Hæstiréttur íslands
Mál nr. 395/2013
Lykilorð
- Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna
- Vitni
- Ómerking héraðsdóms
- Heimvísun
- Sératkvæði
|
|
Fimmtudaginn 28 . nóvember 2013. |
|
Nr. 395/2013. |
Ákæruvaldið (Hulda Elsa Björgvinsdóttir saksóknari) gegn X (Vilhjálmur Hans Vilhjálmsson hrl.) |
Akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Vitni. Ómerking héraðsdóms. Heimvísun. Sératkvæði.
X var m.a. ákærður fyrir fyrir umferðarlagabrot með því að hafa ekið bifreið undir áhrifum tetrahýdrókannabínólsýru. Héraðsdómur sýknaði X af þeim sakargiftum og byggði niðurstöðu sína á framburði hans, álitsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði og vitnisburði starfsmanna rannsóknastofunnar fyrir dómi. Þá var í héraðsdómi einnig greint frá tiltekinni vitnaskýrslu sem gefin hafði verið fyrir dómi í öðru sakamáli. Hæstiréttur taldi að af framburði X og starfsmanna Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði yrði ekki dregin önnur ályktun en að líkur væru á að mat héraðsdómara á sönnunargildi framburðarins hefði verið rangt svo að máli skipti um málsúrslit. Að auki hefði með tilvísun til skýrslu úr öðru sakamáli verið brotið gegn þeirri meginreglu sakamálaréttarfars að dómur í slíku máli skyldi reistur á sönnunargögnum sem færð hefðu verið fram við meðferð máls fyrir dómi. Var hinn áfrýjaði dómur því ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.
Dómur Hæstaréttar
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Eiríkur Tómasson og Helgi I. Jónsson og Ingveldur Einarsdóttir settur hæstaréttardómari.
Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 28. maí 2013 og krefst þess aðallega að ákærði verði sakfelldur samkvæmt ákæru og refsing hans þyngd, en til vara að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað.
Ákærði krefst staðfestingar hins áfrýjaða dóms.
I
Eins og rakið er í hinum áfrýjaða dómi stöðvaði lögregla ákærða við akstur bifreiðarinnar [...] á Biskupstungnabraut skammt frá Skálholtsvegi í Bláskógabyggð 23. júní 2012. Vegna gruns um að ákærði væri undir áhrifum ávana- og fíkniefna lét hann lögreglu þvagsýni í té. Við prófun á því kom í ljós jákvæð svörun á tetrahýdrókannabínóli. Í kjölfarið var ákærði handtekinn og síðan tekið blóðsýni úr honum til að rannsaka hvort það innihéldi áðurnefnt efni. Við skýrslutöku hjá lögreglu kvaðst ákærði hafa síðast neytt fíkniefna fyrir mörgum árum, en ekki kom fram hjá honum að hann hefði skömmu áður verið staddur þar sem slíkra efna hefði verið neytt.
Samkvæmt álitsgerð Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði 11. júlí 2012 var tetrahýdrókannabínól ekki í mælanlegu magni í blóði ákærða, en í þvagi hans fannst tetrahýdrókannabínólsýra. Í álitsgerðinni sagði síðan: „Tetrahýdrókannabínólsýra er í flokki ávana- og fíkniefna, sem óheimil eru á íslensku forráðasvæði. Ökumaður telst því hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar blóð- og þvagsýnin voru tekin, sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50/1987“. Undir álitsgerðina rituðu nöfn sín fyrir hönd rannsóknastofunnar deildarstjórarnir Elísabet Sólbergsdóttir og Kristín Ólafsdóttir.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að hann hefði kvöldið áður en akstur hans var stöðvaður umrætt sinn fengið far í bifreið hjá þremur ónafngreindum mönnum frá miðborg Reykjavíkur heim til sín í [...] og hafi þeir reykt kannabis í bifreiðinni. Kvaðst ákærði kannast við einn þeirra þótt hann vissi ekki hvað hann héti, en ekki hina tvo. Ákærði gaf þá skýringu á því, að hann hafi ekki minnst á þessar „óbeinu reykingar“ í skýrslu sinni hjá lögreglu, að honum hafi ekki dottið í hug að þær myndu hafa áhrif á líkamsstarfsemi sína, en hann sagðist síðast hafa neytt fíkniefna árið 2008.
