Hæstiréttur íslands

Mál nr. 514/2006


Lykilorð

  • Skjalafals
  • Játningarmál
  • Reynslulausn
  • Dráttur á máli


Fimmtudaginn 8

 

Fimmtudaginn 8. febrúar 2007.

Nr. 514/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður Elsa Kjartansdóttir saksóknari)

gegn

Gunnari Sverri Arnarsyni

(Sigmundur Hannesson hrl.)

 

Skjalafals. Játningarmál. Reynslulausn. Dráttur á máli.

G var sakfelldur fyrir skjalafals með því að hafa greitt starfsmönnum nánar tilgreinds fyrirtækis með skuldabréfi sem hann hafði falsað með áritun á nafni X sem sjálfskuldarábyrgðarmanns. Ekki var talið að með brotinu hefði hann rofið skilyrði reynslulausnar sem hann hafði hlotið á 274 dögum vegna eldri dóms þar sem rannsókn lögreglu á brotinu hófst ekki fyrr en að liðnum reynslutíma. Þá hafði ekki fengist viðhlítandi skýring á drætti á meðferð málsins hjá lögreglu. Í ljósi þessa, og þrátt fyrir sakarferil G, þótti mega staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um refsingu, sem var skilorðsbundin að hluta. 

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Hjördís Hákonardóttir og Jón Steinar Gunnlaugsson. 

Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 31. ágúst 2006 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvalds, sem krefst þyngingar á refsingu ákærða.

Ákærði krefst þess aðallega að refsing hans verði milduð, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði staðfestur.

         Ákærða, Gunnari Sverri Arnarsyni, er samkvæmt ákæru gefið að sök að hafa í júní 2001 innt af hendi greiðslu að fjárhæð 1.314.450 krónur með skuldabréfi sem hann hafi falsað með áritun á nafni sjálfskuldarábyrgðarmanns. Ákærði hafði neitað sök við yfirheyrslur lögreglu á þeirri forsendu að hann hefði haft samþykki sjálfskuldarábyrgðarmannsins til nafnritunarinnar. Málið var þingfest 31. maí 2005. Ákærði mætti þá með verjanda og óskaði eftir fresti til þess að taka afstöðu til ákærunnar. Málið var næst tekið fyrir 9. júní 2005. Þá mætti ákærði aftur með verjanda og var þá fært til bókar: „Ákærði játar sakargiftir.“ Var málinu engu að síður frestað til 16. sama mánaðar. Þá mætti verjandi einn og var bókað að farið væri með málið samkvæmt 125. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og því frestað til 21. sama mánaðar og dómur þá kveðinn upp. Í héraðsdómi segir að játning ákærða sé í samræmi við önnur gögn málsins. Játning ákærða fyrir dómi var þó í andstöðu við skýrslur sem hann áður gaf hjá lögreglu. Var rétt að bera þetta sérstaklega undir hann og færa svör hans til bókar. Ákærði mætti fyrir dóm með verjanda og fékk frest til þess að fara yfir sakarefnið og taka afstöðu til ákærunnar. Verður því að ætla að honum hafi verið fullljóst að hann hvarf frá fyrri framburði með játningu sinni, enda hefur hann ekki byggt á því fyrir Hæstarétti að hnekkja beri sakfellingu héraðsdóms.

         Ákærði hlaut reynslulausn á 274 dögum 1. febrúar 2001. Samkvæmt 65. gr. laga nr. 49/2005 um fullnustu refsinga, sem kom í stað 42. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, hefur maður rofið reynslulausn ef hann fremur brot og rannsókn hefst hjá lögreglu gegn honum fyrir lok reynslutíma. Brot það sem hér er til meðferðar var framið í júní 2001 en ekki kært fyrr en 13. maí 2003. Fyrsta skýrsla af ákærða var tekin 23. september 2004. Telst hann samkvæmt þessu hafa staðist skilorð reynslulausar. Tvö ár liðu frá því brotið var kært og þar til ákæra var gefin út. Ekki hefur fengist viðhlítandi skýring á þessum drætti á meðferð málsins. Í ljósi þessa þykir mega staðfesta ákvörðun héraðsdóms um refsingu og skilorðsbindingu hennar að hluta þrátt fyrir sakarferil ákærða.

         Með framangreindum athugasemdum er hinn áfrýjaði dómur staðfestur.

         Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins samkvæmt yfirliti ríkissaksóknara um sakarkostnað og ákvörðun Hæstaréttar um málsvarnarlaun verjanda, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, svo sem nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

         Héraðsdómur skal vera óraskaður.

       Ákærði, Gunnar Sverrir Arnarson, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins 198.323 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 21. júní 2005.

Mál þetta var höfðað með ákæru lögreglustjórans í Reykjavík, dagsettri 12. apríl 2005, á hendur Gunnari Sverri Arnarsyni, kt. 270964-5169, Hlíðarsmára 5, Kópavogi, „fyrir skjalafals með því að hafa, í júní 2001, greitt starfsmönnum fyrirtækisins A hf. [kennitala] [heimilisfang] Reykjavík, með skuldabréfi að fjárhæð 1.314.450 kr., útgefnu af ákærða 7. sama mánaðar, sem ákærði hafði falsað með áritun á nafni X [kennitala] í reit fyrir áritun sjálfsskuldarábyrgðarmanns.

Telst þetta varða við 1. mgr. 155. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.”

Ákærði hefur játað brot sitt fyrir dóminum. Er játning hans í samræmi við önnur gögn málsins og verður hann sakfelldur fyrir brot sitt, en það er í ákæru rétt fært til refsiákvæða. 

Farið var með málið samkvæmt ákvæðum 125. gr. laga nr. 19/1991 og var það tekið til dóms án frekari sönnunarfærslu er sækjanda og verjanda ákærða hafði verið gefinn kostur á að tjá sig um lagaatriði og ákvörðun viðurlaga.

Samkvæmt sakavottorði var ákærði þann 2. desember 1996 dæmdur í 3 ára fangelsi fyrir þjófnað og brot gegn 1. mgr. 106. gr. almennra hegningarlaga. Hann lauk afplánun 21. maí 2000. Þann 7. október 1997 var ákærði dæmdur í 15 mánaða fangelsi fyrir þjófnaðartilraun og nytjastuld og var sá dómur hegningarauki við dóminn frá 1996. Þann 25. febrúar 2000 var ákærði dæmdur í 3 mánaða fangelsi fyrir þjófnað en var veitt reynslulausn 1. febrúar 2001 í tvö ár á eftirstöðvum refsingar vegna framangreindra þriggja dóma 274 dögum. Loks var ákærði dæmdur til greiðslu 50.000 króna sektar fyrir fíkniefnalagabrot þann 20. júní 2003.

Við ákvörðun refsingar ákærða verður litið til greiðrar játningar hans en jafnframt til þess að brot hans beindist að talsverðum hagsmunum. Að þessu virtu verður refsing ákærða ákveðin fangelsi í 6 mánuði en fresta skal fullnustu 3 mánaða af refsivistinni og sá hluti refsingarinnar falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga.

Ákærði skal greiða allan sakarkostnað, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hrl., 50.000 krónur.

Arnfríður Einarsdóttir, settur héraðsdómari, kveður upp dóm þennan.

D ó m s o r ð :

Ákærði, Gunnar Sverrir Arnarson, sæti fangelsi í 6 mánuði en fresta skal fullnustu 3 mánaða af refsivistinni og sá hluti hennar falla niður að liðnum þremur árum frá birtingu dóms þessa, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talda málsvarnarþóknun skipaðs verjanda hans, Sigmundar Hannessonar hrl., 50.000 krónur.