Hæstiréttur íslands

Mál nr. 686/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Kyrrsetning


                                     

Miðvikudaginn 13. nóvember 2013.

Nr. 686/2013.

Glitnir hf.

(Ólafur Eiríksson hrl.)

gegn

Brimi hf.

(Þorsteinn Einarsson hrl.)

Kærumál. Kyrrsetning.

Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem staðfest var ákvörðun sýslumanns um að hafna beiðni G hf. um kyrrsetningu eigna B hf. til tryggingar fullnustu kröfu í tengslum við mál sem G hf. höfðaði á hendur B hf. til heimtu ætlaðrar skuldar vegna afleiðuviðskipta málsaðila. Talið var að G hf. hefði ekki gert sennilegt að draga myndi mjög úr líkindum til að fullnusta fengist á ætlaðri kröfu hans eða fullnusta yrði verulega örðugri ef kyrrsetning næði ekki fram að ganga samkvæmt beiðni hans, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl.

Dómur Hæstaréttar

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Benedikt Bogason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. október 2013, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 28. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2013, þar sem staðfest var ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 27. maí sama ár um að hafna beiðni sóknaraðila um kyrrsetningu eigna varnaraðila til tryggingar fullnustu kröfu að höfuðstól 1.999.395.000 krónur. Kæruheimild er í 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., sbr. 4. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför. Sóknaraðili krefst þess að fyrrgreindri ákvörðun sýslumanns verði hrundið og lagt fyrir hann að kyrrsetja eignir varnaraðila, sem nægi til tryggingar fullnustu kröfu sóknaraðila. Þá kefst hann málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður ekki litið svo á að sóknaraðili hafi í málinu gert sennilegt að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta fáist á ætlaðri kröfu hans eða fullnusta verði verulega örðugri ef kyrrsetning nær ekki fram að ganga samkvæmt áðurnefndri beiðni hans, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990. Samkvæmt því verður úrskurður héraðsdóms staðfestur og sóknaraðila gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, Glitnir hf., greiði varnaraðila, Brimi hf., 300.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 7. október 2013.

                Mál þetta var þingfest 14. júní sl. og tekið til úrskurðar að loknum munnlegum málflutningi 9. september sl.

                Sóknaraðili er Glitnir hf., Sóltúni 26, Reykjavík.

                Varnaraðili er Brim hf., Bræðraborgarstíg 16, Reykjavík.

                Sóknaraðili krefst þess að ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík 27. maí 2013 í kyrrsetningarmáli nr. K-6/2013, þess efnis að synja beiðni sóknaraðila um kyrrsetningu eigna varnaraðila, verði felld úr gildi og lagt verði fyrir embætti sýslumannsins í Reykjavík að kyrrsetja svo mikið af eignum varnaraðila að nægi til tryggingar fullnustu kröfu sóknaraðila samkvæmt kyrrsetningarbeiðni, dags. 18. mars 2013. Þá krefst sóknaraðili málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðili krefst þess að staðfest verði ákvörðun Sýslumannsins í Reykjavík frá 27. maí 2013 í kyrrsetningarmáli nr. K-6/2013 um að hafna kröfu sóknaraðila um kyrrsetningu eigna varnaraðila. Þá krefst varnaraðili málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I

                Sóknaraðili höfðaði mál nr. E-2212/2012 á hendur varnaraðila fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur með stefnu sem þingfest var 21. júní 2012. Í málinu krefst sóknaraðili þess að varnaraðili greiði honum 1.999.395.000 krónur, auk nánar tilgreindra dráttarvaxta. Samkvæmt kyrrsetningarbeiðni frá 18. mars 2013 voru áfallnir dráttarvextir þann dag að fjárhæð 1.614.368.415 krónur. Krafa sóknaraðila byggir á 34 afleiðusamningum sem hann kveður varnaraðila hafa gert við sig á tímabilinu frá mars til október 2008. Varnaraðili krafðist í greinargerð aðallega frávísunar málsins en til vara sýknu af kröfum sóknaraðila. Með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur 2. apríl 2013 var frávísunarkröfunni hafnað.

                Með bréfi 13. febrúar 2013 skoraði sóknaraðili á varnaraðila að sýna með óyggjandi hætti fram á getu hans til að greiða kröfuna. Ekkert formlegt svar barst við bréfinu og engin gögn voru lögð fram af hálfu varnaraðila. Þann 18. mars 2013 lagði sóknaraðili fram kyrrsetningarbeiðni hjá sýslumanninum í Reykjavík. Með ákvörðun sýslumanns 27. maí 2013 var beiðninni hafnað. Krefst sóknaraðili nú úrlausnar héraðsdóms um þá ákvörðun, sbr. 33. gr. laga nr. 31/1990, og gerir þá kröfu að ákvörðunin verði felld úr gildi og lagt verði fyrir sýslumann að kyrrsetja svo mikið af eignum varnaraðila að nægi til tryggingar fullnustu kröfu sóknaraðila samkvæmt kyrrsetningarbeiðninni.

II

                Sóknaraðili byggir á því að öll skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. séu fyrir hendi. Sýslumanni hafi því borið að kyrrsetja eignir varnaraðila fyrir kröfu sóknaraðila. Ákvörðun sýslumanns sé ekki rökstudd og sóknaraðili telji hana efnislega ranga.

