Hæstiréttur íslands
Mál nr. 301/2016
Lykilorð
- Líkamsárás
- Einkaréttarkrafa
- Skilorð
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Helgi I. Jónsson og Karl Axelsson og Davíð Þór Björgvinsson settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 21. mars 2016 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Ákæruvaldið krefst þess að refsing ákærða verði þyngd.
Ákærði krefst þess aðallega að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur, til vara að hann verði sýknaður og að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi, en að því frágengnu að refsing hans verði milduð og fjárhæð einkaréttarkröfu lækkuð.
Brotaþoli, A, krefst þess aðallega að ákærða verði gert að greiða sér 3.100.000 krónur, til vara aðra lægri fjárhæð að mati réttarins, í báðum tilvikum með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði, en að því frágengnu að héraðsdómur verði staðfestur um einkaréttarkröfu sína.
Engin efni eru til að vefengja mat héraðsdóms á munnlegum framburði ákærða eða vitna þannig að leiði til ómerkingar héraðsdóms, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, en samkvæmt 2. mgr. sömu greinar getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar, nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði gefi skýrslu þar fyrir dómi. Verður kröfu ákærða um ómerkingu héraðsdóms því hafnað.
Með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um sakfellingu ákærða og heimfærslu til refsiákvæðis. Atlaga ákærða var fólskuleg og beindist að sambúðarkonu hans. Samkvæmt því og með hliðsjón af 3. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 er refsing ákærða ákveðin fangelsi í þrjá mánuði, sem bundin verður skilorði eins og í dómsorði greinir.
Að teknu tilliti til afleiðinga árásar ákærða eru miskabætur til handa brotaþola ákveðnar 600.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest.
Ákærði verður dæmdur til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns og þóknun réttargæslumanns brotaþola, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í þrjá mánuði, en fresta skal fullnustu refsingarinnar og falli hún niður að liðnum tveimur árum frá uppkvaðningu dóms þessa að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.
Ákærði greiði A 600.000 krónur með vöxtum eins og dæmdir voru í héraði.
Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað eru staðfest.
Ákærði greiði allan áfrýjunarkostnað málsins, 724.037 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Ásgeirs Þórs Árnasonar hæstaréttarlögmanns, 496.000 krónur, og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Jóns Egilssonar hæstaréttarlögmanns, 186.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 19. febrúar 2016.
Málið er höfðað með ákæru lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, dagsettri 17. nóvember 2015, á hendur: ,,X, kennitala [...],
[...], Reykjavík,
fyrir líkamsárás með því að hafa að kvöldi fimmtudagsins 9. október 2014, ráðist á A, sambýliskonu sína, í sumarhúsi í [...] í [...], slegið hana með krepptum hnefa í andlit og hnakka svo hún féll í gólfið og þar sem hún lá á gólfinu sparkað í bringu og efri hluta líkama hennar, rifið í hár hennar og dregið hana út úr bústaðnum. Fyrir utan bústaðinn, þar sem A lá í jörðinni, sparkað í líkama hennar og slegið hana í andlitið. Eftir að X læsti A út og hún brotið rúðu á bústaðnum í kjölfarið og var að teygja hægri hendina inn um brotin gluggann hafi X tekið í hendi hennar og opnað hurðina svo hendin fór utan í brotið glerið og A skarst á hendinni. Einnig eftir að A kom aftur inn í bústaðinn hafi X sparkað í rassinn á henni. Allt með þeim afleiðingum að A hlaut djúpan skurð á þumli hægri handar, fjölda marbletta og skrámur á andliti, hálsi, viðbeini hægra megin og á brjóstkassa.
Telst brot þetta varða við 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981 og 110. gr. laga nr. 82/1998.
