Hæstiréttur íslands

Mál nr. 716/2010


Lykilorð

  • Ávana- og fíkniefni


Fimmtudaginn 9. júní 2011.

Nr. 716/2010.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir

settur saksóknari)

gegn

Elenu Neumann

(Sigmundur Hannesson hrl.)

(Eiríkur Gunnsteinsson hdl.)

Ávana- og fíkniefni.

E var ákærð fyrir stórfellt fíkniefnalagabrot með því að hafa staðið að innflutningi til landsins á 19.750 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa ætlaðan til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni. Vökvanum hafði verið komið fyrir í eldsneytistanki bifreiðar í Litháen, sem E kom með á skipi til landsins. Þótti E hafa með ósannindum, röngum og misvísandi framburði, sem hún hafði ítrekað orðið uppvís að, reynt að hindra lögreglu í að upplýsa um brotið og afvegaleiða rannsóknina eftir fremsta megni. Talið var að henni hefði ekki getað dulist að verulegu magni fíkniefna hefði verið komið fyrir í eldsneytistanki bifreiðarinnar. Var neitun E um aðild hennar að brotinu hafnað og hún sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni var gefin að sök í ákæru. Við ákvörðun refsingar var litið til þess mikla magns af mjög sterkum fíkniefnum sem E flutti í bifreið sinni og þótti refsing hennar hæfilega ákveðin 8 ára fangelsi. Þá voru gerð upptæk 19.750 ml af vökva sem innhélt amfetamínbasa og bifreið E sem notuð var til að flytja fíkniefnin til landsins.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 20. desember 2010 í samræmi við yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að héraðsdómur verði staðfestur um annað en refsingu ákærðu, sem verði þyngd.

Ákærða krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð og hafnað kröfu um upptöku bifreiðarinnar IZ-NE947.

Að virtu því, sem greinir í röksemdum hins áfrýjaða dóms fyrir sakfellingu ákærðu, gat henni ekki dulist að verulegu magni fíkniefna hafi verið komið fyrir í eldsneytistanki bifreiðarinnar, sem hún kom með á skipi til landsins 17. júní 2010. Með þessari athugasemd verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur með vísan til forsendna hans.

Ákærða verður dæmd til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun verjanda síns, sem ákveðin verða að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.

Ákærða, Elena Neumann, greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, samtals 473.905 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar hæstaréttarlögmanns, 376.500 krónur

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 23. nóvember 2010

Mál þetta sem dómtekið var 5. nóvember sl. er höfðað með ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 8. september 2010 á hendur Elena Neuman  fd. 09.04.1970 og Y  fd.  [...], sem þá dvöldu í fangelsi að Kópavogsbraut 17 í Kópavogi, fyrir ,,stórfellt fíkniefnalagabrot, með því að hafa fimmtudaginn 17. júní 2010, staðið saman að innflutningi til Íslands á 19.750 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa ætlaðan til söludreifingar hér á landi í ágóðaskyni og unnt var að framleiða úr allt að 20,9 kg af hreinu amfetamínsúlfati sem samsvarar 153 kg af efni miðað við 10% styrkleika. Vökvann móttók ákærða Elena í Litháen og flutti þaðan falinn í eldsneytistanki VW Passat bifreiðar, með skráningarnúmer IZ-NE947, til Þýskalands og þaðan ásamt ákærðu Y með sama hætti til Danmerkur en síðan með farþegaferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar þar sem vökvinn fannst við leit.

Telst þetta varða við 173. gr. a almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. lög nr. 64/1974 og 32/2001.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdar til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.  Einnig er þess krafist að framangreind ávana- og fíkniefni, sem lögregla lagði hald á, verði gerð upptæk samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitskyld efni nr. 233/2001.  Þá er þess jafnframt krafist að bifreiðin IZ-NE947, sem notuð var til að flytja framangreind fíkniefni til landsins og lögregla lagði hald á verði gerð upptæk samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009.“

                Ákærða, Elena, krefst þess aðallega að hún verði sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins og til vara að henni verði tildæmd vægasta refsing sem lög leyfa og að gæsluvarðhald sem hún hefur sætt vegna málsins, komi til frádráttar tildæmdri refsingu með fullri dagatölu. Þá krefst hún þess að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

                Ákærða, Y, krefst þess aðallega að hún verði sýknuð af öllum kröfum ákæruvaldsins og til vara að henni verði tildæmd vægasta refsing sem lög leyfa og að gæsluvarðhald sem hún hefur sætt vegna málsins, komi til frádráttar tildæmdri refsingu með fullri dagatölu. Þá krefst hún þess að allur sakarkostnaður verði felldur á ríkissjóð.

I.

Þann 17. júní 2010, við komu farþegaferjunnar Norrænu til Seyðisfjarðar, fann lögregla og tollgæsla amfetamínbasa sem komið hafði verið fyrir í eldsneytistanki bifreiðar ákærðu Elenu. Reyndist vera um að ræða 19.750 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa og unnt var að framleiða úr allt að 20,9 kg af hreinu amfetamínsúlfati sem samsvarar 153 kg af efni miðað við 10% styrkleika.

Sagði ákærða Elena í byrjun skýrslu sinnar fyrir dóminum að hún hafi verið misnotuð af vissum aðila og sitji nú fyrir framan dómendur sem fórnarlamb.

