Hæstiréttur íslands

Mál nr. 477/2003


Lykilorð

  • Handtaka
  • Brot í opinberu starfi
  • Lögreglumaður
  • Skilorð
  • Sératkvæði


Fimmtudaginn 27

 

Fimmtudaginn 27. maí 2004.

Nr. 477/2003.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Þórjóni Pétri Péturssyni og

(Þórunn Guðmundsdóttir hrl.)

X

(Helgi Jóhannesson hrl.)

 

Handtaka. Brot í opinberu starfi. Lögreglumenn. Skilorð. Sératkvæði.

Lögreglumennirnir ÞP og X voru ákærðir fyrir ólöglega handtöku, ranga skýrslugerð og brot í opinberu starfi. Var ÞP sakfelldur fyrir að hafa handtekið nafngreindan mann á veitingastaðnum Nonnabitum í Reykjavík án nægilegrar ástæðu eða tilefnis, en maðurinn hafði tekið mynd af ÞP í óþökk hans. Voru báðir lögreglumennirnir sýknaðir af ákæru um að hafa handtekið annan mann fyrir framan veitingastaðinn Café Amsterdam í Tryggvagötu án nægilegra ástæðna eða tilefnis. Var talið nægilega í ljós leitt með framburði annarra lögreglumanna sem komu á vettvang, að ástandið hafi verið þannig við veitingastaðinn að við öllu hafi mátt búast. Taldist mat ákærðu á aðstæðum og framganga þeirra ekki hafa verið með þeim hætti að sannað væri að handtakan hafi verið tilefnislaus. Þá var ÞP sakfelldur fyrir að hafa beitt úðavopni gegn manni sem lét dólgslega við fyrrnefndan veitingastað við Tryggvagötu, en ekki varð séð að nauðsyn hafi borið til beitingar þess. Þá var ákærðu báðum gefin að sök röng skýrslugerð vegna þess atburðar. Var ÞP sakfelldur fyrir að hafa í skýrslu lýst ranglega forsendum notkunar úðavopnsins. Þegar litið var til stöðu ákærðu á vettvangi og þess að X studdist við frásögn ÞP um það sem hann sé ekki sjálfur, var ekki talið nægilega sannað að hann hafi gerst sekur um ranga skýrslugerð og var því sýknaður af þeim ákærulið einnig. Var X þannig sýknaður af sakargiftum samkvæmt ákæru en ÞP sakfelldur fyrir ólöglega handtöku, ólögmæta notkun úðavopns og ranga skýrslugerð. Var hann dæmdur í tveggja mánaða skilorðsbundið fangelsi.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hrafn Bragason, Ólafur Börkur Þorvaldsson og Pétur Kr. Hafstein.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 9. desember 2003 eftir yfirlýsingu ákærðu um áfrýjun og einnig af hálfu ákæruvalds, sem krefst sakfellingar samkvæmt ákæru, að refsing ákærðu verði þyngd og þeir dæmdir til að greiða H miskabætur.

Ákærðu krefjast aðallega sýknu, til vara að héraðsdómur verði ómerktur en til þrautavara að þeir verði dæmdir í vægustu refsingu sem lög leyfa.

I.

Kröfu sína um ómerkingu héraðsdóms styðja ákærðu með því að rannsókn málsins hafi verið verulegum annmörkum háð og héraðsdómur hafi átt að vera fjölskipaður.

Ríkissaksóknari fer með rannsókn kærumáls á hendur lögreglumanni fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans samkvæmt 1. mgr. 35. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, sbr. 6. gr. laga nr. 29/1998. Samkvæmt 3. mgr. 35. gr. ber lögreglu að veita ríkissaksóknara aðstoð við rannsókn slíkra mála eftir því sem óskað er. Ríkissaksóknari leitaði eftir aðstoð hjá embætti sýslumannsins í Stykkishólmi, þar sem embætti ríkislögreglustjóra veitti ákærðu lausn frá störfum um stundarsakir. Yfirlögregluþjónninn í Stykkishólmi vann að rannsókninni ásamt saksóknara og tók skýrslur af vitnum í síma og hafa ákærðu bent á að fyrir dómi hafi komið fram að ónákvæmni hafi gætt í rannsókninni. Auk þess hefur ákærði Þórjón Pétur lagt fyrir Hæstarétt yfirlýsingar tveggja starfsmanna veitingastaðarins Nonnabita, sem voru við störf aðfaranótt laugardagsins 8. mars 2003, þegar atburður í 1. ákærulið gerðist. Ekkert samband hafi verið haft við þessa starfsmenn við rannsókn málsins og tilviljanir ráðið hvaða vitni gáfu skýrslur við rannsóknina um atburðinn í Tryggvagötu næstu nótt.

Þeir sem gáfu skýrslu í síma við rannsókn málsins komu fyrir dóm. Ekkert við skýrslugerð þessa leiðir til ómerkingar málsins. Framlagðar yfirlýsingar tveggja starfsmanna Nonnabita, sem ekki komu fyrir dóm í málinu, bæta engu við það sem þegar er fram komið hjá ákærða og vitnum og ekki er í raun deilt um málsatvik að þessu leyti. Ekki leiðir heldur til ómerkingar héraðsdóms að ekki hafi verið neytt heimildar síðari málsliðar 1. mgr. 5. gr. laga nr. 19/991 um meðferð opinberra mála, að þrír héraðsdómarar skipi dóm í málinu.

II.

Samkvæmt 2. mgr. 1. gr. lögreglulaga er hlutverk lögreglu meðal annars að gæta almannaöryggis, halda uppi lögum og reglu og leitast við að tryggja réttaröryggi borgaranna. Í III. kafla laganna er fjallað um skyldur lögreglumanna og framkvæmd lögreglustarfa. Þar er að finna reglur um þær heimildir sem lögreglan hefur til þess að halda uppi lögum og reglu í landinu og um samskipti lögreglu og borgaranna. Í 13. gr. eru almennar reglur um árvekni í starfi, skyldur og ábyrgð sem því fylgja að rækja starfann af kostgæfni og samviskusemi og ávallt gæta fyllstu hlutlægni og réttsýni, eins og þar greinir nánar. Í 14. gr. er fjallað um valdbeitingu og sagt að lögreglu sé heimilt að beita valdi við framkvæmd skyldustarfa sinna. Aldrei megi þeir þó ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni. Í því felst að aldrei er heimilt að grípa til valdbeitingar nema önnur vægari úrræði dugi ekki. Þetta er í samræmi við 12. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993, en þar er lögfest meðalhófsregla stjórnsýsluréttarins. Lögreglan má því aldrei ganga lengra en nauðsynlegt er hverju sinni. Í 15. gr. laganna er fjallað um aðgerðir í þágu almannafriðar, allsherjarreglu o.fl., og tilgreindar í almennum orðum þær aðstæður sem taldar eru réttlæta afskipti lögreglu af borgurunum. Í 16. gr. laganna eru tilgreindar heimildir lögreglu til handtöku í því skyni að halda uppi lögum og reglu, svo sem ef maður ærist á almannafæri eða veldur þar hneyksli eða hættu á óspektum. Í XII. kafla laga nr. 19/1991 eru handtökuheimildir sem tengjast rannsókn og meðferð opinberra mála. Í 3. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavík nr. 625/1987 með áorðnum breytingum er mælt svo fyrir að engin sú háttsemi, sem raskar allsherjarreglu, megi eiga sér stað á almannafæri og þar má enginn sýna öðrum áreitni eða hafa í frammi ósæmilega háttsemi. Samkvæmt 1. mgr. 8. gr. samþykktarinnar er vegfarendum skylt að hlýða fyrirmælum lögreglu vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi reglu á almannafæri. Í þessu ljósi verða ákæruliðir virtir.

Í 1. ákærulið er ákærða Þórjóni Pétri einum gefið að sök að hafa handtekið nafngreindan mann á veitingastaðnum Nonnabitum í Hafnarstræti í Reykjavík aðfaranótt laugardagsins 8. mars 2003 án nægilegra ástæðna eða tilefnis. Verður með vísan til forsendna héraðsdóms fallist á sakfellingu ákærða samkvæmt þessum ákærulið og heimfærslu brots til refsiákvæðis.

Í 2. ákærulið er ákærðu gefið að sök að hafa handtekið H fyrir framan veitingastaðinn Café Amsterdam við Tryggvagötu aðfaranótt sunnudagsins 9. mars 2003 án nægilegra ástæðna eða tilefnis. Atvikum að handtöku H er lýst í héraðsdómi. Verður að leggja til grundvallar, að hann hafi, þegar ákærðu bar að í lögreglubifreið, þverskallast við að hlýða fyrirmælum þeirra um að færa sig af miðri götunni og haft uppi stóryrði og skæting. Ákærðu hafa borið að þeim hafi sýnst maðurinn í annarlegu ástandi og stúlka, sem með honum var á götunni, mjög ölvuð. Ákærðu kölluðu strax eftir aðstoð starfsfélaga sinna í nálægri lögreglubifreið. Bifreið ákærðu, sem ákærði X ók, var því næst snúið við og lagt fyrir framan veitingastaðinn. Á myndskeiði úr upptöku öryggismyndavélar, sem sýnt var í Hæstarétti, sést þegar ákærði Þórjón Pétur, sem stjórnaði aðgerðum, er kominn út úr bifreiðinni og tekur H tökum í því skyni að handtaka hann og ákærði X kemur honum til aðstoðar í næstu andrá. Segjast þeir hafa krafið H upplýsinga um nafn og kennitölu, en hann neitað og verður að leggja frásögn þeirra til grundvallar eins og í héraðsdómi greinir. H var kominn upp á gangstétt þegar þeir lögðu bifreiðinni. Afskipti ákærðu af honum voru í upphafi nauðsynleg þar sem hann skapaði sér og öðrum hættu úti á götunni og þverskallaðist við að hlýða fyrirmælum þeirra. Eftir að hann var kominn upp á gangstétt hefði þó mátt láta hann afskiptalausan. Hins vegar er þess að gæta að ákærðu töldu sér skylt að ganga úr skugga um hver maðurinn væri og fóru út úr bifreiðinni í því skyni. Nægilega hefur verið leitt í ljós með framburði annarra lögreglumanna, sem komu á vettvang, að ástandið hafi verið þannig við veitingastaðinn að við öllu hafi mátt búast. Ákærðu handtóku manninn og færðu fyrir varðstjóra og var hann látinn laus innan tíðar. Varðstjórinn hefur borið að maðurinn hafi verið í annarlegu ástandi. Telst mat ákærðu á aðstæðum og framganga þeirra ekki hafa verið með þeim hætti að sannað sé að handtakan hafi verið tilefnislaus þannig að þeir hafi gerst sekir um brot gegn hegningarlögum. Verða ákærðu því sýknaðir af þessum ákærulið.

Í 4. ákærulið er ákærða Þórjóni Pétri einum gefið að sök að hafa, er hann var að hverfa af vettvangi í Tryggvagötu, beitt úðavopni gegn nafngreindum manni. Eins og áður segir er nægilega leitt í ljós með vitnaframburði lögreglumanna á vettvangi að ástandið hafi verið eldfimt. Hins vegar verður ekki séð að nauðsyn hafi borið til að beita úðavopninu eins og ákærði gerði gagnvart manninum, sem sannanlega lét þó dólgslega, og verður með vísan til forsendna héraðsdóms að staðfesta sakfellingu hans í þessum ákærulið.

3. og 5. ákæruliðir. Hér er ákærðu gefin að sök röng skýrslugerð vegna atburðarins í Tryggvagötu. Ákærðu hafa borið því við að í skýrslum séu frásagnir frá sjónarhóli sögumanns og lýsi því hvernig hann upplifði ástandið. Ákærði Þórjón Pétur hafi upplifað þetta sem múgæsingu, ástandið hafi verið eldfimt og æsingurinn slíkur að sýnt þótti að þeir yrðu undir í átökum ef til þeirra kæmi. Jafnvel þótt orðið múgæsing hafi ekki verið hið rétta eigi röng orðanotkun ekki að leiða til sakfellingar í tilvikum sem þessu. Eins og í niðurstöðu héraðsdóms greinir var það notkun ákærðu á orðunum múgur og múgæsing sem fyrst og fremst þóttu röng og aðfinnsluverð. Þegar litið er til stöðu ákærðu á vettvangi og þess að ákærði X studdist við frásögn meðákærða um það sem hann sá ekki sjálfur, verður ekki talið að nægilega sé sannað að hann hafi gerst sekur um háttsemi samkvæmt 3. lið ákærunnar. Verður hann því sýknaður af honum. Í niðurstöðu héraðsdóms um 5. ákærulið er þess ekki getið, sem sannað er, að maðurinn hafi lamið í vélarhlíf lögreglubifreiðarinnar. Að öðru leyti verður með skírskotun til forsendna héraðsdóms fallist á sakfellingu ákærða Þórjóns Péturs í þessum ákærulið.

Samkvæmt framansögðu er niðurstaða málsins að ákærði X verður sýknaður af sakargiftum samkvæmt ákæru og ákærði Þórjón Pétur einnig af sakargiftum samkvæmt 2. ákærulið. Með vísan til 3. mgr. 172. gr. laga nr. 19/1991 er þá vísað frá héraðsdómi skaðabótakröfu H. Að öðru leyti er staðfest sakfelling ákærða Þórjóns Péturs samkvæmt 1., 4. og 5. ákæruliðum.

 Með vísan til þess sem í héraðsdómi greinir um refsiákvörðun þykir refsing ákærða Þórjóns Péturs hæfilega ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar í tvö ár frá birtingu dómsins og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Samkvæmt þessum úrslitum verður helmingur sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti lagður á ákærða Þórjón Pétur en annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, eins og nánar greinir í dómsorði

Dómsorð:

Ákærði X er sýkn af kröfum ákæruvaldsins í máli þessu.

Ákærði Þórjón Pétur Pétursson skal sæta fangelsi í tvo mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar í tvö ár frá uppkvaðningu dómsins og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Skaðabótakröfu H á hendur ákærðu er vísað frá héraðsdómi.

Ákærði Þórjón Pétur greiði helming alls sakarkostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti, þar með talin málsvarnarlaun, sem skipuðum verjanda hans voru ákveðin í héraðsdómi, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda hans fyrir Hæstarétti, Þórunnar Guðmundsdóttur hæstaréttarlögmanns, 350.000 krónur. Allur annar sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða X á báðum dómstigum, Helga Jóhannessonar hæstaréttarlögmanns, eins og þau voru ákvörðuð í héraði og 250.000 krónur fyrir Hæstarétti.

 

Sératkvæði

Gunnlaugs Claessen

Ég er sammála niðurstöðu meirihluta dómenda um sakfellingu ákærða Þórjóns Péturs samkvæmt 1. og 4. lið ákæru.

Samkvæmt 2. lið ákærunnar er báðum ákærðu gefið að sök að hafa sem lögreglumenn handtekið H í Tryggvagötu í Reykjavík  aðfaranótt 9. mars 2003 fyrir framan veitingastaðinn Café Amsterdam og fært hann á lögreglustöðina við Hverfisgötu án nægilegra ástæðna eða tilefnis. Er málsatvikum ítarlega lýst í hinum áfrýjaða dómi. Er óumdeilt að ákærðu komu á lögreglubíl að H, þar sem hann var úti á miðri götu og reyndi að ná leigubíl, sem reyndist vera frátekinn. Vísuðu þeir honum af götunni, en var svarað með skætingi og dónaskap. Ákærði X, sem ók bifreiðinni, snéri henni við og ók að manninum aftur, sem þá var kominn upp á gangstétt. Er því lýst í niðurstöðu annarra dómenda að á myndskeiði úr upptöku öryggismyndavélar sést að ákærði Þórjón Pétur tekur H tökum í því skyni að handtaka hann meðan ákærði X er enn ekki kominn að þeim á leið sinni frá bifreiðinni.

Með því að vera úti á götu framdi H minni háttar umferðarlagabrot. Þótt tilefni hafi verið til að vísa honum þaðan er þess að gæta að hann hlýddi fyrirmælum ákærðu þótt það væri gert með þeirri ólund, sem áður var getið. Hvað sem leið vilja ákærðu til að vita hver átti þarna hlut að máli var tafarlaus valdbeiting þeirra óþörf og ástæðulaus með öllu að virtri þeirri yfirsjón mannsins, sem á undan fór. Engar aðrar aðstæður á vettvangi gátu heldur réttlætt framgöngu ákærðu, en þegar þeir létu til skarar skríða voru þar ekki aðrir viðstaddir auk þeirra og hins handtekna en kona, sem var í för með þeim síðastnefnda. Aðra menn dreif að vegna þeirrar athygli, sem handtaka H og síðan konunnar vakti meðal nærstaddra. Að þessu virtu og að öðru leyti með vísan til forsendna héraðsdóms tel ég að staðfesta beri niðurstöðu hans um sakfellingu ákærðu samkvæmt 2. lið ákæru. Varðar brotið við 131. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Í 3. lið ákærunnar er ákærða X gefið að sök að hafa gefið ranga yfirlýsingu í lögregluskýrslu um atvikin í Tryggvagötu umrædda nótt. Hafi ranglega verið skráð að mikil múgæsing hafi myndast á vettvangi, ástandið verið mjög eldfimt og að notkun úðavopns hafi verið nauðsynleg til að lögregla kæmist af vettvangi án þess að til frekari átaka kæmi.

Fram er komið að þegar handtökum var lokið og ákærðu hugðust halda brott voru fáir menn mjög nærri þeim, sem létu ófriðlega. Framganga ákærðu hafði hins vegar dregið að sér athygli fleiri manna, sem stóðu rétt hjá framan við Café Amsterdam. Verður ráðið að þeir hafi einnig látið í ljós óánægju með aðgerðir ákærðu. Þegar þessi aðstaða er virt verður ekki fallist á með ákæruvaldi að í því hafi falist röng yfirlýsing ákærða að ástand á vettvangi hafi er þarna var komið verið orðið eldfimt. Þegar litið er til fjölda og háttsemi þeirra, sem stóðu hjá ákærðu og fyrir framan áðurnefndan veitingastað, eru heldur ekki alveg næg efni til að fallast á að sú yfirlýsing hafi verið röng að mikil múgæsing hafi myndast á vettvangi. Þessi liður ákæru tekur loks til þeirra orða í lögregluskýrslunni að notkun úðavopns hafi verið nauðsynleg til að lögregla kæmist af vettvangi án þess að til frekari átaka kæmi. Í dómi meirihluta dómenda er komist að þeirri niðurstöðu varðandi 4. lið ákærunnar að enga nauðsyn hafi borið til að beita úðavopninu gegn I. Með sama hætti tel ég þá frásögn í lögregluskýrslu ekki standast að notkun úðavopnsins hafi verið nauðsynleg til að lögregla kæmist af vettvangi án þess að til frekari átaka kæmi. Samkvæmt þessu tel ég að sakfella beri ákærða X fyrir þennan hluta af 3. lið ákærunnar.

Í 5. lið ákærunnar er ákærða Þórjóni Pétri gefið að sök að hafa gefið ranga yfirlýsingu í lögregluskýrslu um atvik, sem varða 4. lið ákæru. Eru ákæruefnin þau að hafa skráð að múgæsing hafi brotist út eftir handtöku H, sbr. 2. lið ákæru, múgurinn verið um og innan við 10 manns, ákærði hafi séð að I ætlaði að ráðast að lögreglubifreiðinni og með því móti að fá múginn með sér. Með vísan til þess, sem greinir að framan um 3. lið ákæru, tel ég að sýkna beri ákærða fyrir þau orð í skýrslunni, sem varða múgæsingu og fjölda þeirra, sem létu ófriðlega. Þótt I hafi slegið höndunum niður á vélarhlíf lögreglubifreiðarinnar og hrækt á hana er ekkert fram komið í málinu um að hann hafi eftir það ætlað að ráðast að bifreiðinni og með því móti fá múginn með sér. Þessi orð eru haldlaus og ber að sakfella ákærða Þórjón Pétur fyrir þennan hluta af 5. lið ákærunnar.

Samkvæmt framanröktu tel ég að sakfella beri ákærðu samkvæmt 2. lið ákærunnar, ákærða X að hluta af 3. lið hennar, en ákærða Þórjón Pétur einungis að hluta af 5. lið ákæru. Þar sem niðurstaða annarra dómenda um þessi atriði er á annan veg eru ekki efni til að fjalla nánar um refsingu ákærðu eða skaðabótakröfu H.

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 2. desember 2003.

          Mál þetta, sem dómtekið var 21. nóvember sl., er höfðað samkvæmt ákæru útgefinni af ríkissaksóknara 10. júní 2003 á hendur Þórjóni Pétri Péturssyni, kt. 250465-5159, Kringlunni 91, Reykjavík, og X, kt. […], […], Reykjavík,

 

fyrir ólöglegar handtökur, ranga skýrslugerð og brot í opinberu starfi eins og hér greinir:

 

1.       Gegn ákærða Þórjóni Pétri fyrir að hafa sem lögreglumaður, aðfaranótt laugardagsins 8. mars 2003 á veitingastaðnum Nonnabitar (svo), Hafnarstræti 18, Reykjavík, handtekið S, kt. […], og fært á lögreglustöðina við Hverfisgötu án nægilegra ástæðna eða tilefnis.

 

Telst þetta varða við 131. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 132. gr. sömu laga.

 

2.       Gegn báðum ákærðu fyrir að hafa sem lögreglumenn, aðfaranótt sunnudagsins 9. mars 2003 í Tryggvagötu framan við veitingastaðinn Café Amsterdam, handtekið H, kt. [...], og fært hann á lögreglustöðina við Hverfisgötu án nægilegra ástæðna eða tilefnis.

 

Telst þetta varða við 131. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, en til vara við 132. gr. sömu laga.

 

3.       Gegn ákærða X fyrir ranga skýrslugerð með því að hafa í lögregluskýrslu dagsettri 9. mars 2003 sem m.a. fjallaði um handtöku H, sbr. 2. tl. ákæru, skráð ranglega að mikil múgæsing hafi myndast á vettvangi, ástandið hafi verið mjög eldfimt og að notkun úðavopns hafi verið nauðsynleg til að lögregla kæmist af vettvangi án þess að til frekari átaka kæmi.

 

Telst þetta varða við 146. gr. og 138. gr. almennra hegningarlaga.

 

4.       Gegn ákærða Þórjóni Pétri fyrir brot í opinberu starfi með því að hafa, er hann var að hverfa af vettvangi í Tryggvagötu aðfaranótt sunnudagsins 9. mars 2003, sbr. 2. tl. ákæru, beitt úðavopni gegn I, kt. [...], án nægilegra ástæðna eða tilefnis.

 

Telst þetta varða við 132. gr. almennra hegningarlaga.

 

5.       Gegn ákærða Þórjóni Pétri fyrir ranga skýrslugerð með því að hafa í lögregluskýrslu dagsettri 9. mars 2003 lýst ranglega forsendum notkunar úðavopns, sbr. 4. tl. ákæru, er hann skráði í skýrsluna að múgæsing hefði brotist út eftir handtöku H, sbr. 2. tl. ákæru, múgurinn hefði verið um og yfir 10 manns, ákærði hefði séð að I ætlaði að ráðast að lögreglubifreiðinni og með því móti að fá múginn með sér.

 

Telst þetta varða við 146. gr. og 138. gr. almennra hegningarlaga.

 

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.

 

H krefst miskabóta úr hendi ákærðu að fjárhæð kr. 600.000 með vöxtum skv. 1. mgr. 8. gr. vaxtalaga nr. 38/2001 frá 9. mars 2003 til 28. júní 2003 en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. vaxtalaga frá þeim degi til greiðsludags auk greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.

 

Ákæruliður 1.