Fyrir hönd A kt. [...] gerir Kolbrún Garðarsdóttir hdl. kröfu þess efnis að ákærða verði gert að greiða A skaða og miskabætur að fjárhæð kr. 3.100.000.- auk vaxta skv. 8. gr. laga um vexti og verðtryggingu nr. 38/2001 frá 9. október 2014 en síðan dráttarvaxta skv. 9. gr. sömu laga að liðnum mánuði frá birtingu kröfunnar til greiðsludags. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi að viðbættum virðisaukaskatti á málsflutningsþóknun.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Verjandi ákærða krefst aðallega sýknu, til vara að ákærða verði ekki gerð refsing og til þrautavara vægustu refsingar sem lög leyfa. Aðallega er krafist frávísunar skaðbótakröfu A en til vara að hún verði lækkuð. Þess er krafist að málsvarnarlaun verði greidd úr ríkissjóði að mati dómsins.
Hinn 2. desember 2014 var tekin lögregluskýrsla af A þar sem hún lýsti atvikum og kom þar fram hjá henni að ákærði hefði viðhaft háttsemina sem í ákærunni greinir. Ekki þykir ástæða til að reifa þessa skýrslu hér en vitnisburður A fyrir dómi verður rakinn síðar.
Tekin var lögregluskýrsla af ákærða 8. janúar 2015 þar sem hann neitaði ásökunum A og kvaðst ekki valdur að áverkum hennar.
Nú verður rakinn framburður ákærða og vitnisburður fyrir dómi
Ákærði neitar sök. Hann kvað ósætti og rifrildi hafa orðið milli þeirra A á þessum tíma. Hún hefði orðið töluvert æst og hafi hann ráðlagt henni að fara út fyrir og reykja en æsingurinn hefði tengst áfengisdrykkju þeirra beggja á þessum tíma. Hún hefði gert það en læsts úti er hún skellti útidyrahurðinni aftur. Hann hafi greinilega ekki verið nægilega fljótur að opna fyrir henni þar sem hún braut rúðuna og ruddist inn en ákærði kvaðst ekki hafa verið nálægur er það gerðist. Hann kvað stein hafa verið á gólfinu og er hann kom að var A komin inn. Hún hefði því opnað dyrnar sjálf og skorið sig er hún teygði höndina inn um brotna rúðuna. Ákærði kvað lýsingu ákærunnar um að hann hefði átt hlut að máli er A skarst ekki rétta. Hún hefði skorið sig sjálf og hann ekki verið nærri er það gerðist. Hann hefði sótt handklæði og vafið um hendi hennar. A hafi verið mjög æst og sagst ætla að koma sér í burtu. Tók hún muni sem hún átti svo sem tölvu og kött sem hún setti í búr. Hún klæddist úlpu og gekk af stað út tröðina, þangað sem hann fylgdi henni og spurði hann hana hvort hún vildi ekki róa sig niður sem ekki varð. Hún hefði því rokið í burtu en það hafi ekki verið í fyrsta skipti sem það gerðist að hans sögn. Hann hefði því talið að þetta tilvik væri eins og önnur sem áður urðu og talið að hún yrði sótt. Hann hefði ekki vitað hversu alvarlegt skurðsárið var á fingri hennar en hann hefði ekki séð aðra áverka á henni er hún fór en áverkann á hægri hendi. Hann kvað A hafa beðið sig um að hringja á sjúkrabíl en ákærði kvaðst hafa neitað og sagt henni að hún gæti sjálft hringt, sími væri í húsinu. Ákærði kvað engin átök hafa átt sér stað milli þeirra A á þessum tíma. Lýsing ákærunnar sé ekki rétt, áverkar á A sem lýst er í niðurlagi ákæru séu ekki af sínum völdum og hún hafi ekki haft aðra áverka en sár á hendi er hún yfirgaf ákærða í bústaðnum. Hann kvað hana geta hafa farið þaðan milli klukkan 22.30 og 23.00 að hann taldi. Spurður um það hvort A hefði einhverja ástæðu til þessa að bera hann röngum sökum kvað hann ákærðu sjálfa hafa sagt að hún væri „gullgrafari“. Hún hefði lagt fram bótakröfu í málinu og það hafi verið það sem fyrir henni vakti.
