. laga nr. 19/1991, án frekari sönnunarfærslu, en með játningu ákærða sem er í samræmi við rannsóknargögn er sannað og ákærður hefur gerst sekur um þargreind brot og með því gerst brotlegur við þau refsiákvæði sem tilgreind eru í ákæru varðandi þessa liði.
Ákærður neitaði sök um III. lið ákæru og hefur haldið uppi vörnum um þennan ákærulið.
Ákærður krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins varðandi þennan ákærulið, en vægustu refsingar vegna brotanna sem lýst er í I. og II. lið ákæru. Þá krefst hann þess, að sakarkostnaður í málinu þar á meðal hæfileg málsvarnarlaun til skipaðs verjanda hans Loga Guðbrandssonar hrl. verði greidd úr ríkissjóði, en verði sakfelling í málinu, er ekki gerð krafa um málsvarnarlaun til skipaðs verjanda.
I. Málavextir.
Laugardaginn 17. febrúar 2007 kl. 08:23 var óskað aðstoðar lögreglu vegna umferðararóhapps á Miklubraut gegnt Rauðarárstíg í Reykjavík. Þarna hafði ökutækjumnum AR-022 og IH-641 verið ekið austur Hringbraut og svo austur Miklubraut, en rétt austan við Hringbraut hafði bifreiðin AR-022 lent utan í bifreiðinna IH-641 og í framhaldi af því upp á umferðareyju, sem aðskilur akbrautir Miklubrautar og svo þar tekið niður girðingu á 36 metra kafla. Bifreiðin hafði svo farið yfir á öfugan vegarhelming og verið stöðvuð 103 metrum austan við þann stað, þar sem hún hafði farið upp á umferðareyjuna. Í bifreiðinni AR-022 höfðu verið þrír menn, en er lögreglan kom á staðinn voru í bifreiðinni ákærður Atli Örn og A, sem voru handteknir vegna gruns um ölvun við akstur, en einnig var grunaður B, sem farið hafði af vettvangi. Strax við frumrannsókn málsins varð þó ljóst, að ákærður hafði verið ökumaður bifreiðarinnar og misst stjórn á henni er hún lenti utan í bifreiðinni IH-641. Tekin voru blóð og þvagsýni úr ákærða sem og A og B.
Í blóðsýni því, sem tekið var úr ákærða fannst ekkert alkóhól við alkóhólrannsókn með gasgreiningu á súlu. Hluti af blóðsýninu var og sent til rannsóknarstofu í lyfja og eiturefnafræði til efnagreiningar og mældust 20 ng/ml af amfetamíni og 315 ng/ml af MDMA og eru niðurstöður Jakobs Kristinssonar dósent og Guðlaugar Þórisdóttur læknis þessar í framlagðri matsgerð.
"Amfetamín og MDMA eru ávana- og fíkniefni með örvandi verkun á miðtaugakerfi. Heimilt er að nota amfetamín sem lyf. Styrkur amfetamíns í blóði var eins og eftir lága lækningalega skammta.
"Amfetamín og MDMA eru í flokki ávana- og fíkniefna, sem óheimil eru á íslensku forráðasvæði. Ökumaður telst því hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar blóð- og þvagsýnin voru tekin, sbr. grr. 45 a í umferðarlögum nr. 50/1987 m. breytingum."
Ákærður hefur viðurkennt að hafa ekið bifreiðinni HR-022 eftir að hafa neytt lítillar töflu, sem trúlega hafi verið E-tafla kvöldið áður. Hann hafði ekið bifreiðinni frá Tröllateig 10, Mosfellsbæ og ætlað heim til sín, en þá hafði kunningi hans A hringt í hann og beðið hann að sækja sig að Hagamel 18, Reykjavík og hafði ákærður ekið þangað og tekið A þar í bifreiðina og hafði B, sem þar var og fengið far og var ætlunin að fara með þá í verslunina Select á Vesturlandsvegi og svo aka A heim, en Baftur að Hagamel 18. Ákærður kvaðst hafa ekið bifreiðinni á tæplega 100 km hraða m/v klst. og er hann ók eftir aflíðandi beygju er komið er af Hringbraut á Miklubraut hafði hann litið skamma stund af veginum og er hann leit upp aftur, sá hann að hann hafði ekki fylgt beygjunni og farið af hægri akrein yfir á vinstri akrein og upp á vegkant með vinstra framhjólið og þá misst stjórn á bifreiðinni og hún lent á grindverki þarna. Hann hafði ekki orðið þess var að hafa áður ekið á hægra framhorn bifreiðarinnar LH-641.
Eigandi bifreiðarinnar AR-022 var Gilbert Grétar Sigurðsson, kt. 100481-3599 með lögheimili að Grundargötu 76, Grundarfirði og var ákærður að aka frá aðsetri hans að Tröllateig 10, Mosfellsbæ. Ákærður hafði ekið bifreiðinni kvöldið áður fyrir Gilbert, þar sem hann hafði drukkið bjór og svo ekið honum að Tröllateig 10, Mosfellsbæ og verið með lyklana í vasanum eftir þann akstur. Fram kom að hann hafði áður fengið bifreiðina lánaða hjá Gilbert og eftir nokkra dvöl hjá Gilbert hafði hann kvatt hann og haldið heimleiðis á bifreiðinni AR-022, en þeir Gilbert hafi ætlað að hittast daginn eftir og haldið sér heimilt miðað við það sem á undan var gengið að hann færi á bifreiðinni, en hann hafi ekki fengið formlegt leyfi frá Gilbert.