             Hinn 18. mars 2003 kom S á lögreglustöðina Hverfisgötu og lagði fram kæru á hendur ákærða Þórjóni Pétri Péturssyni fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans sem lögreglumaður aðfararnótt laugardagsins 8. mars 2003. Kærandi S kvaðst hafa verið staddur inni á Nonnabita og hafa haft meðferðis myndavél sem var í eigu rafmagns- og tölvuverkfræðideildar Háskóla Íslands, en nemendur höfðu verið í vísindaferð þennan dag. Kvaðst hann hafa tekið þarna inni á staðnum mynd af myndarlegri stúlku. Þar hafi einnig verið staddir þrír lögreglumenn. Kvaðst hann hafa sagt við stúlkuna að færa sig að lögreglumönnunum svo hann gæti tekið mynd af henni með þeim. Þegar hann var að tala við stúlkuna hafi hann heyrt ákærða Þórjón Pétur, sem var einn lögreglumannanna, segja „ekki taka mynd,“ en hann hafi þá snúið sér við og tekið mynd. Ákærði hafi þá gengið að honum og sagt að hann væri handtekinn og er hann hafi spurt fyrir hvað, hafi ákærði sagt að það væri fyrir „að fara ekki að fyrirmælum lögreglu.“ Hafi ákærði tekið af honum myndavélina og leitt hann út í lögreglubifreið þar fyrir utan. Kvaðst hann enga mótspyrnu hafa veitt og ekki hafa verið settur í handjárn. Í lögreglubifreiðinni kvaðst hann hafa beðist afsökunar og boðist til þess að eyða myndinni en ákærði hafi ekki yrt á hann og ekið með hann rakleitt á lögreglustöðina við Hverfisgötu. Þar hafi hann verið látinn bíða á gangi og eftir stutta bið hafi hann verið kallaður inn í herbergi. Þar inni hafi auk ákærða verið óeinkennisklæddur maður, hafi hann spurt hver þetta væri, en ákærði hafi svarað að það kæmi honum ekki við. Ekki hafi verið fleiri þarna inni, en annar lögreglumaðurinn sem var í lögreglubifreiðinni hafi komið og látið hann blása í áfengismæli. Þarna hafi hann fyrst verið beðinn um skilríki, og hefði hann ekki fyrr verið spurður um nafn eða annað. Á sömu stundu hafi ákærði spurt: „hvað það hafi verið sem ég ekki skildi er hann hafi beðið mig um að taka ekki mynd.” Kvaðst hann hafa svarað því til að þetta hefði verið gert í gríni. Síðan hafi kennitölu hans verið flett upp í tölvunni og hafi ákærði þá kallað hann „dýrbít.“ Hafi ákærði sagt honum að þegja þegar hann ætlaði að svara fyrir sig, og sagt að hann hefði truflað matartíma þeirra. Kvaðst kærandi hafa ítrekað afsökunarbeiðni sína og boðist til að eyða myndinni. Hafi ákærði beðið um að fá að sjá myndina, hafi hann litið á hana og síðan afhent honum myndavélina og leitt hann hann út. Hafi málinu lokið þar með. Myndin hafi síðan verið birt á heimasíðu félags rafmagns- og tölvuverkfræðinema, og um málið skrifað á heimasíðu nemanda með tilvísun á síðurnar tilveran.is og batman.is. Hann kvaðst sjálfur ekki hafa komið að þessum skrifum.

             Í lögregluskýrslu sem ákærði skrifar og er dagsett 13. mars 2003, segir um handtöku S, 8. mars sl. kl. 02.00, að ákærði og lögreglumaður [...], sem er vitnið X, hafi brugðið sér inn á Nonnabita til þess að fá sér snarl. Þar hafi ölvaður maður ítrekað gefið sig á tal við þá og óskaði eftir því að þeir létu mynda sig með einhverri ölvaðri stúlku sem einnig hafi verið þar að kaupa sér mat. Hafi þeir ítrekað neitað, en, að því er virtist til að ögra þeim, hafi maðurinn byrjað að mynda þá þrátt fyrir mótmæli þeirra. Segir ákærði síðan í skýrslunni að hann hafi þá tekið manninn afsíðis í þeim tilgangi að ræða við hann. Síðan segir orðrétt: „Þar sem að töluvert var af mjög ölvuðu fólki ákváðum við að færa drukkna ljósmyndarann í lögreglubifreið okkar þar sem við hefðum frekara næði til viðræðna við hann þar. Er í lögreglubifreiðina var komið óskaði umræddur aðili eftir að fá skýringar á því hví hann hefði verið færður í lögreglubifreiðina og var hann allur hinn versti. Kvaðst hann óska eftir að verða handtekinn og kvaðst ekkert við okkur hafa að tala. Við svo búið ákváðum við að fara á lögreglustöðina og reyna að ræða við aðilann þar. Er á lögreglustöðina var komið færðum við aðilann í umferðardeild, (er þá framvísað fyrst skilríkjum) og reyndist nafn hans vera S. Aðspurður um hví hann hefði ekki viljað hlýða ósk okkar um að taka ekki myndir af okkur kvaðst hann engar skýringar á því geta gefið. Aðspurður kvaðst S viðurkenna að hann hefði eflaust gengið of langt með myndatökunum þar sem við margsinnis báðum hann um að láta ekki verða af þeim. Eftir stuttar viðræður var S frjáls ferða sinna og óskaði hann ekki eftir að við ækjum honum aftur niður í bæ.  Í textalínu skýrslunnar þar sem skrá ber brot eða verkefni lögreglu sem skýrslan varðar segir: „Áfengislög, ölvun á almannafæri (21. gr.).“ Á sama tíma gerði ákærði handtökuskýrslu vegna sama tilviks og er verkefnalýsing þar hin sama, en ástæða handtöku skráð: „Til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot.“ Samkvæmt skýrslunni var S handtekinn í tuttugu mínútur. Við aðalmeðferð málsins var lögð fram dagbókarfærsla vegna sama atviks, þar segir: „Ölvaður maður með ljósmyndavél var að atast í lögreglumönnum sem höfðu brugðið sér inn á Nonna-bita til að fá sér snarl. Hinn ölvaði færður í lögreglubifreið þar sem mikið var af ölvuðu fólki á vettvangi. Aðilinn færður á stöð og laus þaðan eftir stuttar viðræður.“

             Málið var rannsakað af ríkissaksóknara með liðsinni lögreglustjórans á Snæfellsnesi. Voru allar lögregluskýrslur, að undanskilinni skýrslu ákærða, teknar í síma. Greind mynd fylgir málsgögnum. Á henni sést ákærði í lögreglubúningi en án höfuðfats, með brauðsamloku í hendi, aðeins aftar stendur stúlka og enn aftar sést í háan pilt og höfuð lögreglumanns. Af því að skoða myndina, án þeirra skýringa sem gefnar hafa verið, verður ekki ályktað að verið sé að mynda fólkið saman.

 

Framburðarskýrslur.

             Ákærði, Þórjón Pétur Pétursson lögreglumaður, skýrði svo frá aðdraganda að handtöku S, að hann hefði verið í vinnu, einkennisklæddur. Með honum á lögreglubifreið hefðu verið vitnin X lögreglumaður og J lögreglunemi, sem var í starfskynningu. Um tvöleytið um nóttina hafi þeir ákveðið að fá sér að borða á Nonnabita, en þeir hafi verið búnir að standa vakt frá klukkan fimm um daginn. Þar inni hafi verið ölvaður ungur maður, kærandi S, sem hafi fljótlega byrjað að „böggast“ í ákærða. Hafi S viljað fá mynd af ákærða með ölvaðri stúlku sem þarna var. Hann hafi margítrekað þetta og hafi ákærða fundist að tilgangur hans væri að „sjá hvort hann gæti ekki áreitt lögguna eitthvað pínulítið.“ Kvað ákærði ekki óalgengt að lögreglan lenti í svona nokkru. Aðspurður hvort stúlkan hefði verið áberandi ölvuð, kvaðst ákærði ekki hafa getað betur séð en hún væri nokkuð ölvuð, allavega hefði hún verið afskaplega kát. Ákærði kvaðst hafa neitað myndatöku og beðið áfram í röðinni. Þegar hann hafi snúið sér við hafi S tekið mynd af honum. Nánar spurður af verjanda sagði ákærði að hann hefði grunað að myndin endaði á netinu. Hafi honum ekki fundist viðeigandi, stöðu hans vegna sem lögreglumanns, að einhver mynd af honum í lögreglubúningi - maðurinn hefði verið að biðja hann um að halda utan um einhverja ölvaða stúlku - væri í umferð. Eflaust hefði hann fengið ávítur fyrir það hjá yfirmönnum sínum. Kvað hann aðspurður það vera rétt að hann hefði ekki verið með lögregluhúfuna, en honum bæri að bera hana öllum stundum svo búningurinn væri réttur. Þetta hefði einnig verið ástæða fyrir því að hann kærði sig ekki um að tekin væri mynd. Aðspurður kvað hann það kunna að vera að hann hafi slegið því fram að S mætti taka mynd af honum síðar með húfuna á höfðinu, en það hafi verið til þess að losna við ágang hans. Borinn var undir hann framburður vitnisins E þess efnis að hann hefði fyrst beðið manninn að bíða á meðan hann lyki við samlokuna og þá skyldi hann fara út í bifreiðina og ná í húfuna og þá mætti hann taka mynd. Ákærði kvaðst ekki muna þetta, en það gæti passað að hann hefði fyrst reynt að losna við manninn með þessum hætti, en ekki haft myndatöku í hyggju heldur að aka síðan í burtu.

Ákærði skýrði svo frá að þegar myndin var tekin hafi hann tekið í höndina á Si og beint honum til hliðar að áföstu borði við vegginn og spurt hann, hvort hafi ekki skilið það sem hann hafi verið að segja við hann. S hafi þá byrjað með eitthvað „tafs og tuð“ og annað ölvað fólk þarna inni hafi farið að skipta sér af, með frammíköllum og slíku. Síðar spurður af verjanda kom fram að staðurinn er lítill og kvað hann talsvert af fólki hafa verið þar inni. Ákærði kvað það vera vinnureglu að ef ekki væri friður til þess að ræða við fólk færu menn í lögreglubifreiðina sem væri þeirra „skrifstofa“. Því hafi hann beðið S um að koma með sér út en aðspurður kvaðst hann ekki hafa sagt við hann áður að hann væri handtekinn. Hafi S sest aftur í en hann sjálfur í farþegasæti frammi í. Örskömmu síðar hafi vitnin Jog X komið út í bifreiðina, þá hafi hann fært sig aftur í. Hafi hann haft í hyggju að ræða við S um framkomu hans, en S hafi sagst ekki tala við hann nema hann væri handtekinn. Hafi hann þá handtekið S enda væri það vinnuregla hjá þeim að takist ekki að tala við fólk, sé það fært fyrir varðstjóra til að sjá hvort ekki sé hægt að ræða málin í bróðerni. Ítrekað spurður um þetta kvað ákærði S hafa sett á sig snúð og neitað að tala við hann. Hafi því verið um tvennt að ræða, að tala ekki við hann eða að handtaka hann. Spurður um hvað hann hefði viljað ræða við S, hvort það hefði verið myndatakan, kvað hann það hafa verið framkomu hans „alveg frá a til ö með það að vera endalaust að biðja aftur og aftur um, eða þetta áreiti og annað þarna á staðnum.“ Spurður hvaða ástæðu hann hefði gefið fyrir handtökunni, kvað hann S hafa spurt fyrir hvað hann væri handtekinn og hefði hann sagt við hann í rólegheitum að það gæti alveg verið tvennt. Annað hvort ölvun á almannafæri samkvæmt 21. gr. áfengislaga eða að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu. Hafi þetta allt verið á rólegu nótunum. Vakin var athygli ákærða á því að í lögregluskýrslu væri ástæða handtöku sögð vera „áfengislög, ölvun á almannafæri.“ Kvað ákærði takmarkað hvað hægt væri að setja í lögregluskýrslu um brotaflokka og sama væri að segja um valmöguleika í handtökuskýrslum. Oft sé því ekki hægt að setja inn nákvæmlega það sem lögreglan vilji. Aðspurður kvað hann þó kunna að vera að hann hefði getað sett þarna inn „að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu.“ Kvað hann þetta vera eitt af kannski 100 eða 150 svona málum sem lögreglan færi í á hverju ári þar sem einhver væri handtekinn, farið með hann fyrir varðstjóra, rætt við hann og honum sleppt. Nánar spurður um ástæður handtökunnar og heimfærslu háttsemi í lögregluskýrslu, sagði ákærði S hafa verið að atast í sér með því að verða ekki við því sem hann var þrábeðinn um, að taka ekki mynd, frekar en að bannað væri að taka mynd á almannafæri. Hann hafi þannig valdið hneykslun á almannafæri, þ.e. gagnvart lögreglubúningnum. Spurður um ölvunarástand Ss, kvað hann hafa verið ölvaðan, ekki með fulla dómgreind. Á lögreglustöðinni hafi hann fengið hann til að blása í SD-mæli sem hafi sýnt 0,70‰. Kannaðist ákærði við að það væri ekki mjög mikið, en hegðun hans hefði verið sýnu verri og bent frekar til ölvunarástands um 1,50‰. Ákærði kvaðst aðeins hafa ætlað að ræða við manninn, en ekki að handtaka hann, en hann hafi verið óviðræðuhæfur og því hafi hann ákveðið að fara með hann upp á stöð, en ekki sé farið af stað með mann án þess að tilkynna honum formlega að hann sé handtekinn. Spurður hvort hann hefði ekki getað útskýrt sjónarmið sín í lögreglubifreiðinni, neitaði ákærði því og sagði að það hefði verið eins og að tala við vegg. Einnig hefði tilgangurinn verið að fá upp persónuupplýsingar og annað því þeir hafi fyrirmæli frá yfirstjórn lögreglunnar í Reykjavík að færa í dagbók öll afskipti sem þeir hafi af fólki, sama af hvaða tilefni það sé, og þá skrá upplýsingar um tíma, dagsetningu, ástæðu afskipta og persónuupplýsingar. S hafi neitað að gefa persónuupplýsingar þegar hann hafi farið með hann inn í lögreglubílinn. Spurður hvort hann hafi beðið S um að sýna sér skilríki, kvaðst hann eflaust hafa gert það. Ítrekað spurður hvort hann myndi það, kvað hann S hafa neitað að tala við sig. Ákærði neitaði þeim framburði S og vitnisins K að hann hefði sagt inni á staðnum við S að hann væri handtekinn eða að hann yrði að koma á stöðina.

Spurður hvers vegna S hefði ekki verið færður fyrir varðstjóra, kvað hann þar hafa orðið misskilning á milli hans og félaga hans, vitnisins X. Hefðu báðir haldið að hinn hefði haft samband við varðstjórann. Þegar X hafi komið aftur, hafi hann séð að ekki var nein ástæða til að halda manninum lengur, þeir hafi verið búnir að ræða saman og verið sáttir um að þetta hefði ekki verið eðlileg framkoma. Hafi S boðist á lögreglustöðinni til að eyða myndinni en hann hafi ekki viljað leggja það fyrir hann. Aðspurður síðar hafnaði hann þeirri lýsingu í kæruskýrslu S að S hefði beðist afsökunar og boðist til að eyða myndinni um leið og hann hafi verið kominn inn í lögreglubifreiðina, en ákærði hafi ekki yrt á hann heldur ekið rakleiðis á stöðina. Hann kvaðst hafa fengið að sjá myndina, en það hefði ekki verið nema hálf myndin sem síðar var birt, sem hann hafi séð.

             Í skýrslu ákærða hjá ríkissaksóknara hinn 15. maí 2003, lýsti hann málsatvikum umrædda nótt í öllum meginatriðum á sama veg og fyrir dómi. Kvaðst hann ekki muna eftir afsökunarbeiðni S í bifreiðinni og sagði hann ekki hafa boðist til þess að eyða myndinni fyrr en á lögreglustöðinni. Kvað hann einhvern misskilning hafa átt sér stað á milli hans og meðákærða um það hver ætti að sækja varðstjóra og hafi hann á meðan skoðað feril S í málaskrá og séð að hann hafði bitið lögreglumann einhverju sinni. Kvað hann það ekki rétt að hann hefði sagt honum að þegja eða kallað hann „dýrbít“.

             Vitnið, S, kvaðst hafa komið inn á Nonnabita með myndavél frá nemendafélagi verkfræðinema í Háskólanum. Hafi nemendur verið í vísindaferð þennan dag og sé venja að taka myndavélina með í slíkar ferðir. Hann hafi séð sæta stúlku þarna inni og fengið að taka mynd af henni. Þá hafi hann líka séð tvo lögreglumenn og sagt við stúlkuna að færa sig til þeirra og að hann ætlaði að taka mynd af henni með lögreglumönnunum. Þá hafi hann heyrt utan að sér, „ekki taka mynd“ og hafi hann þá snúið sér við og tekið mynd af ákærða. Þá hafi ákærði tekið undir vinstri höndina á honum og sagt að hann væri handtekinn og tekið af honum myndavélina. Hann kvaðst þá hafa spurt ákærða fyrir hvað og hafi ákærði sagt að það væri fyrir að fara ekki eftir fyrirmælum lögreglu. Síðan hafi ákærði farið með hann út í bíl og látið hann setjast í aftursætið og sjálfur farið inn hinum megin. Hafi sér fundist þetta svo „asnalegt“ að hann hafi boðist til að eyða myndinni og sagt að þetta þyrfti ekki að vera neitt mál, en ákærði hafi ekki þegið það og þeir hafi ekið upp á stöð. Þeir hafi þá verið fjórir í bifreiðinni og hafi ákærði setið við hlið hans aftur í. Nánar spurður um atvikin inni á staðnum, kvað hann ákærða aðeins einu sinni hafa beðið hann um að taka ekki mynd. Hann kvaðst ekki kannast við að ákærði hefði talað um lögregluhúfu sína í því sambandi og að hann vildi ekki láta taka af sér mynd af því hann væri ekki með hana. Hann kannaðist ekki við að hafa „suðað“ í ákærða um að fá að taka af honum mynd og að hann hafi margsinnis hafnað því. Hann neitaði því að ákærði hefði tekið hann afsíðis inni á staðnum til viðræðna, það eina sem þeir hefðu rætt saman inni á staðnum hafi verið þegar hann spurði hvers vegna hann ætlaði að handtaka hann. Ítrekað spurður kvað hann ákærða hafa sagt við sig inni á staðnum að hann væri handtekinn. Spurður um lýsingu sína á atburðarás í kæruskýrslu kvað hann hana vera eins og hann myndi atburðinn. Hann kvaðst ekki muna það hvort ákærði hefði leitað persónuupplýsinga í bifreiðinni en taldi það hafa gerst á lögreglustöðinni og hafi hann þá afhent honum skilríki. Hann kvaðst ekki hafa óskað eftir því að vera handtekinn.

Þegar komið var á lögreglustöðina hafi hann verið látinn bíða í smástund á gangi fyrir framan herbergi sem ákærði fór inn í, en síðan hafi ákærði kallað á hann þangað inn. Þar hafi einnig verið óeinkennisklæddur maður og hafi hann spurt hver þetta væri en honum sagt að það kæmi honum ekki við. Þá hafi ákærði hallað sér fram á borðið og spurt hann „hvað af því ég skildi ekki þegar hann sagði mér að taka ekki mynd.“ Kvaðst hann hafa svarað því að þetta hefði verið í gert gríni. Ákærði hafi þá flett honum upp í tölvunni. Óeinkennisklæddi maðurinn hafi farið út og komið hafi inn eldri maður og látið hann blása í áfengismæli. Ákærði hafi snúið sér að honum og kallað hann „dýrbít“ og kallað það fram til félaga sinna. Hann hafi ætlað að svara honum einhverju en þá hafi ákærði sagt honum að þegja og hótað að loka hann inni yfir nóttina. Hann hafi aftur boðist til þess að eyða myndinni og sýnt ákærða hana en ákærði hafi ekki þegið það. Ákærði hafi síðan látið hann lausan. Hann kvaðst ekki hafa kunnað á myndavélina á þeim tíma og hafi andlit ákærða ekki sést á myndinni þegar hann sýndi honum hana. Hann kvaðst ekki sjálfur hafa séð myndina rétta fyrr en hún hafði verið birt og ekki hafa vitað, þegar hann skilaði af sér vélinni, að hann hefði sýnt ákærða myndina í röngu formi. Þá kvaðst hann ekki hafa staðið að myndbirtingu á netinu. Hann kvaðst hafa afhent myndavélina á skrifstofu VÍR en vélin hafi verið í eigu VÍR og hafi hann ekki haft frekari afskipti af birtingu myndanna. Hann kvaðst hafa vitað að myndirnar yrðu birtar, það væri tilgangurinn með því að hafa vélina með í vísindaferðir. Aðspurður kvaðst vitnið hafa drukkið um fjóra til fimm hálfs líters bjóra frá því um klukkan fimm um daginn.

             Vitnið kvað það rétt að Geir Jón yfirlögregluþjónn hefði haft samband við hann og spurt hann út í þetta mál og spurt hvað hann ætlaði að gera í því. Kvaðst vitnið hafa sagt að hann þekkti nú ekki til þessara mála og spurt hann á móti hvað honum fyndist að hann ætti að gera. Hann hafi ráðlagt honum að leggja fram kæru eða kvörtun. Hann hafi þá sagst ætla að kæra og hafi hann farið daginn eftir og lagt fram kæru á hendur ákærða. Aðspurður kvaðst vitnið hafa velt fyrir sér að kæra áður en Geir Jón hafði samband við hann, en kvaðst þó ekki viss um hvort að hann myndi hafa gert það.

             Vitnið, X lögreglumaður, kvaðst hafa farið ásamt ákærða og vitninu J á Nonnabita til þess að fá sér að borða. Þar inni hafi verið eitthvað af ölvuðu fólki, þrír eða fjórir drengir, sem hafi farið að „bauna“ eitthvað á ákærða þegar þeir komu inn, kvaðst hann ekkert hafa skipt sér af því, þetta hafi ekkert verið í illu. Síðan hafi komið þarna par, vitnið E, lögreglunemi, og vinkona hans. Þá hafi byrjað umræða um að taka myndir af þeim. Kvaðst vitnið hafa heyrt ákærða biðja S um að taka ekki mynd af sér því hann væri ekki með húfuna. Það væri búið að skamma hann fyrir það þannig að hann vildi ekki lenda aftur í klandri út af því. Ítekað spurður um þetta og hvort ákærði hefði oftar en einu sinni beðið S um að taka ekki mynd af sér, kvað hann þetta eitthvað hafa gengið þeirra á milli, S hefði verið með „bögg“. Frekari orðaskipti kvaðst hann ekki geta staðfest og ekki hafa skipt sér af þessu. Hann hafi farið að ræða við E. Hann kvaðst ekki hafa orðið var við myndatökuna. Ákærði hafi síðan farið út með S og hafi hann fylgt fljótlega á eftir og einnig vitnið J. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð ákæða leiða S til hliðar inni á staðnum og ræða við hann, hann hafi bara látið sig vita að hann var að fara með S út, eða farið með hann. Hafi ákærði setið frammi í en síðan fært sig aftur í eftir að hann hafði sagt við S að hann væri handtekinn en J hafi fært sig fram í. Sjálfur kvaðst hann hafa ekið lögreglubifreiðinni. Aðspurður um hvort S hefði viljað láta handtaka sig, kvað hann S ekki hafa viljað tala við ákærða nema hann væri handtekinn og hafi hann spurt: „er ég handtekinn?“ Hafi ákærði þá svarað því játandi og handtekið hann formlega.  Aðspurður kvað vitnið S hafa ítrekað spurt hvort hann væri handtekinn, en kvaðst ekki muna frekari orðaskipti þeirra á milli eða hvort hann hafi verið spurður til nafns. Kvað hann manninn ekki hafa verið samvinnuþýðan í bílnum, þar sem hann hafi ekki viljað tala við ákærða. Þegar á stöðina hafi komið hafi hann sjálfur farið inn á kaffistofu, en ákærði farið með manninn inn á umferðadeild. Kvaðst hann hafa talið varðstjórann vera þar inni. Hann hafi komið aftur rétt í lokin og hafi samskipti þeirra á milli þá verið á kurteisisnótum og maðurinn beðist afsökunar og farið út. Vitnið kvaðst ekki muna hvort það hafi verið þarna á stöðinni eða í bílnum sem maðurinn hafi boðist til þess að eyða myndinni en ákærði hafi sagt að það væri ekki málið, hann væri ekki að fara fram á það. Borinn var undir hann lýsing S í kæruskýrslu, kvað hann þar ekki rétt lýst um hver hefði ekið og um að umsvifalaust hefði verið ekið af stað. Aðspurður sagði vitnið að það væri algengt að lögregluþjónar yrðu fyrir áreiti sem þessu og færu þeir því helst í lúgusjoppur. Kvað hann hafa komið upp tilvik þar sem afskipti væru höfð af fólki vegna slíks. Taldi hann að ekki hefði verið óeðlilegt að fara með S á lögreglustöð til viðræðna.