Fyrrgreindir starfsmenn Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði komu fyrir dóm og staðfestu álitsgerð sína, auk þess sem þeir gerðu nánari grein fyrir niðurstöðu hennar. Í framburði Elísabetar Sólbergsdóttur kom fram að þegar þvag væri rannsakað væru gerðar mótefnamælingar þar sem notaður væri tiltekinn mæliþröskuldur. Ef mælingarnar væru undir ákveðnum mæliþröskuldi væri ekki meira að gert, en þegar þær næðu ákveðnum styrk væri farið með þær í sértæk tæki sem væru mjög örugg. Væri þá eingöngu mæld tetrahýdrókannabínólsýra sem væri umbrotsefni virka efnisins í kannabis, en það er tetrahýdrókannabínól. Við mælingarnar væri notast við mjög örugga aðferð sem viðurkennd væri um allan heim. Þegar gefið væri út að tetrahýdrókannabínólsýra mældist í þvagi væri „100% öruggt“ að sá sem í hlut ætti hafi sjálfur neytt efnisins. Spurð hvernig hún gæti fullyrt það svaraði Elísabet að það væri einfaldlega út frá styrk sýrunnar sem mælst hafi. Í þessu tilviki hafi styrkur hennar verið langt yfir viðmiðunarmörkum. Kristín Ólafsdóttir bar að niðurstaða álitsgerðarinnar um styrk tetrahýdrókannabínólsýru í þvagi ákærða gæti ekki samrýmst því að kannabis hafi komist í líkama hans vegna kannabisreykinga annarra manna í bifreið sem ákærði hefði verið í. Við slíkt myndi sýran aldrei ná þeim styrk sem gæti verið „staðfest í okkar fagi.“ Allar rannsóknir, sem gerðar hafi verið á áhrifum kannabisreykinga á þá er ekki hafi reykt, hafi sýnt að styrkur sýrunnar hafi ekki verið nálægt þeim mörkum sem rannsóknastofan setti sér. Ekki væri hægt að útiloka neitt, en hins vegar væri þetta afar ólíklegt samkvæmt þeim rannsóknum sem miðað væri við.
II
Samkvæmt 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála getur Hæstiréttur ekki endurmetið niðurstöðu héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar nema hlutaðeigandi vitni eða ákærði hafi gefið skýrslu hér fyrir dómi.
Í niðurstöðukafla hins áfrýjaða dóms er reifaður framburður ákærða fyrir dómi. Síðan er þar vísað til álitsgerðar Rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði og vitnisburðar Elísabetar Sólbergsdóttur og Kristínar Ólafsdóttur fyrir dómi. Þá er greint frá skýrslu A dósents sem hann gaf fyrir dómi í öðru sakamáli. Með vísun til þessa var komist að þeirri niðurstöðu að akstur ákærða yrði ekki talinn honum saknæmur og hann því sýknaður af þeim sakargiftum að hafa verið óhæfur til að stjórna bifreiðinni sem hann ók umrætt sinn vegna áhrifa tetrahýdrókannabínólsýru. Niðurstaðan um sýknu ákærða af broti á 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga, sbr. 100. gr. þeirra var samkvæmt þessu einkum reist á mati héraðsdómara á sönnunargildi munnlegs framburðar ákærða og vitnanna Elísabetar og Kristínar fyrir dómi.
