Hæstiréttur íslands

Mál nr. 127/2007


Lykilorð

  • Opinberir starfsmenn
  • Skipun í starf
  • Ráðningarsamningur
  • Biðlaun


         

Fimmtudaginn 22. nóvember 2007.

Nr. 127/2007.

Kolbrún S. Hjaltadóttir

(Guðni Á. Haraldsson hrl.)

gegn

Reykjavíkurborg

(Vilhjálmur H. Vilhjálmsson hrl.)

 

Opinberir starfsmenn. Skipun í starf. Ráðningarsamningur. Biðlaun.

 

K var skipuð kennari við grunnskóla R árið 1990. Á árunum 2001 til 2005 voru árlega gerðir við hana tímabundnir ráðningarsamningar í skólanum B þar sem K skyldi sinna starfi deildarstjóra tölvumála. Var hlutfall deildarstjórastarfs hennar í fyrstu 32,5% en síðustu tvö árin sinnti hún starfi deildarstjóra sem 100% starfi. Árið 2006 var ákveðið að leggja niður verkefni deildarstjóra tölvumála vegna endurskipulagningar. Í kjölfarið krafðist K biðlauna samkvæmt 14. gr. laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda. Af hálfu skólans var kröfu hennar hafnað á þeim forsendum að verkefnið hefði verið tímabundið og hún ráðin í það frá ári til árs. Höfðaði K því mál þetta á hendur R. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að tímabundin ráðning hennar hefði ekki fellt úr gildi ótímabundna skipun í kennarastöðu sem K naut. Sú málsástæða K að líta ætti svo á að hún hefði samtímis gegnt tveimur opinberum stöðum, sem hvor um sig hefði veitt henni rétt til biðlauna, yrði hún lögð niður, þótti haldlaus. Var R því sýknað af kröfu K.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 6. mars 2007 og krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 2.009.247 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. ágúst 2006 til greiðsludags. Hún krefst og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

I.

Svo sem nánar greinir í héraðsdómi hóf áfrýjandi störf við Breiðholtsskóla 1989 og var skipuð kennari 20. júní 1990 við grunnskóla Reykjavíkur frá 1. ágúst sama árs að telja. Var hún að mestu leyti í hlutastarfi í skólanum allt til 2001, en í fullu starfi frá 1. ágúst þess árs til 1. ágúst 2006, er hún hætti störfum og réði sig til Menntaskólans í Kópavogi.

Frá júní 2001 til júní 2005 voru árlega gerðir tímabundnir og mismunandi ráðningarsamningar við áfrýjanda, sem giltu skólaárið frá 1. ágúst til 31. júlí næsta árs, þar sem hún skyldi vera deildarstjóri tölvumála, fyrsta árið í 32,5% starfi á móti 67,5% kennslu, en annað og þriðja árið í 75% starfi á móti 25% kennslu og fjórða árið varð deildarstjórastarfið 100%. Nýr skólastjóri tók við stjórn Breiðholtsskóla vorið 2005 og hann gerði fimmta tímabundna ráðningarsamninginn við áfrýjanda í júní það ár. Um það var samið að áfrýjandi yrði áfram í 100% starfi sem deildarstjóri tölvumála frá 1. ágúst 2005 til 31. júlí 2006. Samskipti áfrýjanda og skólastjórans frá janúar til júní 2006 eru rakin í héraðsdómi, en skólastjóri mun hafa tjáð áfrýjanda í janúar að til greina kæmi að leggja niður verkefni deildarstjóra tölvumála að hluta eða öllu leyti vegna endurskipulagningar tölvumála skólans. Eftir frekari viðræður þeirra var áfrýjanda á fundi 14. mars 2006 afhent bréf skólastjóra 10. sama mánaðar, þar sem fram kom að í byrjun næsta skólaárs yrðu gerðar skipulagsbreytingar sem meðal annars fælu í sér að starf deildarstjóra tölvumála í skólanum yrði lagt niður frá og með 1. ágúst 2006, eins og orðrétt er rakið í héraðsdómi. Þar greinir einnig frá því að áfrýjandi kaus sjálf að koma ekki á ný til kennslustarfa í Breiðholtsskóla haustið 2006.

II.

