Hæstiréttur íslands
Mál nr. 556/2017
Lykilorð
- Skuldamál
Reifun
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Benedikt Bogason og Viðar Már Matthíasson.
Áfrýjandi skaut málinu upphaflega til Hæstaréttar 22. júní 2017. Ekki varð af fyrirhugaðri þingfestingu þess 9. ágúst 2017 og áfrýjaði hann öðru sinni 5. september það ár. Hann krefst aðallega sýknu af kröfu stefnda en til vara að krafan verði lækkuð og upphafstími dráttarvaxta miðaður við ,,dómsuppsögu eða birtingu stefnu.“ Í báðum tilvikum krefst hann málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms þó þannig að höfuðstóll skuldar áfrýjanda verði lækkaður í 70.473.037 krónur og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Stefndi hefur hér fyrir dómi lækkað kröfu sína í framangreinda fjárhæð. Hann skýrir þá lækkun svo að í innheimtubréfum hans 28. janúar 2013 hafi höfuðstóll þeirrar skuldar sem áður var í japönskum jenum verið 35.940.062 krónur en höfðustóll þeirrar sem áður var í svissneskum frönkum 34.533.011 krónur og sé krafa hans nú samtala þessara fjárhæða. Í breyttri kröfugerð stefnda felst að hann krefst ekki vaxta frá þeim tíma sem endurútreikningur fór fram, 16. apríl 2012, til 28. febrúar 2013.
Að þessu gættu en að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður hann staðfestur um annað en fjárhæð dómkröfunnar.
Áfrýjandi greiði stefnda málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Áfrýjandi, Ístraktor ehf., greiði stefnda, Landsbankanum hf., 70.473.037 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 28. febrúar 2013 til greiðsludags.
Málskostnaðarákvæði hins áfrýjaða dóms skal vera óraskað.
Áfrýjandi greiði stefnda 800.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjaness 24. mars 2017.
Mál þetta var þingfest 10. febrúar 2016 og tekið til dóms 2. mars sl. Stefnandi er Landsbankinn hf., Austurstræti 11, Reykjavík, en stefndi er Ístraktor ehf., Smiðsbúð 2, Garðabæ.
Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda skuld að fjárhæð 78.396.528 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 28. febrúar 2013 til greiðsludags. Einnig er krafist málskostnaðar samkvæmt mati dómsins og virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.
Stefndi krefst aðallega sýknu í málinu en til vara að kröfur stefnanda verði lækkaðar. Stefndi krefst málskostnaðar úr hendi stefnanda og að hann beri virðisaukaskatt.
Með úrskurði 7. október 2016 var frávísunarkröfu stefnda hafnað.
I
Stefnandi kveður málavexti þá að þann 11. september 2007 hafi stefndi stofnað myntveltureikning JPY nr. 0111-29-049028 við útibú Landsbanka Íslands hf., Laugavegi 77, Reykjavík, og fengið yfirdráttarheimild á reikninginn. Yfirdráttarheimildin hafi runnið út án þess að uppsöfnuð skuld myntveltureikningsins væri greidd og hafi reikningnum í kjölfarið verið lokað. Uppsöfnuð skuld reikningsins hafi þá verið að fjárhæð JPY 49.681.115,46.
Þann 17. apríl 2012 hafi stefnda, sem eiganda reikningsins, verið sent bréf þar sem fram hafi komið að myntveltureikningurinn hafi verið endurútreiknaður í samræmi við lög nr. 151/2010 um breytingar á lögum nr. 38/2001 sem kveði á um endurútreikning lána með ólögmætri gengistryggingu. Hafi endurútreikningurinn miðast við lægstu óverðtryggðu vexti sem Seðlabanki Íslands birti, sbr. 10. gr. sömu laga. Staða myntveltureikningsins fyrir endurútreikning hafi verið neikvæð um 78.088.777 krónur en eftir endurútreikning hafi staða reikningsins verið neikvæð um 35.928.162 krónur en endurútreikningur hafi miðast við 16. apríl 2012. Við endurútreikning hafi myntveltureikningurinn nr. 0111-29-049028 fengið nýtt númer, nú samkvæmt yfirdrætti á veltureikningi nr. 0111-26-799047 í útibúi Landsbankans.
Þann 11. október 2012 í máli nr. 467/2011 hafi Hæstiréttur kveðið upp dóm þess efnis að yfirdráttarlán á gjaldeyrisreikningum væru gild lán í erlendum gjaldmiðli. Samkvæmt dómnum sé ljóst að endurútreikningur myntveltureikningsins hafi verið umfram skyldu bankans. Yfirdráttarskuldin verði því ekki endurreiknuð frekar, enda um hreina ívilnun bankans að ræða.
