Hæstiréttur íslands

Mál nr. 102/2000


Lykilorð

  • Sjómaður
  • Skiprúmssamningur


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. desember 2000.

Nr. 102/2000.

Útgerðarfélagið Tálkni ehf.

(Elvar Örn Unnsteinsson hrl.)

gegn

Rune Verner Sigurðssyni

(Einar Gautur Steingrímsson hrl.)

og gagnsök

                                                   

Sjómenn. Skiprúmssamningur.

R var vélavörður á skipi Ú. Skiprúmssamningi hans var slitið á þeim forsendum að hann hefði hlaupist á brott úr skiprúmi í heimildarleysi. R kvaðst hins vegar hafa fengið leyfi skipstjórans frá störfum í eina viku til að sinna tilteknu erindi og byggði kröfu sína um laun í uppsagnarfresti á því að sér hefði verið sagt fyrirvaralaust upp störfum. Skipstjórinn neitaði afdráttarlaust að hafa gefið umrætt leyfi og taldi R hafa brotið alvarlega gegn skyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningi. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að skipstjóranum hefði verið heimilt að víkja R úr skiprúmi á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, eins og málum var komið og hafnaði kröfum R.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Gunnlaugur Claessen og Markús Sigurbjörnsson.

Aðaláfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 16. mars 2000. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu gagnáfrýjanda og málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti. Til vara krefst hann staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað, sem falli niður í héraði. Í því tilviki krefst aðaláfrýjandi málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Gagnáfrýjandi áfrýjaði héraðsdómi fyrir sitt leyti 31. maí 2000. Hann krefst þess að aðaláfrýjandi verði dæmdur til að greiða sér 1.129.809 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af nánar tilteknum fjárhæðum frá 9. júlí 1998 til greiðsludags. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

I.

Svo sem rakið er í héraðsdómi greinir málsaðila á um atvik, sem leiddu til þess að skiprúmssamningi gagnáfrýjanda sem vélarvörður á fiskiskipi aðaláfrýjanda, Bjarma BA 326, var slitið 5. júní 1998. Deila þeir meðal annars um hvort gagnáfrýjandi hafi fengið leyfi frá störfum í lok maímánaðar sama árs eða hvort um óheimila fjarvist hans frá störfum hafi verið að ræða. Heldur gagnáfrýjandi fram að hann hafi 22. maí 1998 óskað eftir og fengið leyfi skipstjórans frá störfum í eina viku frá og með 29. sama mánaðar til að fara til Reykjavíkur. Þangað hafi hann átt brýnt erindi vegna glasafrjóvgunar, sem hann og kona hans hugðust gangast undir. Við skýrslugjöf fyrir héraðsdómi neitaði skipstjórinn hins vegar afdráttarlaust að hafa gefið umrætt leyfi, heldur hafi gagnáfrýjandi tekið sér frí án heimildar eða vitneskju sinnar. Skipstjórinn kannaðist þó við að gagnáfrýjandi hafi einhvern tíma áður nefnt við sig að hann þyrfti á leyfi að halda vegna væntanlegrar glasafrjóvgunar. Kvaðst skipstjórinn ekki hafa haft ástæðu til annars en að taka þá vel í það, en ekkert hafi verið rætt um þetta nánar. Yfirvélstjórinn á skipinu bar fyrir dómi að honum hafi ekki verið kunnugt um að gagnáfrýjanda hefði verið veitt leyfi frá störfum í lok maí 1998.

Eftir ferð sína til Reykjavíkur kveðst gagnáfrýjandi hafa komið aftur til Flateyrar síðdegis 4. júní 1998. Sá hann Bjarma liggja þar bundinn við bryggju og stóð yfir löndun úr skipinu. Ekki gaf hann sig þó fram við skipstjórann eða aðra úr áhöfninni, en hélt heim til sín á Flateyri. Gaf hann þá skýringu að hann hafi verið í viku leyfi frá störfum, auk þess sem hann hafi talið að skipinu yrði ekki haldið til veiða, heldur siglt til heimahafnar á Tálknafirði til að vera þar á sjómannadeginum, sem fór í hönd. Þegar skipið hafði lagt úr höfn næsta dag tilkynntu skipstjórnarmenn honum símleiðis að skiprúmssamningi hans væri slitið vegna óheimillar fjarvistar. Fyrir dómi kváðust skipstjórinn og yfirvélstjórinn hafa frétt af komu gagnáfrýjanda til Flateyrar deginum áður og reynt án árangurs að ná sambandi við hann símleiðis.

