Hæstiréttur íslands
Mál nr. 251/2007
Lykilorð
- Hjón
- Lögskilnaður
- Skilnaðarsamningur
|
|
Fimmtudaginn 20. desember 2007. |
|
Nr. 251/2007. |
M(Guðmundur Ágústsson hdl.) gegn K (Halldór H. Backman hrl.) |
Hjón. Lögskilnaður. Skilnaðarsamningur.
M og K fengu leyfi til skilnaðar að borði og sæng 9. desember 2004. Samkvæmt samningi þeirra um skilnaðarkjör fékk M allar eignir og tók að sér tíu tilgreindar skuldir, þar á meðal lán við Lífeyrissjóð sjómanna. Með bréfi 14. janúar 2005 óskaði K eftir því við Lífeyrissjóð sjómanna að taka yfir umrætt lán M og undirritaði M jafnframt bréfið um samþykki fyrri greiðanda. Dró K síðar þessa ósk sína til baka og leitaði í framhaldinu eftir lögskilnaði við M. M kom fyrir sýslumann og samþykkti lögskilnað með þeim fyrirvara að fjárskiptasamningi milli þeirra yrði breytt og vísaði til „samkomulags“ sbr. fyrrnefnt bréf K til Lífeyrissjóðs sjómanna. Vegna ágreinings K og M um þetta atriði vísaði sýslumaður beiðni K um lögskilnað frá í mars 2006. Í framhaldinu höfðaði M mál og krafðist lögskilnaðar sbr. 1. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 41. gr hjúskaparlaga nr. 31/1993og þess að skilnaðarsamningi hans og K yrði breytt á þá leið að K yrði gert að taka yfir fyrrnefnt lán við Lífeyrissjóð sjómanna. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að samkvæmt 1. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga skuli fjárskiptasamningur, sem hjón gera í tengslum við skilnað, vera skriflegur, undirritaður af þeim og staðfestur fyrir sýslumanni eða dómara. Eðli máls samkvæmt yrði það sama að gilda um samning, sem síðar væri gerður til breytingar á fjárskiptasamningi. Fyrrgreint bréf K uppfyllti ekki skilyrði 1. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga og því var ekki fallist á með M að skilnaðarsamningi þeirra frá 2004 hefði verið breytt með þessari ráðstöfun svo að skuldbindandi væri fyrir K. Jafnframt sagði um þann málatilbúnað M fyrir Hæstarétti, að fá samningnum hnekkt á grundvelli 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga, að ekkert hald væri fyrir þeim kröfum M að því leyti, sem þær lytu að fjárskiptasamningi þeirra, en eins og málið lægi fyrir yrði ekki séð á hvaða grunni haga hefði mátt fjárslitum K og M á annan hátt, sem hagfelldari hefði verið fyrir M.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 9. maí 2007. Hann krefst þess að staðfest verði ákvæði hins áfrýjaða dóms um lögskilnað málsaðila, en fjárskiptasamningi þeirra 9. desember 2004 „verði breytt á þann veg að stefndu verði gert að yfirtaka lán Lífeyrissjóðs sjómanna nr. 706253, upphaflega að fjárhæð kr. 1.500.000.- útgefið af áfrýjanda hinn 24.10.2002, áhvílandi á eigninni [...], Kópavogi, þinglesin eign [...].“ Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Samkvæmt gögnum málsins komu áfrýjandi og stefnda, sem gengu í hjúskap 27. nóvember 1976, fyrir sýslumanninn í Reykjavík 9. desember 2004 og óskuðu eftir skilnaði að borði og sæng. Á sama tíma undirrituðu þau fjárskiptasamning vegna hjónaskilnaðar. Samkvæmt honum voru eignir þeirra svonefndur búseturéttur yfir íbúð að [...] í Reykjavík að verðmæti 1.857.000 krónur, bifreið, sem ekki var greint nánar frá, að andvirði 1.000.000 krónur og ⅛ hluti í íbúð að [...] í Kópavogi, en verðmæti eignarhlutans var sagt vera „óvíst“. Þessar eignir runnu allar til áfrýjanda, sem tók jafnframt að sér tíu tilgreindar skuldir að fjárhæð samtals 8.841.098 krónur, þar á meðal við Lífeyrissjóð sjómanna samkvæmt skuldabréfi nr. 706253 að eftirstöðvum 1.434.179 krónur. Stefnda fékk engar eignir í sinn hlut, en tók að sér skuld vegna yfirdráttar á bankareikningi að fjárhæð 350.000 krónur. Aðilunum var veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng 16. desember 2004.
