Hæstiréttur íslands

Mál nr. 442/2008


Lykilorð

  • Niðurfelling máls
  • Málskostnaður
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 12

 

Fimmtudaginn 12. febrúar 2009

Nr. 442/2008.

A

(Eiríkur Elís Þorláksson hrl.)

gegn

íslenska ríkinu

(Sigurður G. Gíslason hrl.)

 

Niðurfelling máls. Málskostnaður. Gjafsókn.

Mál A gegn Í var fellt niður eftir samkomulagi aðila að öðru leyti en því að A krafðist málskostnaðar úr hendi Í. Talið var rétt að málskostnaður fyrir Hæstarétti félli niður, en gjafsóknarkostnaður A greiddist úr ríkissjóði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Ingibjörg Benediktsdóttir og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 4. júní 2008. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 16. júlí 2008 og var áfrýjað öðru sinni 13. ágúst sama ár. Með bréfi 16. desember 2008 lýstu aðilarnir því yfir að samkomulag hefði tekist um að fella málið niður fyrir Hæstarétti að öðru leyti en því að það gengi til dóms um málskostnað og gjafsóknarkostnað. Áfrýjandi krefst málskostnaðar fyrir Hæstarétti án tillits til gjafsóknar, sem honum hefur verið veitt. Stefndi krefst þess að hafnað verði kröfu áfrýjanda um málskostnað, en hans krefst stefndi ekki fyrir Hæstarétti.

Með vísan til c. liðar 1. mgr. 105. gr., sbr. 166. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála með áorðnum breytingum er málið fellt niður.

Rétt er að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður, en um gjafsóknarkostnað áfrýjanda fer samkvæmt því, sem í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Mál þetta er fellt niður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

Allur gjafsóknarkostnaður áfrýjanda, A, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 500.000 krónur.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 5. mars 2008.

Mál þetta, sem tekið var til dóms 6. febrúar er höfðað með birtingu stefnu 22. maí 2007.

Stefnendur eru C og B, [...], [...], fyrir hönd ólögráða sonar þeirra, A, sama stað.

Stefndi er íslenska ríkið.

Stefnendur krefjast þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skaða- og miskabætur að fjárhæð 48.491.774 krónur með 2% ársvöxtum samkvæmt 16. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 frá 1. júní 1997 til 24. maí 2007. Fjárhæðin beri síðan dráttarvexti samkvæmt 9. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 24. júní 2007 til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að skaðlausu að teknu tilliti til greiðslu virðisaukaskatts.

Stefndi krefst sýknu af öllum kröfum stefnanda og að stefnandi verði dæmdur til greiðslu málskostnaðar samkvæmt mati dómsins.

Málsatvik.

Móðir stefnanda, sem þá var komin rúmar 32 vikur á leið með stefnanda, kom á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri 31. maí 1997 vegna blæðingar frá fæðingarvegi. Hún hafði þá haft langvarandi hækkaðan blóðþrýsting og hafði áður átt tvö börn, fædd 1982 og 1996 og var það barn fætt fyrir tímann.

Við fyrstu komu í mæðraskoðun á heilbrigðisstofnun [...], 9. janúar 1997, var blóðþrýstingur hækkaður, eða 139/99, en þá var móðir stefnanda komin 12 vikur á leið. Hún hafði tekið lyfið Enapril vegna hækkaðs blóðþrýstings, en hætti töku þess í upphafi meðgöngunnar. Við komu í mæðraskoðun 21. janúar 1997 mælti fæðingalæknirinn, Edward Kiernan, með tiltekinni blóðþrýstingslækkandi meðferð, Trandate, 100 mg tvisvar á dag. Í mæðraskrá er einnig fært til bókar að fæðingalæknir telji aftur hættu á að hún fæði aftur fyrir tímann. Þá er þar skráð að fæðingalæknirinn ætli að kíkja á eldri skýrsluna, senda afrit á heilsugæsluna og láta vita ef eitthvað sérstakt þurfi að athuga. Ekkert varð þó úr því að eldri skýrsla væri send á heilsugæsluna og var móðirin ekki skoðuð aftur af lækni fyrr en sama dag og stefnandi fæddist.

Meðgangan gekk eðlilega framan af, hæð legbotns óx eðlilega og ómskoðanir sýndu eðlilegan vöxt fósturs.

Við komu á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri 31. maí 1997 var móðir stefnanda skoðuð af ljósmóður og hún afhenti jafnframt mæðraskrána sem hún hafði meðferðis. Í mæðraskrá er skráð að hún hafi komið kl. 17.45, sé gengin 32 vikur og 5 daga og að hún segist hafa fengið verki á um það bil klukkustundar fresti þann dag. Móðir stefnanda kveður það ekki rétt skráð, hið rétta sé að hún hafi haft verki í um klukkustund. Skráð er að kl. 17.50 hafi legháls verið langur, afturstæður og tekið fingurgóm. Hjartsláttur fósturs hafi verið góður, en verkir komi ekki fram á riti. Ljósmóðir hafði samband við fæðingalækninn Edward Kiernan, en hann vildi sjá til með að gefa lyfið Bricanyl til þess að stöðva fæðingu. Læknirinn kom ekki á sjúkrahúsið þá. Um kl. 20.30 fóru verkir móður stefnanda að breytast og verða reglulegri og lét hún ljósmóður strax vita af því. Útvíkkun var þá orðin 2 cm., legháls miðstæður og styttur. Aftur var haft samband við fæðingalækni sem kom um 10-15 mínútum seinna og gaf þá fyrirmæli um lyfjagjöf til að stöðva fæðinguna. Móðir stefnanda fékk sprautu sem innihélt lyfið Bricanyl og síðan var sett nál í æð og sama lyf gefið í sídreypi í æðina.

Rúmri klukkustund eftir að þessi meðferð hófst var talið fullreynt að stöðva mætti fæðinguna, enda útvíkkun legháls orðin 3-4 cm. og verkir á 3-5 mínútna fresti. Var Bricanylgjöf þá hætt. Eftir kl. 22.40 var fósturhjartsláttarlínurit slitrótt og eftir kl. 23.50 var ekkert línurit. Klukkan 23.35 var skráð að útvíkkun væri orðin 7 cm., belgur spenntur og hjartsláttur góður. Upp úr miðnætti hægði hjartsláttur barnsins nokkuð á sér og var þá móður gefið súrefni. Ekki var sett rafskaut á höfuð barnsins til að fylgjast með hjartslætti þess, enda hefði þurft að sprengja belgi til þess. Ljósmóðir sprengdi belgina klukkan 00.58. Legvatnið var tært. Þá hægði verulega á hjartslætti barnsins og móður gekk illa að rembast. Þá var ýtt á eftir barninu, með því að ýta ofan á kvið móðurinnar og fæddist stefnandi sex mínútum síðar.  

Honum var lýst ,,slökum” við fæðingu, með Apgar skor 4 eftir eina mínútu. Blóðflæði til og frá höfði hafði verið skert og hann var blár í andliti. Hann hresstist fljótlega eftir fæðingu og var Apgar skor 8 eftir 5 mínútur. Fylgjan fæddist tíu mínútum á eftir barninu. Henni var lýst sem þykkri og kalkaðri og blæðing var við fylgjurönd.

Barnalæknir, Geir Friðgeirsson, var viðstaddur fæðinguna og fljótlega var farið með stefnanda yfir í barnadeild sjúkrahússins. Barnið átti í erfiðleikum með öndun, þurfti súrefnisgjöf og endaði nokkrum dögum eftir fæðingu í öndunarvél. Einnig fékk hann krampa fjórum dögum eftir fæðingu. Hann var fluttur á Landspítalann 13. júní 1997, en þá hafði hann verið 8 sólarhringa í öndunarvél. Í brottfararnótu Geirs Friðgeirssonar segir að grunur sé um áverka á miðtaugakerfi í fæðingu, auk þess sem hann fái greininguna andnauðarheilkenni nýbura, nýburagulu af völdum óhóflegs rauðaloss og krampa nýbura. Í vottorði Steingerðar Sigurbjörnsdóttur læknis á Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins frá 3. mars 1998 kemur fram að stefnandi hafi verið mikið veikur á nýburaskeiði.

Niðurstaða athugunar á Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins í desember 1998 var alvarleg hreyfihömlun, spastísk fjórlömun og grunur um þroskahömlun. Þroskaframfarir stefnanda hafa verið mjög hægar og við 7 ára aldur var hann talinn þjást af alvarlegri fjórlömun og djúpri þroskahömlun. Hann er í dag háður margvíslegum hjálpartækjum og algerlega upp á aðra kominn með allar athafnir daglegs lífs.