Áfrýjandi hefur lagt nokkur ný gögn fyrir Hæstarétt, þar á meðal bréf Skólastjórafélags Íslands 22. febrúar 2007, hluta af stefnu fræðsluráðs Reykjavíkur í tölvumálum grunnskóla frá júní 2000 og aðalnámsskrá grunnskóla 1999. Hún bendir á að hún hafi frá 1992 til og með 2001 verið fagstjóri tölvumála við Breiðholtsskóla og annast auk þess tölvukennslu samhliða almennri kennslu. Frá hausti 2001 til og með júlí 2004 hafi hún gegnt stöðu deildarstjóra auk tölvukennslu og frá ágúst 2004 deildarstjórastöðu tölvumála í fullu starfi. Þannig hafi hún enga almenna kennslu annast frá 2001 heldur eingöngu sinnt stöðu deildarstjóra og tölvukennslu fram til 2006, er staða hennar hafi verið lögð niður. Af bréfi Skólastjórafélags Íslands 22. febrúar 2007 megi sjá, að í framhaldi af samningi fjármálaráðherra og Kennarasambands Íslands frá 22. maí 1989 hafi verið gerð samþykkt um svokallaða árganga- og/eða fagstjórn og hafi reglur þar að lútandi komið fram í bæklingi um helstu atriði kjarasamningsins. Þar komi fram að skólastjórar ráði árganga- og/eða fagstjóra til eins eða tveggja ára í senn úr hópi fastráðinna kennara skólans, sem hafi þá getað fengið 1 til 2 launaflokka ofan á kennaralaunin miðað við umfang stjórnunarinnar. Þetta fyrirkomulag hafi gilt þar til nýr kjarasamningur tók gildi í janúar 2001, en í honum hafi nýja starfsheitið deildarstjóri komið til. Margir þeir sem gegnt höfðu fyrra starfinu hafi þá verið ráðnir deildarstjórar og starfsheitið fengið stöðu innan kjarasamningsins og enn fest í samningnum 2004, þar sem kveðið hafi verið á um að stjórnunarumfang verkefnabundinna deildarstjóra skyldi að lágmarki vera 50%.

Áfrýjandi bendir jafnframt á, að af aðalnámsskrá grunnskóla og stefnu Reykjavíkur í tölvumálum grunnskóla megi ráða hve mikil áhersla hafi verið lögð á tölvunotkun og tölvukennslu, og þetta starf hafi áfrýjandi tekið að sér við skólann. Starf hennar hafi verið lagt niður og það sé niðurlagning stöðu samkvæmt 14. gr. laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla og því eigi hún rétt til biðlauna í 12 mánuði. Sá greinarmunur sem áður hafi verið gerður á stöðu og starfi eigi ekki lengur við, enda séu nú gerðir ráðningarsamningar samkvæmt 2. gr. laganna við veitingu starfa. Engu máli skipti heldur þótt staða hennar hafi verið tímabundin samkvæmt þeim samningum sem gerðir hafi verið árlega, enda hafi hún átt rétt á því að verða fastráðin eftir tveggja ára starf, sbr. 3. mgr. 6. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, og ólögmætt hafi verið að framlengja tímabundnu ráðningarsamningana eftir tvo þá fyrstu, sbr. 5. gr. laga nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna. Til þess sé og að taka að skipun hennar sem grunnskólakennari hafi með deildarstjórastöðu hennar fallið niður, sbr. e. lið 4. gr. laga nr. 72/1996, enda hafi hún ekki getað geymt þá skipun á meðan. Verði hins vegar talið að skipunin hafi ekki fallið niður verði að líta svo á að hún hafi haft tvær samhliða stöður, sem báðar hafi veitt henni biðlaunarétt.

III.

Stefndi bendir á að heitið deildarstjóri sé komið til sem viðfangsefni í launakerfi samkvæmt kjarasamningi og liður í skólastjórnun. Skólastjórar ráði deildarstjóra og hafi áfrýjandi verið ráðin í eitt ár í senn við tölvuumsjón og hafi stór þáttur í starfi hennar verið að leiðbeina kennurum við tölvunotkun. Hún hafi haldið stöðu sinni sem grunnskólakennari, enda hafi deildarstjórastarfið verið hluti af starfi hennar, þar til síðustu tvö árin, að það hafi orðið að fullu starfi, eitt ár í senn. Þegar ekki hafi verið talin þörf á þessu starfi lengur hafi það verið lagt niður, og hafi á því verið hæfilegur fyrirvari. Þess vegna eigi 14. gr. laga nr. 72/1996 um niðurlagningu stöðu ekki við, þar sem þetta verkefni hafi ekki verið staða í skilningi laganna. Lög nr. 139/2003 eigi heldur ekki við um áfrýjanda. Þau eigi við um tímabundna ráðningu starfsmanna, sem ekki gegni öðru starfi, og sé ætlað að tryggja meginregluna um að starfsmönnum með tímabundna ráðningu sé ekki mismunað miðað við þá sem ráðnir eru ótímabundið, sbr. 2. gr. laganna. Áfrýjandi hafi allan tímann haft fasta stöðu grunnskólakennara, sem hún hafi verið skipuð til og notið réttinda og borið skyldur samkvæmt lögum nr. 72/1996. Þess vegna eigi 3. mgr. 6. gr. laga nr. 86/1998 heldur ekki við um áfrýjanda, enda fjalli lagaákvæðið um grunnskólakennara sem eigi rétt á fastráðningu eftir tveggja ára tímabundna ráðningu. Lög nr. 72/1996 hafi verið sett við flutning grunnskólanna frá ríkinu til sveitarfélaga í því skyni að tryggja skólastjórnendum og kennurum við grunnskóla efnislega óbreytt ráðningarréttindi hjá nýjum vinnuveitanda. Áfrýjandi hafi verið skipuð grunnskólakennari 1990 og tryggi lögin henni efnislega sömu réttindi og áður, sbr. 36. gr. þeirra. Það sé einmitt munurinn á stöðu annars vegar, sem áfrýjandi sannarlega hafi verið skipuð í, og starfi hins vegar, sem áfrýjandi hafi verið ráðin til, fyrst við hlið kennarastöðu sinnar og síðan í tvö ár í fullu starfi tímabundið, sem sýni að 14. gr. laga nr. 72/1996 og önnur lagaákvæði sem hún byggi á, eigi ekki við. Máli sínu til stuðnings vísar stefndi í framburð skólastjórans í Breiðholtsskóla fyrir héraðsdómi og skýringar hans á því að hann hafi ekki lengur talið þörf á stjórnun áfrýjanda við tölvukennslu, en einstökum kennurum í því fagi hafi verið falið að taka við verkefnum, sem því tengdust.