Með bréfi 14. janúar 2005 beindi stefnda ósk til Lífeyrissjóðs sjómanna um að „yfirtaka lán“ til áfrýjanda samkvæmt fyrrnefndu skuldabréfi, sem hafi verið gefið út 24. október 2002 og upphaflega að fjárhæð 1.500.000 krónur. Áfrýjandi undirritaði jafnframt bréf þetta um „samþ. fyrri greiðanda“. Lífeyrissjóðurinn tilkynnti áfrýjanda 6. maí 2005 að stefnda hafi „dregið til baka ósk sína“, sem fram kom í bréfinu 14. janúar sama ár, og yrðu því „greiðsluseðlar vegna afborgana af láninu ... sendir þér þar sem K hefur afturkallað beiðni sína um að greiða af láninu. Tekið skal fram að þú hefur ávallt verið ábyrgur sem útgefandi skuldabréfsins á greiðslu lánsins.“
Stefnda leitaði til sýslumanns 16. júní 2005 með ósk um lögskilnað við áfrýjanda og yrðu þá sömu skilmálar látnir gilda og við skilnað að borði og sæng. Áfrýjandi kom fyrir sýslumann 6. júlí sama ár og samþykkti lögskilnað, en krafðist breytinga á fjárskiptasamningi til samræmis við „samkomulag sem gert var og undirritað þann 14. janúar sl.“, sem áfrýjandi lagði þá fram. Stefnda mætti á ný til sýslumanns 18. október 2005 og ítrekaði kröfu sína um að upphaflegir skilnaðarskilmálar yrðu látnir standa óbreyttir. Vegna ágreinings aðilanna um þetta vísaði sýslumaður frá sér 27. sama mánaðar beiðni stefndu um lögskilnað. Áfrýjandi leitaði síðan 16. desember 2005 fyrir sitt leyti til sýslumanns með ósk um lögskilnað við stefndu á grundvelli 2. mgr. 36. gr. hjúskaparlaga nr. 31/1993, en krafðist sem fyrr að skilnaðarskilmálum frá 9. desember 2004 yrði breytt samkvæmt „samningi aðila um yfirtöku maka á láni, dags. 14. janúar 2005.“ Stefnda sinnti ekki ítrekuðum boðunum, sem sýslumaður beindi til hennar vegna þessa erindis áfrýjanda, og vísaði sýslumaður því loks frá sér 15. mars 2006. Áfrýjandi höfðaði mál þetta 22. júní 2006 og gerði fyrir héraðsdómi sömu kröfur og hann gerir nú fyrir Hæstarétti samkvæmt áðursögðu.
II.
Samkvæmt héraðsdómsstefnu reisir áfrýjandi kröfu um lögskilnað á því að „meira en ár er liðið frá skilnaði að borði og sæng og hann eigi því rétt á að fá lögskilnað frá stefndu með dómi sbr. 1. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 41. gr. hjúskaparlaga.“ Eftir þessum röksemdum áfrýjanda hefði með réttu átt að vísa um lagastoð fyrir kröfu hans til 2. mgr. 36. gr. hjúskaparlaga, en dómstólar eru bærir um að veita lögskilnað á grundvelli þess ákvæðis, sbr. 2. mgr. 41. gr. laganna. Með þessari athugasemd verður staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um kröfu áfrýjanda um lögskilnað, sem stefnda hefur ekki andmælt.