                Sóknaraðili telji varnaraðila hafa gripið til eða boðað ýmsar aðgerðir sem muni draga rekstur máls nr. E-2212/2012 mjög á langinn. Þannig hafi hann annars vegar lagt fram beiðni um dómkvaðningu matsmanna, dags. 9. apríl 2013, þar sem þess sé óskað að dómkvaddir verði matsmenn til að meta og skýra nánar tilgreind atriði í ársreikningi sóknaraðila. Hins vegar hafi varnaraðili boðað að hann muni leggja fram kæru til lögreglu vegna ætlaðra brota starfsmanna sóknaraðila. Í greinargerð varnaraðila fyrir héraðsdómi sé sérstaklega tekið fram að varnaraðili geri „ráð fyrir því að mál tefjist samanber 3. mgr. 102. gr. laga 91/1991, vegna fyrirhugaðrar kæru og væntanlegrar opinberrar rannsóknar í kjölfar kæru“. Sé mið tekið af venjubundnum málsmeðferðartíma hjá lögreglu í málum sem lúti að fjármálastarfsemi megi vænta þess að málareksturinn tefjist af þessum sökum um fjölda ára. Verði krafa sóknaraðila tekin til greina í dómsmálinu safni hún dráttarvöxtum meðan á málsmeðferð standi. Af þeim sökum, og vegna ýmissa upplýsinga og opinberra yfirlýsinga um stöðu varnaraðila, telji sóknaraðili verulegan vafa leika á getu varnaraðila til að greiða kröfu sóknaraðila að þeim tíma liðnum.

                Telja verði sennilegt að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta kröfu sóknaraðila takist eða að hún verði verulega örðugri, nái kyrrsetning ekki fram að ganga, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990, jafnvel þótt eingöngu sé litið til fjárhagsstöðu varnaraðila. Samkvæmt ársreikningi varnaraðila fyrir árið 2012 hafi handbært fé í lok þess árs numið um 253 milljónum króna. Nái það ekki einum tíunda hluta kröfu sóknaraðila með áföllnum dráttarvöxtum og hafi lækkað um nær þrjá fjórðu hluta milli ára. Liggi því fyrir samkvæmt þeim upplýsingum að varnaraðili gæti ekki greitt kröfu sóknaraðila væri hún fallin í gjalddaga í dag nema grípa til sölu eigna sinna. Sóknaraðili telji að af þeirri ástæðu einni megi telja sennilegt að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta kröfu hans takist eða að fullnusta verði verulega örðugri nái kyrrsetning ekki fram að ganga. Beri því að fallast á kröfu hans.

                Sóknaraðili telji raunar ársreikning varnaraðila ekki gefa rétta mynd af stöðu hans. Í fyrsta lagi komi þar fram að varnaraðili hafi fært skuld sína að fjárhæð 2,6 milljarðar króna úr bókum félagsins. Varnaraðili hafi reiknað þá niðurfærslu til tekna og skýri það yfir helming bókfærðs hagnaðar hans árið 2012. Þessi afstaða varnaraðila sé bersýnilega röng og ólögleg. Dómsmál sé rekið um kröfuna fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Þá liggi fyrir að lánsféð hafi verið greitt út til varnaraðila í þeim erlendu myntum sem það hafi samanstaðið af. Dómaframkvæmd Hæstaréttar sé afar skýr þess efnis að hafi lánsfé verið greitt út í erlendum myntum, sé um lögmætt erlent lán að ræða. Þessu til stuðnings bendi sóknaraðili á dóma réttarins í málum nr. 3/2012, 66/2012, 332/2012, 19/2012 og 467/2011. Þeir dómar sem varnaraðili hafi vitnað til hjá sýslumanni, í málum nr. 386/2012 og 715/2012, hafi enga þýðingu hvað þessa skuld varði, enda hafi lánsféð í þeim málum ekki verið greitt út í erlendum gjaldmiðlum.

                Í öðru lagi hafi varnaraðili vantalið skuldbindingar vegna afleiðusamninga að fjárhæð tæplega 2,8 milljarðar króna, sbr. skýringu við ársreikninginn. Með áföllnum dráttarvöxtum megi ætla að þessi fjárhæð sé nálægt 5 milljörðum króna í dag. Samanlagt hafi varnaraðili því vantalið skuldbindingar að fjárhæð um 7,5 milljarðar króna í ársreikningi sínum. Leiði það til þess að bókfært eigið fé varnaraðila lækki verulega. Áritun endurskoðanda varnaraðila sé enda með með skýrum fyrirvara þess efnis.

                Í þriðja lagi vísi sóknaraðili til þess að ýmsar aðrar upplýsingar í ársreikningi varnaraðila gefi til kynna að fjárhagsstaða hans fari versnandi. Sem dæmi megi nefna að fastafjármunir varnaraðila hafi verið seldir með yfir 8,5 milljarða króna tapi á síðastliðnum tveimur árum, sem bendi til þess að bókfært verð sé skráð of hátt; handbært fé frá rekstri hafi farið hratt minnkandi síðastliðin ár og afborganir af lánum á næstu tveimur árum nemi yfir 3,5 milljörðum króna, sem sé mun meira en handbært fé frá rekstri.

                Í fjórða lagi vísi sóknaraðili til þess að möguleikar varnaraðila til að bregðast við kröfu sóknaraðila með sölu eigna, sem óumdeilt sé eini kostur hans til að greiða kröfu sóknaraðila, séu verulega takmarkaðir. Því til stuðnings vísi sóknaraðili til þeirrar staðreyndar að eignir varnaraðila séu að verulegum hluta veðsettar. Í skýringu við ársreikning varnaraðila sé að finna upplýsingar um veðsetningu skipa hans. Þótt þar komi fram upplýsingar um átta skip, bendi sóknaraðili á að útgerð varnaraðila sé nær eingöngu borin uppi af fjórum þeirra, eins og ráða megi jafnt af verðmæti þeirra í nefndri skýringu og af upplýsingum af heimasíðu varnaraðila. Í nefndri skýringu við ársreikning varnaraðila komi fram að tvö af þessum fjórum skipum séu yfirveðsett. Skip varnaraðila séu veðsett fyrir samtals tæpa 13,5 milljarða króna, en til samanburðar sé bókfært virði þeirra um 9,7 milljarðar króna. Þá bendi sóknaraðili á að aflaheimildum varnaraðila sé úthlutað til einstakra skipa. Þeim aflaheimildum sem varnaraðili bókfæri sem eign, upp á alls rúma 9 milljarða króna, hafi því ekki verið úthlutað til varnaraðila, heldur á skip hans, þar með talið hin yfirveðsettu skip, lögum samkvæmt. Af því leiði að yrði gengið að veðum í hinum yfirveðsettu skipum fylgi með þær aflaheimildir sem úthlutað hafi verið til skipanna. Þar sem yfirveðsettu skipin tvö séu meðal þriggja langverðmætustu skipa varnaraðila, telji sóknaraðili ekki óvarlegt að leggja til grundvallar að bróðurpartur aflaheimilda varnaraðila sé þannig óbeint veðsettur. Varnaraðili hafi því takmarkaða möguleika, ef einhverja, til að bregðast við og greiða kröfu sóknaraðila með sölu þessara eigna. Af öllu framangreindu telji sóknaraðili leiða, að jafnvel þótt aðeins yrði byggt á síðasta birta ársreikningi varnaraðila, verði að telja sennilegt að draga muni mjög úr líkindum þess að fullnusta kröfu hans takist eða að fullnusta verði verulega örðugri nái kyrrsetning ekki fram að ganga.

