Hæstiréttur íslands

Mál nr. 115/1999


Lykilorð

  • Ómerking
  • Heimvísun
  • Vitni
  • Sératkvæði


                                                         

Fimmtudaginn 20. maí 1999.

Nr. 115/1999.

Ákæruvaldið

(Ragnheiður Harðardóttir saksóknari)

gegn

Kio Alexander Ayobambele Briggs

(Helgi Jóhannesson hrl.)

Ómerking. Heimvísun. Vitnaframburður. Sératkvæði.

K var handtekinn er hann kom til landsins með fíkniefni í farangri sínum. Kvaðst hann ekki vita hvernig efnin hefðu komist í tösku hans. Við aðalmeðferð málsins í héraði kom fram að vitnið G, sem hafði aðstoðað K við för hans til landsins, hafði látið lögreglu vita af komu hans og talið sig gera það í þágu eigin hagsmuna. Héraðsdómur afréð að virða framburð G að vettugi vegna þessara tengsla hans við málið. Talið var að dóminum hefði verið rétt að leggja mat á trúverðugleika og þýðingu framburðar G og taka rökstudda afstöðu til hans. Var málinu því vísað heim í hérað til nýrrar aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju. Var héraðsdómara einnig talið rétt að kveðja tvo meðdómendur til setu í málinu.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Málinu hefur verið skotið til Hæstaréttar með stefnu 15. mars 1999 að ósk ákærða. Einnig er áfrýjað af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst staðfestingar á sakfellingu ákærða og þyngingar á refsingu.

Ákærði krefst þess aðallega, að hinn áfrýjaði dómur og meðferð málsins í héraði verði ómerkt og málinu vísað heim í hérað til löglegrar meðferðar. Til vara krefst hann sýknu af öllum kröfum ákæruvalds, en til þrautavara þess, að refsing verði milduð.

I.

Ákærði var handtekinn á Keflavíkurflugvelli 1. september 1998 við komu til landsins frá Spáni, þegar fíkniefni fundust í farangri hans. Hann var úrskurðaður í gæsluvarðhald 2. sama mánaðar og er enn í haldi vegna málsins, nú samkvæmt úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 15. mars 1999. Rannsókn af hálfu lögreglu og ríkissaksóknara á atvikum að öflun efnanna og flutningi þeirra hingað og fyrirætlunum um ráðstöfun þeirra beindist meðal annars að því,  hvort aðrir en ákærði væru við þetta riðnir, og virðist hún hafa borið takmarkaðan árangur. Ákærði hefur frá öndverðu neitað nokkurri vitneskju um efnin eða atvik að því, að þau komust í tösku hans. Hann var ákærður 17. desember 1998 fyrir brot gegn 173. gr. a almennra hegningarlaga     nr. 19/1940, sbr. 1. gr. laga nr. 64/1974, og talinn hafa flutt efnin hingað til lands andstætt lögum um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974, í ágóðaskyni og vitandi um, að þau væru að verulegu leyti ætluð til sölu hér á landi. Aðrir en hann hafa ekki sætt ákæru vegna málsins.

II.

Í hinum áfrýjaða dómi greinir frá framburði ákærða og vitna í málinu. Meðal þeirra er Guðmundur Ingi Þóroddsson, sem starfað hafði á sama skemmtistað og ákærði í Benidorm og veitti honum gistingu í íbúð sinni þar síðustu næturnar fyrir brottför hans, auk þess sem hann annaðist um útvegun á flugfarseðli fyrir ákærða og láni fyrir fargjaldinu, svo sem um getur í héraðsdómi.

Við aðalmeðferð málsins í héraði 25. janúar 1999 skýrði þetta vitni frá því, að það hefði kvöldið fyrir brottför ákærða frá Spáni hringt í lögreglumann í Reykjavík, sem það þekkti frá fyrri tíð, og boðið fram upplýsingar um flutning á fíkniefnum til Íslands í þeirri von að fá að njóta ívilnunar af hálfu lögreglunnar í eldra máli, sem beinst hefði að því sjálfu. Í framhaldi af því hefði vitnið síðan átt símtal við lögreglumann í rannsóknardeild lögreglunnar í Reykjavík og sagt honum, að ákærði væri á leið til landsins með fíkniefni daginn eftir. Lögreglumenn þessir staðfestu fyrir dóminum, að vitnið hefði sagt þeim frá ferð ákærða og gefið í skyn, að það óskaði eftir einhverju á móti, en af þeirra hálfu hefði því verið tjáð, að loforð um ívilnanir vegna þessarar uppljóstrunar kæmu ekki til greina. Fyrir lá, þegar ákært var í málinu, að lögreglunni hefði borist vísbending um, að fíkniefni kynnu að verða flutt til landsins í þetta sinn, en ekki varð ljóst fyrr en við aðalmeðferðina, að hún væri frá vitninu komin.

