Hæstiréttur íslands
Mál nr. 537/2006
Lykilorð
- Kærumál
- Aðför
- Innsetning
- Riftun
|
|
Þriðjudaginn 24. október 2006. |
|
Nr. 537/2006. |
GeoPlank ehf. (Jónas A. Aðalsteinsson hrl.) gegn IV ehf. Iðnaðarvörum og vélum (Þorsteinn Einarsson hrl.) |
Kærumál. Aðför. Innsetning. Riftun.
IV ehf. krafðist þess að sér yrðu afhent með beinni aðfarargerð nánar tilgreind tæki, sem G ehf. hafði verið með á leigu frá fyrrgreinda félaginu, en það hafði rift leigusamningi aðila þar sem G ehf. hafði ekki staðið skil á leigugreiðslum. Talið var að G ehf. þyrfti að bera hallann af því að ekki hefðu verið lögð fram viðhlítandi gögn um að félaginu hefði verið heimilt að halda eftir leigugreiðslum vegna ætlaðra vanefnda IV ehf. á samningsskyldum sínum. G ehf. bar ennfremur fyrir sig að félagið hefði keypt umrædd tæki í samræmi við kaupréttarákvæði í leigusamningnum. Þar sem G ehf. hafði ekki greitt kaupverðið var ekki talið að félagið gæti borið fyrir sig að það ætti rétt yfir tækjunum. Með hliðsjón af þessu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar var staðfest niðurstaða héraðsdóms um að heimila að gerðin færi fram.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Hrafn Bragason og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 4. október 2006, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 11. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. september 2006, þar sem tekin var til greina krafa varnaraðila um að nánar tilgreind tæki yrðu tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum sóknaraðila og fengin varnaraðila. Kæruheimild er í 4. mgr. 84. gr. laga nr. 90/1989 um aðför, sbr. 102. gr. laga nr. 92/1991. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi. Þá krefst hann málskostnaðar í héraði auk kærumálskostnaðar.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.
Ekki er um það deilt að sóknaraðili hafi frá því í maí 2005 látið hjá líða að greiða leigu fyrir þau tæki, sem mál þetta snýst um, í samræmi við samning hans og varnaraðila 3. október 2004. Í tilkynningu varnaraðila um riftun samningsins 20. maí 2006 kemur fram að höfuðstóll vangreiddrar leigu hafi numið 12.037.913 krónum en varnaraðili hefur lækkað þá fjárhæð í 11.742.939 krónur. Ekki hafa verið lögð fram viðhlítandi gögn um að sóknaraðila hafi verið heimilt að halda eftir umræddum leigugreiðslum vegna ætlaðra vanefnda varnaraðila á samningsskyldum sínum. Verður sóknaraðili að bera hallann af því í máli þessu.
Fyrir liggur að varnaraðili tók við tilkynningu sóknaraðila 3. mars 2006 um að sóknaraðili hefði ákveðið að nýta sér heimild í samningi aðila til að kaupa umrædd tæki. Með bréfi 17. sama mánaðar gerði varnaraðili sóknaraðila grein fyrir útreikningi sínum á kaupverði tækjanna. Þeim útreikningi var mótmælt af hálfu sóknaraðila með bréfi 24. mars 2006. Þar var þó ekki vikið að því hvernig sóknaraðili teldi rétt að reikna út kaupverðið. Varnaraðili sendi sóknaraðila því næst bréf 18. apríl 2006 þar sem nánari grein var gerð fyrir forsendum útreikningsins og þess krafist að sóknaraðili gerði upp við varnaraðila fyrir lok þess mánaðar. Kom þar fram að ella liti varnaraðili svo á að réttur sóknaraðila til kaupa á tækjunum væri fallinn niður og að hann myndi þá þegar rifta samningnum. Varnaraðili rifti síðan samningnum með tilkynningu 20. maí 2006 eins og að framan greinir.
Í samningi aðila 3. október 2004 var ekki vikið að greiðslutíma kaupverðs ef sóknaraðili nýtti sér rétt sinn til að kaupa tækin á samningstímanum. Engin gögn hafa verið lögð fram í máli þessu til stuðnings því að útreikningur varnaraðila á kaupverði tækjanna hafi stangast á við samninginn. Sóknaraðili hefur ekki greitt kaupverðið og getur hann ekki borið fyrir sig að hann eigi rétt yfir tækjunum.
