Hæstiréttur íslands

Mál nr. 413/2016

A (Brynjólfur Eyvindsson hdl.)
gegn
Velferðarsviði Reykjavíkur (Kristbjörg Stephensen hrl.)

Lykilorð

  • Kærumál
  • Lögræði

Reifun

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem A var sviptur sjálfræði í tvö ár.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Benedikt Bogason og Greta Baldursdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 27. maí 2016, en kærumálsgögn bárust réttinum 7. júní sama ár. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2016 þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í tvö ár. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að sviptingunni verði markaður skemmri tími. Í báðum tilvikum krefst hann kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun verjanda sóknaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar héraðsdómslögmanns, 148.800 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

                                                        

                                                             

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 25. maí 2016.

I

Með beiðni, dagsettri 19. maí 2016 og móttekinni sama dag, hefur Velferðarsvið Reykjavíkurborgar krafist þess að A, kt. [...], [...], Reykjavík, verði sviptur sjálfræði tímabundið í tvö ár á grundvelli a- og b-liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Um aðild sóknaraðila er vísað til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.

Varnaraðili krefst þess aðallega að kröfunni verði hafnað, en til vara að sjálfræðissviptingu verði markaður skemmri tími. Þá er og gerð krafa um að skipuðum verjanda varnaraðila verði ákveðin hæfileg þóknun úr ríkissjóði með vísan til 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997.

Málið var þingfest 24. maí sl. og tekið til úrskurðar sama dag.

II

Í beiðni sóknaraðila kemur fram að varnaraðili sé þrítugur, einhleypur og barnlaus. Hann sé öryrki vegna geðræns vanda og búi nú í íbúð á vegum sóknaraðila að [...]. Hann hafi hafið neyslu áfengis 12 ára að aldri, en fljótlega eftir það leiðst út í neyslu annarra fíkniefna. Eigi hann að baki fjölmargar innlagnir á deildir geðsviðs á Landspítalanum og sé hann greindur misþroska, með andfélagslega persónuleikaröskun og geðhvarfasjúkdóm. Hafi hann endurtekið farið í geðrof og var inniliggjandi á öryggisgeðdeild á Kleppi eftir að hafa stungið föður sinn með hnífi í brjóstið árið 2005. Í kjölfarið hafi hann verið metinn ósakhæfur og dvalið á réttargeðdeild að Sogni um tæplega þriggja ára skeið. Í júlí 2015 hafi hann lokið afplánun. Frá útskrift frá Sogni árið 2008 hafi hann verið í eftirliti á göngudeild réttargeðdeildar, en endurtekið verið lagður inn á geðdeild frá árinu 2011, fyrst og fremst vegna neyslutengdra einkenna. Eftir að afplánun lauk árið 2015 hafi hann áfram verið í göngudeildareftirliti, en mætt verr og verr til eftirlits. Um haustið hafi svo vaknað grunur um vaxandi fíkniefnaneyslu. Þá er frá því greint að varnaraðili hafi ítrekað lent í átökum við foreldra sína og hafi hann m.a. ráðist á föður sinn í mars sl. með þeim afleiðingum að faðirinn hafi þurft að leita á slysadeild vegna áverka. Oft hafi lögregla verið kölluð til vegna hegðunar varnaraðila, en sem stendur búi hann hann hjá foreldrum sínum.

Fram kemur einnig í beiðni sóknaraðili að varnaraðili hafi 26. apríl sl. komið í fylgd föður síns á bráðamóttöku geðsviðs vegna vaxandi geðrofseinkenna og mikillar vanvirkni. Vegna hegðunar hans, mikillar aðsóknarkenndar og skorts á innsæi hafi verið talið óhjákvæmilegt að nauðungarvista hann í 72 klukkustundir. Í kjölfarið hafi sóknaraðili staðið að nauðungarvistun hans í 21 dag, og hafi sýslumaður samþykkt þá beiðni 2. maí sl. Eftir það hafi hafist forðalyfjameðferð, en í tvígang hafi þurft að kalla til varnarteymi og nauðungarsprauta varnaraðila með skammverkandi geðrofslyfjum. Tekið er loks fram að undanfarna daga hafi varnaraðili verið í hægum bata, en hann sé þó algjörlega innsæislaus og afneiti geðrænum vanda sínum og sjái engan tilgang með lyfjameðferð. Hann hafi að auki neitað því að að eiga við neysluvanda að etja. Sótt hafi verið um flutning hans á öryggisgeðdeild til frekari meðferðar.

