Hæstiréttur íslands

Mál nr. 462/2008


Lykilorð

  • Kærumál
  • Börn
  • Bráðabirgðaforsjá
  • Umgengni
  • Gjafsókn


Fimmtudaginn 4

 

Fimmtudaginn 4. september 2008.

Nr. 462/2008.

M

(Oddgeir Einarsson hdl.)

gegn

K

(Eva B. Helgadóttir hrl.)

 

Kærumál. Börn. Bráðabirgðaforsjá. Umgengnisréttur. Gjafsókn.

Úrskurður héraðsdóms um að hafna kröfu M um bráðabirgðaforsjá og um umgengni við börn aðila, var staðfestur að öðru leyti en því að ekki þótti ástæða til að hafa aðlögunartíma með sérstökum takmörkunum á umgengni hans við börnin lengri en orðin var.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Árni Kolbeinsson, Garðar Gíslason og Jón Steinar Gunnlaugsson.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. ágúst 2008, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 27. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. ágúst 2008, þar sem leyst var úr kröfum aðila um bráðabirgðaforsjá þriggja barna þeirra og umgengni við þau. Kæruheimild er í 5. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa sín um forsjá barnanna til bráðabirgða verði tekin til greina. Til vara krefst hann þess að umgengni hans við börnin verði ákvörðuð frá síðdegi á fimmtudegi til mánudagsmorguns, sem hefjist frá og með þeim degi er dómur er upp kveðinn. Í báðum tilvikum er gerð krafa um málskostnað í héraði og kærumálskostnað án tillits til gjafsóknar.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar, málskostnaðar í héraði og kærumálskostnaðar.

Varnaraðili hefur ekki kært úrskurðinn af sinni hálfu og kemur krafa hennar um málskostnað í héraði því ekki til meðferðar fyrir Hæstarétti.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður staðfest niðurstaða hans um að hafna kröfu sóknaraðila um forsjá barnanna til bráðabirgða. Þá verður með vísan til forsendna héraðsdóms staðfest niðurstaða hans um umgengni sóknaraðila við börnin að öðru leyti en því að ekki þykir ástæða til að hafa aðlögunartíma með sérstökum takmörkunum á umgengni hans lengri en orðið er. Skal umgengni sóknaraðila við börnin því vera aðra hverja viku frá síðdegi á fimmtudegi til mánudagsmorguns og hefjast fimmtudaginn 11. september 2008.

Rétt er að hvor aðili beri sinn kostnað af málinu í héraði og fyrir Hæstarétti.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila í héraði og fyrir Hæstarétti verður ákveðinn eins og nánar greinir í dómsorði. 

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur að öðru leyti en því að umgengni sóknaraðila, M, við A, B og C skal vera aðra hverja viku frá síðdegi á fimmtudegi til mánudagsmorguns, í fyrsta sinn fimmtudaginn 11. september 2008.

Málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður fellur niður.

Gjafsóknarkostnaður sóknaraðila í héraði og fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin málflutningsþóknun lögmanns hans, 250.000 krónur.

 

 

                                                 Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 8. ágúst 2008.

Mál þetta var höfðað 2. apríl 2008 um forsjá þriggja barna aðila, A, fæddrar [...] 1999, B, fædds [...] 2003 og C, fædds [...] 2004. Í þinghaldi 29. apríl 2008 var lögð fram krafa um bráðabirgðaforsjá barnanna og er sá þáttur málsins hér til úrlausnar.

Sóknaraðili er M, [...]. Varnaraðili er K, [...]. Varnaraðili skilaði greinargerð sem tók bæði til aðalmálsins og bráðabirgðaforsjár­þáttarins þann 14. maí sl. Málið var munnlega flutt 27. júní sl. og tekið til úrskurðar.

Sóknaraðili krefst þess að honum verði til bráðabirgða falin forsjá barnanna A, B og C þar til niðurstaða fæst í forsjármáli aðila.