Vitnið A, fyrrum sambýliskona ákærða, kvað ákærða hafa komið heim um kvöldmatarleytið þennan dag en þá ekki með mat meðferðist eins og þau höfðu áður rætt um. Hann hafi aðeins haft vínföng meðferðis. Hún hafi spurt hann um matinn en hann engu svarað heldur tekið upp úr vínpokanum og blandað sér drykk. Hún hafi einnig fengið sér hvítvínsglas. Ákærði var að koma frá kistulagningu móður sinnar og hún hafi spurt hann um þann atburð en ákærði hafi svarað stuttlega sem hún lýsti. Hann hafi sest við sjónvarpið og hún við tölvuna. Hún kvað ekki hafa verið hægt að tala við ákærða sem engu svaraði þótt yrt væri á hann. Hún hafi þá farið inn í svefnherbergi með tölvuna. Síðar um kvöldið er hún var að undirbúa að fara að sofa hafi hún gengið fram þar sem ákærði var og hafi hún ætlað inn á baðherbergið er ákærði kallaði í hana. Hún kvað tóninn í ákærða þannig að hún ákvað að fara til hans. Er hún settist hjá honum hafi hann sagt hana fúla en hún sagði honum að hún væri svöng og að greinilegt væri að hann hefði fengið sér að borða áður en hann kom í bústaðinn. Ákærði stóð á fætur og sagði henni að koma sér heim á stundinni en hún sagst ætla að verða samferða honum í fyrramálið. Ákærði var þá kominn fast upp að henni, reif í hana og togað hana út en á leiðinni hafi hún gripið með sér síma sem ákærði tók síðan af henni. Hún hafi streist á móti en ákærði hafi þá tekið að rífa í hárið á henni, fellt hana í gólfið, sparkað í höfuð hennar og bringu, auk þess að leggja hnéð ofan á bringu hennar og kýla í andlit og bringu en hún hafi reynt að verjast eftir getu. Blætt hafi úr sárum sem hún hlaut við þetta, meðal annars úr nefi. Ákærði dró hana út, hrinti henni í mölina og sparkað í hana, bæði í höfuð og líkama. Eftir þetta fór ákærði inn og skellti útidyrahurðinni í lás á eftir sér. Hún kvað ekki hægt að læsa sig úti og lýsti hún búnaði hurðarinnar að þessu leyti. Hún hafi staðið á fætur, ákærði hafi verið fyrir innan dyrnar og hún hafi beðið hann um að opna fyrir sér svo að hún gæti sótt dótið sitt. Ákærði gekk frá og hún viti ekki hversu lengi hún stóð illa klædd fyrir utan í þriggja stiga frosti. Hún kallaði á ákærða af og til en hann engu svarað. Síðar slökkti ákærði ljósið, fór inn í svefnherbergið og síðan inn á bað þar sem hún gat fylgst með honum. Ákærði svaraði engu köllum hennar þrátt fyrir að hún hefði sagt að hún bryti rúðuna opnaði hann ekki fyrir henni. Lauk þessu með því að hún sótti stein og braut rúðuna í hurðinni. Hún hafi verið búin að teygja höndina í gegnum brotna rúðuna er ákærði kom og reif upp hurðina svo að hún skarst á hendinni en mikið blæddi úr skurðinum. Síðar í vitnisburði sínum endurtók hún þessa frásögn og kvað sér finnast svo sem ákærði hafi einnig rifið í hendi hennar á þessum tíma. Ítrekað spurð hvort ákærði hefði tekið í hönd hennar er hún skarst á brotinni rúðunni kvaðst hún ekki muna þetta fyrir víst. Ákærði hafi ekki orðið við ítrekuðum óskum hennar um að hringja í sjúkrabíl eða lögreglu, hann hafi sagt að ekkert væri að henni og skipað henni út. Hún hefði klætt sig og tekið saman hluta af dóti sínu og haft með sér í burtu. Er hún var frammi á ganginum á leið út kýldi ákærði hana að minnsta kosti tvisvar sinnum í höfuðið áður en hún komst út. Er þangað var komið kom ákærði að henni og sparkaði í rassinn á henni. Hún lýsti um eins kílómetra göngu sinni uns hún kom að húsi þar sem hún leitaði aðstoðar hjá íbúanum B sem hélt að hún hefði lent í bílslysi. Hún hafi ekki hrasað á þeirri leið þótt vegurinn væri krókóttur malavegur. Hún bað B um að hringja í lögreglu eða sjúkrabíl en hann bauð henni inn og gerði að sárum hennar. Síðar hringdi hún í C tengdadóttur sína sem sótti hana og ók á slysadeild. Hún lýsti aðstoð sem hún hefur sótt sér vegna þessa bæði hjá Kvennaathvarfi og sálfræðingi en henni hafi liðið mjög illa meðan á þessu stóð.