Samkvæmt 1. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga skal fjárskiptasamningur, sem hjón gera í tengslum við skilnað, vera skriflegur, undirritaður af þeim og staðfestur fyrir sýslumanni eða dómara. Eðli máls samkvæmt verður það sama að gilda um samning, sem síðar er gerður til breytingar á fjárskiptasamningi. Fyrrgreint bréf stefndu til Lífeyrissjóðs sjómanna 14. janúar 2005, þar sem hún lýsti yfir ósk um að „yfirtaka lán“, sem áfrýjanda hafði verið veitt þar, var hvorki samkvæmt efni sínu samningur milli aðilanna um breytingu á fjárskiptasamningi né var það staðfest á þann hátt, sem áskilinn er í 1. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga. Þegar af þessum ástæðum verður ekki fallist á með áfrýjanda að samningi þeirra frá 9. desember 2004 hafi verið breytt með þessari ráðstöfun svo að skuldbindandi sé fyrir stefndu.
Í 45. gr. hjúskaparlaga er mælt fyrir um að skilnaðarskilmálar, sem hjón koma sér saman um í tilefni af skilnaði að borði og sæng, skuli einnig gilda eftir að lögskilnaður er fenginn nema annars hafi verið getið þegar skilnaður að borði og sæng var veittur. Fyrirvari var ekki gerður um þetta þegar aðilunum var veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng 16. desember 2004 og hófst því frestur samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laganna til að höfða mál til ógildingar fjárskiptasamnings þeirra þann dag. Þótt sá frestur hafi verið liðinn þegar áfrýjandi höfðaði mál þetta getur hann samkvæmt lokamálslið síðastnefnds lagaákvæðis enn leitast við að fá samningnum hnekkt með stoð í reglum um fjármunaréttarsamninga, svo sem hann gerir í málatilbúnaði sínum fyrir Hæstarétti, en í þeim efnum vísar hann til 33. gr. og 36. gr. laga nr. 7/1936 um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga með áorðnum breytingum. Um þetta er til þess að líta að samkvæmt 3. mgr. 109. gr. laga nr. 20/1991 um skipti á dánarbúum o.fl. gildir sú regla við fjárslit milli hjóna vegna skilnaðar að hvort þeirra eigi aðeins rétt á að fá eignir í sinn hlut á móti skuldum sínum að því marki, sem eignir þess sjálfs hrökkva þar til, en að því leyti, sem eignir þess hjóna nægja ekki fyrir skuldum þess, verður ekki tekið tillit til skuldanna, sem umfram eru, nema þau ákveði bæði annað. Samkvæmt fjárskiptasamningi aðilanna fékk stefnda engar eignir í sinn hlut, en tók að sér eina skuld. Áfrýjandi tók til sín allar eignir og bar að öðru leyti allar skuldir. Ekkert hefur komið fram um að hann hafi með þessu tekið að sér skuldir, sem hvíldu á öðrum en honum sjálfum. Eins og málið liggur fyrir verður því ekki séð á hvaða grunni haga hefði mátt fjárslitum aðilanna á annan hátt, sem hagfelldari hefði verið áfrýjanda, nema stefnda hefði tekið þar að sér byrðar umfram þær, sem henni bar. Þegar af þessari ástæðu er ekkert hald fyrir kröfum áfrýjanda að því leyti, sem þær lúta að fjárskiptasamningi aðilanna.
Samkvæmt framangreindu verður niðurstaða hins áfrýjaða dóms staðfest. Áfrýjanda verður gert að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, M, greiði stefndu, K, 250.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 16. febrúar 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 13. febrúar sl., að loknum munnlegum málflutningi, var höfðað fyrir dómþinginu af M, [...], á hendur K, [...], Reykjavík, með stefnu birtri 22. júní 2006 .
Dómkröfur stefnanda eru þær, að lögskilnaður skuli fara fram á milli stefnanda og stefndu og að skilnaðarsamningi stefnanda og stefndu verði breytt á þann veg að stefndu verði gert að yfirtaka lán Lífeyrissjóðs sjómanna, nr. 706253, upphaflega að fjárhæð 1.500.000 krónur, útgefnu af stefnanda hinn 24. október 2002, áhvílandi á fasteigninni [...], Kópavogi, þinglesinni eign B, kt. [...]. Jafnframt krefst stefnandi þess að stefndu verði gert að greiða sér málskostnað að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.
