Hæstiréttur íslands

Mál nr. 184/2015


Lykilorð

  • Víxill


                                     

Fimmtudaginn 17. september 2015.

Nr. 184/2015.

Ari Axel Jónsson og

Hólmfríður G. Þorleifsdóttir

(Stefán Geir Þórisson hrl.)

gegn

Íslandsbanka hf.

(Stefán BJ. Gunnlaugsson hrl.)

Víxill.

Í hf. höfðaði mál til heimtu skuldar samkvæmt víxli sem afhentur var til tryggingar greiðslu yfirdráttar á reikningi D ehf., en A og H voru ábekingar á víxlinum. Ekki var fallist á með A og H að Í hf. væri ekki réttur eigandi víxilsins og að bankinn hefði af ásettu ráði bakað þeim tjón eða brotið gegn ákvæðum innheimtulaga nr. 95/2008. Var þeim gert að greiða Í hf. umkrafða fjárhæð.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Þorgeir Örlygsson. 

Áfrýjendur skutu málinu til Hæstaréttar 9. mars 2015. Þau krefjast þess aðallega að málinu verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að þau verði sýknuð af kröfu stefnda. Í báðum tilvikum krefjast þau málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Áfrýjendur hafa engin haldbær rök fært fyrir aðalkröfu sinni um að málinu verði vísað frá héraðsdómi.

Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur.

Áfrýjendum verður gert að greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjendur, Ari Axel Jónsson og Hólmfríður G. Þorleifsdóttir, greiði stefnda, Íslandsbanka hf., 500.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Héraðsdóms Norðurlands eystra 9. desember 2014.

Mál þetta, sem dómtekið var að lokinni aðalmeðferð þriðjudaginn 11. nóvember, er höfðað 24. apríl 2012 af Íslandsbanka hf., kt. [...], Kirkjusandi 2, Reykjavík, á hendur Ara Axel Jónssyni, kt. [...], Hindarlundi 9, Akureyri, Hólmfríði G. Þorleifsdóttur, kt. [...], Hindarlandi 9, Akureyri og Dregg-Shipping ehf., kt. [...], Oddeyrartanga Akureyri.

Stefnandi krefst þess að stefndu verði gert að greiða in solidum 18.055.493 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. september 2011 til greiðsludags. Þá krefst stefnandi málskostnaðar.

Stefndu Ari Axel og Hólmfríður krefjast sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda. Aðalkröfu þeirra um frávísun málsins var hafnað með úrskurði. Dregg-Shipping ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 7. maí 2012. Þrotabúið hélt ekki uppi vörnum í málinu.

Málavextir

Stefnandi höfðar málið til heimtu skuldar samkvæmt víxli að fjárhæð tuttugu milljónir króna. Útgefandi víxilsins er stefndi Ari Axel en greiðandi stefnda Dregg Shipping ehf. Víxillinn er ábektur af stefndu Hólmfríði. Á víxilinn er skráður útgáfudagurinn 7. september 2011 og gjalddaginn 9. september 2011. Prentað er á víxilinn að hann skuli greiðast í Sparisjóði Norðlendinga, Akureyri.

Með víxlinum er skjal, nefnt „yfirlýsing og umboð til útfyllingar víxileyðublaðs vegna skuldar eða yfirdráttar á tékkareikningi / kreditkorti / ábyrgðar“, dagsett 10. september 2007, og veita þar öll stefndu Sparisjóði Norðlendinga umboð til að fylla víxilinn út hvað varðar útgáfudag, upphæð og gjalddaga og innheimta hann sem víxilskuld.

Með tilkynningu dagsettri og birtri fyrir stefndu hinn 9. september 2011, tilkynnti Byr hf. þeim að gjalddagi víxilsins hefði verið ákveðinn 9. september 2011. Víxillinn yrði sýndur þann dag og næstu tvo virka daga í afgreiðslu Byrjar, Skipagötu 9, Akureyri, á afgreiðslutíma.