II.

Hvað sem líður ágreiningi um fjarvist gagnáfrýjanda, sem hófst 29. maí 1998 vegna erindis hans til Reykjavíkur, er ljóst að því tilefni til fjarveru frá störfum lauk síðdegis 4. júní sama árs. Staðhæfing hans um leyfi umfram þann tíma, sem ferðin til Reykjavíkur tók, hefur enga haldbæra stoð í málinu. Hann sá skipið í höfn á Flateyri er hann kom þangað, en gerði engu að síður ekki vart við sig. Tók hann þar með sjálfur áhættu af því að þær forsendur stæðust, sem hann réttlætti þá ákvörðun með. Eins og málum var komið var skipstjóra heimilt að víkja gagnáfrýjanda úr skiprúmi á grundvelli 2. töluliðs 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985. Á gagnáfrýjandi ekki rétt til launa eftir það, sbr. 1. málslið 1. mgr. 25 gr. sömu laga.

Samkvæmt því, sem að framan er rakið, verður aðaláfrýjandi sýknaður af kröfu gagnáfrýjanda. Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

 

 

Dómsorð:

Aðaláfrýjandi, Útgerðarfélagið Tálkni ehf., er sýkn af kröfu gagnáfrýjanda, Rune Verners Sigurðssonar.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Vestfjarða 17. desember 1999:

                Mál þetta, sem dómtekið var þann 9. nóvember sl. að undangengnum munn­legum málflutningi, hefur Rune Verner Sigurðsson, kt. 270461-6549, Búhamri 19, Vestmannaeyjum, höfðað hér fyrir dómi þann 6. júlí 1999 með stefnu á hendur Útgerðarfélaginu Tálkna ehf., kt. 650697-2009, Eyrarvegi 13, Flateyri.

                Stefnandi krefst þess aðallega að stefndi verði dæmdur til að greiða sér 1.610.280 krónur auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af þeirri fjárhæð frá 15. júlí 1998 til greiðsludags.  Til vara er þess krafist að stefndi verði dæmdur til þess að greiða stefnanda 894.600 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga nr. 25/1987 af 912.492 krónum frá 15. júlí 1998 til greiðsludags.  Í öllum tilvikum er krafist sjóveðréttar í fiskiskipinu Bjarma BA-326, skipaskrárnúmer 1321, fyrir ofangreindum fjárhæðum og málskostnaðar að skað­lausu, að teknu tilliti til virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

                Stefndi krefst þess aðallega að verða sýknaður af kröfum stefnanda og málskostnaðar samkvæmt framlögðum reikningi, en til vara þess að krafa stefnanda verði lækkuð í 647.849 krónur með vöxtum af 414.636 krónum frá 9. júlí 1998 og af 647.849 krónum frá 9. ágúst 1998 til greiðsludags.  Til þrautavara krefst stefndi þess að krafa stefnanda verði lækkuð í 1.129.809 krónur með vöxtum af 414.636 krónum frá 9. júlí 1998 til 9. ágúst sama ár, af 647.849 krónum frá þeim degi til 9. september sama ár, af 996.810 krónum frá þeim degi til 9. okóber sama ár, en af 1.129.809 krónum frá þeim degi til greiðsludags.  Bæði í vara- og þrautavarakröfu er þess krafist að málskostnaður verði felldur niður.

            Málsatvik eru umdeild í verulegum atriðum. 

                Stefnandi var skráður vélavörður á fiskiskip stefnda, Bjarma BA-326, skipa­skrár­nr. 1321, þann 5. mars 1998, en kveðst áður hafa starfað á samnefndu skipi, ýmist sem háseti eða vélstjóri í afleysingum, frá því í nóvember árið áður.  Það skip var í eigu einkahlutafélagsins Tálkna á Tálknafirði.  Sami skipstjóri var á báðum skipunum.    Ekki var gerður skriflegur ráðningarsamningur við stefnanda. 