Endanlegar dómkröfur stefndu eru þær að hún verði sýknuð af kröfu stefnanda um að skilnaðarsamningi stefnanda og stefndu verði breytt á þann veg að stefndu verði gert að yfirtaka lán Lífeyrissjóðs sjómanna, nr. 706253, upphaflega að fjárhæð 1.500.000 krónur, útgefnu af stefnanda hinn 24. október 2002, áhvílandi með veði á fasteigninni [...], Kópavogi, þinglesinni eign [...]. Einnig krefst stefnda málskostnaðar úr hendi stefnanda að skaðlausu.
Með úrskurði dagsettum 10. janúar 2007 var frávísunarkröfu stefndu hafnað.
II
Hinn 9. desember 2004 rituðu aðilar undir fjárskiptasamning hjá sýslumanninum í Reykjavík, er þau sóttu um leyfi til skilnaðar að borði og sæng. Samkvæmt fjárskiptasamningi skyldi stefnandi taka að sér allar skuldir aðila fyrir utan yfirdráttarskuld stefndu við KB banka, að fjárhæð 350.000 krónur. Jafnframt tók stefnandi við eignum aðila, sem metnar voru á 2.857 krónur auk 1/8 eignarhluta í íbúð móður stefnanda, að [...], Kópavogi. Yfirteknar skuldir námu 8.841 krónu, samkvæmt fjárskiptasamningnum. Skilnaðarleyfi var síðan gefið út hinn 16. desember 2004. Skömmu síðar, eða 14. janúar 2005, skrifaði stefnda undir yfirlýsingu til Lífeyrissjóðs sjómanna, þar sem hún óskar eftir að yfirtaka lán hjá sjóðnum, upphaflega að fjárhæð 1.500.000 krónur, útgefið af stefnanda hinn 24. október 2002, með veði í [...], Kópavogi. Síðar afturkallaði stefnda yfirtöku sína á láninu og var stefnanda tilkynnt um það með bréfi sjóðsins, dagsettu 15. maí 2005. Í sama mánuði óskaði stefnda eftir lögskilnaði, sem stefnandi féllst á með þeim skilyrðum að fjárskiptasamningi yrði breytt þannig að stefnda yfirtæki ofangreint lán.
III
Stefnandi byggir kröfu sína um lögskilnað á 1. mgr. 36. gr. og 1. mgr. 41. gr. hjúskaparlaga.
Stefnandi byggir kröfu sína um breytingu á fjárskiptasamningi á því, að er fjárskiptasamningurinn hafi verið gerður hafi aðilar ekki verið í nógu góðu andlegu jafnvægi. Er nokkuð var liðið frá skilnaðinum hafi aðilar orðið sammála um að skipting eigna og skulda væri ekki réttlát og eðlileg miðað við eignir og skuldir aðila, sem og tekjur þeirra. Af þeim sökum hafi stefnda yfirtekið áðurgreint lán við Lífeyrissjóðinn. Byggir stefnandi á því, að sú skipting sem fram komi í skilnaðarsamningnum hafi verið bersýnilega ósanngjörn, sem hafi leitt til yfirtöku stefnda á margnefndu láni. Vísar stefnandi til 2. mgr. 95. gr. hjúskaparlaga.
Fyrir liggi að aðilar hafi samið um yfirtöku stefndu á láninu, og sent tilkynningu til lífeyrissjóðsins þar um. Hafi stefnda greitt af því í a.m.k. 4 mánuði, þ.e.a.s. febrúar, mars, apríl og maí árið 2005, en þá hafi hún hætt að greiða af láninu og farið fram á það við stjórn sjóðsins, að stefnandi yrði skráður skuldari lánsins. Byggir stefnandi á því, að stefnda hafi viðurkennt greiðsluskyldu sína með þessum athöfnum og vísar til almennra reglna samninga- og kröfuréttar.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Stefnda byggir sýknukröfu sína á því að stefnandi hafi af fúsum og frjálsum vilja átt frumkvæði að efni og gerð fjárskiptasamningsins. Stefnandi hafi sjálfur ritað samninginn og stefnda hafi hvergi komið þar nærri. Samningurinn sé að auki ekki ósanngjarn í garð stefnanda. Til þess beri að líta að stefnandi hafi fengið allar eignir búsins eftir 28 ára búskap, en stefnda hafi tekið að sér að greiða yfirdráttarskuld hjá KB-banka, að fjárhæð 350.000 krónur. Vandséð sé því hvernig unnt sé að fullyrða að samningurinn sé bersýnilega ósanngjarn fyrir stefnanda og þá allra síst þegar til hans var stofnað. Kveður stefnda að meðallaun stefnanda á árunum 1997-2003 hafi verið um 6,5 milljónir króna en stefndu 1,6 milljónir.
