Hæstiréttur íslands

Mál nr. 196/1999


Lykilorð

  • Skaðabætur
  • Líkamstjón


           

Fimmtudaginn 11. nóvember 1999.

Nr. 196/1999.

Hraðfrystihús Eskifjarðar hf.

(Guðmundur Pétursson hrl.)

gegn

Runólfi Ómari Jónssyni

(Ólafur Garðarsson hrl.)

                                              

Skaðabætur. Líkamstjón.

R varð fyrir slysi á leið sinni í vinnu um borð í skip. Við uppgjör slysabóta varð ágreiningur um við hvaða tímamark ætti að miða að ástand R hefði verið orðið með þeim hætti að hann hefði ekki getað vænst frekari bata í skilningi skaðabótalaga. Við úrlausn málsins var stuðst við niðurstöðu örorkunefndar.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Arnljótur Björnsson og Gunnlaugur Claessen.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 17. maí 1999. Hann krefst aðallega sýknu og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, en til vara að kröfur stefnda verði lækkaðar og málskostnaður felldur niður.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Slys það, sem mál þetta reis af, varð 24. ágúst 1993 eða löngu áður en orðalagi 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 var breytt með lögum nr. 37/1999.

Ekki hafa verið lögð fram önnur læknisfræðileg gögn, sem máli skipta, en þau, sem örorkunefnd studdist við þegar hún lét í ljós álit 1. júlí 1997 og 5. nóvember sama árs. Fyrir héraðsdómi gáfu skýrslur formaður örorkunefndar og annar þeirra lækna, sem stóðu að áliti hennar. Auk þess kom fyrir dóm sérfræðingur í háls-, nef- og eyrnalækningum, sem gert hafði tvær aðgerðir á stefnda, aðra 22. ágúst 1994, en hina 6. febrúar 1995. Ekki er fallist á með áfrýjanda að framburður þessa læknis eða önnur gögn málsins hnekki niðurstöðu örorkunefndar. Verður héraðsdómur því staðfestur með skírskotun til forsendna hans.

Áfrýjandi skal greiða stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti, sem verður ákveðinn eins og í dómsorði segir.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Áfrýjandi, Hraðfrystihús Eskifjarðar hf., greiði stefnda, Runólfi Ómari Jónssyni, 150.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. mars 1999.

Mál þetta, sem dómtekið var þann 23. febrúar sl. að loknum munnlegum málflutningi, er höfðað með stefnu birtri 13. ágúst sl. af Runólfi Ómari Jónssyni, kt. 051252-5949, Hátúni 23, Eskifirði, gegn Hraðfrystihúsi Eskifjarðar, kt. 630169-4299, Strandgötu 39, Eskifirði, og Tryggingarmiðstöðinni hf., kt. 660269-2079, Aðalstræti 6-8, Reykjavík, til réttargæslu.

Dómkröfur stefnanda eru þær að stefnda verði dæmt skylt að greiða honum 2.072.213 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. mars 1998 til greiðsludags og að dráttarvextir bætist við höfuðstól á 12 mánaða fresti frá upphafsdegi þeirra, fyrst 5. mars 1999. Einnig er þess krafist að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Stefndi krefst aðallega sýknu af öllum kröfum stefnanda í málinu en til vara er krafist lækkunar. Í aðalkröfu er krafist málskostnaðar að mati dómsins en í varakröfu er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður.

Yfirlit um málsatvik og ágreiningsefni

Málsatvik eru þau að stefnandi varð fyrir slysi þann 24. ágúst 1993 á Eskifirði. Hann var þá á leið um borð í skipið Hólmaborg SU-11 en þar var hann háseti. Er hann gekk eftir bryggjunni var skyndilega strekkt á landfestum skipsins en við það þeyttist hann upp í loft og kom niður á höfuð og hægri öxl. Hann rotaðist og var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur og var hann lagður inn á Borgarspítalann.

Í læknisvottorði Friðriks K. Guðbrandssonar, sérfræðings á háls- nef- og eyrnadeild spítalans, sem dagsett er 17. október 1995, segir að stefnandi hafi fengið höfuðhögg, sem valdið hafi höfuðkúpubroti með klettbeinsbroti og liðhlaupi á steðja-/ístaðsmótum, með þar af leiðandi heyrnarskerðingu, og áverka á heyrnarkerfi sem geti valdið suði. Þar kemur einnig fram að aðgerð var gerð á eyranu þann 22. ágúst 1994 en þá hafi liðhlaupið á steðja-/ístaðsmótum komið í ljós. Gerð hafi verið tilraun til að koma því í réttar skorður en það hafi ekki gróið sem skyldi og því hafi enduraðgerð verið gerð þann 6. febrúar 1995. Í vottorði sama læknis frá 6. september 1996 segir að heyrnarmæling, sem fram fór 12. apríl 1996, hafi sýnt verulega skerta heyrn á hægra eyra.

