Hæstiréttur íslands
Mál nr. 96/2012
Lykilorð
- Samningur
- Aðildarskortur
|
|
Fimmtudaginn 25. október 2012. |
|
Nr. 96/2012.
|
Bláhnjúkur ehf. (Páll Arnór Pálsson hrl.) gegn Laufeyju Gunnlaugsdóttur og Sigurði Jenssyni (Karl Axelsson hrl.) |
Samningur. Aðildarskortur.
B ehf. krafði L og S um greiðslu vegna vinnu við byggingu sumarhúss. Byggði B ehf. á því að starfsmenn þeir sem unnu við verkið hafi verið starfsmenn SC ehf. sem framselt hafi B ehf. kröfuna. L og S héldu því fram að samið hafi verið persónulega við fyrirsvarsmann B ehf. og að með greiðslu inn á reikning hans og vinnuframlagi S hafi þessi viðskipti verið að fullu uppgerð. Í Hæstarétti var ekki talið að B ehf. hefði sýnt fram á að stofnast hefði réttarsamband milli SC ehf. sem félagið kvaðst leiða rétt sinn frá og L og S vegna þeirrar kröfu sem B ehf. hafði uppi í málinu. Þegar af þeirri ástæðu var staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms um sýknu L og S með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Viðar Már Matthíasson, Greta Baldursdóttir og Helgi I. Jónsson.
Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 10. febrúar 2012. Hann krefst þess aðallega að stefndu greiði sér óskipt 16.547.520 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 1. apríl 2009 til greiðsludags en til vara 6.500.000 krónur með sömu vöxtum frá 16. desember 2010 til greiðsludags. Í báðum tilvikum krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Eftir að hinn áfrýjaði dómur gekk var nafni áfrýjanda breytt, en félagið hét áður Sola Verktak ehf.
Málavextir eru raktir skilmerkilega í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar kemur fram hófu stefndu byggingu sumarhúss í landi Heiðarbæjar í Bláskógarbyggð í júlí 2007. Til verksins, sem að mestu var unnið á því ári, voru meðal annarra fengnir erlendir starfsmenn að tilstuðlan fyrirsvarsmanns áfrýjanda, Sigurðar Hilmars Ólasonar. Ekki var gerður skriflegur samningur um verkið. Áfrýjandi byggir á því að starfsmennirnir hafi innt þessa vinnu af hendi sem starfsmenn Sola Capital ehf. Kveður áfrýjandi kröfu sína tilkomna vegna ógreiddra launa starfsmannanna við smíði hússins, en Sola Capital ehf., sem hafi verið móðurfélag áfrýjanda, hafi framselt félaginu kröfuna. Stefndu halda því á hinn bóginn fram að samið hafi verið við Sigurð Hilmar persónulega um að hann útvegaði umrædda starfsmenn til byggingar hússins þegar þeir væru ekki í öðrum verkefnum. Með greiðslu 4. janúar 2008 á 1.500.000 krónum, sem óumdeilt er að inntar voru af hendi inn á persónulegan reikning Sigurðar Hilmars, og vinnuframlagi stefnda Sigurðar í þágu þess fyrrnefnda hafi þessi viðskipti verið að fullu uppgerð.
Samkvæmt gögnum málsins var Sola Capital ehf. eignarhaldsfélag sem hafði ekki með höndum verktakastarfsemi. Fullyrðing áfrýjanda um að stefndu hafi samið við Sola Capital ehf. um vinnu starfsmannanna við sumarhúsið er engum haldbærum gögnum studd. Þykir sú staðreynd að greiðsla vegna sumarhússins var innt af hendi inn á persónulegan reikning fyrirsvarsmanns áfrýjanda áðurnefndan dag renna stoðum undir þá fullyrðingu stefndu að samið hafi verið um vinnu hinna erlendu starfsmanna við byggingu sumarhússins við Sigurð Hilmar persónulega. Samkvæmt öllu framansögðu hefur áfrýjandi ekki sýnt fram á að stofnast hafi réttarsamband milli Sola Capital ehf., sem áfrýjandi kveðst leiða rétt sinn frá, og stefndu vegna þeirrar kröfu sem félagið hefur uppi í málinu. Verður því þegar af þeirri ástæðu, með vísan til 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, staðfest niðurstaða hins áfrýjaða dóms.