Samkvæmt öllu framansögðu og að öðru leyti með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður fallist á að skilyrði 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 séu fyrir hendi til að hin umbeðna aðfarargerð fari fram. Ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð.
Sóknaraðili greiði varnaraðila kærumálskostnað eins og segir í dómsorði.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, GeoPlank ehf., greiði varnaraðila, IV ehf. iðnaðarvörum og vélum, 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 28. september 2006.
Aðfararbeiðni barst héraðsdómi 24. maí 2006 og var fyrst tekin fyrir 13. júní og þá frestað til 26. júní sl. Var þá ákveðið að munnlegur málflutningur færi fram 31. ágúst sl. og var málið tekið til úrskurðar þann dag.
Gerðarbeiðandi er Iðnvélar ehf., Hvaleyrarbraut 20, Hafnarfirði. Gerðarþoli er Geoplank ehf., Seljubót 7, Grindavík.
I.
Gerðarbeiðandi krefst þess að neðangreind tæki sem staðsett eru á starfsstöð gerðarþola að Seljubót 7, Grindavík, verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda:
3 föld harðviðarsög, gerð STENNER MHS 9
Slípivél, gerð ROTOLES, 400 PD-SV
Sogkerfi fyrir slípivél og sagir, gerð IMAS/AAGAARD
Loftpressa og þrýstiloftskerfi, gerð ADICOMP VDX 11/270
Pökkunarvél, gerð NEOLES 50
Lyftibúnaður við þurrkara, gerð SCHMALZ
Hitaplötur og búnaður fyrir þurrkofn
Holytek P40/2500 lengdarsög
Haller kílvél
Breiddarsög ST 300
Þá krefst gerðarbeiðandi þess að gerðarþoli verði úrskurðaður til greiðslu málskostnaðar.
Gerðarþoli krefst þess að aðfararbeiðni gerðarbeiðanda verði hafnað og að gerðarbeiðanda verði gert að greiða gerðarþola málskostnað.
II.
Gerðarbeiðandi lýsir málavöxtum þannig að um sé að ræða tæki í eigu gerðarbeiðanda sem gerðarþoli hafi tekið á leigu með samningi 3. október 2004. Samkvæmt samningnum hafi gerðarþoli einnig tekið á leigu breiddarsög/fræsara af gerðinni Harbs 300, lengdarsög af gerðinni OMGA T421 SNC ásamt Loftpressu ADICOMP VPDX 7/270. Munnlegt samkomulag hafi verið gert milli aðila um að gerðarþoli tæki ekki á leigu breiddarsög/fræsara af gerðinni Harbs 300, lengdarsög af gerðinni OMGA T421 SNC og loftpressu af gerðinni ADICOMP VXD 7/270 en tæki í staðinn á leigu af gerðarbeiðanda ST 300 breiddarsög, Haller kílivél, Holytek P40/2500 lengdarsög og ADICOMP VDX 11/270 loftpressu. Samkomulag var um að þau tæki kæmu í stað fyrrgreindra tækja og að ákvæði leigusamnings aðila giltu um öll fyrrgreind fjögur tæki sem komu í stað hinna þriggja sem greind hafi verið í skriflegum leigusamningi aðila.
Samkvæmt samningi aðila hafi gerðarþoli tekið tækin á leigu í 36 mánuði og skuldbundið sig til að greiða kr. 32.942.000 í leigu fyrir tækin það tímabil. Samkvæmt samningnum hafi gerðarþoli greitt fyrirfram 7.000.000 kr. til gerðarbeiðanda og hafi honum borið að greiða eftirstöðvar leigu þannig að fyrstu 10 mánuðina, fyrsta dag hvers mánaðar í fyrsta sinn 1. desember 2004 skyldu greiddar 921.300 kr. með virðisaukaskatti en næstu 26 mánuðina, fyrsta dag hvers mánaðar 887.877 krónur með virðisaukaskatti mánaðarlega.
Samkvæmt samningnum skyldi leigutími hefjast 1. desember 2004 en ljúka 1. desember 2007. Samkomulag hafi verið um breytingu á upphafi leigutíma og hafi gerðarþoli tekið tæki gerðarbeiðanda á leigu frá og með 1. janúar 2005. Gerðarbeiðandi hafi afhent gerðarþola þau tæki sem hann krefst afhendingar á í desember 2004.