IV.

Af málatilbúnaði áfrýjanda verður ekki annað ráðið en að byggt sé á því að deildarstjórastarf hennar sé annað og óháð fyrra kennarastarfi og beri að líta á það sem slíkt. Til stuðnings kröfu sinni ber hún engu að síður fyrir sig 3. mgr. 6. gr. laga nr. 86/1998 þar sem segir að grunnskólakennari eigi rétt á fastráðningu eftir tveggja ára starf, nema verklok séu fyrirfram ákveðin. Áfrýjandi var skipuð ótímabundið í stöðu grunnskólakennara þegar á árinu 1990 og kemur lagaákvæðið því ekki til neinna álita í málinu. Þegar virt er markmið laga nr. 139/2003, sbr. 2. gr. þeirra, verður ekki heldur fallist á með áfrýjanda að þau eigi við um tímabundna ráðningu hennar við stjórnunarverkefni í tengslum við tölvukennslu í Breiðholtsskóla, auk þess sem ekki reyndi á slíka ráðningu í fullu starfshlutfalli lengur en í tvö ár. Tímabundin ráðning hennar felldi ekki úr gildi ótímabundna skipun í kennarastöðu, sem áfrýjandi naut, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 1978 bls. 1198 í dómasafni réttarins hvað varðar skipun eða fastráðningu í starf gagnvart tímabundnum viðfangsefnum. Sú málsástæða að líta megi svo á að hún hafi samtímis gegnt tveimur opinberum stöðum, sem hvor um sig veitti rétt til biðlauna ef hún yrði lögð niður, er haldlaus. Að þessu virtu en að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

 

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 31. janúar 2007.

          Mál þetta, sem var dómtekið 24. janúar sl. er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kolbrúnu Hjaltadóttur, Brekkuseli 14, Reykjavík á hendur Reykjavíkurborg, Ráðhúsinu við Tjörnina, Reykjavík, með stefnu birtri  29. ágúst 2006.

          Dómkröfur stefnanda eru þær að stefndi greiði stefnanda 2.009.247 kr. með dráttarvöxtum skv. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, af 325.504 kr. frá 1. ágúst 2006 til 1. september 2006, en frá þeim degi af 651.008 kr. til 1. október 2006, en frá þeim degi af 976.512 kr. til 1. nóvember 2006, en frá þeim degi af 1.302.016 til 1. desember 2006, en frá þeim degi af 1.676.420 kr. til 1. janúar 2007 en frá þeim degi af 2.009.247 kr. til greiðsludags og  málskostnað skv. gjaldskrá Löggarðs ehf.

          Stefndi krefst þess aðallega að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda og málkostnaðar að mati réttarins. Til vara er þess krafist að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar og í því tilviki verði málkostnaður látinn falla niður.

 

Málavextir.

Stefnandi er félagsmaður í Kennarasambandi Íslands. Hún er með kennarapróf frá Kennaraháskóla Íslands árið 1969. Hún stundaði nám við Háskólann í Uppsölum í uppeldis- og kennslufræðum veturinn 1970-1971. Stefnandi mun nú stunda meistaranám í uppeldis- og menntunarfræðum með áherslu á tölvutækni. Þá hefur stefnandi einnig tekið þátt í fjölda námskeiða er tengjast kennslu og tölvunotkun.

Með skipunarbréfi menntamálaráðherra, dags 20. júní 1990, var stefnandi skipuð grunnskólakennari frá og með 1. ágúst 1990.  Samkvæmt vinnuskýrslum stefnanda og þeim öðrum tímabundnu samningum sem málsaðilar gerðu með sér á tímabilinu 1990 til 2005 um vinnutilhögun stefnanda hjá stefnda, var stefnandi að mestu leyti í hlutastarfi sem skipaður grunnskólakennari í Breiðholtsskóla frá 1989 til 1. ágúst 2001. Var stefnandi síðan í fullu starfi frá 1. ágúst 2001 til 1. ágúst 2006.

Með tímabundnum ráðningarsamningi málsaðila, dags. 5. júní 2001, og vinnuskýrslu, dags. 10. september 2001, var ákveðið að vinnutilhögun stefnanda fyrir skólaárið 2001-2002 yrði  32,5% sem deildarstjóri tölvumála og 67,5 % í kennslu. 