Eftir þessum úrslitum verður áfrýjandi dæmdur til að greiða stefndu málskostnað fyrir Hæstarétti eins og í dómsorði greinir. Við ákvörðun málskostnaðar verður litið til þess að málskot þetta er að ófyrirsynju, sbr. 131. gr., sbr. og 166. gr., laga nr. 91/1991.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður.
Áfrýjandi, Bláhnjúkur ehf., greiði stefndu, Laufeyju Gunnlaugsdóttur og Sigurði Jenssyni, sameiginlega 700.000 krónur í málskostnað fyrir Hæstarétti.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 11. nóvember 2011.
Mál þetta, sem dómtekið var hinn 14. október sl., að lokinni aðalmeðferð, var höfðað fyrir dómþinginu af Sola Verktaki ehf., Ásgötu 17, Reykjavík, á hendur Laufeyju Gunnlaugsdóttur, Kristnibraut 73, Reykjavík, og Sigurði Jenssyni, Kristnibraut 73, Reykjavík, með stefnu birtri 10. desember 2010.
Dómkröfur stefnanda eru þær, að stefndu verði dæmd in solidum til þess að greiða stefnanda 16.547.520 krónur, með dráttarvöxtum samkvæmt ákvörðun Seðlabanka Íslands á hverjum tíma um grunn dráttarvaxta og vanefndarálag, sbr. 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu, frá 1. apríl 2009 til greiðsludags.
Þá krefst stefnandi málskostnaðar úr hendi stefndu in solidum.
Dómkröfur stefndu eru þær að þau verði sýknuð af öllum kröfum stefnanda og stefnandi verði dæmdur til þess að greiða þeim málskostnað.
II
Málavextir eru þeir að Sigurður Jensson hóf störf hjá stefnanda í febrúar 2007. Stefndi Sigurður sá um allan almennan rekstur félagsins og bókhald þess. Stefnda Laufey, eiginkona stefnda Sigurðar, starfaði einnig hjá stefnanda, en hún hóf þar störf eftir að stefndi Sigurður hafði tekið þar til starfa. Stefnandi kveður þau hafa annast allar greiðslur fyrir fyrirtækið. Stefnandi kveður þau hafa fengið laun fyrir störf sín greidd í gegnum einkahlutafélag sitt Fjárvirki ehf., sem fengið hafi greiðslur frá Sola Capital ehf. sem verktaki. Stefndi Sigurður kveðst hafa komið að almennum rekstri fjölda lögaðila á vegum Sigurðar Hilmars Ólasonar, fyrrverandi stjórnarmann stefnanda og framkvæmdastjóra, m.a. stefnanda, frá stofnun þess árið 2008. Einnig kveðst hann hafa komið að bókhaldi og rekstri fyrirtækisins Sola Capital ehf. sem hafi alfarið verið í eigu Sigurðar Hilmars. Á þeim tíma sem hann hafi hafið störf hafi enginn rekstur verið í Sola Capital ehf. heldur hafi félagið verið eignarhaldsfélag, sbr. ársreikninga þess frá árunum 2006 og 2007. Stefndi Sigurður kveðst fyrstu mánuðina hafa unnið fyrir Sigurð Hilmar persónulega sem verktaki í gegnum eigið fyrirtæki, Fjárvirki ehf., en frá því í maí 2007 hafi hann verið launamaður hjá Sola Capital ehf. Með tímanum hafi starf hans þróast frá því að annast bókhald í fjölþættari störf. Stefndi Sigurður og félag hans Fjárvirki ehf. hafi unnið mikið fyrir Sigurð Hilmar og lögaðila á hans vegum að ýmsum verkefnum.