Gerðarþoli hafi greitt umsamda leigu 7.000.000 kr. í upphafi samnings aðila og þá hafi gerðarþoli greitt án athugasemda umsamda leigu fyrir mánuðina janúar til mars 2005. Gerðarþoli hafi hins vegar ekki greitt umsamið leigugjald frá þeim tíma og standi hann því í skuld við gerðarbeiðanda vegna leigunnar frá maí 2005 til maí 2006 sem er nánar sundurliðuð í greinargerð gerðarbeiðanda.
Þrátt fyrir ítrekaðar kröfur gerðarbeiðanda hafi gerðarþoli ekki orðið við kröfu um greiðslu umsaminnar leigu. Vegna þessara vanefnda gerðarþola sem gerðarbeiðandi hafi talið verulegar hafi gerðarbeiðandi rift samningnum 20. maí 2006. Krefst gerðarbeiðandi þess nú að úrskurðað verði að tæki þau sem gerðarþoli hafi haft á leigu hjá gerðarbeiðanda og séu í eigu gerðarbeiðanda verði tekin með beinni aðfarargerð úr vörslum gerðarþola og fengin gerðarbeiðanda.
Byggir gerðarbeiðandi á reglum kröfu- og samningaréttar um riftun samninga og afhendingu tækjanna sem og ákvæðis í leigusamningi aðila. Þá byggir gerðarbeiðandi á 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.
III.
Gerðarþoli lýsir því svo að samkvæmt samningi aðila um kaupleigu á umræddum tækjum hafi hvílt þær skyldur á gerðarbeiðanda að útvega, kaupa, flytja inn og setja upp ákveðinn tækjabúnað hjá gerðarþola innan tiltekinna tímamarka og leigja gerðarþola þann búnað á kaupleigu. Hafi verið um að ræða svokallaða “Turnkey Project” framleiðslulínu sem skyldi geta framleitt tiltekið einingamagn á tilteknum tíma og af tilteknum gæðum. Samkvæmt 7. mgr. 2. gr. samningsins hafi hvílt sú skylda á gerðarbeiðanda að afhenda allan hinn tilgreinda búnað og setja hann upp hjá gerðarþola á þann hátt að hann virkaði í samræmi við það sem fram hafi komið í samningi aðila. Þegar gerðarbeiðandi hefði uppfyllt þessar samningsskyldur sínar á fullnægjandi hátt skyldi gerðarþoli staðfesta athugasemdalaust móttöku á hinu leigða frá gerðarbeiðanda með skriflegum hætti.
Gerðarbeiðandi hafi hins vegar vanefnt samningsskyldur sínar verulega. Hann hafi ekki enn afhent allan þann búnað og þau tæki sem um hafi verið samið og talin séu upp í 2. gr. samnings aðila. Hann hafi þannig til dæmis ekki afhent breiðsög. Í stað hinnar umsömdu sagar hafi hann afhent til bráðabirgða gamla sög frá 1967 sem hafi aðeins afkastað 5 metrum á mínútu í stað 15 metrum á mínútu eins og hin umsamda sög hafi átt að gera. Þessi vanefnd ein og sér hafi valdið augljósum framleiðslutöfum og þar með beinu fjárhagslegu tjóni. Hafi þetta í raun verið viðurkennt af gerðarbeiðanda í beiðni hans um aðfarargerð en þó vísað til þess að aðilar hafi gert með sér munnlegan samning um breytingu á tækjunum sem gerðarbeiðandi skyldi leigja og setja upp hjá gerðarþola. Gerðarþoli mótmæli því alfarið að málsaðilar hafi gert með sér samning um breytingu á tækjum sem gerðarbeiðandi skyldi leigja og setja upp hjá gerðarþola. Kveður gerðarþoli að þegar til hafi komið hafi gerðarbeiðandi ekki getað afhent umsamin tæki á réttum tíma og hafi hann þá beðið gerðarþola leyfis til að fá að setja upp gömul og lúin tæki til bráðabirgða þar til hann gæti afhent hin réttu tæki. Hafi þetta allt verið gert í þeim tilgangi að lágmarka tjón gerðarþola. Hafi gerðarbeiðandi verið búinn að útvega hin umsömdu tæki en neiti að afhenda þau og setja upp án frekari greiðslna frá gerðarþola.
Gerðarbeiðandi hafi einnig vanefnt samningsskyldur sínar með því að afhending tækjanna hafi verið eftir umsamin tímamörk, búnaðurinn hafi ekki virkað á umsaminn hátt og í sumum tilvikum hafi hann ollið skemmdum á því efni sem verið hafi verið að vinna úr.
