Hæstiréttur íslands

Mál nr. 132/2013


Lykilorð

  • Kærumál
  • Nálgunarbann
  • Barnavernd


                                              

Fimmtudaginn 28. febrúar 2013.

Nr. 132/2013.

Barnaverndarnefnd Reykjavíkur

(Kristbjörg Stephensen hrl.)

gegn

A

(Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.)

Kærumál. Nálgunarbann. Barnavernd.

Úrskurður héraðsdóms um að A skyldi gert að sæta nálgunarbanni, á grundvelli 37. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002, var staðfestur.

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson, Greta Baldursdóttir og Þorgeir Örlygsson.

Varnaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 26. febrúar 2013 sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2013, þar sem varnaraðila var gert að sæta nálgunarbanni eins og nánar greinir í úrskurðarorði. Kæruheimild er í 3. mgr. 15. gr. laga nr. 85/2011 um nálgunarbann og brottvísun af heimili, svo sem þeim var breytt með 1. gr. laga nr. 39/2012, sbr. lokamálslið 37. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002.  Varnaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann kærumálskostnaðar. 

Sóknaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar.

Samkvæmt 1. mgr. 3. gr. barnaverndarlaga er með börnum í lögunum átt við einstaklinga yngri en 18 ára. Af hálfu varnaraðila hefur því verið lýst yfir að hann hafi engan áhuga á að eiga samskipti eða samneyti við stúlkuna X sem er nýorðin 16 ára. Að þessu gættu, en að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er fallist á að uppfyllt séu skilyrði 37. gr. barnaverndarlaga til að grípa til þeirra ráðstafana gagnvart varnaraðila sem kveðið er á um í úrskurðinum. Verður hann því staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, sem ákveðin verður að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði segir, greiðist úr ríkissjóði samkvæmt 3. mgr. 38. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála, sbr. 14. gr. laga nr. 85/2011, sbr. og lokamálslið 37. gr. barnaverndarlaga.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, A, fyrir Hæstarétti, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 125.500 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 26. febrúar 2013.

Reykjavíkurborg vegna Barnaverndar Reykjavíkur hefur krafist þess að Héraðsdómur Reykjavíkur úrskurði að A kt. [...], [...], [...], verði með úrskurði gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 37. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 til 4. febrúar 2014 þannig að lagt verði bann við því að hann komi á eða í nánd við [...], meðferðar og greiningarstöð ríkisins, þar sem X, kt. [...], er nú neyðarvistuð, [...], þar sem hún er vistuð á vegum barnaverndaryfirvalda, [...] í [...], þar sem hún sækir skóla og heimili hennar, að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis áður greinda staði, mælt frá miðju húsanna.

                Þá er þess krafist að bannið taki einnig til þess jafnlengi að varnaraðili veiti X eftirför, heimsæki á annan stað eða setji sig með öðrum hætti í samband við hana t.d. símasamband, í gegnum SMS-skilaboð eða internetið.

Í greinargerð sóknaraðila kemur fram að á fundi sóknaraðila 19. febrúar sl. hafi verið ákveðið að óska eftir því við borgarlögmann að þess yrði krafist fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur að varnaraðila yrði gert að sæta nálgunarbanni samkvæmt 37. gr. barnaverndarlaga vegna hagsmuna X, kt. [...]. 

Telpan hafi verið vistuð frá 4. febrúar sl. á langtímameðferðarheimilinu að [...] í [...]. Hafi hún verið í harðri neyslu fíkniefna og í félagsskap sem talinn hafi verið henni hættulegur. Telpan hafi litla innsýn í vanda sinn og þá hættulegu stöðu sem hún sé í. Hafi það verið mat sóknaraðila að til þess að ná tökum á vanda hennar væri nauðsynlegt að vista hana á langtímameðferðarheimil fjarri þeim félagsskap sem hún sæki í og hafi það verið gert með hennar samþykki. Gerð sé krafa um að nálgunarbannið gildi á meðan vistun telpunnar á vegum barnaverndaryfirvalda vari eða til 4. febrúar 2014.

Sóknaraðila hafi 24. janúar sl. borist tilkynning frá [...], meðferðar og greiningarstöð ríkisins að telpan eigi í samneyti við varnaraðila. Þar komi fram að hún hafi talað um að hafa orðið vitni af grófum ofbeldisverkum s.s. barsmíðum varnaraðila og fylgt honum eftir þegar hann hafi ásamt vinum sínum innheimt vímuefnaskuldir. Þá leiki grunur á kynferðislegu sambandi þeirra sem staðfestur hafi verið af öðrum skjólstæðingum [...].