Réttargæslustefndi leitaði álits örorkunefndar til ákvörðunar á varanlegri örorku og miskastigi stefnanda vegna líkamstjónsins sem stefnandi varð fyrir vegna slyssins. Samkvæmt áliti nefndarinnar, sem dagsett er 1. júlí 1997, var varanlegur miski metinn 25% og varanleg örorka 35%. Í álitinu kemur enn fremur fram að nefndin telji að stefnandi hafi ekki getað vænst frekari bata sem máli skiptir eftir 1. janúar 1995.

Með bréfi lögmanns stefnanda til örorkunefndar, dagsettu 21. ágúst 1997, er óskað eftir áliti nefndarinnar á því hvernig beri að skilja það álit nefndarinnar að stefnandi hafi ekki getað vænst frekari bata eftir 1. janúar 1995. Var í því sambandi m.a. vísað til þess að í læknisvottorði komi fram að stefnandi hafi farið í aðgerð þann 6. febrúar 1995. Hann hafi eðlilega verið frá vinnu vegna aðgerðarinnar og hafi hann ekki hafið vinnu að nýju fyrr en í september 1995. Í svarbréfi örorkunefndar frá 5. nóvember 1997 segir að nefndin fallist á þau sjónarmið, sem fram komi í framangreindu bréfi lögmannsins, að álit nefndarinnar um að stefnandi hafi ekki getað vænst frekari bata eftir 1. janúar 1995 standist ekki samkvæmt þeim gögnum sem fyrir lágu þegar álitið var gefið. Enn fremur að skekkjan sé þess eðlis að nefndinni sé heimilt með bókun að leiðrétta hana. Telur örorkunefnd að eftir 1. september 1995 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata vegna slyssins.

Réttargæslustefndi gerði athugasemdir við þessa málsmeðferð og niðurstöðu örorkunefndar með bréfi til nefndarinnar dagsettu 1. desember 1997. Var farið fram á að örorkunefndin tæki málið til efnislegrar meðferðar á ný og að hún tæki afstöðu til þeirra raka sem fram koma í bréfinu, að niðurstaða örorkunefndar verði rökstudd og loks að lögmanni stefnanda verði gerð grein fyrir framangreindum kröfum og honum gefinn kostur á að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Erindinu var svarað með bréfi örorkunefndar 17. desember sama ár. Þar segir m.a. að í gögnum málsins komi fram að um áramótin 1994/1995 hafi verið fyrirhuguð skurðaðgerð á tjónþola sem framkvæmd hafi verið 6. febrúar 1995. Áður en sú aðgerð hafi verið framkvæmd "hefði nefndin ekki talið að tjónþoli gæti vænst frekari bata af afleiðingum slyssins, enda telur nefndin að aðgerð þessi hafi ekki verið tilgangslaus". Þótt árangur af aðgerðinni hafi ekki verið sá sem vonast var til hafi niðurstaða af því ekki orðið ljós fyrr en nokkru síðar. Nefndin hafi því með bókuninni í nóvember 1997 verið að leiðrétta mistök sem hafi orðið við samningu álitsgerðarinnar að þessu leyti.

Réttargæslustefndi greiddi stefnanda bætur fyrir varanlega örorku og varanlegan miska samkvæmt uppgjöri dagsettu 4. desember 1997 en bæturnar voru reiknaðar út á grundvelli álits örorkunefndar frá 1. júlí 1997. Einnig fékk hann greiddar þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 og bætur fyrir tímabundið atvinnutjón frá slysdegi til 1. janúar 1995. Í uppgjörinu kemur enn fremur fram að samkomulag sé um að gera málið upp að öðru leyti en hvað varðar tímabundið atvinnutjón stefnanda þar sem aðilar væru ósammála um tímalengd þess og umfang.

