Hæstiréttur íslands

Mál nr. 410/2006


Lykilorð

  • Líkamsárás
  • Manndráp
  • Tilraun
  • Hótanir
  • Skaðabætur
  • Skilorð
  • Skilorðsrof


Fimmtudaginn 7

 

Fimmtudaginn 7. desember 2006.

Nr. 410/2006.

Ákæruvaldið

(Sigríður J. Friðjónsdóttir saksóknari)

gegn

Árna Þór Skúlasyni

(Tómas Jónsson hrl.

 Ólafur Eiríksson hdl.)

Helga Guðmundssyni og

(Halldór H. Backman hrl.

 Guðmundur Óli Björgvinsson hdl.)

Tindi Jónssyni

(Jóhannes Rúnar Jóhannsson hrl.)

 

Líkamsárás. Manndráp. Tilraun. Hótanir. Skaðabætur. Skilorð. Skilorðsrof.

T var sakfelldur fyrir tilraun til manndráps með því að hafa ráðist að E vopnaður stórum hnífi eða sveðju og höggvið í höfuð hans og líkama. Hann var jafnframt sakfelldur fyrir fjórar líkamsárásir, brot á vopnalögum og brot á lögum um ávana- og fíkniefni. Tekið var fram að T væri nú sakfelldur fyrir mörg alvarleg brot og hefði með þeim rofið skilorð þriggja mánaða fangelsisdóms vegna tveggja líkamsárása og fleiri brota. Þá var vísað til fyrirliggjandi vottorða um hegðun og hagi T eftir að brotin voru framin og til þess að T hefði greitt E bætur í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms. Að því öllu virtu var hann dæmdur til að sæta fangelsi í sex ár. Á og H voru báðir sakfelldir fyrir líkamsárásir og þótti refsing þeirra hæfilega ákveðin skilorðsbundið fangelsi í fjóra mánuði.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Garðar Gíslason, Hjördís Hákonardóttir, Hrafn Bragason og Markús Sigurbjörnsson.

Ríkissaksóknari skaut málinu til Hæstaréttar 16. júní 2006 í samræmi við yfirlýsingar ákærðu um áfrýjun, en jafnframt af hálfu ákæruvaldsins, sem krefst sakfellingar samkvæmt ákærum og að refsing ákærðu verði þyngd. Þá er þess krafist að ákærðu Helga Guðmundssyni og Tindi Jónssyni verði gert að greiða D 500.000 krónur með vöxtum og dráttarvöxtum eins og greinir í ákæru, en að öðru leyti verði niðurstaða héraðsdóms um skaðabætur staðfest.

Ákærði Árni Þór Skúlason krefst aðallega sýknu, en til vara að refsing verði milduð. Ákærði Helgi krefst aðallega sýknu af sakargiftum samkvæmt 3. tölulið I. kafla ákæru og að honum verði að öðru leyti dæmd vægasta refsing sem lög leyfa, en til vara að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess aðallega að kröfu D verði vísað frá héraðsdómi, en til vara að hann verði sýknaður af henni að hluta eða öllu leyti. Ákærði Tindur krefst aðallega mildunar refsingar, en til vara að héraðsdómur verði ómerktur. Þá krefst hann þess að framhaldsákæru 10. febrúar 2006 verði vísað frá héraðsdómi. Ennfremur krefst hann þess aðallega að kröfum A og D verði vísað frá héraðsdómi, til vara að hann verði sýknaður af þeim, en að því frágengnu verði þær lækkaðar.

Málið er höfðað með þremur ákærum ríkissaksóknara, sem allar voru gefnar út 31. janúar 2006. Með þeim voru sex menn ákærðir fyrir ætluð brot, sem framin hafi verið í maí, ágúst og október 2005, þar á meðal ákærðu í þessu máli. Var ákærða Tindi gefið að sök að hafa átt hlut að máli í öll þrjú skiptin, en hinum í eitt sinn hverjum. Þá var gefin út framhaldsákæra 10. febrúar 2006 vegna eins þessara atvika. Voru allir ákærðu sakfelldir og una þrír þeirra héraðsdómi.


I.

Í fyrstu ákærunni er ákærðu Tindi og Árna gefið að sök að hafa að kvöldi 13. maí 2005 ásamt tveimur öðrum mönnum ráðist að C við Lyngmóa í Garðabæ, slegið hann í höfuðið svo að hann féll í jörðina og sparkað í höfuð hans og líkama þar sem hann lá með þeim afleiðingum, sem nánar er lýst. Var brotið talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Voru allir ákærðu sakfelldir í samræmi við ákæru.

Í málinu liggja fyrir lögregluskýrslur, sem teknar voru þegar í kjölfar atburðarins, meðal annars af nokkrum íbúum við Lyngmóa, sem urðu vitni að því sem gerðist áðurnefnt kvöld. Aðalmeðferð um þennan þátt málsins fór fram 20. mars 2006 þegar rúmlega 10 mánuðir voru liðnir frá atvikinu. Gáfu umræddir íbúar þá skýrslu fyrir dómi. Mundu sumir þeirra atburðinn þá verr en við skýrslugjöf hjá lögreglu áður og báru ekki eins afdráttarlaust og þá um sök ákærðu. Með framburði vitnanna C, B, V7 og V10 fyrir dómi og að nokkru leyti einnig V9 og V8 er sannað að ákærðu Tindur og Árni réðust ásamt hinum mönnunum tveimur allir í senn og fyrirvaralaust að C og slógu hann í höfuðið þar til hann féll í jörðina. C reyndi að verjast og sló frá sér þannig að blæddi úr nefi ákærða Árna. Eftir að C féll í jörðina spörkuðu að minnsta kosti ákærðu Árni og Tindur í hann, en öll stóð þessi atlaga yfir aðeins skamma stund. Verða þessir ákærðu sakfelldir fyrir þann hlut hvors um sig að árásinni, sem að framan er lýst. Er háttsemi þeirra réttilega færð til refsiákvæðis í héraðsdómi.

II.

Í annarri ákærunni er ákærði Tindur einn borinn sökum um sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa aðfaranótt 21. ágúst 2005 í Hafnarstræti í Reykjavík ráðist á A með þeim afleiðingum, sem þar greinir nánar. Er háttsemin talin varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, þar eð ákærði hafi við atlöguna að A beitt óþekktu vopni, eins og ítarlega er lýst í héraðsdómi. Með vísan til forsendna hans verður staðfest sakfelling ákærða og heimfærsla brotsins til refsiákvæðis. Vafi um það hvort skurður aftan á hálsi A sé eftir vopnið eða af völdum glerbrots breytir engu um úrslit málsins.

III.

Þriðja ákæran er á hendur ákærðu Tindi og Helga ásamt þriðja manni og er í sex liðum. Eru fimm hinir fyrstu vegna atvika, sem urðu við Bæjargil í Garðabæ aðfaranótt 2. október 2005, en í þeim sjötta er ákærða Tindi gefið að sök fíkniefnalagabrot og vopnalagabrot.

Í fyrsta lið ákærunnar er Helga gefið að sök að hafa innan dyra að Bæjargili [...] kýlt D með krepptum hnefa í andlitið með nánar greindum afleiðingum. Er brotið talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði játar sök í þessum þætti málsins og er sakfelling héraðsdóms og heimfærsla til refsiákvæðis staðfest.

Ákærða Tindi eru í öðrum lið ákæru gefnar að sök hótanir með því að hafa dregið upp stóran hníf eða sveðju og otað að D í anddyri hússins að Bæjargili [...] í beinu framhaldi af líkamsárás ákærða Helga samkvæmt fyrsta lið ákærunnar. Er þetta talið varða við 233. gr. almennra hegningarlaga. Ákærði neitar sök. Í hinum áfrýjaða dómi er rakið að við aðalmeðferð málsins dró D til baka framburð sinn hjá lögreglu um að honum hafi staðið ógn af þessu athæfi Tinds. Hann hafi litið á þetta sem grín og að ákærði væri „bara að fíflast svona.“ Verður að þessu virtu staðfest niðurstaða héraðsdóms um að sýkna ákærða af sakargiftum samkvæmt þessum lið, enda eru ekki efni til að meta athæfi ákærða Tinds á annan veg en D hefur gert samkvæmt þessum framburði sínum.

Samkvæmt þriðja lið ákærunnar er ákærðu Tindi og Helga ásamt þriðja manni gefið að sök að hafa við hringtorg við enda Bæjargils ráðist á D. Meðákærði hafi snúið hann þar niður og allir ákærðu sparkað í D þar sem hann lá á jörðinni, en við það hafi hann hlotið nánar tilgreinda áverka. Er brotið talið varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga. Ákærðu neita sök. Samkvæmt gögnum málsins flúði D frá Bæjargili [...] eftir atlögu ákærða Helga, sem getið er um í fyrsta lið ákærunnar. Ákærði Helgi hljóp á eftir honum og er engin haldbær skýring fram komin á því önnur en sú að hann hafi enn talið sig eiga ójafnaðar sakir við D. Ákærði Tindur og meðákærði fylgdu á eftir. Eftir að D var felldur í jörðina við hringtorgið kveðst hann hafa legið í hnipri og haldið um höfuð sér til að verjast spörkum ákærðu. Hafi ákærðu Tindur og Helgi verið fyrir framan hann og hann séð þá báða veita sér spörk. Meðákærði hafi verið fyrir aftan hann og taldi D víst að hann hafi einnig sparkað. Vitnið V12 lýsti atvikinu svo að „þeir voru bara alltaf í kringum hann.“ Þegar ákærðu hófu eftirför sína hljóp vitnið F frá húsinu á eftir þeim. Kom hann að ákærðu þar sem þeir stóðu yfir D og tókst að fá þá til að færa sig frá þannig að D næði að standa á fætur og hlaupa á brott. Lýsti F athæfi ákærðu þannig að „þeir voru þarna á iði allir í kringum hann“ og að „þeir hljóta þá að hafa verið að sparka í hann.“ D hafi verið „bara svona, í fósturstellingum, haldandi utan um hausinn á sér.“ Áverkum á D eftir atlögu ákærðu er lýst í læknisvottorði, en samkvæmt því voru ákverkar um allan líkama hans, þar á meðal tvö lítil sár í andliti á augabrún og undir auga. Þegar allt þetta er virt er hafið yfir skynsamlegan vafa að ákærðu hafi báðir gerst sekir um þá háttsemi, sem þeim er gefin að sök í þessum lið ákærunnar. Verður niðurstaða héraðsdóms um það staðfest, sem og heimfærsla brotsins til refsiákvæðis.

Í fjórða lið ákærunnar er ákærða Tindi gefin að sök tilraun til manndráps með því að hafa við Bæjargil [...] ráðist að E vopnaður stórum hnífi eða sveðju og höggvið ítrekað í höfuð hans og líkama, en af því hafi hann hlotið stórfelld meiðsl, einkum á höfði og hægri hendi, sem nánar er lýst í ákæru. Ákærði viðurkennir að hafa veitt E þá áverka sem um ræðir með eggvopni, en krefst þess að háttsemin verði heimfærð undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en ekki 211. gr., sbr. 20. gr. sömu laga.

Fyrir liggur í málinu að ákærðu Tindur og Helgi veittust ásamt meðákærða að E með barsmíðum skömmu eftir að áðurnefndum skiptum þeirra við D lauk, felldu E í jörðina og spörkuðu í hann. Þeir eru þó ekki ákærðir fyrir það athæfi, heldur er ákærði Tindur einn borinn sökum fyrir árásina á E í umrætt sinn, þar sem hann hafi beitt eggvopni. Vopnið hefur ekki fundist þrátt fyrir ítarlega leit, en ákærði kvaðst hafa fleygt því inn í húsgarð á leið til baka að Bæjargili [...] frá vettvangi brotsins. Nokkur vitni hafa hins vegar lýst vopninu, en ganga má út frá að það sé hið sama og ákærði Tindur otaði fyrr um kvöldið að D í anddyri hússins að Bæjargili [...] og hafði skömmu áður sést handleika í eldhúsinu þar. Er framburður vitna á einn veg varðandi það að um hafi verið að ræða stóran hníf með 30 til 50 cm löngu blaði, sem hafi verið sveigt upp í endann. Líkti eitt þeirra honum við sveðju „til að höggva tré eða eitthvað“, en annað vitni taldi að um hafi verið að ræða stóran hníf eða sveðju. Þriðja vitnið lýsti vopninu sem risastórum brauðhníf eða sveðju, „allavega svona rosalega stórt vopn.” Sjálfur taldi ákærði að um hafi verið að ræða stóran eða jafnvel stærstu gerð af eldhúshníf. Ákærði hjó með vopninu að minnsta kosti tvívegis í höfuð E og hlutust af því löng og djúp sár og sprungur í höfuðkúpu á báðum stöðunum og blæðing á yfirborði heilans. Þá hlaut hann einnig mjög djúpt sár á hægri hendi er hann reyndi að bera hana fyrir sig til varnar. Af lýsingu vitna og ákomum á E er ljóst að um hefur verið að ræða stórt og þungt eggvopn, sem beitt var af afli, en ekki léttan hníf eins og ákærði hefur borið við í málsvörn sinni. Lenti eitt högga ákærða neðarlega á hnakka E rétt við hálsinn. Réði hending ein að ekki hlutust lífshættulegir áverkar af atlögum ákærða með stórhættulegu vopni, sem meðal annars beindust að höfði E, og gat ákærða ekki dulist sú hætta, sem lífi E var búin af þessu. Samkvæmt því, sem að framan er rakið, verður staðfest sú niðurstaða héraðsdóms að ákærði hafi með verknaði sínum brotið gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.

Í fimmta lið ákærunnar er ákærða Tindi gefin að sök sérstaklega hættuleg líkamsárás með því að hafa veitt F högg með stórum hnífi eða sveðju er hann reyndi að verja áðurnefndan E fyrir atlögum ákærða, sem greinir í fjórða lið ákærunnar. Hlaut F af því meiðsl, sem nánar er lýst í ákæru. Athæfi ákærða var þar talið varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga, en með framhaldsákæru var því lýst að um augljósa ritvillu hafi verið að ræða og að háttsemin varðaði við 2. mgr. 218. gr. sömu laga. Skilyrði eru uppfyllt samkvæmt 1. mgr. 118. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála til að koma þessari leiðréttingu að með framhaldsákæru og verður kröfu ákærða um að henni verði vísað frá héraðsdómi hafnað. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins áfrýjaða dóms verður sakfelling ákærða og heimfærsla til refsiákvæðis staðfest að því er þennan lið ákæru varðar.

Sakargiftir samkvæmt sjötta lið ákærunnar á hendur ákærða Tindi eru að hafa haft í vörslum sínum heima hjá sér lítilræði af tóbaksblönduðu hassi og svokallaðan „butterfly“ hníf. Ákærði játar brot samkvæmt þessum lið og verður sakfelling og heimfærsla héraðsdóms um það til refsiákvæða staðfest.

IV.

Ákærðu Árni og Helgi voru hvor um sig dæmdir í héraði til að sæta fangelsi í fjóra mánuði, skilorðsbundið til þriggja ára. Gæsluvarðhald, sem þeir sættu frá 2. til 5. október 2005 skyldi koma til frádráttar. Með vísan til forsendna héraðsdóms er þessi refsing hæfilega ákveðin og verður hún staðfest.