Með beiðni sóknaraðila fylgdi læknisvottorð B geðlæknis, dagsett 18. maí sl. Í vottorðinu segir læknirinn að varnaraðili eigi að baki fjölmargar innlagnir á deildir geðsviðs. Árið 2004 hafi hann verið greindur misþroska og með andfélagslega persónuleikaröskun. Einnig sé hann greindur með geðhvarfasjúkdóm, en sterk ættarsaga sé um slíkan sjúkdóm í fjölskyldu hans. Hafi hann endurtekið farið í geðrof, en ekki sé staðfest hvort um neyslutengt geðrof sé að ræða eða hvort geðhvarfasjúkdómur hans liggi þar að baki.  Í niðurstöðu vottorðsins segir eftirfarandi: „Þrítugur karlmaður með langa sögu um neysluvanda, andfélagslega persónuleikaröskun og geðhvarfasjúkdóm. Á að baki lengri dóm vegna alvarlegs ofbeldis gagnvart föður sínum og hefur hann legið endurtekið á réttargeðdeild frá 2005. Verið undir eftirliti á göngudeild réttargeðdeildar eftir rýmkun á dómi 2008, en eftir að dómurinn féll endanlega úr gildi sumarið 2015 hefur aftur farið að síga á ógæfuhliðina hjá A með vaxandi neyslu og samhliða því versnandi geðhag og auknu ofbeldi. A hefur undanfarna mánuði endurtekið þurft að leggjast inn á geðdeild vegna þunglyndis og geðrofseinkenna. Hann hefur eftir að dómur féll úr gildi ekki viljað þiggja forðalyf og síðustu mánuði ekki viljað þiggja töflumeðferð heldur. A er nú enn á ný inniliggjandi með geðrofseinkenni og ekki fær um að sjá um sig sjálfur. Hann er innsæislaus í eigin vanda og í þörf fyrir lyfjameðferð. Það er enginn vafi á að A er haldinn alvarlegum geðsjúkdómi og þarf nú tryggari meðferðarramma á ný með betra eftirliti og lyfjameðferð. Án meðferðar spillir hann heilsu sinni og annarra í voða og spillir möguleikum sínum á bata. Ég styð og mæli með beiðni um sjálfræðissviptingu í 24 mánuði.“

Við aðalmeðferð málsins gaf áðurnefndur geðlæknir skýrslu um síma. Hún staðfesti framlagt vottorð sitt og svaraði spurningum um efni þess. 

Varnaraðili kom ekki sjálfur fyrir dóminn, en bókað var eftir verjanda hans að hann teldi ekki þörf á að gefa þar skýrslu. Tók verjandi fram að varnaraðili teldi sig ekki veikan, en viðurkenndi að hann hefði átt við fíknivanda að glíma, sem hann hefði nú náð tökum á. Þá mótmælti hann því að hann væri innsæislaus og benti á að hann hefði nú sjálfviljugur komið á geðdeild og væri að ná bata. 

III

Með framangreindu vottorði geðlæknisins B og vætti hennar fyrir dómi þykir sýnt að varnaraðili sé haldinn geðhvarfasjúkdómi og eigi að auki langa sögu um neyslu fíkniefna. Hefur hann af þeim sökum ítrekað verið lagður inn á geðdeild til lengri eða skemmri tíma. Einnig hefur borið á ofbeldishegðun hjá honum og innsæisleysi í þann vanda sem hann glímir við. Í því ljósi verður að fallast á að uppfyllt séu skilyrði a- og b-liðar 4. gr. og 1. mgr. 5. gr. lögræðislaga nr. 71/1997 til þess að verða við kröfu sóknaraðila um að varnaraðili verði sviptur sjálfræði tímabundið í tvö ár. Með vísan til sjúkrasögu varnaraðila, fyrri innlagna og fyrirliggjandi læknisvottorðs eru ekki rök til að marka sjálfræðissviptingu hans skemmri tíma en krafist er.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. laga nr. 71/1997 ber að greiða úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., sem þykir hæfilega ákveðin 124.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti.

Ingimundur Einarsson dómstjóri kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, A, kt. [...] er sviptur sjálfræði tímabundið í tvö ár.

Úr ríkissjóði greiðist þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Brynjólfs Eyvindssonar hdl., 124.000 krónur.