Hæstiréttur íslands
Mál nr. 145/2002
Lykilorð
- Fasteignakaup
- Tryggingarbréf
- Vextir
|
|
Fimmtudaginn 24. október 2002. |
|
Nr. 145/2002. |
Gissur og Pálmi ehf. (Sveinn Sveinsson hrl.) gegn Kristjáni Stefánssyni (Kristinn Hallgrímsson hrl.) |
Fasteignakaup. Tryggingarbréf. Vextir.
G keypti fasteign af K við Sólvallagötu í Reykjavík árið 1999. Var kaupverð eignarinnar 52 milljónir króna sem skyldi meðal annars greiðast með yfirtöku G á skuld K við SPRON samkvæmt tryggingarbréfi að fjárhæð 43 milljónir króna. Eftir að gengið hafði verið frá skilmálabreytingum á tryggingarbréfinu stóð bréfið til tryggingar á skuldum G við LÍ og greiddi LÍ upp yfirdráttarskuld K við SPRON, sem staðið hafði að baki tryggingarbréfinu. Laut ágreiningur aðila að greiðslu vaxta af umræddri yfirdráttarskuld fyrir tímabilið frá afhendingu eignarinnar fram til þess tíma er LÍ innti framangreinda greiðslu af hendi. Samkvæmt orðalagi ákvæða í samþykktu kauptilboði og kaupsamningi yfirtók G skuld K við SPRON að fjárhæð 43 milljónir króna. Var enginn annar kostur talinn tækur en að skýra þessi ákvæði eftir hljóðan sinni, þannig að G hafi með þessu tekið að sér greiðslu þeirrar skuldar, sem tryggingarbréfið stóð til tryggingar á, sem var yfirdráttarskuld K. Var þá jafnframt litið til þess að yfirtaka skuldbindingar samkvæmt tryggingarbréfi við fasteignakaup, sem ekki tæki jafnframt til skulda þeirra, er að baki byggju, væri merkingarlaus og gæti ekki verið hluti af greiðslu kaupverðs fasteignarinnar. Samkvæmt skýru ákvæði kaupsamnings aðila skyldi gera vexti og verðbætur af yfirteknum lánum upp miðað við afhendingardag. Var tekin til greina krafa K um greiðslu vaxta frá því tímamarki. Þá var fallist á kröfu G um að viðurkennd yrði til skuldajafnaðar krafa hans vegna brunatryggingariðgjalda fasteignarinnar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 21. mars 2002. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda, en til vara að hann verði ekki dæmdur til að greiða stefnda hærri fjárhæð en 633.533 krónur. Að því frágengnu krefst áfrýjandi þess að hann verði ekki dæmdur til greiðslu hærri fjárhæðar en 650.638 krónur. Í öllum tilfellum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Verði fallist á greiðsluskyldu hans krefst hann þess að viðurkennd verði til skuldajafnaðar krafa hans á hendur stefnda að fjárhæð 125.774 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. ágúst 2000 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Stefndi krefst þess aðallega að héraðsdómur verði staðfestur, en til vara að áfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 832.198 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga frá 26. ágúst 1999 til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
I.
Áfrýjandi gerði stefnda kauptilboð í fasteignina Sólvallagötu 80 í Reykjavík 18. júní 1999. Var kaupverð samkvæmt tilboðinu 52.000.000 krónur og skyldi afhenda eignina við gerð kaupsamnings. Kauptilboðið var gert á staðlað eyðublað frá fasteignasölunni Valhöll. Voru á eyðublaðinu reitir, þar sem í fjórum stafliðum var gert ráð fyrir að tiltekin væri tilhögun greiðslu kaupverðs. Í A-reitnum, sem bar yfirskriftina „greiðslutilhögun útborgunar“, var í fyrsta lagi gert ráð fyrir að við undirritun kaupsamnings yrðu greiddar 9.000.000 krónur, en í öðru lagi að yfirtekin væri „skuld sparisj. RVK og nágg“ að fjárhæð 43.000.000 krónur. Þannig var greiðslutilhögun kaupverðs samkvæmt tilboðinu tiltekin í heild í þessum reit og voru aðrir reitir eyðublaðsins varðandi greiðslutilhögun því ekki útfylltir, þeirra á meðal B-reiturinn, þar sem gert var ráð fyrir sundurliðun áhvílandi veðskulda, sem kaupandi yfirtæki. Þá var í tilboðinu ákvæði þess efnis að veðskuld væri á 1. veðrétti eignarinnar að fjárhæð 43.000.000 krónur, sem kaupandi yfirtæki „með fyrirvara að Sparisjóðurinn samþykki kaupanda sem lántakanda.“ Stefndi samþykkti þetta kauptilboð samdægurs.