Á árinu 2008 var stofnað félagið Sola Verktak ehf., sem er stefnandi þessa máls, og kveður stefnandi að það félag hafi átt og annast alla verktöku sem Sola Capital ehf. stóð fyrir. Hafi Sola Verktak ehf. tekið yfir allar kröfur og skuldbindingar Sola Capital ehf., sem tengdist almennri verkefnasölu m.a. verkefni sem unnin hafi verið fyrir stefnda. Stefnandi kveður stefndu hafa unnið sömu störf fyrir stefnda og þau hafi áður innt af hendi fyrir Sola Capital ehf.
Stefnandi kveður að í júlí 2007 hafi stefndi Sigurður ásamt eiginkonu sinni stefndu Laufeyju hafið byggingu sumarhúss í landi Heiðarbæjar, lóð 170226, Bláskógarbyggð, sem skráð hafi verið eign þeirra hjóna. Til verksins hafi þau ráðið starfsmenn Sola Capital ehf. Starfsmennirnir hafi unnið alls 4.530 klukkustundir við bygginguna, en samkvæmt gjaldskrá fyrirtækisins hafi útseld vinna við verkið verið 3.200 krónur á klukkustund. Þar hafi verið um að ræða gjaldskrá sem ákveðin hafi verið af stefnda Sigurði. Verkið skyldi fært til bókar af eiginkonu hans, stefndu Laufeyju.
Stefndi Sigurður kveður Sigurð Hilmar hafa haft milligöngu um að útvega sér erlenda verkamenn til starfa við framkvæmdir á sumarhúsi stefndu. Hafi Sigurður Hilmar boðist til þess, í og með til að stefndi Sigurður gæti einbeitt sér og tileinkað meiri tíma í vinnu fyrir Sigurð Hilmar og félög í hans eigu. Stefndi Sigurður kveðst hafa samið um aðkomu þessara verkamanna við Sigurð Hilmar persónulega, en hann kveðst ekki hafa ráðið starfsmenn Sola Capital ehf. Hafi þessir verkamenn komið til aðstoðar stefndu og annarra sem að verkinu hafi unnið. Samið hafi verið um að stefndi Sigurður greiddi 1.500.000 krónur fyrir þessa vinnu, sem hann kveðst hafa gert 4. janúar 2008, með greiðslu inn á einkareikning Sigurðar Hilmars. Hafi það verið skilningur stefnda Sigurðar að með þeirri greiðslu, og vinnu sem innt hafi verið af hendi fyrir Sigurð Hilmar hafi þau viðskipti að fullu verið uppgerð. Það hafi svo ekki verið fyrr en með bréfi lögmanns stefnanda í desember 2009, sem stefndu hafi fyrst verið krafin um greiðslu fyrir vinnu fyrir stefnanda, en það félag hafi ekki einu sinni verið stofnað er verkið hafi verið unnið. Af framlögðum gögnum megi sjá að stefnandi sé dótturfélag Sola Capital ehf. og það félag hafi alfarið verið í eigu Sigurðar Hilmars.
Stefnda Laufey kveðst aldrei hafa verið starfsmaður stefnanda, en hún hafi hins vegar verið á launaskrá hjá Sola Capital frá september 2007 fram í janúar 2008. Samningur um aðkomu verkamanna á vegum Sigurðar Hilmars að uppbyggingu sumarbústaðarins hafi alfarið verið á milli stefnda Sigurðar og Sigurðar Hilmars.
Stefnandi kveður að eftir að stefndu hafi látið af störfum hafi komið í ljós að aldrei hafi verið gerður reikningur eins og stefndu hafi átt að gera og verkið ekki verið gert upp. Verkkaupar hafi þó greitt 1.500.000 krónur á verktímanum.
Stefnandi gerði stefndu reikning fyrir vinnuna eftir að hann kveður málið hafa verið upplýst.