Meðal gagna málsins er læknisvottorð A, dagsett 10. desember 2014. Í vottorðinu er svofelldur kafli:
„Skoðun, rannsóknir og álit:
Vakandi, skýr en þreytuleg. Er með þornaða blóðtauma á hálsi og andliti.
Höfuð og andlit: Það sést lífið skapsár yfir vinstri nefvæng sem að sennilegast hefur blætt. Ekki áberandi aflögun á nefi. Ekki sjáanlegir áverkar í munni eða á tönnum.
Háls og bak: Það sést roði yfir hálsi vinstramegin eins og við byrjandi mar. Ekki önnur sjáanleg áverkamerki og þreifast ekki eymsli niður eftir hryggtindum.
Brjóstkassi: Yfir viðbeini hægra megin sést striklaga og rauðleitt mar án húðrofs. Fær slæman verk fyrir brjóstbeini miðju við þreifingu á brjóskassa.
Hægri handleggur: Yfir þumalsvæði í lófanum er skurður u. þ. b. 2cm langur og nokkuð djúpur. Þónokkur mjúkvefjabólga í svæðinu. Ekki aðrir sjáanlegir áverkar og eðlileg skoðun á hendinni a.ö.l. Tekin er röntgenmynd af þumli sem sýnir brot með tilfærslu og vekur sterkan grun um að liðband þumals sé í sundur.
Vinstri handleggur: Ekki sjáanleg áverkamerki, eðlileg skoðun.
Samantekið er stærsti áverkinn á þumli en mar og skrámur vítt og breitt í andliti, á hálsi og yfir brjóstkassa ofanverðum. Teknar eru myndir af sjáanlegum áverkum og vistaðar í sjúkraskrá og er hægt að nálgast þær ef óskað ef eftir því.“
D sérfræðilæknir ritaði vottorðið, skýrði það og staðfesti fyrir dóminum. Leiðrétt var misritun í vottorðinu þar sem segir að atburðurinn hafi orðið 15. október 2014 en A hafi komið samdægurs og atburðurinn varð, þ.e. 9. október 2014. Þá er leiðrétt í vottorðinu þar sem lýst skapsári þar sem eigi að standa skrapsár en úr þeim blæði í nokkrar mínútur. D kvað áverkana sem greindust á A geta samrýmst frásögn hennar á atburðum. Hann kvaðst ekki geta svarað því hvernig skurður á hendi hefði hlotist.
Meðal gagna málsins eru tvö læknisvottorð A sem E sérfræðilæknir ritaði. Annað vottorðið er dagsett 2. desember 2015 og hitt 13. janúar 2016. E skýrði vottorðin og staðfesti fyrir dómi og skýrði meðal annars misræmi milli vottorðanna þó að lýst sé sama áverkanum. Í fyrra vottorðinu segir að A hafi skorist á hnífi en í hinu síðara segir að hún hafi skorist á brotinni rúðu. Þetta hafi verið vegna ónákvæmni sem hann gat ekki skýrt nema að lögfræðingur A hefði greint sér frá atburðum þannig að hún hefði skorist á brotinni rúðu. Hann hefði því breytt vottorðinu með hliðsjón af þessu. Fram kom hjá A að hún hefði skorist á brotinni rúðu. Hann lýsti áverkum, meðferð og batahorfum.