Með tímabundnum ráðningarsamningi málsaðila, dags. 20. júní 2002, og vinnuskýrslu, dags. 6. september 2002, var ákveðið að vinnutilhögun stefnanda fyrir skólaárið 2002-2003 yrði 75% sem deildarstjóri tölvumála og 25 % í kennslu (6 kennslustundir). 

Með tímabundnum ráðningarsamningi málsaðila dags. 10. júní 2003 og vinnuskýrslu, dags. 19. september 2003, var ákveðið að vinnutilhögun stefnanda fyrir skólaárið 2003-2004 yrði 75% deildarstjóri tölvumála og 25 % í kennslu (10,79 kennslustundir). 

Með tímabundum ráðningarsamningi málsaðila, dags. 10. júní 2004, og vinnuskýrslu, dags. 7. september 2004, var ákveðið að vinnutilhögun stefnanda fyrir skólaárið 2004-2005 yrði 100% sem deildarstjóri tölvumála og kennsluskylda í 10 tíma á viku. 

Vorið 2005 tók nýr skólastjóri, Sigþór Magnússon, við skólastjórn Breiðholtsskóla.

Með tímabundnum ráðningarsamningi hans við stefnanda, dags. 22. júní 2005, og vinnuskýrslu, dags. 15. september 2005, var ákveðið að vinnutilhögun stefnanda fyrir skólaárið 2005-2006 yrði 100% sem deildarstjóri tölvumála og kennsluskylda í 2 tíma á viku.

Haustið 2005 kynnti upplýsingatækniþjónusta Menntasviðs Reykjavíkurborgar nýja þjónustu við grunnskólana, þar sem sérfræðingar myndu veita ráðgjöf, leiðbeina og sjá um allan vél- og hugbúnað í skólunum. Það fæli m.a. í sér aukna símenntun kennara að bera ábyrgð á og sjá sjálfir um sinn tölvubúnað í kennslustofunum. Í kjölfar þessarar nýjungar voru verkefni deildarstjóra tölvumála endurskoðuð.

Í janúar 2006 átti skólastjórinn samtal við stefnanda um verkefni deildarstjóra tölvumála. Þar mun hann hafa upplýst stefnanda um að til greina kæmi að leggja niður verkefni deildarstjóra tölvumála að hluta eða öllu leyti vegna endurskoðunar tölvumála skólans.

Í lok febrúar 2006 var tekin ákvörðun um að taka þjónustutilboði upplýsingatækniþjónustu Menntasviðs. Skólastjóri mun hafa hitt stefnanda stuttu síðar og í samtali þeirra kom m.a. fram að skólastjóri hefði ákveðið að leggja verkefni deildarstjóra tölvumála niður frá og með næsta starfsári og ástæður þess tilgreindar, en jafnframt kom fram að staðið yrði formlega að því í samráði við starfsmannastjóra Menntasviðs.

Hinn 14. mars 2006 var haldinn fundur með skólastjóra, aðstoðarskólastjóra, stefnanda og trúnaðarmanni stefnanda. Þar afhenti skólastjóri stefnanda tilkynningu dags. 10. mars 2006.  Þar segir: „sem m.a. fela í sér að starf deildarstjóra tölvumála í Breiðholtsskóla  verður lagt niður frá og með 1. ágúst 2006. Af þeim sökum er því miður ekki hægt að bjóða þér endurráðningu í það starf sem þú hefur gegnt undanfarin ár. -- Þetta tilkynnist hér með um leið og þér er þökkuð vel unnin störf í stöðu deildarstjóra tölvumála.“  Á þessum sama fundi var stefnanda boðið að taka að sér fullt starf umsjónarkennara við skólann á komandi vetri.

Hinn 20. mars 2006 undirritaði stefnandi og fyllti út upplýsingalistann þar sem fram kom, að stefnandi væri óákveðin um hvort hún ætlaði að starfa við skólann næsta ár, svarði hún já og nei. Engu að síður óskaði hún eftir að sinna bekkjarumsjón við unglingadeild næsta vetur. Einnig óskaði hún eftir aldursafslætti vegna kennsluskyldu. Stefnandi lýsti því síðan yfir að hún væri ekki samþykk því að taka tvo heila daga og einn starfsdag í símenntun á næsta skólaári.

Hinn 5. apríl 2006 ritaði lögmaður stefnanda bréf til skólastjóra Breiðholtsskóla og óskaði svara við því hvort stefnanda yrðu greidd biðlaun við það að staða hennar væri lögð niður og hvort niðurlagningin myndi hafa áhrif á launakjör hennar og ef svo væri þá hver.

Í svari skólastjóra frá 26. apríl 2006 kom fram að verið væri að leggja niður stöðu deildarstjóra en ekki þá kennarastöðu sem hún hefði haft við skólann. Verkefnið hafi verið tímabundið og hún ráðin í það frá ári til árs. Þannig yrðu henni ekki greidd biðlaun. 

Skólastjóri og stefnandi munu hafa átt samtal í byrjun júní, þar sem stefnandi lýsti því yfir að hún myndi ekki að starfa við skólann næsta skólaár. Óskaði skólastjóri eftir því að fá skriflegt svar frá stefnanda vegna þessa og ítrekaði hann þá ósk sína með tölvupósti, dags. 21. júní 2006, og í símtali 3. júlí 2006.

