Hæstiréttur íslands

Mál nr. 795/2014


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Skilorð
  • Börn


Dómsatkvæði

                                     

Fimmtudaginn 18. júní 2015.

Nr. 795/2014.

Ákæruvaldið

(Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari)

gegn

X

(Ásgeir Jónsson hrl.)

Kynferðisbrot. Skilorð. Börn.

X var ákærður fyrir kynferðisbrot gagnvart A með því að hafa snert brjóst og strokið rass hennar utan klæða og strokið milli brjósta hennar innan klæða. Hæstiréttur vísaði til þess að X hefði staðfastlega neitað sök, en sakfelldi hann fyrir að hafa snert brjóst A utan klæða sökum þess að hann kvaðst fyrir dómi ekki rengja það sem haft var eftir honum við skýrslutöku hjá lögreglu, um að hann hefði viðhaft þá háttsemi. X var á hinn bóginn sýknaður af öðrum sakargiftum, þar sem framburður A fyrir dómi var ekki talinn nægilega skýr til að sakfelling yrði reist á honum gegn eindreginni neitun X. Var ákvörðun refsingar X frestað skilorðsbundið.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson og Eiríkur Tómasson og Garðar Gíslason fyrrverandi hæstaréttardómari.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 2. desember 2014 í samræmi við yfirlýsingu ákærða um áfrýjun. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist að refsing ákærða verði þyngd.

Ákærði krefst aðallega sýknu af kröfu ákæruvaldsins, en til vara ómerkingar héraðsdóms og þess að málinu verði vísað heim í hérað. Að því frágengnu krefst hann þess að refsing verði milduð.

Samkvæmt ákæru er ákærða gefið að sök kynferðisbrot gagnvart A „með því að hafa í nóvember 2012, á þáverandi heimili sínu ... snert brjóst og strokið rass hennar utan klæða og strokið milli brjósta hennar innan klæða.“ Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sakfelldur fyrir þessa háttsemi, fyrst og fremst með skírskotun til framburðar brotaþola fyrir dómi sem talinn var styðjast við vitnisburð móður hennar og nafngreinds sálfræðings og að nokkru leyti skýrslu móðurföður hennar.

Ákærði hefur staðfastlega neitað sök. Fyrir dómi kvaðst hann þó ekki rengja það, sem haft var eftir honum við skýrslutöku hjá lögreglu 22. mars 2013, að hann hafi haldið utan um brjóst brotaþola umrætt sinn og kreist það eftir að hafa spurt hana hvað þetta væri. Með vísan til forsendna héraðsdóms verður því staðfest sú niðurstaða hans að sakfella ákærða fyrir þá háttsemi.

Framburður brotaþola fyrir dómi 19. mars 2013 um að ákærði hafi strokið rass hennar og milli brjósta innan klæða er ekki nægilega skýr til að sakfelling verði reist á honum gegn eindreginni neitun ákærða. Endursögn móður brotaþola og áðurgreinds sálfræðings á frásögn hennar af þessum atvikum breytir engu um það. Verður ákærði því sýknaður af þeim sakargiftum, sbr. 108. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.

Með vísan til þeirra atriða sem greinir í héraðsdómi varðandi ákvörðun refsingar ákærða og að gættri framangreindri niðurstöðu um sýknu af hluta sakargifta er eftir atvikum rétt að fresta ákvörðun refsingar hans skilorðsbundið á þann hátt sem nánar greinir í dómsorði.

Að því er varðar sakarkostnað í héraði var ákærða með hinum áfrýjaða dómi ranglega gert að greiða þóknun réttargæslumanns brotaþola og útlagðan kostnað hans þrátt fyrir að kröfu hennar hafi verið vísað frá dómi. Verður sá kostnaður felldur á ríkissjóð, svo og helmingur annars sakarkostnaðar í héraði, allt eins og nánar greinir í dómsorði. Þá verður ákærða gert að greiða helming áfrýjunarkostnaðar málsins, þar á meðal af þóknun verjanda síns sem er ákveðin að meðtöldum virðisaukaskatti og útlögðum kostnaði verjandans svo sem segir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákvörðun refsingar ákærða, X, er frestað og fellur hún niður að liðnum tveimur árum frá uppsögu dóms þessa haldi hann almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði greiði 420.988 krónur af sakarkostnaði í héraði eins og hann var ákveðinn í hinum áfrýjaða dómi. Þá greiði ákærði helming áfrýjunarkostnaðar málsins, sem samtals er 997.817 krónur, þar með talin þóknun verjanda hans, Ásgeirs Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 930.000 krónur, og útlagður kostnaður verjandans, 17.265 krónur. Að öðru leyti greiðist sakarkostnaður úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Suðurlands 20. nóvember 2014.

                Mál þetta, sem þingfest var þann 2. júlí sl., og tekið var til dóms að lokinni framhaldsaðalmeðferð þann 24. október sl., er höfðað með ákæru ríkissaksóknara, dagsettri 18. júní 2014, á hendur ákærða, X, kennitala [...], [...], [...];

fyrir kynferðisbrot gegn A, kennitala [...], þá 12 ára, með því að hafa í nóvember 2012, á þáverandi heimili sínu að [...], [...], snert brjóst og strokið rass hennar utan klæða og strokið milli brjósta hennar innan klæða.

Telst brot ákærða varða við 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“

                Í málinu er gerð svofelld einkaréttarkrafa:

„Af hálfu Sigurðar Sigurjónssonar hrl, [sic] fyrir hönd A, er krafist skaða- og miskabóta að fjárhæð kr. 1.000.000,- ásamt vöxtum skv. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, frá tjónsdegi til þess er mánuður er liðinn frá því að bótakrafa er kynnt ákærða, og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr., sbr. 6. gr. sömu laga, frá þeim degi til greiðsludags. Einnig er þess krafist að ákærða verði gert að greiða málskostnað að mati dómsins eða samkvæmt síðar framlögðum málskostnaðarreikningi, að viðbættum virðisaukaskatti á málflutningsþóknun. Gerð er krafa um að dráttarvextir leggist við höfuðstól miskabóta á 12 mánaða fresti í fyrsta sinn 12 mánuðum eftir upphafsdag vaxta í samræmi við 12. gr. laga nr. 38/2001.“ 

                Málið var þingfest þann 2. júlí sl. Þann dag kom ákærði fyrir dóm og var  Jónína Guðmundsdóttir hdl., skipuð verjandi ákærða að hans ósk. Ákærði neitaði sök og hafnaði framkominni bótakröfu. Ákærði óskaði ekki eftir að leggja fram greinargerð. Þann 7. október sl., hófst aðalmeðferð málsins og var Sigurður Sigurjónsson hrl., skipaður réttargæslumaður brotaþola, sbr. 1. mgr. 42. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Þá voru teknar skýrslur af ákærða og þremur vitnum. Aðalmeðferð var síðan frestað til 24. október sl. Þann dag hófst framhald aðalmeðferðar með því að brotaþoli gaf aftur skýrslu fyrir dómi í Barnahúsi. Þinghaldinu var síðan framhaldið í dómsalnum á Selfossi með skýrslugjöf þriggja vitna. Að loknum munnlegum málflutningi var málið dómtekið. 

                Ákærði krefst sýknu af öllum kröfum ákæruvaldsins í máli þessu. Til vara krefst ákærði vægustu refsingar sem lög leyfa og að refsing verði að öllu leyti skilorðsbundin. Ákærði krefst þess að einkaréttarkröfu verði vísað frá dómi. Þá krefst verjandi ákærða málsvarnarlauna sér til handa og að þau verði greidd úr ríkissjóði.

