Hæstiréttur íslands

Mál nr. 65/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
  • Tilhögun gæsluvarðhalds


         

Þriðjudaginn 5. febrúar 2008.

Nr. 65/2008.

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum

(Alda Hrönn Jóhannsdóttir, fulltrúi)

gegn

X

(Ingimar Ingimarsson hdl.)

 

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Tilhögun gæsluvarðhalds.

 

Staðfest var niðurstaða héraðsdóms um að skilyrði væru fyrir hendi til að X sætti áfram gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála og tekin til greina krafa L um að gæsluvarðhaldi yrði markaður lengri tími en héraðsdómari hafði fallist á. Þá var staðfestur úrskurður héraðsdóms um tilhögun gæsluvarðhalds.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir, Ólafur Börkur Þorvaldsson, Jón Steinar Gunnlaugsson og Páll Hreinsson. 

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. febrúar 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 4. sama mánaðar. Kærðir eru úrskurðir Héraðsdóms Reykjaness 1. febrúar 2008, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. febrúar 2008 kl. 16 og þar sem hafnað var kröfu varnaraðila um að fyrirkomulag gæsluvarðhalds yrði ekki með takmörkunum á grundvelli b., c. og d. liða 108. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991. Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður um gæsluvarðhald verði felldur úr gildi, en verði ekki á það fallist að tekin verði til greina krafa hans um að gæsluvarðhald verði án takmarkana samkvæmt b., c. og d. liðum 108. gr. laga nr. 19/1991.

Sóknaraðili kærði úrskurðinn um gæsluvarðhaldi fyrir sitt leyti 1. febrúar 2008 og krefst þess að tekin verði til greina krafa hans um að varnaraðili sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 11. febrúar 2008 kl. 16. Þá krefst hann staðfestingar á úrskurði um tilhögun gæsluvarðhalds varnaraðila.

Fallist er á með sóknaraðila að varnaraðili sé undir rökstuddum grun um að hafa framið afbrot sem fangelsisrefsing er lögð við og að rannsóknarhagsmunir standi til þess að hann sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Með þessum athugasemdum verður hinn kærði úrskurður staðfestur um það að varnaraðili skuli sæta áfram gæsluvarðhaldi en fallist er á kröfu sóknaraðila um tímalengd þess. Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar um fyrirkomulag gæsluvarðhalds verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Varnaraðili, X, sæti gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 11. febrúar 2008 kl. 16.

Hinn kærði úrskurður um fyrirkomulag gæsluvarðhalds er staðfestur.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 1. febrúar 2008.

Með beiðni lögreglustjórans á Suðurnesjum, dagsettri í dag, er þess krafist að X, kt. [...], [heimilisfang], Reykjavík, verði með úrskurði Héraðsdóms Reykjaness gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 11. febrúar 2008  kl. 16.00, á grundvelli a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.

Kærði mótmælir kröfu um gæsluvarðhald.

Í greinargerð lögreglustjórans segir að lögreglustjórinn á Suðurnesjum og lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hafi um nokkurt skeið rannsakað innflutning á um 4,6 kg af amfetamíni og 600 g af kókaíni, sem fannst við eftirlit lögreglu og tollgæslu í bifreið á vegum hraðflutningafyrirtækisins Z við húsakynni Y á Keflavíkurflugvelli þann 15. nóvember sl. en hin ætluðu fíkniefni komu í kassa frá Þýskalandi. Þá hafi lögreglu borist upplýsingar um að starfsmaður Z flutningsþjónustunnar á Keflavíkurflugvelli sjái m.a. annars um að halda ákveðinni leið fyrir innflutning fíkniefna opinni, sem grunur leikur á að sé  A kt. [...], sem mun vera yfirmaður á gólfi hjá Z og hafi því óheftan aðgang að flugsvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Rannsókn lögreglu hafi leitt líkum að því að þessi innflutningsleið hafi verið notuð áður og til standi að nota hana aftur. Dagana 7.-11. janúar sl. fékk lögreglan upplýsingar um að nota ætti þessa leið aftur, það er að flytja fíkniefni til Íslands með Z flutningsfyrirtækinu.  Hafi sendingarnar verið taldar vera 3 talsins og hver um sig ætti að innihalda 3 kíló af kókaíni, þær hafi átt að vera sendar hver á eftir annarri og næst sending færi ekki af stað fyrr en sú fyrri væri komin í gegn. Á mánudagskvöldið 14. janúar sl. bárust lögreglu svo upplýsingar að B, kt. [...], hefði móttekið vörusendingu hjá Z við Þ í Hafnarfirði rétt fyrir hádegi sama dag.  Er lögregla kannaði með vörusendingar sem afhentar voru á mánudeginum hafi engin slík verið skráð á B.