Hefur  ákærða Elena skýrt frá því að maður að nafni Z, sem hún hafi kynnst fyrir tilviljun fyrir tveimur árum, hafi gefið henni umrædda bifreið. Kunningi ákærðu frá Litháen hafi hringt til hennar í byrjun sumars en þessi Lithái var í hópi fleiri manna, og var hún beðin að aðstoða þá við þýðingar í sambandi við bilaðan bíl, en í þessum hópi var Z. Á endanum hafi hún lánað þeim bílinn sinn til þess að fara á til Litháen en í staðinn hafi þeir boðist til að gera við bílinn hennar sem þeir sögðu að hagstæðara væri að skrá í Litháen í sparnaðarskyni. Kvað ákærða bifreið þessa hafa verið af gerðinni Hyundai Santa Fe. Sagði ákærða Elena að A vinkona hennar hafi eins og hún sjálf kynnst Z þennan sama dag en eftir þetta hafi Z hringt reglulega til hennar og spurt um hennar hagi og aðstoðað hana á ýmsan hátt, sent henni gjafir og greitt tryggingar af Hyundai bílnum. Kom Z ásamt öðrum tvívegis til Þýskalands en þar kom að hún heyrði ekkert til hans um langan tíma þar til hann hafði samband í byrjun þessa árs. Hann kom svo sjálfur aftur í febrúar sl. og ræddi um það hvort ákærða gæti ekki farið í ferðalag og nefndi Ísland í því sambandi sem henni þótti spennandi. Z hafi sagt henni að hún þyrfti að hafa traustan bíl til umráða og viðgerð sem þurfti að framkvæma á Hyundai bíl hennar mætti bíða. Eftir leit fundu þau rétta bílinn að mati Z og þann 7. maí fór ákærða ásamt Z á bíalsölu til þess að ganga frá kaupum á honum. Var þessi bíll Volkswagen Passat bifreið sú sem kemur við sögu í málinu, með skráningarnúmer IZ-NE947. Greiddi Z fyrir bílinn sem hann gaf ákærðu og skráður var á hennar nafn. Fyrir bílinn greiddi Z í reiðufé um það bil 11.200 evrur og að auki lét hann ákærðu Elenu hafa talsvert af peningum til þess að greiða fyrir Íslandsferð, bæði farmiða fyrir hana og ferðafélaga og annan ferðakostnað. Hefur ákærða Elena lagt á það áherslu í skýrslu sinni fyrir dóminum að hún hafi verið misnotuð af öðrum og sé í rauninni fórnarlamb og hafi ekki haft hugmynd um fíkniefnin sem fundust í eldsneytistanknum. Af framburði Elenu má ráða að undirbúningur Íslandsferðarinnar hafi hafist snemma á þessu ári og að í fyrstu hafi A, sem borið hefur vitni í málinu, verið nefnd til sögunnar sem ferðafélagi hennar til Íslands ásamt [...] ára syni ákærðu B, en á endanum hafi það verið ákærða Y og [...] ára sonur hennar sem lögðu með henni upp í ferðina. Skipulag ferðarinnar hafi verið í höndum ferðaskrifstofu í samráði við ákærðu en svo virtist sem einungis kæmi til greina að fara akandi þrátt fyrir að á ferðaskrifstofunni hafi verið á það bent að hagkvæmara væri að fara fljúgandi. Nokkru síðar, eða um miðjan maí, bauð ákærða Elena  A með sér í ferð til Litháen sem þær lögðu upp í þann 5. júní sl. og komu þær þangað þann 6. júní sl. eftir að hafa gist eina nótt í Póllandi en á leiðinni, sem er um 1200 km, tóku þær eldsneyti einu sinni. Þó svo að í upphafi hafi verið meiningin að fara á Hyundai bílnum sem var með bilað gaskerfi, sem átti að laga þar, hafi þær að áeggjan Z farið á Passat bílnum. Kvaðst ákærða hafa greitt fyrir þessa ferð að hluta til með sínum peningum en annars með peningum frá Z. Þegar komið var til Litháen var ákærða í SMS samskiptum við Z sem hitti hana svo daginn eftir komuna þangað og fékk þá hjá henni ferðaupplýsingar vegna fyrirhugaðrar Íslandsferðar auk þriggja símakorta sem hún hafði keypt fyrir hann í gegnum netið. Fór Z á VW bifreiðinni sem hann síðan skilaði daginn eftir um hádegisbil. Sagðist ákærða Elena ekki hafa orðið vör við neina breytingu á bifreiðinni eftir að Z skilaði henni og hún var áfram varadekkslaus, en meiningin var að hann fyndi fyrir ákærðu Elenu varadekk, en hún kvaðst ekki hafa veitt eldsneytismæli athygli. Henni hafi verið kunnugt um að bíllinn eyddi lítilli dieselolíu. Fram hefur komið að áður en þær stöllur héldu heim þá hafi Z gefið ákærðu fyrirmæli um að aka aðeins 300 km á milli þess sem hún fyllti eldsneytistankinn og gaf ákærða nöfnu sinni þá skýringu á þessu að Z hafi látið gera eitthvað við vélina í bílnum sem hafi leitt til minni eyðslu á eldsneyti. Á heimleiðinni gætti ákærða þess að setja eldsneyti á bílinn á 300 km fresti og núllstilla kílómetramælinn við hverja áfyllingu. Þann 14. júní lögðu ákærðu af stað til Danmerkur ásamt [...] ára gömlum syni ákærðu Z, C. Á leiðinni sem er 460 km tóku þær tvívegis eldsneyti og svo enn á ný þegar komið var til Hanstholm þaðan sem ferjan sigldi til Seyðisfjarðar. Sagði ákærða Elena að ekkert hafi verið athugavert við eldsneytismælinn hvorki á leiðinni til Litháen og heim eða í ferðinni til Danmerkur að minnsta kosti hafi hún ekki tekið eftir neinu. Sagði ákærða að vegalengdin milli Itzhoe og Litháen væri um 1200 km. Er ákærða var innt eftir því hvers vegna hún hefði sýnt Z ferðaupplýsingarnar um Íslandsferðina sagði ákærða að hún hefði bara látið hann hafa þær og hafi hann tekið þær með sér ásamt skráningarvottorði bílsins og alls konar upplýsingum sem hann ætlaði að kynna sér.