Í niðurstöðuþætti hins áfrýjaða dóms er því lýst, að Guðmundur Ingi Þóroddsson hafi ljóstrað upp um ákærða og talið sig gera það í þágu eigin hagsmuna, og verði af þeim sökum ekki byggt á framburði hans í málinu. Þessa ályktun héraðsdómarans og þá reifun á framburði ákærða sjálfs, sem á eftir fer, verður að skilja svo, að dómarinn hafi afráðið að virða framburð þessa vitnis að vettugi og leggja ekki mat á þýðingu hans í sambandi við sakargiftirnar á hendur ákærða, hvort heldur til hags eða óhags honum, heldur dæma um málið á grundvelli þeirra annarra gagna, sem fram væru komin. Ljóst er þó, að framburðurinn lýtur að atvikum, sem máli geta skipt um skýringu á atferli ákærða og þeim verknaði, sem honum er gefinn að sök. Telja verður að því athuguðu, að dómaranum hafi ekki verið rétt að víkja þessum framburði til hliðar, heldur borið að leggja mat á trúverðugleika og þýðingu framburðarins og taka rökstudda afstöðu til hans eftir því mati, hliðstætt öðrum sönnunargögnum, sbr. VII. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Samkvæmt þessu verður að líta svo á, að mál ákærða hafi ekki hlotið rétta meðferð fyrir héraðsdómi að öllu leyti. Verður ekki hjá því komist að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og meðferð málsins frá upphafi aðalmeðferðar fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur og vísa málinu heim í hérað til löglegrar meðferðar og dómsálagningar að nýju, svo sem ákærði hefur krafist. Eru ákvæði 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 þá höfð til hliðsjónar.

Rétt er, eins og málinu er nú komið, að héraðsdómarinn neyti heimildar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/1991 til að kveðja tvo aðra héraðsdómara til setu með sér í dómi við nýja meðferð málsins.

Rétt þykir, að sakarkostnaður í héraði verði ákveðinn að nýju þegar málið er þar aftur tekið til efnisdóms.

Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, að meðtöldum málsvarnarlaunum, sem um er mælt í dómsorði. Til kostnaðarins telst einnig þóknun fyrir dómtúlkun við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur og meðferð málsins í héraði frá og með þinghaldi 25. janúar 1999 eiga að vera ómerk, og er málinu vísað heim í hérað til nýrrar aðalmeðferðar og dómsálagningar.

Allur áfrýjunarkostnaður sakarinnar greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, 100.000 krónur.


           

Sératkvæði

Hrafns Bragasonar

hæstaréttardómara

í hæstaréttarmálinu nr. 115/1999:

Ákæruvaldið

gegn

Kio Alexander Ayobambele Briggs

Í héraðsdómi er frá því skýrt að vitnið Guðmundur Ingi Þóroddsson hafi ljóstrað upp um ákærða við lögreglu hér á landi. Óljóst er hvað honum gekk til þessa, en fram  kom í héraði að hann átti aðild að máli sem ekki var lokið, þótt meðferð þess fyrir lögreglu væri á enda. Héraðsdómari komst að þeirri niðurstöðu að þessa vegna yrði ekkert byggt á framburði Guðmundar Inga í málinu. Skilja verður afstöðu dómarans svo að hann hafi metið framburð vitnisins hlutdrægan og því almennt ótrúverðugan. Fyrir liggur hins vegar að ákærði hafði fíkniefnin í fórum sínum, svo sem vitnið lýsti fyrir lögreglu, eins var framburður þess um kaup á farseðli fyrir ákærða í samræmi við framburð annarra vitna. Hefði héraðsdómara verið rétt að rökstyðja betur og ítarlegar afstöðu sína til framburðar vitnisins. Þessi galli á héraðsdómi á þó ekki einn sér að leiða til ómerkingar dómsins og heimvísunar til nýrrar meðferðar í héraði, þar sem hann verður ekki talinn hafa áhrif á úrslit málsins svo einhverju skipti, sbr. 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 19. gr. laga nr. 37/1994. Ber því að ljúka efnisdómi á málið.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 1999.