Málsatvik

                Miðvikudaginn 13. mars 2013 barst lögreglunni á Selfossi bréf frá félagsmálastjóra velferðarþjónustu [...] þar sem óskað var eftir lögreglurannsókn vegna gruns um að stúlkan A, brotaþoli í máli þessu, fædd [...] 2000, hafi orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu móðurbróður síns, ákærða í máli þessu. Í frumskýrslu lögreglu kemur fram að ætlað brot hafi átt sér stað um mánaðarmótin október-nóvember 2012 í sumarhúsi í landi [...] í [...]. Í áðurnefndu bréfi félagsmálastjóra kom fram að tilkynning um hið ætlaða brot hafi borist félagsmálayfirvöldum þann 4. mars 2013 frá grunnskóla þeim sem brotaþoli stundi nám við. Í bréfinu sé rakið samtal félagsmálastjóra við föður brotaþola þann 5. sama mánaðar, þar sem fram hafi komið að brotaþoli hafi greint föður sínum frá ætluðu broti í janúarmánuði 2013, þ.e. að ákærði hafi káfað á brotaþola þegar hún gisti hjá honum á áðurgreindum tíma. 

 Meðal gagna málsins eru ljósmyndir sem lögregla tók á heimili ákærða og vottorð frá heimilislækni ákærða. Í upplýsingaskýrslu lögreglu, dagsettri 14. júní 2013, kemur fram að á framangreindum tíma hafi brotaþoli beðið eftir að komast að í frekari meðferð og viðtöl hjá Barnahúsi. Við meðferð málsins fyrir dómi var upplýst að meðferð á vegum Barnahúss hófst með viðtali við brotaþola þann 22. ágúst 2013. Brotaþoli mætti hins vegar ekki í boðað viðtal þann 4. október sama ár og lauk þannig afskiptum sérfræðinga Barnahúss af brotaþola. Vottorð frá sérfræðingum Barnahúss liggur ekki frammi í málinu.

Undir rekstri málsins fyrir dómi óskaði saksóknari eftir vottorði frá B, sálfræðingi, um viðtöl hennar við brotaþola. Vegna andstöðu forsjáraðila var umbeðið vottorð hins vegar ekki gefið út. Hins vegar liggur fyrir að brotaþoli mætti í viðtöl hjá áðurnefndum sálfræðingi 30. janúar, 8. febrúar og 27. febrúar 2013. 

Framburður brotaþola fyrir dómi

Í skýrslutöku af brotaþola fyrir dómi í Barnahúsi þann 19. mars 2013, sem liggur frammi í málinu í hljóð og mynd og dómurinn hefur kynnt sér, kom fram að ákærði er móðurbróðir brotaþola. Hafi brotaþoli, einhvern  tímann í nóvembermánuði 2012, farið heim til ákærða í þeim tilgangi að gista hjá honum að hans frumkvæði. Fram kom að þegar brotaþoli var yngri hafi hún gist ásamt systkinum sínum hjá ákærða á þáverandi heimili hans í [...].

Í upphafi yfirheyrslunnar tók brotaþoli fram að hún héldi að þetta „hafi allt bara verið einn stór misskilningur.“ Þá tók hún fram að um hafi verið að ræða „mikið minna“ en faðir hennar, sem brotaþoli sagði frá atburðinum, tilkynnti um, þ.e. ákærði hafi ekki komið við klof hennar. Þetta ítrekaði brotaþoli síðar í yfirheyrslunni auk þess sem hún kvaðst halda að ákærði hafi ekki verið að meina neitt með þessu, eins og  hún orðaði það.

Brotaþoli lýsti atvikum þannig að þau hafi horft saman á kvikmyndir og setið bæði í þriggja sæta sófa í stofunni. Þau hafi bæði verið full klædd og brotaþoli með sæng ofan á sér. Brotaþoli kvaðst hafa verið í „leggings“ og svartri langerma peysu með v-hálsmáli. Af látbragði brotaþola má ráða að peysan, sem hafi náð niður fyrir rass, hafi ekki verið mjög flegin. Þá hafi hún verið með hálsklút. Kvað hún ákærða hafa setið henni á vinstri hlið en hún hafi legið að hluta til utan í ákærða. Þegar þau hafi verið að horfa á síðari kvikmyndina hafi ákærði tekið utan um hana og farið með höndina undir sængina og lagt á brjóst hennar. Brotaþoli mundi ekki um hvort brjóstið hafi verið að ræða. Síðar kom fram hjá brotaþola að hún héldi að það hafi verið vinstra brjóstið. Þegar ákærði hafi tekið eftir þessu hafa hann sagt „hvað er þetta“ og hún þá svarað að þetta væri brjóstið á henni og þá hafi hann tekið höndina burtu. Á myndupptöku af skýrslutökunni má sjá brotaþola sýna áðurnefnda hreyfingu sem snögga hreyfingu upp á við. Eftir þetta kvað brotaþoli ákærða hafa tekið í rassinn á henni. Nánar lýsti brotaþoli því þannig að ákærði hafi „bara einhvern veginn strauk á mér rassinn. Og svona fram og til baka bara.“ Fram kom að umrædd stroka hafi verið utan klæða og þá hafi hún legið á vinstri hlið upp við ákærða. Ítrekaði brotaþoli þetta síðar í yfirheyrslunni, þ.e. að þau hafi „einhvern veginn sátum en samt lágum einhvern veginn, bara svona eins og ég var að sýna þér“. Þá greindi brotaþoli frá því að ákærði hafi strokið „milli brjóstaskorunnar“ eins og brotaþoli orðaði það og hafi það verið innan klæða, þ.e. innan undir peysu brotaþola. Á myndupptöku af skýrslutökunni má sjá brotaþola sýna áðurnefnda hreyfingu sem strokur upp og niður milli brjósta. Brotaþoli kvað þetta allt hafa gerst mjög hratt. Einnig kom fram að brotaþoli hafi staðið fyrir framan ákærða og sýnt honum hvernig hún væri laus í mjöðmum en hann hafi ekki snert hana.

Eftir þetta hafi ákærði ekið brotaþola heim aftur þar sem hún hafi óvænt byrjað á blæðingum. Lýsti brotaþoli því að þegar þau hafi verið frammi í forstofu að klæða sig hafi ákærði sagt við sig að hún ögraði honum. Kom fram að brotaþoli skildi ekki merkingu þess orðs. Hún hafi hins vegar gengið út án þess að inna ákærða eftir því hvað hann meinti með því. Eftir að tilraun var gerð til að skýra út fyrir brotaþola merkinu orðsins taldi hún að e.t.v. hafi hann sagt þetta í samhengi við það að hann hafi farið með höndina milli brjósta hennar. Þá greindi brotaþoli frá því að ákærði hafi á leiðinni heim til hennar síðar um kvöldið sagt henni að segja ekki frá atvikinu. Sérstaklega aðspurð kvað brotaþoli ákærða ekki hafa útskýrt af hverju hún mætti það ekki eða hvað myndi gerast ef hún gerði svo.

Brotaþoli lýsti því fyrir dómi að ákærði væri uppáhaldsfrændi hennar og að henni þætti mjög vænt um hann. Þá líði henni ekkert illa vegna atburðarins og sé hvorki sár út í ákærða né hrædd við hann. Aðspurð um líðan sína í sumarhúsinu kvaðst brotaþoli hafa fundist þetta skrítið, hún hafi ekki búist við þessu. Brotaþoli mundi ekki hvenær hún greindi móður sinni frá atburðinum og kvaðst ekki vita af hverju hún hafi gert það, en tók fram að þar sem um væri að ræða bróður mömmu hennar hafi henni fundist að hún ætti að vita um þetta. Aðspurð um viðbrögð móður hennar sagði brotaþoli að móður hennar hafi hafi þótt þetta mjög skrítið. Hún hafi rætt við föður sinni, afa brotaþola, og síðan ákærða sem hafi greint henni frá því að hann hafi ekki meint neitt kynferðislegt með þessu.

Við framhald aðalmeðferð málsins þann 24. október sl., gaf brotaþoli aftur skýrslu fyrir dómi, þ.e. í Barnahúsi. Vitnið kvaðst hafa óskað eftir að gefa aftur skýrslu til að greina frá því að mál það sem hér um ræðir hafi engin truflandi áhrif haft á hana. Henni líði ekki illa út af því sem gerðist. Þá telji hún það ekki vera þess virði að ákærði verði sakfelldur. Rétt sé að gleyma málinu enda hafi hún ekki skaddast. Hins vegar myndi það valda henni vanlíðan ef ákærði yrði sakfelldur því það sé ekki rétt. Þetta sé ekki alvarlegt mál og því sóun á tíma. 