Þá er þess krafist að dómurinn kveði á um inntak umgengnisréttar við börnin til handa því foreldri sem ekki verður úrskurðað forsjá á meðan forsjármálið er rekið. 

                Sóknaraðili krefst málskostnaðar úr hendi varnaraðila.

                Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila um að honum verði falin forsjá barnanna til bráðabirgða þar til endanlegur dómur gengur um forsjá þeirra, verði hafnað. Varnaraðili krefst málskostnaðar úr hendi sóknaraðila.

I.

                Aðilar gengu í hjúskap þann [...] 2000, en slitu samvistum í júlí 2005. Þeim var veitt leyfi til skilnaðar að borði og sæng þann 12. ágúst 2005 en þar sem þau komust ekki að samkomulagi um skipan forsjár barnanna höfðaði varnaraðili forsjármál sem þingfest  var 2. nóvember 2005.  Málinu lyktaði annars vegar með dómsátt þann 24. nóvember 2005 um að varnaraðili færi ein með forsjá drengjanna B og C og hins vegar með dómsátt 11. maí 2006 um að aðilar færu sameiginlega með forsjá dótturinnar A.

                Í málinu liggur fyrir að mikill ágreiningur varð með aðilum um umgengni við börnin og hóf sóknaraðili umgengnismál hjá sýslumanninum í Kópavogi af því tilefni. Þann 22. maí 2007 staðfestu aðilar nýjan umgengnissamning hjá sýslumanninum í Kópavogi og sama dag staðfesti sýslumaður einnig samkomulag aðila um að varnaraðili færi framvegis ein með forsjá allra barnanna. Kveðst sóknaraðili hafa gefið eftir sameiginlega forsjá barnsins A til að liðka fyrir sáttum um umgengni.

Var umgengni sóknaraðila við börnin ákveðin þannig að hún skyldi vera aðra hverja helgi frá fimmtudegi eftir leikskóla/skóla til mánudagsmorguns. Einnig var sumarumgengni ákveðin fjórar vikur og skyldi hún ákveðin fyrir 1. maí ár hvert. Þá var ákveðin umgengni um stórhátíðir. Umgengnissamningurinn var staðfestur 22. maí 2007.

Sóknaraðili kveður svo hafa farið að varnaraðili stóð ekki við umgengnissamning þennan og hafi hún tálmað umgengni sóknaraðila við öll börnin frá október 2007. Sóknaraðili hafi fyrst fengið að hitta barnið A í nokkra klukkutíma fyrir milligöngu barnaverndaryfirvalda í mars 2008. Drengina hafi sóknaraðili ekki séð síðan í október á síðasta ári. Sóknaraðili harmi þessa framkomu varnaraðila og telji hana verulega skaðlega fyrir börnin. Fráleitar, rakalausar og rangar ásakanir varnaraðila í garð sóknaraðila séu þess ekki verðar að vera raktar í stefnu þar sem um sé að ræða hreinan uppspuna og fyrirslátt í því skyni að réttlæta umgengnistálmanir gagnvart sóknaraðila. Hið rétta sé að sóknaraðili hafi ekki annað á samviskunni en að þrá umgengni við börn sín. Ljóst sé að samskipti barnanna við báða foreldra verði ekki tryggð fari varnaraðili með forsjá þeirra og sé því nauðsynlegt að gera róttækar breytingar á forsjárskipan hið allra fyrsta með hagsmuni barnanna í huga.

Í greinargerð varnaraðila er því haldið fram að sóknaraðili hafi ítrekað brotið umgengnissamning aðila frá 22. maí 2007, síðast 17. september 2007. Þann dag hafi sóknaraðili skilað barninu A í skólann um morguninn í samræmi við samninginn. Hins vegar hafi verið frí í leikskóla drengjanna og hafi sóknaraðili átt að skila þeim heim til varnaraðila um morguninn í samræmi við samning aðila.. Það hafi sóknaraðili ekki gert. Hafi hún og sambýlismaður hennar D ítrekað reynt að fá sóknaraðila til að skila drengjunum en aldrei náð í hann. Um kl. 18:00 þennan dag hefðu þau farið að heimili sóknaraðila til að ná í drengina. Sóknaraðili hefði þá ráðist á D og hefði hún einnig orðið fyrir árás. Þá hafi drengirnir að einhverju leyti orðið á milli í átökunum. Þau hefðu bæði kært árásina til lögreglu.