Ár 1999, fimmtudaginn 11. mars, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Pétri Guðgeirssyni héraðsdómara, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 2241/1998: Ákæruvaldið gegn Kio Alexander Ayobam­bele Briggs sem tekið var til dóms hinn 24. febrúar s.l. að lokinni aðalmeðferð.

Málið er höfðað með ákæru Ríkissaksóknara, dagsettri 17. desember s.l. á hendur ákærða, Kio Alexander Ayobambele Briggs, fæddum 4. september 1972 í Isling­ton, Bretlandi, “fyrir brot gegn lögum um ávana- og fíkniefni með því að hafa, þriðju­daginn 1. september 1998, í ágóðaskyni flutt hingað til lands frá Alicante 2.031 töflu af MDMA (3.4 metýlendíoxímetamfetamín) sem ákærða var ljóst að voru að verulegu leyti ætlaðar til sölu hér á landi, en efnið fannst í tösku ákærða við komu hans til Keflavíkur. Telst þetta varða við 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 64, 1974. Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar. Þá er þess krafist að framangreind ávana- og fíkniefni, sem lögregla lagði hald á við rannsókn málsins, verði gerð upptæk, samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 og 2. mgr. 10. gr. reglugerðar um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna nr. 16, 1986.”

Málavextir

Þriðjudaginn 1. september sl. kom ákærði með flugvél til Keflavíkurflugvallar frá Alicante á Spáni. Hafði hann með sér farangur í allstórri íþróttatösku sem flutt hafði verið í farangursrými flugvélarinnar. Við tollskoðun fannst í henni pakki sem innihélt 2031 “exstasy”-töflu með efninu metýlendíoxímetamfetamín (MDMA) sem er bannað hér á landi, sbr. reglugerð nr. 16, 1986 um sölu og meðferð ávana- og fíkniefna. Töflurnar reyndust vega 290 – 295 mg hver og í hverri þeirra voru 80 – 81 mg af efninu metýlendíoxímetýlamfetamínklóríð. Eru töflurnar því nokkuð undir meðalstyrkleika, sem talinn er vera um 100 mg. Fyrir liggur að efni þetta er meðal hættulegustu fíkniefna sem í umferð eru. Töflur þessar voru í tveimur plastpökkum sem aftur var pakkað inn í rauðan og hvítan innkaupapoka, einnig úr plasti. Ekki fund­ust fingraför á umbúðunum. Í töskunni var fatnaður og skór, bækur og aðrir per­sónulegir munir. Þar á meðal voru buxur sem ákærði hefur ekki kannast við að eiga og virðast vera of litlar á hann. Í vasa á þeim fundust tveir bréfmiðar með riss­myndum sem talið hefur verið að séu af “komusal” í flugstöðinni á Keflavíkurflug­velli. Ákærði var með nokkra spænska peseta á sér en ekki aðra fjármuni eða greiðslu­kort. Ákærði er breskur ríkisborgari en hefur gefið upp heimilisfang í Madrid.

Ákærði hefur frá upphafi neitað sök og sagt að hann hafi ekki vitað af fíkni­efnunum í íþróttatöskunni. Í skýrslu sem hann gaf hjá lögreglunni í Reykjavík síðar um komudaginn, og hann hefur staðfest fyrir dómi, kvaðst hann hafa búið á Beni­dorm og tilgreindi heimilisfang þar sem reyndist vera heimilisfang tveggja íslenskra manna, sbr. hér á eftir. Kvaðst hann hafa unnið sem öryggisvörður í diskóteki á Benidorm. Kvaðst hann hafa pakkað niður í töskuna í íbúð sinni á Benidorm ásamt vinstúlku sinni tveim dögum áður en hann fór til Íslands. Hann hefði svo skilið töskuna eftir í íbúðinni og brugðið sér frá. Engir aðrir en þau tvö hefðu haft aðgang að íbúðinni. Seinna hefði hann tekið töskuna og farið á strætisvagnastöð þar sem hefði verið fjöldi manns, bæði Íslendingar og Spánverjar. Hann hefði þurft að bregða sér í símann og skilið töskuna eftir á gólfinu meðan hann talaði í símann og gætu það hafa verið tíu mínútur. Þegar hann hefði komið á flugstöðina hefði hann skilið töskuna eftir meðan hann brá sér á salerni. Í bæði skiptin hefði taskan verið eftirlitslaus og ólæst. Hann hefði tekið eftir því í flugstöðinni að búið var að færa töskuna til og að annar farangur hefði verið þar hjá henni. Ákærði kvaðst hafa komið hingað í atvinnuleit og ætlað að reyna fyrir sér í sjómennsku. Hefði hann hitt íslenska sjómenn á Spáni sem hefðu sagt honum að hann gæti unnið sér inn góð laun á sjó. Hann kvaðst ekki þekkja neina Íslendinga persónulega heldur aðeins hitt fólk sem kom til Spánar í frí. Hann kvaðst hafa keypt farseðilinn á ferðaskrifstofu í Benidorm fyrir 40.000 peseta. Hann hefði verið með lítið af peningum á sér en hins vegar með greiðslukort.

