Hæstiréttur íslands

Mál nr. 101/2006


Lykilorð

  • Börn
  • Forsjá


Fimmtudaginn 14

 

Fimmtudaginn 14. september 2006.

Nr. 101/2006.

M

(Guðmundur Kristjánsson hrl.

 Ólafur Eiríksson hdl.)

gegn

K

(Lára V. Júlíusdóttir hrl.

 Hulda R. Rúriksdóttir hdl.)

 

Börn. Forsjá.

K og M hófu sambúð á árinu 1999. Þeim fæddist sonur á árinu 2003 en slitu samvistum ári síðar. Þau deildu um forsjá drengsins. Við úrlausn málsins í héraði var höfð hliðsjón af skýrslu tveggja dómkvaddra yfirmatsmanna, en þeir töldu báða aðila hæfa til að fara með forsjá drengsins. Þegar litið var meðal annars til þess að B hafði þá búið samfleytt hjá K í rúma 14 mánuði, að hann bjó með þremur hálfsystkinum sínum sem hann hafði alist upp með frá fæðingu, að drengurinn hafði tengst sambýlismanni K jákvæðum böndum, að K virtist hafa sveigjanlegri skapgerð en M og meira innsæi og betri skilning á þörfum barna almennt, taldi dómurinn að það væri drengnum fyrir bestu að búa óbreytt áfram hjá K. Umgengnisréttur M var ákveðinn með hliðsjón af matsgerð dómkvadds sálfræðings. Var M dæmdur til að greiða einfalt meðlag með drengnum. Fyrir Hæstarétt voru lögð fram nokkur ný skjöl, meðal annars matsgerð dómkvadds manns sem framkvæmd var eftir að héraðsdómur gekk. Niðurstaða héraðsdóms var staðfest með vísan til forsendna hans.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 20. febrúar 2006. Hann krefst þess að sér verði dæmd forsjá sonar aðila, B, sem fæddur er [...] 2003. Þá krefst hann að stefndu verði gert að greiða meðlag með drengnum, sömu fjárhæðar og barnalífeyrir samkvæmt lögum um almannatryggingar er ákveðinn á hverjum tíma, frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs hans og að umgengni stefndu við drenginn verði ákveðin með sama hætti og mælt var fyrir um í hinum áfrýjaða dómi gagnvart áfrýjanda. Loks krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda krefst staðfestingar héraðsdóms um annað en málskostnað. Þá krefst hún málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefnda hefur ekki gagnáfrýjað héraðsdómi fyrir sitt leyti. Kemur krafa hennar um málskostnað í héraði því ekki til frekari álita hér fyrir dómi.

Málið var tekið til dóms í héraði eftir munnlegan flutning þess 16. desember 2005. Við uppkvaðningu héraðsdóms 31. janúar 2006 var fært til bókar að aðilar væru sammála dómendum um að ekki væri þörf á að málið yrði flutt á ný, sbr. 1. mgr. 115. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Eftir uppsögu héraðsdóms var að beiðni áfrýjanda dómkvaddur matsmaður. Skyldi hann meðal annars leggja mat á hvernig tengslum drengsins væri háttað við föður sinn, móður, sambúðarmann hennar og hálfsystkini sín og hver væri staða hans í systkinahópnum. Þá skyldi matsmaður skoða hvernig högum barnsins og stefndu væri nú háttað. Hefur matsgerð hans 22. maí 2006 verið lögð fyrir Hæstarétt. Þá hefur verið lagt fram í Hæstarétti endurrit af skýrslu matsmannsins fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur 4. júlí 2006 og athugasemdir leikskólans [...] 8. júní 2006 við matsgerðina.

Með vísan til forsendna héraðsdóms verður hann staðfestur.

Eftir atvikum er rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu fyrir Hæstarétti.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykja­ness 31. janúar 2006.

Málið var höfðað 14. október 2004 og dómtekið 16. desember 2005. Aðal­stefnandi er K, [...]  Gagnstefnandi er M, [...].

Dómkröfur aðila eru samkynja og efnislega samhljóða, en þeir krefjast hvor um sig forsjár sonarins B, [...] að gagn­­aðili verði dæmdur til greiðslu einfalds meðlags með drengnum frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs og að í dómi verði kveðið á um inntak umgengnisréttar sonarins og þess foreldris sem ekki fær dæmda forsjána. Loks krefjast aðilar hvor um sig málskostnaðar úr hendi hins.

I.

Áður en fjallað er um atvik að baki málinu er rétt að víkja nokkrum orðum að formhlið þess og meðferð fyrir dómi. Fyrst ber að nefna að aðalstefnandi var búsett í [...] þegar málið var höfðað og gagnstefnandi í [...]. Í framhaldi af þing­festingu aðalsakar 20. október 2004 var greinar­­gerð skilað 17. nóvember, jafnframt því sem þing­fest var gagn­­­sakar­mál nr. E-2577/2004 og það sameinað aðalsök. Gagn­stefnda skilaði greinar­gerð í gagn­sök 1. desember og sama dag var málinu úthlutað til Ingiríðar Lúðvíks­dóttur setts héraðs­dómara. Aðalstefnandi lagði fram matsbeiðni 17. janúar 2005 og var Ágústa Gunnars­dóttir sálfræðingur dómkvödd til matsstarfa 4. febrúar. Settur héraðs­­­dómari lét af störfum 31. mars og lá málið í láginni til 6. júní er reglulegum héraðs­­­dómara var endur­­úthlutað málinu. Fyrir þann tíma eða 17. maí lauk mats­maður störfum og sendi lög­­manni aðalstefnanda umbeðna matsgerð. Hvorki lög­manni gagn­aðila né dómara varð kunnugt um matsgerðina fyrr en í lok ágúst. Var þá boðað til sátta­þing­­­halds 6. september, mats­­gerðin lögð fram og samkomulagi náð til bráða­birgða um umgengni gagn­stefnanda við soninn, sem legið hafði niðri frá 7. júlí. Í þinghaldi 20. september var gagna­öflun lýst lokið og fór aðalmeðferð fram 13. og 21. október fyrir fjöl­­skipuðum dómi. Vegna annmarka á mats­gerð skorti dómendur hald­betri upp­­lýsingar um forsjár­hæfi og foreldrahæfni aðila til að efnisdómur yrði réttilega lagður á málið. Málið var því endur­upp­tekið 26. október og sálfræðingarnir Ása Guðmunds­dóttir og Gunnar Hrafn Birgisson dóm­kvaddir til yfirmatsstarfa. Yfirmats­gerð var lögð fram 16. desember og málið dóm­tekið að nýju að lokinni skýrslu­gjöf mats­­manna og við­bótar­­­málflutningi aðila.

II.

Málsaðilar kynntust 1999 og hófu fljótlega sambúð. Þeim fæddist sonurinn B [...] 2003, en fyrir átti aðalstefnandi þrjú börn af fyrra sambandi, sem bjuggu hjá aðilum og gagnstefnandi einn son, sem bjó hjá móður sinni. Aðilar slitu sam­búðinni í júní 2004 og flutti gagnstefnandi út af sameiginlegu lögheimili þeirra að [...]. Hinn 22. júní sama ár staðfesti Sýslumaðurinn í [...] samkomulag aðila um sameiginlega forsjá B, sem skyldi eiga lögheimili hjá aðalstefnanda. Þeirri ákvörðun breyttu aðilar skömmu síðar og færðu lögheimili snáðans til gagnstefnanda. Samvistum hans við aðila var í fyrstu hagað þannig að hann dvaldi viku í senn hjá hvorum þeirra, en eftir að gagn­stefnandi flutti með drenginn [...] í október 2004 dvaldi hann tvær vikur í senn hjá hvorum aðila.