Stefnandi kveðst, árangurslaust, hafa reynt að frá stefndu til að greiða umstefnda skuld, bæði munnlega og skriflega, en þau talið sig ekki eiga að greiða fyrir útselda vinnu, sem unnin hafi verið af starfsmönnum Sola Capital ehf. síðar Sola Verktaki ehf. Stefnandi kveðst hafa reynt, umfram eðlilegan tíma, að fá stefndu til að greiða skuld sína, þar sem um gamla samstarfsmenn hafi verið að ræða, en án árangurs. Auk þess hafi komið í ljós, við rannsókn á bókhaldi og bankareikningi stefnanda, meint misferli með sjóði félagsins af hálfu stefnda Sigurðar, en sérstakt mál verði höfðað vegna þess.
Stefndu kveða að í apríl 2009 hafi komið upp ágreiningur milli stefnda Sigurðar og Sigurðar Hilmars sem orðið hafi til þess að upp úr samstarfi þeirra og félaga á þeirra vegum hafi slitnað. Í kjölfar þessa viðskilnaðar hafi stefnda Sigurði farið að berast ýmsar tilhæfulausar kröfur frá Sigurði Hilmari og sé ein þeirra grundvöllurinn að málssókn þessari.
Með stefnu, útgefinni 18. mars 2010 og þingfestri 6. apríl sama ár, var mál vegna sama sakarefnis höfðað á hendur stefndu. Því máli var vísað frá dómi með úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, 9. nóvember 2010, þar sem talið var að málatilbúnaður stefnanda bryti í bága við meginreglur réttarfars um skýran og glöggan málatilbúnað, sbr. d-,e- og g-liði 1. mgr. 80. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
Stefnandi kveður að við fyrri málshöfðun hafi ekki tekist að leggja fram vinnuskýrslur þeirra sem unnið hafi verkið þar sem stefndi Sigurður hafi fjarlægt þær úr bókhaldi félagsins. Stefnandi kveðst þá hafa beðið starfsmenn sem unnið hafi verkið að gefa skýrslu um málið og rifja upp sundurliðun verkefnisins. Starfsmennirnir séu allir erlendir ríkisborgarar og hafi það dregist að fá upplýsingar frá þeim og hafi skýrslurnar því ekki legið fyrir við þingfestingu fyrra málsins. Nú hafi þeir hins vegar rifjað upp tímana og verkefni hvers dags svo sem hægt sé og liggi þær skýrslur fyrir í málinu.
Stefndu kveða, að þeim hafi fyrst verið gerð kunnug meint skuld við stefnanda, með bréfi lögmanns hans, sem borist hafi þeim í desembermánuði, þar sem segi að við skoðun á bókhaldi stefnanda hafi komið í ljós að stefndu hafi ekki greitt fyrirtækinu fyrir vinnu við byggingu sumarbústaðar þeirra. Samkvæmt bréfinu hafi ógreidd vinnulaun verið fyrir 4.530 klukkustundir á 3.200 krónur hver klukkustund, eða samtals 14.496.000 krónur auk virðisaukaskatts og vaxta. Einnig hafi þau í sama bréfi verið sökuð um fjárdrátt.
Með bréfi lögmanns stefndu, dagsettu 23. desember 2009, var mótmælt kröfu stefnanda og ásökunum á hendur stefndu vísað á bug.
Með tölvupósti, dagsettum 26. febrúar 2010, ítrekaði lögmaður stefnanda kröfu stefnanda. Hins vegar kveðast þau fyrst hafa séð framlagðan reikning, dagsettan 8. desember 2009, við þingfestingu fyrra máls stefnanda á hendur stefndu, vegna sama sakarefnis, hinn 6. apríl 2010.