                Krafa sóknaraðila byggist jafnframt á því að ýmsar opinberlega aðgengilegar upplýsingar, auk opinberra yfirlýsinga forsvarsmanna varnaraðila, bendi sterklega til þess að fjárhagsstaða varnaraðila fari versnandi og muni enn versna á næstu árum. Því til stuðnings vísi sóknaraðili til þess að á árinu 2012 hafi verið samþykkt lög nr. 74/2012 um veiðigjöld. Með þeim hafi umfangsmikil gjöld verið lögð á þá sem fá úthlutað aflaheimildum, þar á meðal varnaraðila. Ljóst sé að gjöldin muni hafa verulega neikvæð áhrif á rekstur varnaraðila og fjárhagsstöðu hans.

                Í frétt Morgunblaðsins frá 4. mars 2013 sé haft eftir forstjóra varnaraðila að ekki sé lengur rekstrargrundvöllur fyrir frystitogara hér á landi. Sóknaraðili bendi á að rekstur varnaraðila sé nær alfarið borinn uppi af útgerð fjögurra stórra frystitogara. Í fréttinni hafi jafnframt verið haft eftir forstjóranum: „Við lendum mjög illa í því.“ Hafi hann tekið fram að yrði rekstrarumhverfið ekki lagað „horfði illa fyrir þeim sem þyrftu að borga fullt gjald.“ Varnaraðili sé meðal þeirra sem greiði fullt gjald. Í viðtali fréttavefjarins www.mbl.is við forstjóra varnaraðila segi hann orðrétt: „eins og við reiknum þetta út, þá hefur þetta gríðarleg áhrif á Brim.“ Í viðtali í viðskiptaþættinum Klinkið á fréttavefnum www.visir.is hafi komið fram í máli forstjórans að horfurnar í sjávarútvegi væru „gríðarlega svartar.“ Hafi hann þessu til stuðnings meðal annars vísað til mikils fiskútflutnings frá Noregi, lægri ráðstöfunartekna Evrópuþjóða og þess að íslensk stjórnvöld væru að „drepa sjávarútveginn.“ Afleiðingar þess væru „rétt að koma fram“. Í fréttaskýringu á fréttavefnum www.eyjan.is þann 2. desember 2012 sem unnin hafi verið upp úr framangreindu viðtali segi meðal annars að forstjórinn spái „hruni“ innan eins til tveggja ára. Í fréttaskýringu í Morgunblaðinu 29. desember 2012 hafi verið að finna viðtal við forstjóra varnaraðila. Staðfesti hann þar að varnaraðili hefði verið rekinn með tapi á haustmánuðum 2012 og nefni hann fleiri ástæður en veiðigjaldið fyrir því.

                Framangreindar yfirlýsingar staðfesti að veiðigjöldin hafi haft og muni hafa verulega skaðleg áhrif á rekstur og fjárhag varnaraðila. Þetta sýni einnig að staða hans muni fara versnandi á næstu misserum og árum. Yfirlýsingar forstjóra varnaraðila séu í samræmi við ýmsar aðrar opinberlega aðgengilegar upplýsingar. Þannig hafi atvinnuveganefnd Alþingis borist fjölmargar umsagnir um frumvarp til laga um veiðigjöld þar sem varað hafi verið við samþykkt frumvarpsins og höfð uppi stór orð um áhrif laganna. Í umsögn endurskoðendafyrirtækisins Deloitte hf., dags. 20. apríl 2012, hafi komið fram að samkvæmt rannsókn fyrirtækisins myndu aðeins 6 af 20 skilgreindum „stórum“ sjávarútvegsfyrirtækjum standa undir gjaldinu og einungis 3 af 26 „millistórum“ sjávarútvegsfyrirtækjum. Í umsögn Landsbankans hf., dags. 18. apríl 2012, hafi komið fram áhyggjur af þeim afleiðingum sem samþykkt frumvarpsins hefði fyrir íslenskan sjávarútveg og samfélag. Væri það álit bankans að yrði frumvarpið að lögum myndu þau hafa mjög alvarleg fjárhagsleg áhrif á greiðslugetu, rekstrarskilyrði og fjárhagsstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi. Þá hafi í ályktun Landssambands íslenskra útvegsmanna, dags. 29. mars 2012, sagt að lögin myndu hafa grafalvarleg áhrif á íslenskan sjávarútveg og íslenskt samfélag. Áform um að skerða aflaheimildir og gera stærstan hluta afkomu fyrirtækjanna upptækan kollvarpi rekstri þeirra og fjölmörg þeirra yrðu gjaldþrota.