Allar umræddar vanefndir gerðarbeiðanda liggi að mati gerðarþola fyrir þar sem gerðarþoli hafi hvorki leitað eftir né fengið staðfestingu athugasemdalausrar móttöku/úttektar á hinu leigða frá gerðarbeiðanda með skriflegum hætti í samræmi við það sem fram komi í 7. mgr. 2. gr. samningsins um að það skuli gert þegar gerðarbeiðandi hafi uppfyllt samningsskyldur sínar. Allar þessar vanefndir hafi valdið gerðarbeiðanda fjárhagslegu tjóni sem nemi tugum milljónum króna.
Málsaðilar hafi reynt að ná samkomulagi um ágreiningsefni sín á síðari hluta ársins 2005 og í upphafi ársins 2006 en þær hafi ekki borið árangur. Þegar fullreynt hafi verið að samkomulag næðist ekki hafi gerðarþoli krafist innlausnar tækjanna með bréfi þann 3. mars 2006. Innlausnarkrafan hafi byggst á ákvæðum 6. mgr. 3. gr. samningsins. Í innlausnarkröfunni hafi verið áréttað krafa um afhendingu á umsömdum tækjum samkvæmt samningnum. Greiðsla hafi verið boðin fram í formi lækkunar skaðabótakröfu gerðarþola á hendur gerðarbeiðanda eða í formi peninga en í því tilfelli myndu skaðabæturnar innheimtar hjá gerðarbeiðanda á annan hátt. Útreikningur kaupverðsins skyldi vera í samræmi við ákvæði samningsins og framkvæmd hans.
Gerðarbeiðandi hafi samþykkt innlausnarkröfu gerðarþola í bréfi dagsettu 17. mars 2006 en í því bréfi hafi hann sett fram útreikninga sína á kaupverðinu. Þeir útreikningar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði samningsins nema að hluta til og hafi þá hafist viðræður um hvernig skyldi leiða það álitaefni til lykta. Kjarni þessa ágreinings hafi verið fólginn í því að gerðarþoli hafi krafist afsals á öllum umsömdum tækjum samkvæmt samningi aðila en gerðarbeiðandi neitað afhendingu þeirra tækja sem hann viðurkenni að hafa ekki enn afhent. Hafnar gerðarþoli því að gerðarbeiðandi hafi ekki þurft að afhenda önnur tæki. Ágreiningur aðila varði einnig fjárhæð kaupverðsins, m.a. vegna vanefnda gerðarbeiðanda.
Umrædd tæki séu veðsett Glitni hf. vegna fjármögnunar þeirra en gerðarþoli telur ástæðu til að ætla að gerðarbeiðandi hafi gert samning við Glitni hf. um kaupleigu á vélunum. Sé það rétt sé gerðarbeiðandi ekki eigandi tækjanna heldur Glitnir hf. Eigi því að hafna beiðninni á grundvelli aðildarskorts.
Gerðarþoli hafi greitt 5.000.000 kr. í fyrirframgreidda leigu sem og síðar 2.000.000 kr. án þess að þeim áfanga hafi verið náð sem miða hafi átt síðari greiðsluna við. Þá hafi gerðarþoli án þess að umræddum verkáfanga væri náð einnig greitt leigu fyrstu fjóra mánuði ársins 2005 gegn loforðum gerðarbeiðanda um úrbætur á vanefndum hans og til að takmarka eða koma í veg fyrir fjárhagslegt tjón gerðarþola. Þegar vanefndir gerðarþola hafi haldið áfram og hann hafi ekki reynst hafa burði, getu eða vilja til að bæta þar úr og fjárhagslegt tjón gerðarþola hafi sífellt aukist hafi gerðarþoli fellt niður frekari leigugreiðslur og skorað á gerðarbeiðanda að bæta úr en það ekki gerst. Gerðarbeiðandi hafi nú höfðað tvö mál á hendur gerðarþola til heimtu meintra vanskila gerðarþola en gerðarþoli áformi að höfða gagnsakarmál til heimtu skaðabóta sem og höfða mál til afhendingar á þeim tækjum sem innlausnarréttur gerðarþola varðar.
Gerðarbeiðandi hafi ekki eignaleigu sem meginstarfsemi sína og hafi því komist hjá því að gangast við þeim skyldum og eftirliti með starfsemi sinni sem fjármálafyrirtækjum beri skv. lögum nr. 161/2000 um fjármálafyrirtæki og uppfylli því ekki þær lágmarkskröfur sem gerðar séu til slíkra fyrirtækja.