III
Stefnandi byggir kröfu sína á reikningi, útgefnum 1. apríl 2009, með gjalddaga sama dag, að fjárhæð 16.547.520 krónur. Reikningurinn sé vegna vinnu við byggingu sumarbústaðar í landi Heiðarbæjar, Bláskógabyggð, Árnessýslu, eign stefndu. Stefndu hafi ráðið starfsmenn fyrirtækisins Sola Capital ehf. til verksins og hafi starfsmenn þess unnið alls 4.530 klst. við bygginguna, en samkvæmt gjaldskrá félagsins hafi útseld vinna við verkið verið 3.200 krónur á klst. auk virðisaukaskatts. Stefndu hafi átt að færa verkið til bókar en það hafi þau ekki gert. Hafi komið í ljós eftir að stefndu hættu störfum að enginn reikningur hafi verið gerður um verkið, en hins vegar hafi stefndu greitt 1.500.00 á verktímanum. Eftir að stefndu hafi látið af störfum hafi þetta komið í ljós og hafi þá stefndu verið sendur reikningur, sem ekki hafi verið greiddur.
Stefnandi byggir á því, að stefnandi hafi verið stofnaður á árinu 2008 og hafi það félag átt að annast alla verktöku sem Sola Capital ehf. stóð fyrir. Hafi stefnandi tekið yfir allar kröfur og skuldbindingar Sola Capital ehf., sem tengst hafi almennri verkefnasölu, m.a. verkefni sem unnin hafi verið fyrir stefndu.
IV
Stefndu telja verulega annmarka enn vera á málatilbúnaði stefnanda. Aðild að málinu sé enn órökstudd, málavaxtalýsing sé knöpp og málið ekki stutt viðhlítandi sönnunargögnum.
Stefndu byggja sýknukröfu sína á aðildarskorti, sbr. 2. mgr. 16. gr. laga nr. 91/1991.
Stefnandi sé lögaðili sem ekki hafi verið til þegar verkið hafi verið unnið. Það liggi fyrir að stefnandi, Sola verktak ehf., hafi verið stofnað 7. júlí 2008 og tilkynning um stofnun félagsins hafi verið móttekin hjá fyrirtækjaskrá 6. ágúst 2008. Þá sé einnig óumdeilt að framkvæmdir á sumarhúsi stefndu hafi farið fram á árinu 2007.
Samkvæmt stefndu hafi verið unnið fyrir reikning Sola Capital ehf. og í stefnu sé fullyrt að stefnandi hafi yfirtekið allar kröfur og skuldbindingar Sola Capital ehf., sem tengst hafi almennri verkefnasölu, m.a. verkefni sem unnið hafi verið fyrir stefndu. Þetta framsal á kröfum frá Sola Capital ehf. yfir til Sola Verktaks ehf. sé engum gögnum stutt. Í stefnu sé talað um skiptingu á Sola Capital ehf., en engin gögn fylgi um að félaginu hafi verið skipt og stefnandi tekið yfir hluta skuldbindinga og eignast kröfur. Stefnandi hafi því ekki sýnt fram á með hvaða hætti hann sé réttur aðili til að hafa uppi reikningskröfur á hendur stefndu vegna verks sem hafi verið unnið áður en stefnandi hafi orðið til.
Fullyrðing stefnanda að einkahlutafélagið Sola Capital ehf. hafi átt kröfu á hendur stefndu, sé heldur ekki studd neinum gögnum. Engin reikningur, nema sá í nafni stefnanda, Sola Verktaks ehf., enginn verksamningur, bókhaldsgögn eða önnur gögn sem styðji það að Sola Capital ehf. hafi átt kröfu á hendur stefndu.