Telpan hafi komist í símasamband við varnaraðila á meðferðarheimilinu að [...] eftir að hún hafi hafið þar vistun, hann hafi komið til [...] og hafi þau hist í bifreið að kvöldlagi 10. febrúar sl. Með telpunni í för hafi tvær aðrar telpur sem einnig dvelji á meðferðarheimilinu og hafi þær allar þáð vímuefni sem varnaraðili hafi boðið þeim. Þá hafi varnaraðili afhent telpunni 5 gr. af vímuefninu marijúana sem hún hafi tekið með sér til baka á meðferðarheimilið. Daginn eftir hafi varnaraðili sótt telpuna í skólann við upphaf skóladags og farið með hana til [...]. Þar hafi þau stundað kynlíf og varnaraðili hafi keypt handa henni fatnað, snyrtivörur, skartgripi, látið hana hafa farsíma og 10.000 kr. í peningaseðlum. Lögreglan hafi verið kölluð á meðferðarheimilið þar sem vímuefnin sem afhent höfðu verið kvöldið áður hafi fundist undir rúmdýnu telpunnar. Hafi hún viðurkennt fyrir starfsmönnum og lögreglu að hafa fengið efnin og staðfest framangreint.

                Þann 14. febrúar sl. hafi stúlka sem dvelji á meðferðarheimilinu komið til baka úr frí í Reykjavík. Í Reykjavík hafði hún hitt varnaraðila sem hafi látið hana hafa ýmis vímuefni til að fara með að [...] til X. Þá leiki grunur á um að hún hafi einnig komið með síma fyrir telpuna svo þau varnaraðili gætu átt í samskiptum. Þann 15. febrúar sl. hafi telpan strokið af meðferðarheimili að [...] ásamt tveimur öðrum telpum og hafi verið auglýst eftir henni í fjölmiðlum. Telpan hafi fundist í gær og dvelji hún nú í neyðarvistun á [...] en fyrirhugað sé að hún fari aftur að [...] (dskj. nr. 4-7, 9, 15 og 16).

                Krafa sóknaraðila grundvallist eins og fram hafi komið á ákvæði 37. gr. laga nr. 80/2002 sem innihaldi sérreglu um nálgunarbann þegar barnaverndarnefndir telji að barni sé hætta búin af háttsemi og framferði manns. Við setningu laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 sem tekið hafi gildi 30. júní 2011 verði ekki haggað við framangreindri sérreglu heldur bætt við tilvísun til laganna hvað málsmeðferð varði að öðru leyti. Þá sé í almennum athugasemdum við frumvarpið þess getið að leitað hafi verið til barnaverndarnefnda eftir upplýsingum um það hver reynsla þeirra sé af 37. gr. Nokkrar barnaverndarnefndir hafi haft reynslu af úrræðinu í einstaka málum, einu sinni til tvisvar sinnum í hverju barnaverndarumdæmi og hafi þar verið bæði um að ræða nefndir í fjölmennum og fámennari barnaverndarumdæmum. Í þeim tilvikum þar sem reynt hafi á ákvæðið í framkvæmd hafi reynslan af ákvæðinu verið góð. Með vísan til framangreinds verði að ætla að um sé að ræða tækt barnaverndarúrræði.

                Sé það afstaða sóknaraðila að telpunni sé hætta búin af háttsemi og framferði varnaraðila og að hann raski friði hennar í skilningi 37. gr. laga nr. 80/2002, sbr. einnig a-lið 4. gr. laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011. Það sé nauðsynlegt að telpan fái ekki tækifæri til að umgangast varnaraðila frekar enda hafi hann með háttsemi sinni truflað mjög meðferð hennar og mögulegan bata með því að útvega henni vímuefni og með heimsóknum til hennar. Telpan sé rétt nýlega orðin 16 ára gömul meðan varnaraðili sé 32 ára gamall eða alls 16 árum eldri en hún. Hann eigi sér allnokkurn sakaferil, allt aftur til ársins 1998. Hafi varnaraðili hlotið 8 refsidóma og fjórum sinnum gengist undir sektarrefsingu vegna líkamsárása, auðgunarbrota, umferðar- og fíkniefnalagabrota. Meðal annars hafi varnaraðili verið í [...] dæmdur til tveggja ára fangelsisrefsingar vegna brots gegn 2. mgr. 218. gr., 1. mgr. 217. gr. og 254. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940 með síðari breytingum. Þá hafi hann í [...] verið dæmdur til þriggja ára fangelsisrefsingar vegna brots gegn 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en með þeim dómi hafi jafnframt verið dæmd upp 360 daga reynslulausn. Þá hafi varnaraðili verið dæmdur til að sæta fangelsi í 5 ár, þann [...], fyrir brot á 1. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga.