Ákærði gaf aðra skýrslu hjá lögreglunni 3. september sl. Yfirheyrslan fylgir málinu á myndbandi sem dómarinn hefur skoðað. Þar kom fram hjá ákærða að hann teldi nú að hann hefði gleymt greiðslukortinu heima hjá sér. Þá skýrði hann frá því að hann hefði kynnst Íslendingi sem kallaður væri Gummi og ræki bar á diskóteki. Hafi Gummi selt sér farseðilinn á 40.000 peseta þar sem hann ætlaði ekki að nota hann. Hefði Gummi látið ferðaskrifstofu sem rekin er í einu hótelinu þarna breyta nafninu á farseðlinum. Gaf ákærði þá skýringu á þessum breytta framburði sínum að lög­gæslumenn hefðu spurt sig fyrir hvern hann væri að vinna og hann óttast að lögreglan teldi að hann hefði verið að flytja efnið fyrir þennan Gumma ef hann hefði sagt að Gummi hefði aðstoðað hann. Þá sagði ákærði að út af þessu með farseðilinn hefði hann dvalið í íbúð Gumma síðustu tvo dagana áður en hann flaug hingað. Hefðu þar verið fleiri Íslendingar, um fimm talsins, sem einnig voru á leið hingað. Þá sagði ákærði efnislega þetta: Ég óska eftir því að skýra frá öllu í sambandi við þetta mál og óska eftir því að samvinna mín verði til þess að ég fái vægari dóm. Ekki svo að skilja að ég telji neinn skuldbundinn til þess að veita mér vægari dóm, heldur geri ég þetta í þeirri von að ég fái vægari dóm. Þá sagði hann frá því að hann hefði heyrt Gumma tala um það að á Íslandi væri margt fólk sem ræki diskótek eða plötuútgáfu og væri alltaf til í að kaupa mikið af pillum. Ef til vill hefði Gummi eða einhver vina hans sett töflurnar í töskuna. Maður að nafni Benni hefði sagt sér að Gummi og vinir hans væru alltaf teknir í leit hjá tollgæslunni þegar þeir kæmu til Íslands. Kvaðst hann telja að Gummi eða einhver þeirra sem í íbúðinni voru hafi laumað þessu í töskuna í þeirri von að ekki yrði leitað hjá honum. Hann kvað mikla fíkniefnaneyslu hafa átt sér stað þarna í íbúð­inni og menn þar verið að tala um að þeir hefðu sent fíkniefni í pósti til Íslands. Ákærða var sýnt ljósrit af miðunum sem fundust í buxnavasa í tösku hans. Hann kvaðst ekki hafa sett þá í töskuna en aftur á móti hefði hann séð Gumma rissa á þá og hefði hann þá verið að tala við kunningja sinn sem farið hefði heim til Íslands daginn eftir. Hefðu þeir talað íslensku og hann ekki skilið hvað þeim fór á milli. Gæti hann ekki sagt hvað þessar teikningar þýddu. Kvaðst hann telja að þeir hefðu sett miðana í töskuna um leið og þeir komu töflunum fyrir í henni. Ákærði var spurður af hverju hann hefði komið hingað félaus og aðeins með léttan klæðnað. Kvaðst hann eins hafa átt von á því að honum líkaði ekki vinnan, yrði sjóveikur og þess háttar. Annars hefði hann ætlað að dveljast hér á landi í 10 mánuði. Auk þess hefði honum skilist það að hér á landi væri sjómönnum útveguð hlífðarföt. Kvaðst hann hafa fengið upplýsingar um aðstæður hér frá íslenskum sjómönnum sem hann hefði hitt á Spáni og álitið að ef hann hefði farið niður á bryggju hefði hann fengið vinnu og þar með peninga. Hann ítrekaði að hann hefði ekki vitað betur en hann væri með kreditkortið meðferðis og ekki hafa komist að því fyrr en eftir handtökuna að svo var ekki. Þá sagðist hann hafa treyst Gumma.