Í málinu er ekki deilt um annað en það hvenær þess hafi ekki verið að vænta að stefnandi fengi frekari bata af meiðslunum sem hann hlaut við slysið. Af hálfu stefnda er því haldið fram að miða beri við að ekki hafi verið að vænta frekari bata eftir 1. janúar 1995. Stefnandi telur hins vegar að það hafi ekki verið fyrr en 1. september það ár sem hann hafi ekki getað vænst frekari bata og beri stefnda því að greiða honum bætur fyrir tímabundið atvinnutjón til þess tíma.

Málsástæður og lagarök stefnanda

Stefnandi vísar til þess að hann hafi slasast alvarlega á bryggjunni á Eskifirði þann 24. ágúst 1993 og hafi hann verið fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur. Þar hafi hann verið lagður inn á Borgarspítalann en komið hafi í ljós að lokinni skoðun að hann var verulega slasaður. Höfuðkúpubotn hafi verið brotinn og einnig klettbein í andliti. Þá hafi verið greind lömun í andlitstaugum. Blóð hafi verið í hægra miðeyra og sár í hlust. Einnig hafi komið í ljós rifa á hægri hljóðhimnu með tilheyrandi heyrnartapi og “hámarks leiðslutruflun heyrnar á hægra eyra með spurningu um rof í heyrnarbeinakeðjunni”.

Þar sem grunur hafi verið um rof í heyrnarbeinakeðjunni, sem af leiddi heyrnartap, hafi stefnanda verið fylgt eftir á göngudeild enda hafi hann búið við nær stöðugt suð í höfði og minnkaða heyrn á hægra eyra og er í því sambandi vísað til vottorðs Friðriks Guðbrandssonar háls-, nef- og eyrnalæknis, dagsettu 17. nóvember 1995 á dskj. nr. 13. Þegar í ljós hafi komið eftir heyrnarmælingu þann 3. júní 1994 að heyrn hafði ekki lagast hafi verið tekin ákvörðun um að kanna miðeyra og reyna að lagfæra í heyrnaraðgerð eins og fram komi í áðurgreindu vottorði.

Stefnandi hafi farið í aðgerð 22. ágúst 1994 en þá hafi komið í ljós að um “liðhlaup á steðja-ístaðsmótum var að ræða” en gerð hafi verið tilraun til að koma þessu í réttar skorður. Það hafi hins vegar ekki gróið sem skyldi. Þann 6. febrúar 1995 hafi því verið gerð enduraðgerð á hægra eyra og miðeyra. Miðeyra hafi verið endurbyggt með svokallaðri “partial ossicular replacement prosthesis, PORP gerð”. Um sé að ræða aðgerð þar sem smábein úr gerviefni sé sett í stað þess beins sem sé laskað. Aðgerðin hafi því miður ekki tekist fyllilega enda mjög erfið.

Þegar álitsgerð örorkunefndar lá fyrir hafi lögmaður annast gagnaöflun og kröfugerð fyrir stefnanda. Þá hafi náðst samkomulag um uppgjör við réttargæslustefnda að undanskildum bótum fyrir tímabundið atvinnutjón stefnanda þar sem aðilar hafi verið ósammála um tímalengd þess tjóns og umfang. Hafi því málið verið gert upp að öðru leyti þann 4. desember 1997 en settur fyrirvari í uppgjörið um tímabundið atvinnutjón að kröfu stefnanda.

Af hálfu stefnanda er því haldið fram að hann hafi ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum umrædds slyss fyrr en eftir 1. september 1995. Þangað til eigi stefnandi rétt á því að stefndi bæti honum tímabundið atvinnutjón. Stefndi hafi hins vegar aðeins bætt honum tímabundið atvinnutjón til 1. janúar 1995.

Í þessu sambandi byggir stefnandi á áliti örorkunefndar frá 1. júlí 1997 og leiðréttingu nefndarinnar á mistökum sínum varðandi dagsetningu á dskj. nr. 7.

