Hæstiréttur íslands
Mál nr. 47/2008
Lykilorð
- Umboðssvik
|
|
Fimmtudaginn 5. júní 2008. |
|
Nr. 47/2008. |
Ákæruvaldið(Bogi Nilsson, settur saksóknari) gegn X (Kristinn Bjarnason hrl.) |
Umboðssvik.
X var ákærður fyrir umboðssvik með því að hafa 29. ágúst 2006 misnotað aðgang sinn að gjaldeyrisviðskiptakerfi í netbanka Glitnis banka hf. með því að hafa nýtt sér með kerfisbundnum og sviksamlegum hætti villu í kerfinu, sem leitt hafði til þess að kaup og sölugengi hafði víxlast og þannig aflað sér tiltekins ávinnings með færslum á milli gjaldeyrisreikninga sinna. Í dómi Hæstaréttar kom fram að X hefði keypt bandaríkjadali fyrir evrur, sem hann síðan seldi og keypti á ný fyrir þær dali. Við kaupin fékk hann eins og aðrir viðskiptavinir, sem fengust við gjaldeyriskaup í netbankanum, tilboð Glitnis banka hf. um tiltekið verð á gjaldeyrinum, sem hann samþykkti. Var ekki talið að X hefði með þessu misnotað einhliða aðgang sinn að netbankanum við gjaldeyrisviðskiptin og var háttsemi hans því ekki heimfærð undir 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Var X því sýknaður af ákæru um umboðssvik, en hann hafði í málinu ekki verið borinn sökum um fjársvik samkvæmt 248. gr. laganna.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Ingibjörg Benediktsdóttir, Garðar Gíslason og Markús Sigurbjörnsson.
Ríkissaksóknari skaut máli þessu til Hæstaréttar 21. janúar 2008 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst þyngingar á refsingu.
Ákærði krefst sýknu.
Ákærða er gefið að sök að hafa 29. ágúst 2006 misnotað aðgang sinn að gjaldeyrisviðskiptakerfi í netbanka Glitnis banka hf. með því að hafa nýtt sér með kerfisbundnum og sviksamlegum hætti villu í kerfinu, sem leitt hafi til þess að kaup- og sölugengi hafi víxlast og þannig aflað sér tiltekins ávinnings með færslum á milli gjaldeyrisreikninga sinna eins og nánar er lýst í ákæru.
Ákærði keypti áðurnefndan dag bandaríkjadali fyrir evrur, sem hann seldi við svo búið og keypti á ný fyrir þær dali. Við kaupin fékk hann eins og aðrir viðskiptavinir, sem fengust við gjaldeyrisviðskipti í netbankanum, tilboð Glitnis banka hf. um tiltekið verð á gjaldeyrinum, sem hann samþykkti, eins og nánar er rakið í hinum áfrýjaða dómi. Með þessu misnotaði ákærði sér ekki einhliða aðgang sinn að netbankanum við gjaldeyrisviðskiptin og verður háttsemi hans því ekki heimfærð undir 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Verður ákærði því sýknaður af þeim sakargiftum, en hann hefur ekki í máli þessu verið borinn sökum um fjársvik samkvæmt 248. gr. laganna.
Allur sakarkostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, sem ákveðin eru með virðisaukaskatti, eins og nánar greinir í dómsorði. Við ákvörðun málsvarnarlauna er tekið tillit til þess að sami verjandi var skipaður til að flytja annað samkynja mál, hæstaréttarmálið nr. 48/2008, sem rekið hefur verið og er dæmt samhliða þessu máli.
Dómsorð:
Ákærði, X, er sýkn af kröfu ákæruvaldsins.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða fyrir Hæstarétti, Kristins Bjarnasonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.
Dómur Héraðsdóms Norðurlands eystra 20. desember 2007.
Mál þetta, sem dómtekið var þann 19. nóvember sl., er höfðað með ákæru ríkislögreglustjóra, útgefinni 26. september 2007, á hendur X, kt. [...], [...], Akureyri,
„fyrir umboðssvik með því að hafa þriðjudaginn 29. ágúst 2006, misnotað aðgang sinn að gjaldeyrisviðskiptakerfi í Netbanka hlutafélagsins Glitnis, með því að nýta sér með kerfisbundnum og sviksamlegum hætti kerfisvillu í gjaldeyrisviðskiptakerfinu, sem var til komin vegna mistaka starfsmanna félagsins við forritun þess sem leiddi til þess að kaup- og sölugengi víxlaðist, og hafa þannig aflað sér kr. 2.421.367,85 með samtals 384 færslum á gjaldeyrisreikningum sínum nr. [...] og [...] þar sem hann í öllum tilvikum keypti dollara fyrir evrur og seldi síðan strax aftur fyrir evrur. Vegna kerfisvillunnar fékk ákærði í öllum tilvikum í þessum viðskiptum til sín þá fjárhæð sem undir eðlilegum kringumstæðum rennur til bankans í formi álags.