Aðilar gerðu með sér kaupsamning um eignina 5. júlí 1999. Var hann ritaður á eyðublað frá sömu fasteignasölu og kauptilboðið. Þar var kveðið á um að afhending færi fram samdægurs, en afsal yrði gefið út 1. ágúst þess árs. Í samræmi við hið samþykkta tilboð var kaupverðið 52.000.000 krónur. Varðandi greiðslutilhögun þess voru á eyðublaðinu sams konar reitir til útfyllingar og á kauptilboðseyðublaðinu, sem að framan var lýst. Var heildarfjárhæð kaupverðs sem fyrr tilgreind í A-reitnum, „greiðslutilhögun útborgunar“, en nú sundurliðuð í þrjá liði. Í fyrsta lagi skyldi greiða í peningum við undirritun kaupsamnings 8.000.000 krónur. Í öðru lagi skyldi greitt „með yfirt. á skuld við SPRON skv. tryggingarbréfi útg. 28.01.99“ sem hvíldi á 1. veðrétti, að fjárhæð 43.000.000 krónur. Var í skýringartexta tekið fram að hin „yfirtekna skuld“ væri miðuð við „verðlag og fjárhæð í dag kr. 43.000.000,-“. Í þriðja lagi skyldi greiða 1.000.000 krónur með peningum þann 1. ágúst 1999. Í kaupsamningnum var sami fyrirvari og í kauptilboðinu varðandi samþykki sparisjóðsins á kaupanda sem lántakanda varðandi þá skuld, sem kaupandi yfirtók. Þá voru bæði í kauptilboði og kaupsamningi ákvæði um að vextir reiknist ekki á útborgunargreiðslur samkvæmt A-lið, sem og ákvæði um að vextir og verðbætur af yfirteknum lánum skyldu gerðar upp miðað við afhendingardag.
Tryggingarbréf það, sem vísað var til í kaupsamningnum, var gefið út 28. janúar 1999 af stefnda til tryggingar á greiðslu hvers konar skulda, sem hann kynni að vera í við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis, allt að 43.000.000 krónur auk verðbóta, dráttarvaxta og kostnaðar. Kveður stefndi einu skuld sína við sparisjóðinn, sem bréfið stóð til tryggingar á, hafa á þessum tíma verið vegna yfirdráttar á tékkareikningi hans. Hefur það ekki sætt andmælum áfrýjanda. Hins vegar greinir aðila á um hvort við kaupsamningsgerðina hafi verið rætt um hvaða skuldir stæðu að baki tryggingarbréfinu og kveður áfrýjandi sér hafa á þessum tíma verið ókunnugt um hverjar þær væru. Daginn eftir undirritun kaupsamningsins greiddi stefndi inn á tékkareikning sinn, þannig að yfirdráttur á honum stóð í 43.000.000 krónum eftir þá innborgun.
Eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi var með þremur yfirlýsingum 11. ágúst 1999 gengið frá skilmálabreytingum á tryggingarbréfinu, þannig að eftir það stóð bréfið til tryggingar á skuldum áfrýjanda við Landsbanka Íslands hf., sem tók jafnframt að sér að greiða 43.000.000 krónur inn á framangreindan tékkareikning stefnda hjá sparisjóðnum.
Afsal var gefið út 16. ágúst 1999 fyrir hinni seldu eign. Var í því meðal annars tekið fram að uppgjör vegna vaxta af áhvílandi lánum hefði farið fram milli aðila. Hinn 26. sama mánaðar greiddi Landsbankinn 43.000.000 krónur inn á fyrrgreindan tékkareikning stefnda í sparisjóðnum. Lýtur ágreiningur aðila að greiðslu vaxta af yfirdráttarskuld þeirri, er margnefnt tryggingarbréf stóð til tryggingar fyrir, á tímabilinu frá afhendingu eignarinnar 5. júlí 1999 fram til 26. ágúst sama árs, er Landsbankinn innti framangreinda greiðslu af hendi.
II.