Ákærða Elena hefur sagt frá því að hún hafi verið í sambandi við Z af og til eftir að hún kynntist honum en það hafi verið í febrúar sl. sem hann kom til hennar og spurði hvort hún vildi ekki fara í ferðalag og talaði um Íslandsferð og í maí kom hann aftur til Þýskalands og bauðst þá til að gefa ákærðu bíl sem hann hafi þegar valið. Varðandi ferðina til Litháen þá breytti ákærða fyrri framburði sínum og sagðist hafa tekið eldsneyti tvisvar á leiðinni þangað en á heimleiðinni hafi hún oftar tekið eldsneyti. Sagði ákærða Elena að meðákærða, Z, hafi vitað að einhver hafi gefið henni bílinn en hún viti ekki hvort hún hafi vitað hver það hafi verið. Eins hafi hún vitað að Íslandsferðin hafi verið gjöf en ekki frá hverjum. Sagði ákærða að Z hafði ekki gefið henni nein bein fyrirmæli varðandi bílinn og að Z hafi vitað af þessum gamla vana hennar að núllstilla alltaf bensínmælinn eftir að hafa tekið eldsneyti en það hafi hún gert árum saman. Hafi Z sagt henni að halda vana sínum og taka eldsneyti á 300 til 400 km bili. Sagði ákærða að hún hafi ekki haft það á tilfinningunni að sú hugmynd að fara á bíl til Íslands hafi verið þrengt upp á hana. Þó hafi Z sagt við hana að hún gæti eins tekið með sér bíl á ferju eins og hún hafði áður gert þegar hún tók ferju til Litháen. Aðrir möguleikar hafi ekki verið ræddir þeirra á milli. Um það hvenær ákærðu hafi orðið ljóst að hún væri fórnalamb sagði ákærða að það hafi verið þegar rannsóknarlögreglumaður á Íslandi spurði hana hvort það gæti ekki verið að núverandi eigandi Hyundai bifreiðar hennar væri móðir Z. Þá hafi henni skyndilega orðið ljóst að hún væri fórnalamb hans. Gaf ákærða Elena þá skýringu á misvísandi framburði sínum varðandi Z að hún hefði í fyrstu ekki trúað því á hann að hann hefði gert henni þetta eins og hún orðaði það. Þá sagði ákærða Elena að tilraun hennar, til þess að koma skilaboðum til meðákærðu í þeim tilgangi að fá hana til þess að gefa villandi framburð, hafi verið hræðsluviðbrögð þegar henni varð ljóst að hún hefði boðið meðákærðu með í ferðina og komið henni í ógöngur. Hún hafi haft slæma samvisku bæði vegna ákærðu Y og barns hennar. Ákærða Elena neitaði því ekki að henni hafi þótt undarlegt hversu Z var rausnarlegur við hana varðandi peninga en hugsað með sjálfri sér að það væri vegna hlýrra tilfinninga hans í hennar garð. Sagði ákærða aðspurð að hún hafi staðið í þeirri meiningu að Z hafi stundað bílasölu en hann hafi ekki viljað segja til aldurs. Aðspurð um hvers vegna hún hafi keypt þrjú símakort fyrir Z segist hún ekki vita það en upplýsir að hann hafi vitað að þau áttu í viðskiptum við sama símafélag og því gætu þau talað saman ókeypis. Hún sagðist hafa keypt þessi kort í gegnum internetið.

II.

Ákærða, Y, hefur við rannsókn málsins staðfastlega neitað að hafa vitað  fíkniefni hafi verið falin í eldsneytistanki bifreiðar þeirrar sem hún kom í hingað til lands ásamt meðákærðu, Elenu. Hefur ákærða Y á sama hátt og hjá lögreglu við rannsókn málsins sagt í dóminum að hún hafi einungis verið farþegi í bifreiðinni og neitað allri aðild að málinu. Hún hafi skýrt frá því að hafa komið hingað til landsins í boði ákærðu Elenu en þær séu vinkonur og nágrannar til margra ára og tilgangur ferðarinnar hafi verið að fara í Bláa lónið. Kvað hún meðákærðu hafa boðið sér í þessa ferð í vor og ákveðið hvenær hún yrði farin og hafi verið áætlað að fara með yngri son ákærðu Elenu og son hennar sjálfrar í ferðina. Kannaðist hún við að á ferðaskrifstofunni hafi verið bent á að hægt væri að fara með flugi og að henni hafi líkað sá ferðamáti að fara akandi. Kvaðst hún ekki hafa vitað betur en að ákærða Elena hafi borgað ferðina en hvaðan peningarnir komu viti hún ekkert um og ekkert spurt í þá veru. Sagði ákærða Y að ákærða Elena hafi sagt sér á leiðinni til Danmerkur að eldsneytismælirinn í bílnum væri bilaður og beðið hana að minna sig á að núllstilla mælinn við hverja 300 km en hvers vegna viti hún ekkert um þó svo hún hafi haldið að það hlyti að vera vegna þess að bíllinn kæmist ekki lengra á hverri áfyllingu. Þá hefur hún ítrekað að hún hafi ekkert vitað um bílakaupin eða hver hafi borgað ferðina og ekki haft hugmynd um að ákærða Elena hafi átt neinn sérstakan velgjörðarmann sem væri að borga fyrir hana þó svo hún hafi eitthvað minnst á Z sem hún sagði vera vin sinn frá Litháen. Þá sagðist hún hafa vitað að ákærða Elena hafi farið til Litháen áður en þær fóru í Íslandsferðina. Kannaðist ákærða Y við að hafa fengið skilaboð frá ákærðu Elenu þegar þær voru í gæsluvarðhaldi og sagði að hún hefði hringt til verjanda síns og látið hann vita en hún hafi túlkað skilaboðin um að þær hefðu ,,borgað þessa asnalegu ferð saman“ sem svo að þetta ætti hún að segja hjá lögreglu sem hefði væntanlega komið sér betur fyrir ákærðu Elenu. Sagðist Y hafa talið að þetta væri ekki mjög dýrt ferðalag og hefði verið meiningin að þær skiptu með sér útgjöldum, þegar heim væri komið, vegna annars kostnaðar en vegna fars og gistingar sem ákærða Elena greiddi. Hún sagðist ekki hafa vitað betur en að ákærða Elena hafi verið búin að ákveða að fara akandi þegar þær fóru saman á ferðaskrifstofu og sjálf hafi hún ekki haft neitt á móti því.