Ákvörðun um flutninginn [...] var tekin án samþykkis aðal­stefnanda. Hún taldi því forsendur brostnar fyrir sameiginlegri forsjá og höfðaði málið til slita á sam­­komu­laginu þar að lútandi. Jafnframt krafðist hún bráðabirgðaforsjár B. Með úrskurði héraðsdóms 17. nóvember 2004 var kveðið á um að forsjá skyldi vera óbreytt að svo stöddu, en lögheimili snáðans færast til aðal­stefnanda. Að baki þeirri ákvörðun lágu þau rök að drengurinn væri hag­vanari aðstæðum í [...], þar sem hann hefði búið frá fæðingu og ætti að auki stór­fjölskyldur í föður- og móðurætt, sem væru búsettar á höfuðborgarsvæðinu og gætu hlaupið undir bagga með aðalstefnanda varðandi umönnun drengsins. Að morgni 18. nóvember mætti aðalstefnandi í leik­skóla snáðans á [...] og krafðist umsjár hans. Starfs­fólk skólans kallaði gagn­stefnanda á staðinn. Í framhaldi kom til snarpra orða­skipta og handalögmála milli aðila. Var ástandið svo alvarlegt að kveðja þurfti lögreglu á vett­­vang til að skakka leikinn. Aðalstefnandi fór síðan með hnokkann til [...].

Með dómi Hæstaréttar 14. desember 2004 var niðurstaða héraðsdóms staðfest, sem og ákvörðun hans um umgengnisrétt gagnstefnanda við soninn, sem skyldi dvelja hjá föður sínum á [...] aðra hverja helgi, frá eftirmiðdegi á fimmtudegi til sunnu­­dags­eftirmiðdags, uns annað væri ákveðið, sem og fjórar vikur sumarið 2005.

Aðilum ber saman um að þrátt fyrir hæstaréttardóminn hafi þau ákveðið að B færi til gagnstefnanda einu sinni í mánuði og dveldi hjá honum frá fimmtudegi til sunnu­dags. Munu hagsmunir snáðans hafa ráðið þeirri niðurstöðu, en hann var tæp­lega tvævetra þegar dómur gekk. Stráksi fór síðan til fjögurra vikna sumardvalar hjá gagnstefnanda í júní 2005 og skilaði sér til aðalstefnanda 7. júlí.

Áður hafði aðalstefnandi sumarið eða haustið 2004 tekið upp samband við A. Þau fluttu ásamt fjórum börnum aðalstefnanda til [...] 15. júlí 2005 og festu þar kaup á stóru einbýlishúsi. Aðalstefnandi hefur síðan verið heima­­­vinnandi, en A réði sig sem sjúkraþjálfara á [...]. Svo virðist sem flutningurinn [...] hafi ekki verið borinn undir gagn­stefnanda eða honum tilkynnt sérstaklega um þau áform. Óumdeilt er, að frá 7. júlí naut gagn­stefnandi ekki neinnar umgengni við soninn fyrr en 8. september er snáðinn fór til fimm nátta dvalar á [...], í kjölfar íhlutunar dómsins, sem áður er getið. Aðila greinir hins vegar á um ástæðu þess að drengurinn hitti ekki föður sinn á nefndu tímabili. Drengurinn fór aftur [...] til fimm nátta dvalar 29. september, en eftir hana lá umgengni með öllu niðri þar til í kringum síðustu áramót. Er skýringa á þessu fyrst og fremst að finna í því að ráðgert var að dómur gengi um forsjá drengsins í lok október, að gagnstefnandi hefur viljað hlífa drengnum við löngum og ströngum ferða­lögum að vetrarlagi milli [...] og [...] og loks þess, að aðalstefnandi hefur ekki verið reiðubúin til að greiða hluta kostnaðar við fleiri slík ferða­lög.

Gagnstefnandi býr enn á [...] og leigir þar íbúð. Hann er fastráðinn smiður hjá [...]. Samkvæmt yfir­lýsingu félagsins 2. nóvember 2004 nýtur gagnstefnandi sveigjanlegs vinnutíma og skilnings vinnu­veitanda varðandi tíma, sem hann þarf að verja með syninum. Gagn­­stefnandi er ekki í sambúð, en er í sambandi við konu, sem á eitt barn. Að sögn gagnstefnanda hyggja þau ekki á sambúð að svo stöddu.

III.

Gögn málsins bera með sér að í sambúð aðila skiptust á skin og skúrir. Fjár­hags­örðugleikar blönduðust þar inn í ágreining um uppeldi barna aðalstefnanda, C, fæddrar 1990, D, fæddrar 1993 og E, fædds 1994, sem við 6 ára aldur greindist með ofvirkni. Hefur aðalstefnandi gagnrýnt gagn­stefnanda fyrir að hafa verið of strangur við börnin, en hann á móti gagnrýnt hana fyrir sinnuleysi í umönnun þeirra, þar sem hann hafi borið hitann og þungann af upp­­eldinu. Gagnstefnandi hafi því að ósekju fengið stöðu „vonda stjúpans“.

Óháð slíku hnútukasti liggur fyrir að barnaverndarnefnd [...] hafði tvívegis afskipti af málefnum fjölskyldunnar, í desember 2001 og í ársbyrjun 2004, annars vegar vegna tilkynningar um að umönnun barnanna væri ekki sinnt sem skyldi og hins vegar vegna stöðu E og félagslegra vandamála C. Lauk könnun nefndarinnar án þess að talin væri ástæða til sértækra aðgerða.

Af öðrum gögnum, sem rétt þykir að nefna, er lofsamleg umsögn frá Leik­skólanum [...] 21. nóvember 2004 um B og jákvæð og góð samskipti starfs­fólks við gagnstefnanda, sem talinn er hafa sinnt umönnun og aðbúnaði snáðans vel í hvívetna.

Þá liggja fyrir tvær umsagnir frá Leikskólanum [...]. Í þeirri fyrri frá 12. september 2005 kemur fram að B hafi þá nýlega verið byrjaður í skólanum og því erfitt að meta stöðu hans. Drengurinn sýni þó ekki merki vanlíðanar eða vanrækslu. Aðlögun hafi gengið vel og samskipti við aðalstefnanda verið afar góð. Seinni umsögn er einnig dagsett „12. september 2005“, en fyrir liggur að rétt dag­­setning sé 12. desember 2005. Segir þar, sem fyrr, að samskipti við aðalstefnanda séu góð og aðbúnaður drengsins sömuleiðis. Líðan hans sé almennt góð í leik­skólanum, en þó sýni hann oft neikvæða hegðun og gráti til dæmis ef hann þarf að hlýða fyrirmælum eða gera eitthvað, sem honum er á móti skapi.

