Hæstiréttur íslands

Mál nr. 478/2007


Lykilorð

  • Kærumál
  • Dómkvaðning matsmanns
  • Yfirmat


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. október 2007.

Nr. 478/2007.

Ker hf.

(Kristinn Hallgrímsson hrl.)

Olíuverslun Íslands hf. og

(Gísli Baldur Garðarsson hrl.)

Skeljungur hf.

(Hörður Felix Harðarson hrl.)

gegn

Samkeppniseftirlitinu og

íslenska ríkinu

(Heimir Örn Herbertsson hrl.)

 

Kærumál. Dómkvaðning matsmanna. Yfirmat.

Í máli K, O og S hf. á hendur S og Í var þess aðallega krafist að felldur yrði úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 3/2004 vegna ætlaðs ólögmæts samráðs olíufélaganna. Við meðferð málsins kröfðust S og Í dómkvaðningar matsmanna og yfirmatsmanna. K, O og S hf. kröfðust þess aðallega að matsbeiðnunum yrði hafnað þar sem þær brytu í bága við meginreglur einkamálaréttafars um munnlegan málflutning  og væru auk þess óljósar og leiðandi. Á grundvelli 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 eiga S og Í rétt á að afla og leggja fram í einkamáli þau sönnunargögn sem þeir telja málstað sínum til framdráttar. Eina áskilnaðinn um form og efni matsbeiðna er að finna í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, sbr. þó 64. gr sömu laga. Þótt fyrirliggjandi beiðnir væru í löngu máli voru þær  nægilega skýrlega settar fram og uppfylltu kröfur 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Til vara kröfðust K og S hf. þess að farið yrði með beiðni varnaraðila um dómkvaðningu yfirmatsmanna sem beiðni um undirmat þar sem í yfirmatsbeiðninni kæmu fram spurningar sem ekki hefðu verið teknar til mats í undirmati. K, O og S hf. þóttu ekki hafa sýnt fram á að í yfirmatsbeiðninni hefði verið krafist mats á öðrum atriðum en þeim sem þegar höfðu verið metin í undirmatsgerðinni. Var úrskurður héraðsdóms því staðfestur og fallist á umbeðnar dómkvaðningar.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hjördís Hákonardóttir og Páll Hreinsson.

Sóknaraðilinn Ker hf. skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 7. september 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Sóknaraðilinn Olíuverslun Íslands hf. skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 13. september 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Sóknaraðilinn Skeljungur hf. skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. september 2007, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 17. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2007, þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um dómkvaðningu tveggja matsmanna og þriggja yfirmatsmanna. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðilar krefjast þess aðallega að matsbeiðnum varnaraðila verði hafnað. Til vara krefjast sóknaraðilarnir Ker hf. og Skeljungur hf. þess að farið verði með beiðni varnaraðila um dómkvaðningu yfirmatsmanna sem beiðni um undirmat. Sóknaraðilarnir Skeljungur hf. og Olíuverslun Íslands hf. krefjast málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar. Sóknaraðilinn Ker hf. krefst kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar krefjast staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Varnaraðilar eiga samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 rétt á að afla og leggja fram í einkamáli þau sönnunargögn sem þeir telja málstað sínum til framdráttar. Er að meginreglu hvorki á valdi gagnaðila né dómstóla að takmarka þann rétt umfram það sem leiðir af ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar. Eina áskilnaðinn um form og efni matsbeiðna er að finna í 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991, sbr. þó 64. gr. sömu laga, en samkvæmt fyrrnefnda ákvæðinu skal í matsbeiðni koma skýrlega fram hvað eigi að meta, hvar það sé sem meta á og hvað aðili hyggst sanna með matinu. Varnaraðilar hafa lagt fram tvær matsbeiðnir, aðra um dómkvaðningu matsmanna og hina um dómkvaðningu yfirmatsmanna. Þótt fyrirliggjandi beiðnir séu í löngu máli eru þær nægilega skýrt settar fram og uppfylla fyrrgreindar kröfur 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991. Þá þykir 3. mgr. 46. gr. sömu laga ekki standa dómkvaðningu í vegi enda ekki bersýnilegt að matsgerðir samkvæmt beiðnunum komi ekki til með að skipta máli eða verði tilgangslausar, en varnaraðilar bera áhættuna af notagildi matsgerðanna til sönnunar í málinu og kostnað af öflun þeirra. 

Samkvæmt 1. mgr. 64. gr. laga nr. 91/1991 er unnt að krefjast yfirmats þar sem tekin verða til endurmats þau atriði sem þegar hafa verið metin. Eins og nánar er lýst í hinum kærða úrskurði hafa varnaraðilar krafist yfirmats í einni matsgerð á þremur undirmatsgerðum. Er staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að slíkt sé ekki í andstöðu við ákvæði laga nr. 91/1991. Þá þykja sóknaraðilar ekki hafa sýnt fram á að í yfirmatsbeiðninni sé krafist mats á öðrum atriðum en þeim sem þegar hafa verið metin í undirmatsgerðunum.