Stefnandi óskaði eftir áliti Landlæknisembættisins á því hvort fötlun stefnanda, eða hluta hennar, mætti rekja til mistaka í meðhöndlun og læknisþjónustu í tengslum við fæðingu barns. Í samantekt álitsins kemur fram að mæðravernd á heilbrigðisstofnun [...] hafi verið eðlileg, en æskilegt hefði verið að kanna orsakir fyrri fyrirburafæðingar móðurinnar. Blóðþrýstingshækkun hafi verið meðhöndluð á fullnægjandi hátt. Þá sé Enalapril sem móðir hafi tekið í upphafi meðgöngunnar, áður en hún vissi að hún væri orðin þunguð, ekki talið valda fósturskemmdum á fyrsta þriðjungi meðgöngu. Brátt fylgjulos virðist hafa sett fæðingu af stað með kröftugum hætti, þannig að fæðing varð ekki stöðvuð. Vegna langvinns háþrýstings hafi móðirin verið í hættu að fá fylgjulos. Ekki sé skráð í mæðraskrá að fylgjulos geti verið skýring á blæðingu. Vera megi að ljósmóðir hafi vanmetið ástand móður við komu á sjúkrahús með tilliti til hættu á fyrirburafæðingu, en þá hafi verið haft símasamband við lækni og ákveðið að ,,sjá til“.

Í álitsgerðinni segir jafnframt að töf á komu læknis, eða um 3 tímar sé of löng og ekki sé útskýrt í mæðraskrá hvers vegna svo hafi verið. Læknir skrái aðeins einu sinni skoðun og ástand sjúklings, en orsakir fyrirburasóttar séu ekki nefndar. Læknir geri ómskoðun og áætli þyngd, sem sé hjálplegt fyrir barnalækna varðandi fyrirburann, t.d. til að meta hvort þörf sé á flutningi nýburans. Skráning ljósmóður sé nákvæm. Steragjöf gæti hafa haft jákvæð áhrif á lungu A, þrátt fyrir stuttan tíma að fæðingu og gæti hafa gert lungnasjúkdóm vægari. Álit sérfræðinga hjá National Institute of Health (Bresku heilbrigðisstofnuninni) sé að notkun stera geti haft jákvæð áhrif, en sé þó á mörkum miðað við meðgöngulengd.

Einnig segir að ekki sé hægt að fullyrða um orsakir fyrir fjölfötlun A. Þó megi leiða að því líkur að líklegra sé að vírussýking í móðurkviði hafi valdið henni eða annað óútskýrt áfall í móðurkviði, en bráður súrefnisskortur í fæðingu. Leiða megi að því líkur að barnið hafi verið í góðu ástandi þangað til 6 mínútum fyrir fæðingu, ef marka megi lýsingar á ,,eðlilegum“ og ,,góðum“ fósturhjartslætti fram að þeim tíma. Ólíklegt sé að hæging á hjartslætti í 70-80 slög/mínútu í 6 mínútur valdi svo miklum skaða sem lýst er, þó svo að það sé ekki útilokað.

Í málinu hefur verið lögð fram útprentun úr sjúkraskrá frá Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Þar segir um skoðun drengsins 1. júní 1997 að hann sé áberandi ,,stasaður“ í andliti, gott almennt ástand og er settur í hitafóstru með smávegis auka súrefni. Í dagál frá 5. júní 1997 segir að drengurinn hafi þurft talsvert aukasúrefni, allt upp í 50% þrjá fyrstu dagana. Hann hafi verið verulega móður og með vægar ,,hyalin membranebreytingar“ í lungum. Þá er lýst lyfjameðferð sem drengurinn hafi fengið vegna mikillar ,,apneutilhneigingar“ og einnig því að drengurinn hafi verið settur í öndunarvél og settur á sýklalyf.

Í dagál frá 8. júní 1997 er því lýst að ekki liggi ljóst fyrir hvað gerðist þegar drengurinn fór að fá ,,apneurnar“ fyrir 4 dögum. Sónarskoðun á höfði sem gerð hafi verið við ófullnægjandi aðstæður hafi ekki sýnt neina blæðingu og enga miðlínutilfærslu og mænuvökvi hafi verið tær. Langlíklegasta skýringin á ástandi drengsins sé að eitthvað ,,cerebralt” hafi gerst fyrir 4 dögum, blæðing eða ,,hypoxia“. Ákveðið hafi verið að senda drenginn í tölvusneiðmyndatöku af höfði og var hún gerð 9. júní eins og fram kemur í dagál frá 12. júní 1997. Kom þar fram ,,stasablæðing“ í kringum sinus transversum, aðeins niður í ,,fossa posterior“, ekki hafi þó verið að sjá nein örugg merki um þrýsting eða ,,compression“ niður á heilastofninn. Í samantekt um rannsóknir á stefnanda kemur fram að við þessa sneiðmyndatöku hafi komið fram blóðsöfnun aftast í ,,fossa posterior“ og upp eftir hnakkabeini beggja vegna miðlínu, meðfram bláæðastokkunum og sé útlit, staðsetning og dreifing þessarar blóðsöfnunar í samræmi við ,,subduralt haematom“. Grunur sé um að eitthvert blóð hafi náð til ,,subarachnoidala“ rýma.

 Í samantekt um innlögn II, 4 júlí 1997, segir að sneiðmynd af höfði hafi verið endurtekin á Landspítalanum sem hafi sýnt nánast óbreytt ástand miðað við myndina sem tekin var áður, hún hafi staðfest ,,subdural“ blæðingu í ,,fossa posterior“ sem hafi verið mun meiri hægra megin. Sneiðmynd af höfði hafi verið endurtekin 1. júlí 1997 og ekki sýnt merki um ferska blæðingu en það hafi sést merki eftir blæðingu/hygroma í ,,fossa posterior“. Þá hafa verið lagðar fram athugasemdir Alexanders Smárasonar læknis, ,,í tengslum við málsókn gegn FSA“. Þar segir eftirfarandi: Ég hef farið yfir málskjöl sem liggja fyrir og sýnist mér málið vera nokkuð skýrt. Það voru tveir aðaláhættuþættir í þessari meðgöngu, annars vegar háþrýstingur sem var meðhöndlaður með Trandate og var í rauninni ekki vandamál á meðgöngunni þ.e. blóðþrýstingur var aldrei mjög hár og það voru engin merki um meðgöngueitrun. Háþrýstingur er vissulega áhættuþáttur fyrir fylgjulosi. Ef um raunverulegt fylgjulos var að ræða þá var það líkast til lítið, því aðeins er talað um randstæða blæðingu sem gæti þó hafa komið fæðingu af stað.

              Hinn áhættuþátturinn er saga um fyrirburafæðingu. Hafði áður fætt við 38 vikur og 35 vikur og var því í lítilsháttar aukinni áhættu. Þegar hún fæddi við 35 vikur fór vatnið sjálfkrafa og fór síðan mjög fljótlega í fæðingu. Saga sem þessi kallar þó ekki á reglulegar ræktanir á meðgöngu, því þó svo tengsl séu á milli bakterial vaginosis og fyrirburafæðinga eru tengslin tiltölulega veik og illa hefur tekist að sýna fram á að meðhöndlun minnki hættuna á fyrirburafæðingu.

              Í ágætri álitsgerð frá landlækni er talað um rétt hafi verið að gera reglulegar ómskoðanir á leghálsi til að kanna ástand leghálsins. Hér skal hafa það sterklega í huga að um er að ræða árið 1997, þó svo að á þeim tíma hafi komið fram greinar um ágæti þess að gera ómskoðanir á leghálsi samanber grein í New England journal medicin í feb. 1996 var ekki búið að sanna gagnsemi slíkra mælinga og þá hvað skyldi gera ef legháls reyndist stuttur og þá hvað stuttur og hvenær. Þannig að á þeim tíma var það alls ekki almennt meðal fæðingalækna að þeir hefðu tæki til að gera ómskoðun á leghálsi eða þá kynnu að gera slíka rannsókn og þá túlka niðurstöðurnar með tilliti til meðferðar. Enn fremur má benda á að við komu á FSA 31.5 var legháls ekki farinn að opnast meir en oft finnst hjá fjölbyrjum á þessum tíma meðgöngu, þannig að þó svo að áður hefðu verið gerðar ómskoðanir á leghálsi hefði það engu breytt. Það verður því að teljast algerlega óraunhæft að ætlast til þess að B færi í reglulegar ómskoðanir á leghálsi vegna þessa eða var ástæða til reglulegra ræktana. Annars vísa ég í ágætt svar Vilhjálms Andréssonar við álitsgerð landlæknis.

              Það er vissulega veikur punktur að sérfræðingur kom ekki til að skoða konuna fyrr en 3 klst. eftir innlögn og að hann skráði aðeins einu sinni í mæðraskrána. Til dæmis er ekki skráð þegar ákveðið er að hætta Bricanyl gjöf. Ljósmæður eru sérfræðingar í skoðun á leghálsi og eru að gera slíkar skoðanir alla daga. Ljósmóðir sú sem tók á móti B við komu er mjög reynd svo það er engin ástæða til að vantreysta skoðun hennar við komu. Af nótum ljósmóður má ætla að einkennin hafi verið óljós til að byrja með, verið samdrættir á klukkustunda fresti. Sjálf lýsir móðirin að hún hafi verið með óreglulega samdrætti þegar hún kom á deildina og hafi þá haft smá blæðingu sem hafi í raun verið það sem hvatti hana til að koma í skoðun. Síðan þegar samdrættir fóru vaxandi þá kemur sérfræðingur til að skoða konuna og gerir það sem þurfti að gera sem var að skoða hana, gera ómskoðun til að meta stærð og reyna síðan eftir mætti að stöðva samdrættina. Hinsvegar eins og oft er þegar kona er raunverulega í fæðingu var ekki hægt að stöðva fæðinguna. Hér má benda á að ef grunur er um verulegt fylgjulos sem var ekki hér, er ekki ráðlegt að reyna að stöðva fæðingu með samdráttahemjandi lyfjum. Það má vera að lítið fylgjulos hafi komið fæðingunni af stað, en það er mjög erfitt að greina slíkt og ekki er annað að gera en að fylgjast með blæðingunni og ritinu og sjá hvort barnið er undir álagi og það var ekkert sem benti til þess þegar hún kom á deildina. Varðandi steragjöf þá er það vissulega rétt að gefa stera strax og einhver grunur er um fyrirburafæðingu og hefði átt að gera í þessu tilfelli, en hins vegar er afar ólíklegt að þó slík steragjöf hafi verið gefin um kl. 18 hefði breytt nokkru um útkomuna.