Aðilar eru hvor um sig sannfærðir um að það þjóni bestu hagsmunum B að hann búi hjá þeim. Auk þess að gagnrýna uppeldisaðferðir gagnstefnanda tiltekur aðalstefnandi í stefnu, að hún telji gagnaðila vart forsjárhæfan vegna ójafn­vægis á geðsmunum. Þá sé óskiljanleg sú einhliða ákvörðun hans að rífa drenginn upp úr umhverfi, sem hann þekkti og leið vel í, til þess að flytja [...] í nýtt og framandi umhverfi, fjarri öðrum fjölskyldumeðlimum. Jafnframt bendir aðal­stefnandi á að hún hafi verið aðalumönnunaraðili drengsins frá fæðingu og geti búið honum gott uppeldi við stöðugar aðstæður í [...]. Gagnstefnandi teflir því fram á móti í greinargerð, að hann hafi tekið virkan þátt í umönnun sonar síns frá fæðingu og honum farist það vel úr hendi. Þeir feðgar séu og mjög samrýmdir. Gagn­stefnandi hafi á hinn bóginn efasemdir um forsjárhæfni aðalstefnanda. Um málsástæður aðila er annars fjallað í VII. kafla.

IV.

Í þágu meðferðar málsins var Ágústa Gunnarsdóttir sálfræðingur dómkvödd til að skoða og meta persónulega eiginleika og hagi hvors aðila um sig, tengsl þeirra við B og hæfi og hæfni þeirra sem uppalenda. Enn fremur var lagt fyrir sál­fræðinginn að leggja mat á hvernig best yrði hagað umgengnis­­­rétti drengsins og þess foreldris, sem ekki færi með forsjá hans, hvort tveggja með tilliti til þess hvað henti best högum og þörfum drengsins, sbr. 2. og 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Áður er frá því greint, að matsgerð Ágústu reyndist ófullnægjandi gagn til að unnt væri að leggja réttilega efnisdóm á málið. Voru aðilar og í reynd jafn óánægðir með fag­lega umfjöllun og niðurstöður matsgerðarinnar. Af matsgerðinni og vitnisburði sál­fræðingsins fyrir dómi má ráða, að matsmaður telur báða aðila jafn hæfa til að fara með forsjá drengsins og að hann sé tengdur þeim báðum jafn sterkum og jákvæðum tilfinningaböndum. Það skorti hins vegar verulega á að matsmaður gæti útskýrt í hverju kostir og gallar hvors aðila um sig fælust sem forsjárforeldrar og niðurstöður MMPI-2 persónuleikaprófs snerust um að draga fram og leggja áherslu á neikvæða eigin­leika í persónugerð beggja aðila. Var það álit dómenda að þær niður­stöður, eins og þær birtust í matsgerðinni og vætti sálfræðingsins um sömu atriði, gæfu tilefni til að draga í efa forsjárhæfi og hæfni beggja aðila. Var enda lítið byggt á matsgerðinni við endurflutning málsins 16. desember 2005.

Af framangreindum ástæðum kemur matsgerðin ekki til frekari skoðunar hér, en rétt þykir að benda á að matsmaður taldi það líklegast myndu þjóna hagsmunum B best, miðað við aldur snáðans og óbreytta búsetu aðila, að hann dveldi hjá hinu forsjárlausa foreldri einu sinni í mánuði, annað hvort frá fimmtu­degi til þriðju­dags eða viku í senn, auk rýmri samvista um stórhátíðar og að sumar­lagi.

V.

Sálfræðingarnir Ása Guðmundsdóttir og Gunnar Hrafn Birgisson luku yfirmati 2. desember 2005, en þeim hafði verið falið að endur­skoða undirmatsgerð að því er varðar mat á tilteknum eiginleikum aðila hvors um sig, þó ekki í sam­bandi við atvinnu­­­hagi og heimilisaðstæður og hagi sonarins í því tilliti, enda greinir aðila ekki á um slík atriði séu viðunandi hjá hvorum þeirra um sig. Þess í stað var yfir­matinu markaður sá farvegur, að matsmenn skyldu leggja með klíniskum viðtölum og sálfræði­legum prófunum mat á persónu­­lega eiginleika aðila, einkum þá sem mest reynir á í hlutverki forsjárforeldris, og benda þar bæði á styrk og veikleika. Fyrir utan mat á þroska, geðheilsu, jafnvægi og sjálfstjórn væri hér átt við þætti á borð við hæfni til að mynda þroskandi geðtengsl og skapa stöðugleika og öryggi í uppeldi sonarins. Enn fremur, að meta hæfni aðila til að lifa sig inn í kjör barna og átta sig á þörfum þeirra, vera örvandi, hvetjandi og leiðandi í afskiptum sínum, fyrirhyggjusamur og börnum góð fyrir­mynd.

Í niðurstöðum yfirmatsgerðar segir að báðir aðilar teljist eðli­lega þroskaðir og að hvorugur þeirra sýni merki um geðræna erfið­leika eða alvar­lega persónuleikabresti. Aðalstefnandi mælist með greind vel yfir meðallagi og felist vits­muna­­legir styrkleikar hennar í góðri almennri skynsemi og skerpu í rökhugsun, auk mjög góðs skilnings á aðstæðum og samhengi hluta. Gagnstefnandi mælist með greind í góðu meðallagi og felist vits­muna­­legir styrkleikar hans í skilningi og almennri skynsemi. Hjá hvorugum aðila hafi fundist sérstakir vitsmuna­legir veikleikar.

Þá benda yfirmatsmenn á að gagnstefnandi eigi sögu um langvinna árekstra í fjölskyldu sinni og hafi hann verið að reyna að skapa sér kyrrlátar aðstæður, meðal annars með því að flytja [...]. Hann hneigist að því að beita rök­legum aðferðum við úrlausnir vandamála, en virðist nokkuð skorta á tilfinningalegt innsæi. Þá hafi aðalstefnandi flutt nýlega [...] ásamt sambýlismanni. Vega­lengdin á milli heimilanna torveldi umgengni og hafi aðilar ólíkar hugmyndir um það hvernig umgengni skuli hagað.

Yfirmatsmenn telja báða aðila hæfa til að fara með forsjá sonarins, bera ábyrgð á honum og mæta tilfinningalegum og líkamlegum þörfum hans. Vísbendingar komi þó fram í viðtölum um að aðalstefnanda hætti til þess að vera of lin við drenginn, meðal annars af ótta við að hann hafni henni og halli sér meira að föður, en það sé henni erfitt að hugsa sér í ljósi yfirstandandi forsjárdeilu. Á hinn bóginn hafi komið fram vísbendingar um að gagnstefnanda hætti til þess að vera dómharður gagn­vart öðrum og mögulega gagnvart börnum, svo sem að segja þau löt ef þau fari ekki að vilja hans. Þá hætti honum til að vera gagnrýninn um of. Báðir aðilar eigi sér ýmis holl áhugamál, sem þeir geti miðlað börnum sínum, svo sem hreyfingu og útivist. Hvorugur aðila hafi átt við vandamál að stríða varðandi neyslu áfengis eða annarra vímuefna. Er það álit matsmanna að báðir aðilar virðast þannig um margt vera góðar fyrirmyndir. Báðir sýni vilja til að tryggja öryggi sonar síns og báðir hafi reynslu að barnauppeldi, sér í lagi aðalstefnandi. Hún hafi fyrir mannmörgu heimili að sjá, þar á meðal ofvirkum syni og dóttur, sem hætti til þung­lyndis. Því sé umhugsunarefni hve mikinn tíma hún muni geta haft fyrir B, en óneitanlega hafi sonurinn í staðinn meiri fjölbreytni og betra tækifæri hjá henni til að kynnast systkinum sínum heldur en hjá gagnstefnanda. Hann búi einn og virðist hafa góðan tíma og aðstöðu til að sinna drengnum.