Stefnandi sagði skiprúmi sínu lausu með ódagsettu bréfi „frá og með laugardeginum 25/4 ‘98“.  Segir hann tilefnið hafa verið að hann hefði þjáðst af tann­rót­arbólgu í nokkra daga og skipstjórinn neitað honum um leyfi til að leita tannlæknis á Ísafirði. 

Aðilar töldu uppsagnarfrestinn vera einn mánuð.  Segir stefnandi að þann 15. maí 1998 hefði hann spurt yfirvélstjórann hvort hann hefði náð að útvega annan mann í sinn stað og yfirvélstjórinn tjáð sér að svo væri ekki.  Hefði hann þá rætt við skipstjórann á Bjarma og boðist til að vera á skipinu fram á haustið eða lengur þar sem ekki væri búið að ráða nýjan vélavörð.  Að loknum tveggja daga um­hugs­un­ar­fresti hefðu þeir handsalað samkomulag um að uppsögnin yrði dregin til baka og stefnandi myndi halda áfram á skipinu fram á haust, eða jafnvel lengur.

                Þann 22. maí 1998 hefði hann beðið um leyfi í eina viku frá og með 29. sama mán­aðar og fengið það.  Hefði hann þurft að fara til Reykjavíkur, þar sem þau kona hans hefðu verið boðuð þangað vegna glasafrjóvgunar.  Hann hefði komið aftur til Flateyrar fimmtudaginn 4. júní 1998, en daginn eftir hefði yfir­vél­stjórinn hringt og sagt að dót hans væri á bryggjunni og þyrfti hann ekki að koma aftur til skips þar sem ráðinn hefði verið annar maður í hans stað og að litið væri svo á að uppsögn hans frá 24. apríl 1998 hefði tekið gildi.

                Stefndi kveður það rangt að stefnandi hefði aldrei fengið frí.  Hann hefði aðeins starfað hjá sér frá 8. mars 1998, en áður fengið öll þau frí sem hann hefði óskað eftir hjá fyrri vinnuveitanda, Tálkna ehf., eftir því sem stefndi viti best.  Kveður hann sér vera ókunnugt um ástæðu uppsagnar stefnanda 25. apríl 1998, en hún hafi ekki verið sú sem stefnandi haldi fram.  Hann hefði reynt að draga hana til baka en því hefði verið hafnað.  Hefði hann horfið frá borði þann 29. maí 1998 í heimildarleysi, þrátt fyrir að hann vissi að skipið væri að fara til veiða.  Ekki hefði náðst í hann þann dag eða næstu daga og eftirgrennslan lokið með því að ákveðið hefði verið að skilja eigur hans eftir í landi þann 5. júní 1998.  Það kvöld hefði loks náðst í stefnanda heima hjá honum og honum þá verið tjáð að litið væri svo á að hann hefði hlaupist á brott úr skiprúminu og að nýr maður yrði ráðinn í hans stað.  Þann 8. júní hefði nýr maður verið ráðinn og skráður á skipið í stað stefnanda.