             Ég er sammála að ekki var rétt að setja rafskaut á höfuð barnsins því það var betra að halda belgjunum órofnum eins lengi og hægt var þar sem það minnkar hættuna á þrýstingi og áverka á höfuð barnsins. Varðandi að það erfitt var að ná riti þ.e. fá pappírsskráningu en fósturhljóð heyrðist alltaf vel þá tel ég það nægjanlegt. Vissulega er erfitt að monitora nær 100 kg konu í fyrirburafæðingu og því erfiðara sem höfuðið/barnið gengur neðar. Það hefði verið hreinlega rangt að sprengja belgina til að setja rafskaut á höfuð barnsins, einungis til að ná riti þegar fósturhljóð heyrðust vel. Það að fósturhjartsláttur hafi hægt á sér 2-3 sinnum milli klukkan 24 og 01 tel ég ekki vera merki um viðvarandi súrefnisskort ef ritið jafnar sig vel og ekki eru endurteknar seinar dýfur þ.e. á eftir samdráttum. Þrýstingur á höfuð eða naflastreng eru líklegri ástæður. Það er býsna algengt að það komi fram dýfur í rit hjá fyrirburum rétt fyrir fæðingu þegar þrýstingur er á höfuðið og ef það stendur ekki lengi þá ætti það ekki að vera samfara skaða, enda er ekkert hér í gögnunum sem bendir til þess að barnið hafi orðið fyrir asphyxiu í fæðingu. Það er veikleiki í málinu hvað upphaflega pappírs ritið hefur máðst á 10 árum, nokkuð sem okkur grunaði ekki þá að gæti gerst. Sem betur fer var til ljósrit hjá landlækni sem við höfum nú afrit af. Þegar það rit er skoðað sést eftirfarandi. Það er þokkalega skráning frá um 21:20 til 22:55 þar sem ritið sýnir eðlilega grunnlínu og breytileika. Síðan er þokkalegt tímabil frá 23:17 til 23:50 og eru engar nýjar breytingar að sjá. Eftir þetta eru aðeins smá bútar á víð og dreif sem erfitt er að túlka. Grunnlína virðist óbreytt með góðum breytileika. Á einum stað klukkan 00:08 er örstutt tímabil með hægslætti sem mjög erfitt er að túlka því strax á eftir er eðlileg grunnlína þannig að grunur er að fósturslátturinn hafi í raun ekki verið hægur. Skráning klukkan 01:02 styður að síðustu mínúturnar hafi fósturhjartsláttu hægt verulega á sér eða í 70-80 slög á mínútu Að mínu mati bendir þessi skráning ekki til viðvarandi  súrefnisskorts / asphyxíu. Afar ólíklegt er að þessar síðustu mínútur með hægara hjartslætti hafi haft afgerandi áhrif á framtíð barnsins.

              Síðan þegar komu fram dýfur eftir að belgir eru sprengdir þá er ég sammála því að það var ekki tími fyrir keisaraskurð og ekki ástæða til því fæðing var yfirvofandi. Einnig má benda á að erfitt getur verið að ná fyrirbura  upp úr grind við keisaraskurð og getur valdið skaða. Gagnrýnt er að tæki hafi  ekki verið til staðar fyrir áhaldafæðingu. Það er ekki rétt því slík tæki eru á fæðingastofu og tekur aðeins stutta stund að gera þau tilbúin. Hinsvegar er notkun sogklukku hjá fyrirburum  mjög vandasöm og getur valdið áverka og því ekki gerð nema mikið liggi við sem var ekki hér því fæðing var yfirvofandi og það sem gert var virtist gefa árangur. Notkun fæðingatangar er talin valda síður skaða en hinsvegar eru fáir fæðingalæknar með slíka þjálfun og ekki sá sérfræðingur sem var við þessa fæðingu. Drengurinn var sagður ,,stasaður“ á höfði, þ.e. blóðflæði til og frá höfði hafði verið skert og var hann blár í andliti. Þetta tel ég ekki óeðlilegt miðað við aðstæður. Þegar sagt er að ljósmóðir hafi sprengt þrátt fyrir að hún segist ekki sprengja við fyrirburafæðingar þá er það eðlilegt þegar komin er full útvíkkun og höfuðið gengur hægt niður, þannig að flýta megi fæðingunni. Nefnt er að fæðingalæknir hafi ýtt á leghálsbotninn undir lokin, hér hlýtur að vera átt við að það hafi verið ýtt á legbotninn. Þetta hefur vissulega oft verið gert í gegnum tíðina til að flýta fyrir fæðingu og ekki sýnt að valdi skaða, endar er ýtt á fæturna og ólíklegt að slíkur þrýstingur sé skaðlegri en sá þrýstingur sem skapast af samdrætti legsins

             Ég sé ekki á hverju barnalæknirinn  byggir þegar hann segir að barnið hafi orðið fyrir áverka í fæðingu. Er ekki líklegra að ástand nú sé vegna alls þess sem getur komið upp á hjá barni eftir fæðingu við tæpar 33 vikur? 

             Hér má hafa í huga að barnið er af góðri stærð og APGAR varð fljótt góður eftir fæðinguna og legvatn var tært. Það er rétt að ekki var gerð pH mæling á naflastrengsblóði strax eftir fæðingu sem hefði vissulega staðfest hvort um asphyxiu (súrefnisskort) var að ræða eða ekki. Slíkar mælingar voru ekki almennt gerðar á FSA á þessum tíma og er enn aðeins gert í völdum tilfellum. Hinsvegar er það stærra mál hvort hreinlega ætti ekki að gera þessa mælingar hjá öllum börnum sem fæðast, hvert sem ástandið er, svo sanna megi síðar ef eitthvað kemur upp á að ekki hafi verið um súrefnisskort að ræða.

             Einnig hefur verið lögð fram í málinu umsögn Magnúsar Stefánssonar, staðgengli framkvæmdastjóra lækninga á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Þar segir m.a.:,,Undirritaður var á þessum tíma yfirlæknir á barnadeild FSA. Ég fylgdist því mjög náið með gangi mála og vitna í dagál sem er til eftir sjálfan mig í meðsendu ljósriti. Það var aldrei í mínum huga hægt að staðfesta þann grun sem vakthafandi barnalæknir, Geir Friðgeirsson, varpar fram í annars ágætri samantekt um gang mála þegar drengurinn var sendur á vökudeildina að um áverka í fæðingu hefði hugsanlega verið að ræða. Veirusýkingar eru ennfremur ekki með í myndinni samkvæmt meðfylgjandi rannsóknaniðurstöðum, ekki heldur hægt að staðfesta meðfædda blæðingatilhneigingu og því að mínum dómi ekki um annað að ræða en að orsök blæðingarinnar sem drengurinn fékk eftir fæðingu megi rekja til þess að hann var fyrirburi. Þó svo að í áliti landlæknis sé rakið það er betur hafi mátt fara, er ekki heldur þar tekið undir að jafnvel þótt farið hefði verið öðruvísi að, hefði mátt koma í veg fyrir ástand drengsins í dag. Þá er því við að bæta að 1997 var scalp electróða, þ.e.a.s. tæki til að mæla sýrustig í höfuðleðri fæðandi barns hreinlega ekki til á FSA. Notkun hennar hefði því aldrei getað komið til greina. Ástand drengsins við fæðingu og hversu fljótt hann tók við sér bendir til þess að hafi um einhvern súrefnisskort verið að ræða í fæðingunni, hafi bæði verið stuttur og ólíklegt að hafi valdið skaða. Tekið skal fram að stösun í andliti er ekki talin merki um heilablæðingu“.

             Stefnandi mótmælti framlagningu ofangreindra tveggja skjala en dómari heimilaði framlagningu þeirra.

Stefnandi óskaði eftir dómkvaðningu matsmanna til að meta afleiðingar heilalömunar stefnanda 28. apríl 2006 og voru dómkvaddir matsmenn 18. maí 2006, þeir Atli Ólason bæklunarlæknir og Stefán Már Stefánsson prófessor. Niðurstöður matsgerðar frá 28. júní 2006 voru þær að tímabært teldist að meta afleiðingar líkamstjóns A. Varanlegur miski hans vegna meðgöngu eða fæðingar 1. júní 1997 taldist vera 100%. Varanleg örorka vegna meðgöngu eða fæðingar var talin vera 100%, en þjáningabætur samkvæmt 1. mgr. 3. gr. skaðabótalaga voru ekki taldar eiga við.