                Sóknaraðili telji framangreindar upplýsingar og opinberar yfirlýsingar varnaraðila staðfesta að rekstur hans og fjárhagsstaða muni fara versnandi á næstu misserum og árum. Varnaraðili hafi vísað til þess að með nýrri ríkisstjórn verði gjöldin afnumin og hafi hann lagt fram viðtal við núverandi forseta Alþingis frá því í kosningabaráttunni. Virðist sem varnaraðili telji að af þeim sökum séu yfirlýsingar forsvarsmanns varnaraðila um áhrif gjaldanna marklausar. Á þetta geti sóknaraðili ekki fallist. Þegar liggi fyrir yfirlýsingar nýrra ráðamanna þess efnis að veiðigjöldin verði ekki afnumin, heldur þvert á móti lagt fram frumvarp til að tryggja áframhaldandi álagningu þess. Hins vegar sé stefnan sú að gera einhverjar breytingar á lögunum, þá einkum til að draga úr áhrifum þeirra á lítil og meðalstór fyrirtæki. Sóknaraðili sé aftur á móti meðal stærstu fyrirtækja landsins og liggi því ekkert fyrir um að áhrif gjaldanna á hann verði með einhverjum hætti milduð. Þann 12. júní sl. hafi nýr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögunum. Andstætt væntingum varnaraðila hafi þar ekki verið kveðið á um afnám gjaldanna, heldur skuli þvert á móti álagning þess verða með svipuðum hætti og á yfirstandandi fiskveiðiári. Hins vegar sé lagt til að ákvæði núgildandi laga um hækkun gjaldsins á næsta fiskveiðiári verði fellt brott. Í greinargerð með frumvarpinu geri fjármála- og efnahagsráðuneytið ráð fyrir því að tekjur ríkisins af gjaldinu árið 2013 verði tæpir 9,8 milljarðar króna í stað um 13 milljarða króna verði af hækkun gjaldsins eins og núgildandi lög geri ráð fyrir. Það sé um 24,5% lækkun gjaldsins. Miðað við yfirlýsingar forstjóra varnaraðila verði ekki annað lagt til grundvallar en að gjöldin muni eftir sem áður hafa verulega skaðleg áhrif á fjárhagsstöðu varnaraðila. Þar sem lög um veiðigjöld séu gildandi lög í landinu verði að byggja úrlausn málsins á þeim. Varnaraðili geti engar réttmætar væntingar haft til þess að opinberar álögur lækki í framtíðinni. Eftir standi því yfirlýsingar forsvarsmanns varnaraðila um að þær álögur sem byggi á núgildandi lögum muni hafa gríðarlega skaðleg áhrif á fjárhagsstöðu varnaraðila.

                Með vísan til alls framangreinds sé byggt á því að fyrirliggjandi upplýsingar um fjárhagsstöðu varnaraðila og yfirlýsingar forsvarsmanns varnaraðila um áhrif opinberra gjalda á fjárhagsstöðu varnaraðila, leiði til þess að telja verði sennilegt að draga muni mjög úr líkindum þess að fullnusta kröfu hans takist eða að fullnusta verði verulega örðugri, nái kyrrsetning ekki fram að ganga. Beri einnig að líta til boðaðra aðgerða varnaraðila í dómsmáli um kröfu sóknaraðila sem að óbreyttu muni leiða til þess að málareksturinn dragist mjög á langinn. Skilyrði 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 séu því uppfyllt.

                Sóknaraðili vísi um efni kröfunnar til þess að hún sé lögvarin og um greiðslu peninga. Samkvæmt 2. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990 sé það ekki skilyrði kyrrsetningar að sóknaraðili leiði sönnur að tilvist kröfu sinnar. Einungis skuli synja um kyrrsetningu ef ætla verði af fyrirliggjandi gögnum að sóknaraðili eigi ekki þau réttindi sem hann hyggist tryggja. Sóknaraðili telji ljóst að hann hafi leitt sönnur að tilvist kröfu sinnar, í öllu falli sé ekki með nokkru móti ljóst að hann eigi ekki kröfuna. Þröngt undantekningarákvæði síðari málsliðar 2. mgr. 5. gr. laganna eigi ekki við og beri því að ógilda ákvörðun sýslumanns og leggja fyrir hann að kyrrsetja eignir varnaraðila.

III

                Varnaraðili byggir málatilbúnað sinn á því að ekki séu skilyrði að lögum fyrir kröfu sóknaraðila um að fella úr gildi ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík um að synja beiðni sóknaraðila um kyrrsetningu eigna varnaraðila. Hann mótmæli ávirðingum sóknaraðila um að hann freisti þess að draga á langinn rekstur máls nr. E-2212/2012 fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur. Hann hafi engan áhuga á drætti á niðurstöðu í því máli og óski þess helst að dómur um sýknu af kröfu sóknaraðila gangi hið allra fyrsta. Vegna málatilbúnaðar sóknaraðila sé því miður líklegt að einhver tími líði þar til dómur gangi í málinu en á því beri varnaraðili enga ábyrgð. Málatilbúnaður sóknaraðila í málinu krefjist þess að aflað verði mats dómkvaddra matsmanna og séu ítarleg rök færð fram fyrir því í greinargerð varnaraðila. Það sé rétt að varnaraðili hafi boðað að hann muni kæra háttsemi sóknaraðila til lögreglu. Dómari málsins kunni að fresta málinu af sjálfsdáðum af þeim sökum, sbr. heimild í 3. mgr. 102. gr. laga nr. 91/1991, en varnaraðili hafi ekki forræði yfir því hvort málinu verði frestað af þeim sökum.