Telst þetta varða við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19, 1940.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.“
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu af kröfum ákæruvaldsins en til vara vægustu refsingar sem lög leyfa. Þá krefst hann þess að sakarkostnaður verði greiddur úr ríkissjóði, þ.á.m. hæfileg málsvarnarlaun sér til handa verði ákærði sýknaður. Verði ákærði sakfelldur fellur verjandi hans frá kröfu um málsvarnarlaun.
I.
Samkvæmt rannsóknargögnum sendi Glitnir banki hf. kæru til ríkislögreglustjóra með bréfi, dags. 30. ágúst 2006. Í kærunni segir að þann 29. ágúst 2006 hafi starfsmenn Glitnis banka orðið varir við grunsamleg viðskipti með gjaldeyri í netbanka Glitnis. Þar hafi verið um að ræða einstakling sem keypti og seldi ítrekað dollara fyrir evrur. Við skoðun hafi komið í ljós galli í kerfum bankans sem leitt hafi til þess að viðkomandi hafi hlotið ólögmætan ávinning af færslunum. Í kærunni var verknaðinum lýst þannig að ákærði hafi farið inn í netbanka Glitnis hf. og valið millifærslu. Hann hafi lagt inn (keypt) dollara og tekið út evrur (selt). Netbankinn hafi gefið honum krossgengi (fjölda dollara í einni evru, t.d. 1,2725 dollara fyrir eina evru). Segir svo í bréfinu að í öllum bankaviðskiptum kaupi viðskiptavinir gjaldeyri á hærra verði en þeir selji gjaldeyri á. Þetta leiði til þess að viðskiptavinur tapi þessum mun kaupi hann og selji gjaldeyri á sama tíma. Ákærði hafi átt hundruð slíkra viðskipta á dag. Við venjulegar aðstæður myndi viðskiptavinur tapa verulegum fjárhæðum en vegna galla í kerfum bankans hafi þetta leitt til þess að hann hafi hlotið verulegan ólögmætan ávinning. Í gögnum málsins kemur fram að villan hafi falist í því að bankinn víxlaði kaup- og sölugengi í netbanka að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Skilyrðin hafi verið þau að fjárhæð hverra viðskipta væri ekki hærri en að jafngildi tveggja milljóna íslenskra króna, að viðskiptin væru á milli tveggja erlendra gjaldmiðla og að viðskiptaupphæðin væri slegin inn í svokallaðri mótmynt.
Í kæru Glitnis banka hf. kemur fram að nánari eftirgrennslan hafi leitt í ljós að nokkrir einstaklingar hafi um hríð nýtt sér þennan veikleika í kerfum bankans til þess að afla sér ólögmæts ávinnings af ítrekuðum færslum sem augljóslega hafi ekki haft viðskiptalegan tilgang. Um hafi verið að ræða fjóra einstaklinga sem allir séu viðskiptamenn útibús bankans á Akureyri, þar á meðal ákærði í máli þessu. Hann hafi á síðustu dögum framkvæmt hátt í 500 færslur og ætla megi að ávinningur hans af þeim hafi verið rúmlega tvær milljónir króna. Ólögmætur ávinningur hafi myndast á evrureikningi og dollarareikningi sem hann hafi millifært yfir á krónureikning sinn hjá Glitni. Einnig hafi ákærði, þann 29. ágúst, fært kr. 2.000.000,- af krónureikningi sínum hjá Glitni á tilgreindan reikning Völuspár, útgáfu ehf., í Glitni banka.
Jafnframt því að kæra háttsemi ákærða var óskað eftir því af hálfu Glitnis að fjármunir á framangreindum reikningum yrðu kyrrsettir í þágu rannsóknar málsins og til þess að auka möguleika bankans á að endurheimta fjármunina í samræmi við heimildir í 78. gr. og 85. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Að kvöldi 30. ágúst 2006 var ákærði yfirheyrður á lögreglustöðinni á Akureyri. Þann 31. ágúst sendi ríkislögreglustjórinn Glitni banka tilkynningu um haldlagningu á kr. 2.000.000,- á tilgreindum reikningi Völuspár útgáfu ehf. í bankanum. Var þess krafist að bankinn afhenti efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjórans umrædda fjármuni. Um hádegi daginn eftir var ákærði aftur boðaður til skýrslutöku og honum kynnt framangreind ákvörðun um haldlagningu. Þann 21. september 2006 ræddi lögreglumenn við A gjaldeyrismiðlara hjá Glitni í því skyni að afla frekari upplýsinga og gagna vegna málsins. Ákærði var yfirheyrður að nýju þann 20. október 2006.