             Tekin var lögregluskýrsla 26. maí sl. vegna atviksins. Það sem þar kemur fram er í fullu samræmi við framangreindan framburð fyrir dóminum.

             Vitnið, J, lögreglunemi og bróðir ákærða, kvaðst hafa verið í starfskynningu þegar þetta gerðist. Hann hafi verið staddur með ákærða á Nonnabita í umrætt sinn. Kvaðst hann ekki hafa orðið var við nein samskipti ákærða og mannsins með myndavélina, ekki fyrr en hann varð var við að þeir fóru út í bíl og hafi hann þá stokkið á eftir. Þegar hann kom inn í lögreglubifreiðina hafi S sagt að hann þyrfti ekki að tjá sig nema að hann væri handtekinn. Hafi ákærði þá handtekið hann formlega fyrir ölvun á almannafæri og fyrir að óhlýðnast tilskipun lögreglu og lesið honum réttarstöðu sína. Á leiðinni upp á stöð hafi S frekar farið að draga úr þessu og hálfpartinn beðist afsökunar. Þá hafi hann sagt í bílnum að myndavél hans væri stafræn og hann gæti eytt myndinni ef það væri málið. Kvaðst hann ekki muna nákvæmlega hvað ákærði sagði, en þeir hafi verið komnir langleiðina upp á stöð. Á lögreglustöðinni hafi S verið látinn setjast fyrir utan varðstjóraherbergið og síðan hafi ákærði kallað á hann inn. Kvaðst vitnið hafa fylgt á eftir og fengið sér þar sæti og fylgst með nokkra stund, en síðan farið. S hafi spurt sig hver hann væri, en hann hafi ekki svarað. Í varðstjóraherberginu hafi ákærði fengið persónuupplýsingar hjá honum og flett upp í tölvu. Vitnið kvaðst síðan hafa farið fram að spjalla við aðra lögreglumenn. Aðspurður kvaðst hann ekki muna eftir að S væri beðinn um persónuupplýsingar í bifreiðinni. Spurður um ástand S kvað hann hafa verið greinilega fullan, ósamvinnuþýðan og erfiðan. Aðspurður kvað vitið ekki rétt það sem borið var undir hann úr kæruskýrslu S frá 18. nóvember sl., þar sem segir að ákærði hafi ekkert yrt á S og ekið beint upp á lögreglustöð. X hafi ekið og einhverjar samræður hafi átt sér stað í lögreglubifreiðinni. Kvaðst hann ekki muna orðrétt hvað þeim fór á milli, en S hafi verið að segja að honum bæri ekki skylda til að tjá sig. Ítrekað spurður hvort S hefði verið handtekinn á Nonnabita eins og sum vitni hafi borið, kvaðst hann hafa snúið baki í þá, en fólk kunni að misskilja hvað felist í handtöku. S hafi virtist fylgja ákærða út í bifreiðina af fúsum og frjálsum vilja.

             Vitnið, E lögreglunemi, kvaðst hafa farið inn á Nonnabita til þess að spjalla við ákærða, X, og J, og hafi L vinkona hans verið með honum. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa verið undir áhrifum áfengis enda verið ökumaður, en L hefði verið búin að fá sér einn bjór, hann hafi ekki séð á henni teljandi áfengisáhrif. Hann kvaðst hafa staðið við afgreiðsluborðið, þar sem flest fólkið var, og rætt við þá þegar maður með myndavél hafi komið og viljað mynda ákærða með L. Hafi ákærði neitað vegna þess að hann væri ekki með lögregluhúfuna. Hafi maðurinn þrefað um þetta, en ákærði hafi sagt honum að bíða með það þar til á eftir, en hann gæti farið út í bíl og sótt húfuna, og þá gæti hann leyft honum að taka mynd. Maðurinn hafi haldið áfram að ýta á ákærða og verið leiðinlegur og pirrandi og greinilega ölvaður. Svo hafi hann tekið mynd af ákærða, sem hafi þá beðið hann að tala við sig og hafi þeir fært sig yfir í hinn endann á staðnum þar sem færra fólk hafi verið og rætt eitthvað saman í eina til tvær mínútur. Hann kvaðst ekki hafa fylgst með því, en hafa síðan séð ákærða leiða manninn út og þá hafi X og J hlaupið á eftir. Þá hafi hann séð þegar maðurinn var færður inn í aftursæti lögreglubifreiðarinnar mótþróalaust. Spurður hvort handtaka hefði farið fram inni á staðnum, kvaðst hann ekki hafa heyrt hvað þeim fór á milli.

             Lögregluskýrsla var tekin 26. maí sl. Er samræmi í framburði vitnisins þar og fyrir dómi.

             Vitnið, L, kvaðst hafa farið á Nonnabita með vini sínum, E. Þar hafi verið maður með myndavél sem hafi tekið mynd af henni og einhverjum strákum. Síðan hafi hann spurt hvort hann mætti taka mynd af henni og ákærða saman en ákærði hafi svarað því neitandi. Hann hafi spurt aftur en fengið nei. Þeir hafi talað eitthvað saman og síðan þegar ákærði hafði verið kominn með mat í hendurnar hafi hún orðið vör við blossa. Þá taldi hún að ákærði hefði beðið hann um að eyða myndinni en hann hafi neitað því, ítrekað spurð um þetta, var hún þó ekki viss. Þá hafi ákærði tekið í höndina á honum  og sagt: „Viltu koma með okkur upp á stöð!“ Henni hafi fundist ákærði grípa harkalega í höndina á manninum og leiða hann út í bíl, maðurinn hafi bara sagt: „nei, nei.“ Hún kvaðst ekki muna eftir umræðu um það að ákærði vildi ekki láta taka af sér mynd af því að hann væri ekki með lögregluhúfuna. Aðspurð kvaðst vitnið hafa drukkið tvo bjóra þetta kvöld og taldi að ölvunareinkenni hefðu sést á sér.

             Hinn 27. maí sl. var tekin lögregluskýrsla af vitninu vegna málsins. Þar ber hún að lögreglumaðurinn hafi sagt ljósmyndaranum að eyða myndinni, en hann hafi margsinnis neitað því. Hún segir einnig þar að lögreglumaðurinn hafi sagt við ljósmyndarann, að hann (eða þeir) ætluðu að biðja hann að koma niður á stöð.

Vitnið, B, kvaðst hafa komið inn á Nonnabita ásamt félögum sínum og hitt þar S, sem hann kannist við þar sem þeir hafi verið saman í verkfræði. Hann kvaðst ekki muna smáatriði vel nú, en taldi sig hafa munað þetta betur þegar lögregluskýrsla var tekin af honum. Hann kvað S hafa tekið mynd og þá hafi lögreglumaður sagt við hann „heyrðir þú ekki – skildir þú ekki það sem ég var búinn að segja við þig áður.“ Þeir hafi síðan farið út í lögreglubifreiðina og ekið í burtu. Félagi hans K hefði verið fyrir utan að fylgjast með og hefði sami lögreglumaður sagt honum að fara frá bifreiðinni, og spurt hann harkalega hvort hann vildi koma með? Kvaðst hann ekki muna hvort lögreglumaðurinn og S ræddu eitthvað saman inni á staðnum áður en þeir fóru út í lögreglubifreiðina, og ekki muna önnur orðaskipti. Hann kvaðst ekki muna hvort ákærði sagði við S að hann ætti að koma með þeim niður á lögreglustöð, og ekki muna eftir að lögreglumaðurinn lýsti því yfir að S væri handtekinn. Aðspurður kvaðst vitnið ekki hafa heyrt hvað þeim fór á milli fyrir myndatökuna en dró þá ályktun að eitthvað hefði það verið. Hann taldi myndatökuna hafa átt sér stað á miðjum staðnum á móts við hurðina þó aðeins nær afgreiðsluborðinu. Aðspurður kvað hann S hafa verið ölvaðan, þeir hafi verið að koma úr vísindaferð, en hann hefði alveg verið viðræðuhæfur. Vitnið skoðaði lögregluskýrslu frá 9. maí sl. og staðfesti að rétt væri eftir sér haft.

Í greindri lögregluskýrslu kemur að auki fram að lögreglumaðurinn hafi sagt S að koma út í lögreglubifreiðina og hafi vitninu fundist vera skipunartónn í röddinni, einnig minnti hann að lögreglumaðurinn hefði tekið í handlegg S og leitt hann út. Taldi hann S ekki hafa verið áberandi drukkinn.

Vitnið, K, kvaðst hafa verið ásamt félögum sínum B og P inni á Nonnabita í þeim tilgangi að fá sér að borða. Þeir hafi hitt S á staðnum. Hann hafi séð S taka mynd stuttu síðar og þá hafi lögreglumaðurinn brugðist illa við og sagt eitthvað sem svo: „nú er nóg komið“, og tekið í hann, þó ekki mjög harkalega, og tekið hann með sér út. Vitnið kvaðst hafa elt til þess að fylgjast með. Það hafi verið farið með S inn í lögreglubifreiðina. Hann hafi verið nálægt bifreiðinni og annar lögreglumaðurinn hafi sagt við hann: „drullaðu þér frá bílnum“ eða eitthvað þannig og síðan hafi þeir ekið burt. Nánar spurður kvaðst vitnið ekki hafa verið búinn að heyra nein önnur orðaskipti á milli ákærða og S. Hann kvað lögreglumanninn hafa verið að koma frá afgreiðsluborðinu þegar myndin var tekin. Spurður hvort S hafi verið handtekinn inni á staðnum, kvað hann hann hafa verið tekinn og farið með hann út, en ekki hafa verið járnaðan eða neitt í þá veru. Hann kvaðst ekki muna hvort sagt hafi verið við hann að hann væri handtekinn. Spurður hvort lögreglumaðurinn hefði tekið S afsíðis inni á staðnum og rætt við hann, sagði vitnið að samkvæmt sínu minni hefði verið farið beint út í bifreiðina. Hann kvaðst ekki muna atvik eins vel nú og þegar lögregluskýrsla var tekin af honum.

Vitnið las skýrslu sína og kvað þar rétt eftir sér haft. Þar kemur að auki fram að lögreglumaðurinn hafi sagt eftir myndatökuna, að nú væri nóg komið og hann yrði að koma með á stöðina.

              Vitnið, Geir Jón Þórisson yfirlögregluþjónn, sagði að hinn 17. mars sl. hefði þeim verið bent á það af utanaðkomandi aðila og síðan fjölmiðlum, að á heimasíðu nemenda í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands væri mynd og lýsing á því þegar maður hefði verið handtekinn á skyndibitastað hinn 8. mars 2003 fyrir að hafa tekið ljósmynd af lögreglumanni þar inni. Vitnið kvaðst hafa kynnt sér skýrsluna, sem dagsett er 13. mars 2003, og hafi það verið mat hans eftir að hafa skoðað hana að um einkaafgreiðslu hefði verið að ræða og farið hefði verið út fyrir öll mörk sem um handtöku gilda. Farið hafi verið með mann á skrifstofu varðstjóra umferðardeildar en ekki á skrifstofu varðstjóra fangamóttöku, þangað sem farið væri með alla handtekna menn. Kvað vitnið sér hafa orðið ljóst við lestur skýrslunnar að ábending sem til þeirra kom hafi átt við rök að styðjast. Þá væri ástæða handtöku sögð í skýrslunni vera að koma í veg fyrir áframhaldandi brot. Kvað vitnið ekki rétt að möguleikar lögreglumanns sem ritar skýrslu væri takmarkaðir að því er varðar að lýsa viðkomandi broti eða verkefni. Í tölvuforritinu sé hægt að setja nánari skýringar í textabelti. Vitnið kvað ekki rétt að lögreglumönnum væri uppálagt af yfirstjórn lögreglunnar í Reykjavík að taka niður persónuupplýsingar um alla sem þeir hefðu einhver afskipti af eða að færa fólk á lögreglustöð neiti það að gefa upplýsingar. Það eitt og sér væri ekki fullnægjandi tilefni handtöku að maður neitaði að gefa upp kennitölu sína. Viðkomandi yrði að vera aðili að einhverju máli sem lögreglan hefði afskipti af, einhverju broti. Það væri ekki nægileg ástæða til handtöku að maður sem lögregla sæi í einhverju annarlegu ástandi væri ekki tilbúinn til þess að veifa strax skilríkjum sínum. Að því er þetta atvik varðaði væri það ekki í samræmi við fyrirmæli yfirstjórnar að færa mann, sem tæki mynd af lögreglumanni, á lögreglustöð til þess að fá kennitölu hans. Ef afskipti væru höfð af manni í tengslum við brot, þyrftu að koma fram persónuupplýsingar og kallaði tölvukerfið á slíka skráningu. Starfsreglur lögreglu lytu að því. Til þess að menn væru kærðir fyrir að vera í annarlegu ástandi þyrfti háttsemin að vera mjög gróf. Vitnið var spurt um skyldu borgaranna til að hlýða fyrirmælum lögreglu. Kvað hann fyrirmæli lögreglu þurfa að vera löglega fram sett og vera í réttu samhengi við atburði og ljóst þyrfti að vera að tilefnið væri þess eðlis að viðkomandi bæri að hlýða þeim.

Um skyldu lögreglu til þess að bera lögregluhúfu kvað vitnið þær reglur gilda, að lögreglumenn skuli bera lögregluhúfu utan húss í starfi og þeir eigi að vera með húfu á höfðinu fari þeir út úr lögreglubifreið. Þetta sé í samræmi við fatareglugerð. Hafi þetta ítrekað verið brýnt fyrir lögreglumönnum og þeim tjáð að þeir mættu búast við ofanígjöf færu þeir ekki að reglum.

             Aðspurður kvað vitnið það vera rétt að hann hefði átt fund með fulltrúa ríkissaksóknara deginum áður en hann kom í dóminn. Hefði fundurinn verið að hans frumkvæði og tilefnið hefði verið umfjöllun í fjölmiðlum um málið.

Aðspurður kvað vitnið rétt að hann hefði haft samband við S til þess að boða hann í skýrslutöku vegna atviksins. Grunur hafi verið um brot lögreglumanns og hafi honum borið að stuðla að rannsókn á því. Hafi S þá spurt hver staða hans væri í málinu, hann hafi verið ósáttur við þetta en ekki verið viss hvort hann ætlaði að gera mikið meira úr því. Kvaðst vitnið hafa leiðbeint honum og sagt að hann gæti kvartað formlega til yfirstjórnar vegna þessarar handtöku eða kært hana, en hann þyrfti að koma á lögreglustöðina til þess að gefa skýrslu. Vitnið kvað sér hafa verið kunnugt um að kæra væri komin fram í öðru máli á hendur ákærða Þórjóni. Var þar vísað til atvika þeirra sem um er fjallað í öðrum ákæruliðum þessa máls. Kvaðst hann ekki hafa kvatt S til þess að kæra heldur eingöngu leiðbeint honum um það og lagt þá ákvörðun í hans hendur. Hann hafi eingöngu boðað hann í skýrslutöku og hafi hann séð eftir lestur þeirrar skýrslu að vitnið hefði kært. Aðspurður staðfesti hann að þetta væri eina skýrslan sem tekin hefði verið af S vegna málsins. Hann kvaðst sjaldan hafa þurft að hafa samband við fólk af fyrra bragði vegna mála af þessu tagi. Kvað hann klögumál á hendur lögreglu oftast leysast án frekari afskipta og því hafi aðstaðan sjaldan verið sem í þessu máli. Var hann spurður hvort aðgerðir hans tengdust persónu ákærða eitthvað sérstaklega en vitað væri að hann hefði haft afskipti af málum ákærða áður. Hann neitaði því og kvaðst hafa verið að gegna skyldu sinni. Hann kvaðst þekkja ákærða mjög vel enda hafa starfað með honum lengi eða frá árinu 1992 og hann hefði verið öflugur og góður starfsmaður. Því miður hefði vitnið þurft að taka á ákveðnum málum varðandi ákærða svo sem honum bæri skylda til. Yfirstjórn lögreglunnar bæri að kanna mál ef þeir fengju vitneskju um refsiverða háttsemi. Aðspurður kannaðist vitnið ekki við að lögreglan hefði haft samband við önnur vitni í málinu.

 

Ákæruliðir 2-5.

             Hinn 12. mars 2003 lagði H fram kæru á hendur starfsmanni lögreglu fyrir ætlað refsivert brot við framkvæmd starfa hans við veitingastaðinn Café Amsterdam við Tryggvagötu klukkan rúmlega fjögur aðfaranótt sunnudagsins 9. mars sl. Kvaðst hann hafa verið að koma ásamt unnustu sinni M frá veitingastaðnum. Hafi þau verið að svipast um eftir leigubifreið og ætlað að reyna að stöðva eina sem þau sáu koma akandi vestur Tryggvagötuna, og hafi þau gengið út á götuna skáhallt á móti bifreiðinni. Leigubifreiðin hafi reynst full af fólki og því ekki stansað. Í því hafi komið lögreglubifreið og hafi lögreglumaðurinn sem ók skipað þeim að fara af götunni. Kvaðst hann hafa svarað með einhverjum leiðindum. Þá hafi lögreglubifreiðinni verið snúið við og komið aftur að þeim, einnig hafi komið önnur stór lögreglubifreið. Hafi hann og unnusta hans þá verið komin upp á gangstéttina. Ákærði Þórjón Pétur hafi komið út úr lögreglubifreiðinni sem fyrst kom og gengið beint til hans, tekið hendur hans fyrir aftan bak og lagt hann á vélarlok lögreglubifreiðarinnar og handjárnað hann. Kvaðst hann ekki hafa veitt neina mótspyrnu. Við þetta hafi M orðið æst og hafi einnig verið handjárnuð. Þeim hafi verið ekið á lögreglustöðina og sett í geymsluklefa. Um hálftíma síðar hafi hann verið leiddur fyrir varðstjóra, sem hafi spurt hann um persónuupplýsingar, hafi hann neitað að svara þar sem hann var reiður vegna þess að honum fannst hann hafa verið órétti beittur, hafi honum verið tjáð að hann væri kominn þarna þar sem hann hefði ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu. Kvaðst hann hafa mótmælt því. Hafi varðstjórinn ýjað að því að hann „hefði komið víða við,“ kvaðst hann ekki hafa kannast við það. Síðan hafi honum verið sleppt. Kvaðst hann kæra málið þar sem hann væri mjög ósáttur við framgöngu lögreglunnar.

             Hinn 26. mars 2003 lagði I fram kæru á hendur lögreglumanni sem notaði á hann úðavopn hinn 9. mars 2003 í Tryggvagötu. Var þar um sömu lögregluaðgerð að ræða og að framan greinir. Kærandi kvaðst hafa verið inni á veitingastaðnum Amsterdam og séð út um gluggann karl og konu ganga úti á miðri Tryggvagötunni. Lögreglubifreið hafi staðnæmst hjá fólkinu, tveir lögreglumenn hafi talað við fólkið. Kvaðst hann síðan hafa hætt að fylgjast með í smástund. Næst hafi hann tekið eftir að lögreglusendibifreið var komin á staðinn. Hafi lögreglan handtekið manninn. Konan hafi verið mjög ósátt og ýtt á lögreglumennina og öskrað að maðurinn hefði ekki gert neitt. Hafi þá lögreglumaður handtekið hana líka með hjálp annars lögregluþjóns og hafi honum virst þeir vera mjög harðhentir við hana. Hafi hann þá farið út af veitingastaðnum og talað til lögreglumannanna og sagst skyldu taka við konunni, en þeir hafi ekki kært sig um afskipti hans og hafi konan verið keyrð inn í lögreglubifreiðina. Lögreglumennirnir hafi síðan farið inn í lögreglubifreiðina og hafi hann þá gengið framfyrir lögreglubifreiðina og hrækt í áttina að þeim og kunni eitthvað að hafa farið á bifreiðina. Hafi hann síðan gengið áfram og þá séð að lögreglumaðurinn hægra megin skrúfaði niður rúðuna og setti hendina út og var með úðabrúsa í hendinni og hafi hann sprautað úr brúsanum á hann, hafi hann náð að snúa höfðinu og úðinn komið á hægri vanga og eyra. Þetta hafi runnið niður í hálsmálið og mikill sviði og sársauki fylgt. Hafi hann þurrkað framan úr sér og sent lögreglumanninum tóninn. Hafi gasið einnig lent á fleira fólki sem þarna var. Kvaðst hann í framhaldi hafa leitað aðstoðar á Miðbæjarlögreglustöð og það hafi fleiri einnig gert. Kvað hann kæru sína einungis beinast að þeim lögreglumanni sem sprautaði úðanum.

             Ákærði X skrifar frumskýrslu um atburðinn, dagsetta 9. mars 2003. Er atvikum þeim sem hér um ræðir þar lýst þannig, að ákærðu hafi veitt pari athygli sem hafi staðið úti á miðri götu, móts við skemmtistaðinn Amsterdam, og stöðvað umferð. Þegar þeim hafi verið sagt að fara af götunni hafi karlmaðurinn, kærandi H, orðið mjög æstur og neitað að fara frá umferð og af götunni. Hafi hann ausið svívirðingum yfir lögreglu og fundist afskipti þeirra vera óeðlileg. Hafi H ekki verið ölvaður en ástand hans annarlegt. Þar sem ekki hafi verið hægt að tala um fyrir honum, hafi hann verið færður í handjárn og í lögreglubifreiðina 10-151. Við það hafi unnusta hans orðið mjög æst og veist að lögreglu með miklum látum. Hafi hún slegið til lögreglu og reynt að koma í veg fyrir að H yrði færður inn í lögreglubifreiðina. Hafi hún verið handtekin og færð í handjárn þar sem hún hafi látið mjög ófriðlega og verið færð í lögreglubifreið 10-267. Um ástand hennar segir að hún hafi verið áberandi ölvuð.

             Þá segir í skýrslunni: „Á mjög skömmum tíma hafi myndast mikil múgæsing meðal fólks sem hafði verið inni á veitingastaðnum Amsterdam en var nú komið út á götu til að skipta sér af störfum lögreglu. Var ástandið verið mjög "eldfimt" og var einn aðili, karlmaður, sem hafði sig mest í frammi. Var hann að hvetja félaga sína til að ráðast á lögreglumennina sem þarna voru og gerði sig líklegan til að veitast að lögreglu. Var karlmaðurinn hávaxinn, sterklega byggður, klæddur í svartan leðurjakka, milli 30-40 ára. Þar sem fáir lögreglumenn voru á vettvangi og æsingur manna á vettvangi, flestir ölvaðir, var slíkur að sýnt þótti að ef til átaka kæmi þá yrðu lögreglumenn undir í átökum, var sá sem hafði sig mest í frammi úðaður með Maceúða (sk.8725). Við það gafst lögreglu svigrúm til að koma sér af vettvangi án þess að að til frekari átaka kæmi.“ Í handtökuskýrslu ákærða X vegna H er brot tilgreint svo að fyrirmælum lögreglu hafi ekki verið hlýtt, sbr. 19. gr. lögreglulaga og ölvun á almannafæri, sbr. 21. gr. áfengislaga, en ástæða handtöku sögð hafa verið til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot. Ástandi hans er lýst sem annarlegu og að hann hafi verið mög æstur og ósamvinnuþýður.