Eins og áður greinir kom ekki fram hjá ákærða þegar hann var handtekinn 23. júní 2012 og skýrsla tekin af honum í kjölfarið að hann hefði kvöldið áður verið í bifreið með mönnum sem reyktu kannabis. Fyrir dómi kvaðst hann kannast við einn þeirra, en vissi ekki hvað hann héti. Ekkert annað er fram komið í málinu sem styður þessa frásögn ákærða. Í fyrrnefndri álitsgerð, sem undirrituð er af Elísabetu og Kristínu, var tekið fram að ökumaður hefði verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar lífsýnin, sem voru rannsökuð, voru tekin. Þær staðfestu báðar álitsgerðina fyrir dómi. Ef framburður ákærða og vitnanna tveggja er virtur í heild verður ekki dregin önnur ályktun af honum en að líkur séu á að mat héraðsdómara á sönnunargildi framburðarins sé rangt svo að máli skipti um málsúrslit. Að auki er í héraðsdómi vísað til stuðnings niðurstöðu hans í vitnaskýrslu sem hafði verið gefin í öðru máli en var ekki meðal gagna málsins. Var með því brotið gegn þeirri meginreglu sakamálaréttarfars að dómur í sakamáli skuli reistur á sönnunargögnum sem færð eru fram við meðferð máls fyrir dómi, sbr. 1. mgr. 111. gr. laga nr. 88/2008.
Með vísan til þess sem að framan greinir verður ekki komist hjá því að ómerkja hinn áfrýjaða dóm og vísa málinu heim í hérað, sbr. 3. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008, til þess að aðalmeðferð geti farið fram á ný og dómur verði aftur felldur á það.
Ákvörðun sakarkostnaðar í héraði bíður nýs efnisdóms í málinu. Áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti eins og í dómsorði greinir.
Það athugist að við skýrslutöku af vitnunum Elísabetu og Kristínu fyrir dómi neituðu þær aðspurðar að gefa upp styrkleika tetrahýdrókannabínólsýru í þvagsýni úr ákærða. Sé litið til þess, sem fram kom í vitnisburði þeirra og áður hefur verið rakið, verður ekki séð að spurningar um þetta atriði hafi verið sýnilega tilgangslausar, sbr. 2. mgr. 122. gr. laga nr. 88/2008, eða vitnunum hafi verið skylt eða heimilt að neita að svara þeim, sbr. 117. gr. til 119. gr. laganna.
Dómsorð:
Hinn áfrýjaði dómur er ómerktur og er málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar á ný.
Allur áfrýjunarkostnaður málsins greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, X, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hæstaréttarlögmanns, 251.000 krónur.
Sératkvæði
Helga I. Jónssonar hæstaréttardómara
Í forsendum hins áfrýjaða dóms er gerð grein fyrir framburði ákærða og skýringum hans á því að tetrahýdrókannabínól greindist í þvagi hans. Þá er þar rakin niðurstaða álitsgerðar rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði og jafnframt sagt að fram hafi komið í framburði Elísabetar Sólbergsdóttur og Kristínar Ólafsdóttur, starfsmanna rannsóknastofunnar, að miðað við þann styrk tetrahýdrókannabínólsýru, sem mældist í þvagi ákærða, væri mjög ólíklegt að óbeinar hassreykingar hafi leitt til þess að efnið mældist í þvaginu. Ekki var þar rétt með farið hvað framburð Elísabetar áhrærir, en í skýrslu fyrir dómi fullyrti hún þvert á móti að það væri „100%“ öruggt að þegar gefið væri út af hálfu rannsóknastofunnar að það mældist tetrahýdrókannabínólsýra hafi viðkomandi sjálfur verið að neyta efnisins. Síðan var þess getið í héraðsdómi að Kristín hafi sagt fyrir dómi að ekki væri hægt að útiloka að óbeinar reykingar hefðu þessi áhrif, án þess þó að greint væri frá því að hún teldi það afar ólíklegt. Að lokum var í forsendum héraðsdóms vísað til framburðar nafngreinds dósents í eiturefnafræði við Háskóla Íslands í öðru máli þar sem meðal annars kom fram að honum þætti afar ólíklegt að efnin sem mælst hafi þvagi ákærða í því máli hefðu „komið“ vegna dvalar hans í bifreið, þar sem aðrir hafi neytt kannabis, en hann ekki viljað útiloka það.
Héraðsdómur taldi háttsemi ákærða falla undir 45. gr. a. umferðarlaga, en á hinn bóginn hefðu óbeinar hassreykingar í bifreið, nóttina áður en akstur ákærða var stöðvaður greint sinn, mögulega valdið því að fyrrnefnt umbrotsefni tetrahýdrókannabínóls mældist í þvagi hans. Væri ósannað að ákærði hafi vitað eða mátt vita að dvöl hans í bifreiðinni leiddi til þessa og var ákærði því sýknaður af broti gegn umræddu ákvæði umferðarlaga vegna saknæmisskorts.