Í kjölfar árásarinnar hafi þau auk drengjanna farið á slysadeild LSH til skoðunar. Þar hafi hjúkrunarfræðingur í áfallamiðstöð slysa- og bráðadeildar talað við drengina og í framhaldinu hafi þeir ásamt A farið i viðtalsmeðferð hjá hjúkrunarfræðingnum einu sinni í viku í nokkurn tíma á eftir.  Drengirnir hafi orðið fyrir miklu áfalli í kjölfar þessa atburðar og að mati hjúkrunarfræðingsins hafi A einnig orðið fyrir áfalli, því þótt hún hafi ekki verið viðstödd sjálfan atburðinn, þá hafi hún verið í næsta húsi, á heimili foreldra varnaraðila, og séð þegar varnaraðili og sambýlismaður hennar komu hlaupandi þangað með drengina hágrátandi strax í kjölfar atburðarins. Í samræmi við ráðleggingar þeirra sérfræðinga sem höfðu með meðferð barnanna að gera eftir þennan atburð, hafi varnaraðili ákveðið að senda börnin ekki í umgengni við föður þeirra þar sem hegðun hans sýndi að hann væri í miklu ójafnvægi og að það gæti skaðað börnin að vera í umgengni við hann að svo stöddu.

Eftir að varnaraðili hóf að tálma umgengni sóknaraðila við börnin í kjölfar umrædds atviks óskaði sóknaraðili eftir því að  sýslumaðurinn í Kópavogi ákvarðaði umgengni hans við börnin og það í ríkara mæli en mælt var fyrir í samkomulagi aðila frá maí 2007. Varnaraðili lagðist gegn umgengni sóknaraðila við börnin  að svo stöddu. Sýslumaður óskaði þá umsagnar barnaverndarnefndar Kópavogs samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnalaga nr. 76/2003. Umsögn tveggja félagsráðgjafa hjá Félagsmálaráði Kópavogs, dagsett 18. júní sl., var lögð fram á fundi í barnaverndarnefnd Kópavogs 20. júní sl. Þann 24. júní sl. felldi sóknaraðili umgengnidmálið hjá sýslumanni niður. Umsögnin var lögð fram í málinu af sóknaraðila.

II.

Af hálfu sóknaraðila er krafa um bráðabirgðaforsjá barna hans og varnaraðila byggð á 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003. Það sé mat sóknaraðila að brýna nauðsyn beri til að ákvarða forsjá til bráðabirgða til að tryggja börnunum öruggt umhverfi þar sem þeim líði vel á meðan forsjárdeila foreldra þeirra sé til lykta leidd. Dómsmál um forsjá geti tekið langan tíma og sé alls óviðunandi að móður verði gert kleift að tálma áfram umgengni við föður. Þá sé ljóst að velferð, hamingju og öryggi barnanna sé teflt í voða með óbreyttri forsjárskipan fram að uppkvaðningu dóms.

Sóknaraðili telji það börnunum fyrir bestu að honum verði falin forsjá þeirra á meðan forsjármálið er rekið enda hafi hann áhyggjur af líðan þeirra hjá móður þeirra og telji það umhverfi sem hún býður börnunum upp á síður en svo hafa jákvæð áhrif á þau. Að hans mati hafi hann fremur en varnaraðili þá persónulegu eiginleika sem til þurfi til að sinna forsjá barna hans enda búi hann við stöðugleika og heilbrigt umhverfi  sem sé börnum hans nauðsynlegt. Aðstæður hans séu með besta móti þar sem hann búi í mjög rúmgóðri íbúð og njóti stuðnings fjölskyldu og vina. Loks telji sóknaraðili að eftirliti móður með börnunum sé verulega ábótavant og forsjá hennar stefni öryggi og heilsu barnanna í voða.