Með auglýsingu, birtri í Lögbirtingablaði 28. marz 2008 tilkynnti fjármálaeftirlitið að það hefði veitt samþykki fyrir samruna Sparisjóðs Norðlendinga við Byr sparisjóð. Frá og með 1. júlí 2007 tæki Byr sparisjóður við öllum réttindum og skyldum Sparisjóðs Norðlendinga.

Með auglýsingu, birtri í Lögbirtingablaði 30. apríl 2010, tilkynnti fjármálaeftirlitið að það hefði ákveðið að taka yfir vald stofnfjáreigendafundar Byrjar sparisjóðs og víkja stjórn frá í heild sinni. Jafnframt hefði fjármálaeftirlitið meðal annars ákveðið að öllum eignum Byrjar sparisjóðs yrði þegar í stað ráðstafað til Byrjar hf., og tæki Byr hf. við öllum tryggingaréttindum Byrjar sparisjóðs.

Með auglýsingu, birtri í Lögbirtingablaði 1. desember 2011, tilkynnti fjármálaeftirlitið að það hefði veitt samþykki sitt fyrir samruna Byrjar hf. og stefnanda. Skyldi stefnandi taka við öllum réttindum og skyldum Byrjar hf. frá 30. júní 2011.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi segist innheimta skuld samkvæmt víxli sem gefinn hafi verið út hinn 7. september 2011 af stefnda Ara Axel að fjárhæð tuttugu milljónir króna, samþykktur til greiðslu í „Íslandsbanka (áður BYR)“ af stefnda Dregg-shipping ehf., ábektur af útgefanda og stefndu Hólmfríði án afsagnar. Víxillinn hafi verið afhentur stefnanda til tryggingar greiðslu yfirdráttar á reikningi Dregg-Shipping ehf. nr. 1145-26-6603 í „Íslandsbanka (áður BYR)“. Víxilskjalið hafi verið útfyllt hvað varði útgáfudag og gjalddaga. Viðfest víxlinum hafi verið umboð til handa stefnanda að ljúka útfyllingu skjalsins og gera það að formgiltum víxli ef á ábyrgð víxilskuldara reyndi. Aðrar takmarkanir hafi ekki verið gerðar á útfyllingarheimild stefnanda. Stefnandi hafi fært á víxilinn útgáfudaginn 7. september 2011 og gjalddagann 9. september 2011. Skuldin sem tryggð hafi verið með víxlinum hafi numið stefnufjárhæð á gjalddaga víxilsins. Þar sem krafan hafi ekki verið greidd þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir hafi málshöfðun verið nauðsynleg. Stefnandi kveðst byggja dómkröfur sínar á lögum nr. 93/1933, einkum 7. kafla. Vaxtakrafa sé studd við III. kafla laga nr. 38/2001, sbr. 10. og 12. gr. Krafa um málskostnað sé studd við 1. mgr. 130. gr. sbr. 129. gr. laga nr. 91/1991 og vegna réttarfars sé vísað til XVII. kafla sömu laga. Krafa um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun sé reist á lögum nr. 50/1988 en stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur.