Stefnda kveðst hafa tekið að sér að greiða af láni hjá Lífeyrissjóði sjómanna, en ekki hafa yfirtekið lánið. Einungis hafi verið um að ræða tímabundin greiðslutilmæli til Lífeyrissjóðs sjómanna, sem henni hafi verið heimilt að afturkalla hvenær sem var. Ekki hafi verið um að ræða breytingu á fjárskiptasamningi frá 9. desember 2004, sem fái stoð í yfirlýsingu Lífeyrissjóðsins, sem ávallt hafi talið stefnanda vera ábyrgan, sem útgefanda skuldabréfsins. Stefnda telur því ekkert gefa tilefni til að breyta upprunalega fjárskiptasamningi aðila.
Stefnda byggir og á því, að skuldaraskipti geti ekki orðið án ótvíræðs samþykkis kröfuhafa. Samkvæmt íslenskum kröfurétti sé það ekki talið jafngilda samþykki um skuldaraskipti þótt kröfuhafi hreyfi ekki andmælum við tilkynningu um nýjan skuldara. Jafnvel það að kröfuhafi taki athugasemdalaust við greiðslum frá öðrum en skuldara sé ekki talið fela í sér samþykki um nýjan skuldara og að upprunalegi skuldarinn losni þar með undan skyldum sínum.
Einnig byggir stefnda á því, að hún hafi ekki verið andlega hæf á þeim tíma sem hún samþykkti greiðslutilmælin og því hafi hinn svokallaði samningur aldrei öðlast gildi. Ljóst sé að stefndu hafi skort gerhæfi á þeim tíma er stofnað var til umrædds gernings og hún alls ófær um að takast á hendur ofangreinda samningsgerð.
Stefnda telur það óheiðarlegt af stefnanda að bera umræddan samning fyrir sig. Ótrúlegt sé að stefnandi hafi ekki áttað sig á því að stefnda, sem verið hafi eiginkona hans í tæplega 29 ár, hafi verið svo illa stödd andlega að hún væri ekki fær um að gera slíkan samning. Hafi stefnandi, með því að láta hana rita undir skjalið á þessum tímapunkti, sýnt af sér stórkostlegt gáleysi. Hafi stefnanda átt að vera það ljóst að það væri óforsvaranlegt að láta hana rita undir skjalið. Í vottorði Snorra Ingimarssonar, læknis, en stefnda hafi leitað til hans í byrjun árs 2005, um svipað leyti og stefnandi hafi fengið hana til að rita undir skjalið, komi fram það mat hans, að stefnda hafi á þeim tíma sem hún undirritaði skjalið, ekki gert sér grein fyrir málavöxtum og afleiðingum þeirra á persónulega hagi sína.
Stefnda telur það rýra gildi skjalsins að ekki hafi verið kallaðir til vottar og sé einsýnt að stefnandi verði að bera hallann af því.
Um lagarök vísar stefnda til hjúskaparlaga nr. 31/1933, laga nr. 7/1936, um samningsgerð, umboð og ógilda löggerninga.
Kröfu um málskostnað byggir stefnda á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
IV
Kröfur stefnanda í máli þessu eru annars vegar um að honum verði veittur lögskilnaður frá stefndu og hins vegar, að skilnaðarsamningi þeirra verið breytt.
Stefnda hefur fallist á kröfu um lögskilnað, en krefst sýknu af kröfu stefnanda um breytingu á skilnaðarsamningi.