Hinn 27. júní 2006 sendi lögmaður stefnanda bréf til skólans þar sem skólanum var tilkynnt að stefnandi hygðist nýta sér rétt sinn til biðlauna. Var um það vísað til 14. gr. laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda.

Þann 6. júlí 2006 sendi skólastjóri ábyrgðarbréf til stefnanda þar sem óskað var eftir að stefnandi staðfesti svar sitt skriflega innan tveggja vikna um að hún ætlaði ekki að starfa við skólann á komandi vetri.  Stefnandi svaraði aldrei skólastjóra.

Með bréfi, dags. 17. júlí 2006, var það boðað að lögmenn stefnda myndu svara bréfi lögmannsins frá 6. júlí 2006. Þá kom fram hjá skólastjóra að hann væri að bíða eftir svari frá stefnanda um veru hennar í skólanum næsta vetur. Af því tilefni eða með bréfi 15. ágúst 2006 sendi lögmaður hennar skólanum bréf, þar sem minnt var á að staða hennar við skólann hefði verið lögð niður og henni þökkuð vel unnin störf. Jafnframt var krafa um biðlaun ítrekuð.

Frá 1. ágúst 2006 er stefnandi ráðinn framhaldskólakennari við Menntaskólann í Kópavogi til eins árs, sbr. ráðningarsamning frá 24. maí 2006.

 

Málsástæður og lagarök stefnanda.

Stefnandi byggir á því að hún sé félagsmaður í félagi innan Kennarasambands Íslands (KI) og um launin og launakjör fari því eftir kjarasamningi þess og Launanefndar sveitarfélaga (LN) hverju sinni.  Þá er á því byggt að um réttindi stefnanda og skyldur fari eftir lögum nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda. Þá fari einnig um rétt stefnanda skv. lögum nr. 86/1998 um lögverndun o.fl. og lögum nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna.

Á því er byggt að stefnandi hafi verið í fullu starfi sem deildarstjóri tölvumála við Breiðholtsskóla. Sú staða hafi verið lögð niður frá og með 1. ágúst 2006. Hún eigi því með vísan til 14. gr. laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda, rétt á biðlaunum úr hendi stefnda þar sem stefnandi hafi hvorki tekið að sér annað starf hjá sveitarfélagi né hafi henni verið boðin sambærileg staða hjá stefnda. Stefnandi eigi rétt til biðlauna í 12 mánuði skv. sama lagaákvæði þar sem starfsaldurinn hjá sveitarfélögum sé lengri en 15 ár.

Á því er byggt að með kjarasamningi KI og LN frá 9. janúar 2001 hafi komið inn nýtt starfsheiti, starfsheitið deildarstjóri og var gert ráð fyrir deildarstjórum 1-4 allt eftir stjórnunarhlutfalli. Kjarasamningur sömu aðila frá 17. nóvember 2004 hafi þannig að geyma starfsheitið deildarstjóri stigs og deildarstjóri verkefnis. Þar er staðan „deildarstjóri 2“ sem stefnandi gegndi skilgreind sem deildarstjóri með 75% eða hærra starfshlutfall.  Þannig hafi stefnandi verið ráðin og gegnt sérstöku starfi sem skilgreint hafi verið sérstaklega sem starf í kjarasamningi stéttarfélags hennar. Því hafi hún ekki gegnt kennslu heldur starfi deildarstjóra, sem sé stjórnunarstaða innan grunnskólans.

Stefnandi byggir einnig á því, að engu máli skipti þótt ráðning hennar hafi verið tímabundin. Í raun sé það markleysa ein þegar ráðning er tímabundin ár eftir ár í 5 ár. Um rétt sinn vísar stefnandi til 6. gr. laga um lögverndun o.fl. nr. 86/1998 en þar kemur fram að grunnskólakennari eigi rétt á fastráðningu með þriggja mánaða uppsagnarfresti eftir tveggja ára starf. Þennan rétt hafi stefndi ekki virt. Sú staðreynd eigi ekki að rýra rétt stefnanda heldur fari um rétt hennar eins og ef stefndi hefði virt hann. 

Þá er einnig vísað um þetta til ákvæða laga nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna. Er einkum vísað til 1. mgr. 4. gr. þar sem fram kemur að starfsmaður með tímabundna ráðningu skuli ekki njóta lakari starfskjara né sæta lakari meðferð en starfsmaður með ótímabundna ráðningu af þeirri ástæðu einni að hann er ráðinn tímabundið. Þá er m.a. vísað til athugasemda við frumvarp að þessum sömu lögum, 2. gr. þar sem fram kemur að tilgangur löggjafarinnar sé að koma í veg fyrir að hver tímabundinn ráðningarsamninguri taki við af öðrum, til þess eins að hafa af viðkomandi réttindi er tengjast fastráðningu.

Þá er á því byggt að óheimilt sé skv. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna að endurnýja tímabundna ráðningarsamninga þannig að þeir vari samfellt lengur en tvö ár, nema annað sé tekið fram í lögum. Slík heimild sé ekki til í lögum. Þá bendir stefndi á þá meginreglu, sem er að finna í 41. gr. starfsmannalaga nr. 70/1996, þar sem kveðið er á um fastráðningu ríkisstarfsmanna eftir tveggja ára starf.