Loks benda yfirmatsmenn á að aðilar hafi ólík viðhorf til barnauppeldis, þar sem gagnstefnandi virðist stífari og leggi meira upp úr stjórnun og ákveðnari reglum en aðalstefnandi, sem vilji frekar vera félagi barna sinna og sýna þeim skilning og umburðar­lyndi. Sökum þessa gæti henni hætt til að vera eftirgefanlegri en gagn­stefnandi og fara fremur en hann í vörn fyrir börnin. Það er engu síður álit matsmanna að báðir aðilar séu mörgum góðum kostum búnir. Þeim sé báðum mjög annt um B og sé ekkert sem bendi til annars en að þeir geti hvor um sig mætt þörfum hans og hugsað um hans hag.

VI.

Yfirmatsmenn staðfestu matsgerð sína fyrir dómi 16. desember 2005 og svöruðu spurningum dómenda og lögmanna. Áður höfðu aðilar og A sambýlis­maður aðalstefnanda gefið skýrslu fyrir dómi 13. október. Verður nú greint frá því helsta, sem fram kom og máli kann að skipta við úrlausn málsins.

Í máli aðalstefnanda og A kom fram að þau hefðu ákveðið að flytja [...] til að skapa börnunum betri uppeldisaðstæður og rólegra umhverfi. Fjöl­skyldan byggi nú í stærra og ódýrara húsnæði en þeim hefði staðið til boða á höfuð­borgarsvæðinu. Þá hefði A boðist ágæt staða á [...]sjúkrahúsinu. Að sögn aðal­stefnanda og A liði börnunum líka mun betur en áður, ekki síst B. Hann væri í leikskóla frá kl. 08 til 16, gengi þar vel og hefði aðlagast öllum aðstæðum fyrir [...]. Gott samband væri milli hans og hálfsystkinanna, C, 15 ára, D, 12 ára og E, 11 ára, en nánust væru þó tengsl B og E. Þá kom fram að A ætti þrjú börn af hjónabandi, 3ja, 5 og 8 ára, sem væru búsett á [...], en lytu sameiginlegri forsjá foreldra sinna og kæmu í umgengni til A og aðalstefnanda aðra hverja helgi. Aðal­stefnandi kvað samband A og barna hennar vera mjög innilegt og kallaði B hann nú „pabba“. Þeim bar saman um að fjölskyldan væri sam­hent og þá sjaldan að einhver vandamál kæmu upp, næði hún að ræða málin og leysa þau farsællega, ólíkt því sem aðalstefnandi hefði reynt í sambúðinni með gagnstefnanda. A kvað börn aðalstefnanda vera þægileg og skemmtileg í samskiptum. Hann hefði náð að tengjast þeim vel og gæti sett þeim reglur og agamörk án þess að mæta andstöðu eða mótþróa frá eldri börnunum þremur. A kvað samskipti málsaðila vera ólíðandi og kvaðst vera reiðubúinn að leggja sitt af mörkum til að bæta samskiptin, drengsins vegna. Að sögn aðalstefnanda hefðu hún og A engin áform um að flytja frá [...] í náinni framtíð. Hún kvaðst ráðgera að fá sér vinnu sem einkaþjálfari þegar um hægðist og einnig hefði hún hug á að ljúka stúdentsprófi frá öldungadeild [...]. Hún myndi þó hvorki láta vinnu né nám ganga fyrir fjölskyldunni og tíma hennar með börnunum. Aðalstefnandi kvað fjölskyldu sína og bestu vini vera búsetta á höfuðborgarsvæðinu, en foreldrar A byggju í [...] og systir hans á [...]. Aðalstefnandi kvaðst vilja að gagn­stefnandi hefði sem mesta umgengni við B og sagðist myndu stuðla að því, ef hún fengi forsjá drengsins. Á hinn bóginn óttaðist hún að hann myndi tálma umgengis­rétti hennar og sonarins, fengi hann dæmda forsjána. Hún gæti ekki hugsað sér slíka niðurstöðu, enda hefði hún verið aðalumönnunaraðili B frá fæðingu og væri miðpunktur í lífi drengsins. Hún væri ávallt til staðar fyrir hann og elski hann meira en allt annað.

Í máli gagnstefnanda kom fram að hann byggi einn í rúmgóðri íbúð og með ágæta aðstöðu fyrir B. Hann kvað 13 ára son sinn, F, koma í heimsókn og dvelja nokkra daga í senn fyrir [...], en pilturinn lyti sameigin­legri forsjá hans og móður sinnar. Gagnstefnandi kvaðst ekki hafa í hyggju að flytja frá [...] ef hann fengi forsjá þess stutta, enda liði feðgunum afar vel í fallegri og barnvænni náttúrunni. Hann kvaðst hafa kynnst ágætu fólki [...] og tæki nú virkari þátt í félagslífi en áður. Þá væri öll aðstaða fyrir börn með besta móti; góður leikskóli og frábær sundlaug. Gagnstefnandi kvaðst hafa haft þessi atriði í huga þegar hann hefði tekið ákvörðun í upphafi um að flytja [...] með B. Það hefði verið gert að vel ígrunduðu máli. Félli dómur á hinn bóginn aðalstefnanda í vil kvaðst gagn­stefnandi verða að íhuga vel hvort hann flytti ekki nær syni sínum. Drengurinn þurfi á honum að halda og sé stór hluti af lífi gagnstefnanda. Hann kvaðst vera sammála aðalstefnanda og A um að B hefði tekið miklum fram­förum í mál­þroska undanfarna mánuði, en drengurinn hefði verið á eftir jafnöldrum sínum að þessu leyti. Óháð þeirri staðreynd kvaðst gagnstefnandi ekki treysta aðalstefnanda fyrir forsjá sonarins. Hún væri í senn of upptekin af sjálfri sér og sambandinu við A og hefði nóg á sinni könnu með uppeldi þriggja eldri barna sinna, ekki síst C og E. Þá hefði aðalstefnandi reynt að útiloka samskipti feðganna, tálmað umgengni og ekki leyft gagnstefnanda að fylgjast með daglegu lífi sonarins. Til dæmis hefðu mæðginin lent í árekstri og hún ekki látið gagnstefnanda vita. Gagnstefnandi kvaðst ekki eiga neina ættingja fyrir [...], en hann væri nú í ágætu sambandi við móður sína og tvö hálfsystkini, sem byggju á höfuðborgarsvæðinu. Óháð dómsniðurstöðu um forsjá B lýsti gagnstefnandi vilja sínum til að semja við aðalstefnanda um fyrirkomulag umgengisréttar, þar sem tekið væri tillit til óska aðila og hagsmuna drengsins. Í því fælist að snáðinn færi mánaðarlega til hins forsjár­lausa foreldris og dveldi þar að lágmarki í fimm daga og allt að eina viku hverju sinni. Slíkt fyrirkomulag yrði síðan að endurskoða þegar drengurinn byrjaði í grunnskóla.