Málástæður og lagarök stefndu Ara Axels og Hólmfríðar

Stefndu segjast mótmæla dómkröfum, öllum málsástæðum og lagarökum stefnanda og telja engin þeirra eigi að leiða til þess að dómkröfur hans verði teknar til greina. Stefndu segjast í fyrsta lagi byggja á því að rangur aðili hafi höfðað málið sbr. a-lið 1. mgr. 118. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91, 1991 sem leiði til sýknu sbr. 2. mgr. 16. gr. sömu laga. Íslandsbanki hf. höfði málið vegna Byrjar útibús 1145, hins hafi víxilumboð stefndu verið gefið út til Sparisjóðs Norðlendinga. Segja stefndu því byggja aðallega á því að sýkna beri þau vegna aðildarskorts stefnanda, hvergi sé útskýrt í stefnu hvernig aðild stefnanda að málinu sé komin til og beri því að sýkna stefndu. Stefndu segjast byggja á því að meintar heimildir stefnanda til málshöfðunar á grundvelli víxilsins sem lagður sé fram í málinu brjóti hvað sem öðru líði í bága við II. kapítula víxillaga nr. 93, 1933 um framsal víxla. Málatilbúnaður stefnanda sé hins vegar svo vanreifaður að stefndu sé ókleift að fjalla um þessa málsástæðu sína að nokkurri nákvæmni, þar á meðal það hvaða ákvæði kapítulans eigi við um framsal víxilsins en stefndu vísi til II. kapítula laganna hvað þetta varði og áskilji sér rétt til að fjalla um þessar varnir síðar. Stefndu segja í greinargerð sinni að þau áskilji sér rétt til þess á síðari stigum málsins að vísa til hvaða ákvæðis víxillaga sem sé, kröfum sínum til stuðnings, enda gefi vanreifaður málatilbúnaður stefnanda efni til að hafa uppi slíkan áskilnað þar sem stefndu sé, vegna vanreifunarinnar, í raun ókleift að verjast á grundvelli laganna. Vel geti komið til álita að beita til að mynda VI. og XI. kapítula víxillaga til varnar gegn meintum kröfum stefnanda ef fyrir liggi hvernig heimildum hans til innheimtunnar sé háttað. Engir aðrir kostir séu af hálfu stefndu en að hafa þennan áskilnað uppi til að verjast í málinu á síðari stigum.

Þá segjast stefndu byggja á því að persónuleg ábyrgð þeirra sé löngu niður fallin með beinni vísan til þess sem fram komi og yfirlýsingu og umboði til útfyllingar víxileyðublaðs sem þau hafi ritað undir. Þar segi orðrétt „Ábyrgð á skuldum einstaklinga gildir í 4 ár frá og með undirritun þessarar yfirlýsingar.“ Yfirlýsingin hafi verið undirrituð á Akureyri hinn 10. september 2007 og sé því mun lengri tími en fjögur ár liðin frá undirritun yfirlýsingarinnar. Á grundvelli þessa skýra samningsákvæðis beri að sýkna stefndu.

