Hæstiréttur íslands
Mál nr. 20/1999
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Föstudaginn 15. janúar 1999. |
|
Nr. 20/1999. |
Sýslumaðurinn í Hafnarfirði (Ólafur Kr. Hjörleifsson fulltrúi) gegn X (Brynjar Níelsson hrl.)
|
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Staðfest niðurstaða héraðsdóms um að framlengja um átta vikur gæsluvarðhaldsvist M á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. janúar 1999, sem barst réttinum samdægurs ásamt kærumálsgögnum. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. janúar 1999, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 12. mars nk. kl. 16. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði felldur úr gildi.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 15. janúar 1999.
Ár 1999, föstudaginn 15. janúar, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjaness, sem háð er í Dómhúsinu að Brekkugötu 2, Hafnarfirði, af Jónasi Jóhannssyni héraðsdómara kveðinn upp úrskurður í málinu nr. R-1/1999: Lögreglustjórinn í Hafnarfirði gegn X.
Lögreglustjórinn í Hafnarfirði hefur krafist þess, að X, gæsluvarðhaldsfanga, kt. ..., verði með dómsúrskurði gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þar til dómur gengur í máli Héraðsdóms Reykjaness nr. S-53/1999 á hendur honum, þó ekki lengur en til föstudagsins 12. mars nk. kl. 16:00.
Kærði hefur mótmælt kröfunni.
Í dag kl. 16.oo rennur út gæsluvarðhald, sem kærða var gert að sæta með dómi Hæstaréttar uppkveðnum 8. desember 1998 í máli réttarins nr. 475/1998. Dómur Hæstaréttar byggir á c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, þ.e. að ætla megi að kærði muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið. Í dag var þingfest í Héraðsdómi Reykjaness ákæra á hendur kærða (mál nr. S-53/1999) en þar er kærða gefið að sök ellefu þjófnaðarbrot framin á tímabilinu frá júní til 25. nóvember 1998. Ljóst er að verði kærði sakfelldur telst vera um rof á reynslulausn að ræða á eftirstöðvum refsingar 172 dögum og mun koma til óskilorðsbundins fangelsisdóms.
Kærði er síbrotamaður, sem á að baki þó nokkurn sakaferil. Hefur þar sigið mjög á ógæfuhliðina síðustu 17-18 mánuði. Hann er heimilislaus og hefur ekki stundað launaða atvinnu undanfarna mánuði. Kærði hefur um langan tíma verið háður amfetamíni, en kveðst nú vera búinn að vinna bug á þeirri fíkn.
Það er álit dómsins, að þrátt fyrir góðan ásetning kærða til að snúa við blaðinu vegi þyngra þeir almannahagsmunir að ljúka meðferð þeirra mála, sem óafgreidd eru hjá lögreglu og dómstólum og að kærði sæti áfram gæsluvarðhaldi á meðan dómur gengur í máli því sem þingfest var í dag. Samrýmist það c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991, en tímalengd gæsluvarðhalds er innan þeirra marka, sem hóflegt getur talist samkvæmt niðurlagsákvæði 3. mgr. 67. gr. stjórnarskrár lýðveldisins Íslands nr. 33/1944. Verður því fallist á kröfugerð lögreglustjóra, eins og hún er sett fram.
Úrskurðarorð:
Kærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli Héraðsdóms Reykjaness nr. S-53/1999, þó ekki lengur en til föstudagsins 12. mars 1999 kl. 16:00.