Samkvæmt ákæru er ákærða gefið að sök að hafa valdið djúpum skurði á þumli hægri handar A. Í læknisvottorðunum sem hér um ræðir er lýst meiri og öðrum afleiðingum en fjallað er um í ákærunni. Að því leyti sem áverkanna er ekki getið í ákærunni er óþarfi að fjalla um þá hér.
Vitnið B lýsti því er A , sem hann hafði ekki séð fyrr, bankaði upp á hjá honum milli klukkan 23.30 og miðnættis nóttina um sem ræðir í ákærunni. Hún var illa útleikin og blóðug, utan við sig og kalt en þriggja til fjögurra stiga frost var úti. Hún hafi verið hrædd og ekki vitað hvar hún væri. Hann lýsti því hvernig hann gerði að sárum hennar en mikið blæddi úr nefi og handlegg. Hann kvað hana hafa greint frá deilum við sambýlismann sinn en hún hefði ekki greint sér frá því sem gerðist. A hafi hringt í vinkonu sína sem sótti hana og ók á slysadeild.
Vitnið C kvað A hafa hringt í sig um miðnæturleytið og sótti hún A á heimili B. Augljóst var af útliti A að dæma að eitthvað hefði gengið á eins og vitnið bar en hún var blóðug og eins og í taugaáfalli eða í miklu andlegu áfalli. A hafi greint sér frá því að ákærði hefði rifið í hár hennar og dregið út úr húsinu, sparkað í magann á henni og læst hana úti illa klædda. Er hún reyndi að komast inni hafi ákærði rifið í hendi hennar eftir að rúða brotnaði og hún skorist á rúðunni á hurðinni er ákærði kippti í hendi hennar. Hún ók A á slysadeild. Hún lýsti líðan A eins og manneskju sem hefði lent í losti. Þá hafi hún verið stjörf og titrandi.
Vitnið F, systir A, kvað hana hafa hringt í sig eftir atburðinn sem í ákæru greinir og greint sér frá því að hún hefði verið í bústaðnum meðan ákærði fór í kistulagningu móður sinnar. F kvað sér hafa brugðið þótt þetta hefði áður komið upp í sambúð ákærða og A. Eftir heimkomu hefði ákærði farið að horfa á sjónvarpið og A verið inni í herbergi. Hún lýsti samskiptum þeirra eins og A greindi henni frá. A kvað ákærða hafa hent sér út úr húsinu illa klæddri og veist að henni með höggum og spörkum. Hún hefði bankað og viljað sækja muni sína en ákærði ekki svarað. Hún hafi þá sagt ákærða að hún yrði að brjóta rúðuna til að komast inn og sækja fatnað og dótið sitt, meðal annars kött sem hún átti. Hún hefði þá brotið rúðu og teygt sig inn en A hefði sagst halda að X hefði kippt í hendi hennar svo að hún skarst á hendinni. A hefði sótt eigur sínar en ákærði hefði þá ráðist aftur á hana úti þar sem hann hefði hent henni í götuna og „misþyrmt“ þar, eins og vitnið bar. A leitaði sér aðstoðar í nálægu húsi. Spurð um líðan A eftir atburðinn kvað hún henni hafa liðið illa andlega og lýsti hún því að A væri breytt og ólík sjálfri sér.