Foreldrar stefnanda fengu gjafsókn með leyfi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins 22. janúar 2002.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur B og C, D, Freydís Laxdal, Guðrún Svana Zophoníasdóttir, Magnús Stefánsson og Edward Kiernan.

Vitnið, D, kvað það fært í sjúkraskrá 20. nóvember 1996 að B hefði verið ráðlagt að hætta á lyfinu Enalapril, þar sem hún væri orðin þunguð.

Vitnið kvaðst hafa rætt við Edward, fæðingalækni á FSA, og hefði hann ráðlagt að B yrði sett á lyfið Trandate. Þá hefði hann sagst ætla að kíkja á fyrri mæðraskrá og senda afrit af því og láta vita ef eitthvað sérstakt væri að athuga. Vitnið kvaðst ekki hafa heyrt frá honum aftur varðandi þetta og skýrslan hefði ekki komið á heilsugæsluna. Hefði vitnið litið svo á að Edward hefði ekki talið ástæðu til að senda þau.

Vitnið, Freydís Laxdal, kvað fæðingu barnsins hafa verið komna vel á veg þegar hún kom að fæðingunni. Þá hafi móðir barnsins verið í sírita. Ekki hafi gengið vel að ná ritinu, en fósturhljóðin hafi heyrst vel. Vitnið kvaðst helst ekki vilja sprengja belgi fyrr en útvíkkun er lokið, þar sem vatn í belgjunum verndi höfuð barnsins. Vitnið kvað hjartslátt verulega hafa hægt á sér þegar belgir voru sprengdir. Hafi þá móðirin fengið súrefni. Vitnið kvað drenginn hafa verið slappan strax eftir fæðingu, en hann hefði náð sér fljótt. Hún hefði ekki séð að neitt alvarlegt væri að barninu þá.

Vitnið, Guðrún Svana Zophoníasdóttir, kvaðst hafa verið á vakt þegar móðir stefnanda kom á sjúkrahúsið. Móðir stefnanda hafi komið vegna brúnleitrar útferðar og verki sem hefðu komið á klukkustundar millibili. Vitnið kvað legháls hafa verið þannig að hún hafi ekki verið byrjuð í fæðingu. Legháls hafi verið afturstæður, langur og lokaður og tekið fingurgóm. Vitnið kvað móður hafa farið í sírita, en þar hefðu engir samdrættir komið fram, góður og eðlilegur hjartsláttur. Vitnið kvaðst hafa rætt við Edward Kiernan í kjölfar komu móður stefnanda á sjúkrahúsið. Vitnið kvað þá strax hafa komið til álita að gefa henni lyf til að stöðva fæðinguna, en þau Edward hafi ákveðið að gera það ekki þar sem skoðun vitnisins og síriti hafi ekki bent til þess að konan væri byrjuð í fæðingu. Þá kvaðst vitnið ekki muna eftir því að rætt hafi verið um gefa móður stefnanda stera til að örva lungnaþroska barnsins. Edward hafi ekki verið í húsinu, en hann hefði verið á bakvakt. Eftir að móðir stefnanda hafi rætt um aukna verki í kringum rúmlega átta um kvöldið hafi Bricanyl gjöf verið hafin, í samráði við Edward, til að reyna að stöðva fæðingu. Þá hafi verið komin mikil breyting á leghálsi og kvað vitnið að sig minnti að útvíkkun hafi þá verið orðin 3-4. Vitnið kvað Bricanyl gjöf ekki hafa borið árangur og þegar vitnið fór af vaktinni hafi móðir stefnanda verið komin langt á veg í fæðingu. Vitnið kvað hafa gengið vel að fylgjast með hjartslætti í monitor og kvaðst ekki minnast þess að dýfur hafi verið í hjartslætti á þeim tíma er hún sinnti móður stefnanda.

Vitnið, Magnús Stefánsson, kvaðst ekki hafa séð stefnanda fyrr en daginn eftir fæðingu hans. Þá hafi drengurinn legið í fóstrukassa með talsvert súrefni í kassanum. Hann hafi andað talsvert hratt, en ekki stunið. Nokkuð góður litur hafi verið á honum. Vitnið kvað engin merki um það á þessum tíma að hann væri með meiri háttar fósturskaða. Ástæða þess að hann var settur í fóstrukassa hafi verið svokallað hyaline membrane í lungum. Vitnið kvað að Geir, barnalæknir, hafi strax í byrjun hafa rætt um hugsanlegan fæðingaráverka, en vitnið kvaðst aldrei hafa verið sammála því, vegna þess að barnið hafi verið í góðu ástandi þegar það fæddist. Barnið hafi náð sér mjög fljótt eftir fæðingu og hann hafi ekki verið eins vöðvaspennulaus og börn sem hljóta fæðingaráverka. Drengnum hafi hins vegar versnað á fjórða degi, er hann fór í öndunarstopp og fékk krampa. Reyndar hafi verið hefðbundnar aðferðir til að koma í veg fyrir öndunarstopp, en það hafi ekki gengið og drengurinn þá verið settur í öndunarvél. Einnig hafi verið tekinn mænuvökvi frá drengnum, en mænuvökvi verið tær. Höfuð drengsins hafi síðan verið myndað, en þá hafi komið í ljós breytingar aftan til í hnakka sem túlkað hafi verið sem heilablæðing. Síðan hafi verið tekin önnur  mynd hálfu ári síðar, sem sýnt hafi ákveðið bil milli framheila og höfuðkúpunnar, mun meira bil en venjulegt sé. Vitnið kvaðst hafa túlkað það svo, jafnvel þótt þeir sem séu reynslumeiri hafi haft aðra skoðun, að um væri að ræða byrjandi skaða á heila barnsins sem væri afleiðing af segamyndun. Vitnið kvaðst telja að eitthvað hefði gerst í höfði barnsins á 4.-5. degi eftir fæðingu. Það sem ekki megi gleymast sé, að ekki séu sjáanlegar þær  breytingar á heila barnsins sem vaninn er að sjá þegar um súrefnisskort í fæðingu er að ræða. Vitnið var spurt um hvort barnið hafi verið skoðað af barnataugalækni á Landspítalanum, en kvaðst ekki vita til þess.

Þá var vitnið spurt um CT skann, þ.e. hvort heilavefurinn hafi verið eðlilegur að öðru leyti. Vitnið kvað hvergi tekið fram að merki sæjust um beinar skemmdir eða merki um intracerbral blæðingar og engin merki um hypoxiu.

 Vitnið kvaðst ekki hafa fundið neitt skráð um það að blóðþrýstingur barnsins hafi verið mældur fyrstu 5 daga eftir fæðingu þess.

Vitnið, Edward Kiernan, kvaðst hafa farið í gegnum skýrslu um móður stefnanda, en kvað þar ekkert hafa verið afbrigðilegt, en það að skýrslan hafi ekki verið send bendi til þess að þar hafi ekkert verið að finna sem þætti ástæða til að kanna betur. Engin ástæða hafi t.d. verið til að taka strok úr leghálsi til að kanna veiru- eða bakteríusýkingu. Vitnið kvað Svönu Zophoníasdóttur ljósmóður hafa rætt við sig eftir að móðir stefnanda kom á sjúkrahúsið 31. maí 1997. Hún hafi sagt sér að konan hafi verið sett í monitor, engir samdrættir sæjust þar og hafi legháls við þreifingu reynst langur og óstyttur. Þá hafi hjartsláttur verið góður. Vitnið kvaðst ekki hafa verið á sjúkrahúsinu er Svana ræddi við hann, en vitnið kvað þessa lýsingu vanrar ljósmóður sem Svönu, á ástandi konunnar, ekki hafa gefið sér ástæðu til að koma á sjúkrahúsið. Vitnið kvað ekki hafa séð neina ástæðu til þess að gefa Bricanyl, miðað við þessa lýsingu. Þá hafi ekki heldur verið ástæða til að gefa stera. Vitnið kvaðst ekki myndu hafa gert neitt annað en ljósmóðirin gerði, þótt hann hefði komið strax á sjúkrahúsið. Vitnið kvað Svönu aftur hafa hringt í sig og hafi þá vitnið komið á sjúkrahúsið. Vitnið kvað ástandið þá hafa breyst og kvaðst gera ráð fyrir að hann hafi þá skoðað legháls konunnar. Vitnið kvaðst þá hafa sett upp lyfið Bricanyl, til að freista þess að stöðva fæðingu. Þegar legháls hafði opnað sig í 3-4 cm., hafi lyfjagjöf verið hætt. Vitnið kvaðst telja að konan hefði verið í sírita frá því að vitnið kom á staðinn og þar til fæðing var afstaðin. Gengið hafi vel að fylgjast með fósturhljóðum, sem hafi verið mjög góð. Þegar útvíkkun var lokið hafi verið sprengdir belgir og legvatn þá verið tært. Vitnið kvað barnið hafa fæðst fáeinum mínútum eftir að belgir voru sprengdir. Ekki hefði komið til greina að gera keisaraskurð og hefði það einvörðungu seinkað fæðingunni. Vitnið kvað drenginn hafa verið slappan þegar hann fæddist, en hann hefði náð sér mjög fljótt.

Málsástæður og lagarök stefnanda.

