Hæstiréttur íslands
Mál nr. 745/2009
Lykilorð
- Kærumál
- Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi
- Útivist
- Niðurfelling máls
|
Fimmtudaginn 14. janúar 2010. |
|
|
Nr. 745/2009. |
Kristinn Sigurjónsson (Kristinn Sigurjónsson hrl.) gegn Böðvari Bragasyni (Steingrímur Gautur Kristjánsson hrl.) |
Kærumál. Úrskurður héraðsdóms felldur úr gildi. Útivist. Niðurfelling máls.
K kærði úrskurð héraðsdómara þar sem mál hans gegn B var fellt niður er hann mætti ekki til þinghalds. K sendi símskeyti, eftir að honum barst boðun til þinghaldsins, þar sem hann tilkynnti um forföll annan dag sem var liðinn. Talið var að héraðsdómara hafi verið rétt þegar honum barst skeytið að kanna hvort um misskilning hafi verið að ræða af hálfu K og hvort ætlun hans hafi verið að tilkynna forföll í þinghaldinu, eða að minnst kosti að senda honum á ný boðun í þinghaldið. Þar sem héraðsdómari gætti ekki að þessu var hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 8. desember 2009, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 18. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2009, þar sem mál sóknaraðila gegn varnaraðila var fellt niður. Kæruheimild er í k. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og lagt fyrir héraðsdóm að taka málið til efnismeðferðar. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Mál þetta var tekið fyrir í héraðsdómi Reykjavíkur 27. nóvember 2009. Sótti sóknaraðili þá ekki þing og var málið fellt niður með úrskurði 1. desember sama ár. Sóknaraðili hafði verið boðaður til þinghalds þennan dag með símskeyti 19. nóvember sem hann tók við næsta dag. Þann 23. nóvember sendi hann héraðsdómara símskeyti um að honum hefði verið fyrirmunað að mæta við fyrirtöku málsins 18. nóvember vegna veikinda. Hann hefur lagt fram læknisvottorð um veikindi sín þann dag. Fyrir Hæstarétt hefur sóknaraðili lagt fram nýtt læknisvottorð 17. desember 2009 þar sem meðal annars segir: „Misritun varð í læknisvottorði dags. 23.11.2009 þar sem stendur 18.11. en á að vera 27.11.“ Jafnframt kemur fram að sóknaraðili hafi átt við alvarleg veikindi að stríða og þess vegna ekki getað mætt fyrir dóm.
Símskeyti sóknaraðila barst héraðsdómi nokkrum dögum eftir boðun til þinghalds 27. nóvember þar sem hann tilkynnti um forföll sín 18. nóvember. Hvorki verður séð af endurriti úr þingbók né öðrum gögnum málsins að málið hafi verið tekið fyrir þann dag, en samkvæmt endurriti úr þingbók var því frestað 7. október ótiltekið og næst tekið fyrir 27. nóvember. Í símskeyti sóknaraðila krefst hann þess „að málið verði tekið upp aftur“, en þá hafði það ekki verið fellt niður. Telja verður að héraðsdómara hefði verið rétt þegar honum barst skeytið að kanna hvort um misskiling hafi verið að ræða af hálfu sóknaraðila og hvort ætlun hans hafi verið að tilkynna forföll við fyrirtökuna 27. nóvember eða að minnsta kosti að senda honum á ný boðun í þinghaldið. Þar sem héraðsdómari gætti ekki að þessu verður hinn kærði úrskurður felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er felldur úr gildi.
Kærumálskostnaður fellur niður.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 1. desember 2009.
Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar hinn 27. nóvember sl., um málskostnaðarkröfu stefnda og niðurfellingu málsins, er höfðað af Kristni Sigurjónssyni, Reykjavíkurvegi 33, Reykjavík, á hendur Böðvari Bragasyni, Reykjavíkurvegi 35, Reykjavík, með stefnu birtri hinn 18. mars 2009
Dómkröfur stefnanda eru þær, „1. Að stefnda verði gert með dómi, að nema á brott allan gróður v/aspartrjáa af landi stefnanda, en þessi gróður er aðallega trjágreinar, sem nema nokkrum metrum inn á lóð stefnanda, svo og ofaná liggjandi rætur, sem hvoru tveggja stafa af asparrækt stefnda á lóðarmörkum. Enn fremur, að stefndi lækki aspartré sín á lóðarmörkum niður í 1.80 metra, svo að eigi valdi aspirnar skuggamyndun á lóð stefnanda. 2. Stefnda verði gert að greiða kr. 5.000 í dagsektir, 15 dögum eftir uppkvaðningu dóms í máli þessu, verði hann eigi við niðurstöðu dómsins. 3. Krafist er málskostnaðar að mati dómsins ásamt dráttarvöxtum frá uppkvaðningu dóms til greiðsludags, skv. 6. gr. laga nr. 38/2001. 4. Gerð er sú krafa, að settur verði sérstakur setudómari í máli þessu, sem er óháður Héraðsdómi Reykjavíkur, svo og sérfróðir meðdómendur.“
Dómkröfur stefnda eru þær aðallega, að málinu verði vísað frá dómi, en til vara, að hann verði sýknaður af öllum kröfum stefnanda. Þá gerir stefndi þá kröfu að nánar tilgreind ummæli í stefnu verði dæmd dauð og ómerk, en til vara að stefnandi sæti réttarfarssekt. Auk þess krefst stefndi málskostnaðar úr hendi stefnanda.
Dómari máls þessa fékk málinu úthlutað 1. júní sl. Í fyrsta þinghaldi eftir úthlutun málsins var málinu frestað til 1. október, þar sem lögmönnum aðila var gefinn kostur á að tjá sig um fram komna körfu stefnanda um að dómari málsins viki sæti. Með úrskurði, dagsettum 7. október sl., var þeirri kröfu hafnað og var sá úrskurður staðfestur með dómi Hæstaréttar Íslands hinn 29. október sl. Aðilar voru síðan boðaðir, með símskeyti, til þinghalds í málinu hinn 27. nóvember sl. Stefnandi sótti ekki þing án þess að boða forföll. Liggur frammi staðfesting á því að stefnandi hafi móttekið það skeyti. Með vísan til b-liðar 1. mgr. 105. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, skal málið þá fellt niður. Stefndi krafðist málskostnaðar úr hendi stefnanda og lagði þá kröfu í úrskurð.
Málið er fellt niður og með vísan til 2. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, skal stefnanda greiða stefnda málskostnað, sem þykir, eins og mál þetta er vaxið, hæfilega ákveðinn 100.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
Ú R S K U R Ð A R O R Ð :
Málið er fellt niður.
Stefnandi, Kristinn Sigurjónsson, greiði stefnda, Böðvari Bragasyni, 100.000 krónur í málskostnað.