Samkvæmt orðalagi fyrrgreindra ákvæða í samþykktu kauptilboði og kaupsamningi yfirtók áfrýjandi skuld stefnda við Sparisjóð Reykjavíkur og nágrennis að fjárhæð 43.000.000 krónur. Er enginn annar kostur tækur en að skýra þessi ákvæði eftir hljóðan sinni, enda fól tryggingarbréfið sem slíkt ekki í sér annað en veðtryggingu fyrir öllum skuldum, sem stefndi kynni að vera í við sparisjóðinn, innan þar greinds hámarks. Verður samkvæmt því að líta svo á að áfrýjandi hafi með þessu tekið að sér greiðslu þeirrar skuldar, sem áðurgreint tryggingarbréf stóð til tryggingar á, en það var samkvæmt framanskráðu yfirdráttarskuld á tékkareikningi stefnda. Er þá jafnframt litið til þess að yfirtaka skuldbindingar samkvæmt tryggingarbréfi við fasteignakaup, sem ekki tæki jafnframt til skulda þeirra, er að baki byggju, væri merkingarlaus og gæti ekki verið hluti af greiðslu kaupverðs fasteignarinnar. Getur engu breytt um þessa niðurstöðu að greiðsla með skuldayfirtöku samkvæmt tryggingarbréfinu var færð undir A-reit á eyðublaði kauptilboðs og kaupsamnings sem hluti útborgunar, en ekki undir B-reitinn, sem ætlaður var fyrir áhvílandi veðskuldir sem kaupandi yfirtæki. Það gerir heldur ekki sú ráðagerð kaupanda að greiða skuldina upp með nýju láni frá sparisjóðnum, sem kann að hafa búið að baki fyrrgreindum fyrirvara í kauptilboði og kaupsamningi varðandi yfirtökuna, en hann laut sem áður segir að því að sparisjóðurinn samþykkti áfrýjanda sem lántakanda.
Samkvæmt skýru ákvæði kaupsamnings aðila skyldi gera vexti og verðbætur af yfirteknum lánum upp miðað við afhendingardag. Er það í samræmi við ríkjandi venju í fasteignaviðskiptum. Óumdeilt er að yfirdráttarskuld á tékkareikningi stefnda, sem áfrýjandi tók að sér samkvæmt framansögðu, bar á því tímabili, er hér um ræðir, 16,4% ársvexti. Þar sem vaxtaútreikningur stefnda hefur ekki sætt tölulegum andmælum verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að taka til greina kröfu hans um greiðslu 985.348 króna ásamt dráttarvöxtum, eins og nánar greinir í dómsorði.
Áfrýjandi krefst þess að viðurkennd verði til skuldajafnaðar krafa sín að fjárhæð 125.774 krónur. Um er að ræða brunatryggingariðgjöld vegna hinnar seldu eignar fyrir tímabilið 3. mars 1999 til 5. júlí sama árs ásamt áföllnum dráttarvöxtum og kostnaði, sem áfrýjandi greiddi samkvæmt gögnum málsins 14. júlí 2000. Fallast verður á að stefnda hafi borið að standa straum af iðgjöldum vegna brunatryggingar hinnar seldu eignar fram að afhendingu hennar, sem og vöxtum og kostnaði, sem leiddi af því að þau voru ekki greidd í tíma, en upphaf tryggingartímabilsins var samkvæmt gögnum málsins 3. mars 1999, sem jafnframt var gjalddagi iðgjaldsins samkvæmt 2. mgr. 12. gr. laga nr. 20/1954 um vátryggingarsamninga. Áfrýjandi krefst fyrir Hæstarétti dráttarvaxta af skuldajafnaðarkröfu sinni frá 1. ágúst 2000 til greiðsludags. Við munnlegan málflutning fyrir Hæstarétti var því lýst yfir af áfrýjanda að sú vaxtakrafa tæki til allrar skuldajafnaðarkröfunnar þótt í héraðsdómi, sem ekki var gagnáfrýjað, hafi verið fallist á hluta kröfunnar og hann dreginn frá aðalkröfu, sem bar dráttarvexti frá 26. ágúst 1999. Verður samkvæmt framanskráðu viðurkennd heimild áfrýjanda til að skuldajafna 125.774 krónum, sem komi til frádráttar kröfu stefnda eins og nánar greinir í dómsorði.
Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, eins og nánar segir í dómsorði.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Gissur og Pálmi ehf., greiði stefnda, Kristjáni Stefánssyni, 859.574 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 985.348 krónum frá 26. ágúst 1999 til 1. ágúst 2000 og af 859.574 krónum frá þeim degi til 1. júlí 2001, en samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá þeim degi til greiðsludags.
Ákvæði héraðsdóms um málskostnað skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefnda 300.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 25. janúar 2002.
I.
Mál þetta, sem dómtekið var miðvikudaginn 9. janúar sl., er höfðað fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur af Kristjáni Stefánssyni, kt. 030364-7919, Tjarnarmýri 41, Seltjarnarnesi, með stefnu birtri 8. marz 2001 á hendur Gissuri og Pálma ehf., kt. 560589-1159, Staðarseli 6, Reykjavík, en stjórnarformaður félagsins er Pálmi Ásmundsson, kt. 130947-3879, Þverárseli 2, Reykjavík, og er honum stefnt f.h. þess.