                Varnaraðili telji sóknaraðila ekki eiga lögvarða kröfu á hendur honum um greiðslu peninga, sbr. 5. gr. laga nr. 31/1990, og því beri að staðfesta ákvörðun sýslumanns í málinu. Varnaraðili krefjist sýknu af kröfu sóknaraðila í héraðsdómsmálinu nr. E-2212/2012 og byggist sú krafa einkum á eftirfarandi röksemdum:

                Varnaraðili hafi ekki gert ætlaða afleiðusamninga við sóknaraðila og því eigi sóknaraðili enga kröfu á hendur honum. Krafa sóknaraðila byggist á samningum sem ekki séu undirritaðir af varnaraðila, heldur sé um að ræða ætlaða munnlega samninga. Sóknaraðili hafi sönnunarbyrði fyrir því að þeir samningar hafi verið gerðir munnlega á milli aðila og að þeir séu gildir að lögum. Þá sönnun hafi sóknaraðili ekki fært fram. Þá byggi varnaraðili á því að samningar um framvirk gjaldeyrisviðskipti geti ekki komist á nema með skriflegum og undirrituðum samningum og vísi hann í því samhengi til 3. mgr. 2. gr. almennra skilmála fyrir markaðsviðskipti.

                Jafnframt sé byggt á því að sá einstaklingur sem sóknaraðili telji hafa skuldbundið varnaraðila hafi ekki haft umboð til þess, enda hafi hann ekki verið starfsmaður varnaraðila á þeim tíma er samningarnir eigi að hafa komist á. Þá hafi hann ekki haft prókúruumboð fyrir varnaraðila.

                Varnaraðili byggi einnig á því að það sé ekki tilgangur með rekstri hans að stunda verðbréfaviðskipti. Þrátt fyrir það hafi sóknaraðili vanrækt að flokka hann sem fjárfesti, sbr. 21. gr. laga nr. 108/207, og þannig tryggja varnaraðila fjárfestavernd. Varnaraðili hafi verið almennur fjárfestir í skilningi laga nr. 108/2007 og því hafi sóknaraðili ekki uppfyllt áskilnað 9. gr. laganna um að gera skuli skriflegan samning milli fjármálafyrirtækis og almenns fjárfestis.

                Þá byggi varnaraðili á því að 7. október 2008 hafi sóknaraðili orðið ófær um að efna skuldbindingar sínar samkvæmt ætluðum afleiðusamningum og því sé sá dagur gjaldfellingar- eða uppgjörsdagur gagnvart sóknaraðila á ætluðum afleiðusamningum. Varnaraðili telji einnig að sóknaraðili hafi sýnt af sér tómlæti við innheimtu ætlaðrar skuldar á grundvelli ætlaðra samninga.

                Hvað sem öðru líði eigi varnaraðili skaðabótakröfu á hendur sóknaraðila sem sé a.m.k. jafnhá og sú fjárhæð sem honum kynni að verða gert að greiða sóknaraðila. Sé krafan tilkomin vegna saknæmrar og ólögmætrar háttsemi starfsmanna sóknaraðila sem hann beri ábyrgð á á grundvelli sakarreglunnar sem og vinnuveitendaábyrgðar.

                Að síðustu byggi varnaraðili á því að skilyrði séu til að víkja til hliðar ætluðum skuldbindingum hans á grundvelli 36. gr. og/eða 36. gr. a., b., c. eða d. laga nr. 7/1936. Allar líkur séu á því að varnaraðili verði sýknaður af kröfu sóknaraðila í dómsmálinu á milli þeirra, en málssóknin sé tilhæfulaus.

                Ekki sé uppfyllt það skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 að sennilegt megi telja, ef kyrrsetning fer ekki fram, að draga muni úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða að fullnusta hennar verði verulega örðugri. Því beri að staðfesta ákvörðun sýslumanns um að hafna kröfu sóknaraðila um kyrrsetningu eigna varnaraðila. Sóknaraðili hafi sönnunarbyrði fyrir því að þetta skilyrði sé uppfyllt. Hann hafi ekki sannað að svo sé. Kyrrsetning fari ekki fram nema raunhæfa nauðsyn beri til vegna hagsmuna kröfueiganda. Tilgangur þessa sé að tryggja kröfueiganda fyrir yfirvofandi hættu á að skuldara takist að eyða, selja, veðsetja eða ráðstafa með öðrum hætti öllum eignum sínum á meðan dómsmál sé rekið um kröfuna, þannig að engar eignir liggi fyrir til aðfarar að gengnum dómi. Varnaraðili telji liggja í augum uppi að skilyrði framangreinds lagaákvæðis séu ekki fyrir hendi í þessu máli og a.m.k. sé ljóst að sóknaraðili hafi ekki gert sennilegt að uppfyllt séu skilyrði laganna.

                Því fari víðs fjarri að ársreikningar varnaraðila beri með sér slæma stöðu fyrirtækisins enda sé varnaraðili eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki landsins með trygga fjárhagsstöðu. Í þessu samhengi vísi varnaraðili til ársreiknings fyrirtækisins fyrir rekstrarárið 2012, en samkvæmt honum hafi rekstrarhagnaður varnaraðila numið um 2,6 milljörðum króna. Þar af hafi hagnaður vegna sölu eigna félagsins verið um 870 milljónir króna. Hagnaður eftir skatta hafi verið 3,7 milljarðar króna á árinu 2012. Eignir varnaraðila í árslok 2012 hafi numið um 21,5 miljörðum króna, þar af sé bókfært virði aflahlutdeilda og varanlegra rekstrarfjármuna um 18,2 milljarðar króna. Helstu breytingar á eignum á árinu séu þær að keypt hafi verið fiskiskip fyrir um 3,6 milljarða króna. Einnig hafi verið keyptar aflahlutdeildir fyrir um 1,4 milljarða króna og seldar aflahlutdeildir fyrir um 2,9 milljarða króna, en þar af hafi bókfært verð seldra aflahlutdeilda verið um 2,1 milljarður króna. Við endurskoðun á ársreikningi varnaraðila fyrir árið 2012 hafi verið framkvæmt virðisrýrnunarpróf á aflaheimildum félagsins og hafi niðurstaðan verið sú að ekki væri um virðisrýrnun að ræða. Meðal veltufjármuna sé krafa á tengda aðila sem lækki á árinu um 1,4 milljarða króna. Veltufjárhlutfall félagsins sé 1,27 í árslok 2012 samanborið við 0,66 í árslok 2011.