                 Við mat á skilyrðum fyrir beitingu nálgunarbanns samkvæmt 37. gr. barnaverndarlaga beri að líta til þess að um barnaverndarúrræði sé að ræða en ekki lögregluaðgerð. Ekki verði talið sennilegt að vernda megi friðhelgi telpunnar svo hún nái bata með öðru og vægara móti en með því að varnaraðila verði gert að sæta nálgunarbanni þar til að fyrirhugaðri vistun telpunnar að [...] ljúki.

                 Sóknaraðili byggir kröfur sína á 37. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002. Um máls­meðferð þegar ákvæðum barnaverndarlaga sleppir fer eftir ákvæðum laga um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011 og ákvæðum XV. kafla laga um meðferð sakamála nr. 88/2008 eftir því sem við á.

Niðurstaða:

Sóknaraðili byggir kröfugerð sína á 37. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 og lögum um nálgunarbann og brottvísun af heimili nr. 85/2011. Samkvæmt 37. gr. laga nr 80/2002 getur barnaverndarnefnd, þyki henni að barni sé búin háski af háttsemi eða framferði manns svo sem vegna ofbeldis, ógnana eða hótana eða vegna vímuefnaneyslu eða annars athæfis, krafist þess fyrir dómi að viðkomandi verið bannað að koma á tiltekin stað eða svæði, veita eftirför, heimsækja eða setja sig með öðrum hætti í samband við barn.

Fyrir dóminn hafa verið lögð fram gögn sem benda til þess að varnaraðili hafi verið í samskiptum við X á meðan hún var í vistun á meðferðarheimili Barnaverndarstofu að [...] í [...]. Hafi hann m.a. afhent henni fíkniefni og aðstoðað hana við strok og verið í samvistum við hana á meðan hún var í stroki. Staðfesti verjandi varnaraðila að einhver samskipti hafi verið milli hans og stúlkunnar.

                X varð 16 ára gömul í janúar sl. og samkvæmt gögnum málsins á hún við alvarlegan vímuefnavanda að stríða. Hún hefur verið í neyslu harðra fíkniefna og í félagsskap sem henni er talin hættulegur, m.a. með varnaraðila. Hún samþykkti að vera í vistun á langtímameðferðarheimili á vegum Barnaverndarstofu í allt að eitt ár eða til 4. febrúar 2014. Með vísan til framangreinds og framlagðra gagna er tekið undir það með sóknaraðila að stúlkunni sé hætta búin af háttsemi og framferði varnaraðila og vistun hennar á vegum Barnaverndarstofu hafi ekki ein og sér dugað til að hindra samskipti á milli varnaraðila og stúlkunnar frá því að hún hóf vistun þann 4. febrúar sl. Verður að telja að henni sé háski búin af háttsemi og framferði varnaraðila sem sé til þess fallin að hindra að vistun nýtist stúlkunni en þar er m.a. tekið á vímuefnavanda hennar. Þykja því uppfyllt skilyrði 37. gr. barnaverndarlaga og jafnframt það skilyrði a-liðar 4. gr. laga nr. 85/2011 að raskað sé friði stúlkunnar. Er því af hálfu dómarans fallist á kröfu sóknaraðila eins og hún er fram sett. Ekki þykja efni til að marka nálgunarbanninu skemmri tíma.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl. sem ákveðst 62.750 krónur og þóknun Kristjönu Jónsdóttur hdl. skipaðs réttargæslumanns X 62.750 krónur greiðast úr ríkissjóði.

Sigríður Elsa Kjartansdóttir settur héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð: 

Varnaraðili, X kt. [...], [...], [...], skal sæta nálgunarbanni samkvæmt 37. gr. barnaverndarlaga nr. 80/2002 til 4. febrúar 2014 þannig að honum er ekki heimilt að koma á eða í nánd við [...], meðferðar og greiningarstöð ríkisins, þar sem X, kt. [...], er nú neyðarvistuð, [...] í [...], þar sem hún er vistuð á vegum barnaverndaryfirvalda, [...] í [...], þar sem hún sækir skóla og heimili hennar að [...] í [...], á svæði sem afmarkast við 50 metra radíussvæði umhverfis áður greinda staði, mælt frá miðju húsanna.

                Jafnframt er varnaraðila óheimilt að veita X eftirför, heimsækja hana á annan stað eða setja sig með öðrum hætti í samband við hana t.d. símasamband, í gegnum SMS-skilaboð eða internetið.

Þóknun skipaðs verjanda varnaraðila, Vilhjálms H. Vilhjálmssonar hrl. sem ákveðst 62.750 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti og þóknun skipaðs réttargæslumanns X, Kristjönu Jónsdóttur hdl., sem ákveðst 62.750 krónur, að meðtöldum virðisaukaskatti, greiðist úr ríkissjóði.