III.

                D, rannsóknarlögreglumaður, sem vann að rannsókn málsins kom fyrir dóminn og sagði að framburður ákærðu Elenu hefði ekki verið stöðugur sem hafi gert það að verkum að langan tíma hefði tekið að fá rétta mynd á málavexti. Sagði hann að ákærða Elena hafi ekkert sagt honum að eigin frumkvæði heldur einungis svarað þegar borin voru undir hana tiltekin gögn en varðandi ákærðu Y sagði hann að hann hefði haft efasemdir um frásögn hennar um það hvað ákærða Elena hefði sagt henni um Litháenferðina og þótt hún verða margsaga.

                E rannsóknarlögreglumaður sem einnig vann að rannsókn málsins sagðist hafa talið að DVD hulstur sem ákærða Y fann í klefa sínum í gæsluvarðhaldi hafi fundist sama dag og hún lét verjanda sinn vita af þeim.

F, sérfræðingur í eiturefnafræði, staðfesti matsgerð sína sem fyrir liggur í málinu. Sagði hann aðspurður að amfetamínbasi væri hinn virki hluti amfetamíns og að um væri að ræða óvenju mikið magn af amfetamíni miðað við þunga.

G, aðstoðaryfirtollvörður, sagði fyrir dóminum að spjótin hefðu beinst að bifreið Elenu af því að hundar hafi gefið tilefni til.

H, tæknimaður hjá [...], sem skoðaði eldsneytishæðarmælinn í umræddri bifreið, sagði að athugun hans hefði leitt í ljós að átt hafi verið við mælinn og því hafi hann ávallt sýnt sömu stöðu.

Vitnið A sagði fyrir dóminum að ákærða Elena hafi boðið henni í ferðalag til Litháen og að á leiðinni til Litháen hafi aðeins verið tekið einu sinni eldsneyti en á heimleið hafi eldsneytismælirinn verið núllstillur við hverja áfyllingu á 300 km fresti og að hún hafi aldrei orðið vör við það áður að ákærða Elena viðhefði slíka háttsemi. Fyrirheit ferðarinnar hafi verið heimsókn í Aqua Park og hefði kunningi ákærðu Elenu, Z, borgað fyrir ferðina að sögn vitnisins. Sagði hún þær hafa skipts á að keyra og að þær hafi tekið einu sinni eldsneyti í Póllandi á 800 km leið og hún muni að eldsneytismælirinn hafi sýnt með eðlilegum hætti magn eldsneytis á leiðinni til Litháen. Hún hafi ekki orðið vör við að ákærða Elena hafi eitthvað verið að stilla mælinn. Þegar þær komu til Litháen hafi þær hitt Z, eins og alltaf hafi verið meiningin, eftir að ákærða Elena hafði hringt í hann. Sagði hún ákærðu Elenu hafa látið Z hafa ferðagögn frá ferðaskrifstofu og að hann hafi farið með bílinn sem hann kom svo með næsta dag en þá sagði hann að það væri betra að fylla bílinn af eldsneyti á 300 km fresti en ekkert minnst á varadekk. Sagði vitnið að ákærða Elena hafi sagst ætla að útskýra þessi fyrirmæli um 300 km seinna og Z gefið þeim ráð varðandi ferðaplögg sem þær þyrftu í fyrirhugaðri Íslandsferð. Þegar þær óku síðan heim þá settu þær eldsneyti á bílinn á 300 km fresti og núllstilltu mælinn en hún hafi tekið eftir því í sambandi við mælinn að hann sýndi alltaf um það bil 20 lítra áður en þær fylltu tankinn en fór aldrei neðar en sýndi fullan tank eftir áfyllingu. Kvaðst vitnið hafa vitað að Z hafði gefið ákærðu Elenu Passat bílinn sem henni hafi þótt skrýtið en ekki spurt nánar út í það. Um Íslandsferðina sagði vitnið að henni hafi verið boðið en það boð hafi síðan verið tekið til baka eftir að ákærða Elena hafði sent Z upplýsingar um sig og barn hennar og Y og barn hennar og hafi ákærða Elena sagt að Y hefði orðið fyrir valinu vegna þess að þau mæðgin hafi borið sama ættarnafn en því hafi ekki verið að heilsa með hana sjálfa og son hennar.

