Hæstiréttur íslands
Mál nr. 169/2008
Lykilorð
- Kærumál
- Frávísunarúrskurður felldur úr gildi
|
|
Fimmtudaginn 17. apríl 2008. |
|
Nr. 169/2008. |
Kaupþing banki hf. (Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.) gegn Ísrós ehf. Díönu Símonardóttur og Smára Bjarna Óskarssyni (Kristján Stefánsson hrl.) |
Kærumál. Frávísunarúrskurður felldur úr gildi.
Talið var að K hefði lagt nægilega skýran grundvöll að máli sínu á hendur Í, D og S og ekki væru því efni til að vísa málinu frá vegna vanreifunar, en gögn sem þau síðarnefndu töldu vanhöld á að lögð hefðu verið fram af hálfu K töldust ekki varða grundvöll málsins heldur sönnun fyrir kröfu K á hendur þeim. Var hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdómara að taka málið til efnismeðferðar.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 14. mars 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 26. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2008, þar sem máli sóknaraðila gegn varnaraðilum var vísað frá dómi. Kæruheimild er í j. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdóms verði felldur úr gildi og lagt fyrir hann að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðilar krefjast aðallega staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar, en til vara, verði úrskurðinum hrundið, að kærumálskostnaður falli niður.
Málatilbúnaður sóknaraðila verður vart skilinn á annan veg en að hann reisi kröfu sína á hendur varnaraðilum á að yfirdráttarheimild sem varnaraðilanum Ísrós ehf. hafði verið veitt á tilteknum tékkareikningi hafi fallið niður 31. janúar 2006. Við það hafi skapast sú staða að umræddur tékkareikningur hafi verið yfirdreginn umfram heimildir og ábyrgðaryfirlýsingar varnaraðilanna Díönu og Smára Bjarna við það orðið virkar. Fyrir héraðsdómi lágu gögn sem sóknaraðili telur vera í samræmi við og styðja framangreindar málsástæður. Gögn þau sem varnaraðilar telja að sóknaraðila hafi borið að leggja fram varða ekki grundvöll málsins heldur sönnun þess að hann eigi þá kröfu sem hann gerir í málinu. Samkvæmt þessu verður ekki annað séð en að sóknaraðili hafi lagt nægilega skýran grundvöll að máli sínu á hendur varnaraðilum og eru ekki efni til að vísa málinu frá dómi vegna vanreifunar. Verður hinn kærði úrskurður því felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilum verður gert að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar.
Varnaraðilar, Ísrós ehf., Díana Símonardóttir og Smári Bjarni Óskarsson, greiði óskipt sóknaraðila, Kaupþingi banka hf., 150.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 4. mars 2008.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 25. febrúar sl., að loknum munnlegum málflutningi um frávísunarkröfu stefndu, var höfðað fyrir dómþinginu af Kaupþingi banka hf., Borgartúni 19, Reykjavík, á hendur Ísrós ehf. Brúnastöðum 52, Reykjavík, Smára Bjarna Ómarssyni, Brúnastöðum 52, Reykjavík, og Díönu Símonardóttur, Brúnastöðum 52, Reykjavík, með stefnu birtri hinn 9. október 2007.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði in solidum dæmd til að greiða stefnanda 2.050.985 krónur, ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 frá 31. maí 2006 til greiðsludags, að frádreginni innborgun að fjárhæð 2.003.900 krónur.
Þá er krafist málskostnaðar, að skaðlausu, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun, úr hendi stefndu.
Dómkröfur stefndu eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara að stefndu verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda, og til þrautavara að dómkröfur stefnanda verði lækkaðar verulega. Þá krefjast stefndu málskostnaðar úr hendi stefnanda, að skaðlausu, en til vara að málskostnaður verði felldur niður.
Eins og að framan greinir var mál þetta flutt um frávísunarkröfu stefndu og er einungis sá þáttur til úrlausnar hér.
II
Stefnandi lýsir málavöxtum svo í stefnu, að hinn 3. febrúar 1989 hafi stefnandi samþykkt umsókn stefndu, Ísrósar ehf., um stofnun tékkareiknings í útibúi stefnanda að Suðurlandsbraut 2, Reykjavík. Tékkareikningurinn hafi borið númerið 0313-26-29. Stefnda, Ísrós ehf., hafi verið veitt yfirdráttarheimild á tékkareikning sinn. Síðast hafi verið veitt yfirdráttarheimild á tékkareikning stefndu, Ísrósar ehf., nr. 313-26-29, að fjárhæð 2.072.000, hinn 30. desember 2005, sem gilt hafi til 31. janúar 2006. Ekki hafi verið veitt yfirdráttarheimild á tékkareikning stefndu síðan.
Stefnda kveðst um árabil hafa átt viðskipti við stefnanda, útibú 313, Háaleitisbraut. Stefndu, Smári og Díana, hafi afhent stefnanda ábyrgðaryfirlýsingu, dagsetta 25. janúar 2005. Stefnda, Ísrós ehf., hafi verið í skuld við stefnanda og hafi orðið að samkomulagi aðila að gera upp skuldina með veðskuldabréfi. Hafi stefnandi tekið að sér að sjá um frágang bréfsins.