Vitnið G, systir A, lýsti samtali við A helgina eftir atburðinn sem í ákæru greinir og að hún hafi greint henni svo frá að hún hefði orðið fyrir árás. A hefði þá greint sér frá atburðinum og aftur er þær hittust síðar í vikunni. A hefði verið heima hjá ákærða sem hefði farið í kistulagningu móður sinnar. Eftir heimkomu hefði ákærði farið að drekka. Mál hefðu þróast svo að ákærði réðist á hana og henti henni út og hún hafi ekki komist aftur inn. Ákærði hleypti henni ekki inn og endaði það með því að hún braut rúðu í hurðinni. Þá hefði ákærði komið að á þeirri stundu og hafi hendi hennar rekist í rúðuna svo að hún skarst. Henni fannst A segja frá því að ákærði hefði ýtt hendinni á brotið glerið. Hún hefði skilið þetta svona. Áður hefði ákærði lamið hana „til óbóta“, sparkað í hana, dregið á hárinu, hent henni út þar sem hann sparkaði í rassinn á henni. Hún lýsti ástandi A eftir atburðinn og kvað hún hana ekki hafa verið hún sjálf eftir þetta.
Vitnið H, dóttir A, kvað móður sína hafa hringt í sig tveimur vikum eftir atburðinn og greint sér frá því sem gerðist. Ástæðu þess að hún ræddi ekki við móður sína á þessum tíma kvað hún vera háttsemi ákærða en hún hafi ekki verið 10 ára gömul er hann lamdi hana fyrst og hún hafi ekki rætt við móður sína meðan á sambúð hennar og ákærða stóð. H kvað móður sína hafa greint sér frá rifrildi, meðal annars vegna matar sem ákærði kom ekki með heim, svo sem ætlunin var, og að ákærði hefði misst sig eins og hún bar. Ákærði hefði rifið í hár móður hennar og kýlt hana í andlit og höfuð og sparkað í hana liggjandi og hent henni út úr húsinu þar sem hann sparkaði í hana. Hann læsti hana síðan úti og neitaði að opna. Móðir hennar hafi þá tekið stein og brotið rúðuna eftir að hafa árangurslaust hótað að gera það yrði ekki opnað fyrir henni. Ákærði hefði gripið í höndina á henni og hleypt henni inn með skorna fingur. Móður hennar hefði sótt dót sitt, meðal annars kött og tölvu, og farið.
Meðal ganga málsins er sálfræðivottorð A sem I sálfræðingur ritaði. Vottorðið er dagsett 30. nóvember 2015. A hafi greint sér frá árás fyrrum sambýlismanns. A hafi liðið illa og atburðurinn hafi haft mikil áhrif á hana. Lýsti vitnið þessu.
Niðurstaða
Ákærði neitar sök. Hann kvað ósætti og rifrildi hafa orðið milli þeirra A á þessum tíma. Hann neitaði að vera valdur að áverkunum sem lýst er í ákærunni og kvað A hafa skorist er hún teygði sig inn um rúðu sem hún braut eins og lýst var að framan. Er ákærði var spurður hvort A hefði einhverja ástæðu til að bera hann röngum sökum kvað hann hana hafa lagt fram bótakröfu í málinu og það hafi verið það sem fyrir henni vakti. Framburður ákærða um þetta verður ekki skilinn öðruvísi en svo að A bæri rangar sakir á hann í því skyni að hafa af honum skaðabætur. Framburður ákærða um þetta og ýmislegt annað í málinu er ótrúverðugur og verður niðurstaðan ekki byggð á honum.
Ákærði og A eru tvö til frásagnar um það sem gerðist. Ákærði bar að A hefði skorist á rúðunni án þess að hann hefði komið þar nærri. Vitnið A bar fyrir dóminum að hún hefði skorist er ákærði reif upp hurðina. Síðar bar hún að sér finnist svo sem ákærði hefði rifið í hendi hennar á þessum tíma og enn síðar kvaðst hún ekki muna fyrir víst hvort ákærði tók í hönd hennar eins og lýst er í ákærunni. Eins og frásögn A af þessum hluta sakarefnisins er háttað og gegn eindreginni neitun ákærða er ósannað að hann hafi tekið í hendi hennar á þessum tíma og opnað dyrnar svo að A skarst á hendinni. Er ákærði samkvæmt þessu sýknaðu af þessum hluta ákærunnar.