Vitnið I kvaðst oft hafa setið í bíl með Elenu frænku sinni og hafi hún aldrei orði þess vör að hún núllstillti eldsneytismælinn. Sagðist I hafa spurt Elenu af hverju Z væri að gefa henni bifreið og hún svarað því til að það væri vegna erinda. Kvað vitnið ákærðu Elenu hafa boðið henni í ferð til Litháen í lok maí sl. en hún hafi ekki getað farið vegna sonar hennar sem var í skóla auk þess sem hún borgi sjálf þær ferðir sem hún fer í en henni hafi ekki þótt það neitt skrýtið þótt Z væri að bjóða í slíka ferð. Kveðst vitnið vita lítið um Z nema að hann hafi heimsótt ákærðu Elenu og hafi gefið henni bíl. Hún vissi ekki um Íslandsferðina fyrr en rétt áður en farið var en hún hafi vitað að Z hafi borgað ferðina.

IV.

Um það er ekki deilt í málinu að fíkniefniefnið sem ákæran á rót sína að rekja til hafði verið komið fyrir í eldsneytistanki bifreiðar ákærðu Elenu í Litháen, eins og segir í ákæruskjali. Þá er ekki deilt um að hún hafi ferðast með efnin í bifreiðinni þaðan til Þýskalands og síðan þaðan til Hanstholm í Danmörku og síðan með farþegaferju til Seyðisfjarðar og að með henni í för frá Þýskalandi til Íslands hafi verið ákærða Y.

Ákærðu hafa báðar neitað sök og haldið því fram að þær hafi ekkert vitað um fíkniefnin í bifreiðinni og snýst því sönnunarfærsla ákæruvaldsins eingöngu um þennan þátt málsins.

Um þátttöku ákærðu Elenu í brotinu verður að líta til þeirra vitnaframburða sem litið hafa dagsins ljós í málinu, skýrslna beggja ákærðu fyrir dómi og rannsókn máls hjá lögreglu. Byggir ákæruvaldið á því að ákærða Elena hafi skipulagt brotið alveg frá upphafi. Fallast verður á að ákærða Elena hafi í það minnsta komið að skipulagningu ferðarinnar til Íslands og haft með það að gera hver varð ferðafélagi hennar í þeirri ferð og að það hafi ráðist af því að Y og sonur hennar báru sama ættarnafn. Kemur þetta skýrt fram í framburði A sem sagði að nafna hennar hafi sagt að hún kæmi ekki til greina sem samferðamaður vegna þess að ekki fóru saman ættarnafn hennar og sonar hennar sem gert var ráð fyrir að kæmi með þeim og borið því við að tollgæsluyfirvöld á Íslandi væru mjög ströng í þessum efnum. Hefur ákærða Elena játað að hafa sagt þetta við A en borið því við að þetta hafi verið sagt  til þess að útskýra hvers vegna hún varð ekki fyrir valinu sem ferðafélagi. A hefur borið að tilskipun um þetta hafi komið frá Z, vini ákærðu Elenu, en ákærða Elena hefur vísað því á bug. Hefur framburður ákærðu Elenu varðandi það hvers vegna Íslandsferð var fyrir valinu verið nokkuð á reiki við rannsókn málsins og sagði hún í skýrslu hjá lögreglu þann 23. júní sl. að hún og meðákærða hefðu tekið sameiginlega ákvörðun um að fara til Íslands en þegar framburður Y er borinn undir hana þann 7. júlí breytir hún framburði sínum og sagði að hugmyndin hafi komið frá henni sjálfri og seinna í sömu skýrslutöku segir hún að Z hafi átt hugmyndina að Íslandsferð. Í skýrslutöku þann 5. ágúst sagði hún að Z hafi haft áhrif á hana í þá átt að Ísland hafi orðið fyrir valinu en hún hafi sjálf alfarið séð um skipulagningu á ferðinni og þvertekur fyrir að hann hafi beðið hana um að fara. Elena sagðist sjálf hafa greitt fyrir ferðina með peningum sem hún hafi fengið frá Z og komið ferðaupplýsingum um sig og meðákærðu til Z í Litháen en hann hafi fjármagnað ferðina en ekki komið að skipulagningu hennar. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 23. júní sagði ákærða Elena að hún og meðákærða hafi báðar ákveðið að fara til Íslands og deilt kostnaðinum til helminga. Sagði ákærða Elena jafnframt að ákærða Y hafi greitt fyrir sig og barnið en sjálf hafi hún greitt fyrir sig auk þess sem hún lýsti því að þær hefðu komið sér upp sameiginlegum sjóði til þess að standa straum af kostnaði vegna ferðarinnar og að Y hefði látið hana fá peninga í þessu skyni. Sannað er að á svipuðum tíma og hún segir ofangreint í skýrslutöku hjá lögreglu reyndi ákærða Elena að koma skilaboðum til meðákærðu þegar þær sátu báðar í gæsluvarðhaldi og sem sögðu; ,,Við vitum ekki neitt hvorki ég né þú, aðeins það að við höfum borgað þessa ferð saman.“ Hefur ákærða Elena sjálf sagt að með þessum skilaboðum hafi hún verið að reyna að hafa áhrif á framburð meðákærðu varðandi þennan þátt málsins en skilaboð þessi komust ekki til skila og fundu fangaverðir þau áður en til þess kom. Þann 7. júlí var borinn undir ákærðu Elenu framburður meðákærðu Y þess efnis að ákærða Elena hafi staðið straum af kostnaði við ferðina og þá breytir hún framburði sínum til samræmis við það. Skýrði ákærða Elena þetta misræmi með því að hún hafi verið að forðast frekari spurningar frá lögreglu.