II.
Ákærði kvaðst vera sagnfræðingur og reka fyrirtæki í tengslum við skrif sín og bókaútgáfu. Aðspurður kveðst ákærði aðeins hafa almenna reynslu af gjaldeyrisviðskiptum, hann hafi keypt gjaldeyri fyrir utanlandsferðir. Komið hafi fyrir að hann hafi átt afgang sem hann hafi þá selt eða átt inni á gjaldeyrisreikningum sem hann átti í Glitni eða forvera hans.
Ákærði kveðst hafa farið í útibú Glitnis banka á Akureyri til að borga reikninga og hitt þar bróður sinn, B. B hafi sagt honum að það væri hagstætt að eiga viðskipti með dollara og evrur í heimabankanum. Ákærði hafi því stofnað reikninga í því skyni í útibúi bankans. Ákærði kvaðst vegna fyrri reynslu í viðskiptum við bankann hafa verið mjög meðvitaður um skilmála þess efnis að bankanum væri heimilt að leiðrétta færslur sem orðið hefðu vegna mistaka. Ákærði kvaðst ekki muna nákvæmlega hvað þeim B fór á milli en hugsanlega hafi B reynt að útskýra fyrir honum hvernig viðskiptin skyldu framkvæmd. Þær útskýringar hafi þó líkast til ekki verið góðar þar sem ákærði hafi þurft að prófa sig áfram er hann byrjaði viðskiptin, hann hafi gert ýmis mistök og tapað á einhverjum viðskiptum. Ákærði kvaðst ekki hafa skoðað gengi gjaldmiðlanna annars staðar. Ástæðu þess kvað hann hafa verið þá að þar sem hagnaður af hverjum viðskiptum hafi verið mjög lítill hafi hann orðið að framkvæma viðskiptin eins hratt og nokkur kostur var á. Því hafi ekkert verið hugsað heldur bara framkvæmt hratt og hugsunarlaust eftir að búið var að ná tökum á framkvæmdinni og reynt að ná sem flestum viðskiptum á meðan bankinn var opinn.
Ákærði kvað viðskiptin hafa staðið yfir í einn dag og á meðan á þeim stóð kvaðst ákærði ekki hafa hugleitt það hvaðan ágóðinn kæmi en hann hefði velt því fyrir sér áður en viðskiptin hófust og ímyndað sér að hann væri í þessum viðskiptum í stöðu svipaðri þeirri sem bankinn væri venjulega í, það er að kaupa og selja með hagnaði. Ákærði kvað það aldrei hafa hvarflað að sér að hann væri að hagnast á ólögmætan hátt og á kostnað bankans. Þar sem bankinn hefði gefið kost á því að kaupa eina mynt fyrir aðra þannig að hann hefði ekki verið að tryggja sig með því að hafa íslensku krónuna á milli hefði möguleikinn orðið með þeim hætti sem hann varð að því er ákærði taldi. Aðspurður um hvort hann hafi íhugað hvaðan ágóðinn kæmi hafi hann bara haldið að hann væri eins og bankastarfsmaður, að geta keypt og selt gjaldeyri og hagnast á því. Ákærði kvaðst á þessari stundu ekki hafa séð neitt athugavert eða einkennilegt við það að unnt væri að hagnast á þessum millifærslum. Raunar hafi hann ekki hugleitt það á nokkurn hátt þar sem hann hafi verið að eiga viðskipti við bankann sem hefði ráðið öllum viðskiptakjörum og innan vébanda hans, rétt eins og hann væri sjálfur staddur í bankanum. Ákærði kvað sér ekki hafa dottið í hug að hafa samband við bankann vegna þessa enda hafi hann verið í stöðugu sambandi við bankann þegar hann stundaði viðskiptin. Bankinn hafi gert honum tilboð um að kaupa og selja og hann tekið tilboðinu. Ef hann hafi gert villu, eða til dæmis sett inn of háa fjárhæð, hafi bankinn tilkynnt honum um það. Hann hafi einnig komist að því að ekki dygði að slá oft inn sömu upphæð, þá hefði bankinn tilkynnt honum að hann yrði að breyta henni. Ákærði kvaðst því hafa verið í stöðugu og mjög nánu sambandi við bankann.
