Hæstiréttur íslands
Nr. 2019-15
Lykilorð
- Áfrýjunarleyfi
- Lánssamningur
- Fyrning
- Lagaskil
- Erlend réttarregla
- Hafnað
Ákvörðun Hæstaréttar.
Samkvæmt 4. mgr. 16. gr. laga nr. 50/2016 um dómstóla standa að ákvörðun þessari hæstaréttardómararnir Þorgeir Örlygsson, Markús Sigurbjörnsson og Viðar Már Matthíasson.
Með beiðni 8. janúar 2019 leitar Gísli Gíslason eftir leyfi Hæstaréttar til að áfrýja dómi Landsréttar 14. desember 2018 í málinu nr. 265/2018: Gísli Gíslason gegn Jyske Bank A/S, á grundvelli 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Jyske Bank A/S leggst gegn beiðninni.
Málið höfðaði gagnaðili til heimtu skuldar samkvæmt samningi frá 14. mars 2007 um lán til leyfisbeiðanda að fjárhæð 48.400 danskar krónur. Óumdeilt er að fyrningarfrestur kröfunnar sé tíu ár, en héraðsdómsstefna var birt fyrir leyfisbeiðanda 10. mars 2017 og málið þingfest 22. sama mánaðar. Leyfisbeiðandi hefur krafist sýknu á þeim grunni að samkvæmt dönskum lögum um fyrningu, sem gildi um kröfu gagnaðila, sé fyrningu slitið við þingfestingu máls og því sé krafan fyrnd. Héraðsdómur og Landsréttur tóku á hinn bóginn kröfu gagnaðila til greina með þeim rökum að samkvæmt lagaskilareglum færi um slit fyrningar, að því marki sem þau réðust af reglum réttarfars, eftir íslenskum lögum. Samkvæmt 93. gr. laga nr. 91/1991 teldist mál höfðað við birtingu stefnu og hafi málið því verið höfðað áður en fyrningarfresturinn var úti.
Leyfisbeiðandi byggir á því að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til enda vandséð hvernig staðist geti að fyrningarfrestur fari eftir dönskum lögum en um slit hans samkvæmt íslenskum lögum. Þá vísar leyfisbeiðandi til þess að málið varði mikilvæga fjárhagslega hagsmuni sína og hafi úrslit þess verulegt almennt gildi þar sem ekki hafi reynt á sambærileg ágreiningsefni fyrir Hæstarétti.
Að virtum gögnum málsins er hvorki unnt að líta svo á að úrslit þess hafi verulegt almennt gildi né að það varði mikilvæga hagsmuni leyfisbeiðanda í skilningi 1. mgr. 176. gr. laga nr. 91/1991. Þá verður ekki séð að dómur Landsréttar sé bersýnilega rangur að efni til. Er beiðninni því hafnað.