Hæstiréttur íslands

Mál nr. 234/2010


Lykilorð

  • Kærumál
  • Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008


                                                        

Fimmtudaginn 15. apríl 2010.

Nr. 234/2010.

Lögreglustjórinn á

höfuðborgarsvæðinu

(Jón H.B. Snorrason saksóknari)

gegn

X

(Björn Ólafur Hallgrímsson hrl.)

Kærumál. Gæsluvarðhald. A. liður 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008.

Úrskurður héraðsdóms um að X skyldi gert að sæta gæsluvarðhaldi, á grundvelli a. liðar 1. mgr. 95. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson og Viðar Már Matthíasson settur hæstaréttardómari.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. apríl 2010, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2010, þar sem varnaraðila var gert að sæta gæsluvarðhaldi allt til mánudagsins 10. maí 2010 klukkan 16 og sæta einangrun meðan á gæsluvarðhaldi stendur. Kæruheimild er í l. lið 1. mgr. 192. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími og einangrun aflétt.

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

                                                             

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 12. apríl 2010.

Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að X, kt. [...], verði gert að sæta gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 10. maí 2010, kl. 16:00.  Þess er krafist að X verði látinn vera í einrúmi á meðan á gæsluvarðhaldi stendur.

Í greinargerð lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu kemur fram að lögreglan rannsaki nú ætluð fjársvik X.  Borist hafi kærur og upplýsingar frá fjölda einstaklinga sem allir bera að hafa undanfarin misseri afhent kærða verulegar fjárhæðir, í sumum tilvikum tugi milljóna hver þeirra.  Kærendur og þeir sem hafa leitað til lögreglu bera með svipuðum hætti um það að kærði hafi haft frumkvæði að því að hafa samband og boðist til að ávaxta fé þeirra, gjarna með einhverskonar gjaldeyrisviðskiptum eða með því að aðstoða kærða við að losa um innistæður sem hann hefur borið að eiga í erlendri mynt á reikningum í bönkum í útlöndum.  Í öllum tilvikum hefur kærði boðið mjög ríflegan hagnað fyrir viðkomandi. 

Auk gagna frá kærendum hafi lögregla þegar aflað bankagagna sem þó séu ekki tæmandi um umfang umsvifa kærða. Samkvæmt bankagögnum frá Landsbanka Íslands nemi innlegg frá þeim sem kærði sé talinn hafa blekkt a.m.k. 300.000.000. ísl. kr.  Óútskýrð ráðstöfun kærða af því fé nemi samkvæmt gögnum u.þ.b. 260.000.000 kr.  Samkvæmt gögnum hafi a.m.k. 90  einstaklingar lagt ofangreinda fjárhæð á reikning kærða við Landsbankann. Rökstuddur grunur sé um að umfang svikastarfsemi kærða sé meiri því kærði hafi haft bankareikning í BYR sparisjóði sem talið sé að hann hafi notað til þess að láta greiða inná frá fólki sem hann sé talinn hafa blekkt.  Auk þess séu upplýsingar um að kærði hafi látið ýmsa þeirra sem hann sé talinn hafa blekkt leggja peninga beint inn á reikninga einstaklinga sem hann hafi skuldað og hafi krafið hann endurgreiðslu, en auk þess sé grunur um að kærði hafi notið aðstoðar nokkurra einstaklinga sem m.a hafi tekið á móti greiðslum á sína reikninga.

Eftir skoðun lögreglu á þessum bankareikningum X og með hliðsjón af fram komnum tilkynningum um háttalag hans hafi lögreglan rökstuddan grun um að X stundi skipulagða fjársvikastarfsemi þar sem hann blekki fólk til þess að leggja fram fjármuni með loforði um skjótfengin gróða. Hann hafi á síðasta ári verið úrskurðaður gjaldþrota enda benda gögn til þess að hann hafi lengi haft mjög bágan fjárhag en talsverða framfærslu, en hann sé sjálfur ekki skráður fyrir eignum, heldur kona hans, en á milli þeirra sé kaupmáli.  Undanfarin misseri hafi kærði greitt einhverjum af þeim sem hann skuldar en aðeins útvaldir virðast fá einhvern hluta endurgreiddan en aðrir ekki neitt þrátt fyrir ítrekaðar innheimtutilraunir.  Þá liggi einnig fyrir upplýsingar sem telja verði vafalitlar um það að kærði hafi notið aðstoðar einstaklinga við að setja á svið blekkingarvef í svikum gagnvart fólki.

Kærði hafi verið handtekinn í morgun þar sem hann hafi verið á ferð á bifreið og hafi hann verið færður á lögreglustöð þar sem honum hafi verið kynnt að mál þetta væri til rannsóknar gegn honum og hann handtekinn í þágu rannsóknar þess máls.  Kærði hafi ekki véfengt það að hann skuldi hundruð milljóna og að fjöldi þeirra sem hann skuldi sé a.m.k. 90.  Hann kannast ekki við að hann hafi almennt brotið af sér þar sem hann telur að hann geti greitt fólki til baka.  Kærði kannast þó við tiltekin tilvik þar sem hann hafi þó beitt blekkingu.

Fyrir liggi að rannsókn þessa máls sé og verður umfangsmikil.  Færslur tengdar reikningunum skipta þúsundum og yfirheyra þarf a.m.k. 90 manns sem allt bendir til að hafi látið kærða í té peninga með blekkingum þar sem kærði hafi fengið peningana undir yfirskini að hann ætla að ávaxta þá en ekki það sem virðist liggja fyrir til eigin framfærslu eða til að greiða úr óyfirstíganlegum skuldavanda hans.  Þykir þannig brýnt að vernda rannsóknarhagsmuni á þessu stigi málsins með því að varna því að kærði gangi laus en veruleg hætta sé talin á að hann torveldi rannsókn máls með því að koma undan fjármunum, hafi áhrif á vitni og ekki síst samseka ef hann fær að fara frjáls ferða sinna.

Til rannsóknar sé ætlað brot gegn 248. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sem getur varðað allt að 6 ára fangelsi ef sök sannast.  Með vísan til þess sem að framan sé rakið og gagna málsins þykir brýna nauðsyn bera til þess að kærða verði með vísan til a liðar 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 gert að sæta gæsluvarðhaldi til mánudagsins 10. maí n.k., og til að sæta einangrun samkvæmt b. liðar 1. mgr. 99. gr. sömu laga.

Fyrir dóminn hafa verið lögð gögn er styðja þá fullyrðingu lögreglunnar í greinargerð hennar að kærði sé undir rökstuddum grun um fjársvik. Með vísan til framanritaðs, fyrri úrskurða sem tengjast málinu og fyrirliggjandi rannsóknargagna er fallist á framkomna kröfu sbr. 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála nr. 88/2008. 

Allan V. Magnússon héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

ÚRSKURÐARORÐ

Kærði, X, skal sæta gæsluvarðhaldi, allt til mánudagsins 10. maí 2010, kl. 16:00.