Aðspurður kvaðst ákærði telja að myndir af þeim skjámyndum sem lagðar eru fram í málinu af ríkislögreglustjóra séu ekki þær sömu og hann sá þegar hann átti í þessum viðskiptum. Þetta séu myndir sem lagðar hafi verið fyrir hann við þriðju yfirheyrslu hjá lögreglu og kvað ákærði að honum hefði þá þótt eitthvað bogið við myndirnar og hann hefði upplýst lögreglu um það og lögreglan hefði ætlað að athuga málið betur. Ákærði kvaðst ekki muna hvort hann hefði alltaf slegið fjárhæð inn í dollurum.
Ákærði kvaðst hafa ætlað að halda viðskiptunum áfram daginn eftir. Netbankinn hafi verið lokaður og hann hafi hringt til að kanna málið. Hann hafi skýrt frá því að hann hefði staðið í þó nokkrum viðskiptum við bankann daginn áður og spurt hvort þetta gæti staðið í sambandi við millifærslur frá deginum áður. Ákærði kvað starfsmann bankans hafa ætlað að athuga málið en jafnframt hafi starfsmaðurinn boðist til að hækka yfirdráttarheimild á reikningi ákærða. Einn af yfirmönnum bankans hafi hringt í sig síðar og talað um einhverja bilun í kerfinu en ekkert minnst á að það væri eitthvað óeðlilegt á seyði. Að kvöldi hafi svo tveir lögreglumenn bankað upp á og fært hann til yfirheyrslu. Daginn eftir hafi þeir bræður farið í bankann til að sætta málið, án árangurs. Hann hafi verið tilbúinn til að skila peningunum umsvifalaust. Aðspurður um það hvort hann hafi endurgreitt féð kvaðst ákærði þess ekki fullviss hvar peningarnir væru niður komnir en þeir hefðu að minnsta kosti verið teknir úr umráðum hans. Ákærði kvaðst hafa talið hagnað sinn hafa verið nálægt 2,3 milljónum króna.
Vitnið C, viðskiptafræðingur og fráfarandi aðstoðaryfirlögregluþjónn við embætti ríkislögreglustjóra gaf skýrslu fyrir dómi. Kvað vitnið kæru hafa borist frá Glitni banka hf. vegna viðskipta fjögurra einstaklinga með gjaldeyri í netbanka bankans. Viðkomandi hafi verið taldir hafa misnotað aðgang sinn að netbankanum og hagnýtt sér villu í kerfum bankans til að hagnast með ólögmætum hætti. Á grundvelli kæru bankans og meðfylgjandi skjala hafi verið talinn vera rökstuddur grunur um afbrot og starfsmenn ríkislögreglustjórans hafi farið til Akureyrar og yfirheyrt hin grunuðu. Vitnið kvaðst hafa yfirheyrt eitt þeirra og verið viðstaddur yfirheyrslu yfir öðrum á síðari stigum málsins. Aðspurt kvað vitnið ákærðu öll hafa lýst því við yfirheyrslur að þau myndu skila peningunum til bankans. Ákærði hafi einnig lýst því yfir við bankann. Aðspurt kvað vitnið D hafa sett saman framlögð yfirlit merkt ríkislögreglustjóranum. Hún hafi sinnt rannsókn málsins að mestu en borið ýmis atriði undir vitnið. Kvað vitnið það rétt að yfirlitin byggi á gögnum frá Glitni.
Aðspurt kvað vitnið upplýsingar um kerfisvilluna byggða á upplýsingum starfsmanna bankans, hún hafi ekki verið skoðuð sérstaklega þar sem enginn ágreiningur hafi verið um að hún hafi verið til komin með þeim hætti sem bankinn lýsti. Það hafi legið í augum uppi að um villu væri að ræða þar sem bankinn hafi á hverjum tíma verið að kaupa gjaldeyri á hærra verði en hann seldi hann, svo lengi sem ákveðin skilyrði um fjárhæð og innslegna mynt voru fyrir hendi. Kerfisfræðingar bankans hafi ekki verið yfirheyrðir. Vitnið kvað það rétt að þær skjámyndir af notendaviðmóti sem liggja frammi í málinu séu ekki nákvæmlega eins og þær skjámyndir sem blöstu við ákærða þegar hann átti viðskiptin. Breytingin hafi hins vegar verið minni háttar og falist í því að nú væri búið að bæta einhverjum texta inn í skjámyndina, undir glugganum þar sem upphæð var slegin inn, eða fella út slíkan texta. Kvað vitnið lögreglu hafa kannað þetta atriði en ekki hafi verið unnt að útvega skjámyndir eins og þær voru áður.