Brotaþoli kvaðst hafa sagt foreldrum sínum og afa og ömmu frá atvikum umrætt kvöld. Foreldrar hennar og afi og amma vilji að hún segi satt og rétt frá og móðir hennar, afi og amma séu þeirrar skoðunar að hafi ákærði gert eitthvað rangt eigi hann að borga fyrir það. Hins vegar hafi ákærði að mati brotaþola ekkert rangt gert en því sé faðir hennar ekki sammála. Vitnið staðfesti að hafa ásamt móður sinni og afa rætt atburð sem hér um ræðir við ákærða á heimili hans. 

Brotaþoli kvaðst hafa sótt tíma til B sálfræðings einhvern tíma á árinu 2013. Þær hafi m.a. rætt umræddan atburð en B hafi ekki talið það sem gerðist vera brot, en sagt að brotaþoli gæti farið í Barnahús. Brotaþoli kvaðst ekki muna hvað hún sagði við B í umræddum viðtölum en aðspurð kvaðst brotaþoli hafa sagt henni satt og rétt frá atvikum heima hjá ákærða umrætt kvöld. Þá kvaðst brotaþoli ekki vilja að sálfræðingur segði frá því sem þeim fór í milli, hvorki um þetta mál né annað sem hún hafi rætt við hana um.

Sérstaklega aðspurð kvaðst brotaþoli hafa sagt satt og rétt frá atvikum heima hjá ákærða í skýrslutöku 19. mars 2013, en tók fram að hún muni ekki eftir atvikum enda ekki um mikilvægt mál að ræða. Fram kom hjá brotaþola að hún hafi á umræddum tíma haldið dagbók og skrifað um allt sem gerðist í lífi hennar á þessum tíma. Það hafi pirrað hana að faðir hennar hafði lesið dagbókina og því hafi hún hent henni.

Sérstaklega aðspurð staðfesti brotaþoli að hún hafi verið með háan hita og túrverki umrætt kvöld og vísaði hún til þess að slíkt ástand geti haft áhrif á það hvernig einstaklingar túlki hluti og þannig geti hafa staðið á hjá henni í umrætt sinn. Þá hafi hún verið „paranoid“ á umræddum tíma og túlkað allt öðruvísi en það í raun var og auk þess verið  mjög stressuð. Brotaþoli kvaðst ekki muna hvort hún eða móðir hennar hafi farið út í bíl eða hringt til ákærða til að segja honum að hún væri veik og myndi ekki gista hjá honum. 

                Brotaþoli kvað ákærða ekki hafa haft í hótunum við sig. Þá kvaðst hún halda að föður hennar sé illa við ákærða og hann ýki þess vegna. Fram kom hjá brotaþola að ákærði hafi beðið hana um að segja ekki frá atburðinum, en aðspurð kvaðst brotaþoli ekki vita hvað henni finnist um þau orð ákærða.

Brotaþoli lýsti þeirri skoðun sinni að í umrætt sinn hafi ekki verið um að ræða brot, en umrætt kvöld og fyrst á eftir hafi hún ekki verið viss hvað hún ætti að gera eða hvað þetta hafi verið. Aðspurð kvaðst brotaþoli ekki vita af hverju hún sé nú viss um að það sem gerðist hafi ekki verið brot. Brotaþoli kvaðst ekki muna hvort hún hafi umrætt kvöld sýnt ákærða los í mjöðmum, það hafi hún sýnt mörgum enda sjáist það utan klæða.

Framburður ákærða og vitna fyrir dómi

Ákærði lýsti því að í samráði við brotaþola og móður hennar, sem er systir ákærða, hafi verið ákveðið að brotaþoli kæmi í heimsókn á heimili ákærða og gisti hjá honum. Hann hafi sótt brotaþola seinnipartinn og þau verslað saman áður en þau fóru á heimili ákærða. Þegar þangað kom hafi þau komið sér fyrir í þriggja sæta sófa í stofunni og horft á kvikmyndir í sjónvarpinu. Aðspurður kvað ákærði brotaþola hafa sýnt honum los sem hún telji sig vera með í mjaðmaliðum. Hún hafi staðið upp og hreyft mjaðmirnar. Ákærði kvaðst hafa spurt hvort hann mætti finna hvernig þessu væri varið og hún samþykkt það. Þá kvaðst ákærði hafa lagt hendur á mjaðmir á henni og fundið að þetta hafi verið með sama hætti og hjá eldri systur brotaþola. 

Um það leyti sem síðari kvikmyndin hófst hafi brotaþoli fært sig að hægri hlið ákærða og hann þá lagt aðra höndina utan um brotaþola ofan á sæng sem brotaþoli hafi verið undir. Eftir einhverja stund, 10-20 mínútur, hafi brotaþoli hreyft sig og ákærði þá spurt „hvað er þetta“ og brotaþoli þá svarað þetta er „bobbingurinn“ á mér. Ákærði kvaðst þá hafa fært höndina og sagt fyrirgefðu. Ákærða kvaðst hafa liðið illa þegar hann hafi gert sér grein fyrir því sem gerst hafi. Undir ákærða var borinn eftirfarandi framburður hans hjá lögreglu varðandi framangreint atvik. „Það liðu sko að lágmarki fimm eða tíu mínútur þarna sem að ég hélt þarna utan um það án þess að spá í það sko og hún sagði ekki neitt heldur sko. Þess vegna hérna og svo spyr ég allt í einu „hvað er þetta?“ Og þá ég kreisti skilurðu?“ Ákærði kvaðst ekki muna vel eftir að hafa gert þetta, en hafi hann sagt þetta hjá lögreglu þá sé það rétt, en hann muni þetta ekki orðrétt. Þá ítrekaði ákærði að þarna hafi ekki neitt óeðlilegt verið að gerast.

Ákærði kvað þau hafa rætt saman en eftir að brotaþoli hafi komið til baka af salerninu hafi hún greint honum frá því að hún þurfi að fara heim þar sem blæðingar hefðu byrjað og hana vantað viðeigandi „dömudót“. Hann hafi því, líklega um klukkan 22:00, keyrt brotaþola heim til að sækja þetta dót og beðið út í bíl meðan brotaþoli fór inn enda hafi staðið til að brotaþoli færi aftur með honum heim. Eftir u.þ.b. fimm mínútur hafi brotaþoli komið út og sagt að móðir hennar, sem þá hafði mælt brotaþola, hafi ekki viljað að brotaþoli færi aftur heim til ákærða. Hann hafi þá farið inn til systur sinnar og dvalið þar í einn til tvo tíma. Ákærði ítrekaði að hann hafi ekkert kynferðislegt haft í huga gagnvart brotaþola í umrætt sinn og því hafi hann sagt við brotaþola að vera ekki að segja frá þessu, það kynni að verða misskilið.  