Ákærði gaf enn skýrslu í málinu 10. september og hefur staðfest hana fyrir dómi. Hann var spurður hver stúlkan væri sem hefði hjálpað honum að pakka niður. Hann sagðist ekki mundu skýra frá nafni hennar eftir þá meðferð sem hann hefði fengið hjá lögreglunni. Þá sagðist hann ekki muna heimilisfang sitt á Benidorm. Hann breytti svo framburði sínum um þetta og sagðist ekki vilja gefa upp heim­ilis­fangið þar sem hann óttaðist að lögreglan myndi áreita saklausa vini hans sem hefðu skotið yfir hann skjólshúsi. Hann kvað það heimilisfang sem hann hefði gefið upp vera heimilisfang Gumma þar sem hann hefði búið tvo síðustu dagana fyrir brott­förina. Hann kvaðst vera skráður fyrir greiðslukortinu sem hann hefði verið með en neitaði að svara hvaða fyrirtæki hefði gefið það út. Aðspurður kvaðst hann undanfarin ár hafa starfað við öryggisvörslu, verið útkastari á diskótekum, tekið þátt í að skipu­leggja tónleika, unnið við blaðamennsku og verið atvinnumaður í amerískum fótbolta. Þá skýrði ákærði ítarlegar frá athöfnum sínum síðustu dagana fyrir ferðina hingað til lands. Hann kvaðst hafa ætlað að fara til Íslands og dvelja þar í tíu mánuði. Hann hefði verið að ræða þetta við Gumma og sagt að hann yrði að kaupa farmiða báðar leiðir og sagt að það væri dýrt. Gummi hefði þá boðið sér farmiða sem hann ætti og gilti aðra leiðina og hann þyrfti ekki að nota. Kvaðst ákærði hafa keypt af honum mið­ann daginn áður en hann fór til Íslands. Hefði hann farið með farangur sinn til Gumma að kvöldi 30. ágúst, milli klukkan 10 og 12. Hefði Gummi verið heima og annar Íslendingur til sem hafi verið sofandi. Kvaðst hann hafa farið þaðan á nætur­klúbb og skilið farangurinn eftir. Hefði hann ekki komið aftur heim til Gumma fyrr en um morguninn og þá hefðu verið þar staddir nokkrir Íslendingar sem hann ekki þekkti. Telur hann að einn þeirra eigi buxurnar með miðunum sem fundust í tösku hans við komuna til landsins. Kvaðst hann hafa lagt sig í sófa en farangurinn hefði verið inni í svefn­herbergi. Hann hefði ekki dvalið þarna lengi og farið út til þess að fá sér að borða og þegar hann kom aftur hafi fólk verið þarna ennþá. Vinstúlka hans hefði verið í för með honum og þau farið aftur og hefði hann ekki komið þarna aftur fyrr en um klukkan fimm morguninn eftir og þá tekið töskuna. Hefði kunningi Gumma ekið sér út á flugvöll. Hefði það atvikast þannig að hann hefði ætlað með rútu á flugvöllinn en hitt þennan kunningja fyrir tilviljun á rútustöðinni og beðið hann um að aka sér þangað. Hefði kunninginn einmitt verið á leið út á flugvöll. Hann gat ekki sagt nein deili á þessum manni en taldi að hann væri íslenskur. Hefði hann séð hann á tali við Gumma en ekki séð hann heima hjá honum. Þeir hefðu aðeins verið tveir í bílnum. Eftir að út á flugvöllinn kom hefði hann sest niður, síðan farið á salerni og eftir það farið í síma til þess að hringja. Hann hefði svo skráð sig inn og skilað inn far­angr­inum. Hann kvaðst hafa verið einn á flugvellinum og ekki minnast þess að hafa talað við nokkurn mann þar.