                Stefnandi kveðst byggja á því að sér hafi verið fyrirvaralaust sagt upp störfum þann 5. júní 1998.  Samkvæmt 2. mgr. 27. gr. sjómannalaga nr. 35/1985 beri skip­verja kaup til þess dags og að honum meðtöldum er ráðningu hans ljúki og skipti þá ekki máli þó hann hafi áður verið afskráður.  Samkvæmt 25. gr. laganna eigi skip­verji rétt á kaupi þann tíma sem mælt sé fyrir um í 9. gr. þeirra, sé honum vikið úr skiprúmi áður en ráðningartími hans sé liðinn og án þess að heimild sé til þess í 23. eða 24. gr. laganna.  Samkvæmt 2. mgr. 9. gr. laganna sé uppsagnarfrestur á ráðn­ing­ar­samningi yfir­manns 3 mánuðir, nema um annað hafi verið sérstaklega samið og eigi það einnig við um skipverja sem starfað hafi sem afleysingamaður í 9 mánuði sam­fleytt hjá sama útgerðarmanni.  Samkvæmt 5. gr. sjómannalaga teljist stýrimenn, vél­stjórar, loft­skeytamenn og brytar til yfirmanna.  Sér hefði ekki verið ætlað að starfa á Bjarma BA-326 eftir 5. júní 1998 og eigi hann því rétt til launa í upp­sagnarfresti tímabilið 6. júní 1998 til 6. september sama ár, sbr. 2. mgr. 9. gr. sjó­mannalaga, samtals í 90 daga.   Varakröfu sína kveðst stefnandi miða við það að ekki teljist sannað að hann hafi dregið til baka uppsögn sína 25. apríl 1998 og eigi hann þá rétt til launa frá 6. júní 1998 til 25. júlí sama ár.

                Stefndi byggir sýknukröfu sína á því að sér hafi verið heimilt samkvæmt 2. tl. 1. mgr. 24. gr. sjómannalaga nr. 35/1985, sbr. 3. mgr. sömu gr., að víkja stefnanda úr skiprúmi, þar sem hann hefði horfið á brott af vinnustað án heimildar, þegar fyrir hefði legið að skipið væri að fara til veiða.  Með því hefði hann brotið alvarlega gegn skyldum sínum samkvæmt ráðningarsamningi og megi því til frekari áréttingar vísa til 2. mgr. 60. gr. sjómannalaga.  Stefnandi hefði ekki verið rekinn úr starfi, heldur hefði hann horfið fyrirvaralaust og án nokkurra skýringa úr því.  Liggi ekkert fyrir í gögnum málsins sem renni stoðum undir fullyrðingar hans um annað, en sönn­unarbyrðin hvíli alfarið á honum.

                Varakröfu sína miðar stefndi við það að teljist stefnandi hafa sannað að honum hafi verið meinað að vinna út uppsagnarfrest sinn samkvæmt uppsögn frá 25. apríl 1998, eigi hann rétt til launa til og með 24. júlí 1998.  Þrautavarakröfuna miðar hann við það að teljist stefnandi hafa sannað að uppsögnin hafi verið afturkölluð og að stefndi hafi sagt sér upp með ólögmætum hætti, eigi hann rétt til launa til og með 5. september 1998.  Varakröfunum til stuðnings hefur stefndi lagt fram afrit launa­seðla vélavarðar á Bjarma BA-326, sem ráðinn var í stað stefnanda.

            Stefnandi gaf skýrslu við aðalmeðferð málsins og einnig vitnin Einar Ólafur Steinsson, yfirvélstjóri og Níels Adolf Ársælsson, skipstjóri á Bjarma BA-326, sá síðarnefndi símleiðis.

                Stefnandi lýsti atvikum nánar svo hér fyrir dómi að hann hefði áskilið það í upphafi að hann fengi leyfi til nauðsynlegra fjarvista vegna tannsmíða og tilrauna til glasafrjóvgunar.  Engum hefði verið kunnugt um það á skipinu hver uppsagnarfrestur sinn ætti að vera og hefði hann fengið þær upplýsingar símleiðis frá stéttarfélagi á Ísa­firði að sér bæri eins mánaðar uppsagnarfrestur.  Hefði hann ekki vitað betur fyrr en þann 8. júní 1998, er hann hefði haft samband við lögmann.  Hann hefði kvatt skipstjórann áður en hann hefði yfirgefið skipið þann 29. maí og síðan farið í land og sleppt endum er skipið lagði frá.  Hann hefði komið til Flateyrar á ný um klukkan 15.30 fimmtudaginn 4. júní og þá séð skipið þar við bryggju.  Mjög óvenjulegt hefði verið að landað væri á þeim degi vikunnar.  Hefði hann ályktað að ákveðið hefði verið að sigla heim til Tálknafjarðar og taka langt helgarfrí í tilefni sjómannadagsins næsta sunnudag.   Hann hefði því ekki séð ástæðu til að mæta til skips, en síðan hugsað sér að fara til Tálknafjarðar á sjómannadaginn og halda hann hátíðlegan þar ásamt skipsfélögum sínum.   Ekki hefði hann orðið var við að reynt hefði verið að hafa samband við sig, fyrr en að kvöldi 5. júní, þegar yfirvélstjórinn hefði hringt í sig.