Stefnda hafi verið sent innheimtubréf þann 28. janúar 2013. Staða skuldarinnar þann dag hafi verið 39.978.363 krónur sem sé hluti af stefnufjárhæðinni. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Í öðru lagi hafi stefndi þann 11. september 2007 stofnað myntveltureikning CHF nr. 0111-29-049029 við útibú Landsbanka Íslands hf., Laugavegi 77, Reykjavík, og fengið yfirdráttarheimild á reikninginn. Yfirdráttarheimild á reikningnum hafi runnið út án þess að uppsöfnuð skuld myntveltureikningsins væri greidd og hafi reikningnum í kjölfarið verið lokað. Uppsöfnuð skuld reikningsins hafi þá verið að fjárhæð CHF 501.591,20.
Þann 17. apríl 2012 hafi stefnda, sem eiganda reikningsins, verið sent bréf þar sem fram kom að myntveltureikningurinn hafi verið endurútreiknaður í samræmi við lög nr. 151/2010 um breytingar á lögum nr. 38/2001 sem kveði á um endurútreikning lána með ólögmætri gengistryggingu. Hafi endurútreikningurinn miðast við lægstu óverðtryggðu vexti sem Seðlabanki Íslands birtir, sbr. 10. gr. sömu laga. Staða myntveltureikningsins fyrir endurútreikning hafi verið neikvæð um 69.580.731 krónu en eftir endurútreikning hafi staða reikningsins verið neikvæð um 34.521.111 krónur en endurútreikningur hafi miðað við 16. apríl 2012. Við endurútreikning hafi myntveltureikningurinn nr. 0111-29-049029 fengið nýtt númer, nú samkvæmt yfirdrætti á veltureikningi nr. 0111-26-799048 í útibúi Landsbankans.
Þann 11. október 2012 í máli nr. 467/2011 hafi Hæstiréttur kveðið upp dóm þess efnis að yfirdráttarlán á gjaldeyrisreikningum væru gild lán í erlendum gjaldmiðli. Samkvæmt dómnum sé ljóst að endurútreikningur myntveltureikningsins hafi verið umfram skyldu bankans. Yfirdráttarskuldin verði því ekki endurreiknuð frekar, enda um hreina ívilnun bankans að ræða.
Stefnda hafi verið sent innheimtubréf þann 28. janúar 2013. Staða skuldarinnar þann dag hafi verið að fjárhæð 38.418.165 krónur sem sé hluti af stefnufjárhæðinni. Skuld þessi hafi ekki fengist greidd þrátt fyrir innheimtutilraunir og sé því nauðsynlegt að höfða mál til greiðslu hennar.
Hvað aðild Landsbankans hf. varði hafi Fjármálaeftirlitið (FME), með heimild í 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr 125/2008 um heimild til fjárveitingar úr ríkissjóði vegna sérstakra aðstæðna á fjármálamarkaði o.fl., tekið þá ákvörðun að ráðstafa eignum og skuldum Landsbanka Íslands hf. til Nýja Landsbanka Íslands hf. Ákvörðun FME um ráðstöfun eigna og skulda Landsbanka Íslands hf., kt. 540291-2259, til Nýja Landsbanka Íslands hf., kt. 471008-0280, (nú Landsbankinn hf., kt. 471008-0280) er dagsett þann 09.10.2008.
Stefnandi byggir á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Kröfur um dráttarvexti styður stefnandi við reglur III. kafla vaxtalaga nr. 38/2001, einkum 3. mgr. 5. gr. og 1. mgr. 6. gr. sömu laga. Krafan um málskostnað styðst við 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Krafa um virðisaukaskatt af málflutningsþóknun er reist á lögum nr. 50/1988. Stefnandi sé ekki virðisaukaskattsskyldur og beri honum því nauðsyn til að fá dóm fyrir skatti þessum úr hendi stefnda. Varðandi varnarþing vísast til 33. gr. laga nr. 91/1991.
II
Stefndi segir að umsóknir í nafni stefnda fyrir veltureikningum í framangreindum myntum hafi ekki verið undirritaðar af fyrirsvarsmönnum stefnda eða til þess bærum aðilum. Undirritanir beri með sér áritun eftir umboði og síðan fylgi óþekkt rithönd og ógreinilegt nafn. Á þessum tíma hafi Páll Gíslason einn setið í stjórn stefnda og eiginkona hans, Elín Erna Markúsdóttir, í varastjórn. Páll hafi gegnt stöðu framkvæmdarstjóra. Hvorugt þeirra hafi undirritað umsóknirnar.
Stefndi vísar til allra þeirra sjónarmiða er fram koma í kafla um frávísun til stuðnings sýknu telji dómur þau ekki valda frávísun. Stefndi reisir sýknukröfu sína á meginreglum kröfu- og samningaréttar um greiðsluskyldu fjárskuldbindinga. Þá krefst stefndi sýknu af kröfu stefnanda þar sem stefndi sjálfur hafi ekki sótt um myntveltureikninga í JPY og CHF og hafi ekki gefið neinum umboð til þess fyrir sína hönd. Verði hann ekki af umsóknunum bundinn, né af skilmálum eða skilyrðum sem þeim fylgi.