Í upphaflegum niðurstöðum örorkunefndar segi að nefndin telji að eftir 1. janúar 1995 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata sem máli skipti. Þetta segi nefndin þrátt fyrir þá staðreynd að stefnandi hafi farið í aðgerð á eyra eftir þann dag. Réttargæslustefndi hafi túlkað þessa setningu þannig að ekki bæri að greiða bætur vegna tímabundinnar örorku eftir þessa dagsetningu. Þessu hafi stefnandi ekki unað og því hafi lögmaður hans ritað örorkunefnd bréf þann 21. ágúst 1997. Þar hafi nefndinni verið bent á að í gögnum málsins, sem nefndin hefði undir höndum, m.a. í læknisvottorði Friðriks Guðbrandssonar læknis á dskj. nr. 13, komi fram að stefnandi hefði farið í aðgerð á hæra eyra og miðeyra þann 6. febrúar 1995. Reynd hafi verið nokkuð flókin endurbygging á miðeyra sem að vísu hafi ekki skilað tilætluðum árangri. Engu að síður hafi stefnandi verið frá vinnu vegna aðgerðarinnar og ekki hafið vinnu á ný fyrr en í september 1995. Hafi einnig verið vakin athygli nefndarinnar á því að í málinu lægju fyrir nokkur dagpeningavottorð Auðbergs Jónssonar læknis sem sýndu að stefnandi hefði að áliti læknisins ekki fengið fullan bata.

Örorkunefnd hafi svarað stefnanda með bréfi þann 5. nóvember 1997. Þar hafi nefndin fallist á að framangreint tímamark stæðist ekki samkvæmt þeim gögnum sem lágu fyrir. Nefndin hafi einnig sagt að skekkjan væri þess eðlis að nefndinni væri með bókun heimilt að leiðrétta hana. Hafi nefndin talið að eftir 1. september 1995 hafi tjónþoli ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum slyssins.

Réttargæslustefnda hafi verið tilkynnt um þessa niðurstöðu örorkunefndar með bréfi dagsettu 10. nóvember 1997 og í kjölfarið hafi hann ritað nefndinni ítarlegt bréf þar sem m.a. hafi verið lagt að nefndinni að taka málið til efnislegrar meðferðar á ný. Örorkunefnd hafi svarað réttargæslustefnda með bréfi dagsettu 17. desember 1997 þar sem nefndin hafi ítrekað afstöðu sína, m.a. með þeim orðum að þó að árangur aðgerðarinnar í febrúar 1995 hafi ekki verið sá er vonast hafi verið til breyti það ekki þeirri staðreynd að niðurstaðan af aðgerðinni hafi ekki orðið ljós fyrr en nokkru síðar. Örorkunefndin hafi því með bókuninni verið að leiðrétta mistök sem orðið hefðu við samningu álitsgerðarinnar.

Það sé óumdeilt að stefnandi hafi gengist undir flókna aðgerð á miðeyra hægra eyra þann 6. febrúar 1995 þegar reynd var endurbygging á miðeyra. Þó að árangur aðgerðarinnar hafi ekki orðið sá sem stefnt hafi verið að hafi sú niðurstaða ekki orðið ljós fyrr en nokkru síðar. Það að árangur hafi ekki orðið af aðgerðinni breyti ekki þeirri staðreynd að aðgerðin hafi verið framkvæmd og stefnandi verið nokkuð lengi að ná sér eftir aðgerðina. Hann hafi því verið óvinnufær og eigi því rétt á að tímabundið atvinnutjón hans verði bætt af stefnda.

Aðgerðin hafi verið framkvæmd m.a. vegna þess að stefnandi hafi verið með þrálátan hljóm eða suð í eyra og verulega skerta heyrn. Talið sé að fólk geti lært að lifa með því en þarfnist þá stoðmeðferðar og er í því sambandi vísað til vottorðs Friðriks K. Guðbrandssonar læknis frá 6. september 1996 á dskj. nr. 16. Því hafi verið mjög eðlilegt að aðgerðin væri reynd. Í vottorði sama læknis frá 12. febrúar 1997 sjáist síðan að stefnandi eigi enn í veikindum sínum og hafi verið til lækninga á því ári. Enn fremur er vísað til dagpeningavottorðs Auðbergs Jónssonar læknis sem styðji álit örorkunefndar og staðfesti óvinnufærni stefnanda á þeim tíma er deila aðila taki til. Í vottorði læknisins frá 14. ágúst 1995 komi fram í 6. tl. að læknisaðgerðum sé ólokið. Stefnandi hafi farið í endurteknar aðgerðir og fari enn í eftirlit í ágúst það ár.

Stefnandi styður kröfur sínar við lög nr. 50/1993, einkum I. og II. kafla laganna. Stefnandi vísar til III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 varðandi kröfur um dráttarvexti og vaxtavexti en krafist sé vaxta frá 5. mars 1998 til greiðsludags þar sem stefndi hafi sannanlega verið krafinn um greiðslu með bréfi þann 5. febrúar 1998. Kröfur um málskostnað styður stefnandi við XXI. kafla laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, einkum 1. mgr. 130. gr. laganna.