Undir ákærða var borinn framburður brotaþola fyrir dómi þess efnis að hann hafi strokið rass hennar utan klæða og strokið milli brjósta hennar innan klæða. Ákærði kvaðst aðeins hafa snert brotaþola þegar hann kom við mjaðmir hennar og þegar hann hélt utan um hana þar sem hún hafi legið undir sænginni, eins og hann hafi áður lýst. Þó gæti hann mögulega hafa komið við bringu brotaþola ofarlega. Ákærði kvað brotaþola hafa verið í flegnum bol en þó hafi ekki sést í brjóstaskoruna. Undir ákærða var borinn eftirfarandi framburður hans hjá lögreglu. „...að ég hafi strokið á henni rassinn en ég meina það er er ekkert kynferðislegt við ég meina hefur maður ekki klappað á rassinn á barni eða systkinum eða eitthvað sko bara svona í fíflagangi eða einhverju það alla vega var enginn ásetningur með einu eða neinu“, og ákærði spurður hvort hann hafi strokið rass brotaþola. Því hafnaði ákærði og kvaðst ekki hafa strokið rassinn á brotaþola að öðru leyti en þegar hann hafi gripið hana eða faðmað, þá ef til vill hafi hann slegið í rass hennar, en að baki því sé engin hugsun. Ítrekað aðspurður hvort um slíkt hafi verið að ræða, neitaði ákærði því og bætti við „ ekki sem ég man eftir.“

Ákærði tók fram að brotaþoli eigi það til að ýkja og búa til „drama“ úr hinu og þessu, m.a. gagnvart systkinum sínum til að ná athygli. Þá eigi hún það til að segja ekki alltaf satt frá. Þá hafnaði ákærði því að brotaþoli hafi ögrað honum með klæðaburði sínum, en ákærði kvaðst þetta kvöld, eins og oft áður, hafa rætt við brotaþola um klæðnað hennar og andlitsmálningu sem að mati ákærði hafi ekki verið í samræmi við aldur brotaþola. Þá hafnaði ákærði því að hafa haft í hótunum við brotaþola. 

Ákærði lýsti því að hafa fyrst rætt við föður sinn um þetta mál eftir að faðir stúlkunnar tilkynnti um málið, þ.e. að ákærði hafi þuklað allstaðar á brotaþola innan klæða. Ákærða kvaðst hafa brugðið mikið. Í kjölfarið, líklega um miðjan janúar 2013, hafi hann, þ.e. ákærði, faðir ákærða, brotaþoli og móðir hennar rætt saman og þá hafi komið fram hjá brotaþola að líklega hafi hún misskilið þetta og í framhaldinu hafi brotaþoli beðið ákærða afsökunar. Eftir þetta kvaðst ákærði ekki hafa haft afskipti af brotaþola að fyrra bragði en tók fram að mikil samskipti séu innan fjölskyldunnar. Ákærði kvað föður brotaþola, fyrrverandi eiginmann systur ákærða, hafa viljað fara með málið lengra. Þá hafnaði ákærði framburði föður brotaþola hjá lögreglu en tók fram að samskipti milli þeirra hafi ekki verið góð í gegnum árinu.

Vitnið C, systir ákærða og móðir brotaþola, kvað brotaþola í nóvember eða desember umrætt ár hafa sagt sér að hún héldi að hún hafi verið misnotuð, þ.e. að ákærði hafi annars vegar snert annað brjóst hennar þegar hann hafi haldið utan um hana og hins vegar hafi ákærði tekið utan um rass hennar þegar hún hafi verið að sýna honum hvernig hún væri laus í mjöðmum. Þá minnti vitnið að brotaþoli hafi sagt að ákærði hafi hreyft fingur við brjóstaskoru brotaþola og að hún hafi verið með sæng um sig. Kvað vitnið brotaþola hafa verið órólega en ekki hrædda þegar hún greindi vitninu frá atvikum. Þær hafi rætt þetta og kvaðst vitnið hafa átt erfitt með að átta sig á því hvort lýsingar hennar hafi verið réttar því í dag finnist brotaþola þetta ekkert vera. Þegar brotaþoli greindi vitninu frá atvikum hafi verið mikil umræða í samfélaginu um kynferðislega misnotkun, m.a. í sjónvarpinu, og þá hafi brotaþoli séð „perra“ allstaðar þegar hún var á ferð úti. Vitnið kvaðst hafa ákveðið að trúa brotaþola að ekkert kynferðislegt hafi gerst enda geti það auðvitað gerst að komið sé við brjóst þegar haldið er utan um aðra manneskju. Vitnið kvað brotaþola hafa greint frá því að ákærði hafi beðið hana um að segja ekki frá þessu.

Fram kom hjá vitninu að brotaþoli eigi það til að misskilja hluti, sé svolítil „dramadrottning“ og það komi fyrir að hún „ljúgi sig út úr aðstæðum“. Vitnið kvaðst hafa átt erfitt með að trúa þessu upp á ákærða og vísaði í því sambandi til þess að hún eigi fleiri börn og engin vandamál hafi skapast í samskiptum þeirra við ákærða frekar en gagnvart öðrum systkinabörnum hans. Þegar brotaþoli hafi komið með ákærða til baka um kvöldið hafi hún greint frá því að henni liði illa og komið hafi í ljós þegar vitnið mældi hana að brotaþoli hafi verið með yfir 39 stiga hita. Vitnið kvaðst ekki hafa tilkynnt um þetta enda metið það svo að ekki hafi verið brotið gegn barninu en hins vegar sé ljóst að brotaþoli hafi upplifað eitthvað sem hún hafi þá ekki talið hafa verið eðlilegt eða rétt.

Vitnið kvað brotaþola hafa verið ósátta með að málið væri komið fyrir dóm og samkvæmt frásögn brotaþola hafi hún, þ.e. brotaþoli, eftir útgáfu ákæru stokkið til ákærða og faðmað hann. Ákærði hafi alltaf verið uppáhaldsfrændi hennar og sé það enn. Þá hafi brotaþoli lýst yfir vilja til að gefa skýrslu fyrir dómi og margoft eftir skýrslutökuna í Barnahúsi sagt að hún hafi án efa misskilið það sem þarna gerðist. Vitnið staðfesti að áður en brotaþoli gaf skýrslu í Barnahúsi hafi þær, þ.e. brotaþoli og vitnið ásamt föður vitnisins, rætt málið við ákærða sem hafi greint frá því að hafa haldið utan um brotaþola þannig að hönd hans hafi af gáleysi snert brjóst brotaþola. Þá hafi hann einnig komið við mjaðmir hennar. Vitnið kvað brotaþola hafa fengið aðstoð frá B sálfræðingi og Barnahúsi. Aðspurt hvort vitnið hafi greint breytingar á fari brotaþola í kjölfar þessa máls lýsti vitnið því að brotaþoli hafa verið ósátt með skilnað þeirra hjóna og átt erfitt vegna þess. Á umræddum tíma hafi samskipti á heimilinu gengið frekar illa og erfiðleikar verið í skóla. Vitnið staðfesti að samskipti ákærða og D, föður brotaþola, hafi ekki verið góð í gegnum tíðina.

Vitnið D, faðir brotaþola, kvað brotaþola hafa þann 20. janúar greint sér frá því að hún hafi orðið fyrir kynferðisofbeldi af hendi ákærða. Nánar hafi hún lýst því þannig að ákærði hafi haldið henni og káfað á öllum stöðum sem hægt sé að káfa á. Eftir þetta hafi hún gert sér upp asmakast og þar sem hún hafi ekki verið með lyf meðferðis hafi hún beðið ákærða að keyra sig heim sem hann hafi síðan gert en haft í hótunum við hana alla leiðina heim. Einnig hafi brotaþoli greint vitninu frá því að nokkrum dögum síðar hafi ákærði endurtekið umræddar hótanir. Vitnið kvað brotaþola hafa verið mikið niðri fyrir og grátið mikið meðan á frásögn hennar stóð og ekki viljað að móðir hennar frétti af þessu. Þá hafi komið fram hjá brotaþola að hún hafi engum öðrum sagt frá atburðinum.

Vitnið kvaðst hafa rætt við móður brotaþola, fyrrverandi eiginkonu sína, en hún hafi ekki talið að tilvikið væri alvarlegt og greint honum frá því að búið væri að ganga frá málinu innan fjölskyldunnar. Í framhaldinu kvaðst vitnið hafa tilkynnt yfirmanni í skóla brotaþola frá málinu sem hafi síðan tilkynnt málið til barnaverndar. Vitnið kvað brotaþola hafa orðið mjög ósátta við sig í kjölfar tilkynningarinnar og fullyrt að hann hafi ekki greint rétt frá, hún hafi ekki sagt að ákærði hafi káfað á öllum stöðum. Í samtali einhverju síðar, líklega um líkt leyti og brotaþoli fór í skýrslutöku í Barnahúsi, hafi brotaþoli greint vitninu frá því að ákærði hafi aðeins káfað á brjóstum hennar og rassi, þ.e. ekki á klofi. Aðspurt hvort vitnið hafi staðið brotaþola að lygum eða ýkjum kvað vitnið hana vera eins og annað fólk, hún ýki stundum.