Nokkur ný gögn hafi verið lögð fram með stefndu sem ekki hafi fylgt fyrri málssókn. Helsta gagnið sé verkefna- og vinnutímaskrá. Þrátt fyrir að Sola Capital ehf. hafi verið vinnuveitandi erlendu verkamannanna á þeim tíma sem vinnan hafi verið unnin, samkvæmt málatilbúnaði stefnanda, sé þessi skrá stíluð á stefnanda, Sola Verktak ehf. Það sé og augljóst að þessi vinnutímaskrá hafi verið unnin í kjölfar frávísunar málsins frá dómi í nóvember sl. og því í besta falli gerð eftir minni, mörgum árum eftir að verkið hafi verið unnið. Þá eigi hún að stafa frá manni sem heiti Klaidas Gustainis. Stefndi Sigurður kveðst þekkja Klaidas sem einn af erlendu verkamönnunum sem komið hafi að vinnu við sumarhúsið og því sé stefnda Sigurði kunnugt um að Klaidas kunni enga íslensku. Vinnutímaskráin sé þó af einhverjum sökum á lýtalausri íslensku, án þess að nokkuð bendi til þess að hún hafi verið þýdd af öðru tungumáli.
Þá séu lagðar fram nokkrar yfirlýsingar, m.a. yfirlýsing byggingarstarfsmanna. Sú yfirlýsing sé á ensku og fylgi henni engin þýðing þrátt fyrir að þingmálið sé íslenska, sbr. 10. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála. Þá beri einnig að líta til þess að sönnunargildi yfirlýsingar þessarar sé ekkert, með vísan til meginreglunnar um milliliðalausa sönnunarfærslu. Í málinu sé og að finna yfirlýsingu frá Davíð Haraldssyni, sem hafi verið starfsmaður Sigurðar Hilmars. Í þeirri yfirlýsingu komi ekkert fram sem styðji að Sola Capital ehf. hafi átt kröfu á hendur stefndu. Loks sé lögð fram yfirlýsing pípulagningarmannsins Trausta Guðjónssonar, en þar segi, að stefndi, Sigurður Jensson, hafi greitt pípulagningarmanninum 130.000 krónur. Hins vegar komi hvergi fram að pípulagningarmaðurinn hafi talið sig vera að vinna fyrir Sola Capital ehf. eða að greiðslan hafi komið frá Sola Capital ehf. Þessi yfirlýsing staðfesti einungis að stefndi Sigurður hafi greitt reikninginn en ekki Sola Capital ehf. Ef ætlunin hefði verið að sýna fram á að Trausti hefði verið að vinna fyrir Sola Capital ehf. hefði með yfirlýsingunni þurft að fylgja reikningur, gefinn út af Trausta til handa Sola Capital ehf. og afrit af millifærslu af reikningi Sola Capital ehf. Raunar sé ekkert í gögnum málsins sem styðji það að Sola Capital ehf. hafi átt kröfu á hendur stefndu. Stefnandi eigi því ekki þá hagsmuni sem hann krefjist dóms um. Því sé um aðildarskort að ræða, sem að lögum leiði til sýknu.
Krafa stefndu um sýknu byggist einnig á því að Sola Capital ehf. hafi aldrei átt kröfu á hendur stefndu. Eins og fram sé komið hér á undan hafi stefndi Sigurður samið við Sigurð Hilmar persónulega um aðkomu erlendra verkamanna á vegum Sigurðar Hilmars og séu þær framkvæmdir sem unnar hafi verið á sumarhúsinu þegar að fullu uppgerðar. Það styðji málatilbúnað stefndu að stefnandi og Sigurður Hilmar hafi aldrei reynt að innheimta meinta skuld fyrr en eftir að deilur hafi sprottið upp á milli stefnda Sigurðar og Sigurðar Hilmars. Þá styðji það einnig málatilbúnað stefndu að fyrrgreind greiðsla hafi verið innt af hendi inn á reikning Sigurðar Hilmars.