Refsing ákærða Tinds var í héraðsdómi ákveðin fangelsi í sex ár. Hann hefur sætt gæsluvarðhaldi samfellt frá 2. október 2005. Hann er nú sakfelldur fyrir mörg alvarleg brot og með þeim hefur hann jafnframt rofið skilorð dóms 17. maí 2004, þar sem hann var dæmdur í þriggja mánaða fangelsi fyrir tvær líkamsárásir og fleiri brot. Við meðferð málsins fyrir Hæstarétti voru lögð fram vottorð fangelsismálastofnunar og forstöðumanns fangelsisins að Kvíabryggju, sem staðfesta að ákærði hafi sýnt góða hegðun, leitað aðstoðar sálfræðings og almennt sýnt ríkan vilja til að bæta ráð sitt. Þá hefur hann greitt E bætur í samræmi við niðurstöðu héraðsdóms. Ennfremur hefur ákærði samkvæmt vottorði skólameistara Fjölbrautaskólans í Garðabæ stundað fjarnám við skólann til stúdentsprófs með góðum árangri. Að virtu öllu því, sem að framan er rakið, þykir mega staðfesta niðurstöðu héraðsdóms um refsingu ákærða.

Ákvæði héraðsdóms um bætur handa A og D og um upptöku á hnífi og fíkniefni verða staðfest.

Í héraðsdómi var þóknun lögmanna allra bótakrefjendanna talin til sakarkostnaðar. Að því er varðar D voru ekki skilyrði til að skipa honum réttargæslumann samkvæmt 1. eða 2. mgr. 44. gr. b. laga nr. 19/1991, sbr. 1. mgr. 44. gr. c. sömu laga. Skilyrði voru því ekki heldur til að telja þóknun lögmanns hans til sakarkostnaðar, sem ákærðu verði gert að greiða, sbr. a. lið 1. mgr. 164. gr. laganna. Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verða að öðru leyti staðfest.

Ákærðu verða dæmdir til að greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, þar með talin málsvarnarlaun skipaðra verjenda sinna, sem ákveðin eru að meðtöldum virðisaukaskatti, allt eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærðu Árna Þórs Skúlasonar og Helga Guðmundssonar og frádrátt vegna gæsluvarðhalds skulu vera óröskuð.

Ákvæði héraðsdóms um refsingu ákærða Tinds Jónssonar skal vera óraskað. Til frádráttar kemur gæsluvarðhald, sem hann hefur sætt frá 2. október 2005.

Ákvæði héraðsdóms um bætur handa A og D og um upptöku á hnífi og fíkniefnum skulu vera óröskuð.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað skulu vera óröskuð að öðru leyti en því að þóknun réttargæslumanns D, 160.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

Ákærði Árni greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Tómasar Jónssonar hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

Ákærði Helgi greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Halldórs H. Backman hæstaréttarlögmanns, 186.750 krónur.

Ákærði Tindur greiði málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar hæstaréttarlögmanns, 435.750 krónur.

Ákærðu greiði óskipt annan áfrýjunarkostnað, samtals 143.672 krónur.

                                                                                                                 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjaness 12. apríl 2006

Mál þetta var þingfest 23. febrúar 2006 og tekið til dóms 10. apríl sl.  Það er höfðað með þremur ákærum ríkissaksóknara, öllum dagsettum 31. janúar 2006.  Framhaldsákæra er dagsett 10. febrúar 2006. 

1. Ákæra gegn Tindi Jónssyni.

             Ákæran er gegn Tindi Jónssyni, kt. [...], Sunnuflöt 39, Garðabæ, „fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 21. ágúst 2005, í Hafnarstræti í Reykjavík, ráðist að A, kennitala [...], og slegið hann ítrekað í höfuð og líkama með vopni sem á voru einn eða fleiri gaddar.  Við þetta hlaut A allmörg punktsár á herðum og brjóstbaki, punktsár á vinstri axlarhyrnu, hruflsár á vinstri öxl, tvö punktsár á vinstri kinn, skurðsár á  hálsi og kúlu á höfði.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Af hálfu A er krafist miskabóta að fjárhæð kr. 700.000 auk dráttarvaxta frá 21. september 2005 til greiðsludags og greiðslu lögfræðikostnaðar kr. 124.500.“

2. Ákæra gegn Árna Þór Skúlasyni, X, Tindi Jónssyni og Y.

             Ákæran er gegn Árna Þór Skúlasyni, kt. [...], X, kt. [...], Tindi Jónssyni, kt. [...] og Y, kt. [...], „fyrir líkamsárásir á útivistarsvæði við Lyngmóa, Garðabæ, að kvöldi föstudagsins 13. maí 2005:

1.  Gegn ákærða X fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa slegið A, kennitala [...], í andlitið með glerflösku með þeim afleiðingum að hún hlaut mar á vinstra kinnbeini.

Telst þetta varða við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

2.  Gegn ákærðu öllum með því að hafa við fimmta mann ráðist að C, kennitala [...], slegið hann í höfuð svo hann féll í jörðina og fyrir að hafa sparkað í höfuð hans og líkama þar sem hann lá í jörðinni.  Við þetta kvarnaðist úr framtönn í neðri gómi C og hann hlaut mar á vinstra augnloki, hruflsár á báðum olnbogum, sár, bólgu og mar innanvert á neðri vör, blæðingu við augntönn í neðri gómi, rispu hægra megin á brjóstkassa og rispur yfir hægri úlnlið.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar.“

3. Ákæra gegn Helga Guðmundssyni, Tindi Jónssyni og Z.

             Ákæran er gegn Helga Guðmundssyni, kt. [...] og Z, kt. [...], „fyrir eftirgreind hegningarlaga- og sérrefsilagabrot framin í Bæjargili í Garðabæ, aðfaranótt sunnudagsins 2. október 2005, nema annað sé tekið fram:

I.

1. Gegn ákærða Helga fyrir líkamsárás með því að hafa, innan dyra að Bæjargili [...], kýlt D, kennitala [...], með krepptum hnefa í andlitið svo af hlaust hrufl og bólga yfir vinstra kinnbeini.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

2. Gegn ákærða Tindi fyrir hótanir með því að hafa dregið upp stóran hníf eða sveðju og otað vopninu ítrekað að D þar sem hann var staddur í anddyri Bæjargils [...], og var þessi háttsemi til þess fallin að vekja hjá D ótta um líf sitt og heilbrigði.

Telst þetta varða við 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

3. Gegn ákærðu öllum með því að hafa við hringtorg við enda Bæjargils ráðist að D.  Ákærði Z tók hann hálstaki og snéri niður og ákærðu spörkuðu allir í D þar sem hann lá í götunni.  Við þetta hlaut D skurð á vinstri augabrún, rispu á baki og í handarkrika vinstra megin, hrufl á vinstri og hægri öxl og mar þar í kring, rispur og skurð á hægri olnboga.

Telst þetta varða við 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

II.

Gegn ákærða Tindi:

4. Fyrir tilraun til manndráps með því að hafa við Bæjargil 37 ráðist að E, kennitala [...], vopnaður stórum hnífi eða sveðju og höggvið ítrekað í höfuð hans og líkama með þeim afleiðingum að E hlaut tvo langa og djúpa skurði á höfði, annan á hvirfli hægra megin og hinn á hnakka vinstra megin, sprungur í höfuðkúpu í botni sáranna og blæðingu á yfirborði heilans, grunnan skurð í hnakkagróf, tvær grunnar rispur á hægri upphandlegg, tvær rispur á baki og mikinn skurð á hægri hendi sem náði frá grunnlið vísifingurs upp undir liðamótin á milli handarkjúku I og II og voru í sundur vöðvar, taugar og slagæðar í hendinni.

Telst þetta varða við 211. gr., sbr. 20. gr., almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

5. Fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa veitt F, kennitala [...], högg með stórum hnífi eða sveðju er hann reyndi að verja E fyrir atlögu ákærða sem lýst er í ákærulið 4.  Við þetta hlaut F rispu á vinstra brjósti, skurðsár á löngutöng og vísifingri og skurð á nögl á baugfingri vinstri handar.

Telst þetta varða við 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

6. Fyrir fíkniefnalagabrot og vopnalagabrot með því að hafa haft í vörslum sínum á heimili sínu 0,28 g af tóbaksblönduðu hassi og fyrir að hafa átt og haft í vörslum sínum svokallaðan „butterfly” hníf, en lögregla haldlagði fíkniefnin og hnífinn við leit á heimili ákærða og í bifreiðinni NH-300, 6. október 2005.

             Telst þetta varða við 2. gr., sbr. 5. gr. og 6. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni, sbr. lög nr. 13/1985 og lög nr. 68/2001 og 2. gr., sbr. 1. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitskyld efni nr. 233/2001, sbr. reglugerð nr. 490/2001 og reglugerð nr. 848/2002, og b-lið 2. mgr. 30. gr., sbr. 36. gr., vopnalaga nr. 16/1998.

Þess er krafist að ákærðu verði dæmdir til refsingar og ákærða Tindi verði gert að sæta upptöku á 0,28 g af tóbaksblönduðu hassi samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga um ávana- og fíkniefni og 2. mgr. 14. gr. reglugerðar um ávana- og fíkniefni og önnur eftirlitskyld efni og „butterfly” hníf samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga. 

D krefst miskabóta að fjárhæð kr. 500.000 auk vaxta og dráttarvaxta skv. vaxtalögum nr. 38/2001 frá 2. október 2005 til greiðsludags og greiðslu kostnaðar vegna lögmannsaðstoðar.

E krefst skaða- og miskabóta að fjárhæð kr. 995.704 auk vaxta og dráttarvaxta skv. vaxtalögum nr. 38/2001 frá 2. október 2005 til greiðsludags.“

Með framhaldsákæru 10. febrúar 2006 leiðrétti saksóknari ritvillu í 5. tl. síðastgreindu ákærunnar þar sem segir: „... 1. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940...“  Þar eigi að standa: „2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.“  Af hálfu ákærða Tinds var því mótmælt að framhaldsákæran kæmist að í málinu. Ekki þykja efni til þess að taka þá kröfu ákærða til greina.

Við aðalmeðferð féll saksóknari frá því, varðandi 1. ákæru þar sem ákærði Tindur er einn ákærður, að kúla á höfði kærandans A væri af völdum ákærða Tinds. Varðandi 2. ákæru, lið 2, þar sem ákærðu Tindur, Y, X og Árni Þór eru ákærðir fyrir að ráðast að C við fimmta mann, féll saksóknari frá þeirri málavaxtalýsingu að árásarmennirnir hafi verið fimm að tölu.

Allir ákærðu hafa neitað sök nema ákærði Tindur hefur játað brot gegn fíkniefna- og vopnalögum, sbr. 6. tl. 3. ákæra.

Varðandi 1. ákæru krefst ákærði Tindur aðallega að hann verði sýknaður, til vara að refsing verði felld niður og til þrautavara að dæmd verði vægust refsing er lög leyfa. Hann krefst þess aðallega að bótakröfu verið vísað frá dómi en til vara að hún verði lækkuð verulega. Málsvarnarlauna er krafist. Varðandi 2. ákæru krefst ákærði Tindur þess aðallega að hann verði sýknaður, til vara að refsing verði felld niður og til þrautavara að dæmd verði vægust refsing. Þess er krafist að gæsluvarðhaldsvist komi til frádráttar. Málsvarnarlauna er krafist. Varðandi 3. ákæru krefst ákærði þess að hann verði dæmdur í vægustu refsingu og gæsluvarðhaldsvist komi til frádráttar. Bótakröfu E er ekki mótmælt en fjárhæð lögð í mat dómsins. Þess er krafist að bótakröfu D verði vísað frá dómi en til var að hún verði lækkuð verulega. Málsvarnarlauna er krafist. Ákærði krefst sýknu af  2. og 3. tl. þessarar ákæru.

Aðrir ákærðu krefjast aðallega sýknu en til vara vægustu refsingar og málsvarnarlauna.  Þeir krefjast þess að bótakröfum verði vísað frá dómi en til vara að þær verði lækkaðar. Ákærðu Z og Helgi Guðmundsson krefjast þess einnig að gæsluvarðhaldsvist þeirra komi til frádráttar refsingu.

Ákærði Tindur Jónsson hefur setið í gæsluvarðhaldi frá 2. október 2005.  Ákærðu Helgi Guðmundsson og Z Kárason sátu í gæsluvarðhaldi vegna rannsóknar málsins frá 2. til 5. október 2005.

1. Ákæra gegn Tindi Jónssyni.

             Málavextir.

Í þessari ákæru er ákærði Tindur Jónsson ákærður fyrir hættulega líkamsárás með því að hafa á svokallaðri menningarnótt í Reykjavík, aðfaranótt sunnudagsins 21. ágúst 2005, í Hafnarstræti í Reykjavík ráðist að A og slegið hann ítrekað í höfuð og líkama með vopni sem á voru einn eða fleiri gaddar. 

Þann 21. ágúst 2005 kl. 01:20 var lögreglubifreið staðsett á bifreiðastæði gegnt Pósthússtræti í Reykjavík.  Kom þá kærandi A til lögreglunnar og kvaðst hafa orðið fyrir hnífsstungu.  Í frumskýrslu lögreglu segir að kærandi hafi sagt lögreglu að hann hafi verið staddur við veitingastaðinn Pizzahornið í Hafnarstræti ásamt fleiri vinum sínum.  Hafi hann verið á tali við drengi úr Garðabæ þegar hann hafi skyndilega verið sleginn með flösku í höfuðið.  Hann hafi slegið gerandann í andlitið og við það hafi brotist út slagsmál.  Kvaðst kærandi þekkja ákærða Tind í sjón og hafi ákærði Tindur stungið hann með hnífi eða einhverju öðru oddhvössu í bak og háls. 

Kærandi fór á Landspítala-háskólasjúkrahús í Fossvogi og segir í vottorði læknis að hann hafi verið með allmörg punktsár á baki, bæði uppi á herðum, það er að segja yfir herðablöðum sitthvoru megin og niður á mitt brjóstbak.  Segir í vottorðinu að þetta séu grunn eins til tveggja millimetra punktsár eins og eitthvað verkfæri hafi rétt gatað húðina.  Sárin séu þó alveg í gegnum húð.  Á vinstri axlarhyrnu sé svipað punktsár en það sé örlítið stærra eða dýpra, hugsanlega eftir harðara högg.  Á hálsi rétt yfir vöðvanum neðan og framan við vinstra eyra sé sár um einn og hálfan sentimetra langt sem virðist vera eftir sama verkfæri sem hafi þá skorið en ekki stungið.  Þetta sár sé í gegnum húðina um einn og hálfan sentimeter að lengd.  Þá hafi kærandi verið með kúlu á höfði sem virtist vera eftir högg.  Í vottorðinu segir jafnframt að sárið á hálsinum hafi verið deyft og saumað með þrem til fjórum sporum og sett eitt spor í stærsta sárið á öxlinni. 

Hjá lögreglu og fyrir dómi skýrði kærandi A svo frá að upphaf málsins hafi verið að vinur hans, G að nafni, hafi verið sleginn í höfuðið umrætt kvöld með þeim afleiðingum að flytja hafi þurft hann á slysadeild.  Kærandi kvaðst hafa frétt að það hafi verið hópur stráka úr Garðabænum sem hafi ráðist að G og hafi ákærði Tindur Jónsson verið nefndur í því sambandi.  Nokkru síðar kvaðst A hafa verið staddur á Lækjartorgi ásamt V1, V2 og V3.  Þá hafi þeir séð hóp stráka sem þeir hafi talið að hafi ráðist að G.  Þeir hafi ákveðið að fara og ræða við þá og voru þeir þá staddir í sundinu á milli Lækjartorgs og Hafnarstrætis.  Í fyrstu hafi komið til rifrildis en síðan hafi allir verið orðnir rólegir þegar einn úr hópi Garðbæinga hafi skyndilega slegið hann með glerflösku aftan á höfuðið með þeim afleiðingum að hún hafi brotnað.  Kærandi kvaðst hafa vankast við höggið en eftir að hann hafi jafnað sig hafi hann gengið að stráknum sem hafi slegið hann og slegið hann vinstra megin á vangann.  Við það hafi strákahópurinn úr Garðabænum, sem hafi verið um 20 manns, ráðist að honum með höggum og spörkum.