                Vitnið Einar Ólafur Steinsson bar að hann hefði ekki haft hugmynd um það hvort stefnandi hefði fengið frí, en heyrt af afspurn að hann þyrfti að taka frí.  Sagði hann að menn hefðu orðið hissa á því að hann hefði orðið eftir.  Hefði skipstjórinn tjáð sér að hann hefði ekki vitað að stefnandi ætlaði að verða eftir.   Aðspurt sagði vitnið að það hefði reynt tvívegis þann 5. júní að hringja heim til stefnanda, en ekki hefði verið svarað.  Eftir að lagt hefði verið frá landi hefði náðst í stefnanda og vitnið þá tjáð honum að fötin hans væru á bryggjunni og að líklega væri búið að ráða mann í hans stað.

                Vitnið Níels A. Ársælsson bar að stefnandi hefði ekki fengið leyfi sitt til að fara í frí.  Aðspurt kannaðist vitnið við að það hefði einhvern tíma borið á góma að stefnandi og kona hans væru að reyna að eignast barn með glasafrjóvgun, en neitaði því að stefnandi hefði sett einhver skilyrði varðandi það eða annað er hann var ráðinn, enda hefði hann ekki verið í aðstöðu til að setja slík skilyrði.

Í bréfi frá síðastnefndu vitni, sem það ritaði lögmanni stefn­anda þann 30. júní 1998 og frammi liggur í málinu, segir að stefnandi hefði talið sig eiga eins mánaðar uppsagnarfrest.  Samkvæmt þessu sama bréfi neitaði vitnið bón stefnanda um að fá að vera áfram fram á haustið, en féllst á að hann yrði um borð þar til annar yrði ráðinn, en í bréfinu segir að ekki hefði verið talið að það yrði í bráð.  Samkvæmt þessu og framburði stefnanda voru báðir aðilar í villu um lengd uppsagnarfrestsins, en hér fyrir dómi er ekki ágreiningur með þeim um það að hann hafi átt að vera þrír mánuðir.  Þegar þetta er virt þykir ekki verða við það miðað gegn staðhæfingum stefnda, að samið hafi verið um að réttaráhrif uppsagnarinnar féllu niður, en ekki verður heldur lagt til grundvallar að leggja beri villu þeirra að jöfnu við samkomulag um styttan uppsagnarfrest. 

Stefnanda og skipstjóra Bjarma, sem virðist alfarið hafa komið fram fyrir hönd stefnda í samningssambandi aðila varðandi þau atvik sem hér skipta máli, greinir alveg sérstaklega á um það hvort stefnandi hafi beðið um og fengið leyfi til að fara í frí þann 29. maí 1998.  Eru þeir tveir til frásagnar um samskipti sín að þessu leyti.  Samkvæmt framburði stefnanda átti hann brýnt erindi til Reykjavíkur eins og að ofan er lýst.  Við munnlegan málflutning var því lýst yfir að ekki væri í sjálfu sér vefengt af stefnda hálfu að stefnandi hefði farið þessara erinda í umrætt sinn.  Aðilar eru sammála um að stefnandi hafi viljað halda áfram störfum í þágu stefnda og er hann fór skildi hann föggur sínar eftir um borð í skipinu.  Var það ekki til þess fallið að álykta að stefnandi væri alfarið hlaupinn úr skiprúmi.  Ekki var orðið við áskorun stefnanda til stefnda undir rekstri þessa máls um að leggja fram upplýsingar úr dagbók skipsins á um­ræddu tímabili, og verður stefndi að bera hallann af því að ekki liggur fyrir hvort og þá hvernig ástæðu þess er þar getið að stefnandi var ekki um borð er lagt var úr höfn þann 29. maí.  Fjarveru hans er að engu getið í véladagbók samkvæmt framlögðu ljósriti úr henni.  Einnig verður að líta til sönnunarstöðu aðila, og virða stefnanda það til vorkunnar að hafa ekki tryggt sér skriflega sönnun fyrir því að vera í leyfi, einkum þegar til þess er litið að hann var ráðinn í þjónustu stefnda með munnlegum samningi, þrátt fyrir ákvæði 6. gr. sjómannalaga um skyldu stefnda til að gera skriflegan ráðningarsamning.  Þegar þessa alls er gætt þykir verða að leggja hallann af því á stefnda, eins og atvikum er hér háttað, að ekki verður sannað hvort stefnandi fékk munnlegt leyfi hjá skipstjóra Bjarma eða ekki.