Stefndu mótmæla einnig sérstaklega reikningi sem liggi til grundvallar málinu. Reikningurinn sé uppspuni einn og í engu samræmi við þá vinnu sem hinir erlendu verkamenn hafi raunverulega unnið við sumarhús stefndu. Þá beri einnig að líta til þess að reikningurinn hafi verið gefinn út tveimur árum eftir að verkið var unnið og sýnilega án þess að að baki hans lægju nokkur gögn eða forsendur sem hægt væri að byggja á. Á seinni stigum, eftir að fyrrgreindu máli hafi verið vísað frá dómi, hafi verið farið út í það að fóðra reikninginn og búa til vinnutímaskrá til samræmis við þegar útgefinn reikning. Vinnutímaskráin hafi verið gerð um þremur og hálfu ári eftir að verkið hafi verið unnið. Samkvæmt reikningnum sé hver klukkustund útseld á 3.200 krónur og sérstök áhersla lögð á það í stefnu að tímagjaldið hafi verið ákveðið af stefnda Sigurði, en því mótmæla stefndu. Stefndi Sigurður kveður sér vera kunnugt um að árið 2007 hafi erlendu verkamönnunum verið greiddar 900 krónur á tímann, auk húsnæðis.
Framlögð vinnuskýrsla verkamannanna líti út fyrir að stafa frá Klaidas Gustainis. Stefndi Sigurður kveðst þekkja Klaidas og hafi hann verið einn af þeim sem komið hafi að framkvæmdum við sumarhúsið. Klaidas sé litháískur og tali enga íslensku, en þrátt fyrir það sé vinnutímaskráin og fylgibréf hennar á lýtalausri íslensku. Þá sé nafn Klaidas rangt stafsett 16 sinnum í vinnutímaskránni.
Stefndu mótmæla verkefna- og vinnutímaskrá, og telja að ekki verði á henni byggt. Stefndu draga í efa að skýrslan stafi frá Klaidas sjálfum. Þá telja stefndu að upprifjun starfsmanna á unnum klukkustundum per dag mörgum árum eftir að verki lauk sé ekki traustur grunnur fyrir málssókn. Vinnutímaskráin sé ekki undirrituð af þeim starfsmönnum sem eigi að hafa innt vinnuna af hendi og raunar komi ekki skýrt fram hvaða verkamenn eigi að hafa unnið hvert sinn. Skjalið hafi og aldrei hlotið samþykki frá meintum verkkaupa né hafi það verið borið undir hann. Þá hafi starfsmennirnir fimm, sem nefndir séu í vinnutímaskránni, allir að hafa átt að fá greitt frá Sola Capital ehf. fyrir vinnu við sumarhúsið. Launaseðlar starfsmannanna frá Sola Capital ehf. ættu því að styðja við málatilbúnað stefnanda en þeir liggi þó ekki frammi. Samkvæmt upplýsingum sem stefndu búi yfir hafi það aðeins verið Klaidas sem hafi verið á launaskrá allt það tímabil sem meint vinna hafi átt að eiga sér stað og hafi hann þá verið með laun á bilinu frá 65.000 krónum til 161.770 króna, hinir hafi aðeins verið takmarkaðan hluta tímabilsins á launaskrá. Einnig beri að hafa í huga að umræddir starfsmenn hafi unnið að fleiri en einu verki í einu.
Stefndu mótmæla því sérstaklega að reikna beri dráttarvexti af dómkröfu fyrr en frá dómsuppsögudegi. Reikningurinn hafi aldrei verið sendur stefndu og þau hafi ekki séð hann fyrr en við þingfestingu málsins.
Um lagarök vísa stefndu til laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála og laga nr. 138/1994, um einkahlutafélög, sem og til meginreglna kröfuréttar og samningaréttar.
Kröfu um dráttarvexti byggja stefndu á lögum nr. 38/2001, um vexti og verðtryggingu.
Kröfu um málskostnað byggja stefndu á XXI. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.
V
Ágreiningur mál þessa lýtur að því hvort stefndu beri að greiða stefnanda framlagðan reikning vegna vinnu við sumarbústað í eigu stefndu.
Stefnandi kveður að um sé að ræða útselda vinnu, 4530 klst. á 3.200 krónur klst. Fram kemur á reikningnum að um hafi verið að ræða vinnu við byggingu sumarbústaðar í landi Heiðarbæjar, Bláskógabyggð, Árnessýslu, tímabilið frá júlí 2007 til nóvember 2008.