Kærandi kvaðst hafa reynt að komast undan og hafi átökin borist yfir Hafnarstrætið og inn í sund sem liggur meðfram Rammagerðinni og yfir á bifreiðastæði norðan Hafnarstrætis en þar hafi hann losnað undan strákunum.  Eftir að þetta hafi gengið yfir hafi vinir hans, V1, V2 og V3 sagt honum að Tindur hafi verið með hníf og verið að stinga hann í bakið með honum.  Þá kveðst hann hafa gert sér grein fyrir því að hann hafi allur verið blóðugur og með stungur og skurði hér og þar á líkamanum. A kvaðst hafa í eitt skipti litið upp meðan strákarnir hafi gengið í skrokk á honum og þá séð Tind halda á einhverju í hendinni sem hann gat ekki gert  sér grein fyrir hvað var.

Ákærði Tindur kvaðst ekkert kannast við þessi slagsmál og hafi hann ekki tekið þátt í þeim. Hann kvaðst hafa farið í bæinn á menningarnótt í Reykjavík ásamt tveimur félögum sínum, þeim V4 og V5. Hafi þeir verið saman allan tímann og staldrað við í um það bil eina klukkustund og farið síðan heim í Garðabæ.

V3 sagði hjá lögreglu að upphaf slagsmálanna hafi verið að vinur hans, kærandi A, hafi verið sleginn í höfuðið með flösku af einhverjum úr Garðbæingahópnum.  Við það hafi brotist út slagsmál.  Garðbæingarnir hafi verið miklu fleiri.  Hann hafi séð að fjórir eða fimm strákar hafi verið að berja á A en að öðru leyti hafi hann ekki séð árásina á A þar sem hann hafi haft fullt í fangi með að verjast sjálfur.  Þegar allt hafi verið orðið rólegt hafi þeir félagarnir farið að athuga með sár á A og þá séð stungusár á honum.  Einn félagi hafi ekið A á slysadeild. V3 gaf ekki skýrslu fyrir dómi.

V1 sagði hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hafi verið að skemmta sér umrætt kvöld ásamt vinum sínum, A, V2 og V3. Hann hafi ekki neytt áfengis þetta kvöld. Hann kvaðst hafa séð A vera að ræða við einhvern strák úr Garðbæingahópnum.  Þá hafi einhver lágvaxinn strákur gengið að A og lamið hann í höfuðið með glerflösku sem hafi brotnað við höggið.  Hann kvað A hafa vankast við höggið en síðan gengið að stráknum og kýlt hann einu höggi.  Við það hafi allt orðið brjálað.  Um 20 strákar úr Garðbæingahópnum hafi ráðist allir í einu að A.  Hann kvaðst hafa reynt ásamt V2 að ýta strákunum frá A en vonlaust hafi verið að slást við þennan hóp því hann hafi verið svo fjölmennur.  V1 kvaðst hafa séð Tind koma aftan að A og stinga A í bakið með einhverju sem V1 gat ekki gert sér grein fyrir hvað var.  Sá hann að Tindur reiddi hendina upp til höggs og barði svo niður eða hjó í bakið á A og fannst honum sem ákærði Tindur væri að stinga hann með hnífi.  Hann kvaðst hafa brugðið mjög við þessa sjón því að hún hafi verið mjög óhugnanleg.  Síðan kvaðst hann hafa hlaupið að Tindi, gripið í hendina á honum og náð að sparka hann niður í jörðina.  Fljótlega eftir þetta hafi slagsmálin leyst upp. V1 kvaðst hafa þekkt Tind í sjón. Hafi hann séð Tind nokkrum sinnum áður í bænum og þekkt nafn hans.

Hjá lögreglu og fyrir dómi skýrði V2 svo frá að hann hafi verið ásamt fyrrnefndum vinum sínum í bænum að skemmta sér umrætt kvöld.  Hann sagði að upphafið hafi verið að kunningi þeirra, G, hafi verið laminn af strákum í Garðabæ fyrr um kvöldið.  A hafi verið að tala við einhvern strák úr Garðbæingahópnum og allt hafi verið rólegt.  Þá hafi það gerst að einn strákur hafi skyndilega komið að A og lamið hann með flösku í andlitið.  A hafi vankast við höggið en síðan farið að stráknum og kýlt hann einu höggi.  Við það hafi allur hópurinn, um 14-15 strákar, ráðist að A.  V2 kvaðst hafa fengið högg í andlitið og vankast stutta stund.  Hann kvaðst stuttu síðar hafa séð Tind, sem hann þekki í sjón, ganga í áttina að sér.  Ákærði Tindur hafi síðan stoppað og litið í áttina að hópnum sem var að ráðast að A og hlaupið í áttina til þeirra.  V2 kvaðst hafa farið á eftir ákærða og séð þegar hann hafi farið aftan að A og lamið hann fjórum til fimm höggum.  Höggin hafi verið þannig að ákærði hafi reitt höndina upp til höggs og barið svo niður á A líkt og þegar stungið sé með hnífi.  V2 kvað höggið hafa komið að hægri öxl A og á herðar honum.  Hann kvaðst hafa séð ákærða halda á einhverju í hendinni en gat ekki gert sér grein fyrir því hvað það væri. Það hafi glitrað á það og hafi eitthvað oddhvasst um 1-2 sm staðið út úr lófa ákærða.  Stuttu síðar hafi slagsmálin leyst upp.  V2 kvaðst oft hafa séð Tind í bænum. Hann sé þekktur meðal unglinga fyrir slagsmál og ofbeldi.

Vitnið V6 sagði hjá lögreglu og fyrir dómi að einhver strákur hafi komið að A og slegið hann í höfuðið með flösku þannig að hún hafi brotnað.  Við það hafi A dottið í jörðina en staðið upp aftur og slegið strákinn til baka.  Slagsmál hafi þá brotist út.  V6 kvaðst þekkja Tind í sjón og þekkt til hans í nokkur ár þar sem að hann hafi lamið hann með basebalkylfu í Garðabæ eftir samræmd próf í 10. bekk.  Þá hafi hann oft séð ákærða niðri í bæ í einhverjum slagsmálum.  V6 kvaðst hafa séð Tind slá A en hann hafi ekki séð neitt í hendi hans. Hins vegar hafi honum fundist Tindur halda á einhverju því hann hafi borið sig þannig að. Hafi hann hoggið eins og hann væri með eitthvað í hendinni.

V4 sagði hjá lögreglu að hann hafi verið í bænum með ákærða í umrætt sinn.  Hann sagðist þó ekki hafa verið viðstaddur er slagsmálin hafi brotist út.  Hann hafi aðeins heyrt frá þeim síðar.  Hann mundi þó ekki hver hefði sagt honum frá þessum slagsmálum. Hann hafi verið haugafullur og muni því ekki vel eftir atvikum. Hann sagði ákærða oft vera með vopn eins og hnífa og sýna félögum sínum. Hann hafi þó aldrei orðið þess var að Tindur færi með slík vopn í bæinn eða notaði þau gegn fólki. Þeir félagar hafi staldrað við um eina klukkustund í bænum og farið síðan aftur í Garðabæ. Hann hafi verið með ákærða allan tímann og hafi hann misst sjónar af honum hafi það aðeins verið í stutta stund. Fyrir dómi breytti V4 framburði sínum að því leyti að hann var nú alveg viss um að ákærði hafi ekki vikið frá honum þessa nótt í bænum. Þá kvaðst vitnið ekki hafa verið eins drukkið og í lögregluskýrslu segi. Þá fannst honum í lögregluskýrslu of mikið gert úr því sem hann sagði um áhuga ákærða á vopnum.

V5 sagði hjá lögreglu að hann hafi verið með ákærða og V4 í miðbænum í umrætt sinn.  Hann muni þó ekki eftir neinum slagsmálum, allavega hafi þeir ekki tekið þátt í neinum slagsmálum. Hann kvaðst ekki hafa fylgst með ákærða allan tímann og viti ekki til þess að ákærði hafi verið með eggvopn í umrætt sinn. Hins vegar hafi ákærði stundum verið að leika sér með vopn í samkvæmum í heimahúsum en það hafi bara verið í gríni. Þeir hafi dvalið í um eina klukkustund í bænum og þá haldið aftur heim í Garðabæ. Fyrir dómi sagði V5 að hann væri nú viss um að ákærði hafi verið með honum allan tímann í bænum. Þá dró hann framburð sinn til baka um að ákærði hafi verið að handleika vopn í heimahúsum.

Theódór Friðriksson, læknir, kom fyrir dóm og staðfesti vottorð sitt. Hann sagði að sárið fyrir neðan vinsta eyra A hafi verið nálægt slagæð. Það sár hafi honum virst vera eftir beittan gadda sem hafi dregist eftir húðinni og eftir sama áhald  sem valdið hafi öðrum sárum á A. Hann taldi, þó hann gæti ekki fullyrt það, að þessi skurður gæti ekki verið eftir glerbrot því skurðir eftir glerbrot væru óreglulegir og skörðóttir. Þessi væri aftur á mót þráðbeinn. Önnur sár á A væru bersýnilega eftir einhverskonar eggvopn.

Linda Björk Þórðardóttir, lögreglumaður,  gaf einnig skýrslu fyrir dómi.

Niðurstaða.

Í þessum þætti málsins er sönnunarstaðan sú að ákærði hefur neitað sök og kannast ekki við að hafa tekið þátt í slagsmálum  í miðbæ Reykjavíkur umrædda nótt. Þá frásögn ákærða styðja félagar hans, þeir V4 og V5 Sverrisson, sem segjast hafa verið með ákærða um kvöldið og öllum ber þeim saman um að þeir hafi aðeins dvalið í um eina klukkustund í bænum.

Hins vegar er framburður kæranda A og félaga hans, þeirra V1, V2 og V6, sem ber öllum saman um atburðarás. Einhver strákur hafi slegið A með flösku í höfuðið og hafi flaskan brotnað við það. A hafi vankast um stund en slegið strákinn síðan til baka. Þá hafi allur hópurinn ráðist að A sem hafi hörfað undan. Frásögn þessara síðast greindu vitna er glögg og trúverðug um að þeir hafi séð ákærða höggva til A með einhverju oddhvössu sem glitrað hafi á og staðið hafi út úr lófa ákærða. V6 sagðist ekki hafa séð neitt í hendi ákærða en fannst hann bera sig þannig að eins og hann væri með eitthvað í hendinni því hann hafi hoggið til A en ekki slegið hann. Þá hafa vitnin einnig borið að þau hafi þekkt til ákærða og oft séð hann áður í bænum. Þessi frásögn þessara vitna kemur heim og saman við framlagt læknisvottorð og vitnisburð læknisins sem gerði að sárum A. Staðfesti hann að sár A væru eftir beittan gadda eða eggvopn af einhverju tagi. Sár á hálsi virtist honum vera eftir sama vopn þó hann treysti sér ekki til þess að fullyrða það. Þessi skuður á hálsi var nálægt slagæð.

Framburðir félaga ákærða, þeirra V4 og V5, voru hins vegar reikulir en þeir breyttu framburðum sínum að nokkru leyti fyrir dómi.

Samkvæmt framansögðu þykir komin fram sönnun fyrir því að ákærði hafi ráðist með einhvers konar eggvopni að A og veitt honum þá áverka sem í ákæru greinir, eins og ákærunni hefur verið breytt af hálfu saksóknara og getið er um hér að framan. Þegar litið er til þess að ákærði stakk A nokkrum sinnum með einhvers konar áhaldi og áverkinn á hálsi gat verið hættulegur, verður verknaður hans færður undir 2. mgr. 218. gr. almennra hegningalaga nr. 19/1940, sbr. 11 gr. laga nr. 20/1981.

2.  Ákæra gegn Árna Þór Skúlasyni, X, Tindi Jónssyni og Y.

Málavextir.

Í þessari ákæru eru ákærðu ákærðir fyrir líkamsárás á útivistarsvæði við Lyngmóa í Garðabæ föstudaginn 13. maí 2005.  Ákærði X er ákærður fyrir sérstaklega hættulega líkamsárás með því að hafa slegið B í andlitið með glerflösku og ákærðu allir eru ákærðir fyrir að hafa ráðist að C og slegið hann í höfuð svo hann féll í jörðina og fyrir að hafa sparkaði í höfuð hans og líkama þar sem hann lá í jörðinni.

Föstudaginn 13. maí 2005 kl. 23:58 barst tilkynning til lögreglunnar í Hafnarfirði þar sem kvartað var um hávaða og sprengingar við Lyngmóa í Garðabæ.  Var sagt að unglingahópur væri þar á útivistarsvæði en þar höfðu verið vandræði undanfarið vegna ölvunar, óláta og hávaða ungs fólks sem komið hafi saman til að skemmta sér og neyta áfengis.  Í frumskýrslu lögreglu segir að þegar lögreglan hafi komið á staðinn hafi þarna verið um 10 manna hópur, þar af nokkrir íbúar við Lyngmóa.  Ákærði Árni hafi verið blóðugur í framan, ölvaður og æstur og hafi hann verið handtekinn og færður á lögreglustöð.  Ákærði X hafi komið gangandi milli húsa og hafi einn íbúana við Lyngmóa bent á X og sagt að þetta væri maðurinn sem hafi slegið B í andlitið með glerflösku.  Ákærði X hafi þá tekið á rás og hlaupið í burtu en hafi verið hlaupinn uppi af lögreglu.  Ákærði Tindur var ekki á staðnum er lögreglan kom á vettvang en kom rétt áður en lögreglan fór.  Segir í frumskýrslu lögreglu að hann hafi verið rólegur en sýnilega undir áhrifum áfengis.  Ákærði Y hafi verið mjög ölvaður og sagt að einhver hafi slegið sig í framan.  Lögreglan hafði tal af íbúum við Lyngmóa sem voru staddir á vettvangi.  Að þeirra sögn hafi ungmenni komið, um sex manns, og farið að öskra og hóta því að drepa fólk.  Þau hafi kveikt í flugeldum og sprengjum.  Nokkrir íbúanna hafi farið út til þess að reyna að tala við krakkana. 