Gunnar Hrafn Birgisson bar fyrir dómi að málsaðilar væru um margt ólíkir einstaklingar og hefðu mismunandi sýn á foreldrahlutverk, en báðum væri treystandi fyrir forsjá B. Á meðan aðilar hefðu verið í sambúð virtist sem aðal­stefnanda hefði skort á innsæi í vandamál C elstu dóttur sinnar og sonarins E, annars vegar tengd þunglyndi stúlkunnar og hins vegar ofvirkni piltsins. Gagn­stefnandi virtist þar hafa tekið meiri ábyrgð og fremur reynt að vernda stúlkuna gagn­vart félags­legum vanda­­­málum. Í sambúðinni með A virtist aðal­stefnandi á hinn bóginn eiga auð­veldara með að samþykkja þátttöku hans og stjórnun í uppeldi barnanna. Yfir­mats­­maður gat þess einnig að aðalstefnandi væri í eðli sínu hvatvísari en gagn­stefnandi og fljótari til ákvarðanatöku, en virtist ekki alveg sjá fyrir um afleiðingar þessa. Hún hefði fljót­lega hafið nýja sambúð með A eftir sam­vistar­slit við gagn­stefnanda, flutt til [...] og hefði þar fyrir mann­mörgu heimili að sjá. Í þessu ferli hefði hún ef til vill ekki hugsað nægilega vel um hagsmuni B. Gagn­­stefnandi virtist á hinn bóginn vera varfærnari í ákvarðanatöku og ábyrgari gagn­vart syninum að því leyti, að þótt hann sé nú í sambandi við aðra konu virðast þau ekki vera að flýta sér að stofna til sambúðar og blanda ekki börnum sínum inn í sambandið á meðan þau eru sjálf að kynnast betur. 

Matsmaður kvað börn á aldur við B þurfa skýr mörk í uppeldi sínu, en fengju þau að taka stjórnina myndi það leiða til vandamála síðar meir. Barnið verði að geta treyst á leiðsögn foreldra og fá skýr skilaboð um hvað megi og hvað ekki. Ella leiði það til óöryggis í fari barnsins, sem fari að leita að því hvar mörkin liggi í hegðun þess. Taldi matsmaður að nokkuð skorti á þessi atriði hjá aðalstefnanda og að hún ætti, óháð yfirstandandi forsjárdeilu, erfitt með að setja B skýr mörk. Hann kvað umsögn Leikskólans [...] 12. desember 2005 um nei­kvæða hegðun og hlýðnivandamál drengsins geta verið vísbendingu um slíkt marka­­­­leysi. Gagnstefnandi ætti á hinn bóginn ekki í neinum vand­ræðum með að setja stráknum skýr mörk og gæfi honum einfaldar og skýrar leið­beiningar í upp­eldinu.

Aðspurður um eigin sýn á framtíð B, annars vegar búsettum hjá aðalstefnanda og hins vegar hjá gagnstefnanda, kvaðst mats­maðurinn ekki sjá annað en að gagnstefnandi væri í góðum og djúpum tilfinninga­legum tengslum við soninn og vel fær um að koma til móts við þarfir hans. Gagn­stefnandi hefði mun meiri tíma fyrir drenginn og gæti veitt honum meiri athygli í rólegu umhverfi á [...]. Líklega myndi snáðinn því finna til meira öryggis í upp­eldi sínu við þær aðstæður sem gagnstefnandi geti boðið upp á. Búseta sonarins hjá aðalstefnanda gæfi tilefni til meiri óvissu og taldi matsmaður svolítið hætt við því að drengurinn gæti orðið útundan ef hún ætlaði að sinna öllum börnunum eins og þyrfti. Elsta dóttirin og sonurinn E ættu við alvarleg vandamál að stríða, sem krefðust virkilegrar athygli og ábyrgðar sem erfitt væri að axla, þótt aðal­stefnandi væri öll af vilja gerð í því sam­bandi og vilji mæta þörfum allra barnanna af kost­gæfni. Sökum þessa sé hætt við því að ekki verði haldið nægilega vel utan um uppeldi B innan fjöl­skyldunnar á [...] og að svolítið geti skort á festu í uppeldinu vegna þess að hinir fullorðnu hafi ekki nægilegan tíma fyrir drenginn.

Yfirmats­maðurinn kvað aðila hafa ólíka sýn á umgengnisrétt sonarins við hið forsjár­lausa foreldri í kjöl­far dóms í málinu. Aðalstefnanda fyndist að það foreldri ætti að bera hitann og þungann af því að rækja umgengni við drenginn og bera allan kostnað í því sambandi. Gagnstefnandi hefði á hinn bóginn viðrað þá hugmynd að hann myndi annast kostnað af ferðum snáðans milli [...] og Reykjavíkur og aðal­­stefnandi milli [...] og Reykjavíkur. Taldi matsmaður þá afstöðu vera raun­­hæfari miðað við búsetu aðila og með tilliti til þeirra hags­­muna sonarins að geta notið umgengisréttarins. Kvaðst matsmaður vart geta séð fyrir sér hvernig umgengni gæti gengið án slíks samstarfs aðila og skiptingu kostnaðar. Aðspurður kvaðst hann telja að aðalstefnandi hefði til þessa ekki komið fram með nægilega ábyrgum hætti varðandi umgengnisrétt sonarins við gagnstefnanda og hún ekki haft þær þarfir barnsins nægi­lega vel í huga. Það væri álit matsmanns að afstaða gagnstefnanda til umgengnisréttar barnsins væri að þessu leyti ábyrgari og að hann virtist vera reiðubúinn að leggja meira á sig til að tryggja rétt sonarins til samvista við báða foreldra sína. Taldi mats­maður þetta atriði eiga að vega þungt við ákvörðun forsjár, sem og það, að drengurinn virtist njóta meiri stuðnings við þær aðstæður sem gagnstefnandi hefði upp á að bjóða. Matsmaður taldi minna máli skipta að tryggja snáðanum að alast upp með hálf­systkinum sínum, enda væri verulegur aldursmunur á honum og þeim og því ekki þau jafningjatengsl, sem annars gætu skipt meira máli.

Ása Guðmundsdóttir bar fyrir dómi að báðum aðilum væri treystandi fyrir forsjá B, þótt um ólíka einstaklinga væri að ræða, sem hefðu afar mis­munandi afstöðu til uppeldis barna. Aðalstefnandi virtist eiga mun erfiðara með að setja drengnum mörk, eins og hún hefði sjálf borið um og sagst óttast það ella að snáðinn myndi fremur halla sér að föður, sem léti allt eftir honum. Hún hefði orðað þetta svo að drengurinn væri af þeim sökum „húsbóndinn á heimilinu“. Matsmaður sagði hins vegar ekkert hafa komið fram í viðtali eða prófunum, sem benti til annars en að aðalstefnandi væri fullfær um að setja stráknum nauðsynleg mörk og taldi ef til vill mega skrifa markaleysi í uppeldi snáðans hjá móður á stöðuna í forsjárdeilunni. Gagnstefnandi virtist á hinn bóginn vera stífari í eðli sínu og samskiptum við aðra, svo sem birst hefði í því að hann hefði sakað aðalstefnanda um of mikla linkind í upp­eldi barna sinna á meðan hún hefði sakað hann um of mikla hörku. Á hinn bóginn virtust aðilar hafa verið samtaka og samstíga í uppeldi sonar síns á meðan þau voru í sambúð, en eftir slit hennar virtist hvorugur þeirra hafa hugað nægilega vel að því að hafa hagsmuni drengsins í fyrirrúmi. Fyrst hefði gagnstefnandi flutt með snáðann á [...] og síðan hefði aðalstefnandi flutt með hann á [...], þannig að fjarlægð milli heimilanna tveggja geti nú vart verið meiri miðað við búsetu beggja aðila hér á landi. Sökum þessa hefðu öll samskipti aðila farið í harðan hnút, þar sem stífleiki virtist ráða ferðinni í staðinn fyrir liðlegheit, til dæmis varðandi skiptingu kostnaðar vegna ferða barnsins á milli heimilanna. Að sögn matsmanns hefðu aðilar viðrað sambærilegar hugmyndir varðandi umgengnisrétt hvors annars og barnsins í kjöl­far dóms, en gagnstefnandi viljað að þau skiptu ferðakostnaði á milli sín á meðan aðal­stefnandi hefði verið stífari og viljað að faðir greiddi slíkan kostnað einn. Taldi mats­maður afstöðu gagnstefnanda skynsamlegri að þessu leyti og í samræmi við það sem telja verði almenna sanngirni í stöðu sem þessari. Matsmaður kvaðst þó telja báða aðila munu rækja umgengnisrétt barnsins þegar búið væri að ganga formlega frá þeirri hlið málsins.