             Í kæruskýrslu ákærða Þórjóns Péturs, dagsettri 11. mars 2003, á hendur vitninu I vegna sama atviks, er vísað til frumskýrslu og síðan segir um ástandið fyrir utan skemmtistaðinn Café Amsterdam, að við handtöku á framangreindum aðilum hafi brotist út „múgæsing og hafði einn aðili sig mest í frammi og fór fyrir hópnum. Hópur þessi virtist hafa komið út af veitingastaðnum Kaffi Amsterdam gagngert í þeim tilgangi að skipta sér af umræddri handtöku. Á vettvangi voru 5 lögreglumenn á lögreglubifreiðum 267 og 151. Taldist mér í fljótu bragði á vettvangi að múgurinn væri um og yfir 10 manns og margir greinilega rammir að afli og æstir sem og að mjög mikil ölvun var á mannskapnum.“ Því er lýst að byrjun málsins hafi verið handtaka parsins, stúkan hafi verið tryllt og hafi þeir neyðst til þess að handtaka hana. Síðan segir: „Er við vorum við þá handtöku kom ofangrendur karlmaður ásamt hópi manna og létu þeir ófriðlega sem og heimtuðu þeir að við létum stúlkuna lausa. Var mikill hiti í mönnum og er það mat undirritaðs að ef við hefðum ekki náð að yfirgefa vettvang hið snarasta hefði soðið endanlega upp úr og fjöldaslagsmál brotist út.“ Lýst er að hann hafi verndað meðákærða X á meðan hann færði stúlkuna í lögreglubifreiðina og tekið upp maceúða til öryggis þar sem honum hafi ekki litist á ástandið og talið sig ekki eiga annarra kosta völ. Eftir að stúlkan hafði verið sett í bifreiðina og meðákærði sestur í ökumannssæti til að ræsa bifreiðina hafi hann gengið að hægri hlið bifreiðarinnar í þeim tilgangi að setjast þar inn. Hafi I þá verið staddur beint fyrir framan bifreiðina og hrækt ítrekað í áttina að honum og ausið yfir þá hótunum og svívirðingum. Þegar hann hafi séð að I ætlaði að ráðast að lögreglubifreiðinni „og með því móti að fá múginn með sér“ hafi hann sprautað u.þ.b. 2 sekúndna löngum maceúða í andlit I, og við það hafi hann náð að loka bifreiðinni og þeir getað komist af vettvangi. Hafi þeir fengið vitneskju um hver I var eftir að hann hafði gefið sig fram á lögreglustöðinni Miðborg þar sem hann leitaði aðhlynningar vegna úðans. Ekki hafi verið möguleiki fyrir þá að bjóða fram aðstoð sína á vettvangi þar sem það hefði einungis gert málin verri en komið var. Þá segir að léttur andvari hafi verið þegar úðanum var beitt og því möguleiki á því að einhverjir aðrir hafi fengið örlítið af táragasinu á sig. Hins vegar hafi „bunan“ sjálf öll farið í andlit I.

 

Framburðarskýrslur.

             Ákærði, Þórjón Pétur Pétursson lögreglumaður, kvaðst hafa verið við venju­bundið eftirlit ásamt meðákærða, X. Hafi þeir ekið eftir Tryggvagötu í austur og X verið við stýrið. Við gatnamótin hjá Kaffi Amsterdam hafi par staðið úti á miðri götu. Hafi X rennt upp að hliðinni á þeim, skrúfað niður rúðuna og sagt hvort þau vildu ekki fara af götunni eða eitthvað á þá leið. Sjálfur hafi hann einnig kallað til þeirra eitthvað sem svo: „Elskurnar mínar, í guðana bænum fariði áður en einhver kemur og keyrir ykkur niður.“ Viðbrögð H hafi verið þau að hann upphóf svívirðingar og öskur á þá, lögreglu­mennina, og hafi greinilega verið fjarri því að vera í jafnvægi, og konan, vitnið M, hafi greinilega verið mjög ölvuð. Kvaðst ákærði ekki muna nú alveg orðaskiptin en þau hafi verið eitthvað á þá leið, að lögreglumönnunum kæmi þetta lítið við og gætu bara átt sig.  Það hafi orðið umskipti hjá parinu þegar þau hafi heyrt eða séð að X, sem hafi verið búinn að segja við þau eitthvað á þá leið að þau yrðu þá bara handtekin, hafi farið í talstöðina og kallað eftir aðstoð, hafi beðið um annan stóran bíl á staðinn, þá hafi þau farið að færa sig aðeins út af götunni. Kvað hann ástand H hafa verið mjög annarlegt.  Hann hafi verið mjög æstur, en það hafi ekki verið vínlykt af honum. Kvaðst hann aðspurður hafa talið að hann væri undir áhrifum örvandi efna. Þeir hafi snúið bifreiðinni við þarna og ákveðið að hafa nánara tal af H og hafi þeir ekki viljað fara út úr bifreiðinni og tala við hann nema hafa „back-up”.  Hafi þeir ekki viljað vera bara tveir þarna innan um allt þetta ölvaða fólk.  Þegar þeir hafi heyrt hvar hinn bíllinn var og vitað að hann yrði kominn innan einhverra sekúndna þá hafi þeir stigið út úr lögreglubílnum. Hafi X beðið H um nafn og kennitölu.  Hann hafi neitað því og ekki verið kurteis. Nánar spurður um þetta kvaðst hann ekki muna hvort hann var krafinn um skilríki, en hann hafi verið beðinn um nafn og að gera grein fyrir sér og hann hafi neitað því. Þá hafi honum verið tilkynnt að hann væri handtekinn. Þar byrji myndbandið sem lagt er fram í málinu. Á meðan þeir hafi verið að handtaka H hafi M verið „endalaust að djöflast utan í“ þeim.

             Ákærði var nú spurður um ástæður afskipta þeirra af þessu fólki. Kvað hann það fyrst hafa verið vegna þess að þau voru úti á götu. Síðan hafi þeir viljað athuga betur með þennan einstakling vegna ástands hans „og líka það bara að fá uppgefið nafn og kennitölu“ til þess að geta bókað sín afskipti þarna. Þetta hafi verið dæmigert mál, þar sem afskipti byrja vegna smáræðis, en síðan verði þeir varir við að þarna er mjög ör einstaklingur og þeir hafi viljað ná tali af honum til þess að vita hvort hann væri hættulegur öðrum úti á götu. Taldi hann mega líkja þessu við mann sem væri hendandi flöskum og þyrfti að stöðva. Væri hann líklegur til að ráðast á einhvern? Ákærða var bent á að ástæða afskipta lögreglu væri þannig bókuð í skýrslu, að fyrirmælum lögreglu hefði ekki verið hlýtt og einnig væri vísað til 21. gr. áfengislaganna. Var hann spurður hvaða fyrirmæli það hefðu verið. Kvað hann það hafa verið að hlýða því ekki að fara af götunni. Tilvísunin í áfengislögin væri í öllum tilvikum þegar afskipti væru höfð af ölvuðu fólki. Einnig vanti möguleika á að setja inn fleiri brotaflokka. Þá kvaðst ákærði hafa talið að maðurinn væri þarna hættulegur sjálfum sér og öðrum. Þá voru borin undir ákærða ummæli varðstjóra, vitnisins Gunnars F. Jónassonar, í lögregluskýrslu vegna málsins, þar sem haft er eftir honum að hann hafi ekki talið H í annarlegu ástandi heldur hafi hann verið ósáttur og reiður. Kvaðst ákærði mótmæla þessari skýrslu og kvaðst vænta þess að vitnið myndi leiðrétta þetta. Benti ákærði á að í vistunarskýrslu stendur „annarlegt ástand“.

             Ákærði var þá spurður út í aðdraganda þess að hann beitti úðavopni. Hann kvað manninn sem sprautað var á, vitnið I, hafa sýnt mjög „agressíva“ hegðun. Hann hafi verið mjög stór og hafi þeim staðið ógn af honum. Hann hafi verið „að djöflast í þeim“ meðan þeir voru að handtaka M, og öskra á þá að láta hana lausa. Kvaðst hann hafa tekið varnarúðann upp vegna þess að hann hafi óttast að þeir yrðu undir ef I færi í þá. Hinir lögreglumennirnir hafi verið farnir inn í bifreiðina og fleiri aðilar hafi verið þarna í kring. Lítill maður sem hafi fylgt I, maður að tala í gsm-síma með beina lýsingu af vettvangi og öskrandi á þá og fimm aðilar sjáist á myndskeiði. Fólk þetta hafi verið að kalla að þeim og verið með aðsúg að þeim með einum eða öðrum hætti. M hafi látið öllum illum látum í aftursæti lögreglubifreiðarinnar og hafi X verið sestur inn og verið að reyna að hemja hana og því ekki vitað hvað gekk á utan dyra, þar sem hann hafi verið með fimm aðila í kringum sig. Hann hafi verið að koma sér inn í lögreglubifreiðina. Litli maðurinn hafi þá verið fyrir aftan bifreiðina öskrandi á hann og I fyrir framan bifreiðina öskrandi. I hafi lagst fram á húdd og á framrúðuna ökumannsmegin. I hafi síðan strunsað af stað, í því að ákærði var að gera sig kláran að fara inn í lögreglubifreiðina. Þá hafi menn í ljósum og dökkum jökkum verið komir alveg upp að bifreiðinni. Hann hafi verið hálfsestur inn en ennþá með hægri fót úti þegar I hafi verið í þann mund að koma fyrir hornið. Hafi hann verið í því sem þeir kalli í dauðri stöðu til að geta staðið upp og varið sig. Hafi hann þarna haft sekúndubrot til að ákveða hvort hann ætti að reyna að taka fótinn inn og loka hurðinni eða hvort hann ætti að stöðva hættuna.  Hafi hann tekið þá ákvörðun þarna á þessum augnabliki, þegar hann hafi séð I koma, að sprauta á hann eins til eins og hálfs sekúndu löngum úða, sem hafi nægt til þess að hann stoppa hann. I hafi verið búinn að vera mjög „agressívur” og það síðasta sem ákærði kvaðst myndu vilja í lögreglustarfi væri að lenda í svona manni, manni hafi liðið eins og þetta væri einhver sem gæti tekið mann í sundur bara svona eins og korktappa. Síðan hafi hann tekið fótinn inn, lokað bifreiðinni og læst. Það sé rangt að hann hafi skrúfað niður rúðuna á lögreglubifreiðinni og sprautað. Lögreglubifreiðin hafi ekki verið komin í gang og þá sé ekki hægt að taka niður rúðu. Sjáist á myndum úr öryggismyndavél þegar sprautað er og eftir það sjáist á næstu bifreið fyrir framan að ljós lögreglubifreiðar hafa verið kveikt. Komi ljósin á þegar bifreiðin er sett í gang. Einnig sjáist á myndbandinu að dyr lögreglubifreiðarinnar farþegamegin eru opnar þegar sprautað er. Það hafi komið augnablikshik á I, en á myndbandinu sjáist að síðan rýkur hann áfram og hallar sér niður að bílnum og svo hafi hann öskrað á ákærða „þetta er það besta sem þú getur gert.“ Ákærði kvaðst hafa verið lafhræddur um það, þar sem I hafi átt eftir eitt skref frá horninu, að þá hefði hann getað sparkað í hurðina og hefði þá mölbrotið á honum fótinn. Dæmi sé um að lögreglumaður hafi slasast við slíkar aðstæður. Ákærða var bent á að samkvæmt myndskeiði úr öryggismyndavél virtist I vera fyrir framan bifreiðina þegar hann úðar á hann. Ákærði taldi I vera við hornið. Hann kvað varnarúðann vera í raun bunu sem ætlað væri til þess að nota í nokkurra metra fjarlægð. Ítrekað spurður um þetta kvaðst hann hafa talið öryggi sínu ógnað eftir fyrri framkomu I, hefði hann talið hann ætla að fara að ráðast á sig eða sparka í hurðina. Spurður hvort það hefði tekið skemmri tíma að sprauta úðanum en að skella hurðinni, kvaðst ákærði hafa þurft að taka ákvörðun á sekúndubroti. Hafi hann talið vera árásarhættu til staðar og hann hafi því haft leyfi og vald til að beyta úðanum samkvæmt þeim reglum sem gildi um notkun varnartækja.

             Ákærði var spurður um orðalag skýrslu sinnar um atvikið, þar sé notað orðið „múgur“ eða „um 10 manns,“ og að hann hefði séð að I ætlaði að ráðast að lögreglubifreiðinni. Hann kvað það hafa verið upplifun sína að I væri að koma í hann og að hann væri forsprakki þarna fyrir hópi af fólki. Hann kvaðst hafa náð að loka hurðinni vegna þess að stutt hik hafi komið á I þegar hann sprautaði úðanum. Hann kvaðst hafa upplifað ástandið þannig, að það væri mjög eldfimt og mjög tæpt á því að allt færi í bál og brand.  „Hvort maður hefði átt að nota orðið múgæsing, skrílslæti, mikil læti, það er eflaust hægt að setja út á það en þegar maður situr þarna við tölvu og reynir að finna út réttu orðin, það er eiginlega eina sem ég gæti sagt, jú, það mátti kannski orða hlutina eitthvað aðeins betur.  Það hafi verið eitthvað óheppilegt orðalag en það var æsing þarna í mannskapnum.“ Varðandi töluna kvaðst hann hafa slegið á hana, í slíkum aðstæðum, „með M í höndunum, þennan stóra fyrir aftan mig, þennan litla að djöflast við hliðina á mér“, þá byrji maður ekki að telja, hann hafi skynjað þetta svona. Þarna í kring hafi einnig verið fleira fólk en sjáist á myndskeiðunum úr öryggismyndavélinni, þeir hafi heyrt köll héðan og þaðan.

             Spurður um aðstæður sínar, kvaðst hann hafa verið leystur undan starfs­skyldum kl. 13.00 hinn 18. mars sl. vegna þeirra atvika sem hér væri ákært vegna, en á þeim tíma hefði ekki verið komin fram kæra vegna notkunar varnarúðans og sá aðili sem kærði samkvæmt 1. ákærulið hefði þá verið að gefa sína skýrslu. Spurður af verjanda sínum kvaðst hann telja að bæði handtaka H og beiting úða­vopnsins hefðu verið fyllilega löglegar aðgerðir. Hann kvað lögreglumönnum vera gert af yfirstjórn að taka kennitölu ef einhver sé stöðvaður og ef maður sé handtekinn beri þeim að fara með viðkomandi alla leið á lögreglustöðina.

             Ákærði, X lögreglumaður, kvaðst hafa komið akandi inn Tryggvagötu með ákærða og hafi þeir þá tekið eftir pari sem hafi verið úti á götu og verið að þvælast fyrir umferð. Þeir hafi beðið þau að fara af götunni og hafi karlmaðurinn þá brugðist við með svívirðingum, sagt að þeim kæmi ekkert við hvar hann væri. Hann kvaðst ekki muna nákvæm orðaskipti en þetta hafi verið „dónaskapur frá a til ö.“ Hann hafi ekki farið af götunni.  Hafi þeir sagt honum að þau ættu að fara frá og gefið skýrt til kynna að þeir myndu fjarlægja þau af götunni ef þau færu ekki eftir þessu, og hafi svo kallað strax á aðstoð, kallað á stóran bíl. Þá hafi þeir snúið bílnum við, og þá hafi hann gengið út af götunni. Kvaðst ákærði hafa lagt bílnum á móts við Amsterdam á horninu og stigið út úr bílnum og beðið manninn um að framvísa skilríkjum. Hann hafi haldið áfram að vera með kjaft. Hann hafi verið í einhverju annarlegu ástandi, en ekki sýnilega ölvaður. Stúlkan hafi verið undir greinilegum áhrifum áfengis. „Ég veit ekki hvort það var lögreglubúningurinn eða hvort það var félagi minn sem hann þoldi ekki eða bara almenn óvirðing gagnvart reglum.“ Ítrekað aðspurður kvaðst hann hafa beðið manninn um að framvísa skilríkjum, en hann hafi sagt þeim að halda kjafti og að þeim kæmi ekki við hvað hann væri. Hafi þeir ekkert verið að dekstra hann og handtekið hann og sett í járn. Í því hafi hinn lögreglubíllinn komið og maðurinn færður inn í bíl. Konan hafi „trompast“. Hún hafi reynt að veitast að þeim og hafi vitnið Elín Agnes ýtt henni ítrekað frá, á endanum hafi ekki verið annað til ráða en að handtaka hana. Ákærði kvað margt fólk hafa verið á vettvangi þó enginn hafi í raun skipt sér af handtöku mannsins nema konan. Þegar hún veittist að þeim og verið var að ýta henni frá, hafi komið hópur út af Amsterdam og byrjað að arga á þá og hafi tveir haft sig mest í frammi, einn mjög stór og annar minni. Þá hafi fleiri verið argandi á þá, en hafi ekki veist að þeim líkamlega. Spurður hvort þessir tveir hafi veist að þeim líkamlega, kvað ákærði annan þeirra hafa legið utan í sér allan tímann og hinn hafi verið með hnefann í andlitinu, en þar sem hann var með snarvitlausa manneskju í járnum geri hann sér ekki grein fyrir hvort þeir gripu í hann eða ekki. Spurður um annað fólk þarna, kvaðst ákærði hafa haft nóg annað að gera en að horfa í kringum sig, en það hafi verið fleira fólk þarna á horninu við Amsterdam og við endann á bílnum og á gangstéttinni. Kvað hann ástandið hafa verið eldfimt og ef þeir hefðu farið út í fleiri handtökur hefði allt orðið vitlaust. Aðspurður kvað vitnið aldrei hafa verið vafa í huga þeirra að rétt hefði verið að handtaka fólkið þarna á staðnum.

Ákærði var spurður nánar um ástæðu afskipta af H, hann kvað H hafa verið mjög undarlegan og ógnandi, eins og hann langaði að hjóla í þá en héldi aftur af sér en hafi samt verið alveg dýrvitlaus. Þetta hafi ekki verið eðlileg viðbrögð manns sem sé beðinn að færa sig af götunni. Spurður um ástæðu handtökunnar, sagði ákærði að H hefði fundist að þeir ættu ekkert að vera að skipta sér af honum, hann gæti farið sínu fram, þó svo það væri að fara fyrir umferð og vera sjálfum sér og öðrum hættulegur. Spurður hvort H hafi ekki verið kominn af götunni, kvað ákærði hann hafa farið út af götunni þegar þeir sneru við. Þá hafi hann verið beðinn að framvísa skilríkjum og hann ekki gert það. Ákærði kvaðst hafa verið búinn að hafa afskipti af honum þarna á götunni og hefði honum borið, samkvæmt lögreglu­samþykkt, að sýna sér einhver skilríki eða gefa upp nafn og kennitölu. Bæri lögreglu­mönnum að bóka í dagbók öll afskipti af fólki. Gerðu þeir það ekki fengju þeir yfirhalningu hjá yfirstjórn lögreglunnar. Því hafi ekki verið um annað að velja en að fara með manninn upp á stöð. Væri það iðulega gert við fólk sem neitaði að gefa þeim upplýsingar. Þar væri því skilmerkilega gerð grein fyrir skyldu sinni til þess. Hann hafi ekki ætlað sér að sitja inni í lögreglubíl með ölvað, snarvitlaust lið í kringum sig. Það væri vinnumáti hjá lögreglunni að fara með fólk upp á stöð og tala við það þar í slíkum tilvikum, og síðan væri því sleppt.

             Spurður um lögregluskýrslu sína um atvikið, en þar hafi ástæða handtöku verið bókuð: „Fyrirmælum lögreglu ekki hlýtt,“ og „21. gr. áfengislaga,“ kvaðst vitnið ekki hafa fært sjálfur í dagbók, það hefði Karl Steinar Valsson aðstoðaryfirlögregluþjónn gert, en samkvæmt upplýsingum frá þeim, lögreglumönnunum á vettvangi. Ákveðnar upplýsingar liggi þá fyrir, í dagbók, og forritið sé síðan þannig að það sem búið er að bóka í dagbókarfærslu komi sjálfkrafa inn á formið þegar lögregluskýrslan sé skráð. Lagatilvísanirnar færðust til dæmis sjálfkrafa inn. Aðspurður kvað hann hægt að leiðrétta villur með því að breyta dagbókinni. Nánar spurður um hvaða fyrirmælum lögreglu H hefði ekki hlýtt, kvað hann það upphaflega hafa verið að fara ekki af götunni fyrr en honum hafi verið sagt að hann yrði fjarlægður af vettvangi, og síðan að neita að upplýsa hver hann væri. Hann sé að vísa til beggja þessara fyrirmæla í skýrslunni. Þeir hefðu getað stigið út úr bifreiðinni þar sem hann var á götunni, en þá hefðu þeir verið fyrir líka. Spurður hvort tilefni handtökunnar hafi einnig verið ástand H, og hvort það hefði átt við hann að hann ylli „óspektum, hættu eða hneyksli á almannafæri,“ kvað hann manninn ekki hafa lyktað af áfengi eða verið látinn blása, en hann hafi virst vera undir áhrifum lyfja eða fíkniefna.

             Spurður um ástandið á vettvangi og lýsingu á nauðsyn þess að nota úðavopn, kvaðst ákærði ekki hafa tekið ákvörðun um það hann hafi haft öðru að sinna, og geti ekki metið hvort beiting þess hafi verið nauðsynleg. Spurður nánar út í skýrslu sína þar sem hann lýsir því að þar sem fáir lögreglumenn voru á vettvangi og æsingur manna á vettvangi, flestir ölvaðir, „var slíkur að sýnt þótti að ef til átaka kæmi þá yrðu lögreglumenn undir í átökum, var sá sem hafði sig mest í frammi úðaður með Maceúða (sk.8725). Við það gafst lögreglu svigrúm til að koma sér af vettvangi án þess að til frekari átaka kæmi,“ kvaðst ákærði hafa verið að leggja mat á það að maðurinn, I, hafi verið úðaður til þess að koma í veg fyrir frekari átök. Eftirá telji hann þetta hafa verið eðlilegt. Hann hafi þó ekki séð hvað gerðist nákvæmlega því hann hafi verið upptekinn við M snarvitlausa inni í bílnum. Maðurinn, I, hafi legið hálfur uppi á bifreiðinni rétt áður og verið að koma að ákærða Þórjóni. Sjálfur hafi hann ekki vitað fyrr en eftirá að I var úðaður, hann hafi ekki séð það, en þeir vinni tveir saman og hann geri ekki einn skýrsluna. Nánar spurður kvað hann I hafa verið mjög ógnandi og félaga hans ekki síður, en stærðarinnar vegna hafi þeir ef til vill ekki hugsað eins mikið um hann. Þetta hefði getað farið illa ef komið hefði til frekari átaka. Aðspurður kvað hann ákærða Þórjón hafa sprautað úðanum út um hurðina vegna þess að bíllinn hafi ekki verið kominn í gang, en rúður bílsins séu rafknúnar og ekki hægt að setja þær niður fyrr. Sama sé að segja um ljósabúnaðinn. Kvað hann ákærða Þórjón ekki hafa skrúfað niður rúðuna eftir að bíllinn var kominn í gang, því hann hafi klifrað yfir í aftursætið þegar að ekið var af stað, hliðarrúðan hafi aldrei opnast. Aðspurður kvaðst hann nú eftir á telja að eðlilegt hefði verið að beita úðanum, ef ákærði Þórjón hafi verið hræddur við manninn, það sé skýlaus heimild til að nota þetta valdbeitingartæki til að verjast árás og það hafi hann verið að gera.

             Spurður um notkun sína á orðinu „múgæsing“ og að þarna hafi verið „fullt af fólki,“ kvað hann fólk hafa verið fyrir utan þann ramma sem öryggismyndavélin sýni, hann hafi ekki talið fólkið. Skýrslan lýsi ástandinu eins og hann upplifði það á staðnum. 

