Hæstiréttur íslands

Nr. 2021-85

KK 22 ehf. (Jón Magnússon lögmaður)
gegn
Viðari Marinóssyni og til réttargæslu TM hf. (Hjörleifur B. Kvaran lögmaður)

Lykilorð

  • Áfrýjunarleyfi
  • Fasteignasali
  • Fasteignakaup
  • Skaðabótaábyrgð
  • Orsakatengsl
  • Hafnað

Ákvörðun Hæstaréttar

1. Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Benedikt Bogason, Ingveldur Einarsdóttir og Sigurður Tómas Magnússon.

2. Með beiðni 11. mars 2021 leitar KK 22 ehf. leyfis Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 26. febrúar sama ár í málinu nr. 36/2020: KK 22 ehf. gegn Viðari Marinóssyni og til réttargæslu TM hf. á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Gagnaðilar leggjast gegn beiðninni.

3. Leyfisbeiðandi höfðaði mál þetta til heimtu skaðabóta að fjárhæð 14.568.315 krónur auk vaxta og dráttarvaxta vegna fjártjóns sem hann varð fyrir í tengslum við kaup á eignarhlut í fasteign við Lyngháls 10 í Reykjavík. Málavextir voru þeir að leyfisbeiðandi keypti umrædda fasteign af Burðarafli ehf. samkvæmt kaupsamningi 10. september 2015. Leyfisbeiðandi greiddi kaupverðið með annarri eign í sinni eigu, vatnsverksmiðju að Selhellu 5 í Hafnarfirði. Í kaupsamningnum kom fram að vanskil væru á ýmsum lögveðskröfum og veðláni á 1. veðrétti eignarinnar við Lyngháls. Burðarafl ehf. skuldbatt sig samkvæmt kaupsamningi til að greiða vanskilin upp og aflýsa veðskuldabréfi og tryggingarbréfi sem hvíldu á 2. og 3. veðrétti eignarinnar eigi síðar en 10. desember sama ár. Burðarafl ehf. vanefndi þá skyldu sína og þrátt fyrir áskoranir leyfisbeiðanda þess efnis hafði félagið ekki efnt hana er gengið var frá afsali 1. ágúst 2016. Í afsalinu var tilgreint að veðskuldabréfið og tryggingarbréfið á 2. og 3. veðrétti væru leyfisbeiðanda óviðkomandi og ætti Burðarafl ehf. að aflýsa þeim í samræmi við fyrrgreindan kaupsamning aðila. Bú Burðarafls ehf. var tekið til gjaldþrotaskipta 30. nóvember 2016 og fundust engar eignir í búinu.

4. Tjón leyfisbeiðanda er rakið til fyrrgreindrar vanefndar Burðarafls ehf. á kaupsamningnum og er fjárhæð kröfu hans óumdeild. Byggir leyfisbeiðandi á því að gagnaðilinn Viðar hafi valdið honum fyrrnefndu tjóni þar sem hann hafi ekki sinnt skyldum sínum sem löggiltur fasteignasali með viðunandi hætti þegar gengið var frá kaupunum. Ágreiningur aðila lýtur í verulegum atriðum að því hvort gagnaðilinn Viðar hafi komið að umræddum viðskiptum sem löggiltur fasteignasali við kaupin og hvort hann beri sem slíkur skaðabótaábyrgð á því fjártjóni sem leyfisbeiðandi telur sig hafa orðið fyrir vegna viðskiptanna eftir 27. gr. laga nr. 70/2015 um sölu fasteigna og skipa.

5. Landsréttur sýknaði gagnaðila af kröfum leyfisbeiðanda um skaðabætur. Í dóminum var talið að gagnaðilinn Viðar hefði komið fram sem fasteignasali við sölu eignarinnar og því borið skyldur samkvæmt lögum nr. 70/2015. Hins vegar yrði ráðið af gögnum málsins og framburði fyrirsvarsmanns leyfisbeiðanda fyrir héraðsdómi að honum hefði verið kunnugt um fjárhagserfiðleika Burðarafls ehf. og viðvarandi vanefndir félagsins á skyldum þess samkvæmt kaupsamningi í aðdraganda afsalsgerðarinnar. Var því talið að fyrirsvarsmanni leyfisbeiðanda hefði ekki getað dulist sú verulega áhætta sem hefði falist í því að ganga engu að síður frá afsalinu. Eins og atvikum málsins var háttað taldi rétturinn að leggja yrði til grundvallar að viðvaranir frá gagnaðila Viðari, um þá áhættu, hefðu engu breytt þótt talið yrði að slík skylda hefði hvílt á honum. Landsréttur taldi því að tjón leyfisbeiðanda yrði ekki rakið til vanrækslu gagnaðilans Viðars á skyldum hans sem fasteignasali.

6. Leyfisbeiðandi telur að úrslit málsins hafi verulegt almennt gildi enda varði ágreiningur í málinu grundvallaratriði um skýringu og beitingu ákvæða um ábyrgð fasteignasala. Telur hann að dómur Landsréttar setji það fordæmi að fasteignasali geti ákveðið að ekki sé þörf á að ráðleggja kaupendum ef hann telji að huglæg afstaða kaupanda sé þannig að ráðgjöf hans skipti engu máli. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að úrslit málsins varði mikilvæga hagsmuni sína en hann hafi lent í alvarlegum greiðsluerfiðleikum í kjölfar þess að hann sat uppi með vanefndir Burðarafls ehf. Að lokum telur leyfisbeiðandi að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur. Vísar hann til þess að í dóminum hafi verið horft fram hjá skyldum gagnaðilans Viðars sem fasteignasala og öll ábyrgðin sett á leyfisbeiðanda. Þá telur leyfisbeiðandi að niðurstaða Landsréttar sé ósamrýmanleg þeim sjónarmiðum sem fram komi í dómum Hæstaréttar 7. nóvember 2013 í máli nr. 302/2013 og 7. desember 2000 í máli nr. 284/2000.

7. Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi umfram dómsúrlausnir sem áður hafa gengið né að það varði sérstaklega mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til eða formi, sbr. 4. málslið sömu málsgreinar. Beiðni um áfrýjunarleyfi er því hafnað.