Í málinu er að mínu áliti enginn ágreiningur um málsatvik eða framangreindar niðurstöður í álitsgerð rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, heldur ráðast úrslit þess af sönnunargildi álitsgerðarinnar og þeim sérfræðilegu skýringum sem áðurnefndir starfsmenn stofnunarinnar gáfu á efni hennar. Standa fyrirmæli 2. mgr. 208. gr. laga nr. 88/2008 þannig ekki í vegi fyrir því að efnisleg afstaða verði tekin til kröfu ákæruvaldsins um sakfellingu ákærða og ákvörðun refsingar þótt munnleg sönnunarfærsla hafi ekki farið fram fyrir Hæstarétti, sbr. til hliðsjónar dóm réttarins 19. júní 2008 í máli nr. 260/2008.
Samkvæmt 1. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga má enginn stjórna eða reyna að stjórna vélknúnu ökutæki ef hann er undir áhrifum ávana- og fíkniefna sem bönnuð eru á íslensku yfirráðasvæði samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni og reglugerðum samkvæmt þeim. Þá segir í 2. mgr. greinarinnar að mælist ávana- og fíkniefni samkvæmt 1. mgr. í blóði eða þvagi ökumanns teljist hann vera undir áhrifum ávana- og fíkniefna og óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega. Samkvæmt fylgiskjali I við reglugerð nr. 233/2001, eins og því var breytt með reglugerð nr. 848/2002, teljast meðal slíkra efna „tetrahydrocannabinol og öll isomer þess og afleiður“, en samkvæmt 2. mgr. 2. gr., sbr. 4. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni er varsla og meðferð þessara efna óheimil á íslensku yfirráðasvæði.
Í 1. mgr. 86. gr. laga nr. 88/2008 er mælt fyrir um heimild lögreglu til að leita til sérfróðra manna í þágu rannsóknar máls þegar þörf er á sérfræðilegri skoðun eða rannsókn til að upplýsa mál og er þar í dæmaskyni meðal annars nefnd efnafræðileg rannsókn. Í málinu liggur eins og áður segir fyrir álitsgerð rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði þar sem fram kom að í þvagi ákærða hafi fundist tetrahýdrókannabínólsýra er væri í flokki ávana- og fíkniefna sem óheimil væru á íslensku forráðasvæði. Fyrrnefndir starfsmenn rannsóknastofunnar komu fyrir dóm og gerðu grein fyrir hvernig að rannsókn þvagsýnisins var staðið og niðurstaða fengin um að tetrahýdrókannabínólsýra, umbrotsefni tetrahýdrókannabínóls, hafi mælst í því. Í framburði þeirra beggja kom skýrlega fram að niðurstaða álitsgerðarinnar um styrk tetrahýdrókannabínólsýru í þvagi ákærða gæti ekki samrýmst því að umrætt ávana- og fíkniefni hafi getað orðið til í líkama hans vegna óbeinna reykinga kannabis. Að framansögðu virtu er sannað með álitsgerðinni að ákærði hafi greint sinn verið óhæfur til að stjórna ökutæki örugglega. Hefur ákærði því með háttsemi sinni gerst sekur um brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Þá verður staðfest niðurstaða héraðsdóms um sakfellingu hans fyrir brot gegn 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga.
Með sátt 16. júní 2006 gekkst ákærði undir greiðslu 50.000 króna sektar og sviptingu ökuréttar í tvo mánuði frá 1. apríl sama ár fyrir brot gegn 1. mgr., sbr. 2. mgr. 45. gr. umferðarlaga. Þá var hann dæmdur 28. apríl 2008 til greiðslu 180.000 króna sektar og sviptingar ökuréttar í tvö ár frá 15. júlí sama ár fyrir brot gegn 1. og 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga. Auk þessa hefur ákærði tvívegis hlotið fangelsisdóm vegna fíkniefnalagabrota og tvisvar verið gerð fésekt fyrir umferðarlagabrot.