                Langtímalán varnaraðila hafi lækkað um 3 milljarða króna á árinu 2012 en þar af nemi lækkun vegna ólögmæts lánssamnings um 2,6 milljörðum króna. Samtals nemi skuldir félagsins 10,4 milljörðum króna í árslok 2012, samanborið við 14,7 milljarða í árslok 2011. Mismunur eigna og skulda félagsins 31. desember 2012 sé 11,1 milljarður króna. Eigið fé varnaraðila nemi 11 milljörðum í árslok 2012 og eiginfjárhlutfall sé 51% samanborið við 33% í árslok 2011. Eiginfjárstaða félagsins hafi því batnað til muna milli ára. Varnaraðili standi vel að vígi og sé fjárhagslega mjög sterkur. Hann gæti því greitt ætlaða kröfu sóknaraðila ef svo ótrúlega færi að dómur gengi um greiðsluskyldu hans. Um sterka stöðu varnaraðila vísist meðal annars til ársreiknings hans fyrir árið 2012, sem löggiltir endurskoðendur Deloitte hafi endurskoðað og minnisblaðs Þorsteins P. Guðjónssonar, löggilts endurskoðanda, frá 19. apríl 2013.

                Sóknaraðili hafi dregið í efa upplýsingar í ársreikningi varnaraðila. Nefni hann í því samhengi að skuld hafi verið færð niður um 2,6 milljarða króna. Þessi niðurfærsla skuldar sé tilkomin vegna dóms Hæstaréttar frá 17. janúar 2013 í máli nr. 386/2012, Íslandsbanki hf. gegn Umbúðamiðlun ehf., þar sem Hæstiréttur hafi fyrst og fremst litið til þess, við mat á því hvort lánssamningur væri í erlendri mynt eða gengistryggður, að lánsfjárhæðin væri tilgreind í íslenskum krónum í umþrættum samningi. Dómurinn hafi gríðarlega mikla þýðingu fyrir varnaraðila í máli sem Haf Funding Ltd., sem sé félag nátengt sóknaraðila, hafi höfðað á hendur félaginu enda sé þar deilt um nákvæmlega eins samningsform og fjallað hafi verið um í fyrrgreindum dómi Hæstaréttar. Í báðum tilvikum sé lánsfjárhæðin einungis tilgreind í íslenskum krónum en hinna erlendu gjaldmiðla ekki getið. Miðað við forsendur dómsins sé það engum vafa undirorpið að slík lántaka sé gengistryggð með erlendri mynt. Varnaraðila hafi því verið rétt og skylt að færa skuld við Haf Funding Ltd. niður í ársreikningi félagsins, eins og hann hafi gert í samráði við endurskoðendur sína og lögmenn. Fordæmisgildi fyrrgreinds dóms Hæstaréttar sé eins skýrt og verið gæti. Afstaða Haf Funding Ltd. til lánssamningsins breyti engu í þessu samhengi, en dóms í máli varnaraðila og Haf Funding Ltd. sé að vænta í febúar 2014. Varnaraðili leggi áherslu á að eigið fé hans væri 8,5 milljarðar króna ef ekki hefði komið til niðurfærsla kröfu Haf Funding Ltd. Varnaraðili sé því fjárhagslega mjög sterkur hvað sem líði kröfu Haf Funding Ltd. og standi því fyllilega fyrir umdeildri kröfu sóknaraðila.

                Sóknaraðili telji varnaraðila hafa vantalið skuldbindingar í ársreikningi sínum vegna afleiðuviðskipta. Svo sé alls ekki, en varnaraðili tilgreini að sjálfsögðu ekki sem skuld í sínum reikningum ætlaða kröfu sóknaraðila á hendur honum. Þótt sú fjárhæð yrði færð til bókar sem skuld í reikningum varnaraðila stæðu eignir vel fyrir öllum skuldum hans. Það sé rangt að varnaraðili hafi selt eignir með tapi á síðustu tveimur árum og að bókfært verð eigna hans sé of hátt. Fullyrðingar sóknaraðila um stöðu varnaraðila séu órökstuddar og í andstöðu við endurskoðaða reikninga varnaraðila sem staðfesti jákvæða eiginfjárstöðu að fjárhæð 11 milljarðar króna. Upphrópanir sóknaraðila um að ársreikningur varnaraðila sé rangur dæmi sig sjálfar og verði aldrei grundvöllur kyrrsetninga eigna varnaraðila. Í árslok 2012 hafi skuldir varnaraðila numið um 10 milljörðum króna. Veðskuldir hans séu því ekki 13,5 milljarðar króna líkt og fram komi í greinargerð sóknaraðila. Á skipum varnaraðila hvíli hins vegar tryggingarbréf sem tryggi skuldir allt að 13,5 milljörðum króna, en svo háar séu skuldir varnaraðila ekki.

                Í greinargerð sóknaraðila sé enn fremur byggt á því að opinberar upplýsingar og yfirlýsingar gefi til kynna að fjárhagsstaða varnaraðila fari versnandi. Varnaraðili vísi í því samhengi til ýmissa viðtala, fréttaskýringa og umsagna í tengslum við veiðigjald sem lögfest hafi verið með lögum nr. 74/2012. Varnaðarorð hagsmunaðila í sjávarútvegi vegna lagasetningar, sem geri ráð fyrir auknum álögum á sjávarútvegsfyrirtæki, geti ekki orðið grundvöllur kröfu um kyrrsetningu eigna varnaraðila, sér í lagi þegar fyrir liggi að búið sé að afnema veigamikinn þátt laganna líkt og raunin sé. Í þessu samhengi vísi varnaraðili til laga nr. 84/2013 um breytingu á lögum nr. 74/2012 um veiðigjöld, en með lögunum hafi verið ákveðið að efnisákvæði laga um veiðigjöld, hvað snerti ákvörðun reiknaðrar rentu á þorskígildiskíló eftir veiðiflokkum og álagningu sérstaks veiðigjalds, komi ekki til framkvæmda. Þetta sé í samræmi við kröfur útgerðarfyrirtækja en sérstaka veiðigjaldið hafi ekki tekið mið af hagnaði fyrirtækja, heldur hafi verið um að ræða gjald fyrir hvert þorskígildi. Nú horfi hins vegar til betri vegar í þessum efnum, enda liggi fyrir að afstöðubreyting hafi átt sér stað með tilkomu nýrrar ríkisstjórnar. Stjórnvöld vilji að sérstakt veiðigjald, verði því á annað borð komið aftur á, taki mið af afkomu fyrirtækja. Lagabreytingin hafi leitt til minni útgjalda varnaraðila og fjárhagsstaða hans sé því sterkari en ella.