Dómkröfur stefnanda eru þær aðallega, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 985.348, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987, ásamt síðari breytingum, frá 26. ágúst 1999 til greiðsludags, auk vaxtauppfærslu á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 26. ágúst 2000. Til vara er þess krafizt, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda kr. 832.198, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxalaga nr. 25/1987, ásamt síðari breytingum frá 26. ágúst 1999 til greiðsludags, auk vaxtauppfærslu á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 26. ágúst 2000. Þá krefst stefnandi málskostnðar úr hendi stefnda að mati dómsins, auk virðisaukaskatts.
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Til vara er þess krafizt, að stefndi verði ekki dæmdur til að greiða hærri fjárhæð en kr. 633.533. Til þrautavara er þess krafizt, að stefndi verði ekki dæmdur til að greiða hærri fjárhæð en kr. 650.638. Í öllum tilfellum er sú krafa gerð, að stefnandi greiði stefnda málskostnað að mati dómsins. Þá er sú krafa gerð, verði greiðslukrafa á annað borð viðurkennd til stefnanda, að viðurkennd verði til skuldajafnaðar krafa stefnda á hendur stefnanda að fjárhæð kr. 149.634, auk dráttarvaxta skv. III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 1. ágúst 2000 til greiðsludags auk höfuðstólsfærslu vaxta frá l. ágúst 2001.
II.
Málavextir:
Með kauptilboði, dags. 18. júní 1999, gerði stefndi kauptilboð í fasteignin stefnda, Sólvallagötu 80, Reykjavík. Tilboðið hljóðaði um greiðslu á kr. 52.000.000, og skyldu kr. 9.000.000 greiðast við undirritun kaupsamnings, en eftirstöðvarnar, kr. 43.000.000, með yfirtöku á skuld stefnanda við SPRON að sömu fjárhæð. Afhending eignarinnar skyldi fara fram við undirritun kaupsamnings. Samkvæmt 4. tl. staðlaðs texta kauptilboðsins segir m.a., að vexti og verðbætur á vexti af yfirteknum lánum skuli seljandi gera upp við kaupanda miðað við afhendingardag. Stefnandi samþykkti kauptilboðið sama dag. Kaupsamningur var undirritaður af aðilum 5. júlí 1999, en samkvæmt honum skyldi kaupverðið greiðast með kr. 8.000.000 í peningum við undirritun samningsins, kr. 1.000.000 í peningum þann 1. ágúst 1999 og kr. 43.000.000 með yfirtöku á skuld við SPRON samkvæmt tryggingarbréfi, útg. 28.01.99, áhvílandi á 1. veðrétti, og skyldi hin yfirtekna skuld miðuð við verðlag og fjárhæð þann 5. júlí 1999. Tryggingarbréfið var allsherjar tryggingarbréf til tryggingar öllum skuldum stefnanda við SPRON. Kveður stefnandi tryggingarbréfið á þessum tíma einvörðungu hafa staðið til tryggingar yfirdráttarskuld stefnanda við SPRON á tékkareikningi nr. 2027 við útibú SPRON Seltjarnarnesi. Hinn 6. júlí 1999 greiddi stefnandi inn á reikning sinn nr. 2027 við SPRON kr. 1.769.037,08, og stóð skuld hans við SPRON þá í kr. 43.000.000, sem samsvaraði hinni yfirteknu fjárhæð stefnda á skuld stefnanda við SPRON.
Með yfirlýsingu, dags. 11. ágúst 1999, var ákvæðum tryggingarbréfsins skilmálabreytt þannig, að það stóð þá aðeins til tryggingar skuldum stefnda, Gissurar og Pálma ehf., við SPRON. Með yfirlýsingu sama dag óskaði stefndi eftir því, að Landsbanki Íslands hf. greiddi kr. 43.000.000 inn á reikning stefnda við SPRON nr. 1894, sem Landsbanki Íslands hf. staðfesti fyrir sitt leyti. Með þriðju yfirlýsingunni, dags. sama dag, var handhöfn tryggingarbréfsins framseld til Landsbanka Íslands hf. samkvæmt þríhliða samkomulagi á milli stefnda, SPRON, og Landsbanka Íslands hf. Þann 16. ágúst s.á. gaf stefnandi út afsal til stefnda fyrir hinni seldu fasteign.