Hjá lögreglu og fyrir dómi skýrði vitnið C svo frá að hann hafi setið fyrir framan sjónvarpið ásamt eiginkonu sinni umrætt kvöld.  Ófremdarástand hafi ríkt á útivistarsvæði við Lyngmóa undanfarin ár þar sem talsverð læti hafi verið í unglingum sem þar hafi safnast saman við drykkju og að skemmta sér.  Um miðnætti hafi þau hjónin heyrt að nokkrir unglingar voru komnir á svæðið og byrjaðir að sprengja flugelda og með öskur og læti.  Eiginkona hans, B, hafi talið að hún kannaðist við þessa unglinga og hafi hún ákveðið að fara út og ræða við þá.  Þau hafi farið út ásamt V7 og V8 sem einnig búi að Lyngmóum [...].  Fljótlega hafi V9 bæst í hópinn en hann búi í húsi nr. [...] við Lyngmóa. C sagði að kona hans hafi þekkt strákana þar sem hún hafi verið kennari við Garðaskóla og starfað í tengslum við félagsmiðstöð skólans.  Unglingarnir hafi verið töluvert æstir þegar fullorðna fólkið hafi komið út og hafi unglingarnir haldið því fram að íbúar við Lyngmóa væru að valda tjóni á útivistarsvæði þeirra en bæjaryfirvöld höfðu nokkrum dögum áður borið skít á svæðið,  m.a. til að koma í veg fyrir að unglingar söfnuðust þar saman. Fullorðna fólkið hafi reynt að gera þeim grein fyrir því að þetta væri leiksvæði barna og að unglingarnir skildu eftir sig glerbrot og rusl þar sem börn væru að leik.  Þessar viðræður hafi ekki verið á góðum nótum og hafi ákærði Árni hent B til.  Þá kvaðst C hafa gengið á milli og honum tekist að róa Árna niður.  Ákærði X hafi verið með flösku í hendinni og sagt við hann að hann gæti alveg slegið C í höfuðið ef hann vildi.  C kvaðst ekki hafa tekið mark á þessum orðum X þar sem að X hafi verið rólegur.  C kvaðst nú hafa snúið sér að ákærða Tindi og ákærða Y til að ræða við þá.  Hafi hann snúið baki við B og þá heyrt dynk.  Hann hafi snúið sér við og séð hvar B hélt um höfuð sér og sagði að X hafi slegið sig með flösku í andlitið.  Flaskan hafi ekki brotnað við höggið en þetta hafi verið ferköntuð eins líters glerflaska.  X hafi staðið þarna hjá en ekki sagt neitt.  Hann sagðist hafa gripið í X sem ekki hafi sýnt nein viðbrögð.  Því næst hafi hann snúið sér að B til að kanna áverka hennar og þá fundið hvar þeir Tindur, Árni og Y og einn til viðbótar, sem hann viti ekki hver er, hafi ráðist á sig með hnefahöggum í andlit og höfuð.  Hafi Tindur gefið sér fyrsta hnefahöggið.  Hann hafi reynt að verjast þessum hnefahöggum með því að setja hendurnar fyrir sig og með því að reyna að komast undan.  Ákærðu hafi náð að taka hann úr bol sem hann hafi verið í og gleraugu hans hafi fallið í jörðina.  Þá kvaðst C hafa reynt að slá frá sér til þess að forðast högg frá árásarmönnunum.  Hann hafi heyrt flösku brotna fyrir aftan sig og hafi honum verið sagt síðar að X hafi ætlað að berja hann með flöskunni en honum einhverra hluta vegna ekki tekist ætlunarverk sitt þar sem C hafi sett hendina fyrir sig. Þegar hér var komið hafi hann fallið í jörðina og hafi þá ákærðu byrjað að sparka í höfuð hans og búk.  C kvaðst hafa áttað sig á því að hann gæti lítið gert annað en að verja höfuðið með því að setja hendurnar fyrir það.  Spörkunum hafi linnt er lögreglan hafi komið á vettvang.  Þegar lögreglan hafi nálgast hafi Tindur sagt við C að hann yrði dauður innan tveggja daga.

C fór á slysadeild Landspítalans í Fossvogi daginn eftir.  Segir í læknisvottorði að kvarnast hafi úr framtönn í neðri gómi C og hann hafi hlotið mar á vinstra augnloki, hruflsár á báðum olnbogum, sár, bólgu og mar innanvert á neðri vör, blæðingu við augntönn í neðri gómi, rispu hægra megin á brjóstkassa og rispur yfir hægri úlnlið.

B skýrði svo frá hjá lögreglu og fyrir dómi að undanfarin ár hafi hópur unglinga safnast saman á útivistarsvæði fyrir börn við Lyngmóa í Garðabæ.  Íbúar í nærliggjandi húsum hafi verið orðnir langþreyttir á því ástandi sem hafi skapast þarna á leiksvæðinu því stundum hafi ástandið verið þannig eins og um útihátið hafi verið að ræða.  Um miðnætti 13. maí 2005 hafi sex eða sjö unglingar komið á leiksvæðið með tilheyrandi köllum og öskrum.  Íbúar við Lyngmóa hafi vikuna áður rætt um að eitthvað þyrfti að gera í málinu og þau hafi vitað að prófum hafi verið að ljúka í fjölbrautarskólanum í Garðabæ þennan dag.  Þegar unglingarnir hafi birst hafi hún ákveðið ásamt eiginmanni sínum, C, að fara út ásamt fleira fólki.  B kvaðst þekkja ákærðu í málinu þar sem hún hafi starfað sem kennari í Garðaskóla og unnið mikið í tenglum við félagsmiðstöðina í Garðabæ.  Strákarnir hafi allir verið talsvert ölvaðir.  Hún kvaðst hafa rætt fyrst við Tind og reynt að útskýra fyrir honum sjónarmið íbúanna og hvað það væri bagalegt fyrir íbúana að fá ekki svefnfrið um nætur.  Tindur hafi virst skilja afstöðu íbúanna og gengið á brott frá henni og þá hafi hún snúið sér að X og farið að ræða við hann.  X hafi haldið á eins líters glerflösku með áfengi í.  Þegar þau hafi verið að ræða saman hafi X tjáð henni að hann gæti lamið hana með flöskunni.  Hún kvaðst hafa svarað honum því að það væri óþarfi því að þau væru bara að spjalla saman en þá hafi hún fengið flöskuna framan í andlitið.  Hann hafi slegið hana af alefli og flaskan lent á kinn hennar af miklum þunga. B sagðist hafa spurt X að því hvort ekki væri allt í lagi með hann og C hafi komið og hrist X eitthvað til og spurt hann að því sama.  X hafi hins vegar staðið hreyfingarlaus og ekki sagt orð.  B kveðst þá hafa sagt við C að þau skyldu koma sér í burtu en í þann mund hafi allir ákærðu ráðist að C með hnefahöggum í höfuð hans.  C hafi reynt að verjast höggunum með því að bera hendurnar fyrir sig.  Þá hafi hún séð að X reyndi að berja C með flöskunni en C náð að setja hendina fyrir sig þannig að X hafi misst flöskuna í jörðina og hún brotnað.  Við þessar barsmíðar hafi gleraugu C dottið af honum.  C hafi nú fallið í jörðina og þá hafi allir ákærðu ásamt einum öðrum sem hún þekki ekki byrjað að sparka í höfuð hans og skrokk.  C hafi reynt að verjast höggunum með því að halda utan um höfuð sitt.  Lögreglan hafi komið fljótlega á vettvang og íbúarnir reynt að toga strákana frá C.  B sagði að allir ákærðu og hinn fimmti hafi sparkað í C þar sem hann lá á jörðinni. 

B fór á Landspítala-háskólasjúkrahús og fékk áverkavottorð.  Í vottorðinu segir að hún hafi fengið mar og yfirborðsáverka á andlit og tognun í hálsvöðvum.  Við marinu sé ekki mikið að gera og það ætti að renna af eins og gerist með slíka áverka.  Varðandi eymslin í hálsinum fékk B þær ráðleggingar að nota hita og teygjuæfingar reglubundið og sömuleiðis var henni bent á verkjalyf.  Fyrir dómi sagði B að hún hafi haft áverkana lengi og finni enn fyrir eymslum í kinnbeini.

Ákærði X skýrði svo frá hjá lögreglu að upphaf átakanna hafi verið að C hafi ráðist að honum.  Fyrsta kvaðst X hafa slegið konu með flösku og síðan hafi þessi maður ráðist á sig.  Aðspurður um af hverju hann hafi slegið konuna með flösku í andlitið skýrði ákærði X svo frá að konan hafi verið að rífast við hann og viljað reka hann og félaga hans í burtu.  Ákærði kvaðst ekki hafa ráðist að C eftir að C hafi fallið í jörðina.  Taldi hann að ákærði Árni, Tindur og Y hafi ráðist að C.  Ákærði X kvaðst hafa misst flöskuna eftir að C hafi ráðist á sig.  Fyrir dómi skýrði ákærði X á sama veg frá að öðru leyti en því að hann kvaðst ekki hafa slegið B með flöskunni heldur „ýtt“ flöskunni í andlit hennar.

Ákærði Y skýrði svo frá hjá lögreglu að þegar þeir félagar hafi verið komnir að útivistarsvæði við Lyngmóa hafi eitthvað rifrildi komið upp á milli þeirra og íbúanna þar.  Hann sagðist hafa rifist við eitthvað fólk en hins vegar hvorki ráðist á einn né neinn.  C hafi hins vegar slegið hann í höfuðið með þeim afleiðingum að hann hafi vankast við höggið.  Ákærði Y taldi þó ekki að C hafi slegið hann með ásetningi heldur sé líklegra að C hafi baðað út höndunum í átökum við annan aðila.  Ákærði kvaðst hins vegar ekki vita hver það hafi verið sem C hafi lent í átökum við.  Nánar aðspurður kvað Y ýfingar hafi verið milli íbúanna og unglinga sem þarna hafi verið saman komnir.  Hann geti hins vegar ekki sagt um hverjir það hafi verið, það eina sem hann viti sé að hann hafi fengið högg frá C.  Fyrir dómi skýrði ákærði Y á sama veg frá og hjá lögreglu og ítrekaði að hann vissi ekki hverjir hafi tekið þátt í átökum í umrætt sinn.  Y fór á Landspítala-háskólasjúkrahús, slysadeild og fékk áverkavottorð.  Í því segir meðal annars að efri vör sé talsvert bólgin og talsvert mikið mar eða blæðing innanvert á vörinni þar undir. 

Ákærði Tindur skýrði svo frá hjá lögreglu að það sé ekki rétt að hann hafi ráðist að C heldur hafi C byrjað að slá félaga hans.  Ákærði hafi reyndar snúið baki í C er átökin hafi byrjað en ákærði kvaðst þá hafa verið að ræða við einn íbúa við Lyngmóa.  Þegar hann hafi snúið sér við hafi hann séð C slá X eða Árna Þór.  Ákærði kvaðst hafa gengið þarna að og verið kýldur í andlitið og hafi hann vankast við það og muni því ekki meira frá atvikum.

Ákærði Árni Þór Skúlason kvaðst hafa farið að Lyngmóum ásamt félögum sínum.  Þegar þeir hafi verið komnir þangað hafi íbúar komið út og farið að skipta sér að þeim.  C hafi slegið hann og fljótlega upp úr því hafi lögreglan komið og hann verið handtekinn. 

V9, íbúi að Lyngmóum, kvaðst hafa séð út um glugga á heimili sínu við Lyngmóa að unglingahópur hafi verið kominn á leiksvæðið með tilheyrandi hávaða og látum.  Hópurinn hafi verið með hróp og köll um að íbúar við Lyngmóa myndu finna fyrir því og hafi íbúum verið hótað lífláti.  V9 sagði að vandræði hafi skapast þarna á svæðinu vegna þess að unglingar hafi hópast þarna saman um nætur og verið með hróp og köll.  V9 kvaðst hafa farið út þegar hann hafi séð aðra íbúa hússins fara út og ræða við unglingana.  V9 kvaðst hafa staðið um 2 metra frá B sem hafi verið að ræða við X.  X hafi spurt B hvort hann ætti að lemja hana með flöskunni.  Í sama mund hafi hann gert það og slegið B í andlitið með flöskunni.  C hafi þá komið og farið að huga að konu sinni.  Ákærðu hafi þá ráðist að C með hnefahöggum og barið hann ítrekað í höfuðið.  Skömmu síðar hafi C fallið í jörðina og hafi hann þá séð hvar X sparkaði af miklu afli í höfuð C á meðan hann lá í jörðinni.  Allir hinir, fimm að tölu, hafi sparkað í skrokk og höfuð C þar sem hann hafi legið á jörðinni og reynt að verjast höggum og spörkum.  Þegar hér var komið hafi hinir fullorðnu reynt að taka unglingana frá C og lögreglan komið um svipað leyti.  V9 kvaðst hafa tekið ákærða X út úr hópnum og hélt að honum hefði tekist að róa hann niður.  Þegar hann hafi snúið sér frá X hafi X hins vegar slegið hann með miklu afli í nefið þannig að blætt hafi úr.  Lögreglan hafi svo komið og skakkað leikinn. 

V8, íbúi að Lyngmóum, Garðabæ, sagði hjá lögreglu að hún hafi verið að ræða við ákærða Árna Þór er hún hafi heyrt B segja:  „Þú slóst mig með flöskunni.“  Fljótlega upp úr því hafi ákærðu ráðist að C og hann fallið í jörðina.  Þá hafi ákærðu sparkað í C, bæði í höfuð og skrokk.  Fyrir dómi treysti V8 sér ekki til þess að muna atvik nákvæmlega en sagðist þó muna að ákærðu hafi sparkað í C eftir að hann hafi fallið í jörðina.  Þó var V8 ekki viss um að ákærði Árni Þór hafi tekið þátt í því.

V7 skýrði svo frá hjá lögreglu og fyrir dómi að um miðnætti hafi nágrannar hans, C, bankað upp á hjá honum og sagt honum að nokkrir unglingar væru komnir á svæðið.  Hann hafi farið út ásamt C og eiginkonu hans B.  Þarna hafi sex unglingar verið komnir og hafi verið mjög ölvaðir og æstir.  B hafi rætt við nokkra þeirra en sjálfur kvaðst V7 hafa rætt við Y og ungling sem hafi verið klæddur í hermannajakka.  V7 kvaðst hafa þekkt Y og Tind.  V7 kvað Y og þann í hermannajakkanum hafa verið með mjög ögrandi framkomu en honum hafi tekist að róa þá.  Þá hafi hann heyrt að B hafi kallað „þú slóst mig.“  Hafi hann þá séð að B hélt um andlit sitt.  Í því hafi C farið að þeim dreng sem slegið hafi B og sagt við hann að svona gerði maður ekki.  C hafi eitthvað tekið utan um þennan ungling en þá hafi allir unglingarnir rokið til og byrjað að slá C í höfuðið með hnefahöggum.  Fljótlega hafi C fallið og þá hafi þeir allir sparkað í höfuð hans og skrokk þar sem hann hafi legið varnarlaus í jörðinni. Fyrir dómi var V7 spurður nánar um þetta atriði en hann kvaðst nú ekki muna það nákvæmlega. Lögregluskýrslan hafi hins vegar verið tekin af honum stuttu eftir atburðinn og taldi hann víst að rétt hefði verið haft eftir honum.  C hafi reynt að verjast höggunum með því að halda höndum yfir höfði sér.  Fullorðna fólkið hafi rokið til og byrjað að taka unglingana frá C.  Sjálfur kvaðst hann hafa tekið Y og þann í jakkanum.  Íbúarnir hafi náð að toga unglingana frá C en fljótlega hafi þeir gert aðra atlögu að C með spörkum þar sem hann lá í jörðinni.  C hafi náð að standa upp og lögreglan hafi þá fljótlega komið á staðinn.  V7 kvaðst þá hafa séð Tind og þann í hermannajakkanum ganga á brott.  V7 sagði að lögreglan hafi ekki náð þeim pilti sem var í hermannajakkanum. 

V10 sagði hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hafi verið staddur úti við svalahurð heima hjá sér á 1. hæð við Lyngmóa þegar hann hafi séð nokkra pilta koma gangandi inn á leikvöllinn.  Piltarnir hafi strax byrjað að öskra og sprengja einhverjar sprengjur.  V10 kvaðst hafa séð nokkra íbúa húsanna í kring koma út og farið að ræða við piltana.  Hann hafi þá séð að til ryskinga var komið og hafi hann þá flýtt sér út.  Þegar hann kom á staðinn hafi hann séð C liggja í jörðinni og a.m.k. 3 pilta sparka í C.  Hann hafi séð einn piltana reyna að slá C með glerflösku en C hafi tekist að setja hendina fyrir og flaskan dottið í jörðina og brotnað.

Sverrir Guðfinnsson, lögreglumaður, gaf einnig skýrslu fyrir dómi í þessum þætti málsins.

Niðurstaða

             Ákærði X játaði hjá lögreglu að hafa slegið B með flösku í andlitið. Fyrir dómi dró hann í land að því leyti að hann sagðist aðeins hafa „ýtt“ flöskunni framan í B. Þessi breytti framburður stenst ekki þegar áverkavottorð er skoðað. Þá hafa vitni staðfest framburð B um að ákærði X hafi slegið hana af afli með flösku í andlitið. Sök hans telst því sönnuð varðandi þennan ákærulið. Brot hans er rétt fært til refsiákvæðis í ákæru.