                Með hliðsjón af öllu því er að framan greini sé einsýnt að skilyrði 5. gr. laga nr. 31/1990 séu ekki fyrir hendi í málinu, enda séu eignir varnaraðila miklar og fjárhagsstaða mjög sterk. Með engu móti verði séð að draga muni úr líkindum sóknaraðila til að fullnusta ætlaða kröfu sína, ef til þess komi, nái kyrrsetning ekki fram að ganga. Þvert á móti séu allar líkur á því að fullnusta ætlaðrar kröfu verði mun erfiðari fari kyrrsetning fram, enda myndi slík aðgerð hafa lamandi áhrif á rekstur varnaraðila og draga verulega úr verðmætasköpun fyrirtækisins. Kyrrsetning skipa í hans eigu valdi til dæmis erfiðleikum við flutning aflahlutdeilda á milli skipa og dragi úr hagkvæmni í rekstrinum. Þá leggi varnaraðili þunga áherslu á að allar þær forsendur sem sóknaraðili hafi lagt upp með er kyrrsetningarbeiðni hafi verið send sýslumanni séu nú brostnar, en ársreikningur varnaraðila fyrir árið 2012 sýni sterkari og betri stöðu félagsins en undanfarin ár. Þá séu fyrirætlanir stjórnvalda um auknar álögur á sjávarútveginn, með sérstöku veiðigjaldi, orðnar að engu. Sóknaraðili hafi sönnunarbyrði fyrir því að verulega dragi úr líkindum þess að umdeild krafa fáist greidd eða að fullnusta verði verulega örðugri ef kyrrsetning fer ekki fram. Þá sönnun hafi sóknaraðili sannarlega ekki fært fram og stangist órökstuddar fullyrðingar gerðarbeiðanda um þetta atriði á við endurskoðaðan ársreikning gerðarþola, sem staðfesti jákvætt eigið fé að fjárhæð rúmlega 11 milljarðar króna. Engin rök hafi verið færð fram fyrir því að ekki skuli taka mark á endurskoðuðum ársreikningi varnaraðila fyrir árið 2012.

                Varnaraðili vísi til laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl., einkum 5. gr. Þá vísi varnaraðili til laga nr. 38/2001 og til reglna samninga- og kröfuréttar. Krafa um málskostnað styðjist við ákvæði laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. lög nr. 31/1990 og nr. 90/1989.

IV

                Í 5. gr. laga nr. 31/1990 um kyrrsetningu, lögbann o.fl. segir að kyrrsetja megi eignir skuldara til tryggingar fullnustu lögvarinnar kröfu um greiðslu peninga ef henni verður ekki þegar fullnægt með aðför og sennilegt megi telja, ef kyrrsetning fer ekki fram, að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða að fullnusta verði verulega örðugri. Samkvæmt 2. mgr. greinarinnar er það ekki skilyrði kyrrsetningar að gerðarbeiðandi leiði sönnur að réttmæti kröfu sinnar, en synja skal um kyrrsetningu ef ætla verður af fyrirliggjandi gögnum að hann eigi ekki þau réttindi sem hann hyggst tryggja.

                Eins og fram hefur komið hefur sóknaraðili höfðað einkamál á hendur varnaraðila til greiðslu skuldar sem byggist á 34 afleiðusamningum. Varnaraðili gerði þær kröfur í málinu aðallega að málinu yrði vísað frá dómi, en til vara að hann yrði sýknaður. Með úrskurði 2. apríl sl. var frávísunarkröfu varnaraðila hafnað. Í forsendum úrskurðarins kemur meðal annars fram að ekki verði fallist á að um vanreifun sé að ræða, en ekki verði á þessu stigi málsins skorið úr um það hvort sóknaraðili eigi efnislegan rétt á hendur varnaraðila á grundvelli gagna málsins. Með vísan til 1. mgr., sbr. 2. mgr., 5. gr. laga nr. 31/1990 þykir sóknaraðili hafa leitt nægilegar líkur að því að hann eigi lögvarða kröfu um greiðslu peninga á hendur varnaraðila í skilningi ákvæðisins, þótt ágreiningur standi um kröfuna. Er það enda ekki viðfangsefni þessa máls að leysa efnislega úr þeim ágreiningi aðila sem um er fjallað í máli nr. E-2212/2012.

                Það er skilyrði kyrrsetningar að sennilegt megi telja, ef hún fer ekki fram, að draga muni mjög úr líkindum til að fullnusta hennar takist eða að fullnusta verði verulega örðugri. Sóknaraðili hefur vísað til þess að varnaraðili hafi gripið til ýmissa aðgerða til að draga rekstur málsins á milli þeirra á langinn. Fjárhagsstaða varnaraðila sé slík að draga muni verulega úr líkindum á fullnustu kröfunnar þegar að henni komi, meðal annars vegna þess að ársreikningur varnaraðila gefi ekki rétta mynd af stöðu hans. Þá er jafnframt byggt á því að opinberar upplýsingar og yfirlýsingar fyrirsvarsmanns varnaraðila bendi til versnandi fjárhagsstöðu hans.