Við meðferð málsins fyrir dómi hefur ákærði haldið fast við það að hann hafi komið hingað til þess að leita sér að vinnu hér á fiskiskipi. Kveðst hann hafa komið að máli við Gumma, framkvæmdastjóra “Íslenska barsins” í diskótekinu þar sem ákærði vann. Hafi Gummi sagt að hann ætti farmiða aðra leiðina til Íslands sem hann ætlaði ekki að nota og boðið sér miðann til kaups og hafi hann keypt miðann. Hann hafi sjálfur gengið frá farangri sínum í íbúð sinni en gist hjá Gumma tvo síðustu dagana fyrir brottförina. Varðandi uppdrættina tvo hefur hann sagt að hann hafi farið niður á strönd til þess að hlaupa og þegar hann hafi komið aftur í íbúðina hafi hann séð Gumma og nokkra kunningja hans sem sátu í kringum borð með miðana hjá sér og voru að tala saman á íslensku. Annað viti hann ekki um þessa uppdrætti. Lögreglan hafi svo sagt að þessi uppdráttur hefði fundist í vasanum á íþróttabuxum í tösku hans en hann eigi ekki þær buxur. Hann kveðst hafa farið upphaflega út á strætisvagna­stöðina til þess að fara út á flugvöll en kunningi hans úr diskótekinu, líklega íslenskur, hafi ekið sér þangað. Kveðst hann ekki þekkja manninn mjög vel.

Ákærði kveðst ekki hafa hitt neinn sem hann þekkti út á flugvelli. Um fararefnin hefur hann sagt að hann hafi talið sig hafa verið með greiðslukort á sér. Lögreglan segi hins vegar að hann hafi ekki verið með neitt greiðslukort. Ákærði kveðst nú ekki eiga þetta greiðslukort sem um ræðir. Hann hefur skýrt frá því - þótt hann taki það fram að það sé alveg hans einkamál - að mjög góð vinkona hans eigi þetta greiðslukort og heimili sér að nota það þegar hann óski þess. Því miður geti hann ekki skýrt frá því hver þessi vinkona sé. Vilji hann það ekki þar sem hann hafi þekkt hana mjög lengi og vilji ekki flækja henni í þetta mál, þar sem hann hafi verið rang­lega ákærður.

Um tilganginn með komu sinni hingað hefur ákærði sagt að margir íslenskir sjómenn sem voru í fríi á Spáni hafi sagt sér að ekki þyrfti annað en fara niður að höfn og spyrja fólk og væri alltaf eða nær alltaf hægt að fá pláss á bátum. Ákærði kveðst hafa orðið var við fíkniefnanotkun hjá Gumma og félögum hans. Helminginn af tím­anum hafi Gummi verið ruglaður af fíkniefnanotkun. Hann segir að taskan hans hafi verið ólæst í íbúðinni meðan hann var fjarverandi og hver sem er getað nálgast hana á meðan.

Guðmundur Ingi Þórodsson, Gummi, hefur skýrt frá því við meðferð málsins fyrir dóminum að hann hafi kynnst ákærða þegar hann var að vinna á diskóteki þar sem vitnið rak bar á Spáni. Muni hann hafa frétt hjá einhverjum strákum að sjómenn hér hefðu góð laun. Hafi hann gist hjá vitninu í um vikutíma áður en hann fór til Íslands. Nokkru áður en ákærði fór til Íslands kveðst hann hafa séð hann pakka niður fyrir þessa ferð, þar á meðal fíkniefnum. Þau hafi verið í tveimur glærum pokum sem hann hafi svo pakkað inn í annan poka, hvítan eða rauðan. Kveðst vitnið hafa vitað að ákærði ætlaði með pakkann hingað til lands. Þeir hafi þó ekki rætt neitt um þetta. Vitnið hefur kannast við að hafa neytt fíkniefna á þessum tíma en segist vera hættur því nú. Að beiðni ákærða og í greiðaskyni kveðst hann hafa keypt fyrir hann flug­miðann og lánað honum fyrir farinu. Hann er ekki viss hvort hann lofaði ákærða að greiða fyrir honum fyrir eða eftir að hann sá hjá honum fíkniefnin. Hafi hann hringt á skrifstofu Plúsferða og pantað flugið. Þeir Sigurður Bragason hafi farið með ákærða í bíl út á flugvöll og minnir hann að hann hafi ekið. Hann hafi keypt miðann af fararstjóra á vellinum. Hann hafi ekki verið með næga peninga fyrir honum og fengið lánað hjá kunningja sínum, Benóný Benónýssyni, og sett vegabréfið sitt í pant fyrir því sem á vantaði. Hafi Benóný tekið út fyrir hann peninga í hraðbanka þarna á vellinum. Hann kveðst einnig hafa reynt að útvega ákærða far frá Keflavíkurflugvelli þegar hingað kæmi með því að hringja í félaga sinn, Gunnar Örn Haraldsson, og biðja hann um að sækja ákærða á völlinn. Gunnar Örn hafi hins vegar ekki getað komið þessu við. Vitnið kannaðist við að hafa rissað uppdrættina af komusal flug­stöðvarinnar í Keflavík á miða fyrir ákærða. Hafi þetta verið á laugardagskvöldi að þeir ákærði sátu tveir að drykkju heima hjá vitninu og hafi ákærði beðið sig að teikna þetta upp þar sem hann væri ókunnugur þar og kveðst hann að ósk ákærða hafa merkt inn á uppdrættina hvar löggæslumennirnir væru.