III
Stefnandi byggir kröfur sínar á hendur stefndu á því, að stefndi hafi gerst brotlegur við reglur um reikningsviðskipti og hafi verið tilkynnt um vanskil með bréfi, dagsettu 23. maí 2006. Hinn 31. maí 2006 hafi skuldin á reikningnum verið 2.050.985 krónur. Hinn 25. janúar 2005 hafi stefndu, Díana og Smári Bjarni, undirritað yfirlýsingu um sjálfskuldarábyrgð vegna yfirdráttarheimildar á framangreindum reikningi, að fjárhæð 2.500.000 krónur. Tékkareikningurinn hafi lent í vanskilum og hafi stefndu verið tilkynnt um vanskilin með bréfum, dagsettum 15. júní 2006. Inn á skuldina hafi verið greiddar hinn 26. júlí 2006 2.003.900 krónur og verði tekið tillit til greiðslunnar við uppgjör kröfunnar. Eftirstöðvar skuldarinnar hafi ekki fengist greiddar þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Um lagarök vísar stefnandi til almennra reglna kröfuréttarins og meginreglna samningaréttarins, sbr. lög nr. 7/1936, um samningsgerð, loforð og ógilda löggerninga.
Kröfu um dráttarvexti byggir stefnandi á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggir stefnandi á lögum nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Kröfu um virðisaukaskatt á málflutningsþóknun byggir stefnandi á lögum nr. 50/1988, um virðisaukaskatt. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og því beri honum nauðsyn til að fá dóm fyrir skattinum úr hendi stefnda.
IV
Stefndi byggir kröfu sína um frávísun á því, að stefnandi hafi ekki gert viðhlítandi grein fyrir dómkröfunum, t.d. stöðu reiknings með yfirfærsluyfirliti eða sýnt fram á að stefnda, Ísrós ehf., hafi farið fram yfir yfirdráttarheimild eða brotið gegn ábyrgðaryfirlýsingu vegna yfirdráttarheimildar. Ekki sé sýnt fram á hvenær til þeirra vanskila hafi komið, sem sé grundvöllur málshöfðunar.
Málatilbúnaður stefnanda fullnægi þar með ekki lágmarksskilyrðum e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og því beri að vísa málinu frá.
Stefnandi mótmælir frávísunarkröfu stefndu og krefst þess að málið verði tekið til efnisdóms. Þá krefst stefnandi málskostnaðar, auk virðisaukaskatts, vegna þessa þáttar málsins.
V
Í máli þessu krefur stefnandi stefndu um greiðslu á skuld samkvæmt tékkareikningi. Kveðst stefnandi byggja kröfu sína á hendur stefndu, Ísrós ehf., á því að yfirdráttarheimild á umræddum tékkareikningi hafi fallið niður hinn 31. janúar 2006. Er ábyrgð stefndu, Smára Bjarna og Díönu, sögð vera á grundvelli ábyrgðaryfirlýsingar þeirra á tékkareikningi stefnda, Ísrósar ehf. Kveður stefnandi stefndu hafa gerst brotlega við reglur um reikningsviðskipti.
Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur hinn 7. mars 2007, var máli milli sömu aðila um sömu kröfu vísað frá dómi, þar sem stefna fullnægði ekki lágmarksskilyrðum e-liðar 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Í máli þessu liggja frammi, að því er virðist, þau sömu gögn og lágu frammi í fyrra málinu. Er þar m.a. að finna „Yfirlýsing[u] um sjálfskuldarábyrgð v/ yfirdráttarheimildar á reikningi nr. 29, útgefna 25. janúar 2005. Samkvæmt yfirlýsingunni ábyrgjast stefndu, Díana og Smári Bjarni, sem sjálfskuldarábyrgðaraðilar, greiðslu yfirdráttar á tékkareikningi stefndu, Ísrósar ehf., allt að 2.500.000 krónum. Í skilmálum yfirlýsingarinnar kemur fram að stefnanda sé heimilt að innheimta skuldina hjá sjálfskuldarábyrgðaraðilum við vanskil, fari reikningseigandi yfir heimild sína eða brjóti á annan hátt gegn skilmálum bankans um yfirdráttarheimildir, þegar heimild fellur niður eða reikningi er lokað. Jafnframt segir þar að gildistími ábyrgðarinnar sé fjögur ár frá útgáfudegi.
Stefnandi hefur í máli þessu lagt fram dskj. sem hann kallar yfirdráttarheimild stefnda, Ísrósar ehf., frá 21. desember 2005, og virðist vera útskrift úr bókum stefnanda, sem ber yfirskriftina „viðskiptareikningar- ófjárhagslegar færslur“. Þar segir að gildistökudagur heimildar sé 30. desember 2005, heimild í þúsundum kr. sé 2.072,0 og lokadagur heimildar 31. janúar 2006. Hins vegar verður hvorki af gögnum málsins né stefnu ráðið að reikningseigandi, stefnda Ísrós ehf., hafi farið upp fyrir heimild sína til yfirdráttar eða að brotið hafi verið í bága við ábyrgðaryfirlýsingu vegna yfirdráttarheimildar á reikningi nr. 29, sbr. framlagt skjal. Skortir verulega á að málsástæðum, sem stefnandi byggir málsókn sína á, séu gerð nægileg skil. Kröfugerð stefnanda er því ekki í samræmi við gögn málsins og tengsl milli kröfugerðar og sakarefnis ekki ljós. Málatilbúnaður stefnanda er því svo óskýr að samræmist ekki meginreglu einkamálalaga nr. 91/1991, um skýran og glöggan málatilbúnað. Ber því með vísan til e- liðar 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, að taka til greina kröfu stefndu um að vísa málinu frá dómi.
Eftir þessari niðurstöðu ber stefnanda, samkvæmt 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, að greiða stefndu málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 100.000 krónur. Við ákvörðun málskostnaðar hefur verið tekið tillit til virðisaukaskattsskyldu stefndu.
Hervör Þorvaldsdóttir, héraðsdómari, kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Máli þessu er vísað frá dómi.
Stefnandi, Kaupþing banki hf., greiði stefndu, Ísrós ehf., Díönu Símonardóttur og Smára Bjarna Ólafssyni, 100.000 krónur í málskostnað, þ.m.t. virðisaukaskattur.