Vitnisburður A er trúverðugur og stöðugur um aðra þætti ákærunnar og fær vitnisburður hennar stoð í vitnisburði B en A leitaði til hans um aðstoð um nóttina eins og rakið var. Þá fær vitnisburður A stoð í læknisvottorði og vitnisburði D sérfræðilæknis og að hluta með stoð í vitnisburði systra hennar, dóttur og tengdadóttur en vitsburður þeirra var rakin að framan en vitnisburður þessara vitna ræður ekki úrslitum. Er samkvæmt þessu sannað með trúverðugum vitnisburði A, með læknisvottorði dagsettu 10. desember 2014 og með vitnisburði D sérfræðilæknis og með stoð í vitnisburði og gögnum sem rakin voru, en gegn neitun ákærða, að hann hafi gerst sekur um háttsemina sem í ákæru greinir fyrir utan skurð á þumli hægri handar en eins og rakið var er ákærði sýknaður af þeim hluta ákærunnar.
Er háttsemi ákærða rétt færð til refsiákvæðis í ákærunni.
Ákærði hefur ekki áður gerst brotlegur við lög. Við refsiákvörðun er tekið mið af 3. mgr. 70. gr. almennra hegningalaga. Þykir refsing ákærða hæfilega ákvörðuð fangelsi í 45 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar svo sem í dómsorði greinir.
Samkvæmt bótakröfu A er krafist skaða- og miskabóta að fjárhæð 3,1 milljón króna auk vaxta svo sem lýst er í ákæru. Eins og krafan er sett fram verður að skilja hana svo að einungis sé krafist miskabóta enda fylgdu upphaflegu kröfunni engin gögn um bætur vegna beins fjártjóns. A á rétt á miskabótum úr hendi ákærða á grunvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Þykja miskabæturnar hæfileg ákvarðaðar 400.000 krónur auk vaxta svo sem í dómsorði greinir en dráttarvextir reiknast frá 8. febrúar 2015 er mánuður var liðinn frá því að bótakrafan var birt ákærða. Þá greiði ákærði 409.200 króna réttargæsluþóknun Kolbrúnar Garðarsdóttur héraðsdómslögmanns, skipaðs réttargæslumanns A
Ákærði greiði 36.000 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.
Ákærði greiði 613.800 króna málsvarnarlaun Ásgeirs Þórs Árnasonar hæstaréttarlögmanns. Þóknun verjanda er fyrir vinnu undir rannsókn málsins og dómsmeðferð. Þóknun lögmanna er ákvörðuð með virðisaukaskatti.
Fanney Björk Frostadóttir aðstoðarsaksóknari flutti málið fyrir ákæruvaldið.
Guðjón St. Marteinsson héraðsdómari kveður upp dóminn.
Dómsorð:
Ákærði, X, sæti fangelsi í 45 daga en fresta skal fullnustu refsingarinnar skilorðsbundið í 2 ár frá birtingu dómsins að telja og falli refsing hans niður að þeim tíma liðnum, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.
Ákærði greiði A, kt. [...], 400.000 krónur í miskabætur auk vaxta skv. 8. gr. laga nr. 38/2001, frá 9. október 2014 til 8. febrúar 2015 en frá þeim degi með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.
Ákærði greiði 36.000 krónur vegna útlagðs sakarkostnaðar ákæruvaldsins.
Ákærði greiði 409.200 króna réttargæsluþóknun Kolbrúnar Garðarsdóttur héraðsdómslögmanns.
Ákærði greiði 613.800 króna málsvarnarlaun Ásgeirs Þórs Árnasonar hæstaréttarlögmanns. Þóknun lögmanna er ákvörðuð með virðisaukaskatti.