Stefnandi kveðst ekki hafa komið að borði er hann kom aftur til Flateyrar þann 4. júní 1998, þar sem hann hefði ályktað að ákveðið hefði verið að taka langt frí um sjó­manna­dags­helgina og því lægi ekki annað fyrir en heimsigling til Tálkna­fjarðar og einnig hefði hann talið sig vera í fríi.  Tilraunir yfirmanna hans í þá veru að hafa samband við hann báru fyrst árangur skömmu eftir að ákvörðun hafði verið tekin um að víkja honum úr skiprúminu og föggur hans settar á land.  Ekki liggur annað fyrir en að þessar tilraunir hafi einskorðast við nokkrar símhringingar. 

Þegar þetta er virt telur dómurinn ekki verða lagt til grundvallar að stefnda hafi verið rétt að víkja stefnanda fyrirvaralaust úr skiprúmi eins og hér stóð á.  Með vísan til 1. mgr. 25. gr., sbr. 2. mgr. 9. gr. laga nr. 35/1985 verður stefndi því dæmd­ur til að greiða honum kaup þann tíma sem eftir stóð af þriggja mánaða upp­sagn­arfresti hans, eða frá 6. júní 1998 til 24. júlí sama ár.

Í stefnu kveðst stefnandi miða við svokallaða meðallaunareglu, og reiknar út meðallaun stefnanda síðustu mánuðina áður en störfum hans lauk, eða frá 9. mars 1998 til 29. maí sama ár, kr. 17.892 á dag.   Í stefnu var skorað á stefnda að leggja fram launaseðla ef hann teldi þessa áætlun of háa.  Varð stefndi við því með því að leggja fram afrit launaseðla þess skipverja sem ráðinn var í stað stefnda og er vara­krafa hans tölulega byggð á þeim.  Því var lýst yfir við munnlegan málflutning að af hálfu stefnanda væru engar athugasemdir gerðar við þá útreikninga, en því samt sem áður haldið fram að ekki ætti að miða kröfu stefnanda við staðgengilslaun heldur ofannefnda meðallaunareglu.  Stefndi þykir ekki eiga frekari rétt til bóta en sem nemur launum, sem sá sem kom í hans stað hafði, meðan uppsagnarfresturinn varaði.  Verða bætur því dæmdar í samræmi við varakröfu stefnda, þ.e. 647.849 krónur, með vöxtum eins og greinir í dómsorði.

Eftir þessum málsúrslitum verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda málskostnað sem ákveðst 150.000 krónur.

Stefnandi á sjóveð í Bjarma BA-326, skipaskrárnr. 1321, fyrir hinni tildæmdu skuld.

Dóm þennan kveður upp Erlingur Sigtryggsson, dómstjóri.  Dómsuppsaga hef­ur dregist vegna anna.  Lögmenn aðila féllu frá endurflutningi málsins.

DÓMSORÐ:

Stefndi, Útgerðarfélagið Tálkni ehf., greiði stefnanda, Rune Verner Sigurðs­syni, 647.849 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt III. kafla vaxtalaga af 414.636 krónum frá 9. júlí 1998 til 9. ágúst sama ár, en af 647.849 krónum frá þeim degi til greiðsludags og 150.000 krónur í málskostnað.

Stefnandi á sjóveð í Bjarma BA-326, skipaskrárnr. 1321 fyrir hinni tildæmdu skuld.