Málsástæður og lagarök stefndu

Af hálfu stefnda er vísað til þess að Auðbergur Jónsson hafi skoðað stefnanda u.þ.b. 15 mín. eftir slysið. Þá hafi hann verið fölur, ekki gengið óstuddur, ekki vitað um stund og stað og kvartað um verk en ekki ógleði. Blætt hafi úr hægri hlust. Björn Gunnlaugsson læknir hafi fylgt stefnanda á Sjúkrahús Reykjavíkur á slysdegi en stefnandi hafi verið lagður inn á heila- og taugaskurðdeild. Stefnandi hafi dvalið á sjúkrahúsinu 24. til 26. ágúst og aftur 4. til 7. september 1993.

Eins og fram hafi komið hafi höfuðkúpubotn stefnanda verið brotinn. Fengið hafi verið álit háls-, nef- og eyrnadeildar á meðan stefnandi hafi verið í meðferð á heila- og taugaskurðdeild. Við skoðun á hægra eyra hafi komið í ljós rifa á hægri hljóðhimnu með heyrnartapi. Enn fremur hafi verið um að ræða hámarks leiðslutruflun heyrnar á hægra eyra með spurningu um rof í heyrnarbeinakeðjunni. Andlitslömun, sem komið hafði nokkrum dögum eftir slys, hafi verið á bataleið við skoðun.

Stefnanda hafi verið fylgt eftir á göngudeild háls-, nef og eyrnadeildar. Við skoðun þann 3. júní 1994 hefði heyrn ekkert lagast og því hafi verið tekin ákvörðun um að kanna hægra miðeyra og reyna að lagfæra það með aðgerð. Aðgerð hafi verið framkvæmd þann 22. ágúst 1994. Hafi þá komið í ljós að um liðhlaup á steðja-/ístaðsmótum hafi verið að ræða. Gerð hafi verið tilraun til að koma þessu í réttar skorður. Þetta hafi hins vegar ekki gróið. Þann 6. febrúar 1995 hafi verið gerð enduraðgerð á hægra eyra en þessi aðgerð hafi heldur ekki tekist sem skyldi.

Stefnandi hafi verið frá vinnu upphaflega frá slysdegi og fram til ársloka 1993 en verið svo á sjó frá janúarbyrjun og fram til 19. ágúst 1994. Síðan hafi hann verið frá vinnu frá 20. ágúst 1994 til ágústloka 1995.

Í álitsgerð örorkunefnd frá 1. júlí 1997 sé m.a. komist að þeirri niðurstöðu að eftir 1. janúar 1995 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata sem máli skipti af afleiðingum vinnuslyssins þann 24. ágúst 1993. Þessu áliti sínu hafi örorkunefnd síðan breytt með bókun dagsettri 5. nóvember 1997 á þá lund að eftir 1. september 1995 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum umrædds slyss.

Af hálfu stefnda er því haldið fram að þessi breyting örorkunefndar sé röng og er í því sambandi vísað til gagna málsins, sem lögð hafi verið fyrir örorkunefnd, og til skaðabótalaga nr. 50/1993. Réttargæslustefndi hafi greitt stefnanda bætur fyrir tímabundið atvinnutjón frá slysdegi til 1. janúar 1995 þótt tímabundnu atvinnutjóni stefnanda hafi lokið fyrir 1. janúar 1995. Til vara sé gerð sú krafa í málinu að í síðasta lagi hafi ekki verið að vænta frekari bata fyrir tjónþola eftir 6. febrúar 1995, en þá hafi seinni eyrnaaðgerðin verið framkvæmd. Verði lok tímabundins atvinnutjóns stefnanda miðuð við þá dagsetningu ætti hann rétt á 324.064 krónum í bætur fyrir tímabilið 1. janúar til 6. febrúar 1995.

