Hæstiréttur íslands
Mál nr. 67/2010
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008
|
|
Miðvikudaginn 10. febrúar 2010. |
|
Nr. 67/2010. |
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu (Jón H.B. Snorrason saksóknari) gegn X (Einar Hugi Bjarnason hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95 gr. laga nr. 88/2008.
Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 3. febrúar 2010, sem stimpluð er um móttöku í Héraðsdómi Reykjavíkur 5. sama mánaðar. Kæran barst Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 8. febrúar 2010. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 17. febrúar 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi en til vara að gæsluvarðhaldi verði markaður skemmri tími og að hún verði ekki látin sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldsvist stendur. Að því frágengnu krefst hún þess að hún verði einungis látin sæta farbanni.
Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Það athugast að Hæstarétti bárust gögn málsins ekki fyrr en þremur dögum eftir að kæra barst Héraðsdómi Reykjavíkur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 3. febrúar 2010.
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til miðvikudagsins 17. febrúar 2010, kl. 16:00. Þess er krafist að X verði látin vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.
Í greinargerð lögreglu kemur fram lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi haft til rannsóknar stórfellt fíkniefnabrot er varði ætlaðan innflutning á fíkniefnum hingað til lands. Hinn 11. nóvember sl. hafi lögreglunni borist upplýsingar frá lögreglunni í Kaunas í Litháen þess efnis að tveir Litháískir karlmenn ætluðu að flytja inn til landsins rúmlega 10 kg af amfetamíni í bifreið og að þeir myndu ferðast hingað til lands með ferjunni Norrænu. Áætlað var að þeir kæmu með ferjunni til Seyðisfjarðar hinn 12. nóvember sl. Síðar hafi komið í ljós að litháarnir hafi misst af ferjunni er hún hafi farið frá Færeyjum og þeir orðið strandaglópar þar. Lögreglan í Færeyjum hafi handtekið mennina hinn 13. nóvember og leitað í bifreið þeirra. Við leitina hafi fundist rúmlega 4.000 stk af MDMA töflum og rúmlega 3 kg af metamfetamíni. Við leitina haf einnig fundist miði með nafninu Y og íslenskt símanúmer. Við rannsókn málsins hafir komið í ljós að aðili að nafni Y sé skráður fyrir símanúmerinu. Þá hafi einnig komið í ljós að íslenskt farsímanúmer hafi verið gefið upp í bókun farmiða þessara tveggja manna í Færeyjum. Litháarnir tveir sæti nú gæsluvarðhaldi í Færeyjum. Þeir hafi litlar upplýsingar gefið varðandi málið og sé ósamræmi í framburði þeirra. Aðspurðir hafi þeir borið um að maður að nafni Y hafi skipulagt ferðina og hafi annar þeirra sagt að Y hafi átt að taka á móti þeim þegar þeir kæmu með fíkniefnin til Seyðisfjarðar.
Hinn 18. nóvember sl. hafi kona að nafni X haft samband við skrifstofu ferjunnar Norrænu og spurst fyrir um Litháana sem sitji í varðhaldi í Færeyjum. X vildi vita hvenær von væri á þeim til landsins. Hún hafi hringt úr ákveðnu símanúmeri en óskað eftir því að haft yrði samband við sig í annað ákveðið símanúmer. Rannsókn lögreglu hafi leitt í ljós að umrædd kona sé X og sé kærði Z notandi símanúmersins sem hún hafi beðið um að hringt yrði í.
Rannsókn lögreglu hafi einnig leitt í ljós að breytingar hafi verið gerðar á farmiðum Litháana sem sæti nú gæsluvarðhaldi í Færeyjum, og hafi X borgað fyrir þær breytingar.
Á grundvelli úrskurðar héraðsdóms hafi símanúmer ofangreindra aðila verið tengd til hlustunar. Í ljós hafi komið að aðili að nafni Þ hafi verið í sambandi við Z, en Þ sé staddur í Litháen. Meðal annars hafi komið fram við hlustun að Þ hafi skipað Z að leita að mönnunum tveimur sem staddir hafi verið í Færeyjum.
Z, X og Y hafi öll verið handtekinn hinn 5. janúar sl. og hafi þau í kjölfarið verið úrskurðuð í gæsluvarðhald á grundvelli rannsóknarhagsmuna.