Sóknaraðili telji það rétt dóttur sinnar að fá að hitta móður sína og því sé gerð krafa um að dómurinn ákveði umgengni hennar við varnaraðila, sbr. 1. mgr. 35. gr.  barnalaga. Í ljósi aðstæðna telji sóknaraðili hins vegar ekki ástæðu til annars en að umgengni varnaraðila verði annað hvort eingöngu á heimili sóknaraðila eða undir eftirliti barnaverndaryfirvalda.

III.

Af hálfu varnaraðila er krafa um að hafnað verði kröfu sóknaraðila um að honum verði til bráðabirgða falin forsjá barna þeirra meðan á meðferð forsjármálsins fyrir dómi stendur byggð á því að það sé sé börnunum augljóslega fyrir bestu að forsjárskipan þeirra haldist óbreytt meðan á forsjármálinu stendur. Varnaraðili hafi ein haft forsjá allra barnanna síðan í maí á síðasta ári og drengjanna mun lengur. Ef farið væri að breyta þeirri skipan til bráðabirgða á meðan á forsjármálinu stendur, með öllu því raski sem slíkri breytingu myndi fylgja, þá væri það augljóslega ekki gert með hagsmuni barnanna í huga. Bent sé á að dómari geti með vísan til 2. mgr. 35. gr. kveðið á um m.a. umgengni til bráðabirgða á meðan á forsjármáli stendur og sé það mun vægara úrræði heldur en að breyta forsjánni til bráðabirgða.

Af hálfu varnaraðila er því alfarið vísað á bug að hún hafi að ófyrirsynju tálmað sóknaraðila umgengni við börnin. Hún hafi eingöngu verið að fara eftir ráðleggingum sérfræðinga sem komu að máli barnanna, en sérfræðingar þessir töldu að börnunum stafaði hætta af sóknaraðila í ljósi þess sem á undan hafði gengið. Sé sérstaklega bent á 4. mgr. 34. gr. barnalaga nr. 76/2003, þar sem segir að dómari skuli kveða á um inntak umgengnisréttar barns og foreldris, eftir því sem barni er fyrir bestu. Í sömu málsgrein segi jafnframt að dómari geti hafnað því að ákveða inntak umgengnisréttar ef slík úrlausn er barni fyrir bestu.

Varnaraðili áréttar að verði henni dæmd forsjá barnanna áfram og verði kveðið á um umgengnisrétt til handa sóknaraðila, þá muni hún virða umgengnisréttinn, eins og hún hafi reyndar gert allt fram til þess að sóknaraðili braut sjálfur umgengnissamninginn frá því í maí 2007 með jafn grófum hætti og rakið hefur verið.

IV.

                Eins og að framan getur fer varnaraðili með forsjá allra barnanna. Með málshöfðun sinni krefst sóknaraðili breytinga á þeirri skipan og að honum verði með dómi falin forsjá barnanna. Þeirri kröfu mótmælir varnaraðili.

                Í þessum þætti málsins krefst sóknaraðili þess að honum verði til bráðabirgða falin forsjá allra barnanna á meðan forsjármálið sé rekið. Þeirri kröfu andmælir varnaraðili.

                Samkvæmt 1. mgr. 35. gr. barnalaga nr. 76/2003 hefur dómari í máli um forsjá barns heimild til að úrskurða til bráðabirgða að kröfu aðila hvernig fara skuli um forsjá þess eftir því sem barni er fyrir bestu. Hér er um heimildarákvæði að ræða eins og ráða má af orðalagi ákvæðisins. Varnaraðili fer nú með forsjá allra barnanna á grundvelli samkomulags aðila og að mati dómsins þykir það ekki þjóna hagsmunum barnanna eða vera þeim fyrir bestu að breyta nú til bráðabirgða skipan forsjár á meðan  sjálft forsjármálið er rekið fyrir dóminum. Er því kröfu sóknaraðila um að honum verði til bráðabirgða falin forsjá allra barnanna hafnað. Á hinn bóginn þykir rétt að neyta heimildar þessa sama lagaákvæðis og kveða á um umgengni sóknaraðila við börnin til bráðabirgða. Ber í því sambandi að líta til 1. gr. barnalaga, en þar segir að barn eigi rétt á að þekkja báða foreldra sína svo og til 1. mgr. 46. gr. laganna en þar segir að barn eigi rétt á að umgangast með reglubundnum hætti það foreldra sinna sem það býr ekki hjá, enda sé það ekki andstætt hagsmunum þess.