Þá bendir stefndi á að þótt mat á því hvenær ekki sé að vænta frekari bata samkvæmt skaðabótalögunum nr. 50/1993 feli í sér mat á læknisfræðilegu ástandi tjónþola sé hér um að ræða mat sem byggi á lögfræðilegri túlkun á skaðabótalögunum, þ.e.a.s. skaðbótalögin skilgreini hvaða meginregla liggi að baki orðalaginu "þegar ekki er að vænta frekari bata". Stefndi telur að skaðabótalögin beri að túlka þannig að ekki sé að vænta frekari bata fyrir tjónþola frá og með því tímamarki þegar læknisfræðileg meðferð reynist ekki lengur hafa áhrif til breytinga á miskastigi eða fjárhagslegri örorku tjónþola vegna slyss. Komi þannig í ljós að tiltekin læknisfræðileg meðferð hafi ekki haft áhrif til breytinga á miska- eða fjárhagslegri örorku geti sú meðferð ekki orðið til þess að lengja tímabundið atvinnutjón tjónþola samkvæmt skaðabótalögunum. Stefndi kveðst því telja að hér eigi að beita hlutlægu mati á hver árangur meðferðar hafi orðið, en ekki huglægu mati á hvort viðkomandi læknisfræðileg meðferð hafi verið réttlætanleg. Þannig megi ljóst vera að sú meðferð sem ekki skili árangri geti ekki lengt tímabil tímabundins atvinnutjóns tjónþola.

Stefndi mótmælir því að spurningunni um hvenær ekki hafi verið að vænta frekari bata sé svarað út frá þeirri forsendu hvað sé læknisfræðilega réttlætanleg meðferð á hverjum tíma, eins og örorkunefndin hafi gert, en ekki út frá því hvort sú meðferð hafi haft áhrif á varanlegan miska eða örorku stefnanda vegna slyssins. Í því sambandi bendir stefndi sérstaklega á eftirfarandi orðalag örorkunefndar frá 17. desember 1997 á dskj. nr. 10: “Í gögnum málsins kemur fram að um áramótin 1994/1995 var fyrirhuguð skurðaðgerð á tjónþola sem framkvæmd var 6. febrúar 1995. Nefndin telur ljóst, að áður en sú aðgerð var framkvæmd hafi nefndin ekki talið að tjónþoli gæti vænst frekari bata af afleiðingum slyssins, enda telur nefndin að aðgerð þessi hafi ekki verið tilgangslaus. Þótt árangur af aðgerðinni hafi ekki verið sá sem vonast var til, breytir það ekki þeirri staðreynd að niðurstaða af því varð ekki ljós fyrr en nokkru síðar.”

Þá er af stefnda talið að læknisfræðileg gögn í málinu sýni með hlutlægum hætti fram á að tímabundnu atvinnutjóni stefnanda vegna slyssins þann 24. ágúst 1993 hafi verið lokið þann 1. janúar 1995. Gerðar hafi verið tvær aðgerðir til að reyna að betrumbæta heyrn stefnanda án sýnilegs varanlegs árangurs. Fyrri aðgerðin hafi verið framkvæmd þann 22. ágúst 1994 og sú seinni 6. febrúar 1995. Í læknisvottorði frá 17. október 1995 segi m.a. að þessar aðgerðir hafi ekki tekist sem skyldi og óvíst væri um árangur ef aðgerð yrði reynd í hið þriðja sinn. Þetta hafi örorkunefnd staðfest í niðurstöðu álitsgerðar sinnar frá 1. júlí 1997 þar sem segi: “Hefur hann gengist undir tvær aðgerðir vegna rofsins í heyrnarbeinakeðjunni í hægra miðeyra sem ekki hafa skilað árangri sem skyldi...”

Af hálfu stefnda er dráttarvaxtakröfu stefnanda enn fremur mótmælt en því er haldið fram að greiða eigi vexti samkvæmt 7. gr. vaxtalaga verði um áfellisdóm að ræða.

Niðurstöður

Í 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993 segir að bætur fyrir tímabundið atvinnutjón skuli ákveða fyrir tímann frá því að tjón varð þangað til tjónþoli geti hafið vinnu að nýju eða þar til ekki sé að vænta frekari bata. Eins og hér að framan er rakið var leitað álits örorkunefndar vegna ákvörðunar á bótum sem stefnandi skyldi fá greiddar vegna tjónsins sem hann varð fyrir í umræddu slysi. Samkvæmt 1. mgr. reglugerðar um starfsháttu örorkunefndar nr. 335/1993 segir að í áliti örorkunefndar skuli að jafnaði koma fram hvenær nefndin telji að tjónþoli hafi ekki getað vænst frekari bata af afleiðingum líkamstjóns, sbr. 2. og 3. gr. skaðabótalaga.