 Ekki verður framhjá því litið að skýringar ákærðu Elenu á því hvers vegna Z hafi gefið henni VW bifreiðina, sem kostaði um tvær milljónir króna og var notuð til flutninga á fíkniefnunum, er langt frá því að vera sannfærandi. Bæði er það að samband þeirra hefur verið mjög stopult og tilviljanakennt eins og hún hefur sjálf lýst og eins að hann hafi ekki, fram að því að hann gaf henni bílinn, verið neinn sérstakur velgerðarmaður hennar. Verður að telja að þetta sé ótvíræð vísbending um það að hún hafi gert sér grein fyrir því að þessi svokallaða gjöf hlaut að vera liður í því sem framundan var. Í framburði sínum hjá lögreglu þann 23. júní sagði Elena að hún hafi farið með kunningja sínum á bílasöluna að kaupa bílinn en nafn hans vildi hún alls ekki nefna vegna afbrýðisamrar eiginkonu hans sem hann hafi logið að til þess að geta farið með henni á bílasöluna. Var ákærða Elena þráspurð um nafn þessa manns og svaraði hún því til að hún vildi ekki koma honum í vandræði með því að nefna nafn hans. Sagðist hún þá sjálf hafa borgað bílinn og lýsti því hvernig hún hefði safnað fyrir honum m.a. með sölu á Hyundai bifreið sem hún hafði átt en andvirði hennar, 10.100 evrur, hafi hún geymt heima hjá sér í tvö ár. Ekki þykir þessi frásögn trúleg þegar litið er á þann framburð hennar í næstu skýrslutöku hjá lögreglu og hún segir að ákærða Y hafi lánað henni meira en 500 evrur sem hún hafi verið að endurgreiða henni með því að bjóða henni í Íslandsferðina auk þess sem svo virðist sem hún hafi í raun ekki selt Hyundai bílinn sem er skráður á nafn móður títtnefnds Z. Í skýrslutöku hjá lögreglu þann 7. júlí þverneitaði Elena fyrst að gefa nokkrar upplýsingar um ónefndan kunningja sinn sem farið hafi með henni á bílasöluna en þegar lögregla bar undir hana upplýsingar sem voru til staðar um að Z hafi fjármagnað bílakaupin þá breytir hún framburði sínum enn eina ferðina og segir Z hafa verið manninn sem fór með henni á bílasöluna. Hann hafi gefið henni bílinn vegna þess að hann hafi borið til hennar hlýjar tilfinningar. Þá sagði hún einnig að það hafi allan tímann verið talað um og lagt til að hún og Z færu saman í Íslandsferðina ásamt B, syni hennar, en í febrúar hafi staðan verið þannig að Z gat ekki farið og sagt henni að drífa sig og að hann ætlaði að gefa henni ferðina. Sagði Elena að það kæmu stundum til hennar kunningjar hennar frá Litháen til þess að fá aðstoð við kaup á bifreiðum. Ekki hefur Elena upplýst hverjir það hafi verið sem töluðu um það að hún og Z færu saman í Íslandsferðina. Loks þykir það renna stoðum undir þá ályktun að ákærða Elena hafi átt að gera sér grein fyrir því að sú tilhögun að taka eldsneyti með sem næst 300 km millibili og núllstilla þá kílómetramælinn í bílnum gat ekki komið til af neinu öðru en að einhverju hafði verið komið fyrir í eldsneytistanknum sem ekki þyldi dagsins ljós og mátt vera ljóst að langlíklegast væri að fíkniefnum hafi verið komið þar fyrir. Hefur öll frásögn ákærðu Elenu varðandi vitneskju hennar um hvað var í eldsneytistanknum verið ákaflega ótrúverðug og víst er að hún gerði enga tilraun til þess að afla upplýsinga um aðskotaefnin í tanknum sem henni mátti vera ljóst að þar væru allt frá því að hún lagði af stað frá Litháen til Þýskalands. Hún hafi ekki mátt treysta því að ekki væri um amfetamínbasa að ræða og í því magni eins og í ljós kom. Verður ekki lagður trúnaður á þá skýringar ákærðu að hún hafi lagt í vana sinn um árabil að taka eldsneyti á bíla sína með þeim hætti að núllstilla kílómetramælinn á 300 km fresti og fylla á enda hefur enginn þeirra sem komið hafa fyrir dóminn og eru í nánum kunningsskap við ákærðu kannast við þennan vana hennar. Fær þessi ályktun stuðning í framburði A og ákærðu Y.

Þykir það sem nú hefur verið rakið vera skýr vísbending um að hún hafi verið virkur þátttakandi í broti því sem ákæran boðar að hún skuli nú standa reikningsskil á.  Ákærða Elena hefur með ósannindum, röngum og misvísandi framburði, sem hún hefur ítrekað orðið uppvís að, reynt að hindra lögreglu í að upplýsa um brotið og afvegaleiða rannsóknina eftir fremsta megni. Af framangreindu ástæðum verður neitun Elenu um aðild hennar að brotinu hafnað og hún sakfelld fyrir þá háttsemi sem henni er gefin að sök í ákæru.

V.