Í málinu liggur fyrir að varnaraðili hefur girt fyrir umgengni sóknaraðila við báða drengina og að mestu leyti við dóttur aðila A, allt frá því að það atvik átti sér stað við heimili sóknaraðila í september 2007 að til átaka kom milli sóknaraðila og sambýlismanns varnaraðila. Fram að þeim tíma hafði umgengni sóknaraðila við börnin  verið með eðlilegum hætti og í samræmi við samkomulag aðila frá því í maí 2007.

Eftir að varnaraðili hóf að tálma umgengni sóknaraðila við börnin í kjölfar umrædds atviks óskaði sóknaraðili eftir því að  sýslumaðurinn í Kópavogi ákvarðaði umgengni hans við börnin og það i ríkara mæli en mælt var fyrir í samkomulagi aðila frá maí 2007. Varnaraðili lagðist gegn umgengni sóknaraðila við börnin  að svo stöddu. Sýslumaður óskaði þá umsagnar barnaverndarnefndar Kópavogs samkvæmt 1. mgr. 74. gr. barnalaga nr. 76/2003. Umsögn tveggja félagsráðgjafa hjá Félagsmálaráði Kópavogs, dagsett 18. júní sl., var lögð fram á fundi í barnaverndarnefnd Kópavogs 20. júní sl. Þann 24. júní sl. felldi sóknaraðili umgengnismálið hjá sýslumanni niður.. Í niðurlagsorðum umsagnarinnar kemur m.a. fram að þegar málið sé skoðað í heild sinni megi sjá að ýmislegt hafi misfarist í samskiptum aðila. Ekki sé hægt að líta framhjá því að öll börnin  þrjú hafi verið búin að vera í reglulegri umgengni við föður í langan tíma áður en umrætt atvik átti sér stað. Það hljóti því að hafa haft mikil áhrif á börnin þegar lokað var svo skyndilega á öll tengsl. Telja yrði að langvarandi samskiptavandi og óútkljáð deilumál aðila væri helsta ástæða þess að málið væri komið í þennan farveg. Ekki hefði tekist að skapa börnunum hagstætt uppeldisumhverfi og virðist þau lengi hafa sýnt einhvers konar streitueinkenni. Þær telji ólíklegt að þau streitueinkenni sem Margrét Blöndal bendi á séu bundin við atburðinn sem átti sér stað í september á síðastliðnu ári heldur séu afleiðingar langvarandi deilna foreldra. Telja þær of mikið gert úr umræddu atviki. Það væri mat þeirra að ekki sé ástæða til þess að tálma frekar umgengni við föður. Hafi ekki annað komið fram við vinnslu málsins en að sóknaraðili hafi sinnt börnum sínum ágætlega þegar þau hafi verið í hans umsjá. Telja þær því mikilvægt að regluleg umgengni komist á sem fyrst og að þeirri umgengni verði ekki hnikað. 

Í tillögum að umgengni leggja félagsráðgjafarnir til að í fyrsta skipti sem drengirnir hitta föður sinn verði það undir eftirliti starfsmanns félagsþjónustu Kópavogs. Eftirlit sé fyrst og fremst haft til þess að liðka fyrir því að umgengni drengjanna við föður hefjist að nýju, en faðir sé ekki talinn hættulegur börnunum. Félagsráðgjafarnir leggja síðan til umgengni á tilteknum dögum sem fari vaxandi og endi í reglulegri umgengni aðra hvora helgi frá föstudagi til sunnudags þar til dómur félli í forsjármálinu.