Fyrir liggur að aðilum var veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng hinn 16. desember 2004. Í 2. mgr. 95. gr. laga nr. 31/1933 segir: „Nú hafa hjón vegna væntanlegs skilnaðar að borði og sæng eða lögskilnaðar gert samning um fjárskipti sín og er þá unnt að fella hann úr gildi að nokkru eða öllu með dómi ef hann var bersýnilega ósanngjarn á þeim tíma er til hans var stofnað. Dómsmál skal höfða innan árs frá fullnaðardómi til skilnaðar eða frá útgáfu leyfisbréfs til skilnaðar. Tímafrestir þessir eiga þó ekki við ef freistað er að hnekkja samningi með stoð í reglum um fjármunaréttarsamninga.“ Frestur til höfðunar máls þessa, samkvæmt 2. mgr. 95. gr. laga nr. 31/1993, byrjaði því að líða frá útgáfu leyfis til skilnaðar að borði og sæng hinn 16. desember 2004. Stefna í máli þessu var birt stefndu 22. júní 2006. Var því löngu liðinn sá eins árs málshöfðunarfrestur, sem greinir í 2. mgr. 95. gr. laga nr. 31/1993, er stefnandi höfðaði mál þetta. Koma því kröfur stefnanda, er byggja á 2. mgr. 95. gr. laga nr. 31/1993, því ekki frekar til álita.
Hins vegar má skilja málatilbúnað stefnanda svo að hann freisti þess einnig að hnekkja samningi aðila með stoð í reglum um fjármunaréttarsamninga, samkvæmt heimild í 2. mgr. 95. gr. i.f., þar sem aðilar hafi komist að samkomulagi um breytta skipan fjárskipta. Virðist stefnandi byggja á því að stefnda hafi með undirritun sinni um að hún tæki að sér greiðslu á láni hjá Lífeyrissjóði sjómanna, eftir að fjárskiptasamningur var gerður, breytt fjárskiptasamningnum sem gerður milli aðila við skilnað að borði og sæng. Stefnda hefur hafnað því að hún hafi með þessari undirritun sinni verið að breyta gildandi samningi og í raun hafi hún einungis viljað gera þetta fyrir stefnanda, en hann hafi borið sig mjög aumlega. Hafi hún og ætlað að stefnandi hygðist hætta við skilnaðinn.
Stefnandi hefur ekki, eins og mál þetta liggur fyrir dómnum, sýnt fram á að tímabundin yfirtaka stefndu á láni hjá Lífeyrissjóði sjómanna hafi verið hluti af skilnaðaruppgjöri aðila. Af því sem fram er komið verður ekki litið svo á að um breytingu á skilnaðarsamningi aðila hafi verið að ræða, enda samningurinn ekki endurskoðaður af aðilum. Þá ber og að líta til þess að ekki verður séð að skipting eigna búsins að öðru leyti hafi verið ósanngjörn í garð stefnanda enda tók hann allar eignir búsins auk þorra skulda þess. Enda þótt skuldirnar kunni að hafa verið ívið hærri en eignir búsins á þeim tíma, fór stefnda algerlega slipp og snauð úr hjónabandinu og tók að auki að sér greiðslu yfirdráttarláns.
Samkvæmt framansögðu ber því að veita málsaðilum lögskilnað, en báðir aðilar hafa krafist þess, með þeim skilmálum sem kveðið var á um við skilnaða að borði og sæng.
Eftir þessari niðurstöðu ber að dæma stefnanda til þess að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð :
Málsaðilum, M og K, er veittur lögskilnaður.
Stefnda, K er sýkn, af kröfu stefnanda M, um að skilnaðarsamningi stefnanda og stefndu verði breytt á þann veg að stefndu verði gert að yfirtaka lán Lífeyrissjóðs sjómanna, nr. 706253, upphaflega að fjárhæð 1.500.000 krónur, útgefnu af stefnanda hinn 24. október 2002, áhvílandi með veði á fasteigninni [...], Kópavogi, þinglesinni eign B.
Stefnandi greiði stefndu 100.000 krónur í málskostnað.