Fram kom hjá yfirmatsmanni að aðalstefnandi virtist treysta mjög á A sam­býlis­manns sinn í uppeldi barnanna, hún talaði afar lofsamlega um hann og sagði hann vera frábæran með börnin í alla staði. Börnunum liði því öllum mun betur nú en áður. Matsmaður bar að aðalstefnandi væri fljót til ákvarðanatöku og virtist óhrædd við að taka áhættur, svo sem sjá mætti af ákvörðun um að stofna til nýrrar sambúðar og flutningi fjölskyldunnar [...]. Hún virtist og gera lítið úr áhyggjum af stöðu elstu dóttur sinnar og sonarins E og hvernig umönnun þeirra hefði áhrif á tíma fyrir uppeldi B. Matsmaður taldi þetta þó vera flókið mynstur fyrir þann stutta, sem og rótið sem skapaðist af ferðum hans milli [...] og [...].                

Aðspurð um eigin sýn á framtíð B, annars vegar búsettum hjá aðalstefnanda og hins vegar hjá gagnstefnanda, bar mats­maðurinn að drengurinn virtist vera í mjög góðu sambandi við aðalstefnanda og alla vega sum hálfsystkina sinna. Þá væri það kostur að hann byggi nú hjá því heimilisfólki sem hann hefði alla tíð alist upp hjá, að frátöldum föður. Veiku hliðarnar á núverandi búsetu fælust á hinn bóginn í óvissunni um hvernig sambúð aðalstefnanda og A reiddi af í framtíðinni og hvort samband þeirra stæðist álagið sem fylgdi uppeldi svo margra barna. Hætt væri við samkeppni um athygli innan fjölskyldunnar og þar virtist B hafa skapað sér ákveðna húsbóndastöðu. Hjá gagnstefnanda virtist viðhorf til barnaupp­eldis vera ólíkt, en hjá honum fengi B skýran ramma og öryggi, sem börnum á hans aldri væri nauðsynlegt. Gagnstefnandi byggi nú einn og hefði því nægan tíma til að sinna þörfum drengsins, en á móti kæmi að hann væri í nýlegu sambandi við konu, sem ætti barn og því fylgdi ákveðin óvissa um þróun mála. Matsmaður kvaðst ekki treysta sér til að meta hvorum aðila snáðinn væri tengdari, en gat þess að aðilar hefðu sjálfir virst telja hann tengdan þeim báðum sterkum og jákvæðum tilfinningaböndum og hefðu að því leyti verið jákvæð í umsögn hvort um annað.

VII.

Málsaðilar styðja kröfugerð sína að því leyti á sama grunni að þeir telja hags­munum B augsýnilega best borgið með því að þeim verði dæmd forsjá hans, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003. Báðir telja sig vera hæfara foreldri og betur í stakk búið til að koma til móts við líkamlegar og andlegar þarfir drengsins. Aðal­stefnandi bendir á að snáðinn hafi búið hjá henni meirihluta sinnar stuttu ævi og að hún hafi ávallt borið hitann og þungann af daglegri umönnun og uppeldi hans, ekki síst eftir úrskurð héraðsdóms 17. nóvember 2004. Hún bendir á mikilvægi þess að drengurinn fái að alast áfram upp með systkinum sínum, að hún hafi meiri reynslu af barnauppeldi en gagnstefnandi og betri innsýn í tilfinningalíf og dag­legar þarfir sonar þeirra. Gagnstefnandi eigi sér á hinn bóginn langa sögu um árekstra í samskiptum við sína nánustu og fólk almennt, sem rýri forsjárhæfi hans. Þá sé hann dómharður og kröfu­harður í eðli sínu og sé ekkert fram komið sem bendi til annars en að slíkt geti bitnað á syninum. Aðal­stefnandi bendir og á að hún sé heima­vinnandi og hafi því góðan tíma til að sinna drengnum. Hún sé í sambúð með ágætum manni, í góðri stöðu, sem hafi reynst börnum hennar vel. Fjölskylda sambýlismannsins búi fyrir [...] og því hafi þau stuðningsnet til staðar, ólíkt því sem gildi um gagnstefnanda. Gagn­stefnandi byggir hins vegar á því að hann hafi tekið fullan þátt í uppeldi barna aðal­­stefnanda og sinnt umönnun B að minnsta kosti til jafns við hana fram að dómsúrskurðinum 17. nóvember 2004. Hann bendir og á að þau rök, sem dóms­niðurstaðan hafi þó byggst á, séu nú að engu orðin eftir að aðal­stefnandi flutti til [...] og því mæli ekkert með því að forsjáin verði dæmd henni. Þá byggir gagn­stefnandi á því að hann hafi mun meiri tíma til að sinna þörfum drengsins og bæði geti og vilji helga sig uppeldi hans, á meðan aðalstefnandi sé einkar sjálfmiðuð, upptekin um of af sambandi sínu við sam­býlis­­mann sinn og hafi lítinn tíma til að sinna syninum. Einnig sé gagnstefnandi mun betur í stakk búinn til að veita drengnum það öryggi og stöðugleika í uppeldi sínu, sem börnum á hans aldri sé nauð­syn­legt. Báðir aðilar vísa til þess að húsnæðisaðstæður þeirra séu góðar með tilliti til barna­uppeldis og að þeir búi í rólegu og barnvænu umhverfi. Þeir telja hvor um sig að þeir séu lík­legri en hinn til að virða gagnkvæman umgengnisrétt forsjárlauss foreldris og barnsins í kjölfar dóms í málinu og mótmæla öllum máls­­ástæðum hvors annars sem röngum að því leyti sem hallar á forsjárhæfi þeirra hvors um sig.

VIII.

Samkvæmt 2. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003 ber dómara að kveða á um hjá hvoru foreldra forsjá barns verði, eftir því sem barni er fyrir bestu. Við mat á því er að finna leiðbeiningar í athugasemdum er fylgdu frumvarpi til téðrar laga­greinar á sínum tíma, en þar eru talin upp í ellefu liðum eftirfarandi atriði eða sjónarmið, sem einkum ber að horfa til við ákvörðun forsjár: 1. Tengsl barns við hvort foreldri um sig. 2. Dagleg umönnun og umsjá. 3. Persónulegir eiginleikar og hagir hvors foreldris um sig og svo barnsins. 4. Óskir barns. 5. Kyn og aldur. 6. Systkinahópur. 7. Húsnæðis­mál. 8. Liðsinni vandamanna hvors um sig, þar á meðal nágrenni foreldra og áhrif nýs maka eða sambúðaraðila. 9. Breyting á umhverfi. 10. Umgengni barns og forsjár­lauss foreldris. 11. Sök foreldra á samvistarslitum og ólögmæt sjálftaka barns.

Þá er það nýmæli í 3. mgr. 34. gr. barnalaga, að við úrlausn forsjármála skuli meðal annars líta til þess hvort foreldri, sem krefst forsjár barns síns, hafi verið tálmuð umgengni við barnið, en með téðri lagagrein er stefnt að því að sjónarmiðum að baki 10. lið að ofan verði veitt meira vægi en áður við ákvörðun forsjár.