Vitnið kvað samskipti hans og ákærða yfirleitt hafa gengið vel. Vitnið kvað einhver vandamál vera hjá brotaþola í skóla og einkunnir vorið 2013 verið lægri en áður, en brotaþoli hafi greint vitninu frá því nú líði henni vel.

                Vitnið E, faðir ákærða og móðurafi brotaþola, kvaðst hafa frétt af máli þessu frá dóttur sinni, móður brotaþola. Vitnið minnti að það hafi verið öðru hvoru megin við jólin. Í framhaldinu hafi hann rætt við ákærða um málið og ástæðu þess að það hafi komið upp. Nánar aðspurt sagði vitnið að ákærði hafi komið af fjöllum í upphafi en síðan hafi hann lýst atvikum með sama hætti og brotaþoli, þ.e. að brotaþoli hafi hallað sér upp að ákærða og hann haldið utan um brotaþola og komið við brjóst brotaþola ofarlega. Í framhaldinu hafi hann og dóttir hans kannað hvort ákærði og brotaþoli vildu ræða saman um málið. Úr því hafi orðið og þau öll rætt saman á heimili ákærða. Taldi vitnið að brotaþoli og ákærði hefðu svipaða sýn á þá atburði sem um ræðir. Nánar aðspurður sagði vitnið að brotaþoli hafi lýst atvikum þannig að brotaþoli og ákærði hafi setið fullklædd með sæng yfir sér og horft á mynd í sjónvarpinu og hafi brotaþoli legið upp við hægri hlið ákærða sem haldið hafi um öxl hennar ofan á sænginni. Þá hafi ákærði komið eitthvað við brjóst hennar. Nánar gat vitnið ekki rakið lýsingu brotaþola á atvikum. Sérstaklega aðspurður um hvort brotaþoli hafi lýst fyrir vitninu snertingu á rassi, kvaðst vitnið minna að brotaþoli hafi orðað það þannig að ákærði hafi tekið um rass hennar til að færa hana nær sér. Varðandi það hvort ákærði hafi strokið milli brjósta brotaþola innan klæða sagði vitnið að brotaþoli væri óviss um að það hafi átt sér stað, heldur frekar að ákærði hafi strokið bringu hennar ofan brjósta.

Vitnið kvað það hafa verið sína upplifun af málinu að ekki væri þörf frekari aðgerða og komið hafi fram hjá brotaþola að ekki hafi verið um að ræða kynferðislega áreitni af hálfu ákærða. Þá hafi brotaþoli, vegna umræðu í samfélaginu, talið að allir þeir sem ekið hafi fram hjá henni væru „perrar“. Atburðurinn hafi ekki leitt til þess að brotaþoli forðist ákærða og séu þau, eins og áður, góðir vinir. Vitnið kvaðst vera náinn brotaþola og þau ræði oft saman. Brotaþoli sé skapmikil og sjái stundum eftir því sem hún hafi sagt og gert heima fyrir. Vitnið kvaðst ekki hafa staðið brotaþola að því að segja sér ósatt í trúnaðarsamtölum. Sérstaklega aðspurður sagði vitnið að brotaþoli hafi aldrei rætt um hótanir af hálfu ákærða. Vitnið staðfesti að samskipti ákærða og föður brotaþoli hafi verið slæm í gegnum árin.

Vitnið kvaðst hafa áhyggjur af brotaþola vegna þessa máls því hún ræði um að þetta sé óréttlátt. Þá hafi hún orðið reið þegar hún frétti að málið væri komið fyrir dóm og hafa lýst yfir vilja til að koma aftur fyrir dóm til að segja sannleikann.

Vitnið F, forstöðumaður Barnahúss, kvað barnavernd  [...] hafa þann 15. mars 2013 óskað eftir greiningu og meðferð fyrir brotaþola í Barnahúsi. Vitnið hafi hitt brotaþola 22. ágúst sama ár, en á umræddum tíma hafi verið löng bið eftir meðferð í Barnahúsi. Brotaþoli hafi mætt of seint í viðtalið og viðtalið, sem móðir brotaþola var viðstödd, hafi  því aðeins staðið yfir í um hálfa klukkustund. Vitnið kvaðst hafa upplýst þær mæðgur hvað fælist  í meðferð og einnig nefnt það að í kjölfar svipaðra mála komi oft ýmislegt upp á í fjölskyldunni. Þá hafi brotaþoli tárast og staðfest að það væri raunin í hennar máli, fjölskyldan hafi tvístrast og að hún væri ósátt við föður sinn. Komið hafi fram að ákærði væri uppáhaldsfrændi hennar og samskipti hafi verið mikil. Í viðtalinu hafi brotaþola liðið illa og verið óróleg en þar sem vitnið þekkti ekki brotaþola, treysti hún sér ekki til að tjá sig um ástæðu vanlíðan brotaþola, auk þess sem um hafi verið að ræða stutt viðtal. Brotaþoli hafi hins vegar alls ekki viljað tjá sig um hin meintu brot.

Vitnið kvað brotaþola strax hafa greint sér frá því að hún hvorki vildi né þyrfti á meðferð að halda og jafnframt að hún væri ósátt við það ferli sem málið væri þá komið í og hafi viðtalið mikið snúist um það. Brotaþoli hafi samþykkt að koma aftur þann 4. október 2013, en ekki mætt. Eftir árangurslausar tilraunir til að ná í fjölskylduna hafi vitnið tilkynnt barnavernd um stöðu málsins. Málinu hafi síðan verið lokað af hálfu Barnahúss þann 3. júní 2014. 

Vitnið B, sálfræðingur, kvaðst hafa rætt við brotaþola í þrjú skipti, þ.e. 30. janúar, 8. febrúar og 27. febrúar 2013. Í fyrsta viðtali hafi móðir verið viðstödd byrjun viðtals en síðan farið fram og vitnið rætt einslega við brotaþola. Vitnið kvaðst hafa skráð niður frásögn brotaþola af atvikum þeim sem mál þetta fjallar um. Þar hafi komið fram að í nóvember 2012 hafi hún farið upp í sveit með móðurbróður sínum, sem alla tíð hafi verið henni góður. Þau hafi verið að horfa á mynd þegar hann hafi káfað á henni. Hann hafi sagt henni að segja engum frá þessu og á leiðinni heim sagt að hann vildi snerta hana meira. Einnig hafi hann sagt að hann meinti ekkert kynferðislegt með þessu, þetta væri eins og þegar hún hafi verið lítil og hann faðmaði hana. Þá hafi faðir hennar aukið við frásögnina og sagt að ákærði hafi farið í klof brotaþola, en það sé ekki rétt. Vitnið kvaðst hafa spurt brotaþola nánar um framangreint káf og þá hafi brotaþoli svarað, hann tók utan um mig, tók utan um brjóstin á mér, „strauk á milli brjóstaskorunnar“, káfaði á rassinum, en ekki á „milli“. Ekki hafi komið fram hvort umræddar strokur hafi verið utan eða innan klæða og vitnið ekki spurt frekar út í atvik. Þá hafi brotaþoli sagt að sér hafi alls ekki liðið vel, en líði betur eftir að hún hafi rætt við ákærða ásamt móður sinni um atburðinn, en þá hafi ákærði sagt að þetta væri misskilningur. Einnig hafi brotaþoli greint frá því að faðir hennar hafi reynt að fá hana til að kæra, en það hafi hún alls ekki viljað gera. 

Vitnið kvaðst þann 8. febrúar 2013 hafa spurt brotaþola um líðan hennar í kjölfar atburðarins. Hún hafi svarað því til að káfið væri ekki að trufla sig, hún hugsaði ekki mikið um það. Vitnið kvaðst ekki hafa spurt nánar um atvik þar sem vitnið hafi skilið það svo að brotaþoli væri að fara í Barnahús. Brotaþoli hafi ekki minnst á dagbók. Vitnið kvaðst ekkert hafa rætt um þetta mál í viðtali 27. febrúar 2013.