Vitnið hefur viðurkennt fyrir dóminum að kvöldið áður en ákærði fór til Íslands hafi hann haft samband við Einar Ásbjörnsson lögreglumann, sem hann þekkti, en Einar hefði verið búinn að tala við sig um möguleika á því að semja um gamalt mál ef hann léti hann hafa eitthvert annað mál í staðinn. Hafi Einar hringt í Ásgeir Karlsson sem svo hafi hringt í sig. Kveðst hann hafa sagt lögreglunni til ákærða, að hann væri á leið til landsins með fíkniefni. Hafi þeir sagt að það væri möguleiki á að semja um þetta. Eftir að búið var að handtaka ákærða hafi þeir sagt að það væri of seint að semja um þetta mál en þeir mundu ræða við hann í sambandi við framtíðina.

Lögreglumennirnir hafa staðfest það fyrir dóminum að Guðmundur Ingi hafi sagt til ákærða og viljað fá greiða á móti hjá lögreglunni vegna eldra máls. Þeir segjast hafa sagt honum það strax að slíkt kæmi ekki til mála.

Benoný Benonýsson, Benni, hefur gefið skýrslu fyrir dóminum. Kemur fram hjá honum að hann hafi kynnst Guðmundi Inga á Spáni þegar vitnið var að vinna þar. Ákærða hafi hann svo kynnst fyrir skömmu. Hann hafi spurt marga íslenska stráka sem þarna hafi verið og vitnið þekkti hvort þeir gætu útvegað honum vinnu á Íslandi. Hafi hann svo ekki haft meira af ákærða að segja fyrr en þeir hittust úti á flugvelli að vitnið var á heimleið og ákærði að fara með sömu flugvél. Hann hafi verið þarna með Guð­mundi Inga og þeir verið í vandræðum með að borga farseðilinn. Hafi Guð­mundur Ingi spurt sig hvort hann gæti lánað sér peninga og kveðst hann hafa gengist inn á það og tekið út jafnvirði 12.500 króna og lánað honum. Eftir á hafi þeir ákærði svo spjallað saman. Kveðst hann hafa spurt ákærða hvað hann ætlaði að gera á Íslandi og hann sagst ætla að fara að vinna á fiskiskipi. Fangelsin á Íslandi hafi borist í tal með þeim og kveðst Benóný hafa sagt við hann að ef hann ætlaði að fara að lifa heiðarlegu og góðu lífi á Íslandi ætti hann að gæta sín á því hverja hann umgengist og varað hann við Guðmundi Inga. Hafi þá komið fram hjá honum að hann hefði setið inni einn mánuð í Bretlandi. Kveðst hann hafa sagt við ákærða að fangelsi á Íslandi væri örugglega eins og góðgerðarstofnun miðað við fangelsi úti. Hann hafi þá sagt að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því, því hann ætlaði að fara að lifa heiðarlegu lífi.

Gunnar Örn Haraldsson, kunningi Guðmundar Inga, hefur komið fyrir dóminn og sagt að Guðmundur Ingi Þóroddsson hafi beðið sig um að sækja vin sinn út á flugvöll í Keflavík en hann hafi ekki getað það þar sem hann hafi þurft að fara til tannlæknis. Guðmundur Ingi hafi ekki sagt sér í hvaða erindum maðurinn væri.

Sigurður Bragi Bragason, sem nefndur hefur verið og býr á Spáni, hefur komið fyrir dóm í málinu. Hann hefur skýrt frá því að ákærði hafi fengið að búa hjá þeim Guðmundi Inga í nokkra daga fyrir brottförina til Íslands og kveðst hafa ekið manninum út á flugvöll áður en hann fór til Íslands.