Aðspurt kvaðst vitnið telja að það liggi fyrir að Glitnir hafi ekki orðið fyrir tjóni af þessum atvikum. Vísað er til þess að ríkislögreglustjórinn miði í sínum gögnum við gengi Seðlabanka Íslands og kveðst vitnið telja það sakborningum til hagsbóta að miða við sem lægst gengi.
Vitnið D, viðskiptafræðingur og lögreglufulltrúi við embætti ríkislögreglustjóra kvaðst fyrst hafa komið að málinu eftir að búið var að taka ákvörðun um að hefja rannsókn þess. Vitnið hafi þá verið sent ásamt fleiri starfsmönnum til Akureyrar til að ræða við þá sem samkvæmt kærunni höfðu stundað hin meintu ólögmætu viðskipti. Vitnið kvaðst svo hafa tekið við umsjón rannsóknarinnar þegar á leið.
Vitnið kvaðst hafa tekið þátt í yfirheyrslum á Akureyri og hafi sakborningar verið yfirheyrðir tvisvar, fyrst að kvöldi þess dags sem 30. ágúst 2006 og svo aftur næsta dag. Vitnið kvaðst svo hafa farið aftur til Reykjavíkur og unnið þar rannsóknarvinnu en komið svo aftur til Akureyrar síðar ásamt C og þá yfirheyrt nánar alla þá sem kærðir voru.
Vitnið kvaðst hafa fengið í hendurnar gögn frá Glitni banka og úr þeim hafi hún unnið eigin gögn og yfirlit sem hún hafi borið undir sakaborningana í málinu og hafi þeir ekki gert neinar athugasemdir við vinnu hennar. Við vinnsluna kvaðst vitnið ekki hafa breytt neinu heldur hafi vinnslan einkum falist í að setja gögnin upp á skýrari hátt, bæði í þágu rannsakenda og sakborninga. Vitnið kvaðst við rannsóknina hafa óskað eftir nánari skýringum og gögnum frá bankanum og þá hafi A komið til hennar og skýrt málið nánar og um þann fund hafi vitnið svo ritað svokallaða eigin skýrslu. Þá kvað vitnið ekki hafa verið ágreining um atvik málsins eða um kerfisvilluna sjálfa.
Vitnið kvaðst ekki vita nákvæmlega um atvik sem varða haldlagningu fjár í málinu en kvað sakborninga hafa lýst því við fyrstu yfirheyrslur að þeir vildu skila fénu og peningarnir hafi allir enn þá verið til staðar.
Vitnið A kerfis- og hagfræðingur kom fyrir dóminn. Kvaðst hann hafa starfað við gjaldeyrismiðlun hjá Glitni banka og forverum hans í um 10 ár. Auk gjaldeyrismiðlunar kvaðst hann koma þar að tölvumálum tengdum gjaldeyrisviðskiptunum. Ef upphæð gjaldeyrisviðskipta í netbanka nemi meira en sem jafngildi tveggja milljóna íslenskra króna sé ekki notað almennt gengi heldur gefi starfsmenn þá upp sérstakt gengi í hverju tilviki. Stafi það bæði af því að starfsmenn vilji fylgjast með stórum færslum sem geti haft áhrif á gjaldeyrisstöðu bankans auk þess sem gengi í stórum viðskiptum sé yfirleitt eilítið hagstæðara fyrir viðskiptavininn. Aðspurt um þá villu sem hér er til umfjöllunar kvað vitnið hafa komið upp villu í forriti þannig að kaup- og sölugengi hafi víxlast. Þetta hafi aðeins verið í ákveðnum tilvikum; aðeins þegar upphæð var undir tveimur milljónum og aðeins ef verslað var með gjaldeyriskross, ekki í viðskiptum með íslenskar krónur. Þá hafi kaupandi, við val á upphæð, þurft að slá inn svokallaða mótmynt. Í framangreindu tilviki hafi verið verslað með evrur fyrir dollara og aðeins hafi komið fram villa ef upphæð var valin í dollurum en ekki ef evrur voru valdar þar sem evra sé alltaf grunnmynt í viðskiptum milli evru og dollars á gjaldeyrismörkuðum.