Ákærði hefur unnið sér til refsingar samkvæmt 1. mgr. 100. gr. umferðarlaga. Í máli þessu er ákærði samkvæmt því sem að framan greinir sakfelldur fyrir ítrekað brot öðru sinni. Með vísan til langrar dómvenju þegar svo háttar til er refsing ákærða ákveðin fangelsi í 30 daga. Þá verður hann samkvæmt 1. mgr., sbr. 3. mgr. 101. gr. og upphafsákvæði 1. mgr. 102. gr. umferðarlaga sviptur ökurétti ævilangt frá uppkvaðningu dómsins að telja. Að lokum verður allur sakarkostnaður málsins í héraði og áfrýjunarkostnaður þess lagður á ákærða.
Dómur Héraðsdóms Suðurlands 30. apríl 2013.
Mál þetta er höfðað með ákæru lögreglustjórans á Selfossi dagsettri 12. nóvember sl. á hendur ákærða, X, kt. [...], til heimilis að [...], [...]
„fyrir umferðarlagabrot
með því að hafa, síðdegis laugardaginn 23. júní 2012 ekið bifreiðinni [...] vestur Biskupstungnabraut skammt frá Skálholtsvegi í Bláskógabyggð, án þess að hafa gild ökuréttindi og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannabínólsýru.
Telst brot ákærða varða við 1. mgr. 48. gr. og 1., sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga nr. 50, 1987, sbr. 1. mgr. 100. gr. nefndra umferðarlaga.
Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar, til að sæta sviptingu ökuréttar samkvæmt 101. og 102. gr. umferðarlaga nr. 50, 1987 með áorðnum breytingum og til greiðslu alls sakarkostnaðar.“
Ákærði mætti við þingfestingu málsins 13. desember sl. og játaði að hafa ekið bifreiðinni en neitaði sök að öðru leyti. Við meðferð málsins hefur ákærði viðurkennt að hafa ekki haft gild ökuréttindi við aksturinn. Verjandi ákærða krefst vægustu refsingar fyrir það brot en sýknu af ákæru fyrir brot gegn 1. sbr. 2. mgr. 45. gr. a. umferðarlaga.
Málavextir.
Laugardaginn 23. júní 2012 um kl. 17:22 hafði lögreglan afskipti af ákærða þegar hann ók bifreiðinni [...] vestur Biskupstungnabraut skammt frá Skálholtsvegi. Ákærði framvísaði ökuskírteini en við uppflettingu í ökuskírteinaskrá mun hafa komið í ljós að hann átti eftir að endurtaka ökupróf, en hann hafði verið sviptur ökurétti. Ákærði veitti samþykki sitt fyrir því að gefa þvagsýni vegna gruns um að hann væri undir áhrifum ávana- og fíkniefna. Við prófun með ToxCup kom jákvæð svörun á THC og var honum því tekið blóð- og þvagsýni í þágu rannsóknar málsins. Í matsgerð rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði dagsettri 11. júlí 2012 segir að tetrahýdrókannabínól hafi ekki verið í mælanlegu magni í blóðinu en það efni hafi fundist í þvagi. Segir í matsgerðinni að ökumaðurinn teljist hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega þegar sýnið var tekið.
Tekin var lögregluskýrsla af ákærða samdægurs og kvaðst hann þá ekki hafa neytt fíkniefna í mörg ár.
Framburður ákærða og vitna fyrir dómi.
Ákærði skýrði svo frá fyrir dómi að kvöldið áður hefði hann fengið far með þremur strákum og hefðu þeir reykt kannabis í bifreiðinni. Hann kvað þá hafa tjáð sér þeir væru að reykja þetta efni og hefðu þeir boðið sér það en hann hefði neitað. Hann kvaðst ekki hafa áttað sig á því að viðvera hans í bifreiðinni þar sem piltarnir voru að reykja kannabis myndi leiða til þess að efnið fyndist í þvagi hans. Það hafi verið ástæða þess að hann hafi ekki minnst á þetta atriði við lögreglumennina. Hann kvaðst ekki hafa neytt fíkniefna síðan árið 2008.