Með vísan til þess sem að framan greinir eru ekki efni til að hafna því að hinar umbeðnu dómkvaðningar fari fram. Verður hinn kærði úrskurður því staðfestur.

Sóknaraðilar greiði kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðilar Ker hf., Olíuverslun Íslands hf. og Skeljungur hf., greiði óskipt varnaraðilum, Samkeppniseftirlitinu og íslenska ríkinu, hvorum um sig 100.000 krónur í kærumálskostnað.

 

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 31. ágúst 2007.

Með stefnum birtum 29. júní, 27. júlí  og 28. júlí 2005 höfðuðu Ker hf., Suðurlandsbraut 18, Reykjavík, Olíuverslun Íslands hf., Sundagörðum 2, Reykjavík og Skeljungur hf., Hólmaslóð 8, Reykjavík mál á hendur Samkeppniseftirlitinu, Rauðarárstíg 10, Reykjavík og íslenska ríkinu, Arnarhváli v/ Lindargötu, Reykjavík.  Í þinghaldi 28. febrúar 2006 voru málin sameinuð.  Dómkröfur stefnenda í stefnum málsins eru sambærilegar. Á hendur Samkeppniseftirlitnu er þess krafist aðallega að felldur verði úr gildi úrskurður áfrýjunarnefndar samkeppnismála nr. 3/2004, en til vara að felldar verði úr gildi stjórnvaldssektir er stefnendum var gert að greiða eða þeim breytt til lækkunar. Á hendur íslenska ríkinu er gerð krafa um endurgreiðslu á stjórnvaldssektunum eða þeim fjárhæðum er dómstóllinn ákvarðar. Þá er krafist málskostnaðar. Stefndu krefjast sýknu og málskostnaðar.

Í þinghaldi í málinu 16. janúar 2007 lögðu stefnendur fram hver sína matsgerð, þ.e. dskj. 79, 80  og 81. Hinn 19. mars sl. lagði lögmaður stefndu fram yfirmatsbeiðni, dskj. 82, og matsbeiðni, dskj. 83. Af hálfu stefnenda er óskað eftir fresti til að fara yfir og taka afstöðu til yfirmatsbeiðninnar og matsbeiðninnar. Í þinghaldi 14. júní sl. lögðu lögmenn stefnenda hver um sig fram bókanir, þ.e. dskj. 84, 85 og 86 þar sem þeir krefjast þess að matsgerðunum verði hafnað.  Málinu var frestað til 27. ágúst sl. til þess að gefa lögmönnum kost á því að tjá sig um ágreiningsefnið og var það tekið til úrskurðar þann dag.

Í þessum þætti málsins liggur fyrir að taka afstöðu til tveggja beiðna stefndu, hér eftir nefndir matsbeiðendur. Annars vegar um dómkvaðningu tveggja og óvilhallra matsmanna, sbr. dskj. 83 og hins vegar um dómkvaðningu þriggja hæfra og óvilhallra yfirmatsmanna, sbr. dskj. 82 og mótmæla stefnenda, hér eftir nefndir matsþolar, við því.

Eftirfarandi kröfur er gerðar í þessum þætti málsins:

Matsþoli, Ker hf., krefst þess aðallega að héraðsdómari hafni báðum mats­beiðnum Samkeppniseftirlitsins og íslenska ríkisins, sbr. dskj. 82 og 83 í núverandi horfi, þar sem þær gangi í berhögg við meginreglu réttarfars um munnlegan mál­flutning og einnig er sjálfstætt krafist höfnunar yfirmatsbeiðninnar þar sem hún feli ekki í sér endurmat undirmatsgerðar stefnanda Kers hf. samkvæmt ákvæðum laga um meðferð einkamála, en til vara að héraðsdómari úrskurði að farið skuli með yfirmatsbeiðnina sem nýja undirmatsbeiðni. Krafist er málskostnaðar.

Matsþolar, Olíuverslun Íslands hf. og Skeljungur hf.,  krefjast þess „að skjölum þeim sem stefndu hafa lagt fram undir heitunum beiðni um dómkvaðningu matsmanna og beiðni um dómkvaðningu yfirmatsmanna, verði hafnað“. Þá er krafist málskostnaðar að mati réttarins.

Matsbeiðendur, Samkeppniseftirlitið og íslenska ríkið, krefjast þess að kröfum matsþola um að hafnað verði matsbeiðnum sem matsbeiðendur lögðu fram 19. mars sl. verði hrundið.  Málskostnaðar er krafist in solidum að mati dómsins.