Eftir að Landsbanki Íslands hf. hafði tekið yfir tryggingarbréf SPRON, og eftir að greiðsla að fjárhæð kr. 43.000.000 hafði borizt hinn 26. ágúst 1999 inn á reikning stefnda hjá SPRON, krafðist stefnandi þess, að stefndi gerði upp vexti, sem fallið höfðu á yfirdráttarlánið frá 6. júlí til 26. ágúst 1999. Samkvæmt upplýsingum frá SPRON í bréfi sparisjóðsins, dags. 15. nóvember 2000, námu yfirdráttarvextir á skuldinni 10,4% auk 6 % heimildargjalds, en dagvextir voru 16,4%, eftir að farið var að meðhönda yfirdráttarskuldina með þeim hætti. Í ódagsettu bréfi SPRON á dskj. nr. 23, kemur fram, að bankinn hafi gert ráð fyrir, að stefnandi og stefndi myndu gera sjálfir upp vexti af yfirdráttarláninu sín í milli.
Ágreiningur aðila snýst um greiðslu framangreindra vaxta af láninu tímabilið 6. júlí til 26. ágúst 1999.
III.
Málsástæður stefnanda:
Kröfugerð stefnanda byggir á því, að stefndi hafi yfirtekið yfirdráttarlán hans við SPRON ásamt tilheyrandi tryggingarbréfi hinn 5. júlí 1999, þ.e. við undirritun kaupsamnings aðila og afhendingu hinnar seldu fasteignar. Kauptilboð, kaupsamningur og afsal beri með sér, að stefndi beri ábyrgð á greiðslu vaxta af skuldinni frá afhendingardegi fasteignarinnar til greiðsludags. Með sama hætti sé það viðskiptavenja í fasteignakaupum að yfirtaka veðskulda og uppgjör vaxta milli kaupanda og seljanda miðist við afhendingardag. Eins og dskj. nr. 23 beri með sér, hafi stefnda staðið til boða að taka yfir skuld stefnanda við SPRON með formlegum hætti og skuldskeytingu. Hinn 26. ágúst 1999, eftir að tryggingarbréf SPRON var framselt til Landsbanka Íslands hf., hafi verið greiddar kr. 43.000.000 inn á skuld stefnanda við SPRON, en engin tilraun gerð til þess að greiða áfallna samningsvexti hinnar yfirteknu veðskuldar á tímabilinu frá afhendingu eignarinnar. Vaxtakrafa SPRON á hendur stefnanda vegna skuldarinnar sé sama fjárhæð og stefnandi endurkrefji stefnda um nú.
Stefnandi byggi kröfugerð sína á samningi aðila og almennum reglum samningaréttarins, þ.m.t. um efndir skuldbindinga, vanefndaúrræði og greiðslu skaðabóta innan samninga vegna vanefnda. Einnig sé byggt á venju í fasteignaviðskiptum. Stefnda hafi verið, eða átt að vera ljóst, að yfirtaka hans á veðskuldinni við SPRON hafi jafnframt falið í sér yfirtöku á áfallandi vöxtum skuldarinnar frá afhendingardegi fasteignarinnar til greiðsludags. Hugsanleg mistök SPRON við innheimtu vaxta af skuldinni gagnvart stefnda, sem enn hafi verið skráð skuld stefnanda, breyti engu um greiðsluskyldu stefnda gagnvart stefnanda.
Stefnandi byggir varakröfu sína á því, að stefnda beri a.m.k. að greiða stefnanda meðaltalsvexti banka og sparisjóða af hinni yfirteknu veðskuld, verði talið, að ekki hafi nægjanlega legið ljóst fyrir, hver vaxtakjör voru á skuldinni. Stefndi hafi ekki getað búizt við að yfirtaka veðskuldina á hagstæðari vöxtum, með vísan til veðsetningarhlutfalls.
Málskostnaðarkröfu sína byggir stefnandi á 129. og 130. gr. eml. Þar sem stefnandi sé ekki virðisaukaskattskyldur, sé þess jafnframt krafizt, að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda virðisaukaskatt á málflutningsþóknun.
Fjárhæð aðalkröfu stefnanda byggir á greiðslu 16,4% ársvaxta af kr. 43.000.000 frá 6. júlí til 26. ágúst 1999, þ.e. í 51 dag. Kr. 43.000.000 x 16,4% = kr. 7.052.000 deilt með 365 dögum x 51 dagur = kr. 985.348, sem séu þau kjör, sem stefnandi hafi haft hjá SPRON á tilgreindu tímabili. Krafizt sé, að stefndi greiði dráttarvexti af fjárhæðinni frá 26. ágúst 1999 til greiðsludags, auk höfuðstólsfærslu á 12 mánaða fresti í samræmi við upplýsingar SPRON.
Fjárhæð varakröfu stefnanda byggi á því, að stefndi greiði meðaltalsvexti banka og sparisjóða af óverðtryggðum skuldabréfum samkvæmt útreikningi Seðlabanka Íslands samkvæmt vaxtalögum af kr. 43.000.000 frá 6. júlí til 26. ágúst 1999. Þessir vextir séu 13,8% frá 6. júlí til l. ágúst, en 13,9% frá þeim degi til 26. ágúst 1999. Samtals sé fjárhæðin kr. 832.198.