Í þágu rannsóknar málsins hafi lögregla þann 23. og 24. janúar sl. handtekið fimm aðila m.a. þá B, kt. [...], kærða og ofangreindan A sem allir voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald, B og X til dagsins í dag og A til 8. febrúar nk. Þann 30. janúar sl. var C, kt. [...], handtekinn í þágu rannsóknar málsins og úrskurðaður í gæsluvarðhald til 15. febrúar nk. vegna sterks gruns lögreglu um að vera viðriðinn innflutning fíkniefnanna hingað til landsins.

Í skýrslutöku hjá lögreglu hafi kærði viðurkennt að hafa komið á ákveðnum samskiptum milli bróður síns, B, og C.  Mikið misræmi sé í framburði handtekinna aðila og lögregla hafi við rannsókn málsins orðið þess áskynja að kærði hafi ekki gefið upp alla sína vitneskju í málinu.

Þá segir í greinargerð að rannsókn máls þessa sé í fullum gangi og enn sé langt í land að henni ljúki. Lögregla hafi þegar sent beiðni um upplýsingar erlendis frá varðandi þann samskiptamáta sem kærði hafi lýst fyrir lögreglu að notaður hafi verið við skipulag innflutnings fíkniefnanna hingað til lands.  Þá sé rannsókn á umfangi þess innflutnings sem farið hafi í gegnum hraðflutningsþjónustuna Z á síðustu mánuðum og árum og hverjir séu eigendur og fjármögnunaraðilar þeirra sendinga í fullum gangi.  Þá sé viðamikil rannsókn á því hvernig ætlaður innflutningur fíkniefnanna hafi verið fjármagnaður hafin og enn sé beðið gagna vegna þess þáttar.  Enn sé lögreglu eigi ljóst hvort og þá hverjir fleiri kunni að vera viðriðnir innflutning fíkniefnanna að öðru leyti.  Það magn fíkniefna, sem haldlagt hafi verið þann 15. nóvember sl. þyki benda til þess að efnin hafi verið ætluð til sölu og dreifingar og ætluð háttsemi kærða varði við ákvæði laga um ávana- og fíkniefni nr. 65/1974 og 173. gr. a. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem varðað geti fangelsi allt að 12 árum. Lögregla telur að ætla megi að kærði kunni að torvelda rannsókn málsins og hafa áhrif á samseka og vitni gangi hann laus.

Við fyrirtöku kröfunnar krafðist verjandi kærða þess aðallega að kröfu um gæsluvarðhald yrði hafnað.  Til vara var þess krafist að úrskurðað yrði um gæsluvarðhald í skemmri tíma en krafist er. Þá er þess krafist að kærði verði ekki látinn sæta einangrun ef til gæsluvarðhalds kemur.

 Með vísan til alls framangreinds, rannsóknarhagsmuna, a-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19, 1991 um meðferð opinberra mála, 173. gr.a almennra hegningarlaga nr. 19, 1940 og laga nr. 65, 1974 um ávana og fíkniefni og eftir skoðun á fyrirliggjandi rannsóknargögnum málsins er það mat dómara að lög standi til þess að verða við kröfu lögreglustjórans á Suðurnesjum eins og hún er fram sett, þó þannig að henni verði markaður heldur skemmri tími og verður kærða gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til föstudagsins 8. febrúar 2008 kl. 16.00. Ekki þykja að svo stöddu efni til þess að taka afstöðu til kröfu kærða um breytta tilhögun gæsluvarðhalds.

Anna M. Karlsdóttir settur héraðsdómari kveður upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X sæti gæsluvarðhaldi allt til kl. 16.00 föstudaginn 8. febrúar 2008.