Í vitnisburði Gilberts Sigurðssonar kemur fram, að ákærður hafi verið að aka bifreiðinni fyrir hann framangreint kvöld og hann hafi margoft lánað honum bifreiðina. Hann kvað það geta verið að ákærður hafi misskilið það svo, að hann mætti fara á bifreiðinni heim, en til hafi staðið að þeir hittust daginn eftir. Hins vegar hafði hann ekki heimilað honum að taka bifreiðina í greint sinn og kvaðst hann ekki myndi hafa samþykkt það.
II. Niðurstaða.
Ljóst er, að ákærður ók bifreiðinni HR-022 þá leið sem greinir og það gáleysislega, að hann ók á girðingu á Miklubraut og olli tjóni á henni og bifreiðinni og hefur hann því gerst brotlegur við 1. mgr. 4. gr. umferðarlaga. Ákærður hafði ekki formlegt leyfi eiganda bifreiðarinnar og verður því að telja um heimildarlausa notkun hennar hafi verið að ræða, en þegar virtur er vitnisburður Gilberts, aðstæður í sambandi við greindan akstur og það sem fyrir liggur um fyrri samskipti þeirra um notkun ákærða á bifrieðinni verður verknaður ákærða felldur undir niðurlag 1. mgr. 259. gr. almennra hegningarlaga. Kemur þá til álita, hvort ákærður hafi unnið til refsingar og sviptingar ökuréttar vegna aksturs undir áhrifum fíknefna..
Í matsgerð Jakobs Kristinssonar dósent kemur fram að í blóði ákærða hafi mælst 20 ng/ml af amfetamíni og 315 ng/ml af MDMA. Það er rétt sem að ákærður heldur að amfetamín sér, án forskeytis er ekki á lista um ólögleg fíkniefni í 6. gr. laga nr. 65/1974, sbr. lög nr. 68/2001, en hins vegar er MDMA á listanum og verður því talið að 1. mgr. 45. gr. a umferðarlaga geti hér átt við. Í vætti Jakobs kemur fram, að magn amfetamíns í blóði ákærða hafi verið í það litlu magni að það geti ekki hafa haft áhrif á aksturshæfni ákærða og svo lítið sé vitað um áhrif MDMA og ógerningur sé að segja til um áhrif af neyslu efnisins á akstur ákærða. Að þessu athuguðu verður að sýkna ákærða af broti á 1. mgr. 45. gr. a umferðarlaga. Ákvæði 2. mgr. 45. gr. a umferðarlaga gengur þvert á ákvæði 1. mgr. greinarinnar og er ekki nothæf, sem refsiheimild um akstur undir áhrifum áfengis vímuefna, þar sem áhrifin eru frumeðli brotsins. Til þess þyrfti að felast í málsgreininni einhver viðmiðun eða mælikvarði byggður á vísindalegum rannsóknum, sem segi til um að ákveðið magn ákveðinna fíkniefna sem finnast í blóði eða þvagi hlutaðeigandi manns og leiði til þess, að hæfni hans til aksturs sé verulega skert og verði þá hlutaðeigandi að hlíta refsingu eða sviptingu ökuréttar miðað við magn fíkniefnanna sem mældust, þ.e. samsvörun sé milli neyslu og áhrifa.
Að miða refsinæmi verknaðar við brot á lögum nr. 65/1974 án þess að taka tillit til þess, hvort skilyrði eru uppfyllt um meginatriði 45. gr. og 45. gr.a um að vímuáhrifin verði að skerða eða vera líkleg til að skerða aksturshæfnina stenst ekki og leiðir óhjákvæmilega til ólöglegrar mismununar um sönnunarfærslu.
Ákærður er því sýknaður af kröfum ákæruvaldsins um akstur undir áhrifum amfetamíns og vímuefnisins MDMA.
Samkvæmt þessu verður ákærða ekki gerð refsing né hann sviptur ökurétti fyrir brot á 45. gr. a umnferðarlaga.
Refsing ákærða þykir að öðru leyti hæfilega ákveðin 160.000 krónur í sekt og komi 12 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4ra vikna.
Dæma ber að sakarkostnaður að fjárhæð 89.715 krónur og málsvarnarlaun til skipaðs verjanda ákærða Loga Guðbrandssonar hrl. að fjárhæð 91.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti greiðist úr ríkissjóði. Dráttur dómsuppsögu er vegna anna dómarans.
Dóm þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson, héraðsdómari.
Af hálfu ákæruvaldsins flutti Erna S. Sigurðardóttir, fulltrúi lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu málið.
Dómsorð
Ákærður er sýkn af refsikröfum ákæruvaldsins vegna brots á 45. gr. a umferðarlaga.
Ákærður greiði 160.000 krónur í sekt til ríkissjóðs og komi 12 daga fangelsi í stað sektarinnar verði hún eigi greidd innan 4ra vikna.
Sakarkostnaður að fjárhæð 180.715 krónur þar af málsvarnarlaun til skipaðs verjanda Loga Guðbrandssonar hæstaréttarlögmanns 91.000 krónur að meðtöldum virðisauka-skatti greiðist úr ríkissjóði.