                Kröfur sínar um bætur reisir stefnandi á því að hann hafi orðið fyrir varanlegu heilsutjóni, varanlegum miska sem og varanlegri örorku, vegna bótaskyldra mistaka starfsmanna sjúkrahússins á Akureyri sem og heilbrigðisstofnunar [...]. Á þeim ólögmætu og saknæmu mistökum beri stefndi ábyrgð, m.a. samkvæmt almennu skaðabótareglunni, reglunni um vinnuveitendaábyrgð og þeim sérstöku reglum sem mótast hafi vegna mistaka í heilbrigðiskerfinu.

                Heilsubrest stefnanda megi rekja til ófullnægjandi meðferðar sem veitt hafi verið vegna meðgöngu og fæðingar hans og mistaka þeirra starfsmanna heilsugæslunnar og sjúkrahússins sem hana önnuðust. Í fæðingunni hafi stefnandi orðið fyrir súrefnisskorti með varanlegum afleiðingum, m.a. fjórlömun. Unnt hefði verið að koma í veg fyrir tjón stefnanda ef staðið hefði verið að meðferð sem skyldi. Í fyrsta lagi hefði tímanlega átt að grípa til aðgerða til að koma í veg fyrir að stefnandi fæddist fyrir tímann og lyfjagjafar til að auka lungnaþroska hans og draga úr hættu á heilablæðingu. Í öðru lagi hafi átt, úr því fæðing varð ekki stöðvuð, að grípa til ráðstafana í síðasta lagi upp úr miðnætti hinn 1. júní 1997 þegar ljóst var að ekki var unnt að fylgjast stöðugt með hjartslætti stefnanda og að á hjartslætti hægðist nokkrum sinnum en það sé merki um yfirvofandi fósturstreitu. Stefndi beri skaðabótaábyrgð á því að ekki var gripið til þeirra ráðstafana sem nauðsynlegar voru. Um hafi verið að ræða áhættumeðgöngu, en háþrýstingur móður auki m.a. hættu á fylgjulosi og samkvæmt áliti landlæknisembættisins hafi brátt fylgjulos komið fæðingu af stað. 

                Móðir stefnanda hafi verið með hækkaðan blóðþrýsting og hafði hún verið á tveggja lyfja blóðþrýstingslækkandi meðferð frá síðustu fæðingu. Öðru þeirra sé óæskilegt að ávísa til kvenna sem gætu orðið ófrískar en móðir stefnanda var ekki upplýst um það heldur komst að því fyrir tilviljun að lyfið væri óæskilegt á meðgöngu og hætti að taka það lyf að eigin frumkvæði fyrir fyrstu mæðraskoðun. Þá hafi annar áhættuþáttur verið fyrirburafæðing móður árið 1996. Vegna þessara áhættuþátta hafi verið haft samband við fæðingalækni á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri, Edward Kiernan, og hafi hann talið hættu á að aftur yrði fæðing fyrir tímann. Hann ráðlagði annars vegar tiltekna lyfjagjöf vegna blóðþrýstingshækkunar og hins vegar könnun á skýrslu vegna fæðingar 1996 í þeim tilgangi að koma í veg fyrir að fyrirburafæðing endurtæki sig og ætlaði að senda afrit af henni til heilsugæslunnar. Fyrri ráðleggingunni hafi verið fylgt en ekkert bendi til að fæðingalæknirinn hafi látið verða af öðrum áformum sínum og því var ekki fylgt eftir af hálfu heilsugæslunnar að afrit skýrslunnar væri sent sem þó hafði verið boðað. Í áliti landlæknis komi fram að taka hefði átt ræktanir frá leggöngum og leghálsi í leit að sýkingu og mæla lengd legháls með ómun, þar sem stytting á leghálsi snemma á meðgöngu hafi forspárgildi fyrir fyrirburafæðingu. Hvorugt hafi verið gert. Þetta aðgerðarleysi fæðingalæknisins og starfsmanna heilsugæslunnar séu mistök í starfi. Stefnandi byggir á því að hefðu þessar rannsóknir verið gerðar hefðu meiri líkur verið á því að komið hefði verið í veg fyrir ótímabæra fæðingu stefnanda.

                Þegar móðir stefnanda kom á sjúkrahúsið, var hún með blæðingu frá leggöngum, en slík blæðing getur verið merki um fylgjulos. Engar rannsóknir hafi þó verið gerðar til þess að athuga hvort um slíkt gæti verið að ræða eins og þó hefði verið unnt. Læknir hafi ekki komið fyrr en þremur tímum eftir að hringt var í hann frá sjúkrahúsinu, en þá hafi verulegur gangur verið kominn í fæðinguna. Þá fyrst hafi hann gefið fyrirmæli um lyfjagjöf til að reyna að seinka eða stöðva yfirvofandi fæðingu. Þessa þrjá tíma áður en verkirnir breyttust, hafi hún ekki verið skoðuð aftur af ljósmóðurinni, þrátt fyrir fyrrnefnda áhættuþætti og ástæðu þess að hún kom, blæðingu. Hin ranga skráning, að móðir hafi haft verki á klukkustundarfresti en ekki í eina klukkustund, bendi líka til að ljósmóðir hafi vanmetið ástand móðurinnar og hversu brátt það var í raun.

                Þekkt sé að lungu fyrirbura eru alla jafna óþroskuð og tíðkist því að gefa lyf, stera, til að örva lungnaþroska þeirra þegar fæðing fyrir tímann er yfirvofandi, til að auka líkur á því að nýburinn geti andað sjálfur. Slík lyfjagjöf dragi jafnframt úr líkum á heilablæðingu hjá fyrirburanum en stefnandi varð fyrir heilablæðingu. Þetta hafi ekki verið gert.

                Fram komi í áliti landlæknis að tvær leiðir séu til að fylgjast með ástandi fósturs, annars vegar fósturhjartsláttarrit og hins vegar mæling á sýrustigi fósturblóðs. Síðarnefndi möguleikinn hafi ekki verið fyrir hendi á Akureyrarsjúkrahúsi. Fyrir liggi að ekki gekk að taka rit gegnum kviðvegg móður þegar leið á fæðinguna. Hin leiðin til þess að fylgjast með ástandi fósturs sé að setja rafskaut á koll barnsins, en þá þurfi að sprengja belgi sem umlyki fóstrið. Ljósmóðir hafi sagt foreldrum að hún sprengdi ekki belgi við fyrirburafæðingu, en það hafi engu að síður verið gert kl. 00:58 og hafi þá hjartsláttur dottið niður. Þrátt fyrir að vitað væri að þetta gæti verið afleiðingin af belgjarofi hjá fyrirbura hafi engar ráðstafanir verið gerðar til þess að unnt væri að ná barninu út með hraði ef á þyrfti að halda. Tvisvar til þrisvar áður hafði orðið hæging á hjartslætti barnsins þannig að vakna hefði átt grunur um yfirvofandi fósturstreitu. Þar sem ekki var fylgst stöðugt með hjartslætti barnsins gat það hafa gerst oftar án þess að eftir því væri tekið. Fram komi í áliti landlæknis, að ekki hafi verið til staðar sogklukka eða töng en það taki tíma að sækja slík áhöld og koma fyrir, auk þess sem konan hafi ekki verið deyfð. Ekki hafi heldur unnist tími til að gera keisaraskurð þegar á hjartslætti barnsins hægðist verulega kl. 00:58. Gripið hafi verið til þess að leggjast á kvið konunnar til að reyna að þrýsta barninu út. Það hafi tekið sex mínútur.

                Sú meðferð sem móðir stefnanda hafi fengið á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri hafi verið allsendis ófullnægjandi. Í áliti landlæknisembættisins sé talið að ekki sé hægt að fullyrða um orsakir fyrir fjölfötlun A og talið líklegra að vírussýking eða annað óútskýrt áfall í móðurkviði hafi valdið fötlun hans en bráður súrefnisskortur í fæðingu. Gögn vanti þó því til stuðnings, t.d. hafi ekki verið tekið naflastrengsblóð eftir fæðingu til að mæla sýrustig, pH. Sú ályktun að barnið hafi verið í góðu ástandi þangað til 6 mínútum fyrir fæðingu „ef marka má lýsingar á „eðlilegum“ og „góðum“ fósturhjartslætti fram að þeim tíma“, sé ósönnuð og röng að mati stefnanda. Hún standist ekki þegar horft sé til þess að a.m.k. tvær til þrjár dýfur hafi sannanlega orðið í hjartslætti fósturs fyrir þennan tíma ásamt því að grunnlína fósturhjartsláttar hafði aukist í 150 slög/mínútu og breytileiki minnkað strax um kl. 22:40 og að eftir kl. 23:50 hafi ekki stöðugt verið fylgst með hjartslætti. Fyrir liggi næg gögn og sönnun þess að ekki var brugðist eðlilega við vegna ástandsins. Þá er bent á að ekkert bendi sérstaklega til veirusýkingar á meðgöngu, fósturvöxtur hafi verið eðlilegur og útlit fylgju skýrist algerlega af háþrýstingi móður. Krampar á nýburaskeiði bendi einnig til bráðs súrefnisskorts. Í áliti landlæknisembættisins komi fram að ekki sé útilokað að hæging hjartsláttar ein og sér í 70-80 slög/mínútu í 6 mínútur valdi svo miklum skaða sem raun ber vitni. Sérstaklega er minnt á þá þýðingu sem vanræksla/skortur á skráningu í sjúkraskrá hafi varðandi sönnunarbyrði í málum af þessum toga.