Málsástæður stefnda:
Stefndi kveður útilokað, að honum beri að greiða vexti af yfirdráttarreikningi stefnanda. Aldrei hafi staðið til, að stefndi yfirtæki yfirdráttarreikning stefnanda, og hann hefði sennilega aldrei fallizt á það, þótt eftir því hefði verið leitað og alls ekki, ef stefndi hefði vitað hvaða kjör voru á reikningnum.
Stefndi vísar til þess, að hann hafi yfirtekið skuld við sparisjóðinn samkvæmt tryggingarbréfi að fjárhæð kr. 43.000.000, en alls ekki hafi verið tekið fram, að hann yfirtæki yfirdráttarskuld stefnanda, enda komi hvergi fram um yfirtöku á reikningi með ákveðnu númeri.
Þá vísar stefndi til þess, að samkvæmt A-lið greiðslutilhögunar útborgunar í kaupsamningi komi sérstaklega fram neðanmáls, að vextir samkvæmt A-lið greiðist ekki. Enginn sérstakur yfirtökudagur á tryggingarbréfinu hafi verið ákveðinn, en aðeins sagt, að hin yfirtekna skuld sé miðuð við "verðlag og fjárhæð í dag kr. 43.000.000", en þá sé átt við, að verðmæti tryggingarbréfsins sé kr. 43.000.000, en ekki önnur hærri fjárhæð miðað við dráttarvaxtaberandi ákvæði bréfsins frá útgáfudegi.
Stefndi kveðst leggja á það áherzlu, að sá dráttur, sem orðið hafi á endanlegri yfirtöku tryggingarbréfsins, hafi alls ekki verið honum að kenna. Í kaupsamningnum komi eftirfarandi fram neðanmáls á bls 2: "Veðskuld er á eigninni á 1. veðrétti kr. 43.000.000, sem kaupandi yfirtekur með fyrirvara að Sparisjóðurinn samþykki kaupanda sem lántakanda (sic)." Það hafi alfarið verið undir sparisjóðnum komið og á hans ábyrgð, hvenær og hvernig yrði frá því gengið, að stefndi yfirtæki tryggingarbréfið. Því sé haldið fram, að sparisjóðurinn eigi sjálfur að bera ábyrgð á því, að hann fái ekki greidda vexti vegna tryggingarbréfsins.
Þá undirstriki stefndi, að sparisjóðurinn hafi tekið að sér að annast pappírsvinnu fyrir stefnanda varðandi yfirtöku tryggingarbréfsins. Einhver dráttur hafi orðið á þeim frágangi, en við samningsgerðina hafi ekki verið gert ráð fyrir, að stefndi tæki á sig þann kostnað, sem á gæti fallið vegna seinkunar á frágangi. Stefnandi og hans banki hafi tekið að sér að ganga frá pappírsvinnunni, eins og seljanda beri alltaf skylda til að gera í fasteignaviðskiptum, og það hafi verið af þeirra völdum, sem einhver kostnaður hlóðst upp á reikningi stefnanda. Sé sá kostnaður stefnda óviðkomandi.
Stefndi vísi til þess, að eignin hafi verið keypt á háu verði, og mun hærra verði en hún hafði verið boðin á ekki löngu áður.
Að því er varði varakröfuna, telji stefndi útlokað, komist dómurinn að því, að stefnda beri að greiða vexti, að sú vaxtagreiðsla geti numið hærri fjárhæðum en sem nemi þeim vöxtum, sem stefnanda hafi borið að greiða af yfirdráttarreikningi sínum. Samkvæmt reikningsyfirliti á dskj. nr. 15 nemi vextir á yfirdráttarreikningnum 10.40% á ári. Samkvæmt því nemi vextir á reikningnum í 51 dag kr. 633.533. Heimildargjaldið sé stefnda með öllu óviðkomandi og fái það aldrei staðizt, að honum beri að greiða það, enda sé um að ræða gjald, sem taki miklum breytingum eftir því, hver viðskiptamanna banka eigi í hlut.
Að því er varði þrautavarakröfuna, vísi stefndi til þess, að sú hæsta greiðsla, sem stefnda geti hugsanlega borið að greiða, sé ekki hærri en sem nemi útreikningi með breytingu á neyzluverðsvístölu milli mánaðanna júlí og ágúst, auk 8% vaxta samkvæmt álagi K3 hjá sparisjóðunum, sbr. dskj. nr. 16. Samkvæmt því bæri stefnda ekki að greiða hærri fjárhæð en kr. 650.638.