Telji dómur að stefnda hafi borið að greiða til baka þá fjármuni, sem hann hefur fengið frá stefnanda, sé krafa stefnanda fyrnd, enda fyrningarfrestur fjögur ár þar sem ekki er um lán að ræða. Grundvöllur kröfu væri mögulega endurkrafa vegna greiðslu án og/eða umfram skyldu. Stefnandi sé fjármálafyrirtæki og beri ríka aðgæsluskyldu og beri að viðhafa vandaðan frágang skjala.
Til vara krefst stefndi lækkunar á dómkröfu stefnanda og hafnar því sem segir í stefnu að útreikningar stefnanda séu ívilnandi fyrir stefnda.
Stefndi hafnar því að hafa nokkru sinni móttekið innheimtubréf vegna kröfu stefnanda. Sé dráttarvaxtakröfu því sérstaklega mótmælt og krafist að henni verði markaður skemmri tími.
Stefndi vísar til meginreglna samninga- og kröfuréttar, laga um fjármálafyrirtæki nr. 161/2002, ákvæða samningalaga nr. 7/1936, laga um einkahlutafélög nr. 138/1994, laga nr. 38/2001 um vexti og verðtyggingu, laga um fyrningu kröfuréttinda nr. 150/2007 og laga um fyrningu skulda og annarra kröfuréttinda nr. 15/1904. Um réttarfar er vísað til laga nr. 91/1991. Krafa um málskostnað er reist á ákvæðum einkamálalaga nr. 91/1991 og krafa um virðisaukaskatt er reist á lögum um virðisaukaskatt nr. 50/1988.
III
Svo sem að framan greinir er krafa stefnanda reist á tveimur myntveltureikningum með yfirdráttarheimild, annars vegar í japönskum jenum og hins vegar í svissneskum frönkum. Stefnandi hefur endurútreiknað kröfu sína í samræmi við lög nr. 15/2010 um breytingar á lögum nr. 38/2001. Af hálfu stefnda er ekki byggt á því að um ólöglegt gengistryggt lán sé að ræða.
Með tveimur umsóknum 11. september 2007 stofnaði stefndi reikningana. Undir umsóknirnar ritaði Jón Egilsson eftir umboði. Umboðið hefur verið lagt fram í málinu og er það undirritað af tveimur stjórnarmönnum stefnda f.h. stefnda, Páli Gíslasyni og Elínu Ernu Markúsdóttur, og samkvæmt umboðinu veita þau Jóni fullt og ótakmarkað umboð til þess að undirrita skjöl um stofnun myntveltureikninga í útibúi stefnanda. Haldlaus er því með öllu sú málsástæða stefnda að hann hafi ekki, eða nokkur á hans vegum, sótt um að opna myntveltureikningana.
Ekki er stoð í þeirri málsástæðu stefnda að krafa stefnanda sé fyrnd þar sem krafa byggð á peningaláni fyrnist á 10 árum, sbr. 2. mgr. 5. gr. laga nr. 150/2007 um fyrningu kröfuréttinda.
Enda þótt enginn skriflegur lánssamningur hafi verið gerður um viðskipti aðila, notaði stefndi reikningana athugasemdalaust og dró af þeim þá fjárhæð sem stefnt er út af. Tekið var fram í öllum reikningsyfirlitum, sem stefndi fékk send, að athugasemdir skyldu gerðar innan 20 daga frá viðtöku yfirlits en ella teldust reikningar réttir. Engar athugasemdir bárust frá stefnda. Verður því að líta svo á að komist hafi á samningur milli aðila með þeim kjörum og skilmálum sem að framan greinir og er stefndi bundinn af þeim samningi.
Ekki er tilefni til að fallast á kröfu stefnda um lækkun á dómkröfum stefnanda, enda hefur sú krafa ekki verið rökstudd.
Stefndi mótmælir dráttarvaxtakröfu stefnanda. Stefnandi krefst þess að upphafstími dráttarvaxta miðist við þann tíma er einn mánuður var liðinn frá dagsetningu innheimtubréfs og verður fallist á það, sbr. 3. mgr. 5. gr. laga nr. 38/2001.
Samkvæmt framansögðu verður fallist á kröfu stefnanda að öllu leyti. Eftir þeirri niðurstöðu verður stefndi dæmdur til að greiða stefnanda 800.000 krónur í málskostnað og hefur þá ekki verið tekið tillit til reglna um virðisaukaskatt.
Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.
Dómsorð
Stefndi, Ístraktor ehf., greiði stefnanda 78.396.528 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 28. febrúar 2013 til greiðsludags.
Stefndi greiði stefnanda 800.000 krónur í málskostnað.