                Verði talið að skaði stefnanda sé að einhverju eða öllu leyti vegna þess að hann er fyrirburi en ekki vegna súrefnisskorts í fæðingu er á því byggt að á því beri stefndi skaðabótaábyrgð. Hefði verið réttilega brugðist við, og fæðing stöðvuð þó ekki væri nema um nokkra daga til að sterar gætu aukið á lungnaþroska og dregið úr líkum á heilablæðingu, hefði stefnandi ekki orðið fyrir því tjóni sem varð.

                Sönnunarbyrðin um það að skaði stefnanda hefði ekki komið fram hefði verið réttilega að málum staðið hvíli á stefnda. Í norrænum rétti, þ.á m. íslenskum skaðabótarétti, hafi verið talin gilda ákveðin sönnunarregla um skaðabótaábyrgð lækna og sjúkrastofnana. Reglan hafi verið sett fram á eftirfarandi hátt:

Um sönnun þess hvort mistök hafi átt sér stað gildir almenna skaðabótareglan.  Ef mistök hinsvegar sannast, ber læknir eða sjúkrastofnun sönnunarbyrðina fyrir því að afleiðingar hefðu komið fram þó að engin mistök hefðu átt sér stað (öfug sönnunarbyrði um afleiðingar).

Tölulegar forsendur kröfugerðar eru eftirfarandi:

1.        Miskabætur skv. 4. gr. skaðabótalaga kr. 4.000.000 + 50% hækkun sbr. heimild 1. mgr. 4. gr., alls kr. 6.000.000 x 100%
verðbættar miðað við maí 2007 ( 5305/3282)                                             kr.              9.698.355

2.        Varanleg örorka sbr. 8. gr. þágildandi skaðabótalaga
kr. 9.698.355 x 400 %                                                                   kr.                38.793.419

Samtals                                                                          kr.        48.491.774

                Kröfu um skaða- og miskabætur úr hendi stefnda styður stefnandi við almennar reglur skaðabótaréttarins, þ.m.t. regluna um vinnuveitendaábyrgð.

                Þá vísar stefnandi til ákvæða reglugerðar nr. 227/1991, einkum 2.-5. gr, sbr. læknalög nr. 53/1988 og lög um heilbrigðisþjónustu nr. 97/1990.

                Um miskabótakröfu vísast til 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

                Kröfu um varanlega örorku styður stefnandi við 5. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993.

                Krafa                um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991.

                Krafa um dráttarvexti styðst við lög um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001.

Málsástæður og lagarök stefnda.

                Stefndi mótmælir öllum málsástæðum stefnanda sem röngum og ósönnuðum og telur að ekki hafi verið sýnt fram á að tilteknar athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stefnda, hafi leitt til þess heilsubrests sem stefnandi búi við og að athafnir eða athafnaleysi starfsmanna stefnda hafi ekki verið á þann veg að felli skaðabótaskyldu á stefnda.

                Í stefnu og gögnum málsins komi ekki fram á hvaða fræðilegum grundvelli fullyrðingar og málsástæður stefnanda séu byggðar. Bendi stefndi á í þessu sambandi að eina raunverulega umsögnin sem lögð sé fram um mögulegar orsakir fyrir heilsubresti stefnanda sé álitsgerð landlæknis, en þar hafi ekki verið tekið af skarið um þessi atriði. Stefnandi hafi til dæmis ekki aflað mats dómkvaddra matsmanna um þau atriði sem hann byggi á, s.s. um saknæm mistök starfsmanna stefnda eða um orsakatengsl milli þeirrar meðferðar sem móðir hans fékk og þess heilsubrests sem hann búi nú við.

                Í stefnu sé fjallað um blóðþrýstingslækkandi lyf sem móðir stefnanda hafi tekið á meðgöngu. Komi fram að fyrir fyrstu mæðraskoðun 9. janúar 1997 hafi móðir stefnanda sjálf komist að því að blóðþrýstingslyfið Enapril sé óæskilegt á meðgöngu og hafi hún því hætt töku þess að eigin frumkvæði. Hins vegar komi fram í medicus samskiptaseðli að heilsugæslulæknir hafði ráðlagt henni að steinhætta töku Enapril þar eð hún væri barnshafandi. Það sé því rangt sem fram komi í stefnu að móðir stefnanda hafi ekki verið upplýst um það af starfsmönnum stefnda að óæskilegt sé að taka lyf þetta á meðgöngu.

                Fyrir liggur að í 2. meðgöngu fæddist barn móður stefnanda fyrir tímann. Vegna þess var fært í mæðraskrá að sá sem hana riti telji hættu á að móðir fæði aftur fyrir tímann. Því hafi verið haft samband við Edvard Kiernan fæðingalækni á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri. Um það segir orðrétt: Ætlar að kíkja á skýrsluna hennar, senda okkur afrit og láta vita ef eitthvað sérstakt þarf að athuga. Skýrslan hafi ekki borist heilbrigðisstofnun [...]. Ekki liggi annað fyrir en hann hafi skoðað skýrsluna. Í álitsgerð landlæknis segir að æskilegt hefði verið að kanna orsakir fyrri fyrirburafæðingar, en að öðru leyti hafi mæðravernd á [...] verið eðlileg.

Í stefnu sé það álit landlæknis reifað að taka hefði átt ræktanir frá leggöngum og leghálsi í leit að sýkingu og mæla lengd legháls með ómun og hefði það verið gert hefði verið meiri líkur á að komið yrði í veg fyrir ótímabæra fæðingu stefnanda. Stefndi mótmælir þessu og kveður ekkert orsakasamband hafa verið sannað milli þess að umræddar rannsóknir voru ekki gerðar og þess heilsubrests sem stefnandi búi við. Í umsögn dr. med. Alexanders Smárasonar, yfirlæknis kvennadeildar FSA, sé því lýst að árið 1997 hafi ekki verið sannað að mælingar á leghálsi skiptu máli í slíkum tilvikum og þá ekki heldur hvað skyldi gera ef legháls reyndist stuttur. Þá hafi læknar á þessum tíma ekki haft tæki til slíkra skoðana, en miða verði við hvað góður og gegn læknir hefði gert á þessum tíma. Auk þess hafi legháls móður verið lítt opnaður, miðað við fjölbyrju, við komu hennar á FSA 31. maí 1997.

                Saga móður hafi ekki verið á þann veg að kallaði á sýnatökur og ræktanir. Tiltölulega veik tengsl séu milli leggangasýkingar og fyrirburafæðinga, en jafnvel þótt tengsl séu þar á milli muni lítt hafa verið sýnt fram á að meðhöndlun slíkra sýkinga minnki hættu á fyrirburafæðingu. Stefndi vísi því þannig á bug að eftirliti og meðhöndlun með móður stefnanda á meðgöngu hafi verið ábótavant og það hafi stuðlað að eða jafnvel valdið því að stefnandi fæddist fyrir tímann og enn síður valdið eða stuðlað að heilsubresti stefnanda.

                Stefndi mótmælir því einnig að ranglega hafi verið staðið að meðferð og meðhöndlun móður hans á FSA eftir að hún kom þangað kl. 17.45 og þar til stefnandi var fæddur 1. júní 1997. Hann bendir á að móðir stefnanda hafi verið skoðuð af ljósmóður strax eftir komu hennar á FSA 31. maí 1997. Ljósmæður séu sérfræðingar í því að skoða legháls og geri það alla daga. Sú ljósmóðir sem tók á móti móður stefnanda sé mjög reynd. Í skráningu hennar komi fram að legháls hafi verið afturstæður, langur og tekið fingurgóm, en sú lýsing sé í samræmi við það sem búast megi við hjá fjölbyrju þegar svo langt er liðið á meðgöngu og bendi ekki til yfirvofandi fæðingar. Útvíkkun sé í raun engin og legháls óþynntur. Hjartsláttur barnsins hafi verið góður og verkir sem móðirin hafi fundið hafi ekki komið fram á riti sem konan var sett í. Í stefnu segi að móðir stefnanda hafi komið á FSA vegna yfirvofandi fyrirburafæðingar, en það sé ofsagt. Það sé ekkert sem styðji það að fæðing hafi verið yfirvofandi. Legháls hafi verið lokaður og legvatn ekki farið. Engu hafi verið lýst sem bendi til að svokallaður slímtappi hafi verið farinn. Í samantekt í áliti landlæknis segi að vera kunni að ljósmóðir hafi vanmetið ástandið, með tilliti til fyrirburafæðingar, en ekki sé gerð frekari grein fyrir því til hvaða ráðstafana hún hefði átt að grípa. Því sé ekki haldið fram í álitsgerðinni að fyrr hefði átt að hefja lyfjameðferð eða koma í veg fyrir fæðingu, heldur segi þvert á móti í álitinu að óvíst sé hvort lyfjagjöf með legslakandi lyfjum 1-2 tímum fyrr hefði hægt á framgangi fæðingar, en slík lyf hjálpi helst ef þau eru gefin áður en fæðingarferlið hefjist.