Eftir viðræður við móður brotaþola kvaðst vitnið hafa staðið í þeirri trú að málið væri á leið í Barnahús, en tók fram að það hafi verið mistök af sinni hálfu að tilkynna ekki málið til barnaverndarnefndar. Kvaðst vitnið hafa bent móður á að hafa fyrst samband við barnaverndarnefnd enda sé það forsenda þess að mál fari í Barnahús. Vitnið hafnaði því alfarið að hafa sagt við móður eða brotaþola að umrætt atvik á heimili ákærða væri ekki brot, þvert á móti hafi hún ítrekað við móður brotaþola mikilvægi þess að málið færi áfram bæði vegna þess að vitnið hafi talið að brotið hafi verið gegn stúlkunni og til að hún fengi aðstoð.

Sérstaklega aðspurt kvaðst vitnið muna eftir því þegar brotaþoli greindi vitninu frá málavöxtum í fyrsta viðtalinu. Sér hafi fundist frásögn brotaþola trúverðug og enginn efi hafi verið í huga vitnisins um að brotaþoli hafi verið að lýsa raunverulegri upplifun sinni. Vitnið ítrekaði að hafa skráð niður frásögn brotaþola á þann veg sem að framan greinir en samkvæmt venju, þegar mál séu á leið í Barnahús, hafi hún ekki spurt brotaþola nánar út í atvik.

Vitnið G, heimilislæknir ákærða frá árinu 2002, staðfesti vottorð sitt um heilsufar ákærða. Vitnið kvað andlegri heilsu ákærða hafa hrakað eftir að mál þetta kom upp. Í viðtali 28. janúar 2013 hafi ákærði verið glaður og talið líklegt að hann gæti farið að vinna fljótlega. Næst kvaðst vitnið hafa rætt við ákærða í júní 2013 og þá hafi ákærði verið mjög langt niðri, átt erfitt með svefn og sagt ástæðu þess vera mál það sem hér er til umfjöllunar. Vitnið kvaðst hafa hitt ákærða reglulega eftir þetta, síðast 1. september sl. Greinilega megi merkja mikinn kvíða hjá ákærða tengdan þessu máli sem hafi haft slæm áhrif á andlega heilsu hans og getu til að stunda vinnu.

Niðurstaða

Ákærða er gefið að sök að hafa í nóvember 2012, á heimili sínu í [...], snert brjóst og strokið rass brotaþola, sem þá var 12 ára, utan klæða og strokið milli brjósta hennar innan klæða. Til stóð að brotaþoli, sem er systurdóttir ákærða, myndi gista á heimili ákærða umrædda nótt en svo varð ekki og ók ákærði brotaþola heim einhvern tímann um kvöldið. Bæði brotaþoli og móðir hennar greindu frá því fyrir dómi að  brotaþoli hafi verið með háan hita þegar heim kom. Ákærði og brotaþoli eru ein til frásagnar um atburðarásina á heimili ákærða og ber talsvert í milli í framburði þeirra. Þó liggur fyrir að þau hafi bæði setið fullklædd í þriggja sæta sófa og brotaþoli verið með sæng ofan á sér meðan þau horfðu á myndir í sjónvarpi. Einnig ber ákærða og brotaþola saman um að ákærði hafi beðið brotaþola um að segja ekki frá atburðinum þegar hann ók brotaþola heim umrætt kvöld.

Brotaþoli gaf tvisvar skýrslu fyrir dómi, annars vegar þann 19. mars 2013 og hins vegar við upphaf framhalds aðalmeðferðar þann 24. október sl., en í framburði móður hennar og afa fyrir dómi kom fram að brotaþoli óskaði eftir að gefa aftur skýrslu fyrir dómi. 

Brotaþoli lýsti atvikum þannig í yfirheyrslu fyrir dómi þann 19. mars 2013 að hún hafi legið á vinstri hlið upp við ákærða þegar ákærði hafi tekið utan um hana og farið með höndina undir sængina og lagt á brjóst hennar. Ákærði hafi spurt hvað þetta væri og hún svarað að þetta væri brjóst hennar og ákærði þá lyft hendinni af brjóstinu.

Ákærði hafnar því alfarið að hafa í kynferðislegum tilgangi snert brjóst brotaþola eins og í ákæru greinir. Kvaðst hann, eftir að brotaþoli hafi fært sig að hægri hlið hans, hafa tekið utan um brotaþola og lagt höndina ofan á sængina. Eftir 10-20 mínútur hafi brotaþoli hreyft sig og hann þá spurt hana hvað þetta væri og brotaþoli svarað að þetta væri „bobbingurinn“. Þá hafi hann fært höndina og beðið brotaþola afsökunar. Fyrir dómi var ákærði inntur eftir því sem fram kom í skýrslutöku hjá lögreglu, þ.e. að hann hafi haldið utan um brjóstið og kreist það eftir að hafa spurt brotaþola hvað þetta væri. Eftir þessu kvaðst ákærði ekki muna vel, en hafi hann greint þannig frá hjá lögreglu þá sé það rétt. Ákærði ítrekaði hins vegar að þarna hafi ekkert óeðlilegt átt sér stað.

Brotaþoli, sem mun vera með los í mjöðmum, lýsti því fyrir dómi að hafa umrætt kvöld staðið fyrir framan ákærða og sýnt honum áðurnefnt los en þá hafi ákærði ekki snert hana. Þegar hún hafi legið á vinstri hlið í sófanum upp við ákærða hafi hann tekið í rassinn á henni utan klæða og einhvern veginn strokið á henni rassinn, svona fram og til baka, eins og brotaþoli orðaði það. 

Framburður ákærða um áðurnefnda sýningu brotaþola á mjaðmalosi var með öðrum hætti í skýrslu ákærða fyrir dómi. Brotaþoli hafi staðið upp og hreyft mjaðmirnar til að sýna honum umrætt los. Hann hafi þá spurt hvort hann mætti finna hvernig þessu væri varið. Eftir að brotaþoli hafi samþykkt það hafi hann lagt hendur á mjaðmir brotaþola. Ákærði skýrði með sama hætti frá í skýrslutöku hjá lögreglu. Ákærði hafnaði alfarið lýsingu brotaþola á strokum á rassi utan klæða og kvaðst aðeins hafa snert mjaðmir hennar í tengslum við sýningu hennar á umræddu mjaðmalosi. Þá hafnaði ákærði því að hafa í umrætt sinn klappað eða slegið brotaþola á rassinn eins og hann lýsti í skýrslutöku hjá lögreglu að kæmi fyrir í samskiptum við börn eða systkini án þess að það tengdist nokkru kynferðislegu.

Loks greindi brotaþoli frá því að ákærði hafi strokið „milli brjóstaskorunnar“, og hafi það verið innan klæða. Sýndi brotaþoli umrædda hreyfingu í skýrslutökunni sem strokur upp og niður milli brjósta. Þessu hafnaði ákærði alfarið og kvaðst aðeins hafa komið við brjóst brotaþola eins og framan hefur verið lýst. Þó gæti hann mögulega hafa komið við bringu brotaþola ofarlega. Í umrætt sinn hafi brotaþoli verið í flegnum bol en ekki hafi sést í brjóstaskoruna.