Nánar spurður kvað hann þessa handtöku hafa verið hefðbundna aðgerð og slík tilvik algeng um helgar, miðbæjarleiðindi. Það hafi enginn vafi verið uppi varðandi handtökuna. Hann hafi snúið við til að fylgja eftir þeim afskiptum sem voru byrjuð þarna úti á götunni og viðbrögð mannsins hafi ekki verið eðlileg, og ástand hans annarlegt, dónaskapurinn hafi ekki skipt þar máli, kvaðst hann löngu vera orðinn vanur slíku.

Ákærði kvað sér hafa verið vikið formlega frá störfum 4. apríl sl. Hann kvaðst vera menntaður til lögreglustarfa og hafa lífsviðurværi sitt eingöngu af því.

             Vitnið, H, kvaðst í umrætt sinn hafa verið að koma af skemmtistaðnum Amsterdam ásamt kærustu sinni, M. Þau hefðu verið á leið heim og farið út á götuna til þess að veifa leigubíl, en sá hafi verið fullur af fólki. Nánar spurður kvað hann rétt að þau hafi verið á miðri götunni þegar lögreglan kom að, en þau hafi verið á leið yfir götuna. Nánar spurður um þetta síðar í þinghaldinu kvað hann þau ekki hafa staðnæmst þarna á götunni á „tjatti“ eða verið að leika sér, þau hafi ætlað að ná í leigubíl til að komast heim og verið á leið fyrir götuna í þeim tilgangi, en hafi ekki verið komin yfir þegar lögreglan kom akandi og sagði þeim að fara upp á gangstétt. Kvaðst hann hafa brugðist illa við þessum tilmælum og verið eitthvað dónalegur. Nánar spurður um þetta útskýrði hann að sér hefði þótt heldur mikið að lögreglan væri að skipa honum upp á gangstétt þar sem hann var bara að reyna að komast heim. Hann kvaðst ekki muna hvað hann sagði við lögregluna, dónalegur hafi hann verið, en þó ekki með nein hróp og köll, þetta hafi farið í taugarnar á honum, afskiptin hafi verið tilefnislaus.

Vitnið kvað þau M hafa farið upp á gangstétt, lögreglubílnum hafi verið snúið við, lögreglumennirnir stigið út og þau verið handtekin á gangstéttinni. Hann kvaðst ekki hafa sýnt neinn mótþróa þegar hann var færður í handjárn á vélarhlíf bílsins og settur inn í annan lögreglubíl sem kom aðvífandi. Aðspurður kvaðst hann ekki minnast þess að hafa heyrt lögreglumennina kalla á aðstoð. Hann kvaðst alveg viss um að lögreglumennirnir hefðu ekki beðið um skilríki, nafn eða kennitölu þarna á gagnstéttinni. Þráspurður um þetta kvaðst hann ekki muna eftir að hafa verið spurður að nafni eða kennitölu. Aðspurður nánar, kvað hann engin samskipti hafa átt sér stað. Spurður hvort annað fólk á vettvangi hafi skipt sér af handtöku hans, kvað hann M hafa verið með læti, hún hafi verið öskrandi fyrir utan og bíllinn hafi verið allur á iði, en hann hafi ekkert séð hvað gekk á. Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir fleira fólki þarna í kring áður en hann fór inn í lögreglubílinn. Spurður hvort hann þekkti vitnið I, kvaðst hann ekki þekkja hann.

Hann kvaðst ekki muna til þess að sér hafi verið gefin skýring á því fyrir handtöku hvers vegna hann væri handtekinn. Hann hafi verið spurður um nafn og kennitölu af varðstjóra á lögreglustöðinni og hafi hann neitað að gefa það upp, þeir hafi tekið veskið hans þar sem öll skilríki voru. Á lögreglustöðinni hafi hann látið óánægju sína í ljós og verið þver og ekki svarað neinu. Hafi honum verið sagt að ástæða handtökunnar hefði verið að þau hefðu ekki hlýtt tilmælum lögreglu og hefði hann mótmælt því, „því við vorum komin upp á gangstétt þegar við vorum handtekin.“ Aðspurður kvaðst vitnið hafa verið ölvaður en þó minna ölvaður en kærasta hans. Ítrekað spurður um ástand sitt, kvaðst hann hafa verið drukkinn, en þó ekki eins drukkinn og M. Hann aftók að hann hefði verið undir áhrifum einhverra annarra vímuefna, og kvaðst hvorki hafa verið hættulegur sjálfum sér né öðrum.

Aðspurður kvað vitnið ákærða Þórjón tvívegis áður hafa haft afskipti af honum en hann hefði aldrei handtekið hann áður, væri það rangt í lögregluskýrslu. Kvaðst hann hafa orðið svolítið skelkaður að sjá hann þarna aftur, vera í þriðja skipti að skipta sér af honum fyrir ekki neitt, en taldi að hann myndi ekki hafa hagað sér öðruvísi þótt einhver annar lögreglumaður hefði verið þar á ferð.

Vitnið kvað rétt að Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, hefði haft samband við M að fyrra bragði eftir atburðinn, en hann kvaðst ekki geta sagt með vissu hvenær það hefði verið. Kvaðst hann hafa tekið ákvörðun um að kæra áður, en hefði ekki verið búinn að koma því í verk, en Geir Jón hefði kvatt þau til þess að koma niður eftir og kæra og sagt að öll þessi mál þyrftu að fara í gegn. Minnti hann að þetta hafi gerst áður en M hefði komið fram í sjónvarpi. Spurður um tilganginn með kærunni kvaðst hann hafa verið mjög ósáttur við framgöngu lögreglunnar hann hefði ekki verið að gera annað en að fara yfir götu á leið heim.

Vitnið, M, kvaðst hafa komið út af Café Amsterdam ásamt kærasta sínum, H, þau hafi séð leigubíl á götunni og farið út á hana til að ná í hann. En leigubíllinn hafi keyrt framhjá þeim, hann hafi verið fullur af fólki þannig að þau gátu ekki tekið hann. Þá hafi lögreglan komið og sagt þeim að fara af götunni. Þau hafi örugglega sagt eitthvað hundleiðinlegt við lögregluna. Hún kvaðst ekki muna hvað það var, en eitthvað í þá veru að hann ætti ekki að vera skipta sér af þeim. Þau hafi farið upp á gangstéttina. Lögreglan hafi snúið bílnum við og sett H beint í handjárn. Hún kvaðst hafa „fríkað út,“ hann hafi ekki haft neinn rétt til þessa. Hún hafi einnig verið sett í handjárn og henni hent inn í bíl. Nánar spurð kvaðst vitnið ekki muna eftir neinum orðaskiptum á gangstéttinni. Hún kvaðst vera viss um að hafa ekki heyrt að H væri spurður um nafn og kennitölu. Þeim hafi ekki verið sagt hvers vegna þau væru handtekin, alla vega hafi hún ekki heyrt það. Hún kvaðst hafa verið við hliðina á H. Spurð um ölvunarástand sitt kvaðst hún hafa verið vel í glasi. Nánar spurð síðar kvað hún líklegt að hún hefði ýtt í lögregluna þegar þeir voru að handtaka H, hún hafi verið rosalega reið. Spurð um annað fólk á vettvangi, kvaðst hún ekki muna eftir öðru fólki þarna, utan að einhver strákur hafi verið að segja eitthvað, þegar lögreglumennirnir hafi verið búnir að skella henni upp að lögreglubifreiðinni. Taldi hún að hann hefði verið að segja að þeir ættu ekki að gera þetta við hana. Aðspurð taldi hún þennan mann ekki hafa verið lítinn og kvaðst ekki hafa þekkt hann. Hún kvaðst ekki hafa séð neinn veitast að lögreglunni með pústrum eða slíku, enda hafi hún ekki verið að spá í fólkið í kring eða hvernig það hagaði sér. 

Hún kvað það rétt að hún hefði sparkað frá sér á leiðinni á lögreglustöðina og hafi þurft að hemja hana. Hafi annar lögreglumaðurinn setið ofan á henni alla leiðina. Aðspurð kvað hún það vera rétt að hún hafi reynt að sparka út hliðarrúðu bifreiðarinnar. Á lögreglustöðinni hafi hún rifist. Þar hafi henni hafi verið sagt að þau hefðu verið handtekin fyrir að fylgja ekki fyrirmælum. Það hefði ekki verið útskýrt nánar. Hún kvað rétt að hún sjálf hefði verið með stæla, en það hefði H ekki verið.

Vitnið kvaðst hafa hringt í lögregluna á mánudeginum og rætt við einhvern yfirmann. Hún hafi spurt út í málið og handtökuna, hvort þetta hefði verið eðlileg aðgerð. Henni hafi verið bent á að fá áverkavottorð og koma svo niður eftir og kæra, þannig gengu svona mál fyrir sig ef fólk væri eitthvað ósátt. Hún kvað það ekki rétt að lögreglan hefði hringt í hana af fyrra bragði. Kvaðst hún hafa kannast við ákærða Þórjón áður og hafa nefnt nafn hans í samtalinu. Það hafi ekki komið nein sérstök viðbrögð við því. Ítrekað spurð kvaðst hún hafa viljað kæra málið, H hafi verið handtekinn ólöglega, hennar kæra hafi ekki náð fram og eftir á að hyggja sé það eðlilegt miðað við það hvernig hún lét.

Vitnið, I, kvaðst hafa verið við gluggann inni á Amsterdam og séð par labba út á götuna, svo hafi hann horft eitthvað annað, verið að spjalla við kunningja sinn, og það næsta sem hann viti var að lögreglan var búin að handjárnað manninn og er að stinga honum inn í bíl. Þá hafi stúlkan „klikkast“ og þeir hafi báðir tekið á henni. Annar hafi rifið í hárið á henni og skellt andlitinu á henni í bílinn. Þá hafi hann verið kominn út og hafi hann hlaupið að þessu. Þeir hafi handjárnað hana og þá hafi hann beðið þá um að sleppa henni og sagst skyldu taka við henni. Hafi honum verið sagt að koma sér frá. Þá hafi stóri lögreglubíllinn farið og lögreglumennirnir sem eftir voru hafi „vöðlað“ stelpunni inn í bílinn.  Síðan hafi sá sem ók stokkið inn í bílinn en hinn farið framfyrir og hafi hann labbað á eftir honum. Lögreglumaðurinn hafi sest inn í bílinn og þá hafi hann labbað framfyrir bílinn og öskrað eitthvað „er þetta það eina sem þið getið?“ eða „aumingjarnir ykkar að ráðast á kvenmann.“ Þá hafi hann hrækt í átt að bílnum en kvaðst ekki vita hvar það lenti. Þá hafi hann séð rúðuna koma niður og lögreglumanninn teygja út höndina og sprauta yfir hann. Hann hafi náð að víkja sér eitthvað undan en samt fengið á sig.  Hafi hann öskrað eitthvað á hann en lögreglumaðurinn skrúfað upp rúðuna og hafi glott framan í hann og síðan hafi þeir ekið af stað. Nánar spurður kvaðst vitnið ekki geta verið fullviss um að bílhurðin hafi verið lokuð þegar ákærði sprautaði, en höndin á honum hafi komið út, það kynni að vera að ákærði hefði teygt höndina út um opnar dyr. Kvaðst hann hafa staðið fyrir framan bílinn, verið kominn að horninu, og hafnaði því að þetta hefðu verið varnarviðbrögð af hálfu lögreglumannsins. Hann kvaðst ekki hafa verið ógnandi, það eina sem hann hafi gert var að öskra að ákærða. Hann kvaðst ekki hafa hótað lögreglumönnunum og ekki hafa gert sig líklegan til þess að ráðast á þá. Hafi komið buna af ca. 1,5-2 metra færi. Gömul hjón hafi líka fengið þetta yfir sig.

Spurður um aðra á vettvangi, kvað vitnið fólk hafa staðið á gangstéttinni sem hafi verið að horfa á. Hafi athygli hans ekki beinst að því hvort fólkið hafi hrópað að lögreglunni. Hann kvaðst hafa verið sá eini sem var kalla að lögreglunni og svo megi vera að það hafi verið einhver einn annar maður, en það hafi ekki verið nein múgæsing á vettvangi, nema hann teljist vera múgur. Hann kvað það geta verið að lögreglunni hafi fundist hann vera ógnandi enda væri hann stærri en þeir, hann kvaðst vera 1,93 cm og hafa verið á háum skóm. Hann kvaðst hafa verið búinn að drekka einn til tvo bjóra. Hann kvaðst ekki muna eftir að hafa steytt hnefann framan í lögreglumennina, en hafa sett höndina á öxlina á öðrum þeirra, sem hafi sagt honum að vera ekki að skipta sér af og ýtt honum frá. Hann hafi ekki ætlað að ráðast á þá, en hafa viljað fá að vita út af hverju þeir beittu stelpuna slíkum fautaskap. Honum hafi misboðið meðferðin á henni. Vitnið kvað það rétt að annar maður minni hafi verið þarna og hafi hann komið með á lögreglustöðina.

Um afleiðingarnar af úðavopninu kvað vitnið að sig hefði logsviðið. Hann hafi farið á Miðborgarstöð og fengið þar handklæði til að þurrka á sér andlitið. Honum hafi sviðið langt fram á morgun og verið aumur næsta dag. Varanlegur skaði hafi enginn verið. Minni maðurinn hafi einnig farið á lögreglustöðina.

Vitnið kvað sér vera kunnugt um að lögreglan hefði reynt að ná sambandi við hann áður en hann kærði. Hann kvaðst hafi hins vegar ekki hafa talað við neinn, en hafa farið á lögreglustöðina og sagst ætla að leggja fram kæru.

Vitnið, Z, kvaðst hafa verið á gangi ásamt unnustu sinni þarna fram hjá á leið í bíl sinn við Tollhúsið, þau hafi verið þarna á gangstéttinni fyrir framan Amsterdam, við innganginn þar. Þau hafi séð lögreglubíla og einhver orðaskipti á milli lögreglumanns og tveggja manna. Annar maðurinn hafi verið hávaxinn og hafi hann staðið fyrir framan bifreiðina. Þá minnti hann að annar maður hafi staðið við hliðina og lögreglan átt einhver orðaskipti við hann. Kvaðst hann ekki hafa orðið var við að þessir menn hafi lagt hendur á lögreglumennina. Hann kvað þau ekki hafa séð handtöku. Vitninu eru sýndar ljósmyndir en kvaðst ekki þekkja sig á þeim myndum. Kvaðst hann hafa staðið nær afturhlið lögreglubifreiðarinnar. 

Varðandi notkun á úðavopni kvaðst vitnið hafa séð lögreglumann sem hafi verið að stíga inn í bifreiðina nær gangstéttinni, einhver orðaskipti hafi verið á milli hans og mannsins sem stóð fyrir framan bifreiðina og síðan hafi þau fengið úða yfir sig. Hann kvaðst ekki hafa séð hann með brúsann. Ítrekað spurður kvað hann lögreglumanninn hafa verið hálfan inni í bifreiðinni en gat ekki svarað því hvort hönd hans hafi komið upp fyrir hurðina eða út um gluggann.  Síðan hafi hann látið úðann hverfa meðan hann átti einhver orðaskipti við manninn sem var við hliðina á honum. Hann taldið að úðinn hefði borist á þau með vindinum. Borið er undir hann brot úr lögregluskýrslu þar sem haft er eftir honum að mönnunum sem lögreglan hafði afskipti af hafi verið heitt í hamsi og kvað vitnið að sér hafi sýnst það, að minnst kosti þeim sem stóð fyrir framan bifreiðina. Gæti vel verið að hann hafi verið ógnandi.

Spurður um ástandið á vettvangi, kvaðst vitnið ekki telja að þarna hafi skapast múgæsing. Fólkið sem hafi staðið þarna við gangstéttina hafi bara verið forvitið um hvað væri að gerast hjá lögreglunni. Kvaðst hann ekki halda að fólkið hafi verið að gera hróp að lögreglunni. Kvaðst hann ekki gera sér alveg grein fyrir því hversu margir hafi verið þarna, 6-8 manns í mesta lagi. Spurður hvort lögreglumanninum hafi verið ógnað, kvaðst hann telja að hann ætti ekki að hafa þurft að beita úðanum og hann héldi að hann hefði farið aðeins út fyrir valdsvið sitt þarna.

Aðspurður kvaðst vitnið vera bindindismaður. Hann kvað þau hjónin fyrst hafa leitað inn á veitingastaðinn til að fá að þvo sér í framan. Einnig kom fram að hann hefði hringt í Neyðarlínuna og þau komið á Miðborgarstöðina og þar hafi nöfn þeirra verið tekin niður. Þá hafi þau leitað aðhlynningar á Slysavarðstofunni, þar sem þau hafi verið hreinsuð. Kvað hann sambýliskonu sína einnig hafa fengið roða í hálsinn af því að hún var með tyggigúmmí. Hann kvað nöfn þeirra hafa verið tekin niður þegar þau komu á Miðborgarstöðina, og síðar hafi verið hringt og tekin skýrsla.

Vitnið, M, kvaðst hafa verið stödd í Tryggvagötunni með unnusta sínum Z.  Hún hafi séð einn lítinn lögreglubíl og það hafi eitthvað verið að ske í bílnum.  Hún hafi séð að það voru einhver læti þarna og hafi fyrst ekki viljað fara þarna nálægt, en bíllinn þeirra hafi verið þarna og hún ákveðið að fara framhjá með Henrý. Svo hafi þau fengið gusuna á sig. Hana hafi farið að svíða og unnusti hennar dreif hana inn á Amsterdam til að skvetta á hana vatni. Hún hafi fundið hita og roða í andlitinu, fengið ertingu í augun og í hálsinn, vegna þess að hún var með tyggjó. Hún kvaðst ekki vita hvaðan gusan kom. Hún kvaðst ekki muna núna hvort bíldyrnar hafi verið opnar. Borið er undir hana brot úr lögregluskýrslu þar sem haft sé eftir henni að hún hafi séð hægri framhurð lögreglubílsins opna og að hún hafi haldið að lögreglumaðurinn hafi setið inni í bílnum. Kvaðst vitnið ekki muna eftir þessu í dag. Hún kvaðst hafa verið búin að drekka fjögur glös af bjór.

             Vitnið, G,  kvaðst hafa verið á leið á Glaumbar með félaga sínum vitninu R, en hafa hætt við og hafi verið að ganga Tryggvagötuna í átt að Lækjargötunni. Þá hafi þeir séð ungt par á götunni fyrir framan gangstéttina hjá Amsterdam og lögreglubíl þarna hinum megin á götunni. Einhver samskipti hafi átt sér stað á milli parsins og lögreglumanna þarna. Þeir hafi gengið áfram og verið komnir að Pizza 67 þegar þeir hafi litið við og hafi þá séð að annar lögreglubíll var kominn og hinn lögreglubílinn, sem var á götunni fyrst, var kominn yfir götuna. Þeir hafi þá snúið við til þess að fylgjast með. Sáu þeir að verið var að handtaka unga stúlku en meðan á því stóð hafi tveir strákar komið út af Amsterdam og annar þeirra byrjað að öskra á lögregluna eitthvað sem svo: „Komiði svona fram við konurnar ykkar heima hjá ykkur?“ Hann hafi farið á milli bílanna og hrópað og öskrað á þá. Síðan hafi stóri bíllinn farið en hinir lögregluþjónarnir fóru inn í bílinn. Strákurinn sem var öskrandi hafi haldið því áfram og hafi verið kominn fram fyrir bílinn, við hliðina á honum upp á gangstéttina og öskrað að lögreglunni. Lýsti hann honum sem hávöxnum og klæddum gallavesti og leðurjakka undir. Hinn hafi verið mun lægri og klæddur svörtum jakka. Vitnið kvað annan lögregluþjónninn, hafa, teygt höndina út og sprautað táragasi eða einhverju slíku. Aðspurður kvað vitnið lögreglubílinn hafa verið kominn á ferð, eða svona lullað áfram, þegar hann teygði höndina út. Honum fyndist hann hafa skrúfað rúðuna niður og teygt sig út, en kvaðst þó ekki geta fullyrt um það. Hann hafi séð úðann sem kom og strákinn þurrka sér um andlitið. Lögregluþjónninn hafi verið með bros á vör þegar hann gerði þetta. Nánar spurður kvað vitnið að það gæti hugsast að bíllinn hafi verið kyrr á meðan sprautað var. Spurður hvort að hann hafi séð hvort að höndin hafi verið fyrir ofan hurðarkarminn eða hugsanlega að hún hafi komið út um dyrnar, kvaðst vitnið ekki geta séð það nákvæmlega fyrir sér en höndina hafi hann allavega séð koma þarna út. Þeim hafi þótt þetta gróft og talað um það á leiðinni heim. Borið var undir hann brot úr skýrslu hans hjá lögreglu þar sem haft er eftir honum um framkomu vitnisins I, „...hann hafi verið talsvert æstur og brúkað munn við lögreglumennina. Hann hafi verið orðljótur og talað hátt og öskrað á lögregluna,“ kvað vitnið manninn ekki hafa haft uppi hótanir eða reynt að frelsa stúlkuna sem var verið að handtaka. Hann hafi séð hann hrækja á lögreglubifreiðina og ganga framhjá bifreiðinni og slá á húddið um leið en þá hafi lögreglumennirnir verið báðir í bílnum og því hafi að hans viti ekki stafað ógn af manninum þá, þó ógnvekjandi væri þegar þeir voru úti. Maðurinn hafi síðan labbað upp á gangstéttina og haldið áfram að öskra og hafi hann þá fengið úða á sig. Hafi hann þá staðið uppi á gangstéttinni rétt fyrir framan eða við hlið bílsins.

Aðspurður kvaðst vitnið hafa drukkið þetta kvöld, taldi hann sig hafa drukkið 4-5 bjóra á 4-5 klukkustundum. Hann hafi ekki fundið til mikilla áfengisáhrifa og myndi atburði þessa kvölds því vel.

Vitninu var sýnt myndskeið úr öryggismyndavél og kannaðist þar við sig. Kvaðst hann hafa verið í svörtum jakka, sköllóttur með gleraugu. Við hlið hans væri R með trefil í hvítum jakka. Spurður hvort þeir hafi verið að skipta sér af störfum lögreglu með því að öskra á þá eða gera aðsúg að þeim, kvað vitnið telja að hann hafi þagað. Minnti hann að R hefði sagt tvö eða þrjú orð við lögregluna en kvaðst ekki muna það þó nákvæmlega. Hafi þeim fundist svolítið hart tekið á stelpunni en það hafi kannski ekki verið þeirra að dæma. Spurður hvort múgæsing hafi myndast á staðnum kvað vitnið það engan veginn hafa verið svo, nema þessi eini stóri maður hafi verið múgurinn, og hann hafi ekki verið það æstur.

             Hann kvaðst hafa gefið sig fram sem vitni að þessum atburðum daginn eftir að hann sá frétt í sjónvarpinu um málið. Kvaðst hann ekki geta gefið skýringu á því hvers vegna fjórir mánuðir hefðu liðið frá atburðinum þar til skýrsla var tekin af honum, hann kvaðst ítrekað hafa haft samband. Vitnið staðfesti lögregluskýrslu sína og undirskrift.