Á því er byggt að stefnandi hafi fengið laun sín greidd fyrir fram og það eitt sé til marks um ráðningarfestu hennar því einungis fastráðnum starfsmönnum séu greidd laun fyrir fram. Þá hafi ráðning hennar við skólann sem kennari hafist á árinu 1989.  Með sömu rökum á hún þess vegna rétt á biðlaunum frá og með 1. ágúst 2006 sem eru sömu laun og hún hafði er staða hennar var lögð niður. Þá er á því byggt að hún eigi rétt á annaruppbót bæði um sumar og í desember. 

Reykjavíkurborg er eigandi Breiðholtsskóla og rekur hann á eigin kostnað. Því er henni stefnt í máli þessu.

Krafið er um biðlaun samtals að fjárhæð 2.009.247 kr. sem féllu í gjalddaga mánaðarlega á tímabilinu 1. ágúst til og með 1. janúar 2007 auk annaruppbótar í desember 2006.  Um dráttarvexti er vísað til 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001. Um málskostnað til 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

 

Málsástæður og lagarök stefnda.

Aðalkröfu sína um sýknu byggir stefndi á því, að ekki hafi myndast réttur til biðlauna stefnanda til handa enda hafi stefnandi haft skipun sem grunnskólakennari frá 1. september 1990 og hafi þeirri skipun ekki verið breytt með neinum hætti eða stefnandi óskað lausnar á þeirri skipun.  Að mati stefnda var að öllu leyti eðlilega staðið að ákvörðun um lok á vinnu stefnanda við tölvuumsjón í Breiðholtsskóla. Byggir stefndi sýknukröfu sína jafnframt á þeirri staðreynd að niðurlagning tímabundins starfs skapi ekki rétt til biðlauna, enda hafi stefnandi haldið öllum réttindum sínum sem skipaður grunnskólakennari.

Á því er byggt að þeir tímabundnu samningar sem gerðir voru við stefnanda á tímabilinu 2001 til 2006 sýni að stefnandi var ekki með fasta stöðu sem deildarstjóri tölvumála við Breiðholtsskóla og geti því ekki átt rétt til biðlauna vegna þess starfs. Ótvírætt hafi stefnandi alltaf átt fasta stöðu sem grunnskólakennari við skólann og sú staða hafi ekki verið lögð niður. Sannað sé að stefnandi hafi ekki þegið þær stöður sem henni voru boðnar samhliða því, þegar ljóst var að af endurráðningu hennar í verkefni deildarstjóra tölvuumsjónar yrði ekki. Stefndi byggir þannig á því að biðlaunaréttur hafi ekki orðið virkur þar sem föst staða í skilningi 14. gr. laga um réttindi og skyldur nr. 72/1996 hafi ekki verið lögð niður.

Stefndi byggir enn fremur á því að stefnandi hafi með því að fylla út upplýsingablað, með óskum um kennslu á skólaárinu 2006 – 2007, tekið af allan vafa um að í hennar huga stóð henni til boða á þeim tímapunkti fullt starf grunnskólakennara við Breiðholtsskóla. Af þessu skjali verður því ekki annað ráðið, en að stefnandi hafi jafnvel ætlað sér að sinna kennslu með hefðbundnum hætti, eins og hún hafði gert frá 1989 þegar stefnandi hóf störf við skólann.

Þá byggir stefndi sýknukröfu sína á þeirri málsástæðu að allt frá því stefnandi tók fyrst við tímabundinni deildarstjórn tölvuumsjónar í Breiðholtsskóla hafi henni verið kunnugt um að ekki var um fasta stöðu að ræða. Vissi stefnandi þannig að þörf fyrir framhaldi verkefnisins yrði metin á hverju ári og var jafnframt ljóst að þörfin gæti verið mismikil milli ára enda að mörgu að hyggja við það mat.  Þar sem um tímabundið þróunarverkefni, en ekki fasta stöðu, var að ræða, var starfið aldrei auglýst enda var litið svo á að það myndi breytast og þróast milli ára.

Stefndi bendir á að starfsumhverfi grunnskóla í Reykjavík sé háð þó nokkrum þáttum sem séu breytilegir frá ári til árs. Fyrst er að nefna fjárhagsrammann.  Skólastjóra er í sjálfsvald sett hvernig hann skipuleggur skólastarfið út frá þeim fjárheimildum sem hann hefur fyrir hvert skólaár.  Samhliða fjárheimild kemur iðulega krafa um að draga saman seglin á ákveðnum sviðum. Skólastjórar verða að hafa þetta svigrúm því breytilegt er frá ári til árs hver nemendafjöldi við skólann er og þá jafnframt samsetning kennara skólans og þekking þeirra. Eftir því sem tölvunotkun verður meiri eykst tölvufærni og tölvulæsi kennara og gefur það því augaleið að þörfin fyrir verkefni við tölvuumsjón og fagstjórn á því sviði er breytileg frá ári til árs.