Gögn málsins benda til þess að brotaþoli hafi greint móður sinni fyrst frá atburðinum. Í skýrslutöku fyrir dómi minnti móður brotaþola að það hafi verið í nóvember eða desember 2012. Í framburði vitnisins kom fram að brotaþoli hafi sagt henni að hún héldi að hún hafi verið misnotuð með því að ákærði hafi í fyrsta lagi snert annað brjóst hennar þegar hann hafi haldið utan um hana. Í öðru lagi hafi ákærði tekið utan um rass hennar þegar hún hafi verið að sýna honum hvernig hún væri laus í mjöðmum og í þriðja lagi minnti vitnið að brotaþoli hafi greint frá því að ákærði hafi hreyft fingur við brjóstaskoru brotaþola. Brotaþoli hafi verið óróleg en ekki hrædd þegar hún greindi vitninu frá atburðinum. Faðir brotaþola kvað dóttur sína hafa greint sér frá málinu þann 20. janúar 2013. Fyrir dómi kvað vitnið brotaþola hafa lýst atvikum þannig að ákærði hafi káfað á henni á öllum stöðum sem hægt sé að káfa á, án þess að skýra það nánar. Brotaþola hafi verið mikið niðri fyrir og grátið mikið meðan hún greindi honum frá atvikum. Síðar hafi komið fram hjá brotaþola að ákærði hafi káfað á brjóstum og rassi.

Í skýrslutöku af brotaþola þann 24. október sl., kom fram að brotaþoli hafi einnig sagt afa sínum og ömmu frá atburðinum. Móðurafi brotaþola og faðir ákærða lýsti frásögn brotaþola þannig í skýrslutöku fyrir dómi að brotaþoli hafi legið upp við hægri hlið ákærða sem haldið hafi um öxl hennar ofan á sænginni þegar ákærði hafi komið eitthvað við brjóst hennar. Þá minnti vitnið að brotaþoli hafi sagt að ákærði hafi tekið um rass hennar til að færa hana nær sér. Loks greindi vitnið frá því að brotaþoli væri ekki viss hvort ákærði hafi strokið milli brjósta hennar, frekar að ákærði hafi strokið bringu hennar ofan brjósta.

Upplýst er í málinu að brotaþoli fór ásamt móður sinni og föðurafa á heimili ákærða í þeim tilgangi að ræða um atburðinn og fá fram sjónarmið ákærða og brotaþola til þess sem gerðist umrætt kvöld. Þá benda gögn málsins til þess að  umræddur fundur hafi farið fram áður en brotaþoli gaf fyrri skýrslu sína fyrir dómi. Móðir brotaþola kvaðst hafa metið málið þannig að ekki hafi brotið gegn barninu en tók fram að brotaþoli hafi á umræddum tíma upplifað eitthvað sem hún hafi ekki talið eðlilegt eða rétt. Föðurafi brotaþola kvaðst eftir framangreindan fund á heimili ákærða hafa talið að ákærði og brotaþoli hefðu svipaða sýn á þá atburði sem um ræðir og að hans mati hafi ekki verið þörf frekari aðgerða.

Samkvæmt framburði brotaþola var vitnið og sálfræðingurinn B eina manneskjan utan fjölskyldunnar sem brotaþoli greindi frá atburðinum áður en brotaþoli gaf skýrslu fyrir dómi, en brotaþoli sótti tíma hjá sálfræðingnum í janúar og febrúar 2013. Vitnið B greindi dómnum frá viðtali sínu við brotaþola um mál þetta eftir að dómurinn upplýsti vitnið um að vitnisburður hennar gæti ráðið úrslitum um niðurstöðu málsins og að ríkari hagsmunir væru að því af vitnið greindi frá en að hún héldi trúnaði, sbr. 3. mgr. 119. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Vitnið, sem kvaðst hafa skráð niður frásögn brotaþola í fyrsta viðtali þann 30. janúar 2013, kvað brotaþola hafa lýst atvikum þannig að hún hafi í nóvember 2012 farið upp í sveit með móðurbróður sínum sem hafi káfað á henni þegar þau hafi verið að horfa á mynd. Nánar hafi brotaþoli lýst atvikum þannig að ákærði hafi tekið utan um hana, tekið um brjóst hennar, strokið „á milli brjóstaskorunnar“, káfað á rassinum „en ekki á milli“. Ekki hafi komið fram hvort um hafi verið að ræða snertingu utan eða innan klæða enda hafi vitnið ekki viljað fara nánar í málið þar sem til hafi staðið að brotaþoli færi í Barnahús. Einnig hafi ákærði, á leiðinni heim, sagt brotaþola að segja engum frá þessu sem og að hann vildi snerta hana meira.   

Þrátt fyrir að ákærði neiti sök kannaðist hann, bæði í skýrslutöku hjá lögreglu og fyrir dómi, við að hafa snert brjóst brotaþola þegar hún lá við hlið hans í sófanum en vísar til þess að um óviljaverk hafi verið að ræða. Einnig taldi hann mögulegt að hann hafi komið ofarlega við bringu brotaþola sem í umrætt sinn hafi verið í flegnum bol. Þá hafi hann, með leyfi brotaþola, komið við mjaðmir hennar. Að mati dómsins einkenndist framburður ákærða annars vegar af því að réttlæta samskipti hans við brotaþola og þær snertingar sem hann þó lýsti að átt hafi sér stað og hins vegar að leggja á það áherslu að brotaþoli, sem eigi það til að ýkja og segi ekki alltaf satt frá, hafi misskilið aðstæður. Þá verður ekki framhjá því litið við mat á saknæmi að ákærði bað brotaþola þá þegar um kvöldið að segja ekki frá atburðinum. Að mati dómsins eru skýringar ákærða að þessu leyti ekki trúverðugar.  

Lýsing brotaþola á atvikum í skýrslutöku fyrir dómi þann 19. mars 2013 er hins vegar skýr og greinargóð hvað varðar þær snertingar sem hún greindi frá að ákærði hafi viðhaft í umrætt sinn. Aðspurð um líðan á heimili ákærða umrætt kvöld kvaðst brotaþoli hafa þótt þetta skrítið og hafi hún ekki búist við þessu. Í síðari skýrslutöku fyrir dómi kvaðst brotaþoli hafa viljað koma aftur fyrir dóm til að koma á framfæri þeirri skoðun sinni, að ekki hafi verið um að ræða alvarlegan atburð sem haft hafi slæm áhrif á sig, og því réttast að gleyma málinu. Hins vegar kom fram hjá brotaþola að umrætt kvöld, og fyrst á eftir, hafi hún ekki verið viss um hvað hún ætti að gera eða hvað þetta hafi verið. Framburður brotaþola fær stoð í framburði vitnisins C, móður brotaþola, en brotaþoli mun hafa sagt móður sinni fljótlega frá atburðinum, og framburði vitnisins B sálfræðings, sem brotaþoli ræddi við í lok janúar 2013. Í þeim viðræðum lýsti brotaþoli atvikum umrætt kvöld í öllum aðalatriðum með sama hætti og fyrir dómi. Þá styður framburður móðurafi brotaþola, vitnisins E, framburð brotaþola svo langt sem hann nær. 

Dómurinn hefur horft á upptöku af fyrri skýrslugjöf brotaþola fyrir dómi, sem tekin var upp í hljóð og mynd, og telur framburð brotaþola trúverðugan. Einnig er til þess að líta að í síðari skýrslu sinni fyrir dómi breytti brotaþoli hvorki né afturkallaði fyrri framburð sinn fyrir dómi, þvert á móti tók hún fram að hún hafi sagt satt og rétt frá atvikum í fyrri skýrslutökunni og í viðtali við vitnið B sálfræðing. Þó brotaþoli hafi í upphafi fyrri skýrslu sinnar fyrir dómi greint frá því að hún héldi að að mál þetta væri „einn stór misskilningur“ og hún hafi haldið að ákærði „hafi ekki verið að meina neitt kynferðislegt með þessu“, styrkir það, að mati dómsins, trúverðugleika brotaþola að í þeirri skýrslutöku lýsti hún atvikum á sama veg og hjá vitninu B, þrátt fyrir að farið hafi verið yfir málið í sérstakri heimsókn brotaþola, móður hennar og afa á heimili ákærða, eins og áður greinir. Engin breyting varð á þeim framburði brotaþola í síðari skýrslutöku fyrir dómi. Þá kom fram í framburði vitnisins B sálfræðings, að brotaþoli hafi greint vitninu frá því að henni liði betur eftir að hafa rætt við ákærða um atburðinn, sem hafi sagt að þetta væri misskilningur. 