Skuldajafnaðarkrafa stefnda er byggð á því, að hann hafi orðið að greiða lögboðna tryggingu fasteignarinnar að Sólvallagötu 80 fyrir tímabil, áður en hann eignaðist eignina þann 5. júlí 1999. Kröfu þessa efnis hafi verið beint til stefnda með innheimtubréfi frá lögmanni Tryggingamiðstöðvarinnar dags. 6. júlí 2000. Stefndi hafi ekkert annað úrræði séð en að greiða kröfuna til að forðast frekara tjón.
Stefndi vísar til meginreglna kröfuréttar og samningalaga. Málskostnaðarkrafan er byggð á 129. og 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991.
IV.
Forsendur og niðurstaða:
Stefnandi gaf skýrslu fyrir dóminum og enn fremur framkvæmdastjóri stefnda, Gissur Rafn Jóhannesson, Kristinn Kolbeinsson, löggiltur fasteignasali, og Stefán Kristjánsson, faðir stefnanda.
Samkvæmt kaupsamningi aðila skyldi stefndi yfirtaka skuld við SPRON samkvæmt tryggingarbréfi, útgefnu 28.01.1999, áhvílandi á 1. veðrétti, að fjárhæð kr. 43.000.000, og var sú fjárhæð miðuð við verðlag á dagsetningardegi samningsins, 5. júlí 1999. Hvorki í kaupsamningi né tilboði er greint frá því, hvaða skuld liggi að baki tryggingarbréfinu. Í tryggingarbréfinu sjálfu kemur fram, að það stendur til tryggingar öllum skuldum skuldara við sparisjóðinn, “hvort sem eru víxilskuldir ..., yfirdráttur á tékkareikningi, skuldbréfalán, erlend endurlán ....” Gissur Rafn skýrði svo frá fyrir dóminum, að hann hafi fyrst vitað um vextina á láninu, þegar krafa stefnanda var gerð. Við gerð afsals hafi ekkert verið talað um vexti, fasteignasalinn hafi bara spurt, hvort eitthvað væri óuppgert, en svo hafi ekki verið, og hafi hann því bara lagt þá merkingu í það, að þeir væru kvittir. Hann kvað stefnda aldrei hafa vitað, hvernig lán stóð að baki tryggingarbréfinu, og það hafi aldrei komið fram. Stefndi hafi ekki átt að yfirtaka skuldina fyrr en 1. ágúst, en hafi gert það um miðjan ágúst, þegar stefnandi var tilbúinn með skjölin. SPRON hafi tekið að sér að sjá um pappírsvinnuna vegna afsalsgerðarinnar, og hafi greiðsla farið fram af hálfu stefnda, þegar eftir því var kallað. Landsbankinn hafi yfirtekið tryggingarbréfið að beiðni stefnda, sem hafi gengið frá sínum tryggingum við Landsbankann, en hann kvaðst ekki vita, hvers vegna Landsbankinn greiddi ekki strax, hann hafi verið búinn að reka á eftir þessu. Þetta hafi verið mál milli Sparisjóðsins og Landsbankans. Það hafi verið ákvörðun Landsbankans að greiða upp lánið.
Telja verður, að orðalag tryggingarbréfsins hafi átt að gefa stefnda, sem er vanur aðili í fasteignaviðskiptum, ástæðu til að leita eftir því við stefnanda, hvers kona skuld eða skuldir stóðu að baki því. Getur hann ekki borið fyrir sig, að hann hafi ekki vitað eða mátt vita, hvers eðlis skuldin var, sem hann yfirtók.
Umdeild veðskuld er tilgreind undir A-lið kaupsamningsins, en þar fyrir neðan segir m.a.: “Vextir samkvæmt A-lið reiknast ekki. Þó greiðast lögmætir dráttarvextir ef ekki er greitt á gjalddaga.” Undir B-lið, þar sem gert er ráð fyrir, að áhvílandi veðskuldir séu tilgreindar, segir hins vegar, að áhvílandi veðskuldir séu yfirteknar, eins og þær standi við samþykki kauptilboðs, þ.e. framreiknaður höfuðstóll í skilum og án áfallinna vaxta. Í 4. tl. samningsins er þetta áréttað, en síðan segir í 5. tl. að vexti og verðbætur af yfirteknum lánum skuli seljandi gera upp við kaupanda miðað við afhendingardag. Þá kemur fram í samningnum, að kaupandi yfirtaki veðskuldina með fyrirvara um, að Sparisjóðurinn samþykki hann sem lántaka. Þá segir í 19. tl. samningsins: “Seljandi skal sjá um að tilkynna skuldaraskipti á yfirteknum lánum nú þegar.”