Á það er bent að ákvörðun um kaup á vinnuframlagi hafi einungis gilt fyrir eitt skólaár í einu og framlengdist ekki sjálfkrafa. Styðst sú staðhæfing m.a. við þá staðreynd að í upphafi sérhvers skólaárs hafi verið undirrituð yfirlýsing á milli stefnanda og stefnda, svonefnd vinnuskýrsla kennara. Vinnuskýrsla hefur verið endurnýjuð árlega án sérstaks fyrirvara af hálfu stefnanda og telst ígildi samkomulags um tilgreind samningsbundin kjör á tilteknu skólaári en breytingar á vinnuskýrslu á skólaárinu verða ekki gerðar nema til komi samþykki beggja eða með lögmætum uppsagnarfresti. 

Stefndi byggir jafnframt á þeirri staðreynd að staða stefnanda sem skipaðs grunnskólakennara við Breiðholtskóla var alltaf fyrir hendi enda hafði stefnanda verið boðið að taka að sér kennslu umsjónarkennara í 6. bekk eða 4. bekk, sem stefnandi kaus að þiggja ekki en stefnandi hafði áður kennt þessum bekkjardeildum.

Stefndi mótmælir alfarið fullyrðingum stefnanda um að lög um tímabundna ráðningu starfsmanna nr. 139/2003 gildi um réttarstöðu hennar. Stefndi bendir því til stuðnings á að stefnandi hafi verið skipaður grunnskólakennari við Breiðholtsskóla frá 1. ágúst 1990 og því hafi stefnandi aldrei haft réttarstöðu starfsmanns með tímabundna ráðningu. Af því leiði að lögin um tímabundna ráðningu starfsmanna gildi ekki um réttarstöðu stefnanda, sbr. 1. mgr. 1. gr., sbr. a-lið 3. gr. tilvitnaðra laga. Stefnandi hafi í engu notið lakari starfskjara né sætt lakari meðferð enda engin réttindi tengd fastráðningu höfð af stefnanda sem hafði þegar fastráðningu við skólann sem grunnskólakennari og naut allra réttinda sem slíkur.

Í þessu sambandi skal jafnframt bent á að lög um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda nr. 72/1996 voru sett við flutning grunnskólanna til sveitarfélaga í því skyni að tryggja kennurum og skólastjórnendum við grunnskóla efnislega óbreytt ráðningarréttindi hjá nýjum vinnuveitanda, sbr. b. liður 1. mgr. 57. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995. Stefnandi var skipuð grunnskólakennari af menntamálaráðherra árið 1990 og tryggja lög nr. 72/1996 stefnanda efnislega sömu réttindi og hún hafði áður en grunnskólar voru fluttir til sveitarfélaga, sbr. 36. gr. laganna.

Stefndi telur ljóst með vísan til alls ofangreinds að stefnandi eigi ekki rétt á biðlaunum og því beri að sýkna hann af öllum kröfum stefnanda.

Varakröfu sína um lækkun á dómkröfum stefnanda byggir stefndi m.a. á þeirri málsástæðu að stefnandi hafi ekki verið í fullu starfi í þjónustu sveitarfélagsins í 15 ár. Meginregla vinnuréttarins er að réttindaþegi geti ekki tekið meiri réttindi út en hann hefur áunnið sér.  Telur stefndi einsýnt að stefnandi eigi ekki rétt á fullum biðlaunum í 12 mánuði ef hann hefur ekki verið í fullri vinnu hjá sveitarfélagi í 15 ár.

Jafnframt byggir stefndi á því að upphaf töku biðlaunaréttar skuli miða við 1. apríl 2006. Tilgangur 14. gr. laga nr. 72/1996 um 12 mánaða biðlaunarétt er að veita réttþega svigrúm í þann tíma frá því tilkynnt er um niðurlagningu fastrar stöðu. Af því leiðir að upphaf biðlaunaréttar ætti í þessu tilviki að telja frá 1. apríl 2006 en það er tímamarkið frá næstu mánaðamótum eftir tilkynningu skólastjóra, dags. 10. mars 2006.

Stefndi mótmælir sérstaklega fjárhæð dómkröfu og upphafsdegi dráttarvaxta. Um lagarök vísar stefndi  á lög um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda nr. 72/1996, lög um tímabundna ráðningu starfsmanna nr. 139/2003, lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986, lög um grunnskóla nr. 66/1995, lög um meðferð einkamála nr. 91/1991,  kjarasamninga Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands fyrir grunnskóla frá 9. janúar 2001 og frá 17. nóvember 2004, almennar reglur vinnuréttarins, almennar reglur stjórnsýsluréttarins og almennar reglur samninga- og kröfuréttar. Málskostnaðarkrafa stefnda byggir í báðum kröfuliðum á 130. gr., sbr. 129. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.

 

Forsendur og niðurstaða.