Að öllu framansögðu virtu þykir fram komin lögfull sönnun þess að ákærði hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru og að sú háttsemi teljist kynferðisleg áreitni í skilningi 2. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Með þeirri háttsemi sinni braut ákærði gegn áðurnefndu ákvæði almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákvörðun refsingar

Ákærði er 41 árs gamall. Það er ákærða til refsiþyngingar að brot hans beindist að ungri systurdóttur hans meðan hún var í heimsókn á heimili hans. Með því brást ákærði, sem hafði yfirburðastöðu gagnvart brotaþola vegna aldurs, trúnaðarskyldum sínum gagnvart brotaþola. Ákærða til málsbóta er til þess að líta að hann hefur ekki sætt refsingum svo kunnugt sé. Einnig liggur fyrir samkvæmt vottorði og framburði heimilislæknis ákærða að mál þetta hefur haft alvarleg á áhrif á geðheilsu ákærða og möguleika hans til atvinnuþátttöku. Þá liggur fyrir að dráttur á meðferð málsins var ákærða ekki að kenna. Eftir að rannsókn lögreglu lauk, sem var í júní 2013 eftir því sem gögn málsins bera með sér, liðu 12 mánuðir þar til ákæra var gefin út. Að öllu þessu virtu þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði. Eftir atvikum og með vísan til 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955, þykir rétt að fresta fullnustu refsingarinnar eins og nánar greinir í dómsorði. 

Einkaréttarkrafa

Ákærði krefst frávísunar einkaréttarkröfu í máli þessu með vísan til þess að skipaður réttargæslumaður sé ekki bær til að setja kröfuna fram í umboði brotaþola, enda hafi hann ekki verið skipaður sérstakur lögráðamaður brotaþola til að setja fram einkaréttarkröfu í máli þessu. Fyrir liggur að lögreglan á Selfossi, sem fór með rannsókn málsins, tilnefndi Sigurð Sigurjónsson hrl., sem réttargæslumann brotaþola, sbr. 1. mgr. 41 gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, og var einkaréttarkröfu ásamt greinargerð, undirritaðri af framangreindum lögmanni, komið á framfæri við lögreglu meðan á rannsókn málsins stóð, sbr. 1. mgr. 173. gr. laganna. Í upphafi greinargerðar segir: „Undirritaður, Sigurður Sigurjónsson hrl., tilnefndur réttargæslumaður A, kt. [...], Hraunbæ 41, Hveragerði, leggur hér fram bótakröfu ásamt greinargerð vegna kynferðisbrots sem hún varð fyrir um mánaðarmótin október-nóvember 2012 á heimili kærða að [...] í [...].[...] Undirritaður lögmaður, Sigurður Sigurjónsson hrl., gætir hagsmuna brotaþola.“ Í kafla sem ber heitið „dómkröfur“ segir meðal annars: „Brotaþoli gerir kröfu til þess að kærði verður [sic] dæmdur til að greiða sér bætur að fjárhæð kr. 1.000.000.- ásamt vöxtum skv. 8. gr. vaxtalaga nr. 37/2001 frá tjónsdegi til þess dags er mánuður er liðinn frá dagsetningu bótakröfunnar, og dráttarvaxta samkvæmt 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags, sbr. 6. gr. vaxtalaga.“ Lögráðamanns brotaþola er hvorki getið í dómkröfum né greinargerð. 

Eins og áður greinir krefst ákærði þess að einkaréttarkröfu í máli þessu verði vísað frá dómi þar sem Sigurður Sigurjónsson hrl., hafi ekki verið bær til að setja fram bótakröfu í máli þessu enda sé lögmaðurinn hvorki forráðamaður brotaþola né hafi yfirlögráðandi skipað hann sérstakan fjárhaldsmann brotaþola til að setja fram einkaréttarkröfu í máli þessu. Þessu hafnaði skipaður réttargæslumaður í munnlegum málflutningi og vísaði til hlutverks réttargæslumanns, sbr. 1. mgr. 45. gr. laga nr. 88/2008, um meðferð sakamála. 

Í 1. mgr. 39. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála er hugtakið brotaþoli skilgreint. Samkvæmt því er A brotaþoli í máli þessu í skilningi ákvæðisins. Í 2. mgr. 39. gr. segir að ef brotaþoli er ólögráða komi lögráðamaður fram sem fyrirsvarsmaður hans og taki ákvarðanir fyrir hönd hins ólögráða sem hann er ekki talinn bera skynbragð á eða fær um að taka. Í máli þessu liggur fyrir að brotaþoli er ólögráða fyrir aldurs sakir. Í athugasemdum sem fylgdu 39. gr. frumvarps sem síðar varð að lögum nr. 88/2008, er þess sérstaklega getið að hagi þannig til að fastur lögráðamaður brotaþola sé sjálfur sakborningur eða að öðru leyti ekki talinn fær um að gæta hagsmuna brotaþola sem skyldi, skuli skipaður sérstakur lögráðamaður, samkvæmt 53. gr. lögræðislaga til þess að koma fram fyrir hönd hans í málinu. Í 5. mgr. 39. gr., segir að ef brotaþoli hafi uppi einkaréttarkröfu samkvæmt XXVI. kafla laganna njóti hann, að því er þann þátt málsins varðar, sömu réttarstöðu og aðili að einkamáli, eftir því sem nánar er fyrir mælt í lögum, sbr. til hliðsjónar ákvæði 3. mgr. 17. gr. laga um meðferð einkamála nr. 91/1991, en þar segir að lögráðamaður komi fram sem fyrirsvarsmaður ólögráða manns sem aðild á að máli og brestur hæfi til að ráðstafa sakarefninu. Þá eru í 2. mgr. 173. gr. laga nr. 88/2008 tilgreind þau atriði sem getið skal um í greinargerð með einkaréttarkröfu samkvæmt XXVI. kafla laganna. Samkvæmt a. lið áðurnefndrar lagagreinar skal getið nafns kröfuhafa, heimilis og kennitölu. Sömu atriða skal getið varðandi fyrirsvarsmann hans ef því er að skipta, sbr. b. lið áðurnefndrar lagagreinar. Að öllu framansögðu virtu, og þar sem einkaréttarkrafa í máli þessu uppfyllir ekki skilyrði laga nr. 88/2008 hvað varðar fyrirsvar lögráðamanns brotaþola, er fallist á það með ákærða að vísa beri einkaréttarkröfunni frá dómi.

Sakarkostnaður

Með vísan til 1. mgr. 218. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 ber að dæma ákærða til að greiða allan sakarkostnað, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., 593.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og 12.412 krónur í ferðakostnað. Þá greiði ákærði útlagðan sakarkostnað, samtals 167.340 krónur vegna vinnu verjanda á rannsóknarstigi og 69.224 krónur vegna kostnaðar og þóknun vitnis. Ákærði greiði einnig þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 966.000 krónur, að teknu tilliti til vinnu hans á rannsóknarstigi, samtals 55 tímar, að meðtöldum virðisaukaskatti og 13.920 krónur í ferðakostnað. Um þóknun réttargæslumanns vísast til 48. gr., 216. gr. og 1. mgr. 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála.  

Af hálfu ákæruvaldsins flutti Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari málið.

Ragnheiður Thorlacius héraðsdómari og dómsformaður, Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri og Sigurður G. Gíslason héraðsdómari, kváðu upp dóm þennan.

D Ó M S O R Ð:

Ákærði, X, sæti fangelsi í fjóra mánuði en fresta skal fullnustu refsingarinnar og fellur hún niður að liðnum þremur árum frá dómsuppsögu að telja, haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. 

Einkaréttarkröfu A er vísað frá dómi.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, 1.821.896 krónur, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jónínu Guðmundsdóttur hdl., 593.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti, og 12.412 krónur í ferðakostnað verjanda og þóknun réttargæslumanns brotaþola, Sigurðar Sigurjónssonar hrl., 966.000 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti og 13.920 krónur í ferðakostnað réttargæslumanns.