Matsþolar halda því aðallega fram að báðar beiðnirnar gangi í berhögg við meginreglur einkamálaréttarfars um munnlegan málflutning. Í beiðnunum séu settar fram fjölmargar fullyrðingar og málsástæður með tilvísun til gagna og fræðirita og um skriflegan málflutning sé að ræða.  Þá sé framsetningin tvinnuð saman við spurningar sem ætlunin sé að leggja fyrir matsmenn. Þá telja þeir spurningar til matsmanna vera óljósar og ekki tækar til mats.  Varðandi beiðnina um dómkvaðningu yfirmatsmanna sérstaklega taka matsþolar fram að beiðnin sé ekki í samræmi við 64. gr. laga um meðferð einkamála, þ.e. að í yfirmati eigi að endurmeta sömu atriði og undirmatsgerðin tók til. Þá taka matsþolar fram að matsbeiðnirnar hafi ekki sönnunargildi í málinu eða þýðingu fyrir málið að öðru leyti.  Lögmaður matsþola, Olíuverslunar Íslands hf. og Skeljungs hf., tók fram að með kröfugerð sinni væri ekki bara átt við að hafnað væri að dómkveðja matsmennina, heldur einnig að matsbeiðnirnar væru inni í málinu, því þar væri um skriflegan málflutning að ræða.

Matsbeiðendur taka fram í upphafi að skilja beri dómkröfuna svo að hún taki bæði til þeirrar dómkröfu matsþola að dómskjölin fáist ekki lögð fram, sem og þess að matsmenn verði ekki dómkvaddir samkvæmt þeim. Matsbeiðendur taka fram að matsgerðirnar hafi þegar verið lagðar fram. Þeir hafna því að matsbeiðnirnar séu ekki í samræmi við ákvæði laga um meðferð einkamála og að um skriflegan málflutning sé að ræða. Ástæða þess að matsbeiðnirnar séu langar eru þær að um flókið mál sé að ræða. Þá telur matsbeiðandi að yfirmatsbeiðnin sé í samræmi við 64. gr. laga um meðferð einkamála og einungis sé verið að óska yfirmats á þeim atriðum sem tiltekin eru í fyrirliggjandi matsgerðum.

Niðurstaða.

Skv. 1. mgr. 61. gr. laga um meðferð einkamála skal í beiðni koma skýrlega fram hvað eigi að meta, hvar það sé sem meta á og hvað aðili hyggist sanna með matinu. Þótt fyrirliggjandi beiðnir séu í löngu máli, þá eru þær skýrlega settar fram og matsspurningar koma skýrlega fram.  Að mati dómsins er framsetning beiðnanna ekki með þeim hætti að tækt sé að hafna dómkvaðningunni.

Skv. 64. gr. laga um meðferð einkamála er hægt að krefjast yfirmats þar sem tekin verða til endurmats þau atriði sem þegar hafa verið metin.  Í málinu liggja fyrir þrjár matsgerðir, ein fyrir hvern matsþola.  Matsbeiðandi hefur ákveðið að krefjast yfirmats í einni matsgerð og verður ekki séð, eins og málsatvikum er háttað, að það sé í andstöðu við ákvæði laga um meðferð einkamála.  Af hálfu matsþola hefur ekki verið bent á nein þau atriði þar sem yfirmatsbeiðnin er ekki í samræmi við fyrirliggjandi matsgerðir.  Því eru ekki efni til annars en að hafna kröfum matsþola í málinu.

Vegna kröfugerðar lögmanns Olíuverslunarinnar hf. og Skeljungs hf. er áréttað að hinar umræddu matsbeiðnir voru lagðar fram í þinghaldi 19. mars sl.  Þá var þeim ekki mótmælt heldur „óskað eftir fresti til að fara yfir og taka afstöðu til yfirmatsbeiðni og matsbeiðni“.  Matsbeiðnirnar eru því hluti af dómskjölum málsins.

Eftir þessari niðurstöðu ber matsþolum in solidum að greiða matsbeiðendum 100.000 kr. í málskostnað.

Af hálfu Kers hf. flutti málið Jóhanna Kristrún Birgisdóttir hdl.

Af hálfu Olíuverslunar Íslands hf. og Skeljungs hf. flutti málið Gísli Baldur Garðarsson hrl.

Af hálfu matsbeiðenda flutti málið Heimir Örn Herbersson hrl.

Sigrún Guðmundsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

 

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Umbeðnar dómkvaðningar skulu fara fram.

Matsþolar, Ker hf., Olíuverslun Íslands hf. og Skeljungur hf. greiða matsbeiðendum 100.000 kr. í málskostnað.