Kröfu sína um að beiðni gerðarbeiðanda verði hafnað byggir gerðarþoli einkum á því að allt bendi til þess að Glitnir ehf. eigi þau tæki sem gerðarbeiðandi krefst afhendingar á. Að minnsta kosti eigi Glitnir ehf. veðrétt í tækjunum þar sem þau séu nú uppsett og í notkun. Byggir gerðarþoli á því að niðurrif þeirra úr starfsstöð gerðarþola feli í sér gríðarlega verðrýrnun tækjanna. Hvorki sé sjáanlegt af gerðarbeiðni að Glitnir hf. hafi samþykkt kröfu gerðarbeiðanda samkvæmt gerðarbeiðni né hafi það félag haft eða verið gefinn kostur þess að gæta hagsmuna sinna í málinu. Eigi gerðarbeiðandi ekki þann rétt sem hann kveðst eiga samkvæmt beiðnni eigi það að leiða til höfnunar beiðninnar sbr. 16. gr. einkamálalaga nr. 91/1991. Séu skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför því ekki fyrir hendi og beri því að hafna kröfu gerðarþola.
Gerðarþoli byggir einnig á því að hann eigi samningsbundinn og lagalegan rétt til innlausnar tækja þeirra sem gerðarbeiðnin varði. Bendir hann á rétt leigutaka til kaupa á hinu leigða samkvæmt almennum reglum um kaupleigu til viðbótar hinum sértæku ákvæðum samningsins um það efni. Gerðarþoli hafi afdráttarlaust krafist þess réttar sér til handa og gerðarbeiðandi með skriflegum hætti samþykkt þá kröfu í bréfi 17. mars 2006. Gerðarbeiðandi losni ekki undan þeirri samningsskyldu sinni að selja gerðarþola umrædd tæki með því að neita að afhenda umsaminn tækjabúnað samkvæmt samningnum eða með því að krefjast fjárhæðar fyrir tækin sem ekki séu í samræmi við efni samningsins. Gerðarbeiðandi geti ekki komið í veg fyrir að gerðarþoli nýti sér innlausnarrétt sinn.
Í þriðja lagi telur gerðarþoli það ljóst að gerðarþoli hafi ekki vanefnt samning aðila. Gerðarþoli hafi ítrekað krafið gerðarbeiðanda um efndir samningsins en afleiðingar vanefnda gerðarbeiðanda nemi nú slíkum fjárhæðum að stöðvun gerðarþola án frekari greiðslum til gerðarbeiðanda eftir greiðslu 1. apríl 2005 hafi verið og sé enn fyllilega lögmæt í þeim tilgangi að tryggja bótakröfu gerðarþola frá júlí 2006, sbr. 42. gr. laga nr. 50/2000. Sú stöðvun gerðarbeiðanda falli ekki undir hugtakið vanefnd. Þá haldist réttur gerðarbeiðanda í hendur við úttekt verksins sem ekki hafi enn farið fram.
Telur gerðarþoli því kröfu gerðarbeiðanda ekki styðjast við samning málsaðila eða lagaákvæði. Gerðarþoli hafi ávallt mótmælt riftunarhugleiðingum gerðarbeiðanda og honum tilkynnt að hann ætti að efna samninginn að sínu leyti og bæta úr vanefndum með umsömdum hætti.
Séu skilyrði 78. gr. laga nr. 90/1989 um aðför því ekki fyrir hendi og beri því að hafna kröfu gerðarþola.
Gerðarþoli krefst þess að sé gerðarbeiðnin samþykkt skuli málskot til æðra dóms fresta aðfarargerð sbr. 84. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.
IV.
Samkvæmt 78. gr. aðfararlaga nr. 90/1989 getur héraðsdómari úrskurðað að fullnægt verði með aðfarargerð rétti manns sem honum er aftrað að neyta og sem hann telur sig eiga og vera svo ljósan, að sönnur verði færðar fyrir þeim með gögnum, sem aflað verður í samræmi við ákvæði 83. gr. laganna. Skal héraðsdómari að jafnaði hafna aðfararbeiðni, ef varhugavert verður talið að gerðin nái fram að ganga á grundvelli þeirra sönnunargagna, sem heimilt er að afla samkvæmt 83. gr. aðfararlaga. Í úrskurði dómara um hvort bein aðfarargerð fái fram að fara skal leysa úr ágreiningi um umráðarétt en eigi skal slá föstu neinu um hugsanlegan bótarétt, heimild til riftunar eða eignarrétt aðila. Þá er eigi gerð sú krafa að sýnt sé fram á að réttindi gerðarbeiðanda séu í hættu.