Samkvæmt 1. mgr. 10. gr. laga um grunnskóla nr. 66/1995 skal sveitarfélag reka grunnskóla og samkvæmt 1. mgr. 14. gr. sömu laga stjórnar skólastjóri skólanum og veitir honum faglega forustu. Þá ber skólastjóri einnig ábyrgð á starfi skólans gagnvart sveitarstjórn.  Í starfi skólastjóra felst að honum ber að ráðstafa vinnu kennara  til þeirra faglegu starfa og verkefna sem starfssemi skólans krefst. Þá ber honum einnig að skipuleggja störf kennara þannig að það nýtist nemendum sem best í námi þeirra.  Hann ber einnig ábyrgð á rekstri skólans og því að starfsemi skólans sé m.a. í samræmi við samþykktir sveitarstjórnar. 

Stefnandi var með bréfi menntamálaráðherra frá 20. júní 1990 skipuð grunnskólakennari við grunnskóla Reykjavíkur frá 1. ágúst 1990 að telja.  Var stefnandi í hlutastarfi við kennslu í Breiðholtsskóla allt til 1. ágúst 1996 er hún fór í fullt starf. Hélt stefnandi áfram kennslu við Breiðholtsskóla á komandi árum að frátöldu námsleyfi hennar skólaárið 1999-2000.  Er stefnandi kom til starfa að loknu námsleyfi tók hún að sér fagstjórn í tölvum ásamt kennslu. Með kjarasamningi Kennarasambands Íslands og Launanefndar sveitarfélaga frá 9. janúar 2001 kom  nýtt starfsheiti, þ.e. deildarstjóri, inn í kjarasamninginn. Um sumarið eða, 15. júní 2001, var gerður fyrsti ráðningarsamningurinn við stefnanda um deildarstjórn hennar í tölvumálum. Samkvæmt honum var stefnandi ráðin í 32.5% starfshlutfall sem deildarstjóri 2 og í launaflokk 409 samanber hinn nýja kjarasamning. Samningurinn var tímabundinn til 31. júlí 2002. Allt til ársins 2005 voru árlega gerðir sambærilegir ráðningarsamningar við stefnanda, en starfshlutfallið var þó mismunandi. Í málinu krefst stefnandi þess efnislega að viðurkennt verði að starf hennar sem deildarstjóri hafi verið lagt niður og henni beri þar af leiðandi biðlaun, sbr. 14. gr. laga nr. 72/1996 um réttindi og skyldur kennara og skólastjórnenda grunnskóla. 

Dómurinn lítur svo á, að með nefndum ráðningarsamningum hafi stefnandi verið að taka að sér tímabundin störf í þágu skólans. Hún hafði áður verið fagstjóri í tölvumálinu, en nú var því breytt í deildarstjóra vegna hins nýja kjarasamnings. Með þessu tímabundna starfi, sem byrjaði í 32,5% starfshlutfalli, var hún ekki að fórna skipun þeirri sem hún hafði sem grunnskólakennari. Umsjón tölvumála tók hún að sér að beiðni skólastjóra, sem hann hafði heimild til að gera, samanber stjórnunarskyldur hans. Starfið fór eftir þörfum skólans á hverjum tíma.  Ljóst er að mati dómsins að stefnanda var fullkunnugt að um tímabundið starf var að ræða, því ráðningarsamningurinn bar það með sér, auk þess sem það er alkunna að skólastarfið tekur breytingum í upphafi hvers skólaárs eftir þörfum og þeim áherslum sem gera á, á skólaárinu.  Sú ákvörðun skólastjóra að breyta tölvuumsjón á skólaárinu 2006-2007 og fela hana einstökum kennurum auk þess að kaupa að þjónustu varðandi vélarkostinn, felur ekki í sér niðurlagningu á stöðu stefnanda svo sem hún gerir kröfur um í málinu.  Eins og að framan greinir var stefnandi skipaður grunnskólakennari og hélt öllum sínum réttindum sem slík þar til hún hætti störfum hjá skólanum. Sú staða hefur ekki verið lögð niður.  Með vísan til þess sem að framan greinir á stefnandi ekki rétt til þeirra launa er hún krefur um í málinu. Dómvenja er fyrir því að um fasta stöðu sé að ræða svo að biðlaun verði greidd samkvæmt 14. gr. laga nr. 72/1996.

Með vísan til þess sem að framan greinir á tilvitnun stefnanda til 6. gr. laga nr. 86/1998 um lögverndun á starfsheiti og starfsréttindum grunnskólakennara, framhaldsskólakennara og skólastjóra, ekki við. Stefnandi hafði skipun sem grunnskólakennari og hin tímabundna tölvuumsjón hennar skapaði henni ekki neinn umframrétt.  Þá eiga lög nr. 139/2003 um tímabundna ráðningu starfsmanna ekki við í tilviki stefnanda þar sem hún var með ótímabundna skipun sem grunnskólakennari. 

Með vísan til alls þess sem að framan greinir er stefndi sýknaður af öllum kröfum stefnanda.  Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.

Af hálfu stefnanda flutti málið Guðni Haraldsson hrl.

          Af hálfu stefnda flutti málið Eyþóra K. Geirsdóttir hdl.

          Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.

 

DÓMSORÐ

Stefndi, Reykjavíkurborg, skal vera sýkn af kröfum stefnanda, Kolbrúnar Hjaltadóttur. 

Málskostnaður fellur niður.