Eins og þegar hefur komið fram segir í áliti örorkunefndar frá 1. júlí 1997 að örorkunefnd telji að eftir 1. janúar 1995 hafi stefnandi ekki getað vænst frekari bata sem máli skipti af afleiðingum slyssins. Þessi ákvörðun var leiðrétt á fundi örorkunefndar 4. nóvember 1997 eins og fram kemur í gögnum málsins. Formaður nefndarinnar og annar tveggja læknanna, sem á sæti í nefndinni, komu fyrir dóminn þar sem þeir skýrðu þessar niðurstöður örorkunefndar og tilgreindu rökin fyrir þeim. Kom þá m.a. fram að ekki hafi komið í ljós fyrr en nokkru eftir aðgerðina þann 6. febrúar 1995 að hún hafi ekki skilað árangri. Læknirinn lýsti því enn fremur fyrir dóminum að vonir hefðu verið bundnar við að stefnandi fengi frekari bata alveg þar til undir lok þess tíma er hann gat aftur farið að vinna í september 1995. Þá hafi það verið mat læknanna í nefndinni að í framhaldi af aðgerðinni hafi stefnandi verið til meðferðar í einhvern tíma þar á eftir og einnig hafi það tekið stefnanda einhvern tíma að jafna sig eftir aðgerðina. Nefndin hafi talið að út frá þessum upplýsingum hafi ekki verið að vænta frekari bata eftir 1. september 1995.

Eins og fram kemur í gögnum málsins hafði Friðrik Kristján Guðbrandsson, sérfræðingur í háls- nef- og eyrnalækningum, stefnanda til meðferðar vegna meiðsla hans í eyra. Í málinu liggja fyrir þrjú vottorð hans, dagsett 17. október 1995, 6. september 1996 og 12. febrúar 1997, þar sem lýst er áverkum í hægra eyra stefnanda og læknisaðgerðum vegna þeirra. Læknirinn kom fyrir dóminn og lýsti nánar því sem fram kemur í vottorðunum og öðrum atriðum í því sambandi. Var farið inn í eyrað og skoðað í miðeyra en bein þar voru ekki samtengd og voru því sett gervibein þar í aðgerðinni 6. febrúar 1995. Aðgerðin hafi ekki borið þann árangur sem vonast var eftir. Þó hafi heyrn mælst betri í apríl sama ár en það hafi aðeins verið um tíma. Læknirinn skoðaði stefnanda enn aftur í lok ágúst 1995 og hafi þá endanlega legið fyrir að ekki væri að vænta frekari bata. Hann vísaði stefnanda þá á Heyrnar- og talmeinastöð í von um að hann fengi einhverja bót þar. Stefnandi kom til læknisins í eftirlit nokkrum sinnum á þessu tímabili og einnig fylgdist læknirinn með stefnanda og líðan hans í gegnum síma þegar stefnandi var úti á landi. Læknirinn staðfesti að stefnanda hafi ekki liðið vel á þessu tímabili, hann hafi verið með suð fyrir eyrunum og heyrnartap og hann hafi borið sig illa.

Þegar litið er til þess sem hér hefur verið rakið verður að telja að stefnandi hafi ekki getað vænst frekari bata fyrr en 1. september 1995. Krafa stefnanda í málinu um bætur vegna tímabundins atvinnutjóns er óumdeild að öðru leyti. Með vísan til þess og til 1. mgr. 2. gr. skaðabótalaga ber að taka kröfuna til greina.

Samkvæmt 15. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 bera skaðabótakröfur dráttarvexti að liðnum mánuði frá þeim degi er kröfuhafi sannanlega lagði fram þær upplýsingar sem þörf var á til þess að meta tjónsatvik og fjárhæð bóta. Með vísan til þess að stefnandi krafðist bóta með bréfi dagsettu 5. febrúar 1998, en þá lágu fyrir öll nauðsynleg gögn varðandi mat á tímabundnu atvinnutjóni stefnanda, ber að taka dráttarvaxtakröfu hans til greina.

Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991 ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 250.000 krónur.

Dóm þennan kvað upp Sigríður Ingvarsdóttir héraðsdómari.

Dómsorð:

Stefndi, Hraðfrystihús Eskifjarðar, greiði stefnanda, Runólfi Ómari Jónssyni, 2.072.213 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 frá 5. mars 1998 til greiðsludags en dráttarvextir bætast við höfuðstól á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 5. mars 1999 og 250.000 krónur í málskostnað.