X hafi neitað því að hafa staðið að innflutningi ofangreindra fíkniefna. Við yfirheyrslur hjá lögreglu hafi X játað að hafa keypt tvo farmiða fyrir tvo menn til Íslands. Hún viðurkenni einnig að hafa breytt bókun á farmiða Litháana. Þá hafi X einnig játað að hafa millifært peninga til aðila í Litháen. X kveðst ekki hafa vitað af hverju hún hafi keypt farmiðana né af hverju hún hafi átt að millifæra peningana, en hún kveðst hafa gert þetta að beiðni kunningja Z.
Rannsókn lögreglu miði nú að því að finna út hver/hverjir séu eigendur hinna ætluðu fíkniefna sem haldlögð hafi verið og hverjir hafi staðið að baki skipulagningu innflutningsins. Rannsaka þurfi þætti er snúi að aðdraganda brotsins, skipulagningu og fjármögnun. Gagnaöflun sé í fullum gangi og þá liggi einnig fyrir mikil vinna við úrvinnslu þeirra gagna sem þegar liggi fyrir. Rannsaka þurfi nánar fjármál kærðu og upplýsa nánar um samskipti hennar við mögulega samverkamenn sem kunni að tengjast málinu.
Rannsókn málsins hafi gengið ágætlega en málið sé mjög umfangsmikið. Lögreglan hafi nú unnið að rannsókn málsins hér á landi í samvinnu við lögregluyfirvöld í Færeyjum, í Litháen og með aðkomu Europol. Þá hafi lögregluyfirvöld í Færeyjum einnig verið í samvinnu við yfirvöld í Danmörku en Litháarnir tveir sem sæti gæsluvarðhaldi í Færeyjum hafi átt viðkomu í Danmörku á leið sinni með fíkniefnin. Lögreglumenn frá Færeyjum hafi komið hingað til lands og tekið þátt í yfirheyrslum yfir kærðu. Þá hafi Eurojust boðað fulltrúa frá ofangreindum löndum til fundar hinn 5. febrúar n.k. þar sem áætlað sé að fara yfir málið og ræða næstu aðgerðir. Áætlað sé að fulltrúar frá færeysku lögreglunni komi hingað til lands í kjölfar fundarins og taki þátt í frekari yfirheyrslum yfir kærðu. Þá sé einnig áætlað að handtaka og yfirheyra mögulega samverkamenn og/eða vitni í Litháen, en óskað hafi verið eftir aðstoð litháískra lögregluyfirvalda að því er það varði.
Það sé ætlun lögreglu að X eigi þátt í ofangreindri tilraun til innflutnings á fíkniefnum hingað til lands og að hún hafi staðið að innflutningnum ásamt öðrum erlendum aðilum. Um sé að ræða mjög mikið magn fíkniefna sem víst þyki að hafi átt að fara í sölu og dreifingu hér á landi. Nauðsynlegt sé að kærða sæti gæsluvarðhaldi til að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins, en ljóst sé að gangi kærða laus geti hún sett sig í samband við meinta samverkamenn sem gangi lausir eða þeir geti sett sig í samband við hana eða kærða geti komið undan gögnum sem sönnunargildi hafi og enn hafi ekki verið lagt hald á. Þyki þannig brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærða gangi laus. Til rannsóknar sé ætlað brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 20. gr., ásamt síðari breytingum, sem geti varðað allt að 12 ára fangelsi ef sök sannist.
Um heimild til gæsluvarðhalds sé vísað til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 og til b liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga hvað varði kröfu um einangrun.
Með vísan til þess sem fram kemur í greinargerð lögreglustjóra og þess sem rannsóknargögn bera með sér er fallist á að kærða sé undir rökstuddum grun um að hafa framið verknað sem varðað getur fangelsisrefsingu. Fram er komið að rannsókn málsins sem er umfangsmikil er í fullum gangi og er fallist á að kærða geti torveldað rannsókn málsins með því að koma undan sönnunargögnum eða hafa áhrif á vitni eða samseka, gangi hún laus. Þegar litið er til framanritaðs telur dómurinn að uppfyllt séu skilyrði a liðar 1. mgr. 95. gr. laga 88/2008, um meðferð sakamála, og er því fallist á kröfu um gæsluvarðhald eins og hún er fram sett og nánar greinir í úrskurðarorði og með vísan til umfangs málsins þykja ekki efni til að marka gæsluvarðhaldinu skemmri tíma. Þá er með sömu rökum fallist á að kærða verði látin vera í einrúmi á meðan gæsluvarðhaldinu stendur skv. b. lið 1. mgr. 99. gr. laga nr. 88/2008.
Kristjana Jónsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
ÚRSKURÐARORÐ
Kærða, X, kt. [...], skal sæta gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 17. febrúar 2010, kl. 16:00.
Kærða skal látin vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldinu stendur.