Í greinargerð ákærðu Y eru gerðar athugasemdir m.a.við það sem verjandi hennar kallar annmarka á ákæruskjali vegna þess að verknaðarlýsingu vanti varðandi hlut hennar í brotinu sem þar er lýst þó svo að ekki sé gerð sjálfstæð krafa um frávísun vegna þessa. Í ákærunni er gerð grein fyrir því að meðákærða, Elena, hafi móttekið vökvann sem málið snýst um í Litháen og flutt hann þaðan falinn í eldsneytistanki tiltekinnar bifreiðar til Þýskalands og þaðan „ásamt ákærðu Y með sama hætti“ til Danmerkur en síðan með ferþegaferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar þar sem vökvinn hafi fundist við leit. Ljóst sé af ákærunni að refsinæm háttsemi meðákærðu Elenu felst í því að hafa móttekið vökvann í Litháen og flutt hann til Íslands, en með öllu skortir að lýsa því í ákærunni hvernig ákærða, Y, á að hafa flutt vökvann með henni. Ekki komi fram hvort hún eigi að hafa tekið við vökvanum í Þýskalandi eða með hvaða hætti hún eigi að hafa aðstoðað við flutninginn, eins og gera verði ráð fyrir að henni sé gefið að sök, og þá þannig að hún hafi t.d. séð um að fela fíkniefnin eða séð um einhver tæknileg atriði í sambandi við flutninginn og ekkert komi fram um það hvort aðild ákærðu eigi að felast í því að hún  hafi tekið einhverjar ákvarðanir í tengslum við brotið eða annast skipulag á flutningnum, hvort hún eigi að hafa greitt einhvern kostnað í tengslum við flutninginn, hvort hún eigi að hafa aðstoðað við að bera skilaboð á milli meðákærðu og hugsanlegra samverkamanna eða hvort hún eigi að hafa með öðrum hætti veitt liðsinni í verki eða orði, fortölum, hvatningum eða á annan hátt átt þátt í að brotið var framið. Þessi annmarki setji vörn ákærðu Y í ákveðinn vanda enda verði ekki af ákæru ráðið með nægjanlega skýrum hætti hver ætlaður hlutur hennar er í brotinu sé. Þá telur ákærða Y það ekki eiga heima í ákæru að geta þess hvað unnt hefði verið að framleiða mikið magn af „efni” úr þeim vökva sem fannst. Einnig sé það til þess fallið að skekkja myndina að miða hugsanlegt magn við 10% styrkleika, enda sé það ekki hefðbundinn styrkleiki á efnum í innflutningsmálum.

Fellst dómurinn á réttmæti þessara athugasemda. Meint brot sé fólgið í því að flytja með tilteknum hætti inn amfetamínbasa af ákveðnum styrkleika en ekki í því hvað framleiða megi úr honum og hið síðastnefnda kemur í hlut dómenda að leggja mat á við ákvörðun refsingar með hliðsjón af rannsóknargögnum og matsgerðum. Eftirfarandi orðalag ákærunnar mætti vera hnitmiðaðra. ,,Vökvann móttók ákærða Elena í Litháen og flutti þaðan falinn í eldsneytistanki VW Passat bifreiðar, með skráningarnúmer IZ-NE947, til Þýskalands og þaðan ásamt ákærðu Y með sama hætti til Danmerkur en síðan með farþegaferjunni Norrænu til Seyðisfjarðar þar sem vökvinn fannst við leit.“ Betra hefði verið að lýsa með sjálfstæðari hætt í hverju meint brot Y fólst.

Þrátt fyrir þess annmarka telur dómurinn að skilja verði ákæruna þannig að í henni felist ásökun á hendur ákærðu Y um að hafa sammælst um það með meðákærðu að taka þátt í því vitandi vits að flytja efnin með meðákærðu frá Þýskalandi til Seyðisfjarðar.

Hér hlýtur sönnunarfærslan fyrst og fremst snúast um það hvort Y mátti vita að í bílnum væru fíkniefni sem til stæði að smygla til Íslands. Vegur þar þungt sú staðreynd að meðákærða reyndi að koma til hennar skilaboðum þegar hún var í gæsluvarðhaldi sem þykir benda til þess að milli þeirra hafi ekki verið nein samvinna um skipulagningu eða viðbrögð ef upp um þær kæmist sem svo aftur bendir til þess að ákærða Y hafi ekkert vitað um fíkniefnin í bifreiðinni. Ekkert bendir til þess í málsgögnum að hún hafi þekkt eða séð Z sem öll spjót beinast að varðandi skipulagningu smyglsins eins og áður er rakið. Til sömu niðurstöðu benda einnig að framburðir vitnanna A og I um að Y væri góð móðir og léti sér mjög annt um son sinn. Telur dómurinn afar ósennilegt að ákærða Y hafi af ráðnum hug farið með son sinn í ferð sem var farin var, að því er best verður séð, í þeim tilgangi að smygla fíkniefnum í stórum stíl til Íslands. Til þess að draga þá ályktun að Y hafi vitað í hvaða tilgangi ferðin var skipulögð yrði að hafa skýrar vísbendingar sem tengdu hana við þátttöku í brotinu. Óumdeilt er að ákærða Y og meðákærða eru vinkonur og haft er eftir ákærðu, Elenu, að ákærða Y sé besta vinkona hennar. Eins er ljóst að hún var farþegi í bifreiðinni sem fíkniefnin fundust í. Þykir dóminum framburður ákærðu Y hafa verið stöðugur að því leyti að hann hafi ekki með nokkrum hætti verið til þess fallinn að afvegaleiða rannsóknarmenn. Ekkert er komið fram sem bendir til þess að hún hafi vitað að ferðalagið sem meðákærða bauð henni í hafi verið greitt af einhverjum öðrum en henni. Þá hefur framburður meðákærðu Elenu verið því marki brenndur þegar ósamræmi kom upp í hennar framburði og ákærðu Y hafi hið rétta verið það sem ákærða Y bar en ákærða Elena breytt framburði sínum. Má í þessu sambandi benda á það sem rakið hefur verið um sameiginlegan sjóð vegna kostnaðar við ferðina. Ekkert hefur komið fram sem bendir til tengsla ákærðu Y við Z, hún hafi einungis þekkt hann af afspurn og vitað um vinskap milli meðákærðu og hans.