             Ákærðu hafa allir neitað sök varðandi seinni hluta ákæru þar sem þeir eru sakaðir um að hafa ráðist að Herði, slegið hann, fellt hann í jörðina og þá sparkað í höfuð hans og líkama. Framburður ákærðu hefur verið reikull í þessu sambandi og einkar ótrúverðugur. Framburðir vitnana B, C, V8, V9, V7 og V10, sem raktir eru hér að framan, voru hins vegar mjög trúverðugir um hvað gerðist í umrætt sinn. B, C, V9 og V7 ber öllum saman um að ákærðu hafi allir ráðist að C, kýlt hann og fellt í jörðina og því næst sparkað í hann. Aðeins vitnið V8 var ekki viss í skýrslu sinni fyrir dómi hvort ákærði Árni Þór hefði tekið þátt í árásinni. Hún sagði reyndar í skýrslu sinni fyrir dómi að hún væri nú alls ekki viss um hvað hefði gerst því hún ruglaði nú saman því sem hún hefði séð og því sem aðrir hefðu sagt henni að hefði gerst. Í skýrslu sinni hjá lögreglu sagði hún hins vegar að allir ákærðu hefðu tekið þátt í árásinni á C með höggum og spörkum. Framangreindur framburður V8 hér fyrir dómi þykir ekki skipta máli varðandi heildarmat. Þá sá V10 a.m.k. 3 pilta standa yfir C og sparka í hann en V10 kom ekki á vettvang strax og sá því ekki upphaf átakanna.

             Þegar ofangreindur framburður vitnanna er metinn í heild þykir sannað að allir ákærðu hafi ráðist að C með þeim hætti sem í ákæru greinir. Brot þeirra verður fært undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 1971940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.

3.  Ákæra gegn Helga Guðmundssyni, Tindi Jónssyni og Z.

Málavextir.

Í þessum  hluta málsins er ákærði Helgi ákærður fyrir líkamsárás innandyra að Bæjargili [...] fyrir að hafa kýlt D með krepptum hnefa í andlitið þann 2. október 2005.  Ákærði Tindur er ákærður fyrir að hafa í framhaldi af framangreindu dregið upp stóran hníf eða sveðju og otað ítrekað að D.  Þá eru ákærðu allir ákærðir fyrir að hafa elt D þegar hann hafi reynt að flýja ákærðu og ráðist að honum með höggum og spörkum.  Því næst hafi þeir ráðist að E og er ákærði Tindur ákærður fyrir að hafa ráðist að E með hnífi eða sveðju og höggvið ítrekað í höfuð hans og líkama.  Þá er ákærði Tindur einnig ákærður fyrir hættulega líkamsárás með því að hafa veitt F högg með umræddum hnífi eða sveðju þegar F hafi reynt að verja E fyrir atlögu Tinds.  Að lokum er ákærði Tindur ákærður fyrir fíkniefna- og vopnalagabrot og hefur hann játað sök er það varðar.            

Tilkynning barst frá fjarskiptamiðstöð til lögreglunnar kl. 01:09 umrædda nótt um að D væri staddur á Skógarhæð í Garðabæ og hefði orðið fyrir líkamsárás.  Lögreglan fór á vettvang og fékk upplýsingar um að E hafi einnig orðið fyrir líkamsárás.  Lögreglan fór á vettvang þeirrar árásar við Bæjargil og mátti þar sjá blóðpolla og blóðslettur á víð og dreif í gras, gangstétt og á götu.  Búið var að ganga á með miklum skúrum og hvassviðri.  Ljóst var nú orðið að E hafi orðið fyrir alvarlegri líkamsárás og var því ákveðið að fara í húsleit að Bæjargili [...]. Fengin var aðstoð frá sérsveit ríkislögreglustjóra til þess að handsama meinta gerendur og koma í veg fyrir spillingu sakargagna.  Ákærðu voru allir handteknir að Bæjargili [...] þar sem um 30 manns voru í samkvæmi og fór þar fram húsleit.  Sporhundur var fenginn til aðstoðar við leit að sveðju eða stórum hnífi en sú leit bar ekki árangur. Flokkur lögreglumanna var fenginn til að leita daginn eftir atburðinn og eins næsta dag. Var farið í öll hús í hverfinu, bankað upp á og fengin heimild til að leita á lóð og í ruslatunnum. Þessi leit bar ekki árangur.  Þá var einnig gerð húsleit á heimili ákærða Tinds að Sunnuflöt 39, Garðabæ. Við leitina fundust ætluð fíkniefni og í bifreið ákærða Tinds fannst fjaðurhnífur í hólfi milli framsæta. Á heimili ákærða Z var hald lagt á sveðju sem geymd var í læstum vopnaskáp í eigu föður Z.  

Í fyrstu skýrslutöku hjá lögreglu skýrði ákærði Tindur svo frá að hann viti ekkert um hvað sé verið að saka hann um.  Hann hafi ekki lent í neinum átökum kvöldið áður og þá viti hann ekkert um blautar gallabuxur og bol sem fundist hafi á heimili ákærða Z. Tindur var yfirheyrður tveimur dögum síðar hjá lögreglu og svaraði hann þá á sama hátt, að hann kannaðist ekki við að hafa lent í neinum slagsmálum.  Í fjórðu yfirheyrslu hjá lögreglu óskaði Tindur eftir að breyta fyrri framburði sínum.  Kvaðst hann nú hafa verið í samkvæmi heima hjá ákærða Z að Bæjargili [...] umrætt kvöld.  Hann hafi orðið var við einhverjar deilur milli D og ákærða Helga Guðmundssonar.  Hins vegar hafi hann ekki orðið var við nein átök milli þeirra.  D hafi síðan farið út úr húsinu og Helgi á eftir honum.  Hann og Z  hafi fylgt á eftir auk þess sem F, kunningi D, hafi einnig fylgt með.  D hafi hlaupið út botnlangann og til hægri norður Bæjargilið að hringtorgi sem þar sé.  Þar hafi Z náð D og Helgi komið fljótlega að.  Tindur kvaðst hafa séð D detta og Helga og Z eitthvað vera að „ræða“ við hann.  Í þann mund sem Tindur hafi komið á vettvang hafi D hlaupið í burtu.  F hafi verið að reyna að stilla til friðar en mikið rifrildi hafi verið milli D annars vegar og Helga og Z hins vegar. 

Þeir þremenningarnir, ákærðu Helgi, Tindur og Z, hafi nú gengið heim á leið og þá mætt E sem hafi verið í mjög æstu skapi.  E hafi spurt þá hvort þeir hafi verið að lemja vin hans og í framhaldi af því hafi E ýtt eða kýlt Z.  Þá strax hafi þeir þremenningar allir ráðist að E.  Kvaðst Tindur hafa kýlt E nokkrum sinnum í höfuðið og búkinn auk þess sem hann hafi reynt að fella E með því að grípa í hann.  Hann kvaðst hins vegar ekki vita hvað Z og Helgi hafi gert.  F hafi verið kominn á vettvang og hafi hann reynt að ganga á milli þeirra og stöðva slagsmálin.  Að lokum hafi E fallið í götuna og þá hafi þeir stöðvað slagsmálin og gengið heim til Z.  Þegar hann hafi verið kominn aftur í samkvæmið heima hjá Z hafi hann tekið eftir því að blóð hafi verið á fötum hans.  Kvaðst Tindur hafa reynt að skola blóðið úr en síðan sett fötin í plastpoka og inn í fataskáp hjá Z og tekið föt frá Z og klætt sig í þau.  Eftir það hafi hann kallað í H, félaga sinn, sem hafi verið í samkvæminu og beðið H um að klippa sig.  Algengt sé að hann sé klipptur í samkvæmum.  Tindur kvaðst ekki hafa verið með nein eggvopi, né vita til að Z eða Helgi hafi verið með slík vopn.  Hann gat enga skýringu gefið á því hvers vegna E hafi blætt svona mikið.  Taldi hann að E hafi fengið blóðnasir. 

Fyrir dómi skýrði ákærði Tindur svo frá að hann hafi setið inni í eldhúsi að Bæjargili [...] og séð er D og Helgi voru að rífast í anddyrinu.  Þetta rifrildi þeirra hafi borist út á stétt og hafi hann farið á eftir þeim.  Kvaðst hann hafa verið að handleika hníf í eldhúsinu og hafi hann ómeðvitað gripið hann með sér þegar hann hafi staðið upp og fylgt þeim eftir.  Þegar hann hafi komið út hafi hann séð D hlaupa í burtu og Helga og Z á eftir honum.  Tindur kvaðst hafa farið á eftir þeim og séð D falla í jörðina við endann á Bæjargilinu þar sem hringtorg sé.  Þegar hann hafi komið að þeim hafi D staðið upp og hlaupið í burtu.  F hafi komið að um svipað leyti.  Ekki kvaðst Tindur hafa séð Helga og Z lemja eða sparka í D. Þegar þeir hafi verið að ganga heim hafi E komið á móti þeim og verið æstur.  Hafi hann byrjað að rífast við þá og kýlt Z.  Við það hafi átök byrjað.  Kvaðst Tindur hafa slegið til E en ekki áttað sig á því að hann hafi verið með hníf í hendinni.  Þegar hann hafi séð blæða úr E hafi hann strax hætt og gengið í átt að Bæjargili [...].  Tindur kvað vini E hafa komið á bíl á eftir þeim og lagt bílnum alveg við hliðina á þeim stað er átökin hafi farið fram.  Tindur kvað F hafa reynt að stilla til friðar og hafi enginn lamið hann.  Þegar hann hafi verið kominn aftur í samkvæmið hafi hann séð blóð á fötum sínum og farið inn á baðherbergi og reynt að sprauta vatni á þau og síðan hafi hann sett fötin í poka og fengið lánuð ný föt úr fataskáp Z.  Þá hafi hann látið klippa sig en það hafi hann oft gert áður í samkvæmum.  Tindur kvaðst hafa fleygt hnífnum frá sér rétt hjá átakastaðnum og hafi hann fleygt honum inn í garð við hús við Bæjargil.  Hnífinn hafi hann tekið úr eldhúsinu eins og áður sagði og hafi þetta verið stór eldhúshnífur.  Ekki kvaðst ákærði Tindur hafa séð sveðju þá sem haldlögð var við rannsókn málsins og fannst að Bæjargili [...].  Ekki mundi ákærði Tindur eftir að hafa otað hnífnum að D fyrir utan húsið að Bæjargili [...].

Hjá lögreglu skýrði ákærði Helgi Guðmundsson svo frá að hann hafi verið í samkvæmi heima hjá Z umrætt kvöld að Bæjargili [...] í Garðabæ.  Kvaðst hann hafa tekið eftir D í samkvæminu og hafi honum verið illa við D vegna þess sem D hafi einu sinni gert honum.  Hafi hann eitthvað farið að rífast við D og hafi það endað með því að D hafi hlaupið út úr húsinu.  Ekki mundi Helgi hvort hann hafi kýlt D þegar þeir voru að rífast í húsinu.  Hann mundi að hann hafði hlaupið á eftir D þegar út var komið.  Þá mundi D eftir því að E, vinur D, hafi komið og verið eitthvað pirraður yfir því að Helgi skyldi vera að rífast við D.  Kvaðst Helgi muna eftir því að hafa slegið E í líkamann en mundi ekki hvar höggið hafði lent.  Þá kvaðst Helgi muna eftir að hafa sparkað tvisvar í D þegar hann var að falla í jörðina.  Helgi mundi að Tindur og Z hafi báðir kýlt E.  Hann mundi að hann hafi séð glitta í hníf í átökunum en gat ekki gert sér grein fyrir því hver hafði verið með hnífinn.  Þeir félagar hafi síðan áttað sig á að nóg væri komið af slagsmálum og þá farið aftur í samkvæmið. Helgi var yfirheyrður aftur hjá lögreglu.  Sagði hann þá að hann myndi ekki eftir að hafa slegið eða sparkað í D og myndi ekki heldur eftir því að Z eða Tindur hafi gert það.  Varðandi E kvað Helgi Z og Tind hafa ráðist að E.  Hann mundi þó eftir að hafa kýlt E einu sinni og að hann hafi sparkað tvisvar sinnum í fætur E.  Fyrir dómi skýrði Helgi svo frá að hann hafi aldrei séð Tind með hníf í umrætt sinn.  Eftir að hafa slegist við D hafi þeir félagar gengið til baka að Bæjargili [...] og þá mætt E sem hafi farið að rífast við þá.  Hann kvaðst ekki muna neitt eftir átökunum en taldi þó að hann hafi sparkað einu sinni í fætur E.

Ákærði Z skýrði svo frá hjá lögreglu að hann hafi verið með samkvæmi heima hjá sér umrætt kvöld.  Einhver hafi kallað til hans og sagt honum að gestir hans væru fyrir utan húsið í slagsmálum.  Þegar hann hafi komið út hafi hann séð Helga vera að rífast við einhvern strák.  Þessi strákur hafi slegið Helga og hlaupið síðan út götuna og til hægri norður Bæjargilið.  Kvaðst Z hafa hlaupið á eftir stráknum, náð honum og stöðvað hann og spurt hann hvað það ætti að þýða að vera með „vesen“.   Helgi hafi komið og D og Helgi eitthvað ýtt í hvorn annan. Hann mundi ekki eftir fleirum þarna á staðnum.  Hann og Helgi hafi gengið til baka og verið á heimleið þegar þeir hafi mætt F og E.  E hafi ætlað að berja Helga og kvaðst Z hafa gengið á milli.  E hafi þá ýtt honum og hann ýtt á móti.  Síðan hafi E kýlt hann og hann kýlt til baka.  Þetta hafi endað með slagsmálum.  Z kvaðst allt í einu hafa áttað sig á því að hann var allur blóðugur.  Honum hafi brugðið svo við þetta að hann hafi hætt slagsmálunum.  Hann kvaðst ekki hafa tekið eftir Tindi fyrr en slagsmálin hafi verið yfirstaðin.  Ekki hafi hann séð hvort Tindur hafi verið með eggvopn á sér. Fyrir dómi skýrði ákærði Z á sama veg frá.  Hann kvaðst ekki hafa haft lykil að byssu- og vopnaskáp föður síns.  Honum var sýnd í réttinum sveðja sú sem haldlögð var að Bæjargili [...] og kvaðst Z aldrei hafa séð þessa sveðju.