Vitnið Rannveig Brynja Sverrisdóttir varðstjóri skýrði svo frá fyrir dómi að hún hefði haft afskipti af ákærða umrætt sinn. Hann hafi verið reiðubúinn að veita þvagsýni og þegar það hafi reynst jákvætt hafi hann verið færður á Selfoss til töku blóð- og þvagsýnis. Hún kvaðst ekki hafa getað sér að ákærði hefði verið undir áhrifum, hann hafi verið stressaður í upphafi en hann hafi róast.
Vitnið Elísabet Sólbergsdóttir, deildarstjóri rannsóknarstofu í lyfja- og eiturefnafræði, skýrði svo frá fyrir dómi að niðurstaða þvagrannsóknarinnar hafa verið sú að í þvagi hafi fundist tetrahýdrókannabínólsýra. Hún kvað mjög ólíklegt að óbeinar hassreykingar hefðu í þessu tilviki haft þau áhrif að efnið hefði mælst í því magni í þvagi. Hún kvað styrk sem mælist í þvagi ekki vera gefinn upp. Ef sýni væri undir ákveðnum mæliþröskuldi, eða 50 ng/ml, væri ekki farið lengra með málið en ef sýnið fer yfir þann styrk sé það rannsakað nánar. Hún kvaðst geta fullyrt það útfrá þeim styrk sem mældist í þvaginu að viðkomandi hafi sjálfur verið að reykja en ekki væri um óbeinar reykingar að ræða. Hún kvað þennan styrk í þvagi í því sýni sem hér um ræðir ekki vera gefinn upp.
Vitnið Kristín Ólafsdóttir, sérfræðingur á rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði, skýrði svo frá fyrir dómi að niðurstaða rannsóknarinnar gæti ekki samræmst því að viðkomandi hefði fengið efnið í líkamann með því að vera í bifreið þar sem kannabis væri neytt. Hún kvað nokkrar tilraunir hafa verið gerðar þar sem fólk væri í mjög litlu rými og yrði fyrir óbeinum reykingum og hefði niðurstaðan alltaf orðið sú að mjög lítið efni hafi mælst í þvagi fólksins. Hins vegar væri aldrei hægt að útiloka neitt í þessum efnum. Hún kvað styrk í þvagi í þessu máli ekki vera gefinn upp en staðfesti að mæliþröskuldurinn væri 50 ng/ml og hefði sýnið mælst yfir þeim mörkum.
Niðurstaða.
Ákærða er í máli þessu gefið að sök að hafa ekið bifreið án þess að hafa gild ökuréttindi og óhæfur til að stjórna bifreiðinni örugglega vegna áhrifa tetrahýdrókannabínólsýru. Ákærði kannast við að hafa ekki haft gild ökuréttindi þegar hann ók bifreiðinni og er sú háttsemi hans því sönnuð og rétt færð til refsiákvæða í ákæru. Hann kannast hins vegar ekki við að hafa verið óhæfur til að stjórna bifreiðinni vegna áhrifa tetrahýdrókannabínólsýru og kveðst ekki hafa neytt fíkniefna síðan árið 2008. Hann hafi hins vegar verið í bifreið með piltum sem reyktu kannabis og hljóti það að vera skýring þess að umrætt efni hafi fundist í þvagi hans. Hann hafi hins vegar ekki áttað sig á þessum möguleika þegar hann gaf skýrslu hjá lögreglu og því ekki minnst á þetta atriði þá.
Samkvæmt áðurgreindri matsgerð rannsóknastofu í lyfja- og eiturefnafræði var tetrahýdrókannabínól ekki í mælanlegu magni í blóði ákærða en í þvagi hans fannst hins vegar tetrahýdrókannabínólsýra. Segir í vottorðinu að ökumaður teljist hafa verið óhæfur til þess að stjórna ökutæki örugglega en magn efnisins er ekki getið. Hins vegar hafa tveir sérfræðingar á rannsóknastofunni, þær Elísabet Sólbergsdóttir og Kristín Ólafsdóttir, borið fyrir dómi að miðað við þann styrk efnisins sem mældist í þvagi ákærða væri mjög ólíklegt að óbeinar hassreykingar leiddu til þess að efnið mældist í þvaginu. Styrkur efnisins í þvaginu væri hins vegar ekki gefinn upp en þær staðfestu báðar að sýnið hefði verið yfir ákveðnum mæliþröskuldi. Kristín kvað hins vegar ekki hægt að útiloka að óbeinar reykingar hefðu þessi áhrif.