Vitnið, R, kvaðst hafa verið með vitninu G í bænum og hafi þeir verið á gangi frá Glaumbar og á leið heim. Hafi þeir tekið eftir því að einhver læti voru í gangi. Síðan hafi þeir séð að verið var að handtaka einhvern fyrir framan veitingastaðinn Amsterdam. Þeir hafi séð stelpu við stóra lögreglubifreið með nokkra lögregluþjóna á sér, hafi hún haft svolítið hátt og barist um. Honum hafi þótt óþægilegt að horfa á þetta, því búið var að rífa upp á henni fötin og sést hafi í bert á milli laga. Þeir hafi verið beðnir að færa sig. Spurður hvort þeir hafi eitthvað verið að skipta sér af, kvað hann það ekki hafa verið, en ef til vill hafi hann öskrað eitthvað því þetta hafi verið grimmdarlegt og óþarfi. Hann kvað þá hafa staðið þarna á horninu ásamt ókunnugum stórum manni, og hafi þeir skipst á einhverjum orðum. Þegar minni lögreglubíllinn hafi virst vera að gera sig tilbúinn til að fara, þá hafi annar lögregluþjónninn allt í einu komið og átt einhver orðaskipti við stærri manninn. Það hafi endað með því að maðurinn hrækti á eða í átt að lögreglubifreiðinni. Þegar sá lögreglumaður var kominn inn í bifreiðina hafi hann teygt sig út úr bílnum og „meisað“ duglega yfir múginn, þ.e. á þá þrjá einstaklingana. Hann kvaðst hafa beygt sig og ekki hafa fengið neitt í andlitið á sér. Nánar spurður kvaðst vitnið halda að lögregluþjónninn hafi verið með annan fótinn úti og teygt sig einhvern veginn yfir hurðarkarminn. Taldi hann að lögreglumaðurinn hefði áður verið kominn inn í bifreiðina og komið út aftur. Hafi bifreiðin verið kyrrstæð þegar hann sprautaði en í startholunum. Aðspurður kvað hann þann stóra ekki hafa verið á leiðinni í áttina til lögreglumannsins. Taldi hann vera tengsl á milli þess að stóri maðurinn hrækti og þess að lögreglumaðurinn beitti úðanum. Aðspurður sagði hann að lögreglumanninum hefði engan veginn staðið ógn af stóra manninum á þeirri stundu. Kvað hann svip lögreglumannsins hafa snert sig, hann hefði eins og glott, samt ekki eins og honum væri skemmt, heldur meira eins og hann hefði fengið uppreist æru, það hafi verið einhver svipur sem var óþarfi, „því við eigum að treysta þessu fólki.“ Ítrekað spurður kvað hann lögreglumanninum engin ógn hafa stafað af stóra manninum þegar hann sprautaði gasinu. Spurður um svip stóra mannsins kvað hann augnarráð hans hafa verið reiðilegt, annars hafi þeir verið mest hissa. Spurður hvort stóri maðurinn hefði ekki verið æstur, brúkað munn, talað hátt, verið orðljótur og öskrað á lögreglu­mennina, kvað vitnið það rétta lýsingu á framferði hans, en hann hefði ekki verið líkamlega ógnandi og þetta hefði ekki verið ofbeldisleg hegðun, orð gætu ekki réttlætt táragas. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa heyrt hótanir. Kvaðst hann ekki muna eftir öðrum minni manni með stóra manninum, en hann gæti ekki sagt hvort að einhverjir vinir mannsins hafi verið þarna. Aðspurður kvað hann enga múgæsingu hafa myndast þarna enda enginn múgur á staðnum.

             Vitnið kvaðst ekki hafa gefið sig sérstaklega fram vegna málsins og ekki hefði verið haft samband við sig af lögreglu nema til að boða hann í þetta þinghald sem vitni. Hafi hann í fyrstu talið að ekki væri þörf á vitnisburði hans enda myndavélar í miðbænum og hafa verið tregur til að bera vitni, en kvaðst vera kominn í dóminn til að gegna borgaralegri skyldu sinni.

             Vitnið, Magnús Þór Þórisson lögreglumaður kvaðst hafa verið staddur í Hafnarstræti þegar óskað hafi verið eftir stórum bíl og aðstoð í Tryggvagötu. Kvaðst hann hafa verið ökumaður. Hafi þau verið beðin um að flytja karlmann á stöðina. Kvaðst hann hafa farið út og opnað að aftan og maður í handjárnum hafi verið leiddur inn, síðan hafi hann farið aftur inn í lögreglubifreiðina. Kvað vitnið mikinn hita og óróa hafa verið í fólki þarna á staðnum.  Minnti hann að töluvert hafi verið af fólki þarna. Spurður hvort einhverjir hafi verið að gera hróp að eða veitast að lögreglu­mönnunum, kvað hann hafa verið óróa í kringum báða bílana. Spurður hvort hann geti lýst einum manni framar öðrum, kvaðst hann ekki geta það, nema að þarna hafi verið kona sem hafi verið mjög æst og látið öllum illum látum, unnusta mannsins sem þeir fóru með. Aðspurður kvað vitnið manninn hafa verið mjög rólegan í bifreiðinni hjá þeim en hann hafi ekki séð til hans fyrir utan bifreiðina nema þegar hann var settur inn. Kvaðst hann ekki treysta sér til þess að meta ástand mannsins, hvort hann hafi verið mikið ölvaður eða í einhverju annarlegu ástandi. Hann kvað afskiptum sínum hafa lokið þegar komið var á stöðina, hann hafi ekki fylgt manninum til varðstjóra.

             Spurður um ástæðu handtökunnar, kvaðst vitnið ekki hafa vitað hver hún var fyrr en hann kynnti sér bókun og dagbók um málið. Borið er undir hann brot úr lögregluskýrslu frá 13. maí sl. þar sem haft er eftir honum að hann hafi skilið ákærða Þórjón svo að þau hefðu verið að þvælast á götunni fyrir lögreglubifreiðinni. Taldi vitnið þetta hljóta að vera rétt eftir honum haft, síðan hefði hann kynnt sér bókun frekar. Aðspurður kvað vitnið vera venju að kalla til stóran bíl ef fólk væri mjög æst og léti öllum illum látum. Taldi hann að um hefðbundna helgaraðgerð hefði verið að ræða. Spurður um mat sitt á beitingu úðavopns, kvaðst hann hafa verið farinn af staðnum og ekkert vita um það, en það hafi verið mikill hiti þarna, hann hafi fundið það.

             Vitnið,  Rafn Hilmar Guðmundsson lögreglumaður, kvaðst hafa komið ásamt félögum sínum á stórri lögreglubifreið í Tryggvagötuna þarna um nóttina. Beðið hafi verið um aðstoð við að flytja mann á lögreglustöð. Maðurinn, sem hafi verið í járnum, hafi verið settur inn í bíl og hafi hlutverk vitnisins verið að passa hann aftur í bílnum. Minnti hann að maðurinn hefði verið rólegan og þeir þagað. Svo hafi einnig verið þegar komið var á stöðina. Ítrekað spurður kvaðst vitnið ekki geta borið um ástand mannsins að öðru leyti. Hann kvað eitthvað fólk hafa verið á staðnum, en kvaðst ekki muna hvort hróp voru gerð að lögreglunni eða verið að veitast að þeim. Hann kvaðst ekki minnast neinna einstaklinga sérstaklega vegna hegðunar þeirra. Nánar spurður ástandið á vettvangi, kvaðst hann ekki muna þetta og ekki þora að segja neitt um það. Hann kvaðst hafa leitt manninn inn, þegar komið var á stöð, í fangamóttöku eða í biðklefa og þar hafi afskiptum hans lokið. Hann kvaðst ekki hafa leitt hann fyrir varðstjóra.

Um tilefni handtöku kvaðst vitnið hafa vitað það eftir á eða í bílnum, að maðurinn hefði ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu, en hver þau fyrirmæli voru hafi honum ekki verið kunnugt um. Vitnið kvað þetta að sínu mati hafa verið venjulega lögregluaðgerð, þeir væru að lenda í því um hverja helgi að handtaka fólk fyrir óspektir á almannafæri eða vegna brota á áfengislögum.

Vitnið, Elín Agnes Kristínardóttir lögreglumaður, kvaðst hafa komið að máli í Tryggvagötu þá nótt sem hér um ræðir. Þau hafi aðstoðað félaga sína við að sækja þar handtekinn mann, sem þeir voru með í járnum. Þegar þau hafi komið hafi þeir verið með hann í tökum á milli sín og hann hafi verið settur aftur í M sem þau voru á. Á meðan hafi hamast í þeim allan tímann snarvitlaus kona og hafi hún enn verið á bakinu á þeim eftir að maðurinn var kominn inn í bifreiðina. Spurð nánar um þetta kvað hún konuna hafa rifið í þau hvað eftir annað og hennar upplifun hafi verið sú að hún hafi ætlað að frelsa handtekinn mann. Kvaðst vitnið hafa ýtt konunni frá. Hún hafi síðan verið sett í járn og þegar ákærðu voru komnir með hana á milli sín hafi hún farið inn í lögreglubifreiðina. Taldi hún að ekki hafi verið farið neitt óeðlilega harkalega að konunni þegar hún var færð í handjárn af lögreglumönnunum. Á meðan á þessu stóð kvað hún hafa verið þarna fullt af kolvitlausu fólki, hljóðandi og öskrandi á þau ókvæðisorðum. Hafi fólkið staðið á gangstéttinni þar sem lögreglubifreiðin var og hafði safnast þar í kringum. Aðspurð kvaðst vitnið ekki muna eftir neinum öðrum þarna en konunni sem að hafi verið að skipta sér af störfum þeirra með einhverjum aðgerðum, en konan hafi bókstaflega gengið í þau á alla kanta. Vitninu voru sýndar útprentaðar myndir úr öryggismyndavélum. Þar sést hún snúa sér að tveimur mönnum, öðrum hávöxnum. Kvaðst vitnið ekki geta sagt hvað þarna hafi farið fram, hún hafi ekki veitt því sérstaka athygli.  Þá kvaðst hún ekki geta borið um afskipti þessara manna að störfum ákærðu.

Nánar spurð um stemmninguna og fólkið á staðnum, kvað hún hafa verið hita í fólki. Það hafi verið „fullt af, eða slatti af, fólki” þarna. Spurð hvað hún meinti með því kvað hún það hafa verið fleiri en þrír til fjórir. Hún gæti ekki nefnt tölur, þau hefðu verið að vinna, maður bara fyndi nálægð fólksins í kringum sig, og væru þetta einhverjar þrjár til fjórar manneskjur tæki maður ekki eftir svoleiðis. Þetta sé til á upptöku og þar hljóti að sjást að það hafi verið einhver slatti af fólki þarna. Spurð hvort það hafi verið skrílslæti eða múgæsing, kvað hún bara hafa verið læti, fólkið að „hljóða á þau að störfum”. Þetta hafi verið þessi óþæginda tilfinningin þegar maður viti ekki hvoru megin línunnar þetta endar, hvort það sjóði upp úr eða sleppi. Hún kvaðst ekki hafa séð neitt óeðlilegt við þær lögregluaðgerðir sem þarna fóru fram. Hún hafi síðan farið af vettvangi.

Hún kvaðst hafa setið aftur í lögreglubifreiðinni með þeim handtekna. Spurð um ástand hans kvað vitnið hann hafa verið þokkalega rólegan, en hann hafi viðhaft eitthvað ljótt orðbragð við þau í bílnum, kallað þau fífl eða bjána. Kvaðst hún ekki geta fullyrt um ástand hans, en frekar að það hafi verið annarlegt. Hann hafi verið skrýtinn til augnanna og rosalega strekktur og stífur þegar hann sagði þessi orð. Hún kvaðst ekki minnast vínlyktar af honum eða í bílnum. Henni hafi ekki fundist hann virka eins og í fullkomlega eðlilegu ástandi, enda hafi hann kallað þau fífl og hálfvita og það gerði fólk ekki af því bara. Hún kvaðst hafa fylgt manninum til varðstjóra, en ekki farið með honum inn í varðstjóraherbergið. Ekkert sérstakt sé að segja um hátt­semi hans á stöðinni.

Vitnið kvað ekki rétt eftir henni haft í símaskýrslu vitnisins Ólafs Guðmundssonar lögreglumanns, að hún hefði ekki sérstaklega orðið vör við annað fólk á vettvangi. Hún hafi sagt það sama við hann og hér fyrir dómi, að það hefði verið fólk upp við Amsterdam á gangstéttinni þarna sem lögreglubílnum var lagt, hljóðandi og öskrandi að þeim ókvæðisorðum. Hún hafi ítrekað þetta við hann í símann. Að öðru leyti væri skýrslan rétt. Spurð hvort skýrslan hefði verið lesin fyrir hana, kvað vitnið svo hafa verið og hún hafi verið sátt við niðurstöðuna, því hljóti hún að draga þá ályktun að eitthvað vanti í skýrsluna eins og hún væri.

Um tilefni handtöku kvað hún að sér hafi verið sagt á stöðinni af öðrum ákærðu, að maðurinn hefði ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu. Hún kvaðst ekki vita neitt frekar um það.

Vitnið, Gunnar Fannberg Jónasson lögreglumaður, kvað pilt og stúlku hafa verið færð fyrir sig aðfaranótt 9. mars sl. Hafi pilturinn verið mjög æstur og illviðráðanlegur. Hann hafi ekki verið ölvaður en hann hafi talið hann vera í annarlegu ástandi og hafi hann skráð hann þannig inn í vistunarskýrslu. Pilturinn hafi verið ósáttur við eitthvað sem gerðist niðri í bæ. Stúlkan hafi verið mjög æst og mjög drukkin. Aðspurður kvaðst vitnið ekki kunna skýringu á því hvers vegna haft væri eftir honum í lögregluskýrslu að pilturinn hafi verið ósáttur og reiður en ekki í annarlegu ástandi. Kvað hann þetta ekki vera rétt eftir sér haft. Vísaði vitnið í vistunarskýrslu, þar komi fram hans mat á manninum. Hann kvaðst hafa óskað eftir því við vitnið Ólaf að þeir hittust út af skýrslugerðinni, en það hefði ekki gengið. Kvað hann rétt að skýrslan hefði verið lesin fyrir hann í síma, en kvaðst ekki minnast þessa orðalags, þarna væri einhver misskilningur.

Vitnið kvað tilgreinda ástæðu handtöku hafa verið þá að fólkið hafi hindrað störf lögreglu, en að öðru leyti hafi hann ekki spurt um hvað gerðist í bænum, einhver múgæsing hafi verið. Kvað hann rétt eftir honum haft í lögregluskýrslu þar sem hann segir ákærðu hafa sagt sér að parið hafi verið að þvælast úti á Tryggvagötunni og hindrað störf þeirra. Vitnið kannaðist við það sem greint er frá í lögregluskýrslunni, að pilturinn hafi gefið þá skýringu að þau hefðu verið að leita sér að leigubíl. Kvað hann fólk yfirleitt alltaf segja að það hafi verið handtekið án þess að það hafi gert neitt af sér. Kvaðst hann telja lögreglumenn hafa annað að gera en að handtaka fólk að ósekju.

Spurður um myndbandsupptökutæki í fangamóttöku á lögreglustöðinni kvað vitnið það búið skynjurum og færi upptaka í gang sjálfkrafa ef einhver hreyfing væri í herberginu eða þegar talað væri. Hann myndi ekki hvernig þetta hefði verið í þessu tilviki. Taldi hann að upptökur væru geymdar í þó nokkurn tíma. Aðspurður sagði hann að fólkinu hefði verið haldið í 13 mínútur eftir að hann bókaði það inn.

Vitnið, Kristján Helgi Þráinsson lögreglumaður, kvaðst hafa verið á mynda­véla­vakt, á öryggismyndavélum í miðbænum, þegar þeir atburðir gerðust sem hér um ræðir. Þar séu engar hljóðupptökur. Hafi hann farið að fylgjast með skjánum þegar ákærðu hafi beðið um aðstoð, beðið um stóran bíl, það hafi heyrst í talstöð um fjarskiptamiðstöð. Hann kvaðst muna eftir konu sem hafi verið snælduvitlaus og að stóri bíllinn hafi átt í erfiðleikum með að komast af vettvangi vegna hennar, hún hafi ítrekað reynt að komast inn í stóra bílinn. Þá hafi komið maður að þegar lögreglan hafi verið með konuna í tökum fyrir aftan bílinn. Hafi hann verið mjög ógnandi og hagað sér eins og brjálæðingur. Hann hafi verið töluvert stærri en ákærðu, hann hafi staðið töluvert yfir þeim. Aðspurður kvað hann töluvert af fólki þarna í kring eins og væri yfirleitt um helgar. Þarna nálægt væru þrír veitingastaðir. Það hafi verið æsingur í fólki eins og í þessum manni sem hafi veist að lögreglumönnum þegar þeir voru að handtaka konuna. Það hafi verið fleira fólk þarna í kring, en vitnið kvaðst ekki geta fullyrt hvar hitt fólkið hafi verið.  Menn hafi alltaf áhyggjur þegar þeir vinni á svona stað að fá einhvern í bakið á sér. Aðspurður kvaðst hann ekki hafa séð þegar úðinn var notaður, hafi hann sennilega verið að fylgjast með öðrum skjá á þeirri stundu.

Vitnið kvað engan hafa haft samband við þá vegna þessa myndbands. Mistök hljóti að hafa átt sér stað við upptökuna þannig að hún sé í myndrömmum en ekki sírúllandi. Hafi víst þurft að kveikja á ákveðinni vél til þess. Þessi myndatakan kallist B-upptaka. Upptaka A væri hins vegar samfelld hreyfing. Nýbúið hafi verið að skipta út upptökubúnaði og kvaðst vitnið ekki hafa hugsað út í þessi tæknilegu atriði. Aðspurður kvað ákærði aðdragandann af þessu ekki sjást á myndbandinu. Kvað hann vera um 8-10 myndavélar sem taki upp í bænum, en þær nái ekki öllu sem sé að gerast. Athygli þeirra hafi beinst að þessu þegar þeir hafi heyrt að eitthvað var í gang, og þá fylgist þeir með því sem sé að gerast. Sjái þeir sem á horfi allt í samfellu. Vitnið kvaðst hafa verið á þessum vélum áður í nokkur skipti áður. Vitnið horfði á mynddisk og kvaðst ekki gera neinar athugasemdir við það sem kæmi þar fram, kvaðst ekki sakna neins.

Vitnið, Þormóður Árni Egilsson lögreglumaður, kvaðst hafa verið á mynda­vélunum það kvöld sem hér um ræðir ásamt vitninu Kristjáni Helga. Þegar þeir hafi heyrt að eitthvað var að gerast hafi þeir fært myndavélarnar þangað. Aðspurður kvað hann þá hafa séð atburðina í samfellu á skjánum. Hann hafi séð handtöku þar í gangi og stóran lögreglubíl. Þá hafi hann séð fólk vera að skipta sér af. Kvaðst hann helst muna eftir mjög stórum manni og einnig konu sem hafi verið mikið að skipta sér af, og hafi síðan verið handtekin. Eitthvað annað fólk hafi líka verið þar, en myndin sýni bara hluta svæðisins. Svaraði hann því játandi að honum hafi sýnst þeir sem höfðu afskipti af lögreglunni vera ógnandi og þeir hafi verið alveg ofan í þeim við þeirra vinnu. Nánar spurður kvaðst hann þó ekki geta munað eftir því hverjir eða hversu margir hafi verið þar þá, ef til vill tveir til þrír til viðbótar, aðeins þessi stóri sitji eftir í minningunni. Þegar stóri bíllinn hafi farið af vettvangi hafi lögreglumennirnir bara verið tveir eftir með handtekna manneskju og í þessu umhverfi sem sé frekar erfitt og þrír skemmtistaðir á þessu svæði. Hefðu þeir fært myndavélarnar eitthvað annað ef þeir hefðu ekki haft neinar áhyggjur af þessu. Vitnið kvaðst ekki hafa séð þegar úðanum var beitt enda hafi myndavélin ekki sýnt það. Kvaðst hann ekki muna hvenær þeir hættu að fylgjast með, sennilega þegar þeir fóru.

             Aðspurður kvaðst vitnið hafa verið einu sinni á myndavélunum áður en þetta var og líklega ekki síðan og kvaðst ekki vera  kunnur tæknilegum atriðum. Vitnið horfði á mynddisk með greindri upptöku, kvaðst hann hafa gleymt tveimur mönnum sem hann sá þar standandi. Kvaðst hann ekki muna hvort hann skoðaði svæðið eitthvað frekar eftir að málinu var lokið.

Vitnið, Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, taldi sig minna að M hefði haft samband við hann. Hún hafi verið mjög óhress með það sem átti sér stað þessa nótt og haft í hyggju að kæra. Hafi hún spurt hann hvernig hún ætti að standa að því og hafi hann leiðbeint henni. Hafi hann sagt henni að hún gæti komið á lögreglustöðina eða talað við ríkissaksóknara. Kvað hann málum af þessu tagi, sem vörðuðu lögreglumenn í almennu deildinni yfirleitt vera beint til sín eða aðstoðarmanns síns.

             Vitnið kvað ekki rétt að möguleikar lögreglumanna við gerð skýrslu væru takmarkaðir, að því er varðar að skýra meint brot viðkomandi aðila eða verkefni lögreglu. Kvað vitnið það ekki vera fullnægjandi ástæðu handtöku, að maður væri í annarlegu ástandi, þyrfti háttsemi viðkomandi að vera mjög gróf til þess. Þá væri það ekki fullnægjandi ástæða handtöku að maður neitaði að gefa lögreglu upp persónuupplýsingar. Þyrfti sú handtaka og krafa um persónuupplýsingar að vera í tengslum við ætlaða refsiverða háttsemi.

Vitnið taldi lögreglumönnum ekki hafa verið settar skriflegar starfsreglur varðandi handtöku og persónuupplýsingar, en bókunarkerfi kallaði á það að upplýsingar um aðila sem lögreglan hefði afskipti af vegna refsiverðrar háttsemi þyrftu að liggja fyrir og koma fram í málaskrá. Undanfari slíkrar færslu sé færsla í dagbók. Verjandi bað vitnið að skýra nánar skyldur lögreglumanna til að færa afskipti af fólki til bókar. Vitnið svaraði því til að sæi lögregla mann á götu, eins og í því tilviki sem hér um ræðir, og segði honum að fara af götunni og hann yrði ekki við því og neitaði í framhaldi að gefa upp kennitölu, þá teldist það ekki til frumkvæðisverkefnis lögreglumanns. Til þess að maður yrði handtekinn fyrir að gefa ekki upp kennitölu þyfti hann að vera aðili að máli sem lögregla síðan fylgdi eftir með skýrslugerð. Það þyrfti að vera ástæða fyrir því að maðurinn væri krafinn um kennitölu, til dæmis refsiverð háttsemi eða ástæða til að rannsaka mál frekar. Maður væri ekki færður á lögreglustöð eingöngu vegna þess að hann gæfi ekki upp kennitölu. Hann kvað frumkvæðisverkefni lögreglumanna vera færð inn í dagbók af lögreglumönnunum sjálfum. Verkefni sem þeir væru sendir í af hálfu fjarskiptamiðstöðvar sæi miðstöð um að bóka, en þá kynni lögreglumaður að þurfa að framhaldsbóka.

             Spurður um valdbeitingareglur um úðavopn kvað vitnið lögregluna fá fræðslu og þjálfun við notkun þess. Það væri neyðarúrræði að sprauta beint í andlit, reynt væri að sprauta í bringu eða sem næst andliti. Aðstæður gætu verið þannig að erfitt væri að vera með einhverja miðun á því. Þá væri alveg ljóst að nota ætti þetta tæki til varnar, og ekki nema í algjörri neyð, eins og kylfuna.

Spurður af verjanda kvað vitnið það rétt að ölvað fólk gæti skapað vandamál, en það að borgarar brúki kjaft og komi fram að vanvirðingu við lögreglu væri eitt af því sem lögreglan yrði að þola í starfinu; það þýddi ekki að kæra mann fyrir það eitt að vera með munnsöfnuð. Ölvun á almannafæri væri í sjálfu sér ekki óheimil, nema ölvunin væri í tengslum við tiltekna háttsemi. Hér myndi vera lögregluríki ef lögreglan hefði afskipti af öllum þeim sem sýndu annarlega háttsemi í miðborg Reykjavíkur. Lýsti vitnið því að erfitt væri að vinna innan um ölvað fólk og agalaust, en lögreglan væri þjálfuð til að fást við það, og aðeins væri tekið á þeim málum sem væru verst, önnur mál væru leyst með öðrum hætti. Kvað vitnið það ofsagt að ástandið í miðbæ Reykjavíkur væri almennt séð eldfimt um helgar. Vitnið kvað rétt að af öryggisástæðum væri meiri viðbúnaður hafður ef múgur manna safnaðist saman. Spurður hvernig lögreglan skilgreindi hugtakið múgur, kvað vitnið það vera huglægt mat. Það þyrfti til nokkurn hóp manna sem að berðist gegn lögreglu, a.m.k. 20 til 30 manns til að hægt væri að tala um múg.

