Hæstiréttur íslands
Mál nr. 64/2015
Lykilorð
- Kærumál
- Vistun á stofnun
|
|
Föstudaginn 30. janúar 2015 |
|
Nr. 64/2015. |
A (Kristrún Elsa Harðardóttir hdl.) gegn B (Tómas Hrafn Sveinsson hrl.) |
Kærumál. Vistun á stofnun.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem hafnað var kröfu A um að felld yrði úr gildi ákvörðun B, lögráðamanns hans, um að hann skyldi vistast á stofnun, sbr. 2. mgr. 58. gr. lögræðislaga nr. 71/1997.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ólafur Börkur Þorvaldsson og Benedikt Bogason og Karl Axelsson settur hæstaréttardómari.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 15. janúar 2015, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2015, þar sem hafnað var kröfu sóknaraðila um að felld yrði úr gildi ákvörðun lögráðamanns hans um að hann skyldi vistast á stofnun. Kæruheimild er í 3. mgr. 59. gr., sbr. 4. mgr. 31. gr. og 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess aðallega að áðurgreind krafa sín verði tekin til greina, til vara að honum verði gert að „mæta reglulega í eftirlit á [...] í tiltekinn tíma“ í stað vistunar á stofnun, en að því frágengnu að honum verði gert að „mæta reglulega í eftirlit og lyfjagjöf í formi forðasprauta“ í stað vistunar á stofnun. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Samkvæmt 3. mgr. 59. gr., sbr. 4. mgr. 31. gr. og 17. gr. lögræðislaga, greiðist kærumálskostnaður úr ríkissjóði, þar með talin þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila og talsmanns varnaraðila vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Þóknanir skipaðs verjanda sóknaraðila, Kristrúnar Elsu Harðardóttur héraðsdómslögmanns, og talsmanns varnaraðila, Tómasar Hrafns Sveinssonar hæstaréttarlögmanns, vegna meðferðar málsins fyrir Hæstarétti, 186.000 krónur handa hvoru, greiðist úr ríkissjóði.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 14. janúar 2015.
Með beiðni, dagsettri 9. þ.m. hefur Kristrún Elsa Harðardóttir hdl. krafist þess fyrir hönd A, kt. [...], [...], [...], að felld verði úr gildi ákvörðun lögráðamanns hans um að vista hann á [...], sbr. 2. mgr. 58. gr. lögræðislaga nr. 71, 1997. Af hálfu varnaraðila í málinu, B, kt. [...], er kröfu sóknaraðila mótmælt.
Fyrir liggur að sóknaraðili var sviptur sjálfræði með úrskurði héraðsdóms Reykjaness [...] 2013. Í málinu er vætti C geðlæknis um andlega heilsu hans. Að sögn læknisins, sem stundað hefur sóknaraðila nú að undanförnu, var sóknaraðili í greinilegu geðrofsástandi þegar hann kom í fylgd lögreglu á [...] á gamlársdag. Hafi hann verið innsæislaus, með tilvísunarranghugmyndir og ekki verið tengdur við raunveruleikann. Læknirinn segir sóknaraðila hafa hlotið varanlegan heilaskaða sem hann hlaut í slysi, ungur drengur. Þar að auki hafi hann átt við fíknivanda að stríða í nokkur ár. Læknirinn segir að sjúkdómseinkennin hafi haldið áfram að skjóta upp kollinum eftir að sóknaraðili kom á spítalann þótt þau hafi lagast heilmikið. Hann hafi að mestu leyti verið til samvinnu en þó hafi hann ekki viljað taka lyfin eins og hann hafi verið beðinn um. Þá hafi hann enn ekki innsæi í veikindi sín, eins og dæmigert sé fyrir geðrof. Nauðsynlegt sé að hann vistist áfram á sjúkrahúsi til þess að fá lyf og hjúkrun þar sem hann sé enn ekki búinn að ná sér og dómgreind hans og innsæi séu mjög skert, enn sem komið er. Sé því mjög líklegt að honum muni versna fari hann af spítalanum. Sé hann ófær um að sjá um sig sjálfur eins og er. Hann sé ekki hættulegur, enda hafi hann ekki verið með hótanir um ofbeldi gagnvart öðrum né sé hann líklegur til þess að vinna sjálfum sér mein. Hins vegar séu miklar líkur til þess að honum muni versna af geðrofinu fái hann að vera frjáls og því fylgi ávallt viss almenn hætta. Ólíklegt sé að vægari úrræði við núverandi ástandi sóknaraðila önnur en vistun á spítala muni koma að gagni. Um yrði þá að ræða einhvers konar göngudeildarmeðferð en læknirinn segist svartsýnn á það að slíkt úrræði myndi nægja. Hann segir sóknaraðila þegar hafa fengið eina forðasprautu en hún sé ekki enn farin að verka. Vafalaust sé að hann verði læknaður af geðrofinu sem hann sé nú í. Ekki sé enn vitað af hverju núverandi geðrof stafi og komi nokkrar ástæður til greina.
Dómarinn telur ljóst af þessu áliti læknisins að heilsu sóknaraðila sé hætta búin nema hann vistist um sinn á sjúkrahúsi til þess að fá þar viðeigandi meðferð við geðrofssjúkdómi sem hann er nú haldinn. Eru skilyrði 2. mgr. 58. gr. lögræðislaga fyrir slíkri ráðstöfun þannig uppfyllt. Ber því að synja kröfu sóknaraðila um það að ákvörðun lögráðamanns sóknaraðila, B, um að vista hann á [...] verði felld úr gildi.
Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Kristrúnar Elsu Harðardóttur hdl., 150.000 krónur, og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Tómasar Hrafns Sveinssonar hrl., 100.000 krónur, ber að greiða úr ríkissjóði. Þóknun lögmannanna er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti.
Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.
Úrskurðarorð:
Synjað er kröfu sóknaraðila, A, um það að felld verði úr gildi ákvörðun lögráðamanns hans um að hann skuli vistast á [...]. Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Kristrúnar Elsu Harðardóttur hdl., 150.000 krónur, og þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila, Tómasar Hrafns Sveinssonar hrl., 100.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.