Hæstiréttur íslands
Mál nr. 428/2002
Lykilorð
- Kærumál
- Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991
|
|
Mánudaginn 16. september 2002. |
|
Nr. 428/2002. |
Lögreglustjórinn í Reykjavík(Egill Stephensen saksóknari) gegn X (Sigurður Kári Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Gæsluvarðhald. C. liður 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991.
Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X skyldi sæta gæsluvarðhaldi á grundvelli c. liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.
Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 12. september 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 13. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. september 2002, þar sem varnaraðila var gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi allt til miðvikudagsins 2. október nk. Kæruheimild er í 1. mgr. 142. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála. Varnaraðili krefst þess aðallega að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi, en til vara að gæsluvarðhaldinu verði markaður skemmri tími. Þá krefst hann kærumálskostnaðar.
Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði staðfestur.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Kærumálskostnaður verður ekki dæmdur.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 10. september 2002.
Lögreglustjórinn í Reykjavík hefur krafist þess að ákærða X verði á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála gert að sæta áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans í héraði en þó ekki lengur en til miðvikudagsins 2. október næstkomandi klukkan 16 vegna brota sem talin eru varða við 1. mgr. 155. gr., 247. gr., 248. gr. og 259. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, 73. gr. tékkalaga nr. 94/1933 og 44. gr. og 45 gr. umferðarlaga nr. 50/1987. Í kröfunni kemur fram að ákærði sæti nú gæsluvarðhaldi til klukkan 16 í dag á grundvelli c-liðar 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991 samkvæmt dómi Hæstaréttar Íslands uppkveðnum 26. ágúst síðastliðinn.
Ákærða var veitt reynslulausn af tæplega sex ára eftirstöðvum sautján ára fangelsisdóms í júní 2001. Með ákæru, dagsettri 10. maí síðastliðinn, höfðaði lögreglustjórinn í Reykjavík opinbert mál á hendur ákærða hér fyrir dómi vegna þrettán brota sem talin eru hafa verið framin á tímabilinu frá nóvember 2001 fram í apríl 2002. Er ákærða þar meðal annars gefið að sök að hafa með auðgunarbrotum og skjalafalsi náð og reynt að ná til sín verðmætum að andvirði um 2.350.000 krónur. Málið var þingfest 27. maí síðastliðinn og aðalmeðferð hófst 20. ágúst síðastliðinn en lauk ekki vegna fjarveru nokkurra vitna sem nauðsynlegt þótti að kæmu fyrir dóminn. Framhaldsaðalmeðferð átti að ljúka 5. þessa mánaðar en var frestað til 11. sama mánaðar vegna veikinda verjanda ákærða. Ákærði hefur játað aðild að flestum þessara brota en fram er komið í málinu að brotin voru framin til að fjármagna fíkniefnakaup.
Með vísan til framanritaðs og rannsóknargagna málsins má ætla að ákærði muni halda áfram brotum meðan máli hans er ekki lokið. Er því fallist á að fullnægt sé skilyrðum gæsluvarðhalds yfir ákærða samkvæmt c-lið 1. mgr. 103. gr. laga nr. 19/1991. Verður krafa lögreglustjóra tekin greina eins og hún er fram sett svo sem nánar greinir í úrskurðarorði.
Helgi I. Jónsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.
Úrskurðarorð:
Ákærði, X, sæti áfram gæsluvarðhaldi þar til dómur gengur í máli hans en þó eigi lengur en til miðvikudagsins 2. október 2002 klukkan 16.