Þá segjast stefndu reisa sýknukröfu sína á því að á sama skjali segi orðrétt „Við undirritaðir, greiðandi, útgefandi og ábekingar, staðfestum einnig að hafa kynnt okkur efni upplýsingabæklings bankans um sjálfskuldarábyrgð og greiðslumat í samræmi við „samkomulag um notkun ábyrgð á skuldum einstaklinga“ sem Sparisjóður Norðlendinga er aðili að.“ Tilgangurinn með þessum texta geti ekki verið annar en að hið tilgreinda samkomulag sé hluti af samningssambandi og Sparisjóðs Norðlendinga. Í samkomulaginu segi m.a. orðrétt í 2. gr.: „Aðilar að samkomulagi þessu eru sammála um gildi þeirrar stefnu að draga úr vægi ábyrgða einstaklinga og að lánveitingar verði miðaðar við greiðslugetu greiðenda og eigin tryggingar hans. Með samkomulaginu eru settar meginreglur til verndar ábyrgðarmönnum í þeim tilvikum er skuldaábyrgð eða veð í eigu annars einstaklings eru sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu. Samkomulag þetta tekur til allra skuldaábyrgða þ.e. sjálfskuldarábyrgða og einfaldra ábyrgða, af skuldabréfalánum, víxlum og öðrum skuldaskjölum, á yfirdráttarheimildum á tékkareikningum og..... Samkomulagið gildir óháð því hvort til ábyrgðar er stofnað með áritun á skuldabréf, víxil eða annað skuldaskjal eða við útgáfu sérstakrar ábyrgðaryfirlýsingar.“ Þá segi í 3. gr. samkomulagsins „Sé skuldaábyrgð eða veð sett til tryggingar fjárhagslegri skuldbindingu ber fjármálafyrirtæki að meta greiðslugetu greiðanda, nema ábyrgðarmaður óski sérstaklega eftir því með skriflegum hætti að svo verði ekki gert... Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. er fjármálafyrirtæki skylt að greiðslumeta skuldara þegar ábyrgð ábyrgðarmanns á skuldum viðkomandi skuldara nemur meira en krónum 1.000.000.“ Í 4. gr. segi enn fremur: „Tryggt skal að ábyrgðarmaður geti kynnt sér niðurstöðu greiðslumats áður en hann gengst í ábyrgðina, enda liggi fyrir að greiðandi hafi samþykkt það. Ef niðurstaða greiðslumats bendir til að greiðandi geti ekki efnt skuldbindingar sínar en ábyrgðarmaður óskar eftir að lán verði veitt engu að síður skal hann staðfesta það skriflega.“ Þá sé kveðið á um eftirfarandi í 5. gr. samkomulagsins: „Fjármálafyrirtæki ber að tilkynna ábyrgðarmanni um vanskil sem verða á fjárhagslegri skuldbindingu sem hann er í ábyrgð fyrir. Stefnt skal að því að slík tilkynning sé send innan 30 daga frá greiðslufalli skuldara. Fjármálafyrirtæki breytir ekki skilmálum láns eða annarra fjárhagslegra skuldbindingar sem tryggð er með skuldaábyrgð eða veði nema með samþykki ábyrgðarmanns...... Fjármálafyrirtæki skal um hver áramót tilkynna ábyrgðarmanni skriflega um hvaða kröfum hann er í ábyrgðum fyrir, hverjar eftirstöðvar þeirra eru, hvort að þær eru í vanskilum og hversu mikil vanskil eru ef um þau er að ræða.“ Stefndu segja að samkomulagið gildi þannig ótvírætt um þá skuldbindingu sem stefnandi haldi fram að til staðar sé á hendur stefndu á grundvelli áðurnefndrar yfirlýsingar og umboðs. Hvorki stefnandi né Sparisjóður Norðlendinga hafi uppfyllt neinar af ofangreindum skyldum gagnvart stefndu. Þannig hafi aldrei neitt greiðslumat verið framkvæmt að neinu tagi og stefndu hafi aldrei óskað eftir því að greiðslumat yrði ekki framkvæmt. Hvorki hafi verið framkvæmt greiðslumat á einkahlutafélaginu Dregg-Shipping ehf., Ara né Hólmfríði. Þá hafi tilkynningar af því tagi sem getið er í 5. gr. ekki verið sendar stefndu enda hefðu þau kallað á viðbrögð af hálfu stefndu þegar í stað ef þeim hefðu borist slíkar tilkynningar. Með vísan til þessa beri að sýkna stefndu. Segja stefndu einnig vísa til þeirra sjónarmiða sem fram komi í dómi Héraðsdóms Reykjaness í máli nr. E-913/2011 frá 23. febrúar 2012 en atvik þess máls og þess sem hér sé til meðferðar séu eðlislík um það sem að máli skipti.

Stefndu segjast mótmæla vaxtakröfum stefnanda og telji ekki heimilt að ákveða vexti frá fyrra tímamarki en dómsuppsögu ef að til komi.

Stefndu segjast byggja á því að heimilt sé að koma framangreindum vörnum að m.a. með vísan til 2. mgr. 118. gr. laga nr. 91, 1991. Stefndu segjast vísa til reglna samninga og kröfuréttar kröfum sínum til stuðnings. Þá vísi þau til 118. gr. laga nr. 91, 1991og styðji kröfur um málskostnað við ákvæði XXI. kafla sömu laga, einkum 130. gr. laganna.

Niðurstaða

Stefnandi höfðar mál þetta til heimtu skuldar samkvæmt víxli. Víxill sá sem málið varðar er að formi til fullgildur víxill samkvæmt lögum nr. 93/1933. Um málið gilda réttarfarsreglur XVII. kafla laga nr. 91/1991.

Ekki hefur verið mótmælt þeirri staðhæfingu stefnanda að víxillinn hafi verið afhentur til tryggingar greiðslu yfirdráttar á reikningi stefnda Dregg-Shipping ehf. Verður miðað við það.