Að mati dómsins þykir samkvæmt framansögðu brýnt að komið verði á reglulegri umgengni barnanna þriggja við föður þeirra, sóknaraðila, enda þykir það á engan hátt andstætt hagsmunum þeirra. Í ljósi þess hve umgengni sóknaraðila við börnin hefur legið lengi niðri þykir barnanna vegna rétt að sníða umgengninni stakk í byrjun meðan börnin eru að aðlagast umgengni við föður sinn að nýju. Þykir því rétt að taka nokkurt mið af tillögum félagsráðgjafanna.

Samkvæmt þessu skulu börnin njóta umgengni við sóknaraðila þar til leyst hefur verið úr um forsjá þeirra til frambúðar sem hér segir.

Föstudaginn 15. ágúst 2008 skal A sótt kl. 16:00 og gista eina nótt hjá sóknaraðila og fara heim laugardaginn 16. ágúst kl. 14:00.

Laugardaginn 16. ágúst 2008 skal sóknaraðili hitta drengina B og C undir eftirliti starfsmanns félagsþjónustu Kópavogs að Neðstutröð 6, Kópavogi frá kl. 14:00 til 16:00.

Laugardaginn 30. ágúst 2008 skulu börnin sótt kl. 12:00 og skulu drengirnir dvelja hjá sóknaraðila til kl. 18:00 en A gista fram á sunnudag.

Sunnudaginn 31. ágúst 2008 skulu drengirnir koma til sóknaraðila kl. 12:00 og vera hjá honum til kl. 18:00. Þá fara öll börnin saman heim til varnaraðila.

Laugardaginn 13. september 2008 skulu börnin sótt kl. 12:00 og vera hjá sóknaraðila fram á sunnudag  til kl. 18:00.

Föstudaginn 26. september 2008 skulu börnin sótt í skóla/leikskóla og vera hjá sóknaraðila fram á sunnudag til kl. 18:00.

Eftir þann tíma skal umgengni sóknaraðila við börnin vera aðra hverja viku frá síðdegi á fimmtudegi til mánudagsmorguns.

Ákvörðun málskostnaðar verður látin bíða efnisdóms í málinu.

Finnbogi H. Alexandersson héraðsdómari kveður úrskurðinn upp.

Ú R S K U R Ð A R O R Ð:

                Kröfum sóknaraðila um að honum verði falin forsjá barnanna A, B  og C til bráðabirgða er hafnað.

                Umgengni sóknaraðila við börnin skal vera sem hér segir:

Föstudaginn 15. ágúst 2008 skal A sótt kl. 16:00 og gista eina nótt hjá sóknaraðila og fara heim laugardaginn 16. ágúst kl. 14:00.

Laugardaginn 16. ágúst 2008 skal sóknaraðili hitta drengina B og C undir eftirliti starfsmanns félagsþjónustu Kópavogs að Neðstutröð 6, Kópavogi frá kl. 14:00 til 16:00.

Laugardaginn 30. ágúst 2008 skulu börnin sótt kl. 12:00 og skulu drengirnir dvelja hjá sóknaraðila til kl. 18:00 en A gista fram á sunnudag.

Sunnudaginn 31. ágúst 2008 skulu drengirnir koma til sóknaraðila kl. 12:00 og vera hjá honum til kl. 18:00. Þá fara öll börnin saman heim til varnaraðila.

Laugardaginn 13. september 2008 skulu börnin sótt kl. 12:00 og vera hjá sóknaraðila fram á sunnudag til kl. 18:00.

Föstudaginn 26. september 2008 skulu börnin sótt í skóla/leikskóla og vera hjá sóknaraðila fram á sunnudag til kl. 18:00.

Eftir þann tíma skal umgengni sóknaraðila við börnin vera aðra hverja viku frá síðdegi á fimmtudegi til mánudagsmorguns.

Ákvörðun málskostnaðar bíður efnisdóms í málinu.