             Vitnið, Ólafur Guðmundsson yfirlögregluþjónn, kvað ríkissaksóknara hafa leitað til lögreglustjórans í Stykkishólmi, þar sem hann sé yfirlögregluþjónn, um aðstoð við að taka skýrslur í málinu. Hafi verið ákveðið að hann tæki símaskýrslur af vitnum. Það hafi þótt hagfelldast þar sem hann hafi verið staddur í Stykkishólmi. Ríkissaksóknari hafi rannsakað málið vegna vanhæfis ríkislögreglustjóra. Kvaðst hann áður hafa komið að svipaðri rannsókn. Hann kvað það vera algengt í Stykkishólmi og þekkt í Reykjavík að taka skýrslur í síma. Vitninu var kynnt að tvö vitni hefðu borið fyrir dóminum, að ekki hefði verið rétt eftir þeim haft í lögregluskýrslunni. Annars vegar vitnið Elín Agnes, en símaskýrsla var tekin af henni 13. maí sl., kvað hún ranglega sagt að hún hefði ekki orðið sérstaklega vör við annað fólk á vettvangi. Vitnið kvaðst hafa bókað eftir henni og lesið skýrsluna upp fyrir hana. Kvaðst hann ekki kannast við þann framburð sem hún hafði kynnt í dóminum. Hins vegar vitnið Gunnar Fannberg. Hann hafi borið fyrir dómi að ranglega væri bókað eftir honum um ástand H. Kvaðst vitnið einnig hafa lesið skýrsluna yfir fyrir hann og hann hefði sérstaklega spurt hann út í þetta atriði. Þá kvaðst vitnið ekki muna eftir því að Gunnar Fannberg hefði sérstaklega óskað eftir því hitta vitnið og rita undir skýrsluna. Kvað hann rannsóknina m.a. hafa gengið út á það að staðreyna hvort um múgæsingu hefði verið að ræða. Kvaðst vitnið ekki geta skýrt það hvers vegna skýrslur Magnúsar Þórs Þórissonar og Rafns Hilmars Guðmundssonar væru samhljóða nema að mistök ritvinnslu í tölvu hlytu að hafa átt sér stað. Aðspurður kvaðst vitnið staðfesta að rétt væri eftir þeim vitnum haft sem hann hefði haft samband við nema þá í tilviki Rafns Hilmars.

 

Niðurstaða.

Niðurstaða ákæruliðar 1.

             Framburði ákærða og kæranda, S, ber ekki saman um ýmis atriði í atburðarás þeirri sem leiddi til handtöku S. Vitni bera einnig á ýmsa vegu. Hefur þetta verið rakið ítarlega hér að framan. S tók mynd af ákærða inni á skyndibitastaðnum Nonnabita í Hafnarstræti um kl. 02.00 aðfaranótt laugar­dagsins 8. mars sl. Ákærði var á vakt og var í lögreglubúningi. Kom hann inn á staðinn ásamt félaga sínum og lögreglunema til að næra sig. Ágreiningur er um aðdragandann að myndatökunni. S kveðst hafa beðið vitnið L að færa sig að lögreglumönnunum svo hann gæti tekið af þeim mynd og þá heyrt utan að sér að sagt var „ekki taka mynd.“ Ákærði hins vegar segir S hafa nuddað í sér um að fá að taka mynd og ágangur hans verið slíkur að jafna megi til áreitis. Framburður vitna er á ýmsa vegu. X bar að um áreiti, eða eins og bæði hann og ákærði orða það, „bögg“ hafi verið að ræða og E sagði að það hefði verið þrefað. L kvað kæranda hafa tvisvar beðið um mynd af henni og ákærða og eitthvað samtal hefði átt sér stað. B og K heyrðu athugasemd eftir myndatöku, sem benti til að málið hefði verið áður rætt. J varð hvorki var við myndatöku né umræður um hana. Á sama hátt bera aðilar og vitni ekki á sama veg um viðbrögð ákærða og um það hvort umræður hafi verið um lögreglu­húfu ákærða. Ákærði segir að það geti verið að hann hafi notað það sem átyllu til að losna að hann skyldi ná í húfuna síðar og þá leyfa mynd. X og E bera á sama veg. S kannast ekki við umræður um lögregluhúfuna. Sama er að segja um L. Að því er varðar handtökuna, segir ákærði að hann hafi tekið í höndina á S og fyrst reynt að tala við hann í hinum enda staðarins, en vegna truflana beðið hann síðan að koma með sér út í bíl. Hann segist ekki hafa handtekið S fyrr en í lögreglubifreiðinni þegar hann hafi neitað að tala við hann og hann því ákveðið að færa hann upp á stöð fyrir varðstjóra. Vitnin X og J staðfesta að handtaka hafi verið formlega gerð í lögreglubifreiðinni. Hvorugur getur borið um samskipti ákærða og S inni á Nonnabita, nema að ákærði hafi farið með S út. E lýsir atvikinu eins og ákærði nema hann segir ákærða síðan hafa leitt S út. L ber að ákærði hafi gripið harkalega í hönd S og leitt hann út. Hafi ákærði spurt hvort hann vildi koma með þeim upp á stöð. B kvað þá hafa farið út í lögreglubifreiðina. Í lögregluskýrslu hafði hann skýrt nánar frá að ákærði hefði tekið í handlegg S og sagt honum í skipunartón að koma út í lögreglubifreiðina. K sagði S hafa verið tekinn og farið með hann út. 

             Þykir verða að leggja til grundvallar að S hafi sýnt nokkra ágengni og tekið mynd í óþökk ákærða. Einnig þykja málsatvik verða metin þannig, að enda þótt S hafi farið sjálfviljugur út í lögreglubifreiðina, þá hafi það verið samkvæmt fyrirmælum ákærða, en að formleg handtaka hafi átt sér stað í lögreglubifreiðinni. Loks verður að telja upplýst að S hafi ekki talið sér skylt að tjá sig við lögregluna við þær aðstæður sem þarna voru.

             Í 1. mgr. 67. gr. stjórnarskrá lýðveldisins Íslands segir „Engan má svifta frelsi nema samkvæmt heimild í lögum“ og í 2. mgr. sama ákvæðis er mælt svo fyrir að hver sá sem sviptur hefur verið frelsi eigi rétt á að fá að vita ástæðu þess tafarlaust. Er þessi friðhelgi borgaranna grundvöllur þeirrar lýðræðislegu stjórnskipunar sem íslenskt samfélag byggir á. Í lögum er ríkisvaldinu veitt heimild til frelsissviptingar í ákveðnum tilvikum, með það vald fer lögregla og dómstólar.

             Með 1. mgr. a-liðar 16. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 er handhafa lögregluvalds heimilt að handtaka mann og færa á lögreglustöð eða á annan stað þar sem lögregla hefur aðstöðu í þeim tilgangi að halda uppi lögum og reglu, svo sem ef maður ærist á almannafæri eða veldur þar hneyksli eða hættu á óspektum. Samkvæmt 1. – 3. mgr. 97. gr. XII. kafla laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. breytingar með 7. gr. laga nr. 84/1996 og 199. gr. laga nr. 82/1998, má lögregla handtaka einstakling ef rökstuddur grunur er um að viðkomandi hafi framið brot sem sætt getur ákæru, enda sé handtaka nauðsynleg vegna rannsóknar eða öryggishagsmuna. Einnig er heimilt að handtaka hvern þann sem staðinn er að broti sem leitt getur til ákæru og varðað getur fangelsi. Loks geta uppþot, sem hafa í för með sér líkamsmeiðingar eða stórfelld eignaspjöll eða hættu á slíku, réttlætt handtöku svo sem nánar er lýst í ákvæðinu. Önnur ákvæði XII. kafla laganna geta ekki átt við aðstæður eða málsvörn ákærða.

             Samkvæmt 1. mgr. 15. gr. lögreglulaga er lögreglu ennfremur heimilað að hafa afskipti af borgurunum í þeim tilgangi að halda uppi almannafriði og allsherjarreglu eða koma í veg fyrir yfirvofandi röskun til að gæta öryggis einstaklinga eða almennings eða til að afstýra afbrotum eða stöðva þau. Er úrræðum þeim sem lögreglu er heimilt að grípa til nánar lýst í 2. - 6. mgr. Meðal þeirra er að vísa fólki á brott eða fjarlægja, sbr. 2. mgr., grípa til nauðsynlegra ráðstafana á kostnað viðkomandi til að fyrirbyggja að óhlýðni aðila við fyrirmælum lögreglu, skv. 2. og 3. mgr., valdi tjóni eða stofni hættu fyrir almenning, sbr. 4. mgr. Þá er lögreglu heimilt að krefjast þess að aðili segi til nafns síns, kennitölu og heimilisfangs og sýni skilríki því til sönnunar, sbr. 5. mgr.

             Loks er að nefna að almenn heimild til valdbeitingar lögreglu er orðuð í 14. gr. lögreglulaga. Ber að skýra hana í samhengi við þær sérstöku heimildir sem hér að framan var lýst. Í sömu grein er svonefnd meðalhófsregla einnig lögfest með svohljóðandi orðum: „ Aldrei mega þeir [lögreglan] þó ganga lengra í beitingu valds en þörf er á hverju sinni.“ Í 1. og 2. mgr. 13. gr. laganna er áréttuð skylda lögreglu til að sýna árvekni og kunna glögg skil á skyldum sínum og þeirri ábyrgð sem starfinu fylgir og nánar er fjallað um þá siðferðilegu skyldu sem fyldir heimild lögreglu til valdbeitingar, meðal annars að gæta fyllstu hlutlægni og réttsýni, að gæta laga og að lögmæti aðgerða og að beita ekki ólögmætri þvingun í orði eða verki, svo sem með hótunum.

             Ákærði heldur því fram að aðgerðir hans í umrætt sinn hafi verið lögmætar. Rökstyður hann það með því að háttsemi kæranda, S, hafi verið ósæmileg. Hann hafi verið að áreita lögreglumann og sýnt lögreglubúningnum vanvirðingu með því að taka mynd af lögreglumanni í búningi en án höfuðfats, enda þótt honum hafi verið neitað um það og útskýrt fyrir honum að það væri ekki viðeigandi. Hafi grunur leikið á að myndin yrði birt, eins og raunin varð. Hann hafi verið í ölvunarástandi og hafi afskipti lögreglu vegna þessa verið réttmæt. Hann hafi hins vegar ekki viljað ræða málið við lögreglu, sem vegna afskipta sinna af honum, hafi borið að skrá tilvikið og færa til bókar nafn hans og kennitölu. Hann hafi ekki gert grein fyrir sér og hafi því samkvæmt verklagsreglum verið færður á lögreglustöð til viðræðna, en til að svo mætti verða hafi þurft að handtaka hann. Eins og að framan er greint er einhver ágreiningur um smáatriði í þessari atburðarás, en eftir atvikum þykir rétt að leggja til grundvallar úrlausn málsins að þessi rökstuðningur ákærða hafi stoð í réttri lýsingu á atburðarás.

             Lögreglumennirnir, sem voru á vakt, fóru inn á vinsælan skyndibitastað í miðbæ Reykjavíkur til næra sig um klukkan tvö aðfaranótt laugardags. Máttu þeir búast við því að það fólk, sem þar væri inni, væri að stórum hluta undir áhrifum áfengis. Eins og vitnið X bar er algengt að lögregluþjónar verði fyrir áreitni við slíkar aðstæður og máttu þeir búast við því. Þeir fóru inn á staðinn í einkaerindum, en voru þar ekki til að sinna skyldustarfi. Þótt áreitni sem þessi og myndataka sé hvimleið verður hún ekki skilgreind sem brot á refsilöggjöf, og var ekki til þess fallin að skapa óróa eða hættu. Ákærði hafði gefið kæranda fyrirmæli um að taka ekki mynd af sér, en þau fyrirmæli voru hans sem einstaklings og skortir allar forsendur til að meta þau sem lögmæt fyrirmæli handhafa lögregluvalds. Þau rök ákærða að háttsemi kæranda hafi falið í sér vanvirðingu við lögreglubúninginn þykja ekki haldbær. Það var ákærða sjálfs að gæta þess að búningurinn væri réttur með því að setja upp höfuðfat þegar hann yfirgaf bifreiðina og átti hann greinilegra persónulegra hagsmuna að gæta vegna myndatökunnar þar sem hann vissi að hún gæti leitt til ákúru frá yfirmönnum hans. Er það mat dómsins að með viðbrögðum sínum við háttsemi kæranda hafi ákærði ekki gætt þess að greina á milli eigin hagsmuna og skyldustarfa.

             Af þessum sökum hafði ákærði ekki réttmætt tilefni til þess að krefja kæranda skýringa sem lögreglumaður og því ekki tilefni til að krefja hann um persónu­upp­lýsingar. Engar lögmæltar ástæður til handtöku voru fyrir hendi.

             Lögreglu ber að gera þeim sem færður er á lögreglustöð grein fyrir tilefni aðgerðanna, sbr. 2. mgr. 16. gr. lögreglulaga. Í skýrslu ákærða um atvikið er viðfangs­efnið sagt eiga við 21. gr. áfengislaga, ölvun á almannafæri. Í handtöku­skýrslu segir um ástæðu handtöku: „Til að koma í veg fyrir áframhaldandi brot.“ Í skýrslu sinni fyrir dóminum kvaðst ákærði hafa tjáð kæranda að ástæða handtöku gæti verið annaðhvort ölvun á almannafæri eða að hlýða ekki fyrirmælum lögreglu. Ber kærandi að síðarnefnda ástæðan hafi verið sú skýring sem hann fékk. Rétt þykir að skýra þennan framburð ákærða þannig að hann telji hvort tveggja tilefnið hafa verið til staðar og er sá skilningur í samræmi við vætti Jóns, en lagafyrirmælin verður að skilja svo að hinn handtekni eigi rétt á að skýrar forsendur fyrir handtöku séu til staðar. Dómurinn getur ekki fallist á að sýnt hafi verið fram á að neitt þessara þriggja tilefna, sem nefnd hafa verið hér, hafi verið til staðar. Kærandi þykir ekki hafa sýnt af sér hegðun sem varði við 21. áfengislaga, fyrirmæli ákærða voru persónuleg og tengdust ekki lögbroti og þar sem háttsemi kæranda var ekki lögbrot var ekki tilefni til að hindra áframhaldandi brot.

             Ennfremur er ljóst að þar sem kærandi var handtekinn og færður á lögreglustöð, var ekki staðið rétt þar að framhaldi málsins, þar sem hann var ekki færður fyrir varðstjóra. Þetta kannast ákærði við en segir að misskilningur á milli sín og vitnisins X hafi valdið því. Þessi skýring ákærða þykir ekki trúverðug af eftirfarandi ástæðum. Enginn vitnisburður er um orðaskipti í þá veru að vitnið X ætlaði að ná í varðstjóra. Samkvæmt framburði hans taldi hann það ekki vera í sínum verkahring að skipta sér af málinu. Kærandi var ekki færður í fangamóttöku heldur í umferðardeild. Hann var látinn bíða en ákærði sjálfur kallaði hann síðan inn og krafði hann sjálfur um persónuupplýsingar og ræddi málið við hann. Hann var látinn blása í áfengismæli án sýnilegs tilefnis. Þessi háttsemi ákærða styður þá niðurstöðu að honum hafi verið fullljóst að aðgerð hans var óréttmæt. Áfengis­mæl­ingin er ennfremur sönnun þess að S var ekki verulega ölvaður.

             Ákærði er reyndur lögreglumaður og á að vera ljós sú ábyrgð sem hann ber og takmörk valdheimilda sinna samkvæmt III. kafla lögreglulaga og XII. kafla laga um meðferð opinberra mála. Hann er fundinn sekur um þá háttsemi sem í 1. lið ákæru greinir og er fallist á með ákæruvaldinu að brotið varði við 131. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

 

Niðurstaða ákæruliðar 2.

             Í þessum ákærulið er báðum ákærðu gefið að sök að hafa handtekið H án lögmæts tilefnis. Í niðurstöðu vegna 1. ákæruliðar er fjallað um lagaskilyrði fyrir handtöku og er vísað til þess. Vegna þessa ákæruliðar þarf sérstaklega að huga að tilefni afskipta lögreglu af H og lögmæti handtöku hans.

             Upplýst er að ákærðu komu akandi eftir Tryggvagötu þar sem þeir sáu H og M úti á götunni. Þeir stöðvuðu lögreglubifreiðina og tóku H tali og mæltu svo fyrir að þau færu af götunni og upp á gangstéttina. Óumdeilt er að H brást illa við afskiptunum og vandaði lögreglumönnunum ekki kveðjurnar. Ekkert þeirra fjögurra man hins vegar hvað hann sagði. Sjálfur kvaðst hann hafa verið dónalegur. H og M bera að þau hafi verið á leið heim og hafi farið út á götuna til þess að veifa leigubíl sem hefði reynst vera frátekinn, þau hafi verið á leið yfir götuna og kannast ekki við að hafa verið þar í einhverjum leikaraskap. Í lögregluskýrslu þeirra beggja kemur fram að þau hafi gengið skáhalt út á götuna á móti leigubifreiðinni. Ákærði Þórjón bar fyrir dóminum að parið hefði staðið út á miðri götu er þeir komu akandi og brugðist við tilmælum þeirra um að fara af götunni með svívirðingum og öskrum. Hafi maðurinn verið mjög annarlegur og konan mjög drukkin. Þau hafi fyrst fært sig þegar sagt var að ella yrðu þau handtekin og meðákærði hefði kallað á aðstoð. Ákærði X kvað þá hafa tekið eftir pari úti á götu, sem hafi verið að þvælast fyrir umferð. Þau hafi verið beðin um að fara af götunni en brugðist við með svívirðingum og miklum dónaskap og ekki farið. Þá hafi þeim verið sagt að þau yrðu fjarlægð og hafi hann kallað strax eftir aðstoð. Ekki eru önnur vitni að þessum þætti, nema að vitnið I sá parið ganga út á götuna en fylgdist ekki nánar með þeim. Í lögregluskýrslu segist þetta vitni hafa séð parið á gangi eftir miðri Tryggvagötunni, en þau hafi ekki verið að gera neitt, og hafi hann séð lögreglubifreið stöðva hjá þeim. Vitnið G sá parið á götunni og lögreglubifreiðina og áttaði sig á að einhver orðaskipti voru að eiga sér stað.

Verður hér að leggja til grundvallar fullyrðingu ákærðu, um að vera H og M úti á götunni, þegar þá bar að, hafi verið með þeim hætti að afskipti lögreglu af þeim þar hafi verið eðlileg. Ákærðu voru við eftirlitsstörf í miðbæ Reykjavíkur þessa nótt og slík afskipti í þeirra verkahring. Skiptir ekki máli í þessu sambandi þótt einhver misskilningur kunni að hafa verið um erindi þeirra á götunni. Óumdeilt er að M var töluvert drukkin, og vegna öfgafullra viðbragða H við einföldum og, að því er virðist, sjálfsögðum tilmælum lögreglu, verður að telja þá fullyrðingu ákærðu trúverðuga að þeir hafi þarna ályktað að H væri í annarlegu ástandi. Verður því einnig að leggja til grundvallar að það hafi ekki verið óeðlileg viðbrögð ákærðu að snúa bifreiðinni við til þess að kanna frekar með fólkið, en varla var tilefni til að kalla til aðstoð á þessu stigi.

Ber þá að athuga hvort einnig hafi verið tilefni til handtöku H. Í frumskýrslu er brot/verkefni sagt annars vegar vera: „fyrirmælum lögreglu ekki hlýtt“ og vísað til 19. gr. lögreglulaga nr. 90/1996, en þar segir að almenningi sé skylt að hlýða fyrirmælum sem lögreglan gefur, svo sem vegna umferðarstjórnar eða til þess að halda uppi lögum og reglu á almannafæri. Og hins vegar „ölvun á almannafæri“ og vísað til 21. gr. áfengislaga nr. 75/1998, þar segir að hver sá sem sökum ölvunar veldur óspektum, hættu eða hneyksli á almannafæri, opinberum samkomum, í bifreiðum eða öðrum farartækjum eða skipum skuli sæta ábyrgð. Í skýrslu vegna handtöku er vísað til sömu atriða og ástæða handtöku sögð vera: „að koma í veg fyrir áframhaldandi brot.“ Í frumskýrslu er aðstæðum nánar lýst þannig, að parið hafi staðið úti á miðri götu og stöðvað umferð, ekki hlýtt fyrirmælum um að fara frá umferð og af götunni, ausið svívirðingum yfir lögreglu og maðurinn virst vera í annarlegu en ekki ölvunarástandi, og „[þ]ar sem ekki var hægt að tala um fyrir honum var hann færður í handjárn og í lögreglubifreiðina 10-151.“

Ákærðu voru nánar spurðir fyrir dóminum um ástæður handtöku H. Báðir lögðu þeir áherslu á það að afskipti þeirra af H hefðu byrjað á götunni, og hann hefði ekki hlýtt fyrirmælum lögreglu um að fara af götunni. Einnig hefði H verið annarlegur og framkoma hans slík að ástæða hefði verið til að kanna málið nánar. Lögðu þeir ríka áherslu á, að vegna þessara afskipta sinna hefði þeim borið, samkvæmt fyrirmælum yfirstjórnar lögreglunnar, og ella átt yfir höfði sér ávítur, að bóka málið. Lögreglumönnum bæri að færa í dagbók öll afskipti sín af fólki og í þeim tilgangi væri nauðsynlegt að fá uppgefið nafn viðkomandi og kennitölu. H hefði borið að gefa þeim þessar upplýsingar, en hefði neitað því. Ákærði Þórjón Pétur kvað alltaf vísað til áfengislaga þegar afskipti væru höfð af ölvuðu fólki. Ákærði X kvað áherslu vera lagða á, að fylgja eftir afskiptum sem væru byrjuð og að það væri vinnumáti að fara með fólk á lögreglustöðina ef það neitaði að gefa persónuupplýsingar.

             Það er álit dómsins að þar sem þau H og M voru óumdeilan­lega komin upp á gangstéttina fyrir framan veitingastaðinn Café Amsterdam þegar lögreglubifreiðinni hafði verið snúið við, hafi þau verið búið að hlýða upphaflegum fyrirmælum lögreglu um að fara af götunni. Jafnvel þótt þau hafi ekki gert þetta umsvifalaust og orðalaust, þá virðast samkvæmt akstursskýrslu lögreglubifreiðarinnar ekki hafa liðið nema rúmar tvær mínútur frá fyrstu afskiptum og þar til lögreglu­bifreiðinni var lagt. Gat þetta tilvik eitt því ekki verið grundvöllur frekari afskipta og handtöku.

Önnur ástæða afskipta samkvæmt frumskýrslu er vísan til 21. gr. áfengislaga. Ákærðu leggja áherslu á annarlegt ástands H, sem þeir hafi talið vera vegna fíkniefnaneyslu, og hafi þeir metið hann sjálfum sér og öðrum hættulegan. Þess er þó ekki getið í skýrslu að ástæða handtöku sé að tryggja öryggi. Ósamræmi er í framburði ákærðu annars vegar og H og M hins vegar um þetta atriði. H kveðst hafa neytt áfengis en ekki annarra vímuefna, ekki fundust á honum nein fíkniefni og þetta ekki rannsakað frekar. Hann var reiður vegna, að því er honum fannst, óréttmætra afskipa af sér. Skapofsi og þvermóðska getur birst sem annarlegt ástand. Hann brást ekki við frekari afskiptum lögreglu með því að streitast á móti. Verður því ekki slegið föstu að H hafi verið undir áhrifum annarra vímuefna en áfengis. „Annarlegt ástand“ er ekki sjálfstæð handtökuheimild. Verður ekki séð að ástand H hafi gefið tilefni til handtöku.