Í því máli sem hér er til meðferðar deila aðilar um forsjá sonarins B, sem fæddur er [...] 2003 og því tæpra þriggja ára. Við mat á því hvort þjóni betur hagsmunum drengsins að búa áfram hjá aðalstefnanda eða flytja til gagn­stefnanda ber fyrst og fremst að líta til þeirra sjónarmiða, sem talin eru upp í 1.-3., 6. og 8.-10. lið að ofan. Atriði, sem lúta að óskum barns, kyni og aldri eða sök og ólögmætri sjálftöku eiga ekki við í málinu. Þá veltur niðurstaða ekki á húsnæðis­málum aðila, en fyrir liggur að báðir geta boðið syninum upp á viðunandi aðstæður að þessu leyti og skiptir því ekki sköpum hvort um eignar- eða leiguhúsnæði sé að ræða.

Af frásögn aðila sjálfra, niðurstöðum matsgerða og vitnisburði mats­manna telur dómurinn ekki verða ráðið að snáðinn sé tengdari öðru foreldra framar hinu, en hann virðist tengdur þeim báðum sterkum og jákvæðum tilfinninga­böndum. Umrætt atriði mun því ekki eitt og sér ráða úrslitum þessa máls.

Leggja verður til grundvallar að aðilar hafi sinnt umönnun og uppeldi sonarins nokkurn vegin að jöfnu fram að sambúðarslitum þeirra í júní 2004 og að frá þeim tíma hafi ekki orðið veruleg breyting á umsjá snáðans fyrr en 17. nóvember sama ár þegar dómari ákvað að lögheimili hans skyldi færast til aðal­stefnanda. Á þeim rúmu fjórtán mánuðum, sem síðan eru liðnir, er óumdeilanlegt að aðal­stefnandi hefur borið hitann og þungann af umönnun drengsins og notið á þeim tíma liðsinnis A sambýlismanns síns. Er því ljóst að hér hallar á gagn­stefnanda, en á móti kemur að bæði matsmaður og yfirmatsmenn telja hann, líkt og aðal­stefnanda, vel hæfan til að annast um drenginn og mæta líkamlegum og andlegum þörfum hans.

Eins og ráða má af yfirmatsgerð og vætti yfirmatsmanna hafa aðilar ólíka persónugerð og hafa valið ólíkar aðferðir og áherslur í uppeldi sonarins. Báðir aðilar eru eðlilega þroskaðir einstaklingar, búa við gott heilsufar, andlega og líkamlega og eru lausir við vímuefnavandamál. Aðalstefnandi er sem stendur heimavinnandi, en hefur drenginn þó á leikskóla allan daginn, en gagnstefnandi vinnur fastan vinnudag. Er að því leyti líkt á komið með aðilum að drengurinn nýtur eða myndi njóta svipaðra sam­vista við hvort foreldra um sig, en fyrir liggur að gagnstefnandi nýtur skilnings vinnu­­veitanda og hefur sýnt í verki að hann er reiðubúinn að hliðra til vinnu til að geta verið með syninum. Meðal kosta við að snáðinn búi hjá föður er það sam­dóma álit yfir­mats­manna að hann setji drengnum skýrari mörk, sé fær um að veita honum meiri stöðugleika og öryggi í uppeldinu og hafi meiri tíma en aðalstefnandi til að gefa sig óskiptan að drengnum. Á móti kemur sá kostur við búsetu hjá aðal­stefnanda að drengurinn er þar samvistum við fleiri fjölskyldumeðlimi, þar á meðal hálfsystkini sín, sem hann hefur alist upp með frá fæðingu. Þá virðist aðalstefnandi njóta góðs af sambýlismanni sínum, sem kemur dómendum fyrir sjónir sem heil­steyptur og skyn­samur einstaklingur og prýðilegur stjúpfaðir. Vegna aldurs B er óhægt um vik að ráða í styrkleika tengsla hans og systkinanna á [...], en dómurinn tekur undir þau orð annars tveggja yfir­mats­manna að í ljósi tölu­­verðs aldursmunar skipti minna máli en ella að tryggja snáðanum að alast upp í systkina­hópi.

Ekkert er fram komið í málinu, sem bendir til annars en að B búi yfir ágætri aðlögunarhæfni og líði vel hvort heldur í samvistum við föður eða móður. Nýtur og engra upplýsinga um að hann hafi átt erfitt uppdráttar þegar hann hefur farið í umgengni til gagnstefnanda, hvort heldur meðan á dvöl stendur né þegar hann hefur snúið til baka. Virðist breyting á umhverfi barnsins því ekki mega ráða úrslitum ein og sér þegar niðurstaða er ráðin í málinu.

Líkt er komið á með aðilum að því leyti að hvorugur þeirra býr í nágrenni við foreldra, systkini eða aðra nána vandamenn. Gagnstefnandi kaus að flytja á [...], fjarri sínum ættingjum og aðalstefnandi tók sama pól í hæðina þegar hún flutti til [...]. Á móti kemur einhver stuðningur, sem hún getur væntanlega notið frá fjölskyldu sambýlismanns síns, sem þó býr ekki á [...]. Að þessu virtu telur dómurinn að ekki megi leggja of mikið upp úr samanburði á liðsinni vandamanna þegar ákvörðun er tekin um forsjá B.

Að síðustu kemur til álita hvor aðila sé líklegri til að standa vörð um rétt og þörf sonarins til að viðhalda tengslum og eðlilegri umgengni við það foreldra sinna, sem ekki fær forsjána dæmda. Báðir aðilar hafa lýst yfir vilja til að tryggja þann rétt barnsins, en afstaða þeirra er ólík til þess hvor þeirra eigi að standa straum af þeim mikla kostnaði, sem óneitanlega fylgir umgengni þar sem foreldrar búa á sitt hvoru lands­horni. Fái aðalstefnandi forsjána telur hún nú rétt að drengurinn fari til föður síns á fjögurra vikna fresti og dvelji hjá honum allt að viku í senn. Gagnstefnandi greiði þá þann kostnað, sem því sé samfara. Falli dómur á hinn veginn segist hún munu sjálf bera þann kostnað, sem því fylgir að rækja umgengni við snáðann og virðist þá samkvæmt yfirmatsgerð vilja hafa drenginn hjá sér eina viku í hverjum mánuði. Hefur afstaða aðalstefnanda til fyrirkomulags umgengninnar þó eitthvað verið á reiki, þar sem í skriflegum tillögum hennar að umgengni föður og sonar frá því 13. október 2005 er lagt til að strákurinn fari til gagnstefnanda á fjögurra til sex vikna fresti og dvelji honum í 4-7 daga í senn. Gagnstefnandi hefur á hinn bóginn verið ákveðnari í þeirri afstöðu sinni að hagsmunum drengsins sé best borgið varðandi umgengni með því að hann fari til forsjárlauss foreldris einu sinni í mánuði og dvelji hjá því í 5-7 daga í senn. Hann kveðst og vera reiðubúinn að deila kostnaði sem því fylgir, óháð því hvor aðila beri sigur úr býtum í forsjárdeilunni. Telja dómendur afstöðu gagn­stefnanda til umgengnisréttar skynsamari en aðalstefnanda og betur til þess fallna að tryggja eðlilega umgengni sonarins við hið forsjárlausa foreldri. Á móti verði að ætla að báðir aðilar muni virða niðurstöðu dómsins að þessu leyti og fara eftir fyrirmælum hans um inntak og fyrirkomulag umgengninnar.