D skýrði svo frá hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hafi verið á rúntinum með E, V11, F og V12. Þau hafi frétt af samkvæmi í Bæjargilinu og ákveðið að fara þangað.  Þau hafi verið búin að vera um það bil 10 mínútur í samkvæminu þegar ákærði Helgi hafi farið að rífast við hann.  Hafi Helgi talið að D hafi einhvern tímann tilkynnt lögreglu um að Helgi væri að aka ölvaður.  Engin fótur hafi hins vegar verið fyrir þessum ásökunum og kvaðst D hafa reynt að segja Helga það.  Stuttu síðar kvaðst D hafa verið að tala við einhvern og þá hafi hann allt í einu fengið hnefahögg í andlitið frá Helga. Hafi höggið verið fast og lent á kinnbeini hans og hann kastast til en ekki dottið.  Hann kvaðst þá hafa ákveðið að láta gott heita og drífa sig í burtu úr samkvæminu.  Hafi hann strax farið út í anddyri hússins og verið að klæða sig í skó þegar Helgi hafi komið og sagt honum að hypja sig í burtu.  Með Helga hafi verið Tindur, áberandi krullhærður með mikið ljósbrúnt hár, og hafi hann dregið upp einskonar sveðju úr buxnastreng sínum.  Hafi sveðjan verði með bognu og breiðu blaði, um það bil 30 sm langt.  Hjá lögreglu skýrði D svo frá að Tindur hafi otað sveðjuoddinum að honum án þess þó að stinga hann.  Oddurinn hafi komið mjög nálægt honum og hafi honum fundist sér ógnað. Fyrir dómi dró D þennan framburð til baka og taldi eftir á að hyggja að honum hafi ekki staðið ógn af þessu athæfi Tinds heldur hafi honum frekar virst Tindur vera að leggja áherslu á orð sín þegar hann hafi sagt honum að „drulla sér út“. Hann kvaðst hafa hraðað sér út úr húsinu og ætlað á brott.  Helgi hafi hins vegar elt hann og ýtt við honum.  D kvaðst þá hafa ýtt á móti og við það hafi hann misst hálfslíters fantaflösku úr poka sem hann hafi verið með.  Hann hafi nú gengið á brott en Helgi hent fantaflöskunni í bakið á honum.  D kvaðst nú hafa flýtt sér í burtu og hafi hann talið að máli þessu væri lokið.  Helgi hafi hins vegar komið hlaupandi á eftir honum. Þá hafi hann séð Tind koma aðvífandi.  Hann hafi nú tekið til fótanna og hlaupið talsverðan spöl og talið sér óhætt er hann hafi verið kominn að hringtorgi við Bæjargil.  Þá hafi hins vegar Z komið óvænt að honum og tekið hann hálstaki og dregið hann niður í götuna.  Helgi og Tindur hafi komið að um svipað leyti og byrjað að sparka í hann þar sem hann lá í götunni.  Taldi hann að Z hafi einnig sparkað í sig þótt hann gæti ekki fullyrt það.  Hann hafi ekki séð nákvæmlega hver hafi gert hvað þar sem hann hafi lagst í fósturstellingu og haldið um höfuð sér til að hlífa því.  Þeir hafi  látið spörkin dynja á höfði hans svo og baki og annars staðar á skrokkinn, alls 9-10 spörk að hann taldi.  Félagi hans F hafi komið fljótlega og tekist að fá þremenningana til að hætta þessu.  Þeir hafi hætt og farið að ræða við F og hann notað þá tækifærið og staðið upp og hlaupið á brott.  Kvaðst hann hafa falið sig í hverfinu og hringt á lögreglu skömmu síðar. 

E skýrði svo frá hjá lögreglu og fyrir dómi að hann hafi verið í bifreið frænku sinnar umrætt kvöld, V11, og með þeim hafi verið félagar hans, D, V12 og F.  Þau hafi öll farið í samkvæmi að Bæjargili [...] í Garðabæ.  E kvaðst hafa farið inn í stofu á jarðhæð hússins og sest þar í sófa.  Hafi hann sest hjá ákærða Z og þeir tekið tal saman.  Hann taldi að hann hafi verið um það bil 7 mínútur í húsinu þegar hann hafi farið inn á baðherbergi og þá heyrt einhver læti frammi í anddyri.  Hann kvaðst hafa þekkt rödd D en ekki heyrt orðaskil.  Hann kvaðst hafa farið að kanna hvað væri á seyði og séð D utandyra og tvo eða þrjá stráka að rífast við hann.  Hann kvaðst hafa þekkt Helga og Tind þarna fyrir utan og hafi Tindur verið með sveðju í höndum sem hann hafi sveiflað í kringum sig eins og brjálæðingur.  Hann kvaðst hafa beðið D um að bíða eftir sér meðan hann færi inn í húsið að ná í bjórinn sinn.  Hafi hann gert það og hlaupið út aftur.  Þá hafi allir verið horfnir en V11 verið í bíl fyrir utan ásamt V12.  Hann minnti að hann hafi einnig séð F fyrir utan húsið.  E kvaðst nú hafa hlaupið upp götuna til að athuga með D og þá séð hvar Tindur, Helgi og Z komu á móti sér.  Tindur hafi þá enn verið með sveðjuna í höndunum.  Hann kvaðst hafa spurt strákana hvað gengi á.  Þá hafi Z kýlt hann í andlitið með krepptum hnefa.  Hann kvaðst síðan hafa fengið þungt högg í höfuðið og telur að Tindur hafi veitt honum það með sveðjunni.  Meira muni hann ekki eftir atvikum nema að einhvern tímann meðan á árásinni stóð og hann legið í götunni hafi hann séð Helga reiða fót sinn til höggs í andlit honum og fundið höggið koma.  Þá kvaðst hann muna eftir að hafa staðið upp og sest inn í bíl hjá V11 sem hafi ekið honum á slysadeild.  E var sýnd sveðja sú sem haldlögð var á heimili Z og kvaðst hann halda að hún væri stærri en sú sem Tindur hafi verið með í umrætt sinn.

V11 skýrði svo frá hjá lögreglu og fyrir dómi að hún hafi komið í samkvæmið að Bæjargili [...] með vinum sínum, E, F, V12 og D.  Hún kvaðst hafa heyrt og séð þegar ákærði Helgi hafi farið að áreita D rétt fyrir innan anddyrið og hafi Helgi slegið til D en ekki hitt að hún taldi.  F hafi þá reynt að róa Helga og Helgi róast um stund.  Stuttu síðar hafi hún séð annan pilt, sem hafi verið nefndur Tindur, en hann hafi verið með mikið dökkt krullað hár og í ljósbrúnum bol.  Hafi Tindur haldið á sveðju og hafi hann sveiflað sveðjunni og hoggið til D.  D hafi hins vegar náð að vinda sér undan.  V11 kvað D hafa hlaupið út þegar þetta hafi gerst og kvaðst hún hafa náð í F sem  hafi farið að ræða við Tind.  Helgi, Tindur og sá þriðji  hafi farið á eftir D og hafi þeir lent í slagsmálum.  Hún kvaðst hins vegar hafa farið upp í bifreið sína og hafi V12 setið við hlið hennar í farþegasæti.  E hafi komið út en farið aftur inn til að ná í bjórinn sinn og sett bjórinn síðan inn í bifreiðina.  Síðan hafi E hlaupið á eftir þeim D, F, Tindi, Helga og öðrum sem hún hafi ekki þekkt.  Þau hafi haldið á eftir strákunum á bifreiðinni og hafi hún lagt bifreiðinni rétt fyrir aftan þá þar sem E var kominn í slagsmál við Tind, Helga og þann þriðja.  Hún kvaðst hafa séð Tind höggva til E með sveðjunni en F staðið á milli og reynt að hindra Tind.  Tindur hafi auðsjáanlega ekki ætlað að höggva til F heldur beygt sig yfir F til að koma sveðjuhöggum á E.  E hafi að lokum dottið í grasið þar sem Tindur, Helgi og hinn óþekkti hafi sparkað í hann þar sem hann hafi legið í grasinu.  Eins hafi hún séð Tind höggva með sveðjunni í E þar sem hann lá varnarlaus í grasinu.  F hafi reynt að ýta strákunum í burtu en ekki mátt sín mikils gegn þeim.  V11 sagði að E hafi að sjálfsdáðum staðið upp og sest inn í bílinn og hún ekið honum beint upp á slysadeild.  V11 sagði að sveðjan sem Tindur hafi verið með hafi verið um 50 sm löng með um 40 sm löngu blaði.  Hún hafi verið með bognu blaði eins og sveðja sem notuð sé í arabalöndum.  Henni var sýnd í réttinum hin haldlagða sveðja en hún treysti sér ekki til að segja til um hvort að um sömu sveðju væri að ræða. 

V12 sagði hjá lögreglu og fyrir dómi að fljótlega eftir að þau hafi verið komin í samkvæmið hafi hann tekið eftir að Helgi var að tala við F.  Allt í einu hafi hann séð Helga slá til D sem hafi staðið fyrir aftan F.  Þetta hafi átt sér stað í forstofu hússins.  Ekki kvaðst V12 hafa séð hvort Helga hafi tekist að kýla D eða hvort D hafi tekist að koma sér undan högginu.  F hafi nú tekist að róa Helga og D verið kominn að útidyrunum.  Þá hafi piltur sem nefndur sé Tindur allt í einu komið innan úr húsinu með arabasveðju við belti sér vinstra megin.  Kvaðst V12 hafa séð Tind draga sveðjuna upp úr slíðri og hafi hann otað oddinum á sveðjunni að andliti D þar sem hann hafi staðið í anddyrinu.  Ekki kvaðst V12 hafa tekið eftir hvort Tindur hafi hoggið með sveðjunni til D.  V11 hafi kallað á F sem hafi komið strax og gengið á milli Tinds og D.  V12 kvaðst hafa séð D vera kominn út á götuna fyrir framan húsið og Helgi, Tindur og F fylgt honum á eftir.  Helgi hafi ógnað D og D hörfað undan.  D hafi nú hlaupið á brott og Helgi og Tindur á eftir ásamt öðrum strák sem V12 kvaðst ekki þekkja en hafa heyrt síðar að væri nefndur Z.  E hafi svo komið út og hlaupið á eftir þeim.  V12 kvaðst hins vegar hafa sest upp í bifreiðina hjá V11 og þau ekið á eftir strákunum.  V11 hafi lagt bílnum rétt hjá F, Helga, Tindi og Z.  Hann hafi fylgst með í gegnum afturrúðuna hvað fram fór.  E hafi komið hlaupandi að þeim.  V12 sagði að þeir hafi allir verið að rífast eitthvað og E ýtt í einhvern þeirra þriggja eins og hann vildi koma þeim frá.  Þá hafi Tindur ráðist að E og hafi Tindur verið kominn með sveðjuna í hægri hendi og hoggið með henni að E.  F hafi hins vegar reynt að ganga í milli.  Allt í einu hafi Tindur skellt E ofan á afturenda bílsins sem hann og V11 voru í og slagsmálin síðan færst upp á grasið aftur og E þá legið í grasinu.  Sagðist V12 hafa séð þegar Tindur, Helgi og Z hafi sparkað í E.  Hafi þeir allir sparkað í E þar sem hann hafi legið óvígur í grasinu.  Hafi Tindur staðið við höfuð E en hann muni ekki hvoru megin Helgi og Z hafi staðið.

Vitnið F skýrði svo frá hjá lögreglu og fyrir dómi að fljótlega eftir að þau hafi verið komin inn í húsið að Bæjargili [...] hafi Helgi farið að tala við hann um atburð sem átt hafi sér stað fyrir nokkru síðan.  Stuttu síðar hafi Helgi farið að rífast við D um sama mál.  Allt í einu hafi hann séð Helga kýla D en F kvaðst hafa staðið á milli þeirra.  F kvaðst hafa dregið Helga í burtu og D forðað sér út úr húsinu.  Helgi hafi hins vegar rokið út á eftir honum.  Hann hafi séð Helga, Tind og Z koma út og Tind með sveðju eða stóran hníf.  Tindur hafi otað hnífnum að D.  D hafi hörfað undan og að lokum hlaupið í burtu.  Þremenningarnir hafi þá hlaupið á eftir D.  F kvaðst hafa hugsað sig stutta stund um hvort hann ætti að fara inn og ná í skóna sína en ákveðið að hlaupa frekar af stað á eftir þeim.  Hann kvaðst hafa náð Helga, Tindi og Z þar sem þeir voru búnir að ná D við hringtorgið í Bæjargili.  Hjá lögreglu sagði hann að þeir hafi verið búnir að skella D í jörðina og staðið yfir honum og sparkað í hann. Fyrir dómi breytti F framburð sínum að því leyti að hann kvaðst núna ekki muna þetta atriði nákvæmlega. Myndi hann aðeins nú að ákærðu hefðu allir staðið yfir D er hann hafi komið að og allir verið á iði eins og hann orðaði það. F kvað D hafa staðið á fætur og forðað sér.  F kvaðst nú hafa gengið til baka áleiðis að heimili Z og hafi Helgi, Z og Tindur fylgt honum.  Hann kvaðst hafa mætt E á leiðinni og séð hvar V11 kom akandi á eftir E.  E hafi farið að kalla til þremenninganna hvers vegna þeir hafi verið að berja D.  Helgi, Tindur og Z hafi svarað fyrir sig og hafi það endað með rifrildi.  F kvaðst hafa reynt að fá E með sér inn í bílinn til V11 en hann hafi hins vegar orðið æstur og ekki viljað fara inn í bílinn.  Helgi, Tindur og Z hafi nú ráðist að E og hafi hann reynt að verja hann eftir bestu getu en ekki mátt sín mikils.  F kvaðst hafa séð Tind vera kominn með þá sömu sveðju og hann hafi verið með fyrir framan heimili Z.  Hafi Tindur ítrekað hoppað um og hoggið með sveðjunni til E.  Kvaðst F hafa reynt að verja E fyrir sveðjuhöggunum og við það skorist á löngutöng og vísifingri vinstri handar auk þess sem nögl á baugfingri hafi skorist.  Þremenningunum hafi tekist að sparka E niður og hafi hann legið á jörðinni í fósturstellingu til að hlífa sér við spörkum þeirra.  Ekki kvaðst F hafa séð hvort Tindur hafi hoggið með sveðjunni til E eftir að hann féll í jörðina.  Allt í einu hafi þremenningarnir hætt og E þá staðið upp og farið inn í bifreiðina til V11 sem hafi ekið honum beina leið upp á slysadeild. 

V13, móðir ákærða Z,  kvaðst ekki hafa orðið vör við að það vantaði hnífa úr eldhúsinu hjá sér að Bæjargili [...].

V14, faðir ákærða Z, sagði að vopnaskápur hans í bílskúrnum að Bæjargili [...]sé ætíð læstur og hann einn með lykil að honum.

Þá komu fyrir dóminn og gáfu skýrslur Claudía Ósk Hoeltej, taugasálfræðingur, lögreglumennirnir Guðjón Rúnar Sveinsson, Helgi Gunnarsson, Kristján Ó. Guðnason, Bjarni Bjarnason og Björgvin Sigurðsson. Læknarnir Theódór Friðriksson og Björn Pétur Sigurðsson gáfu skýrslu og staðfestu framlögð læknisvottorð. Að lokum gaf skýrslu fyrir dómi V15 en hann var staddur í samkvæminu að Bæjargili [...] í umrætt sinn.

Vitnið D fór á slysadeild Landspítalans í Fossvogi.  Í læknisvottorði Theodórs Friðrikssonar frá 6. október 2005 segir meðal annars:

 „Við skoðun er hann með áverka í andliti, 1/2 cm grunnan skurð á vi. augabrún. Hrufl undir vi. auga u.þ.b. 1/2 cm í þvermál. Það eru þreifieymsli í kringum þessi sár og roði en ekki mikil bólga. Á baki vi. megin fyrir neðan herðablað er u.þ.b. 10 cm löng grunn rispa. Á vi. öxl er lítið hrufl og í vi. handarkrika er 10-15 sm löng grunn rispa. Á hæ. öxl er u.þ.b. 1 cm stórt hruflsár og mar þar í kring. Á hæ. olnboga eru rispur og u.þ.b. 1 1/2 cm skurður sem nær rétt í gegnum húðina. Sár á olnboga var saumað með 2 sporum. Það voru ekki önnur sár sem að kröfðust neinna aðgerða. Það var enginn brotgrunur neins staðar.

Greining SBD var sár í andliti, mar í andliti, mar og sár á baki, mar og sár á öxl, sár á olnboga, sár á hendi.

Áverkar D eru samkvæmt áverkalýsingu að hann hafi orðið fyrir áverkum á hendur og axlir þegar hann reyndi að verja sig. Þessir áverkar ættu að gróa og jafna sig á tíu dögum til hálfum mánuði. Ekki er reiknað með varanlegum afleiðingum.“

Í læknisvottorði sama læknis frá 6. október 2005 vegna E segir meðal annars: 

„Við skoðun þá er E með eðlilega meðvitund. Hann er alblóðugur í andliti og föt hans eru einnig blóðug. Hann er með þverstætt sár hæ. megin á hvirfli framarlega. Það nær niður undir kollvik hæ. megin og heldur áfram grunn rispa niður á andlitið. Þessi skurður er ca 7 cm langur. (Sést á meðfylgjandi myndum nr. 1,2 og 3). Á hnakka aðeins vi. megin við miðlínu er 9-10 cm bogalaga skurður. (Sést á myndum nr. 4, 5 og 6 meðfylgjandi). Þessir skurðir eru báðir alveg gegnum höfuðleðrið, djúpir og sést sprunga í höfuðkúpu í botni beggja þessara sára. Hann er svo með grunnan skurð í hnakkagróf, (sést á meðfylgjandi myndum nr. 7 og 8). Þessi skurður er 4-5 cm og fremur grunnur flipalaga skurður og nær ekki djúpt inn í holdið.