Í máli þessu liggur fyrir að gerðarbeiðandi er ekki eigandi hinna umdeildu tækja, heldur Glitnir hf. sem fjármagnaði kaup gerðarbeiðanda á tækjunum en samþykkti jafnframt að gerðarbeiðandi leigði hin umdeildu tæki út kaupleigu til gerðarþola. Í yfirlýsingu fyrirsvarsmanns Glitnis hf. segir m.a. að félagið viðurkenni rétt gerðarbeiðanda samkvæmt leigusamningi aðila þessa máls en ótívrætt er í leigusamningi aðila samið svo um að gerðarbeiðandi teljist eigandi tækjanna gagnvart leigutaka þeirra, sbr. 9. mgr. 3. gr. samningsins þar sem fram kemur að hin leigðu tæki séu eign gerðarbeiðanda á leigutímanum.
Umleitanir gerðarþola um kaup á tækjunum gengu ekki eftir og er það óumdeilt í málinu. Verður því að telja að fyrir hendi liggi nægileg gögn er sanni rétt gerðarbeiðanda til hinna umdeildu tækja en gerðarþoli hefur ekki mótmælt því að hafa undir höndum þau tæki sem gerðarbeiðandi krefst innsetningar í, heldur aðeins að hann hafi ekki fengið öll þau tæki afhent sem samningur aðila hljóðaði á. Í 11. mgr. 3. gr. leigusamnings aðila kemur einnig fram að verði verulegar vanefndir á leigusamningi aðila sé leigusala, gerðarbeiðanda, rétt að taka til sín vélar og tæki sem leigusamningurinn nái til.
Gerðarbeiðandi rifti samningi aðila vegna vanefnda á leigusamningi aðila þar sem hin umsamda leiga hafði ekki verið greidd frá því 1. mars 2005 en leigjandi, gerðarþoli hefur eigi mótmælt því að leigugreiðslur hafi ekki verið efndar réttilega heldur að þeim hafi verið haldið eftir vegna meintra vanefnda gerðarbeiðanda. Vanefndir gerðarþola á leigugreiðslum heimiluðu gerðarbeiðanda riftun, svo sem ljóst er af gögnum málsins að hann lýsti yfir 20. maí 2006 og gerðarþoli hefur eigi að mati dómara sýnt fram á að hafi ekki verið lögmæt. Í máli þessu um aðfararbeiðni gerðarbeiðanda er aðeins fjallað um rétt hans til umráða yfir hinum leigðu tækjum. Af þeim gögnum sem fyrir liggja í málinu verður eigi talið óvarlegt að hin umbeðna gerð fari fram eða að vafi leiki á því að gerðarbeiðandi eigi umráðarétt að hinum leigðu tækjum. Verður honum ekki gert að sæta því að bíða úrlausnar dómstóla í máli því sem nú hefur verið þingfest milli aðila enda ljóst að eignarheimildir yfir tækjunum hafa eigi færst yfir til gerðarþola. Annar ágreiningur aðila verður því að bíða frekari meðferðar dómstóla enda eigi heimilt að taka í þessu máli afstöðu til ágreinings aðila að öðru leyti en varðar rétt til umráða yfir tækjunum.
Samkvæmt 1. mgr. 78. gr. laga nr. 90/1989 eru því fyrir hendi skilyrði ákvæðisins og ber að taka til greina kröfu gerðarbeiðanda um aðfarargerð. Rétt þykir að málskot til æðri dóms fresti aðfarargerð þessari, sbr. 84. gr. aðfararlaga nr. 90/1989.
Gerðarþoli greiði gerðarbeiðanda í málskostnað 100.000 krónur. Gerðarbeiðandi hefur eigi krafist þess að fjárnám verði heimilað fyrir kostnaði af gerðinni og verður því eigi svo mælt fyrir.
Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari kvað upp úrskurð þennan.
ÚRSKURÐARORÐ:
Hin umbeðna gerð má fara fram.
Gerðarþoli, GeoPlank ehf., kt. 500604-2470, greiði gerðarbeiðanda IV ehf. iðnaðarvörum og vélum kt. 670489-1249, 100.000 krónur í málskostnað.
Málskot til æðri dóms frestar aðfarargerð þeirri sem heimiluð hefur verið.