                Þá bendir stefndi á að ljósmóðirin hafi verið í sambandi við fæðingalækninn á FSA og hafi verið ákveðið að sjá til og fylgjast með henni á sjúkrahúsinu. Hafi hún verið undir eftirliti ljósmóður og tengd við sírita sem mæli hjartslátt fósturs og samdrætti í legi. Eftir að hún hafði látið vita um aukna verki kl. 20.30 hafi læknir komið og skoðað hana og 10 mínútum síðar hafi hafist lyfjagjöf með Bricanyl til að freista þess að tefja eða stöðva yfirvofandi fæðingu. Í stefnu og áliti landlæknis sé það gagnrýnt að læknirinn hafi ekki skoðað konuna fyrr, en ekkert liggi fyrir um það að það sé orsök eða meðverkandi þáttur í þeim heilsubresti sem stefnandi búi við.

                Í stefnu og áliti landlæknis sé að því vikið að steragjöf hefði getað haft jákvæð áhrif á lungu stefnanda, en þetta sé þó ekki fullyrt í álitinu. Að mati stefnda verði að líta til þess að ekki hafi legið fyrir við komu móður stefnanda að fæðingarferli væri hafið og þannig ekki ástæða til þess að hefja slíka lyfjagjöf þá. Í áliti landlæknis komi þó fram að bæði hafi liðið stuttur tími fram að fæðingu svo að óvíst sé að slík lyfjagjöf hefði haft nokkurt vægi og eins hitt að notkun steralyfja hafi verið á mörkunum vegna lengdar meðgöngu. Stefndi fellst ekki á að það hafi verið saknæm mistök að gefa móður stefnanda ekki steralyf, eða að orsök heilsubrests stefnanda megi rekja til þess að móður hans voru ekki gefin steralyf, en stefnandi hafi ekki gert líklegt að orsakatengsl séu þar á milli.

                Lyfjagjöf hafi verið hætt kl. 22.00, en 15 mínútum áður hafi útvíkkun verið orðin 3-4 cm. og talið útséð um að unnt yrði að stöðva fæðingarferlið. Þann tíma hafi móðir stefnanda verið í síritanum og hjartsláttur fósturs eðlilegur. Hafi þá ekkert verið til staðar sem benti til fósturstreitu eða annarra merkja um að ekki væri allt með felldu. Klukkan 23.35 hafi útvíkkun verið orðin 7 sm. og tekið fram að hjartsláttur sé góður.

                Í stefnu sé það gagnrýnt að ekki hafi verið fest tæki við koll stefnanda þegar liðið var á fæðingu. Stefndi telur að rangt hefði verið að setja nemann á koll stefnanda, þar sem sprengja þurfi belgi til þess að koma honum fyrir, en rétt sé að halda belgjum ósprungnum eins lengi og unnt sé meðan útvíkkun sé ekki lokið. Þegar belgir voru á endanum sprengdir hafi hægst á hjartslætti barnsins. Þá sé fram komið að legvatn hafi verið tært, en það mæli gegn því að um fósturstreitu geti hafa verið að ræða. Á þeim 6 mínútum sem liðið hafi frá því að belgdir voru sprengdir hefði ekki verið unnt að gera keisaraskurð og heldur ekki unnt að ná barninu fyrr með því að beita áhöldum.

                Stefndi telur ósannað að hann hafi orðið fyrir súrefnisskorti í fæðingu. Samkvæmt sírita hafi hjartsláttur verið eðlilegur eins lengi og unnt hafi verið að skrá hann með síritanum, en stefnda verði ekki kennt um að strimillinn hafi máðst á þeim 10 árum sem liðin séu. Þá verði stefnda ekki um það kennt að erfiðlega hafi gengið að ná fósturritinu, en fylgst hafi verið með hjartslætti þrátt fyrir það. Á strimlinum komi fyrir tilvik þar sem hægist á hjartslætti, en stefndi telji ekki að í þeim tilvikum hafi orðið viðvarandi súrefnisskortur, sem valdið hafi tjóni. Í áliti landlæknis komi fram að barnið hafi verið í góðu ástandi þar til 6 mínútum fyrir fæðingu. Á þeim 6 mínútum hafi ekki verið unnt að gera annað en gert var.

                Í áliti landlæknis komi fram að ekki sé hægt að fullyrða um orsakir fyrir fötlun stefnanda. Líklegra sé að áfall í móðurkviði sé orsök þess, fremur en bráður súrefnisskortur í fæðingu. Í álitinu komi fram sama skoðun og hjá dr. Alexander, að ólíklegt sé að hæging hjartsláttar í 70-80 slög á mínútu á síðustu 6 mínútunum áður en stefnandi fæddist hafi valdið svo miklum skaða sem stefnandi búi við. Þessu til stuðnings bendi stefndi á að samkvæmt svokölluðu Apgar prófi sem gert hafi verið einni mínútu eftir fæðingu hafi stefnandi fengið 4 stig, en fimm mínútum síðar hafi hann fengið 8 stig, en það sýni að hann hafi hresst mjög fljótt eftir fæðingu. Í stefnu sé gagnrýnt  að ekki hafi verið tekið sýni af blóði úr naflastreng til að mæla sýrustig þess. Stefndi kveður þetta ekki almennt vera gert, nema alveg sérstakar ástæður séu til þess og hafi það ekki verið í tilviki stefnanda.

                Vandamál stefnanda á fyrstu ævidögum telji stefndi fyrst og fremst að rekja megi til öndunarerfiðleika sem tengist vanþroska í lungum vegna fyrirburaástands og gulu. Hann hafi átt við að stríða HMD í lungum. Fyrstu dagana hafi hann braggast vel, en á fjórða degi hafi farið að bera á ,,apneum“ eða öndunarstoppi og frá 5. júní hafi stefnandi verið í öndunarvél. Vitað sé að stefnandi hlaut heilablæðingu. Hljóti það að teljast líklegri skýring á heilsubresti hans en súrefnisskortur í fæðingu, en heilablæðing sé þekkt afleiðing af ótímabærri fæðingu.

                Af áliti landlæknis verði ekki ráðið að ástand stefnanda í dag og það tjón sem hann varð fyrir megi rekja til saknæmra mistaka af hálfu stefnda.

                Stefndi mótmælir öllum fullyrðingum og málsástæðum stefnanda um sök og mistök starfsmanna sinna sem röngum og ósönnuðum.

                Engin skilyrði séu til þess að sönnunarbyrði sé snúið við í málinu, enda hafi ekki verið leiddar að því líkur að tjón stefnanda stafi af saknæmum mistökum starfsmanna stefnda vegna meðgöngu og fæðingar stefnanda.

                Stefndi mótmælir ekki örorkumati, en mótmælir því að höfuðstóll bóta fyrir varanlegan miska verði hækkaður um 50%, sbr. heimildarákvæði í 3. mgr. 4. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993, sbr. áður 1. mgr. 4. gr. laganna, en notkun stefnanda á reglu þessari sé alls órökstudd í stefnu. Á þeirri forsendu sé fjárhæð umkrafinna örorkubóta jafnframt mótmælt, en sú fjárhæð byggi á fjárhæð bóta fyrir varanlegan miska.

                Niðurstaða.

                Óumdeilt er í málinu að stefnandi fékk blæðingu í heila á fyrstu dögum lífs síns. Stefnandi er alvarlega fjölfatlaður, en ágreiningur málsins lýtur að því hvort rekja megi fötlun hans til mistaka starfsmanna heilbrigðisstofnunar [...] og/eða starfsmanna Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri.

                Stefnandi hefur haldið því fram, að vegna áhættumeðgöngu móður stefnanda hefði átt að kanna skýrslu sem til var um fyrri meðgöngu móður og senda hana á heilbrigðisstofnun [...], auk þess sem móðir stefnanda hefði átt að hætta að taka inn lyfið Enalapril, þar sem það geti valdið fósturskaða.

       Samkvæmt framburði D heilsugæslulæknis á [...] fyrir dómi var fært í sjúkraskrá 20. nóvember 1996 að móður stefnanda hefði verið ráðlagt að hætta á lyfinu Enalapril, þar sem hún væri orðin þunguð. Þá hafi hann rætt við Edward Kiernan, fæðingalækni á FSA, sem hefði ráðlagt breytingu á lyfjagjöf, vegna þungunar móður stefnanda, og hefði hann einnig sagst ætla að kíkja á fyrri mæðraskrá og senda afrit af henni og láta vita ef eitthvað sérstakt væri að athuga. D kvaðst ekki hafa heyrt frá honum aftur varðandi þetta og skýrslan hefði ekki komið á heilsugæsluna. Hefði hann litið svo á að Edward hefði ekki talið ástæðu til að senda hana. Staðfesti Edward fyrir dómi að hann hefði lesið fyrri skýrslu, en ekki séð neitt sem þyrfti sérstakrar athugunar við.  