                Sóknaraðili vísar til þess að samkvæmt ársreikningi varnaraðila fyrir árið 2012 hafi handbært fé í lok þess árs numið 253 milljónum króna og hafi lækkað verulega frá árinu 2011. Þegar af þeim sökum séu uppfyllt skilyrði til kyrrsetningar eigna varnaraðila. Dómurinn telur hins vegar að þrátt fyrir að handbært fé varnaraðila nemi ekki nema litlum hluta ætlaðrar skuldar við sóknaraðila verði það ekki talið merkja að hann sé ekki greiðslufær, heldur verði einnig að líta til eigna hans.

                Meðal gagna málsins eru ársreikningar varnaraðila fyrir árin 2011 og 2012. Samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2012 var eigið fé varnaraðila í lok þess árs samtals um 11 milljarðar króna. Var eiginfjárhlutfall 51%, en 33% í árslok 2011. Samkvæmt ársreikningunum hefur staða varnaraðila styrkst frá fyrra ári. Sóknaraðili dregur hins vegar í efa að ársreikningurinn gefi rétta mynd af fjárhag varnaraðila. Nefnir hann þar einkum niðurfærslu skuldar varnaraðila við Haf Funding Ltd. um 2,6 milljarða króna. Varnaraðili telur þessa niðurfærslu vera til samræmis við dóm Hæstaréttar í málinu nr. 386/2012 frá 17. janúar 2013, en um sambærilega lánssamninga sé að ræða. Mál milli varnaraðila og Haf Funding Ltd. er til meðferðar fyrir dómi og telur varnaraðili að niðurstöðu í því máli sé að vænta í febrúar 2014. Ekki verður leyst úr þeim ágreiningi hér hvort framangreindur dómur Hæstaréttar hefur fordæmisgildi í máli varnaraðila og Haf Funding Ltd. Hins vegar er til þess að líta að verði niðurstaða þess máls sú að kröfum varnaraðila verði hafnað lækkar eigið fé varnaraðila. Væri þannig tekið tillit til þeirrar skuldar í ársreikningi varnaraðila næmi eigið fé hans um 8,5 milljörðum króna.

                Sóknaraðili telur varnaraðila vantelja skuldir vegna afleiðusamninga þeirra sem þeir deila um í málinu. Ljóst er að ekki er gert ráð fyrir skuld þessari í ársreikningi. Þegar kyrrsetningarbeiðnin var lögð fram hjá sýslumanni var heildarstaða skuldarinnar um 3,6 milljarðar króna.

                Sóknaraðili telur ýmsar upplýsingar í ársreikningi varnaraðila benda til þess að fjárhagsstaða hans fari versnandi. Fastafjármunir hafi verið seldir með tapi sem bendi til þess að bókfært verð sé skráð of hátt. Hins vegar kemur fram í minnisblaði endurskoðanda varnaraðila að bókfært verð aflaheimilda og fiskiskipa félagsins sé 17,6 milljarðar króna, en miðað við síðustu viðskiptaverð megi ætla að raunverð þessara eigna sé töluvert hærra. Þá telur sóknaraðili að möguleikar varnaraðila á sölu eigna séu verulega takmarkaðir, þar sem helstu eignirnar séu verulega veðsettar. Þær veðsetningar sem vísað er til eru hins vegar tryggingabréf, en samkvæmt upplýsingum frá varnaraðila eru skuldir á grundvelli þeirra mun lægri.

                Sóknaraðili byggir einnig á því að opinberar upplýsingar og yfirlýsingar gefi til kynna versnandi fjárhagsstöðu varnaraðila. Því til stuðnings er vísað til laga nr. 74/2012 um veiðigjöld sem sóknaraðili telur að muni hafa verulega neikvæð áhrif á rekstur varnaraðila og yfirlýsinga fyrirsvarsmanns varnaraðila þar um. Við mat á yfirlýsingum fyrirsvarsmanns varnaraðila í fjölmiðlum um fjárhagsstöðu hans vegna setningar laga um veiðigjöld þykir verða að horfa til hagsmuna hans af því að fá lagasetningunni breytt. Þá er til þess að líta að með lögum nr. 84/2013 var lögum um veiðigjöld breytt. Óumdeilt er að breytingin er varnaraðila til hagsbóta.

                Ljóst er að nokkur tími mun líða áður en dómur verður kveðinn upp í einkamáli milli aðila, en varnaraðili hefur í því máli krafist dómkvaðningar matsmanna. Varnaraðili er á meðal stærstu sjávarútvegsfyrirtækja landsins. Sé litið til allra þeirra upplýsinga sem liggja fyrir í málinu um fjárhagsstöðu félagsins, einkum ársreiknings þess fyrir árið 2012 og samanburðar ársreikninga áranna 2011 og 2012, þykir sóknaraðili ekki hafa sýnt fram á eða gert sennilegt að fari kyrrsetning ekki fram muni draga mjög úr líkindum til að fullnusta kröfu sóknaraðila takist eða að fullnusta verði verulega örðugri, sbr. 1. mgr. 5. gr. laga nr. 31/1990.

                Samkvæmt framansögðu verður kröfu sóknaraðila hafnað og staðfest ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík, frá 27. maí sl., um að synja beiðni sóknaraðila um kyrrsetningu í eigum varnaraðila í máli nr. K-6/2013.

                Með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, sbr. 1. mgr. 91. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 1. mgr. 35. gr. laga nr. 31/1990, verður varnaraðili úrskurðaður til að greiða sóknaraðila málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.

                Barbara Björnsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Staðfest er ákvörðun sýslumannsins í Reykjavík frá 27. maí 2013 um að synja beiðni sóknaraðila, Glitnis hf., um kyrrsetningu eigna varnaraðila, Brims hf., í máli nr. K-6/2013.

                Sóknaraðili greiði varnaraðila 600.000 krónur í málskostnað.