Af hálfu verjenda var lögð áhersla á það að óásættanlegt sé að almenningur komist upp með dónaskap við lögreglu eins og þarna virðist hafa átt sér stað, var í því sambandi vísað til verndar sem opinberir starfsmenn njóta samkvæmt hegningar­lögum. Ekki er fallist á að þau ákvæði eigi hér við. Ókurteisi og vanstilling kann að vera þjófélagsleg vandamál, en er ekki í sjálfu sér lögbrot og gildir það einnig þótt lögreglu­menn verði fyrir því. Er það óumflýjanlegur hluti af starfi lögreglu að hafa afskipti af fólki í ýmiss konar ástandi, þurfa þeir að geta staðist það álag sem slíku fylgir og eru þjálfaðir til þess samkvæmt vætti Geir Jóns Þórissonar, yfirlögreglu­þjóns. Ekki var kært fyrir brot gegn opinberum starfsmanni.

Það var mat ákærðu á vettvangi að þessi uppákoma úti á götunni gæfi tilefni til þess að kanna frekar ástand H og að fá persónuupplýsingar. Á myndbandi úr öryggismyndavél verður ekki greint að neinar umræður hafi átt sér stað. Ef litið er til þess stutta tíma sem líður frá því að lögreglumennirnir stíga út úr bifreiðinni og þar til þeir setja H í járn hefur vart gefist tími til að spyrja til nafns og fá svar, og ef svo augljóslega ekki gefið ráðrúm fyrir hann til að sjá sig um hönd og svara. Engu að síður fullyrða ákærðu að þeir hafi spurt um nafn og kennitölu eða beðið H um að framvísa skilríkjum og að þeir hafi ekki fengið svar. H og M neituðu því bæði að lögreglan hefði spurt H að nafni. Þar sem orð stendur gegn orði þykir þó verða að láta ákærðu njóta hér vafans og leggja fullyrðingu þeirra um þetta atriði til grundvallar.

             Kemur þá til athugunar hvort fullnægjandi ástæða hafi verið til handtöku að því gefnu að H hafi neitað að upplýsa ákærðu um hver hann væri, og af því tilefni. Þó að skylda sé lögð á borgarana í 7. gr. lögreglusamþykktar fyrir Reykjavík nr. 625/1987 að gera grein fyrir sér sé þess krafist af lögreglu og lögreglu heimilað samkvæmt 4. mgr. 15. gr. lögreglulaga nr. 90/1996 að krefjast þess að maður segi til nafns síns, kennitölu og heimilisfangs og sýni skilríki því til sönnunar, þá verður einnig að hafa í huga að bein heimild lögreglu til handtöku í slíku tilviki sem áður var að finna í 2. tl. 61. gr. laga um meðferð opinberra mála nr. 74/1974 er ekki til staðar í núgildandi lögum nr. 19/1991. Neitun á því að segja til sín er því ekki sjálfstæður grundvöllur handtöku. Eins og hér háttaði til hafði í mesta lagi verið framið minni háttar umferðalagabrot, en það var þó ekki tilgreint sem tilefni afskipta. Þeim fyrirmælum sem lögregla hafði gefið hafði verið hlýtt. Telja verður lögregluaðgerð utan marka þess meðalhófs sem gæta ber við beitingu opinbers valds, felist hún í handtöku vegna mjög smávægilegs brots eða afskipta í þeim tilgangi einum að fá fram persónuupplýsingar. Hafa verður í huga að handtaka skerðir grundvallarréttindi einstaklinga til frelsis. Er ekki fallist á að handtaka sé réttlætanleg vegna þess eins að aðili neiti að gera grein fyrir sér. Í því tilviki sem hér um ræðir var ekki nauðsynlegt að fá fram þessar upplýsingar.

Ákærðu halda því sérstaklega fram að þeir hafi um það ströng fyrirmæli frá yfirstjórn lögreglunnar að skrá öll mál sem þeir hafi afskipti af og til þess að geta gert það þurfi þeir að fá persónuupplýsingar um viðkomandi aðila. Af þessum sökum hafi handtaka hér verið nauðsynleg. Aðrir lögreglumenn, sem komu fyrir dóminn, voru ekki spurðir um þetta atriði, utan vitnið Geir Jón sem upplýsti að lögreglumönnum hefðu ekki verið settar skriflegar starfsreglur varðandi handtöku og persónuupp­lýsingar. Lögreglu­mönnum bæri að skrá frumkvæðisverkefni. Upplýsingar um aðila sem lögregla hefði afskipti af þyrftu að liggja fyrir vegna bókunarkerfis og málaskrár. Til þess að aðili yrði krafinn um kennitölu þyrftu afskipti lögreglu hins vegar að beinast að afbroti eða rannsóknarhagsmunum. Er þessi framburður í samræmi við gildandi lög um handtökur. Ákærðu hafa lagt fram nokkur gögn sem stafa frá yfir­mönnum innan lögreglunnar og vísað til reglna þar sem áréttuð er nauðsyn skráningar afskipta og upplýsinga um viðkomandi aðila. Var þetta atriði sérstaklega reifað við framhald aðalmeðferðar. Þessi gögn staðfesta að rík áhersla er lögð á það við lögreglumenn að gera grein fyrir verkefnum sínum og skrá dagbók og málaskrá. Ekkert þykir hins vegar hafa komið fram í málinu sem styður þá fullyrðingu að lögreglumönnum séu, af yfirmönnum lögreglunnar í Reykjavík, gefin fyrirmæli um afskipti umfram eðlilegar lögregluaðgerðir. Verða þeir um það að fara eftir almennum lögum. Eru það ríkir samfélagslegir hagsmunir að almenningur geti treyst því að afskipti lögreglu takmarkist við lögbundið verksvið þeirra. Verða almenn og einstök fyrirmæli til lögreglumanna um að skrá „öll“ afskipti sín af fólki ekki skýrð rýmra og verða þeir að beita dómgreind sinni við mat á verkefni. Skráning mála og skýrslugerð þjónar ennfremur meðal annars því hlutverki að tryggja að afskipti lögreglu séu lögmæt og eðlileg. Þykja ákærðu hvorki hafa sýnt fram á að þeir hafi haft skilyrðislaus fyrirmæli yfirmanna um að skrá með nafni sérhver afskipti sín af borgurunum, né að slík fyrirmæli gætu réttlætt handtöku þá sem hér um ræðir.

             Niðurstaða þessa ákæruliðar er sú að upphafleg afskipti ákærðu af fólkinu hafi verið eðlileg. H og M höfðu hins vegar hlýtt fyrirmælum um að fara af götunni, gáfu upphafleg viðbrögð þeirra þá ekki lengur ástæðu til frekari afskipta. Háttsemi H eða ástand hans var ekki fullnægjandi ástæða handtöku. Það að neita að gefa upp nafn veitir eitt og sér ekki heimild til handtöku. Með handtöku H fóru ákærðu út fyrir valdheimild sína. Ákærðu eru reyndir lögreglumenn og er það hluti af starfsskyldum þeirra að kunna skil á valdmörkum sínum, geta þeir ekki borið fyrir sig misskilning á eða oftúlkun á lögum eða fyrirmælum yfirmanna sinna. Eru báðir ákærðu fundnir sekir um þá háttsemi sem lýst er í 2. ákærulið en í ljósi allra aðstæðna þykir brotið varða við 132. gr. almennra hegningarlaga.

 

Vegna efnisatriða þykir rétt að fjalla um ákærulið 4 áður en fjallað er um ákærulið 3.

 

Niðurstaða um ákærulið 4.

Ákærða Þórjóni Pétri er í þessum ákærulið gefið að sök að hafa beitt úðavopni án nægilegra ástæðna eða tilefnis.

Aðstæður á vettvangi voru þær að ákærðu höfðu handtekið H eins og nánar hefur verið fjallað um í ákærulið 2. Við það missti M, sem var talsvert ölvuð, stjórn á sér og var einnig handtekin. Þótti vegfarendum aðfarir lögreglu harkalegar og létu einhverjir í sér heyra, auk þess sem vitnið I hafði bein afskipti af málinu. Verður að ganga út frá því að þau hafi verið truflandi fyrir lögreglumenn að störfum. Þykir í þessu sambandi ekki skipta máli þótt lögreglan hafi ekki haft fullt tilefni til handtöku H.

Óumdeilt er að ákærði beitti úðavopni. Ákærði heldur því fram að hann hafi verið í hættu vegna ógnandi framkomu vitnisins I og því beitt vopninu sér til varnar. Samkvæmt framburði hans var hættan sú, á þeirri stundu sem varnarvopninu var beitt, að I myndi sparka í framhurð lögreglu­bifreið­arinnar farþegamegin þar sem ákærði var sestur inn, en þó enn með hægri fót úti. Er ljóst að ákærði hefði getað meiðst illa ef þetta hefði orðið.

Ákærði Þórjón Pétur ber að hann hafi beitt úðavopninu til þess að stöðva árás, sem hann hafi óttast af hálfu I. I kveðst ekki hafa ætlað að gera neitt né hafa gert sig líklegan til árásar, en staðfestir að hann kunni að hafa verið ógnandi, ekki síst vegna stærðar sinnar. Hann hafði áður atyrt lögreglu­mennina með orðum og lagt hönd á öxl annars ákærðu. Hann fylgdi þessu eftir með því að leggjast fram á lögreglubifreiðina og hrækja að eða á bifreiðina þar sem hann gekk fram fyrir hana og öskraði að ákærða. Vitnið Henrý bar að hann hefði ekki séð ástæðu fyrir notkun úðavopnsins, þó maðurinn, I, hefði kunnað að virðast ógnandi og verið heitt í hamsi þar sem hann stóð fyrir framan bifreiðina. Vitnið G lýsti því svo að sá sem var öskrandi, I, hafi verið kominn fram fyrir bílinn og upp á gangstéttina þegar úðanum var sprautað og hafi lögreglu­mönnunum ekki stafað ógn af honum á þeirri stundu. Vitnið R kvað I ekki hafa verið á leið til lögreglumannsins þegar úðanum var sprautað og hefði lögreglumanninum ekki stafað ógn af honum á þeirri stundu. Tengdi hann saman framangreindan hráka og notkun úðavopnsins. Kvað hann I ekki hafa verið líkamlega ógnandi og ekki hafa verið með ofbeldislega hegðun þótt hann hafi verið orðljótur og öskrað á lögreglumennina. Myndbandsupptaka var skoðuð í réttinum. Samkvæmt henni er I staðsettur uppi á gangstéttinni fyrir framan hægra framhorn bifreiðarinnar þegar ákærði úðar á hann, í næsta ramma á undan er hann að ganga fram fyrir bílinn og virðist stefna upp á gangstéttina. Þegar þetta er virt ásamt framburði vitna bendir ekkert til þess að I hafi búist til árásar á ákærða. Þykir því gegn fullyrðingu ákærða ljóst að notkun úðavopnsins hafi verið án tilefnis frá I. Ekki er heldur skynsamleg ástæða til þess að ætla að ákærði hefði verið lengur að því að draga fótinn inn í bifreiðina en að teygja höndina út á milli stafs og hurðar og beita úðavopninu.

Samkvæmt almennum orðskilningi getur orðið „múgur“ einfaldlega þýtt fjölda, eins og í orðatiltækinu „múgur og margmenni“ í þeirri merkingu er til dæmis múgur manns í miðborg Reykjavíkur á Þorláksmessu. Þá er einnig talað um „múg“ með neikvæðri tilvísun til hóps, enda merkir orðið „múgur“ einnig „skríl“. Er það þá venjulega í því samhengi að hópurinn, hvernig sem hann hefur myndast, aðhafist eitthvað gagnrýnivert, samanber orðið „múgæsing“. Þegar ákærðu vísa til múgs á vettvangi í því samhengi sem hér er um að ræða, verður að leggja í það þennan síðastgreinda skilning. Ákærði Þórjón Pétur kvað það hafa verið tilfinningu sína að I væri þarna forsprakki fyrir hópi af fólki. Hann hafi upplifað ástandið sem mjög eldfimt og tæpt á að allt færi í bál og brand. Meðákærði X kvaðst hafa upplifað ástandið eins og lýst er. Vitnið Magnús Þór, lögreglumaður, kvað hafa verið mikinn hita og óróa í fólki þarna á staðnum, vitnið Elín Agnes, lögreglumaður, kvað hafa verið þarna fullt af eða slatta af fólki og hafa verið hita í fólki, það hafi verið að hljóða á þau, aðstæðum sem þessum fylgi óþæginda- og óöryggistilfinning. Vitnin Kristján Helgi og Þormóður Árni, lögreglumenn, sem voru á öryggismynda­vélunum, sögðu töluvert af fólki hafa verið þarna í kring, nefndu báðir stóra manninn sem hefði verið ógnandi, Kristján Helgi sagði að æsingur hefði verið í fólki og Þormóður Árni að þeir hefðu haft áhyggjur af þessu.

Ljóst er að M var mjög æst og barðist um, einnig að vitnið Iur var með talsverð hróp að lögreglumönnunum og truflandi framkomu, einnig virðist einn annar maður, sem ekki hefur upplýsts hver er hafa fylgt honum eftir, en myndbandið sýnir að þegar úðanum er sprautað er I kominn að framhurð stærri lögreglubifreiðarinnar, sem þá var enn á staðnum. Önnur vitni höfðu sig ekki í frammi utan að R kveðst hafa kallað eitthvað. Fáir aðrir sjást á myndbandinu, en ganga má út frá að fleiri hafi verið á ferli í nágrenninu. Þannig er ljóst að fólk var á vettvangi sem sýndi andúð sína á aðgerðum ákærðu og flest væntanlega undir áhrifum áfengis. Engan veginn verður þetta fólk þó skilgreint sem hópur og því síður múgur sem hafi sameinast í aðgerð gegn lögreglu. Þá voru tvær lögreglubifreiðar á staðnum þegar úðanum var beitt og með þeim alls fimm lögreglumenn, sem allir voru komnir inn í bifreiðarnar. Ákærðu eru báðir mjög reyndir og vel þjálfaðir lögreglumenn, enginn hópur var til staðar þegar þá bar fyrst að, og þó M væri erfið viðureignar og I ógnandi vegna stærðar sinnar og hrópa og þó einhverjir fleiri vegfarendur hafi staldrað við og jafnvel kallað til þeirra vanþóknunarorðum, þá verður á engan hátt fallist á að þetta ástand verði metið þannig að þeir hafi þar átt í höggi við æstan múg.

Í samræmi við eðli lögreglustarfsins er lögreglumönnum, andstætt öðrum borgurum, heimilt að beita valdi. Þessi heimild er þó takmörkuð við að nauðsyn krefji og skal aðgerð ætíð vera í samræmi við aðstæður hverju sinni. Úðavopn inniheldur táragas og er ætlað til að yfirbuga einstakling í návígi. Fá lögreglumenn það í hendur að undangenginni þjálfun. Sé vopninu beitt ber lögreglumanni að gera rökstudda grein fyrir notkun þess í skýrslu. Þessar reglur hafa þann tilgang að tryggja að vopnið sé ekki notað án fullnægjandi tilefnis og að meðalhófs sé gætt við notkun þess.

Það er rétt, sem ákærði heldur fram, að lögregla verði stundum að taka ákvarð­anir í skyndi. Komið getur fyrir að mat á aðstæðum í slíkum tilvikum reynist eftir á hafa verið rangt en afsakanlegt. Í því tilviki sem hér um ræðir höfðu skapast erfiðar vinnuaðstæður, en hvorki var tilefni frá I né fólkinu á staðnum til þess að beita vopninu og varð notkun þess því ekki réttlætt.

Er ákærði Þórjón Pétur fundinn sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í þessum ákærulið og fallist á heimfærslu brotsins til refsiákvæðis.

 

Niðurstaða um ákærulið 3.

Ákærða X, en hann skráði frumskýrslu, er samkvæmt þessum ákærulið gefin að sök röng skýrslugerð vegna þessa atburðar, að því er tekur til þeirra atriða sem fjallað er um í ákærulið 4. X ber að hann hafi ekki veitt því eftirtekt þegar úðavopninu var beitt og er það eðlilegt vegna þess að hann átti fullt í fangi með að hemja M sem var í aftursæti bifreiðarinnar, og að búast til að aka bifreiðinni af vettvangi. Hann kveðst ekki hafa vitað um að úðavopnið var notað fyrr en eftirá, en ber að hann telji beitingu þess ekki hafa verið óeðlilega.

Þegar skýrsla ákærða um atburðinn er metin verður að líta til þess að ákærðu unnu þarna saman og hann er að lýsa aðgerðunum í heild. Hlýtur hann við það að taka mið af aðgerðum þeirra beggja. Um nauðsyn þess að beita úðavopninu hlýtur hann, við þessar aðstæður, að leggja skýringar félaga síns, meðákærða Þórjóns Péturs, til grundvallar að því leyti sem hann gat ekki sjálfur metið aðstæður. Um það hvort „ástandið hafi verið mjög eldfimt“ þykir verða að leggja mat lögreglumannanna um það til grundvallar í ljósi þeirra aðstæðna sem þeir voru þarna í. Staðan var erfið vegna látanna í M og I hafði verið ógnandi. Á hinn bóginn er, eins og hér að framan er rökstutt, rangt að „múgæsing hafi myndast á vettvangi,“ eða að þar hafi verið einhver múgur til staðar. Ekkert gaf reyndum lögreglumanni tilefni til að lýsa ástandinu á vettvangi almennt með þessum hætti. Eini sjáanlegi tilgangurinn með því er að réttlæta notkun úðavopnsins, en að þessu leyti gat ákærði X sjálfur metið hvað rétt var. Þá þykir einnig augljóslega rangt að notkun þess hafi verið nauðsynleg til þess að lögreglubifreiðin kæmist af vettvangi. Ekkert í gögnum málsins styður það að aðsúgur hafi verið gerður að þeim og I stóð ekki einu sinni lengur fyrir framan bifreiðina. Telst lögregluskýrslan að þessu leyti vera röng af hálfu ákærða X og er fallist á kröfu ákæruvaldsins um sakfellingu og heimfærslu til refsiákvæða.

 

Niðurstaða ákæruliðar 5.

             Ákærða Þórjóni Pétri er í þessum ákærulið gefin að sök röng skýrslugerð vegna atburðarins, en hann ritaði skýrslu vegna notkunar úðavopnsins. Svo sem að framan er rakið braust engin múgæsing út eftir handtöku H. Fáeinir einstaklingar teljast hafa verið þarna við, og það jafnvel þó að gengið sé út frá því að fleira fólk hafi verið í kring en þeir sem komið hafa fyrir dóminn og þeir sem sjást á myndbandinu. Þetta fólk var ekki í hópi heldur vegfarendur á stangli sem leið áttu hjá. Það stóð ekki sameiginlega að aðkasti að ákærða. Þá er ekkert sem rennir stoðum undir það að I hafi gert sig líklegan til að ráðast að ákærða Þórjóni eða lögreglubifreiðinni, þó hann hafi snert hana, jafnvel lagst andartak fram á húddið og hrækt að henni eða á hana. Gögn málsins og vætti vitna styðja ekki þá fullyrðingu að I hafi verið í árás þegar úðanum var beint að honum, og það verður að teljast hugarfóstur ákærða að hann hafi búist til árásar í þeim tilgangi að fá þessa vegfarendur, sem hér hafa komið fyrir dóminn, eða aðra óþekkta aðila, með sér til árásar. Samkvæmt þessu hlýtur rökstuðningur ákærða í skýrslunni fyrir notkun úðavopnsins að teljast vera vísvitandi rangur. Er því fallist á kröfu ákæruvaldsins um sakfellingu vegna þessa ákæruliðar og fallist er á heimfærslu brotsins til refsiákvæða.

 

Skaðabótakrafa.

H krefst miskabóta úr hendi ákærðu ásamt vöxtum og dráttarvöxtum. Samkvæmt framangreindri niðurstöðu var handtaka hans ekki lögmæt. Hann var handtekinn um kl. 04.03 og látinn laus kl. 04.40. Handtakan var frelsisskerðing og meiðandi en með eigin framkomu stuðlaði hann þó að atburða­rásinni. Bætur þykja með vísan til 26. gr. skaðabótalaga hæfilega metnar 100.000 krónur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. mars 2003 til 30. júní 2003, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 60.000 krónur vegna lögmannsaðstoðar.

 

Refsiákvörðun.

Ákærði Þórjón Pétur Pétursson hefur verið fundinn sekur samkvæmt ákæruliðum 1, 4 og 5 og ákærulið 2 sameiginlega með meðákærða X. Ákærði X hefur verið fundinn sekur samkvæmt ákærulið 3 og sameiginlega með meðákærða Þórjóni Pétri samkvæmt ákærulið 2. Um er að ræða brot framin af lögreglumönnum í opinberu starfi. Brotin eru einkum alvarleg vegna þess að það er grundvallaratriði í lýðfrjálsu landi að almenningur geti treyst því að lögregla vandi vinnubrögð sín og fari að ábyrgð með valdheimildir sínar. Sérstaklega er það litið alvarlegum augum að lögreglumenn skuli freistast til að réttlæta eigin gerðir eða starfsfélaga sinna með röngum skýrslum. Skýrslur lögreglu eru megin grundvöllur ákæru fyrir brot og eru þýðingarmikil sönnunargögn í opinberum málum. Eru mikilir almannahagsmunir tengdir því að hægt sé að treysta þeim og framburði lögreglu­manna.

Ákærðu hafa engan sakarferil. Við ákvörðun refsingar verður til mildunar að líta til þess að vinnuaðstæður lögreglu eru erfiðar á vettvangi eins og háttaði til í tilviki ákæruliðar 2 og framkoma vegfarenda oft vanvirðandi og truflandi. Einnig ber að líta til þess að ákærðu hefur verið vikið úr starfi sem þeir eru menntaðir til og hafa öðlast mikla reynslu við.

             Þegar allt þetta er virt er refsing ákærða Þórjóns Péturs ákveðin fangelsi í fimm mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar í tvö ár frá birtingu dómsins og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955. Refsing ákærða X er ákveðin fangelsi í tvo mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar í tvö ár frá birtingu dómsins og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

 

Sakarkostnaður

             Ákærðu skulu greiða sameiginlega allan almennan sakarkostnað. Ákærði Þórjón Pétur skal greiða skipuðum verjanda sínum, Sigurði Kára Kristjánssyni héraðsdómslögmanni, 380.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun. Ákærði X skal greiða skipuðum verjanda sínum, Helga Jóhannessyni hæstaréttar­lögmanni, 350.000 krónur í málsvarnarlaun.

 

             Málið var flutt af Sigríði J. Friðjónsdóttur saksóknara.

             Hjördís Hákonardóttir héraðsdómari kvað upp dóminn.

D ó m s o r ð

Ákærði, Þórjón Pétur Pétursson, skal sæta fangelsi í fimm mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar í tvö ár frá birtingu dómsins og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

Ákærði, X, skal sæta fangelsi í tvo mánuði. Fresta skal fullnustu refsingarinnar í tvö ár frá birtingu dómsins og skal hún falla niður að þeim tíma liðnum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

             Ákærðu skulu sameiginlega greiða H 100.000 krónur í skaðabætur ásamt vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 9. mars 2003 til 30. júní 2003, en með dráttarvöxtum skv. 9. gr. sömu laga frá þeim degi til greiðsludags og 60.000 krónur vegna lögmannsaðstoðar.

Ákærðu skulu greiða sameiginlega allan almennan sakarkostnað. Ákærði Þórjón Pétur skal greiða skipuðum verjanda sínum, Sigurði Kára Kristjánssyni héraðsdómslögmanni, 380.000 krónur í réttargæslu- og málsvarnarlaun. Ákærði X skal greiða skipuðum verjanda sínum, Helga Jóhannessyni hæstaréttar­lögmanni, 350.000 krónur í málsvarnarlaun.