Ragnheiður Karitas Pétursdóttir, fararstjóri fyrir ferðaskrifstofuna Plúsferðir á Benidorm, hefur komið fyrir dóm og skýrt frá því að hún hafi fengið fyrirmæli frá skrifstofu Plúsferða hér á landi um að gefa út farseðil á nafn Alex Briggs og yrði farseðilsins vitjað og greitt fyrir hann á flugvellinum í Alicante daginn eftir. Guðmundur Þóroddsson, sem hún kannaðist við, hafi svo komið til hennar til að sækja þennan farseðil og ætlað að greiða hann en ekki haft næga peninga til þess. Hann hafi getað fengið lánað hjá vinum sínum sem muni hafa farið í hraðbanka. Það hafi þó ekki nægt og vantað 3.000 peseta upp á. Kveðst hún þá hafa tekið vegabréfið hans í pant fyrir þeim.

Niðurstaða.

Eins og áður er komið fram var það Guðmundur Ingi Þóroddsson sem ljóstraði upp um ákærða í því skyni að fá einhverja ívilnun hjá lögreglu eða ákæruvaldi í öðru máli sem hann átti hlut að. Verður ekki byggt á framburði hans í málinu.

Fyrir liggur að ákærði var með 2031 töflu sem innihélt efnið metýlendíoxí-metýlamfetamínklóríð (MDMA) í tösku sinni þegar hann kom til landsins, hinn 1. september sl. Ákærði neitar sök og hefur borið því við að hafa ekki vitað það að töflurnar væru í töskunni og einhver hafi því komið þeim þar fyrir án hans vitneskju. Frásögn ákærða er almennt losaraleg og ekki trúverðug. Þykja eftirtalin atriði m.a. veikja hana mjög: Ákærði hefur verið óstöðugur í skýrslum um það hvar hann dvaldi áður en hann fór til Íslands og hverja hann umgekkst. Hann hefur neitað að skýra frá nafni stúlkunnar sem hann segir hafa hjálpað sér að pakka niður í töskuna og enn fremur neitað að skýra frá heimilisfangi sínu á Benidorm og borið fyrir sig haldlitlar ástæður. Þá hefur hann verið óstöðugur í frásögn sinni um það hvernig hann fékk far­seðilinn í hendur. Frásögn hans um fólk og atvik á flugvellinum í Alicante er í and­stöðu við það sem aðrir hafa borið, þar á meðal eitt óaðfinnanlegt vitni, Ragnheiður Karítas Pétursdóttir fararstjóri. Ákærði hefur sagt óljós og mótsagnakennd deili á manni þeim sem hann telur vera kunningja sinn og ók honum á flugvöllinn í Alicante. Þá hefur frásögn hans um kreditkortið sem hann segist hafa verið með verið óstöðug. Hann hefur og neitað að gefa upplýsingar um kortið og eiganda þess og borið fyrir sig haldlitla ástæðu. Þegar allt þetta er athugað þykir verða að hafna frásögn ákærða og telja að hann hafi vísvitandi og í ágóðaskyni flutt fíkniefnin til landsins til þess að þeim yrði dreift hér á landi. Hefur hann orðið sekur við 173. gr. a í almennum hegningarlögum nr. 19, 1940, sbr. lög nr. 64, 1974.

Refsing, viðurlög og sakarkostnaður.

Ákærði hefur ekki áður gerst sekur um refsivert athæfi. Við ákvörðun refs­ingar hans ber að hafa hliðsjón af því að með brotinu var að því stefnt að koma í dreifingu hér miklu magni af hættulegu vímuefni. Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í 7 ár. Frá refsingunni ber að draga gæsluvarðhaldsvist hans frá 2. september 1998, samtals 190 daga.

Þá ber samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65, 1974 að dæma ákærða til þess að þola upptöku á 2031 töflu af efninu MDMA.

Dæma ber ákærða til þess að greiða allan sakarkostnað, þar með talin sak­sóknar­laun í ríkissjóð, 150.000 krónur, og réttargæslu- og málsvarnarlaun til verjanda síns, Helga Jóhannessonar hrl., 300.000 krónur, sem dæmd eru án virðisaukaskatts.

Mál þetta sótti Ragnheiður Harðardóttir saksóknari.

Dómsorð:

Ákærði, Kio Alexander Ayobambele Briggs, sæti fangelsi í 7 ár. Frá refsing­unni dregst 190 daga gæsluvarðhaldsvist hans.

Ákærði þoli upptöku á 2031 töflu af efninu MDMA.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 150.000 krónur, og réttargæslu- og málsvarnarlaun til verjanda síns, Helga Jóhannes-sonar hrl., 300.000 krónur.

Pétur Guðgeirsson