Í dómi Hæstaréttar frá 14. maí 2009 í máli nr. S-683/2008 kemur fram að A dósent í eiturefnafræði við Háskóla Íslands hafi verið spurður fyrir héraðsdómi hvort tetrahýdrókannabínólsýra gæti fundist í þvagi vegna óbeinna reykinga. Hann hafi svarað því svo, að það væri fjarlægur möguleiki en þó möguleiki. Hann kvaðst hafa séð rannsóknir þar sem tetrahýdrókannabínólsýra hefði verið mæld í þvagi, lítið magn en þó merkjanlegt, sem gæti komið ef menn dveldu mjög lengi við mjög háan styrk kannabisefnis í andrúmslofti. Spurður um hve lengi sú dvöl þyrfti að vera kvaðst hann ekki þora að fullyrða það, en nefndi eina eða tvær klukkustundir. Hann kvaðst ekki geta fullyrt hvort dvöl í slíku rými í 15 til 20 mínútur væri nægjanleg til að efni fyndust í þvagi. Hann áréttaði síðar í skýrslunni að sér þætti afar ólíklegt að efnin sem mældust í þvagi ákærða hefðu komið vegna dvalar hans í bifreiðinni, en vildi þó ekki útiloka það.
Með vísan til þess sem að framan hefur verið rakið verður ekki talið sannað að ákærði hafi vitað eða mátt vita að dvöl hans í bifreið þar sem neytt var kannabisefnis með reykingum leiddi til þess að í þvagi hans yrðu leifar ávana- og fíkninefna skömmu síðar. Verður akstur hans á þeim tíma, sem fór í bága við 45. gr. a umferðarlaga, því ekki talinn honum saknæmur og verður hann því sýknaður af þessum lið ákærunnar.
Samkvæmt framlögðu sakavottorði ákærða var hann dæmdur fyrir brot gegn ávana- og fíkniefnalöggjöf í Danmörku árið 2004 og þá var hann sektaður og sviptur ökurétti í 2 ár árið 2008. Síðast var ákærða refsað árið 2011 er hann sættist á 120.000 króna sekt fyrir brot gegn 1., sbr. 3. mgr. 37. gr. og 1. mgr. 48. gr. umferðarlaga. Að öðru leyti skiptir sakaferill ákærða ekki máli við ákvörðun refsingar hans.
Refsing ákærða fyrir það brot sem hann hefur verið sakfelldur fyrir þykir hæfilega ákveðin 5.000 króna sekt til ríkissjóðs sem greiðist innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins en ella sæti ákærði fangelsi í 2 daga.
Rétt þykir með hliðsjón af þessum úrslitum málsins og með vísan til 218. gr. laga nr. 88/2008 um meðferð sakamála að allur sakarkostnaður skuli greiðast úr ríkissjóði, þar með talinn útlagður kostnaður, 103.166 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 175.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og aksturskostnaður lögmannsins, 14.100 krónur.
Hjörtur O. Aðalsteinsson dómstjóri kveður upp dóm þennan. Dómsuppkvaðning hefur dregist fram yfir lögbundinn frest en dómari og málflytjendur töldu ekki þörf endurflutnings.
Dómsorð:
Ákærði, X, greiði 5.000 króna sekt til ríkissjóðs innan fjögurra vikna frá uppkvaðningu dómsins en sæti ella fangelsi í 2 daga.
Allur sakarkostnaður greiðist úr ríkissjóði, þar með talinn útlagður kostnaður, 103.166 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda ákærða, Vilhjálms Hans Vilhjálmssonar hrl., 175.000 krónur að meðtöldum virðisaukaskatti og aksturskostnaður lögmannsins, 14.100 krónur.