Afhending fasteignarinnar fór fram við undirritun kaupsamnings. Bar stefnanda að tilkynna og leita eftir samþykki Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis um skuldaraskiptin þegar í stað. Yfirlýsing frá sparisjóðnum þar að lútandi er fyrst dagsett 11. ágúst 1999, og tóku skuldaraskiptin gildi þann dag gagnvart sparisjóðnum. Í afsalinu, sem dagsett er 16. ágúst 1999, segir m.a.: “Kaupandi yfirtekur lán á 1. veðrétti að fjárhæð upphaflega 43.000.000,- ...” Orðalag þetta er frábrugðið orðalagi í kaupsamningi, þar sem fjárhæðin er sögð kr. 43.000.000 miðað við dagsetningu kaupsamnings, og felur í sér að hin yfirtekna fjárhæð er önnur en greinir í kaupsamningi. Þá segir enn fremur svo í afsalinu: “Áhvílandi veðskuldir voru yfirteknar eins og þær stóðu við samþykki kauptilboðs, þ.e. framreiknaður höfuðstóll í skilum og án áfallinna vaxta. Einnig segir: “Kaupandi hirðir arð eignarinnar frá afhendingardegi og greiðir jafnframt af henni skatta og skyldur frá sama tíma. Umsamið kaupverð er að fullu greitt, m.a. með því að kaupandi hefur tekið að sér að greiða áhvílandi veðskuldir.”
Öll framangreind ákvæði styðja þær fullyrðingar stefnanda, að hin raunverulega yfirtaka skuldarinnar gagnvart stefnanda hafi farið fram við undirritun kaupsamnings, að því skilyrði fullnægðu, að sparisjóðurinn samþykkti skuldaraskiptin. Þessi niðurstaða fær enn frekari stoð í ákvæði í afsali, þar sem segir, að uppgjör vegna opinberra gjalda og vaxta af áhvílandi lánum hafi farið fram milli aðila, en það verður að skilja svo, þar sem fyrir liggur, að ekkert vaxtauppgjör fór fram við afsalsgerðina sjálfa, að frá því hafi verið gengið miðað við dagsetningu kaupsamnings, og að stefndi ábyrgðist greiðslu vaxta frá þeim tíma. Þegar litið er til þess, að stefndi hafði verulega reynslu í fasteignaviðskiptum, þykir hann hafa mátt gera ráð fyrir, að skuldin væri vaxtaberandi frá þeim tíma, sem hann yfirtók hana. Hefur stefndi ekki sýnt fram á, eða gert sennilegt, að hann hafi ekki mátt kynna sér vaxtakjörin.
Fyrir liggur að svokallað heimildargjald var hluti af þeim vaxtakjörum sem voru á láninu, og er ekki fallizt á, að stefndi sé undanþeginn greiðslu þess, enda er ósannað, svo sem fyrr er rakið, að hann hafi ekki átt þess kost að kynna sér lánskjörin.
Þar sem vaxtaútreikningar stefnanda eru óumdeildir, verður krafa stefnanda tekin til greina, eins og hún er fram sett í aðalkröfu og dæmast dráttarvextir eins og greinir í dómsorði. Hins vegar kemur til skoðunar skuldajafnaðarkrafa stefnda, kr. 149.634. Stefnandi hefur mótmælt þessari fjárhæð, en fellst á að hann eigi að greiða kr. 88.337 vegna tímabilsins 3. marz 1999 til 5. júlí s.á. Eru aðilar sammála um, að sú fjárhæð sé rétt vegna þessa tímabils, en krafa stefnda sýnist ná yfir lengra tímabil. Í greinargerð er lengd tímabilsins ekki getið, eða hvernig fjárhæðin er fundin. Hvorki verður ráðið af framlögðum gögnum stefnda, hvernig fjárhæðin er fundin, né til hvaða tímabils hún tekur. Er skuldajafnaðarkrafan því svo vanreifuð, að hún verður ekki tekin til greina að öðru leyti en með þeirri fjárhæð, sem aðilar hafa orðið ásáttir um, að stefnanda beri að greiða fyrir tímabilið 3. marz til 5. júlí.
Eftir þessum úrslitum ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 230.000, og hefur þá verið tekið tillit til virðisaukaskatts.
Sigríður Ólafsdóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.
D Ó M S O R Ð :
Stefndi, Gissur og Pálmi ehf., greiði stefnanda, Kristjáni Stefánssyni, kr. 896.769, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 26. ágúst 1999 til 1. júlí 2001, en með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. l. nr. 38/2001 frá þeim degi til greiðsludags, og leggjast vextirnir við höfuðstól á 12 mánaða fresti, í fyrsta sinn 26. ágúst 2000. Þá greiði stefndi stefnanda kr. 230.000 í málskostnað.