Stefndu byggja á því að samkvæmt samningi við Sigurð Hólmar Ólason, fyrirsvarsmann Sola Capital ehf. og stefnanda máls þessa, hafi stefndu fengið erlenda starfsmenn til að vinna við sumarbústað þeirra, en fyrir þá vinnu hafi að fullu verið greitt í samræmi við samning þeirra.
Óumdeilt er að stefndi, Sigurður Jensson, greiddi inn á reikning Sigurðar Hólmars Ólasonar, fyrirsvarsmanns stefnanda, 1.500.000 krónur 4. janúar 2008, vegna vinnu við umræddan sumarbústað.
Málatilbúnaður stefnanda virðist byggjast á því, hvað varðar aðild hans að umstefndri kröfu, að upphaflegur eigandi kröfu á hendur stefndu hafi verið Sola Capital ehf., en stefnandi hafi síðar eignast kröfuna. Fyrirtækinu Sola Capital ehf. hafi verið skipt upp og stefnandi stofnaður um tiltekna starfsemi fyrirtækisins Sola Capital ehf. Liggur fyrir, samkvæmt gögnum málsins, að stefnandi, Sola Verktak ehf., var stofnað 7. júlí 2008 og tilkynning um stofnun félagsins var móttekin hjá fyrirtækjaskrá 6. ágúst 2008. Stefnandi var því ekki til er umstefnd vinna á að hafa verið innt af hendi. Málsgögn sýna hins vegar ekki að stefnandi hafi síðar eignast þessa kröfu eða hvaða krafa það var sem á að hafa verið framseld stefnanda. Nægir í því sambandi ekki að fyrirsvarsmaður stefnanda fullyrði fyrir dómi að svo hafi verið gert.
Eins og að framan greinir hefur stefnandi áður höfðað mál á hendur stefndu vegna sama reiknings, en því máli var vísað frá, m.a. þar sem reikningurinn var ekki studdur neinum undirgögnum, svo sem vinnu- og tímaskýrslum þeirra manna sem unnu verkið á vegum Sola Capital ehf. Stefnandi hefur nú lagt fram vinnuskýrslur og tímaskýrslur, sem stílaðar eru á stefnanda. Skýrslur þessar bera það með sér að hafa verið samdar eftir að hinu fyrra máli var vísað frá, og eru á engan hátt studdar tímaskýrslum allra þeirra manna sem áttu að hafa unnið fyrir stefndu við byggingu umrædds sumarhúss. Kom og fram við skýrslutökur við aðalmeðferð málsins, að skýrslurnar hefðu að einhverju leyti verið unnar eftir minni, af einum þeirra starfsmanna sem unnu við bygginguna. Með því að stefnandi krefur stefndu um greiðslu vegna vinnu samkvæmt tímagjaldi er ekki unnt að líta svo á að stefnanda hafi með þessu tekist að sanna fjölda þeirra tíma, sem stefndu beri að greiða fyrir unna vinnu.
Þegar framanritað er virt er hvorki unnt að líta svo á að stefnandi hafi sannað aðild sína að meintri kröfu á hendur stefndu, sbr. 16. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, né tilvist þeirrar kröfu. Ber því að sýkna stefndu af öllum kröfum stefnanda.
Eftir þessari niðurstöðu verður stefnanda, með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, gert að greiða stefndu, in solidum, málskostnað, sem þykir hæfilega ákveðinn 600.000 krónur.
Hervör Þorvaldsdóttir kvað upp dóm þennan.
D Ó M S O R Ð:
Stefndu, Laufey Gunnlaugsdóttir og Sigurður Jensson, eru sýkn af kröfum stefnanda, Sola Verktaks ehf.
Stefnandi greiði stefndu, in solidum, 600.000 krónur í málskostnað.