Þegar framangreind atriði eru virt heildstætt og sérstaklega er til þess litið, að B hefur nú búið samfleytt hjá aðalstefnanda í rúma fjórtán mánuði, að hann býr með þremur hálfsystkinum sínum, sem hann hefur alist upp með frá fæðingu, að óvarlegt þykir að rjúfa þau tengsl, sem gera má ráð fyrir að eflist á komandi árum, að snáðinn virðist hafa tengst A sambýlismanni aðalstefnanda jákvæðum böndum, að A virðist hafa haft jákvæð áhrif á uppeldi drengsins og kunni að setja honum mörk, að aðalstefnandi virðist hafa sveigjanlegri skapgerð en gagn­stefnandi og meira innsæi og betri skilning á þörfum barna almennt, að hnokkinn hefur óneitanlega stuðning af systkinum sínum fyrir [...] og loks þess, að þar getur hann notið stuðnings vandamanna A, telur dómurinn að það sé drengnum fyrir bestu, í núverandi stöðu, að búa óbreytt hjá aðalstefnanda, sbr. 2. mgr. 34. gr. barnalaga. Því dæmist henni forsjá barnsins.

IX.

Með hliðsjón af matsgerð Ágústu Gunnarsdóttur og áliti matsmanns fyrir dómi um það hvernig inntaki og fyrirkomulagi umgengni verði best háttað, sem samrýmist vilja og hugmyndum gagnstefnanda og einnig að nokkru hugmyndum aðalstefnanda, eins og þær birtust í yfirmatsgerð, telja dómendur að A sé fyrir bestu að dvelja hjá við föður sínum á [...] einu sinni í mánuði og njóta þá samvista við hann eina viku í senn, sbr. 4. mgr. 34. gr. barnalaga. Því til samræmis er ákveðið að drengurinn fari til gagnstefnanda í umgengni fyrsta föstudag hvers mánaðar og skili sér til aðalstefnanda viku síðar á föstudegi; í fyrsta skipti föstudaginn 3. febrúar 2006.

Önnur umgengni gagnstefnanda við drenginn skal vera þannig að snáðinn dvelji hjá honum ár hvert fimm daga í kringum páska og eina viku um hver áramót. Beri umgengni um páska upp á sama tíma og reglulega umgengni víkur sú umgengni fyrir páskaumgengni, en ella skal þar vera um viðbótar­umgengni að ræða.

Loks skal drengurinn dvelja hjá gagnstefnanda fimm vikur að sumri samkvæmt nánara samkomulagi aðila, sem þeim ber að ná eigi síðar en 1. maí ár hvert. Á meðan víkur regluleg umgengni samkvæmt áðursögðu. 

Framangreind niðurstaða dómsins um umgengni er ráðin miðað við óbreytta búsetu aðila og liggur í hlutarins eðli að hana þarf að endurskoða þegar B hefur skólagöngu í grunnskóla. Lagaheimild skortir til að dómendur geti skyldað aðal­stefnanda til að taka þátt í kostnaði, sem því fylgir að rækja umgengnina, en skylda hennar stendur þó óbreytt að grípa til þeirra ráðstafana, sem við verður komið til að tryggja að þessi réttur drengsins verði virtur. Er í þessu sambandi tekið undir það álit yfirmatsmanna að rétt sé og eðlilegt að aðilar skipti nefndum kostnaði á milli sín. Verði vanhöld á þessu af hálfu aðalstefnanda er gagnstefnanda tækur sá kostur að skjóta ágreiningi um þetta atriði til úrskurðar sýslumanns samkvæmt 2. mgr. 46. gr., sbr. 1. mgr. 47. gr. barnalaga. 

X.

Með hliðsjón af niðurstöðu dómsins um forsjá B og með vísan til 4. mgr. 34. gr., sbr. 1. mgr. 53. gr. og 54. gr. barnalaga, ber að dæma gagnstefnanda til að greiða meðlag með drengnum í samræmi við kröfu aðal­stefnanda þar að lútandi. Skal gagnstefnandi því greiða einfalt meðlag með syni sínum frá dómsuppsögu að telja til fullnaðs 18 ára aldurs drengsins, eins og það er ákveðið á hverjum tíma af Tryggingastofnun ríkisins, sbr. 2. mgr. 55. gr. barnalaga.

XI.

Samkvæmt 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála skal sá er tapar máli í öllu verulegu að jafnaði dæmdur til að greiða gagnaðila sínum máls­kostnað. Frá þessu má víkja ef veruleg vafaatriði eru í máli eða ef aðili vinnur mál að nokkru og tapar því að nokkru eða ef þeim sem tapar máli hvorki var né mátti vera kunnugt um þau atvik sem réðu úrslitum fyrr en eftir að mál var höfðað, sbr. 3. mgr. 130. gr. Má þá dæma annan aðilann til að greiða hluta málskostnaðar hins eða láta hvorn þeirra bera sinn kostnað af málinu. Þrátt fyrir framangreind málsúrslit er það álit dómsins að svo sé statt fyrir málsaðilum, sem um ræðir í nefndri 3. mgr. Þykir því rétt að málskostnaður falli niður, að öðru leyti en því að gagnstefnandi verður dæmdur til að greiða aðalstefnanda helming útlagðs kostnaðar við öflun undirmatsgerðar með krónum 180.752.

Kostnaður af öflun yfirmatsgerðar, krónur 569.250, greiðist úr ríkissjóði sam­kvæmt 4. mgr. 42. gr. barnalaga og í samræmi við ákvörðun dómsins þar að lútandi í þinghaldi 26. október 2005. 

Dómurinn er kveðinn upp af Jónasi Jóhannssyni héraðs­dómara og Álfheiði Stein­þórs­dóttur og Þorgeiri Magnússyni sálfræðingum. Tók héraðsdómarinn við með­ferð málsins 6. júní 2005, en fram að þeim tíma hafði hann engin afskipti af meðferð þess. Dómsuppsaga hefur dregist vegna anna dómsformanns.

DÓMSORÐ:

Aðalstefnandi, K, fer með forsjá B, [...], sonar síns og gagnstefnanda, M.

Gagnstefnandi greiði einfalt meðlag með B frá dómsuppsögu til 18 ára aldurs drengsins.

Gagnstefnandi hefur umgengnisrétt við B, sem hér segir:

1. Drengurinn skal dvelja hjá gagnstefnanda einu sinni í mánuði og þá eina viku í senn, frá föstudegi til föstudags, ávallt fyrsta föstudag hvers mánaðar; í fyrsta skipti föstudaginn 3. febrúar 2006.

2. Drengurinn skal dvelja hjá gagnstefnanda um hverja páska, fimm daga í senn. Beri þá umgengni upp á sama tíma og reglulega umgengni samkvæmt 1. tölulið skal sú umgengni víkja, en ella skoðast umgengni um páska sem viðbótarumgengni.

3. Drengurinn skal dvelja hjá gagnstefnanda eina viku um hver áramót.

4. Drengurinn skal dvelja hjá gagnstefnanda fimm vikur að sumri samkvæmt nánara samkomulagi aðila hverju sinni fyrir 1. maí ár hvert. Á meðan víkur regluleg umgengni samkvæmt 1. tölulið. 

Málskostnaður fellur niður að öðru leyti en því að gagnstefnandi greiði aðal­stefnanda 180.752 krónur í kostnað vegna öflunar undirmatsgerðar.

Áfrýjun dóms frestar ekki réttaráhrifum hans.