Eftir að hann hefur verið þrifinn þá kemur í ljós að hann er með áverka í andliti þá hugsanlega eftir högg. Innan á neðri vör hæ. megin er lítið sár og hann er bólginn og svolítið aumur á bæði efri og neðri vör þá hugsanlega eftir einhvers konar högg.

Á efra augnloki hæ. megin er hruflsár og væg bólga, eymsli og mar umhverfis augað. Ekki virðast vera aðrir áverkar í andliti. (Þessir áverkar sjást á meðfylgjandi myndum nr. 9 og 10). Á hæ. upphandlegg eru tvær grunnar stuttar rispur sem rétt ná í gegnum húðina en valda ekki dýpra sári.

Þær eru sitt hvoru megin við húðflúr sem hann er með á öxlinni. Ofarlega á baki er þverstæð fast að því 20 cm löng grunn húðrispa. Neðar á bakinu er svipuð rák en það er einungis hrufl í húðina ca 1 cm breitt og eymsli þar í kring. (Þessir áverkar sjást á mynd nr. 13 og 14).

Á hæ. hendi er hann með mikinn áverka. (Sést á myndum 11 og 12). Þetta gæti hugsanlega verið eftir að hann hafi borið fyrir sig hendi eða reynt að verja sig og fengið högg af þungum hníf eða sveðju. Þetta er sár sem byrjar upp við grunnlið vísifingurs og liggur upp eftir greipinni upp undir liðamótin milli handarkjúku I og II. Eins og sést á meðfylgjandi myndum er þetta mjög djúpt sár. Samkvæmt nótu handaskurðlæknis sem að síðar gerði að þessu sári þá voru þarna sundur þumalvöðvar, einnig fingurtaugar og slagæðar í fingurinn.

Miðað við höfuðáverka verður að telja líklegt að um frekar þungt og beitt verkfæri hafi verið að ræða þar sem að sár sést í beinhimnu og höfuðkúpa sprungin undir.

Það var fengin sneiðmynd af höfði sem að sýndi sprungur í höfuðkúpu á tveimur stöðum þar sem að sárin voru. Einnig var örlítil blæðing á yfirborði heilans sem að sennilega er bein afleiðing af höfuðkúpubrotinu en ekki um að ræða alverlegan innankúpu áverka. Bæði sárin á höfði og sárið á hnakkanum voru saumuð saman á SBD. Það var búið um sár á hendi og E var lagður inn á skurðdeild til væntanlegrar aðgerðar á hendinni næsta dag. Björn Pétur Sigurðsson handaskurðlæknir gerði síðan að þessu sári á skurðstofu næsta dag og þar mun hafa komið í ljós eins og áður er getið að um var að ræða áverka á fingurtaug, slagæðar og vöðva þumalfingurs.

Greiningar SBD voru höfuðhögg, sár á höfði, höfuðkúpubrot, mar í andliti, sár á hendi, sár í munnholi, sár við auga, sár á öxl, sár á baki, mar á baki og mar í andliti.

Reikna má með að sár á höfði grói á tíu dögum til tveimur vikum. Það tekur hins vegar ör u.þ.b. sex mánuði til ár að öðlast sitt endanlega útlit. Höfuðkúpubrot ætti að gróa á nokkrum vikum. Þar sem um var að ræða áverka á taugar og vöðva í hendinni er mögulegt að þar sé um að ræða einhvern varanlegan skaða en væntanlega mun tíminn leiða slíkt í ljós.“

Björn Pétur Sigurðsson bæklunar- og handarskurðlæknir hefur annast E eftir líkamsárásina.  Í vottorði hans frá 4. nóvember 2005 segir meðal annars:  „Á skurðstofu var gerð aðgerð á hægri hendi í svæfingu. Höndin var skorin milli þumalfingurs og vísifingurs næstum niður að úlnlið. Smávöðvar sem stýra hreyfingu þumals og vísifingurs voru ýmist að öllu leyti eða að miklu leyti sundurskornir. Taugin sem sér þumalhlið vísifingurs fyrir skyni var skorin sundur á tveimur stöðum. Stór slagæð til vísifingurs var skorin í sundur en fingurinn hélt lífi á stórri slagæð hinum megin á fingrinum. Vöðvar, sinar og taug voru saumuð saman. Höndin var að lokum gipsuð. Sjúklingur fór síðan heim eftir skamma veru á legudeild.

Sjúklingur kom til umbúðaskipta 12.10.2005 á göngudeild G3 LSH í Fossvogi. Sárin á höfði og hægri hendi voru í góðum gróanda án sýkingamerkja. Saumar voru teknir. Hann fékk nýtt gips á hægri höndina. Gipsið var tekið af hægri hendi 26.10. Þá hófst sjúkraþjálfun á hendinni.

Horfur hans eru á þessari stundu þær að líklega mun hann ekki hljóta varanleg mein vegna sprunganna í höfuðkúpu eða blæðingar á yfirborði heila. Þetta er þó óvíst og líklegustu eftirstöðvar yrðu þá höfuðverkur af og til. Það er ljóst að hægri höndin mun aldrei verða söm og áður. Þar sem svo mikill áverki varð á smávöðvum þumals og vísifingurs er líklegt að fínhreyfingar á þessum fingrum verði síðri en áður. Taugin til þumalhliðar vísifingurs var sem áður segir í sundur á tveimur stöðum og ólíklegt að skynjun á þeirri hlið vísifingurs verði eins og áður. Algeng afleiðing taugaáverka á hendi er kuldaóþol í einhver ár eða um alla framtíð.

Sjúklingur verður áfram í eftirliti handarskurðlækna á LSH í Fossvogi enn um sinn.“

Niðurstaða.

1. Í þessum þætti málsins er ákærði Helgi Guðmundsson ákærður fyrir að hafa kýlt D með krepptum hnefa í andlitið svo af hlaust hrufl og bólga yfir vinstra kinnbeini.

Fram hefur komið í málinu að vitnin D, E, V11, F og V12 komu saman í samkvæmið að Bæjargili [...] í Garðabæ og höfðu ekki dvalið þar lengi þegar í ljós kom að Helga var eitthvað uppsigað við D.  F gekk á milli og taldi að sér hefði tekist að róa Helga.  Þá sló Helgi skyndilega til D sem hafði staðið fyrir aftan F í forstofunni.  D hefur borið að hann hafi fengið bylmingshögg og kastast til en ekki dottið.  Höggið hafi lent á vinstra kinnbeini.  Ákærði Helgi mundi ekki hjá lögreglu hvort hann hefði kýlt D en fyrir dómi viðurkenndi hann það.  V11 sá Helga slá til D en var ekki viss um hvort höggið hitti hann.  F sá Helga einnig slá til D en kvaðst ekki hafa séð hvort höggið lenti á D eða hvort það geigaði. 

Samkvæmt framansögðu telst komin fram sönnun fyrir því að Helgi hafi slegið til D með þeim afleiðingum sem í ákæru greinir.  Ákærði Helgi hefur því gerst sekur um líkamsárás í umrætt sinn og varðar brot hans við 1. mgr. 217. gr almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981.

2. Ákærða Tindi er gefið að sök að hafa ógnað D með stórum hnífi eða sveðju með því að ota vopninu að D þar sem hann var staddur í anddyrinu á Bæjargili [...] og með þessari háttsemi vakið hjá D ótta um líf sitt.  Fyrir dómi dró D framburð sinn hjá lögreglu til baka um að honum hafi staðið ógn af þessari háttsemi Tinds.  Sagði hann fyrir dómi að eftir á að hyggja hafi hann ekki upplifað þennan atburð í þá veru heldur hafi Tindur aðallega notað vopnið með því að leggja áherslu á orð sín þegar hann hafi sagt honum  „að drulla sér út “. 

Í ljósi þessa breytta framburðar ber að sýkna ákærða Tind af þessum lið ákæru fyrir brot gegn 233. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

3. Ákærðu Helga, Tindi og Z er öllum gefið að sök að hafa ráðist að D við hringtorg við enda Bæjargils í Garðabæ.  Ákærða Z er gefið að sök að hafa tekið D hálstaki og snúa hann niður og ákærðu öllum gefið að sök að hafa sparkað í D þar sem hann lá í götunni.

Framburður ákærðu er rakinn hér að framan.  Tindur neitaði alfarið sök og sagðist aðeins hafa séð Z ná D og hafi Z og Helgi farið að ,,ræða við D”.  Þegar Tindur hafi komið á vettvang hafi D hlaupið í burtu.  Fyrir dómi kvaðst Helgi muna lítið frá þessum atburði en hafði sagt hjá lögreglu að hann hafi líklegast sparkað tvisvar í D er hann var að falla í jörðina.  Z mundi að hann hefði hlaupið á eftir D og „náð“ honum.  Hafi hann spurt D hvað það ætti að þýða að vera með „vesen“.  Helgi hafi þá komið og D og Helgi eitthvað ýtt hvor í annan.  Meira hafi ekki gerst og D farið í burtu.

Þessi frásögn ákærðu er mjög ósannfærandi og verður henni vikið að öllu leyti til hliðar enda vandséð hvernig D hlaut áverkana ef ákærðu voru aðeins að spjalla við hann. Verður litið svo á að D hafi verið á flótta undan ákærðu sem veittu honum eftirför en áður hafði ákærði Helgi kýlt D og kastað dós í hann.  Í beinu framhaldi af árásinni hringdi D í neyðarlínu og fór á slysavarðstofu. Samtal D við neyðarlínu var hljóðritað og hefur afrit þess verið lagt fram í málinu. Segir hann þar að þrír hafi ráðist á sig. Fram hefur komið að F hljóp á eftir þeim og hjá lögreglu sagði hann að ákærðu hafi staðið yfir D þegar hann hafi komið á vettvang og verið að sparka í hann. Fyrir dómi treysti F sér ekki til að fullyrða að hann hafi séð ákærðu sparka en sagðist muna að þeir hafi allir staðið yfir D og verið á iði eins og hann orðaði það. D hefur fullyrt að haf séð Tind og Helga sparka í sig en var ekki viss um að hafa séð Z gera það. Þykir því varhugavert að fella sök á ákærða Z og verður hann sýknaður af því að hafa sparkað í D en sakfelldur fyrir að taka D hálstaki og fella hann í jörðina.  Þessi atlaga Tinds og Helga gat verið stórhættuleg en D reyndi að verja líkama sinn með því að hnipra sig saman í fósturstellingu og halda um höfuðið.  Brot ákærðu eru í ákæru réttilega færð undir 1. mgr. 217. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 20/1981. 

4. Í þessum lið ákærunnar er ákærði Tindur ákærður fyrir tilraun til manndráps með því að hafa ráðist að E vopnaður stórum hnífi eða sveðju og höggvið ítrekað í höfuð hans og líkama.

Ákærði neitaði sök hjá lögreglu en fyrir dómi breytti hann framburði sínum og játaði að hafa verið með stóran eldhúshníf er hann réðst á E.  Vitnið F kvaðst hafa séð ákærða Tind hoppa um og höggva ítrekað til E.  Vitnin V11 og V12 voru stödd í bíl rétt hjá þeim stað þar sem árásin var gerð og sáu þau bæði Tind höggva með sveðju eða hnífi  í E.  Þá sáu vitnin alla ákærðu sparka í E þar sem hann lá óvígur í jörðinni.  Ákærði Tindur hefur borið því við að hann hafi ekki fyllilega gert sér grein fyrir að hann hafi verið með vopn í hendinni.  Hafi hann setið í eldhúsinu að Bæjargili [...] og verið að handleika eldhúshníf þegar hann hafi séð fram í forstofu að Helgi var að rífast við D.  Hann hafi ómeðvitað verið með hnífinn í hendinni þegar hann hafi hlaupið út á eftir strákunum.  Þegar hann hafi verið að slást við E hafi hann ekki fyllilega gert sér grein fyrir að hann væri með hættulegt vopn í hendinni. 

Samkvæmt fyrirliggjandi læknisvottorðum er það mat læknis að eggvopni hafi verið beitt með þeirri afleiðingu að E hlaut tvo langa og djúpa skurði á höfði og sprungur í höfuðkúpu.  Þá hlaut hann blæðingu á yfirborði heilans og mikinn skurð á hægri hendi með þeim afleiðingum að í sundur fóru vöðvar, taugar og slagæð í hendinni.

Með vísan til framanritaðs telst sannað að ákærði hafi ráðist að E með þeim hætti sem í ákæru greinir og með atlögu sinni orðið valdur að þeim áverkum sem þar er lýst. 

Af hálfu ákæruvaldsins er því haldið fram að ákærði hafi með árás sinni gerst sekur um brot gegn 211. gr., sbr. 20. gr. almennra hegningarlaga.  Um heimfærslu til refsiákvæðis verður fyrst vikið að því áhaldi sem ákærði beitti við árásina.

Þrátt fyrir mikla leit lögreglu fannst vopnið ekki.  Ákærði kvaðst hafa hent því inn á lóð stutt frá árásarstaðnum.  Í læstri hirslu í bílskúr að Bæjargili [...] var geymd sveðja sú sem hald var lagt á.  Þessi sveðja, sem er nokkuð stór og þung, var sýnd vitnum við aðalmeðferð málsins.  Þau treystu sér ekki til að slá neinu föstu um hvort þessi sveðja væri það vopn sem þau sáu ákærða Tind með. Nokkrum þeirra fannst sveðjan vera stærri en sú sem ákærði hélt á. Er því ekki upplýst í málinu hvaða vopni var beitt.  Tvö vitni sögðu að það hafi líkst arabasveðju en ákærði sagði að það hafi verið stór eldhúshnífur úr eldhúsinu að Bæjargili [...].  Húsmóðirin að Bæjargili [...] kom fyrir dóm og kannaðist ekki við að hnífur hefði horfið úr eldhúsinu hjá henni.  Verður því engu slegið föstu um vopnið en ljóst er þó að það var einhvers konar hnífur af stærri gerð eða sveðja og líklegast með bognu blaði.  Þá taldi læknir líklegt að frekar þungu verkfæri hafi verið beitt þar sem sprunga kom í höfuðkúpu brotaþola E.   

Verður nú vikið að þeirri hættu sem árásin hafði í för með sér og hver tilgangur ákærða hafi verið. Ljóst er að árásin var stórhættuleg.  Samkvæmt læknisvottorði og vitnaframburði lækna hér fyrir dómi mátti ekki miklu muna að ekki færi verr. Tveir skurðir á höfði voru alveg í gegnum höfuðleðrið og sprunga sást á höfuðkúpu undir báðum skurðunum.  Mikill áverki var á hægri hendi.  Var hún skorin á milli þumalfingurs og vísifingurs næstum niður að úlnlið.  Þessi árás ákærða með hættulegu vopni var beinskeitt og án nokkurs réttlætanlegs tilefnis.  Þetta vopn var augljóslega til þess fallið að bana manni og ákærði beitti því að höfði E. Vitni segja að ákærði hafi hoggið með vopninu en ekki beitt því eins og um hníf væri að ræða.  Ákærða hlaut að vera þetta ljóst og réði hending því að ekki hlaust bani af.  Verður samkvæmt þessu litið á atlögu ákærða sem tilraun til manndráps og háttsemi hans talin varða við 211. gr., sbr. 1. mgr. 20. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940.

5. Í þessum lið ákæru er ákærða gefið að sök líkamsárás gegn F með því að veita honum áverka með fyrrnefndu vopni er F reyndi að verja E.  Við þetta hlaut F rispu á vinstra brjósti, skurðsár á löngu töng og vísifingri og skurð á nögl á baugfingri vinstri handar. 