Eins og rakið var hafa eignir og skuldir Sparisjóðs Norðlendinga færzt til stefnanda, með viðkomu í Byr sparisjóði og Byr hf. Hefur ekkert komið fram sem veldur vafa um að stefnandi sé nú réttur eigandi þeirra krafna sem hann byggir á. Í stefnu er aðild málsins, í ljósi þessara aðilaskipta að kröfunni, ekki reifuð sérstaklega. Úr því var bætt undir rekstri málsins og verður, meðal annars í ljósi dóms Hæstaréttar Íslands í máli nr. 46/2012, talið að það hafi stefnanda verið unnt. Stefndu Ari Axel og Hólmfríður hafa ekki, eftir að stefnandi lagði fram gögn um aðilaskiptin, reifað frekar þá málsástæðu að heimildir stefnanda til málshöfðunar brjóti í bága við ákvæði II. kapítula víxillaga og ekki heldur fært fram rök fyrir því að ákvæði VI. eða XI. kapítula veiti þeim vörn gegn kröfum stefnanda. Voru af hálfu þessara stefndu ekki hafðar uppi neinar nýjar varnir eftir að stefnandi lagði fram gögn um aðilaskiptin.

Stefndu Ari Axel og Hólmfríður vísa í greinargerð sinni til tiltekins héraðsdóms máli sínu til stuðnings, en atvik þar hafi verið eðlislík þeim sem hér séu. Í því máli var einkahlutafélagi og tveimur sjálfskuldarábyrgðarmönnum þess stefnt til greiðslu skuldar, og voru ábyrgðarmennirnir sýknaðir í héraði. Þeim héraðsdómi var áfrýjað til Hæstaréttar Íslands sem í dómi sínum í máli nr. 161/2012 tók ekki afstöðu til þeirra málsástæðna sem lutu að ætluðum skyldum fjármálastofnunar vegna samkomulags á notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga, en sýknaði ábyrgðarmennina af öðrum ástæðum. Þykir umræddur dómur ekki hafa fordæmisgildi í þessu máli.

Eins og áður segir er málið rekið samkvæmt réttarfarsreglum XVII. kafla laga nr. 91/1991. Komast ekki aðrar varnir að en greinir í 118. gr. laganna. Málsástæður þess efnis að sú ábyrgð sem víxlinum hafi verið ætlað að tryggja sé niður fallin og að ábyrgðin sé ekki gild þar sem ekki hafi verið fylgt ákvæðum samkomulags um notkun ábyrgða á skuldum einstaklinga komast ekki að í víxilmáli gegn andmælum stefnanda.

Andmæli stefndu við vaxtakröfu stefnanda eru engum lagarökum studd.

Með vísan til framanritaðs hafa ekki komið fram neinar varnir af hálfu stefndu sem koma í veg fyrir að stefnukrafa verði tekin til greina og verður það gert svo sem í dómsorði segir.

Þegar á allt er horft verður stefndu Ara Axel og Hólmfríði gert að greiða stefnanda í sameiningu 376.500 krónur í málskostnað en við ákvörðun hans er meðal annars horft til þess að annað víxilmál er rekið milli sömu aðila. Þá hefur verið litið til skyldu stefnanda til að greiða virðisaukaskatt af málflutningsþóknun. Dregg-Shipping ehf. verður gert að greiða hluta málskostnaðarins in solidum með þeim stefndu Ara Axel og Hólmfríði eins og nánar segir í dómsorði.

Af hálfu stefnanda fór Stefán Bj. Gunnlaugsson hrl. með málið. Stefán Geir Þórisson hrl. fór með málið af hálfu stefndu Ara Axels og Hólmfríðar framan af, en þau gættu sjálf hagsmuna sinna við aðalmeðferð málsins.

Þorsteinn Davíðsson kveður upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð

Stefndu, Ari Axel Jónsson, Hólmfríður G. Þorleifsdóttir og Dregg-Shipping ehf., greiði stefnanda, Íslandsbanka hf., in solidum 18.055.493 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 9. september 2011 til greiðsludags.

Stefndu Ari Axel og Hólmfríður greiði stefnanda in solidum 376.500 krónur í málskostnað. Þar af greiði Dregg-Shipping ehf. in solidum með þeim 62.750 krónur.