Vitnið kvað bankann, í venjulegum viðskiptum, kaupa á lægra gengi en hann selur á. Einhverra hluta vegna hafi þetta snúist við í forriti bankans. Bankinn hafi verið að kaupa gjaldeyri en verðlagt hann eins og hann væri að selja. Ef mynt var keypt og svo seld aftur hafi myndast munur sem sat eftir hjá viðskiptamanninum. Viðskiptavinurinn hafi keypt á lægra verði en hann seldi á. Á venjulegum degi myndu menn tapa lítillega á því að kaupa og selja strax aftur. Slíkur hagnaður myndist ekki nema fyrir mistök. Menn hagnist ekki af venjulegum gjaldeyrisviðskiptum nema taka einhverja hættu. Undir eðlilegum kringumstæðum tapi menn á því að kaupa og selja á sama augnabliki. Hins vegar geti menn hugsanlega hagnast á gjaldeyrisviðskiptum með því að kaupa, bíða í nokkra daga og selja þá eftir gengisbreytingar.
Aðspurt um hvernig starfsmenn bankans hafi orðið varir við að eitthvað væri öðruvísi en það átti að vera kveður vitnið þá sem starfa við gjaldeyrismiðlun í bankanum hafa séð að viðskiptavinur keypti og seldi strax aftur nokkrum sinnum. Þar hafi verið um að ræða viðskipti sem námu meira en tveimur milljónum króna og því hafi þau komið til kasta þeirra. Vitnið hafi skoðað viðskiptin og séð að viðkomandi tapaði smá í hvert skipti þar sem hann keypti á hærra verði en hann seldi á en gerði þetta þó ítrekað. Vitnið hafi ákveðið að skoða þetta betur og kannað gjaldeyrisreikninga viðkomandi. Þar hafi strax mátt sjá ótrúlegan fjölda færslna sem bentu til þess að eitthvað væri að. Vitnið hafi skoðað þetta nánar ásamt tölvufólki og lögfræðingum og smám saman hafi þau áttað sig á því hvað var að gerast. Í kjölfar þess hafi verið skoðað hvort fleiri hafi stundað samskonar viðskipti og komið í ljós að þrír aðrir viðskiptamenn hefðu gert það.
Vitnið kvað að unnt hafi verið að eiga viðskipti með svokallaða gjaldeyriskrossa, þ.e. á milli tveggja erlendra mynta án þess að íslenska krónan komi við sögu, í gjaldeyrisviðskiptakerfinu frá 12. desember 2005 og að allan þann tíma hafi villan verið í kerfinu. Slík kerfi séu prófuð en ekki sé hægt að útiloka villur með öllu. Almennt eigi viðskiptamenn þó að geta treyst því að slík kerfi virki rétt. Vitnið kveðst minna að á þeim tíma sem villan var inni hafi verið nokkrar færslur af þessu tagi af öðrum en þessu fjórum einstaklingum og tap bankans af því hafi alls numið um hundrað þúsund krónum. Þar hafi ekki verið um að ræða ítrekaðar færslur sömu aðila heldur eðlileg viðskipti.
Aðspurt um hvort þeir einstaklingarnir sem um ræðir hafi hlotið að gera sér grein fyrir að þetta væri ekki í lagi kveðst vitnið telja það svo, í ljósi þess fjölda færslna sem um ræðir. Menn myndu ekki endanlega taka eftir því af einni færslu en eftir tvær færslur, eina í hvora átt, væri komin hærri upphæð á reikninginn en byrjað var með og það væri augljóst þeim sem sæti við og framkvæmdi slíkar millifærslur.
III.
Ákærði hefur hér fyrir dómi viðurkennt að hafa, með 384 færslum í gjaldeyrisviðskiptakerfi í netbanka Glitnis banka hf. þann 29. ágúst 2006, keypt dollara fyrir evrur og selt þá strax aftur fyrir evrur, og þannig aflað sér kr. 2.421.367,85.
Er ákærða gefið að sök að hafa með háttsemi sinni brotið gegn 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Segir þar að ef maður sem fengið hefur aðstöðu til þess að gera eitthvað sem annar maður verður bundinn við, eða hefur fjárreiður fyrir aðra á hendi, misnotar þessa aðstöðu sína, þá varði það fangelsi allt að 2 árum, en allt að 6 árum séu sakir mjög miklar.
Ákærði krefst sýknu á þeim forsendum að háttsemi hans brjóti ekki í bága við ofangreint ákvæði hegningarlaganna.
Byggir ákærði sýknukröfu sína meðal annars á því að bankinn hafi, samkvæmt eigin skilmálum, rétt til að bakfæra einhliða þegar mistök verða. Bankinn hafi því ekki orðið bundinn af viðskiptunum og því skorti á að fullnægt sé skilyrðum 249. gr. hegningarlaganna.