Með vætti vitna, sem rakin eru hér að framan, þykir þessi háttsemi ákærða Tinds sönnuð og varðar brot hans við 2. mgr. 218. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 11. gr. laga nr. 20/1981.          6. Ákærði hefur játað að hafa haft í vörslum sínum 0,28 g af tóbaksblönduðu hassi og svokallaðan ,,butterfly” hníf.  Telst sök hans sönnuð samkvæmt þessum lið ákæru og er brot hans rétt fært til refsiákvæða í ákæru hvað þennan lið varðar.

Refsiákvörðun.

Ákærði Tindur Jónsson er fæddur 1987.  Hann hlaut þann 17. maí 2004 þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm til tveggja ára fyrir líkamsárás, eignaspjöll og fíkniefnalagabrot. Hann er nú að rjúfa skilorð þessa dóms. Ákærði hefur verið fundinn sekur í fyrsta lagi um hættulega líkamsárás gagnvart A, með því að slá hann ítrekað 21. ágúst 2005 með vopni sem á voru einn eða fleiri gaddar.  Í öðru lagi hefur ákærði verið fundinn sekur fyrir að hafa við fimmta mann ráðist að C og slegið hann í höfuðið svo að hann féll í jörðina og fyrir að hafa sparkað í höfuð hans og líkama.  Í þriðja lagi fyrir samskonar brot gegn D, að hafa sparkað í hann þar sem hann lá í götunni.  Í fjórða lagi fyrir tilraun til manndráps með því að hafa ráðist að E með sveðju eða stórum hnífi.  Í fimmta lagi fyrir hættulega árás gegn F er hann reyndi að verja E.  Í sjötta lagi hefur ákærði verið fundinn sekur fyrir brot gegn fíkniefnalöggjöfinni og vopnalögum. 

Sem áður sagði hefur ákærði nú rofið skilorð dómsins frá 17. maí 2004 og verður hann því dæmdur upp og ákærða gerð refsing í einu lagi samkvæmt 60. og 77. gr. almennra hegningarlaga. 

Þær líkamsárásir sem ákærði hefur nú verið sakfelldur fyrir voru allar sérstaklega ófyrirleitnar.  Í þrjú skipti beitti ákærði vopni og í tvö skipti sparkaði hann í liggjandi mann.  Tilefni árásanna var jafnan lítið eða ekki neitt og allavega ekki í neinu réttlætanlegu samhengi við það sem undan var gengið. Þegar allt þetta er haft í huga og með hliðsjón af 1., 3. og 6. tl. 1. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga svo og 2. mgr. sömu greinar þykir refsing ákærða hæfilega ákveðin 6 ár.  Til frádráttar refsingunni kemur gæsluvarðhald ákærða frá 2. október 2005 fram að dómsuppsögu með fullri dagatölu. 

Ákærðu X, Árni Þór Skúlason og Y, eru allir fæddir 1987.  Enginn þeirra hefur áður gerst sekur um refsiverða háttsemi.  Þeir hafa allir verið fundnir sekir um að ráðast að C 13. maí 2005, slá hann í höfuðið, fella hann í jörðina og sparka í höfuð hans og líkama.  Þessi árás var gjörsamlega tilefnislaus og dæmin sanna að slíkar árásir geta haft hættulegar afleiðingar í för með sér fyrir þá sem fyrir þeim verða.  Þá hefur X verið fundinn sekur um að slá B í andlitið með glerflösku.  Sú árás var einnig með öllu tilefnislaus og stórhættuleg. Refsing ákærðu Árna Þórs og Y verður ákveðin fjögurra mánaða fangelsi og refsing ákærða X fangelsi í sex mánuði.  Refsing þessara ákærðu er ákveðin með hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og varðandi X ennfremur með hliðsjón af 77. gr. almennra hegningarlaga.  Rétt þykir með vísan til sakaferils ákærðu að skilorðsbinda refsingu þeirra og niður skal hún falla að liðnum þremur árum haldi ákærðu almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

Ákærði Helgi Guðmundsson er fæddur 1987 og hefur verið fundinn sekur um að hafa þann 2. október kýlt D innandyra að Bæjargili [...] og fyrir að hafa ráðist að D stuttu síðar ásamt meðákærðu Tindi og Z.  Þá spörkuðu Helgi og Tindur í D eftir að Z hafði fellt hann í jörðina.  Ákærðu spörkuðu meðal annars í höfuð D og eins og áður sagði getur slík atlaga verið stórhættuleg. Þessi árás á D var gerð í sameiningu af ákærðu Helga, Tindi og Z en þeir eltu D uppi án nokkurs réttlætanlegs tilefnis, til þess eins að valda honum tjóni.  Við ákvörðun refsingarinnar verður litið til 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga og ennfremur til 77. gr. sömu laga hvað ákærða Helga varðar.  Ákærði Helgi hefur ekki áður hlotið refsingu.  Refsing hans þykir hæfilega ákveðin fjögurra mánaða fangelsi en rétt þykir að skilorðsbinda refsinguna og niður skal hún falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.  Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist hans frá 2.-5. október 2005 með fullri dagatölu.

Ákærði Z er fæddur 1987.  Hann hefur verið fundinn sekur um að taka þátt í ofangreindri líkamsárás gegn D.  Ákærði Z elti D uppi, sneri hann niður með hálstaki en hefur verið sýknaður af því að hafa sparkað í D. Ákærði Z framdi brotið í sameiningu með öðrum og verður því höfð hliðsjón af 2. mgr. 70. gr. almennra hegningarlaga.  Sakaferill ákærða er þannig að ákvörðun refsingar var frestað skilorðsbundið í tvö ár á hendur honum þann 22. janúar 2004 fyrir brot gegn 1. mgr. 217. gr. og 231. gr. almennra hegningarlaga.  Þá var hann dæmdur í sekt fyrir ölvunarakstur 29. nóvember 2004 og sviptur ökuleyfi. Ber að taka dóminn frá 22. janúar 2004 upp og dæma refsingu í einu lagi, sbr. 60. gr. og 77. gr. almennra hegningarlaga.  Refsing hans nú þykir hæfilega ákveðin þriggja mánaða fangelsi en fresta skal fullnustu refsingarinnar og niður skal hún falla að liðnum þremur árum haldi ákærði almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.  Til frádráttar refsingu kemur gæsluvarðhaldsvist hans frá 2.-5. október 2005 með fullri dagatölu.

Upptökukrafa.

Samkvæmt 6. mgr. 5. gr. laga nr. 65/1974 um ávana- og fíkniefni og samkvæmt 2. mgr. 14. gr. reglugerðar nr. 233/2001 verður ákærða Tindi gert að sæta upptöku á 0,38 g af tóbaksblönduðu hassi.  Samkvæmt 1. mgr. 37. gr. vopnalaga nr. 16/1998 verður ákærða Tindi ennfremur gert að sæta upptöku á „butterfly“ hnífi. 

Skaðabótakröfur.

A krefur ákærða Tind um miskabætur að fjárhæð 700.000 krónur auk dráttarvaxta frá 21. september 2005 til greiðsludags og lögfræðikostnað að fjárhæð 124.500 krónur.  Skilyrði eru til að dæma ákærða til að greiða A miskabætur samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993 og þykja þær hæfilega ákveðnar 250.000 krónur.  Bera þær vexti samkvæmt 1. mgr 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. ágúst 2005 til 30. desember 2005 en ákærða var kynnt bótakrafan 30. nóvember 2005.  Frá 30. desember 2005 til greiðsludags greiði ákærði dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna. 

D krefst miskabóta úr hendi ákærðu Tinds, Helga Guðmundssonar og Z að fjárhæð 500.000 krónur auk vaxta. Hér að framan hefur dómurinn komist að þeirri niðurstöðu að sýkna beri ákærða Z af því að hafa sparkað í D og valda honum með því tjóni. Skilyrði eru samkvæmt 26. gr. laga nr. 50/1993 að dæma ákærðu Tind og Helga Guðmundsson til þess að greiða D miskabætur og þykja þær hæfilega ákveðnar 200.000 krónur.  Ákærða Tindi var birt krafan 14. nóvember 2005 en ákærða Helga 20. október 2005.  Vextir dæmast eins og í dómsorði greinir.

E sundurliðar kröfu sína þannig á hendur ákærða Tindi að hann krefst 91.800 króna vegna þjáningabóta í 90 daga, 1.020 krónur á dag, sbr. 3. gr. skaðabótalaga.  Þá krefst hann 750.000 króna miskabóta samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga, 3674 króna vegna sjúkrakostnaðar, sbr. 1. gr. skaðabótalaga, 47.950 króna vegna munatjóns og að lokum krefst hann lögfræðikostnaðar að fjárhæð 102.280 króna eða samtals 995.704 króna.

Viðhlítandi gögn hafa verið lögð fram til stuðnings því að E eigi rétt til þjáningabóta í 60 daga að fjárhæð 61.200 krónur. Samkvæmt 26. gr. skaðabótalaga á E einnig rétt til miskabóta sem þykja hæfilega ákveðnar 600.000 krónur. Krafa hans um sjúkrakostnað að fjárhæð 3.674 krónur verður ennfremur samþykkt. Ekki þykir fært að fallast á kröfu brotaþola vegna munatjóns þar sem hún þykir ekki nægilega rökstudd. Krafa vegna lögfræðikostnaðar fellur undir réttargæslu og sakarkostnað og er fjallað um þann kostnað hér að neðan. Skaðabótakrafa E verður því tekin til greina með samtals 664.874 krónum. Vextir dæmast eins og í dómsorði greinir en ákærða Tindi var birt bótakrafa E að fjárhæð 940.867 krónur þann 20. október 2005. 

Sakarkostnaður.

Ákærði Tindur greiði skipuðum verjanda sínum, Jóhannesi Rúnari Jóhannssyni hrl., 1.400.000 krónur í málsvarnarlaun, þ.m.t. verjandastörf á rannsóknarstigi, ákærði Helgi Guðmundsson greiði Guðmundi Óla Björgvinssyni hdl., 350.000 krónur í málskostnað, ákærði Z greiði Jóni Egilssyni hdl., 350.000 krónur í málskostnað, ákærði Árni Þór Skúlason greiði Ástu Sóllilju Sigurbjörnsdóttur hdl., 350.000 krónur í málskostnað, ákærði X greiði Guðmundi Ágústssyni hdl., 350.000 krónur í málskostnað og ákærði Y greiði Hilmari Magnússyni hrl., 350.000 krónur í málskostnað. Virðisaukaskattur er innifalinn í tildæmdum málsvarnarlaunum.

Þóknun réttargæslumanna telst til sakarkostnaðar samkvæmt a-lið 1. mgr. 164. gr. laga nr. 19/1991. Þóknun Kristins Bjarnasonar hrl., skipaðs réttargæslumanns A, ákvarðast 160.000 krónur.  Þóknun Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hdl., skipaðs réttargæslumanns D, ákvarðast 160.000 krónur og þóknun Gríms Sigurðarsonar hdl., skipaðs réttargæslumanns E, ákvarðast 160.000 krónur. Virðisaukaskattur er innifalinn í tildæmdum launum.

Annar sakarkostnaður samkvæmt sakarkostnaðaryfirliti er læknisvottorð A að fjárhæð 23.200 krónur sem ákærði Tindur verður dæmdur til að greiða.  Ákærði Tindur verður einnig dæmdur til að greiða læknisvottorð F að fjárhæð 18.200 krónur og læknisvottorð E að fjárhæð 20.700 krónur.  Ákærðu Tindur og Helgi Guðmundsson verða í sameiningu dæmdir til að greiða læknisvottorð D að fjárhæð 20.700 krónur.  Þá verður ákærði X dæmdur til að greiða læknisvottorð B að fjárhæð 23.200 krónur.  Ákærðu Tindur, X, Y og Árni Þór verða dæmdir til þess að greiða læknisvottorð D að fjárhæð 25.700 krónur.

Í yfirliti saksóknara kemur einnig fram kostnaður vegna kókaíns-, kannabínóíð-, etanól- og amfetamínákvörðunar. Ekki þykja efni til þess eins og hér háttar að fella þann kostnað á ákærðu. Þessi kostnaður, að fjárhæð samtals 421.563 krónur, er felldur á ríkissjóð. Hins vegar verður ákærði Tindur dæmdur til þess að greiða kostnað samfara DNA rannsókn að fjárhæð 271.732 krónur.

Af hálfu ákæruvaldsins var málið sótt af Sigríði Friðjónsdóttur saksóknara.

Gunnar Aðalsteinsson héraðsdómari og sem dómsformaður, Arnfríður Einarsdóttir héraðsdómari og Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari, kveða upp dóm þennan.

DÓMSORÐ:

             Ákærði, X, sæti fangelsi í sex mánuði.

             Ákærðu, Helgi Guðmundsson, Árni Þór Skúlason og Y, sæti fangelsi í fjóra mánuði. Ákærði, Z, sæti fangelsi í þrjá mánuði. Gæsluvarðhaldsvist Helga Guðmundssonar og Z frá 2.-5. október 2005 kemur til fádráttar refsingu með fullri dagatölu. 

             Fresta skal refsingu ofangreindra ákærðu í þrjú ár haldi þeir almennt skilorð 57. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 4. gr. laga nr. 22/1955.

             Ákærði, Tindur Jónsson, sæti fangelsi í 6 ár. Gæsluvarðhaldsvist hans frá 2. október 2005 til dagsins í dag kemur til frádráttar með fullri dagatölu.

             Ákærði Tindur greiði A, 250.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 21. ágúst 2005 til 30. desember 2005 en frá þeim degi til greiðsludags greiði ákærði dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laganna.

             Ákærðu Tindur og Helgi Guðmundsson, greiði D, 200.000 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. október 2005 til 20. nóvember 2005. Frá þeim degi til greiðsludags beri krafan dráttarvexti samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laganna gagnvart ákærða Helga Guðmundssyni en frá 14. desember 2005 gagnvart ákærða Tindi.

             Ákærði Tindur greiði E 664.874 krónur með vöxtum samkvæmt 1. mgr. 8. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu frá 2. október 2005 til 20. nóvember 2005 en frá þeim degi til greiðsludags greiði ákærði dráttarvexti skv. 1. mgr. 6. gr. laganna.

             Upptæk skulu 0,28 g af tóbaksblönduðu hassi og „butterfly“ hnífur.

             Ákærðu greiði málsvarnarlaun skipaðra verjanda sinna sem hér segir:  Ákærði Tindur 1.400.000 krónur til Jóhannesar Rúnars Jóhannssonar hrl., ákærði Helgi Guðmundsson 350.000 krónur til Guðmundar Óla Björgvinssonar hdl., ákærði Z 350.000 krónur til Jóns Egilssonar hdl., ákærði Árni Þór Skúlason 350.000 krónur til Ástu Sóllilju Sigurbjörnsdóttur hdl., ákærði X 350.000 krónur til Guðmundar Ágústssonar hdl. og ákærði Y 350.000 krónur til Hilmars Magnússonar hrl.

             Ákærði Tindur greiði þóknun réttargæslumanns A, Kristins Bjarnasonar hrl, 160.000 krónur og þóknun réttargæslumanns E, Gríms Sigurðssonar hdl., 160.000 krónur. Ákærðu Tindur og Helgi Guðmundsson greiði sameiginlega þóknun réttargæslumanns D, Guðrúnar Sesselju Arnardóttur hdl., 160.000 krónur

             Annar sakarkostnaður, sem er samtals 403.432 krónur, greiði ákærði Tindur með 350.607 krónum, ákærði Helgi Guðmundsson með 10.350 krónum, ákærði Árni Þór með 6.425 krónum, ákærði X með 29.625 krónum og ákærði Y með 6.425 krónum. Sakarkostnaður að fjárhæð 421.563 krónur greiðist úr ríkissjóði.