D, rannsóknarlögreglumaður, bar fyrir dóminum varðandi ákærðu Y að hann hefði haft efasemdir um frásögn hennar um það hvað Elena hefði sagt henni um Litháenferðina og þótt hún verða margsaga. Eftir að hafa kannað skýrslur sem teknar voru hjá lögreglu að þessu leyti deila dómendur ekki þessari skoðun með vitninu. Þykir mikill vafi leika á því að ákærða Y hafi átt þátt í broti því sem hún er sökuð um í ákæruskjali. Verður því niðurstaða dómsins að ákæruvaldinu hafi ekki tekist að færa fram sönnur um þátttöku ákærðu Y sem ekki verði vefengdar með skynsamlegum rökum. Í ljósi þessa og eindreginnar neitunar ákærðu Y verður fallist á neitun hennar um aðild að brotinu og hún sýknuð af þeim sökum sem hún er borin í málinu.

VI.

Við ákvörðun refsingar ákærðu Elenu er til þess að líta að hún er sakfelld fyrir að hafa staðið að því að flytja til landsins mjög mikið magn af hættulegu fíkniefni af miklum styrkleika. Hvað varðar styrk og mögulegar afurðir sem framleiða má úr efni þessu er talið að leggja beri til grundvallar að sýnataka og rannsókn efnanna á Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði hafi verið í samræmi við þær venjur sem dómstólar hafa stuðst við um árabil. Samkvæmt staðfestri matsgerð samsvaraði innihaldið í öllum flöskunum u.þ.b. 21,30 kg af hreinu amfetamínsúlfati. Við breytingu á amfetamínbasa í vökvaformi í amfetamínsúlfat sé óhjákvæmilegt að eitthvað fari til spillis. Að mati F sem vinnur matsgerðin er varlega áætlað að vart sé hægt að komast hjá minna tapi en sem nemur 2% af þunga efnisins. Úr vökvanum yrði því í hæsta lagi hægt að búa til u.þ.b. 21,3x0,98=20,9 kg af hreinu amfetamínsúlfati, en það samsvari 15,3, kg af amfetamínbasa. Í rannsókn sem gerð var í samvinnu rannsóknarstofunnar og embætti lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu sumarið 2007 hafi komið í ljós að amfetamín sem ætlað var til neyslu og lagt var hald á árin 2005 og 2006, innihélt að meðaltali 5,6% amfetamínbasa. Sterkasta efnið reyndist vera 29% en það veikasta 0,9%. Úr því magni sem hér um ræðir væri í hæsta lagi hægt að búa til 15,3x100/5,8=264 kg af efni sem væri 5,8% að styrk (meðalstyrkur áranna 2005 til 2006). Ef hins vegar er miðað við 10% styrkleika samsvaraði þetta 15,3x100/10=153 kg.

Ákærða Elena hefur gert sér far um af fremsta megni að afvegaleiða rannsókn málsins og breytt framburði sínum hjá lögreglu við rannsókn málsins og lítið sem ekkert upplýst að fyrra bragði og nánast ekki fyrr en henni varð kunnugt um að lögreglan hefði upplýsingar sem hún gat ekki mælt í mót. Ákærða móttók fíkniefnin í Litháen en lét það, að því er best verður séð, farast fyrir að kanna um hvers kyns fíkniefni væri að ræða. Þó svo ekki verði fullyrt að hugur hennar hafi ekki staðið til þess að flytja hingað til lands hinn sterka amfetamínbasa í vökvaformi sem svaraði til 15,3 kg af hreinu amfetamínsúlfati ber hún refsiábyrgð á flutningi efnisins enda hafi hún ekki mátt treysta því að ekki væri um amfetamínbasa að ræða og í því magni eins og í ljós kom.

Ákærða Elena Neumann, sem stendur á fertugu, hefur ekki áður svo vitað sé sætt refsingum. Við ákvörðun refsingar verður litið til þess mikla magns af mjög sterkum fíkniefnum sem ákærða flutti í bifreið sinn hingað til lands. Refsing hennar þykir hæfilega ákveðin 8 ára fangelsi. Frá refsingu ber að draga gæsluvarðhald hennar frá 18. júní 2010.

Samkvæmt 218. gr. laga nr. 88/2008 verður ákærða dæmd til greiðslu sakarkostnaðar sem nemur samkvæmt yfirliti saksóknara vegna útlagðs kostnaðar 554.468 krónum og málsvarnarlaunum skipaðs verjanda síns Sigmundar Hannessonar hrl., 2.100.000 krónur að metöldum virðisaukaskatti.

Með vísan til 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitskyld efni nr. 233/2001, skulu 19.750 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa gerð upptæk.  Þá skal ákærða sæta upptöku á bifreiðinni IZ-NE947, sem notuð var til að flytja framangreind fíkniefni til landsins og lögregla lagði hald á, samkvæmt 1. tölulið 1. mgr. 69. gr. a. almennra hegningarlaga, sbr. 2. gr. laga nr. 149/2009.

Málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærðu Y, að meðtöldum. virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði, eins og í dómsorði greinir.

Dóminn kveða upp Sveinn Sigurkarlsson og Sandra Baldvinsdóttir, héraðsdómarar og Snorri Þór Sigurðsson, prófessor í lífrænni efnafræði við HÍ.

D ó m s o r ð:

Ákærða, Elena Neumann, sæti fangelsi í 8 ár. Til frádráttar refsingunni komi gæsluvarðhald sem hún hefur sætt frá 18. júní 2010.

Ákærða, Elena Neumann, greiði í sakarkostnað 2.654.468 krónur þ.m.t málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Sigmundar Hannessonar, hæstaréttarlögmanns 2.100.000 krónur.

Ákærða, Elena Neumann, sæti upptöku á 19.750 ml af vökva sem innihélt amfetamínbasa.

Þá skal ákærða, Elena Neumann, sæta upptöku á bifreiðinni IZ-NE947.

Ákærða, Y, er sýknuð af kröfum ákæruvaldsins í málinu.

      Málsvarnarlaun skipaðs verjanda hennar, Bjarna Haukssonar, hæstaréttarlögmanns,  2.100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.