Viðskipti ákærða fóru þannig fram að hann valdi í heimabankanum að millifæra tiltekna upphæð af einum gjaldeyrisreikningi sínum á annan. Birtist þá yfirlit þar sem fram kom hvaða gengi byðist og var það þá ákærða að ákveða hvort hún gengi að þeim kjörum. Ef hann valdi að greiða var millifærslan framkvæmd á því gengi sem boðið var. Verður að líta svo á að bankinn hafi gert honum tilboð sem hann samþykkti. Þegar hann samþykkti voru viðskiptin frágengin. Ákærði fékk umrædda fjármuni í sínar vörslur og gat þar með ráðstafað þeim að vild. Verður því að líta svo á að með samþykki ákærða hafi komist á samningur milli aðila sem er bindandi í samræmi við reglur um skuldbindingargildi samninga. Verður ekki fallist á að ákvæði í skilmálum Glitnis um rétt til að bakfæra þegar mistök verða haggi þeirri staðreynd. Slíkt ákvæði á vitanlega einkum við þegar mistök uppgötvast sem hvorugum aðilanum hefur verið kunnugt um áður en það getur ekki haft þau áhrif að háttsemi teljist refsilaus sem ella væri refsiverð. Verður því miða fullframningu brotsins við samþykki tilboðs og hafna þeirri málsástæðu ákærða að framangreindur áskilnaður bankans geti haft áhrif á það.
Ákærði byggir einnig á því að hann hafi ekki haft ásetning til brotsins sbr. 18. gr. almennra hegningarlaga og sýkna beri hann af þeim ástæðum. Hann hafi stundað viðskiptin í netbanka sínum undir nafni þannig að engin leynd hafi hvílt yfir gerðum hans. Hann hafi aðeins framkvæmt viðskipti sem bankinn hafi boðið upp á, hann hafi samþykkt tilboð bankans um tiltekin kjör. Ákærði hafi ekki gert sér grein fyrir að hagnaður hans stafaði af mistökum hjá bankanum og hafi því ekki haft ásetning til að misota sér aðstöðu sína.
Samkvæmt gögnum málsins færði ákærði 1.990.000 íslenskar krónur af tékkareikningi sínum á dollarareikning, alls 28.473,32 dollara, klukkan 09:19 þann 29. ágúst 2006. Klukkan 09:20 millifærði hann 28.000 dollara á evrureikning og fékk fyrir 21.909,23 evrur. Klukkan 10:00 millifærði ákærði af evrureikningi á dollarareikning. Hann valdi fjárhæðina í evrum og var gengið þá 1,2766. Klukkan 10:37 millifærði ákærði aftur af evrureikningnum á dollarareikning en valdi fjárhæð í dollurum og þá var gengið 1,2855. Klukkan 10:42 færði ákærði aftur af dollarareikningnum yfir á evrureikninginn. Klukkan 10:57 hefjast svo kerfisbundnar færslur ákærða þar sem hann velur fjárhæð ávallt í dollurum. Fyrst keypti hann 20.000 dollara fyrir 15.566,63 evrur og seldi 20.000 dollara aftur klukkan 10:58 fyrir 15.667,84 evrur. Þá koma þó nokkrar færslur fram og til baka með 28.000 dollara þar sem hann fékk alltaf fleiri evrur fyrir þá en hann borgaði fyrir þá örskömmu áður og þannig safnaðist upp gróði á evrureikningi hans. Þá breytti ákærði upphæðinni þannig að hún varð lítillega undir 28.000 dollurum og breytti henni í hverri færslu en helt áfram að færa milli sömu tveggja reikninganna, stundum tvisvar til þrisvar á mínútu, nánast samfellt til klukkan 15:53 þennan dag. Klukkan 14:41 seldi ákærði 27.550 dollara en í næstu færslu, klukkan 14:42 brá hann út af mynstrinu og seldi 27.551 evru, þ.e. valdi upphæð í evrum. Var gengið þá 1,2744 en hafði í færslunum næst á undan þegar hann framkvæmdi sömu hreyfingu en valdi upphæð í dollurum verið um 1,2805. Í kjölfarið koma 11 færslur þar sem hann valdi upphæð allaf í dollurum, á milli 27.500 og 28.000 en klukkan 14:48 er svo aftur færsla þar sem ákærði sló inn upphæð í evrum, 27.952. Þá var gengið 1,2742 en hafði verið 1.2803 -1.2805 í sambærilegum færslum á undan. Skera þessar tvær færslur, þar sem hann valdi fjárhæð í evrum og upphæð sem fór yfir 2.000.000 íslenskra króna, sig þannig nokkuð frá öðrum færslum. Að auki má sjá 4 færslur frá klukkan 15:09 til 15:45 þar sem ákærði sló inn hærri fjárhæð en 2.000.000 íslenskra króna og er gengið þá annað heldur en þegar hann var innan við 2.000.000 króna. Í framburði vitnisins A kom fram að þegar upphæð gjaldeyrisviðskipta í netbankanum fari yfir 2.000.000 íslenskra króna sé ekki notast við almennt gengi heldur gefi starfsmenn þá upp sérstakt gengi í hverju tilviki.