Dómurinn telur að fram sé komið með framburði ofangreindra vitna og færslna í sjúkraskrá, að rétt hafi verið staðið að lyfjagjöf til móður stefnanda, er hún hafði skýrt heilbrigðisstarfsmönnum frá því að hún væri aftur orðin þunguð. Þá verður ekki talið að sú háttsemi að senda ekki fyrrgreinda sjúkraskrá á heilbrigðisstofnun [...] feli í sér saknæma háttsemi heilbrigðisstarfsmanna, sem lagt geti bótaskyldu á stefnda, enda ekki verið færðar neinar sönnur á af hálfu stefnanda að líkindi séu fyrir orsakatengslum milli þess að það var ekki gert og þess líkamstjóns sem stefnandi varð fyrir. Hér ber að líta til þess að það er mat hinna sérfróðu meðdómenda að ræktanir snemma á meðgöngu frá leggöngum og leghálsi í leit að bakteríusýkingu hefðu í engu bætt afdrif stefnanda. Áhættutengsl leggangasýkinga (bacterial vaginosu) og fyrirburafæðinga eru veik og ekki hefur verið sýnt fram á að ræktanir hjá einkennalausri konu (jafnvel ekki konum með sögu um fyrirburafæðingu eins og móðir stefnanda hafði) séu gagnlegar til fyrirbyggingar fæðingar fyrir tímann. Móðir stefnanda sýndi ekki merki um sýkingu í legi í fæðingunni. Í áliti landlæknis eru uppi hugleiðingar um að veirusýking geti verið orsök heilaskaða stefnanda. Hvaða veirusýking það gæti verið og hvernig það smit hefði getað átt sér stað er hins vegar óvíst og engin rök sem hníga að því að veiruleit í leggöngum móðurinnar á meðgöngu hefði getað varpað ljósi á það atriði. 

Þá er það mat hinna sérfróðu meðdómenda að ómskoðanir á leghálsi móðurinnar hefðu engu breytt um afdrif stefnanda. Árið 1997 var ómskoðun á leghálsi á þróunarstigi sem rannsóknaraðferð og hefur enn í dag ekki öðlast öruggan sess sem rannsókn á áhættu kvenna með svipaða sögu og móðir stefnanda. Því er óraunhæft að ætla að meðgöngueftirlit hefði átt að skipuleggja með þeim hætti á þeim tíma. Að auki er óbreyttur legháls móður stefnanda við komu á sjúkrahúsið nægileg sönnun þess að leghálsómun á fyrri hluta meðgöngu hefði engu breytt um afdrif stefnanda.

Móðirin hafði greindan háþrýsting fyrir meðgöngu og fékk meðferð alla meðgönguna, lengst af á lægsta skammti af lyfinu Trandate og dugði það henni vel, þ.e. blóðþrýstingur var við allar mælingar eðlilegur eða vægt hækkaður. Háþrýstingur er einn þekktra áhættuþátta fyrir fylgjulosi og eykst hættan eftir því sem blóðþrýstingur er hærri. Þótt blóðþrýstingur móðurinnar sé undir góðri stjórn er áhættan þó ekki úr sögunni, heldur verður að gera ráð fyrir að hinn undirliggjandi sjúkdómur geti skaðað fylgjuna á þennan hátt, þótt áhættan sé lítil. Blæðing getur verið einkenni um fylgjulos. Blæðing móður stefnanda var mjög lítil við komu (aðeins brúnleit útferð) og önnur einkenni fylgjuloss, svo sem stöðug spenna í legi, ekki til staðar.

Þegar móðir stefnanda kom á Fjórðungssjúkrahúsið 31. maí 1997 var hún lögð inn og sett í sírita til þess að unnt væri að fylgjast með hjartslætti barnsins. Í sjúkraskráningu ljósmóður þeirrar sem tók á móti móður stefnanda segir að hjartsláttur sé góður. Jafnframt er leghálsi lýst sem afturstæðum og löngum og að hann hafi tekið fingurgóm, þ.e. í útvíkkun. Engir samdrættir hafi komið fram á sírita. Hafi ljósmóðir haft samband við vakthafandi lækni, Edward Kiernan, en þau hafi í sameiningu ákveðið að bíða með að gefa konunni Bricanyl, sem notað sé til að slaka á legvöðva. Edward hafi þó ekki komið á sjúkrahúsið til þess að skoða konuna. Það er mat dómsins að í ljósi þess að ástæða þótti til að leggja móður stefnanda inn til skoðunar og ákvörðunar um meðferð, hefði verið æskilegt að vakthafandi læknir hefði brugðist strax við og komið á staðinn, þótt það sé jafnframt mat hinna sérfróðu meðdómenda að ákvörðun um að gefa ekki Bricanyl að svo komnu máli, hafi verið rétt, enda ekki merki um að fæðing væri að hefjast, hvorki breyting á leghálsi né samdrættir á sírita. Á það verður að leggja áherslu að móðir stefnanda var lögð inn, hún skoðuð af sérfræðingi í fæðingum, þ.e. ljósmóður, og ákvörðun tekin um meðferð í samráði við fæðingalækni. Því hefði það að mati dómsins ekki breytt neinu um framgang fæðingar stefnanda, að fæðingalæknir skoðaði konuna ekki fyrr en verkir voru farnir að harðna. Það er mat hinna sérfróðu meðdómsmanna að þegar það gerðist hafi verið hárrétt að hefja meðferð með Bricanyl. Það er einnig álit hinna sérfróðu meðdómenda að steragjöf hefði átt rétt á sér á því stigi, þar sem ekki var hægt að vita á því stigi málsins hvort tækist að fresta fæðingu nægilega lengi til þess að sterar næðu að hafa áhrif á lungnaþroska barnsins, en í ljósi þess að svo stuttur tími leið frá því að sóttin tók að harðna og þangað til stefnandi fæddist hefði steragjöf engu breytt um þroska lungna stefnanda. Innanbastsblæðing, þ.e. sú tegund blæðingar sem stefnandi fékk, er ekki í flokki algengustu blæðinga hjá fyrirburum og ekki hefur verið sýnt fram að sterar, gefnir fyrir fæðingu, minnki líkur á innanbastsblæðingu eins og á við um heilahólfsblæðingu (intraventricular hemorrhage), sem er algengasta tegund blæðinga hjá fyrirburum.

Að mati hinna sérfróðu meðdómsmanna var fæðing stefnanda eins átakalaus og unnt var og aldrei tilefni til þess að ætla að fæðing gengi betur fyrir sig með keisaraskurði. Þá var aldrei ástæða til að beita sogklukku eða töng. Skráning ljósmæðra í mæðraskrá þar sem framgangi fæðingarinnar var lýst, var góð. Belgir voru ekki sprengdir fyrr en útvíkkun var lokið og er slíkt í samræmi við góða starfshætti, þegar um fyrirbura er að ræða, þar sem vatn í belgjunum umlykur og verndar viðkvæmt höfuð barnsins. Ljósmóðirin lýsir í sjúkraskrá eðlilegum hjartslætti við hlustun og samkvæmt framburði hennar fyrir dómnum hlustaði hún stöðugt eftir hjartslætti eftir að síriti skráði ekki lengur samfellt rit. Þær þrjár til fjórar hjartsláttardýfur sem lýst er, stóðu stutt og komu ekki á eftir hverri hríð. Þær hafa því að mati dómsins ekki valdið því að barnið yrði fyrir súrefnisskorti, enda bar barnið við fæðingu ekki merki þess. Barnið þurfti til að mynda ekki á endurlífgun að halda, Apgar stig var 4 við 1 mínútu og 8 við 5 mínútur. Kraftar og ,,tonus“ voru innan eðlilegra marka og bentu tölvusneiðmyndir af höfði barnsins sem teknar voru 9. júní 1997 ekki til skemmda á heilavef eða heilabjúgs eins og vænta hefði mátt, ef um alvarlegan súrefnisskort eða næringarskort til heila hefði verið að ræða við fæðingu. Lýsingar í sjúkraskrám og rannsóknarniðurstöður benda því að mati hinna sérfróðu meðdómsmanna ekki til alvarlegrar og bráðrar fósturköfnunar og einkennin samrýmast heldur ekki heilakvilla af völdum súrefnisþurrðar.

Þegar allt framangreint er virt og litið til þess að engin sérfræðileg gögn hafa verið lögð fram af hálfu stefnanda er stutt geti staðhæfingar hans um mistök starfsmanna heilbrigðisstofnunar [...] og /eða Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri, er þeir veittu móður hans meðhöndlun og meðferð á meðgöngu og við fæðingu stefnanda, er það ósannað að tjón stefnanda verði rakið til slíkra mistaka eða annarra saknæmra athafna eða athafnaleysis starfsmanna heilbrigðisstofnunar [...] og Fjórðungssjúkrahússins á Akureyri. Skilyrði bótaskyldu eru því ekki fyrir hendi og ber að sýkna stefnda af kröfum stefnanda.

Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála verður málskostnaður felldur niður milli aðila.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málsvarnarlaun lögmanns stefnanda, Dýrleifar Kristjánsdóttur héraðsdómslögmanns, 2.000.000 króna að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.

Dóm þennan kveða upp Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari ásamt meðdómsmönnunum Jóni Hilmari Friðrikssyni barnalækni og Þóru Steingrímsdóttur fæðinga- og kvensjúkdómalækni.

D ó m s o r ð:

Stefnda, íslenska ríkið er sýkn af kröfum stefnanda, A, í máli þessu.

Málskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður stefnanda, sem er málsvarnarlaun lögmanns stefnanda, Dýrleifar Kristjánsdóttur hdl., 2.000.000 króna, greiðist úr ríkissjóði.