Í lok dagsins millifærði ákærði kr. 4.326.360 af gjaldeyrisreikningum sínum inn á tékkareikning í Glitni banka hf.
Ákærði bar að B, bróðir hans, hefði bent honum á að unnt væri að hagnast af viðskiptum með dollara og evrur í heimabankanum. Ákærði hafi því stofnað reikninga í því skyni. Ákærði bar að ef hann gerði villu hafi bankinn tilkynnt honum um það og nefndi í dæmaskyni að hann hefði fengið tilkynningu þegar hann setti inn of háa fjárhæð. Eins og áður greinir bar vitnið A að ef menn óskuðu eftir viðskiptum með hærri fjárhæðir en kr. 2.000.000 í netbankanum hefðu starfsmenn bankans ákveðið gengið í hvert skipti. Samkvæmt framburði hans og þeim færslum ákærða sem að ofan eru raktar úr gögnum málsins hefur ekkert verið því til fyrirstöðu að ákærði færði meira en kr. 2.000.000 heldur fengu viðskiptin þá aðra meðferð og gjaldmiðillinn annað gengi þannig að ákærði hagnast ekki eins og þegar tölvan valdi gengið.
Ákærði kvað ekki hafa hvarflað að sér að þessi viðskipti væru óeðlileg en ef svo væri myndi hann fá um það tilkynningu frá bankanum. Hann kvaðst ekki hafa hugleitt hvaðan peningarnir kæmu.
Í því ljósi er það umhugsunarvert að hann kaus að sitja við tölvu sína og færa smáar upphæðir fram og til baka milli reikninga sinna í margar klukkustundir í stað þess að hafa samband við bankann og falast eftir að eiga slík viðskipti í stærra umfangi.
Eins og að ofan er lýst færði ákærði peninga milli evru- og dollarareikninga sinna og fékk fleiri evrur fyrir dollarana en hann hafði örskömmu áður greitt fyrir þá og safnaðist þannig upp ágóði á evrureikningi hans. Hagnaðist hann þannig á því einu að færa peninga viðstöðulaust fram og til baka milli reikninga sinna. Inn á milli komu færslur þar sem hann valdi fjárhæð í evrum eða fór upp fyrir tveggja milljón króna markið og var þá gengið annað og óhagstæðara ákærða. Svo sem að framan er rakið er fram komið að gengið var mismunandi við kaup á dollurum fyrir evrur eftir því hvort upphæðin var tiltekin í evrum eða dollurum og gengið var annað þegar upphæð var slegin inn í evrum og ef farið var yfir 2.000.000 króna markið. Benti þetta ótvírætt til þess að ekki væri allt með felldu. Þó að ákærði hafi ef til vill ekki gert sér grein fyrir að háttsemi hans varðaði refsingu verður að telja, við heildstætt mat á framangreindu, að það hafi ekki getað dulist honum að ágóði hans væri til kominn vegna mistaka bankans. Samkvæmt framansögðu telur dómurinn sannað að ákærði hafi haft ásetning til að nýta sér mistök bankans í hagnaðarskyni.
Með vísan til alls þess er að framan er rakið þykir brot ákærða sannað eins og því er í ákæru lýst og varðar það við 249. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 svo sem í ákæru greinir.
IV.
Samkvæmt vottorði sakaskrár ríkisins hefur ákærði ekki áður sætt refsingum. Við ákvörðun refsingar verður að auki litið til þess að ákærði hefur játað þá háttsemi sem honum er gefin að sök og samþykkt að skila öllum ágóða sínum til Glitnis banka hf. Þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í 2 mánuði en rétt þykir að fresta fullnustu refsingarinnar og skal hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dóms þessa haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. laga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Enginn útlagður kostnaður hlaust af rannsókn og rekstri málsins og skipaður verjandi ákærða gerði ekki kröfu um málsvarnarlaun, yrði ákærði sakfelldur.
Dómsuppsaga hefur dregist lítillega vegna anna dómarans.
Dóminn kveður upp Ásgeir Pétur Ásgeirsson dómstjóri.
D Ó M S O R Ð :
Ákærði X sæti fangelsi í 2 mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og hún falla niður að liðnum 2 árum frá uppkvaðningu dómsins haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.