Hæstiréttur íslands

Mál nr. 140/2002


Lykilorð

  • Kærumál
  • Sjálfræðissvipting


Þriðjudaginn 26

 

Þriðjudaginn 26. mars 2002.

Nr. 140/2002.

X

(Halldór H. Backman hdl.)

 

gegn

 

Reykjavíkurborg

(Hjörleifur B. Kvaran hrl.)

 

Kærumál. Sjálfræðissvipting.

Hæstiréttur staðfesti úrskurð héraðsdóms um að X yrði sviptur sjálfræði tímabundið, enda væri hann ekki fær um að ráða persónulegum högum sínum vegna geðsjúkdóms.

 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 18. mars 2002, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 21. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2002, þar sem sóknaraðili var sviptur sjálfræði í sex mánuði. Kæruheimild er í 1. mgr. 16. gr. lögræðislaga nr. 71/1997. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kærumálskostnaður greiddur úr ríkissjóði.

Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur um annað en málskostnað.

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga greiðist úr ríkissjóði þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, en þóknunin er ákveðin í einu lagi eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur um annað en málskostnað.

Þóknun skipaðs verjanda sóknaraðila, Halldórs H. Backman héraðsdómslögmanns, vegna meðferðar málsins í héraði og fyrir Hæstarétti, samtals 70.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.

 

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 13. mars 2002.

          Með beiðni, dagsettri 15. febrúar sl. hefur borgarlögmaður fyrir hönd Félagsþjónustunnar í Reykjavík krafist þess að varnaraðili, X, heimilislaus maður í Reykjavík en nú dveljandi á geðdeild Lands­spítalans við Hringbraut, verði sviptur sjálfræði í sex mánuði.  Var málið þingfest 15. febrúar og tekið til úrskurðar hinn 12. þ.m.

Um aðild sóknaraðila vísast til d-liðar 2. mgr. 7. gr. lögræðislaga.  Í beiðninni kemur fram að ástæða hennar er sú að varnaraðili sé haldinn sturlun og ranghug­myndum sem valdi alvarlegri geðröskun hjá honum.  Sé hann hættulegur í þessu ástandi og hafi ógnað fólki og valdið meiðslum með ofsafenginni framkomu.  Sé brýnt að vista hann á sjúkrahúsi svo að hægt sé að veita honum læknismeðferð og tímabundin nauðungarvistun sem hann sætti frá 25. janúar sl. dugi ekki til þess. Varnar­aðili mótmælir kröfunni.  Fyrir liggur að varnaraðili dvaldist á [ . . . ] þangað til honum var vísað þaðan vegna samskiptaerfiðleika.  Í framhaldi af því var hann færður á sjúkrahús að tilhlutan félagsþjónustunnar í Reykjavík.  Hann er talinn hafa dvalist á Norðurlöndum um langt árabil og hafa komist þar í kast við lög og auk þess verið þar til meðferðar á geðsjúkrahúsum.

Sigurður Páll Pálsson geðlæknir, hefur stundað varnaraðila frá því að hann var lagður inn á geðdeild Landspítalans, 25. janúar sl.  Hann segir varnaraðila hafa greini­lega liðið mjög illa þegar hann kom á spítalann, verið mjög reiður og “paranoid” út í allt og alla.  Lítið samhengi hafi verið í tali hans.  Honum hafi verið gefnar töflur sem hann hafi tekið í upphafi en svo hætt því og orðið erfiðari og æstari aftur.  Hafi hann þá fengið sprautur og með því orðið viss straumhvörf hjá honum og hann róast talsvert.  Sé hann mun meðfærilegri en hann var fyrst.  Læknirinn segir að ljóst hafi verið í byrjun að varnaraðila myndu ekki nægja þær þrjár vikur sem nauðungar­vistunin gæti lengst varað.  Hafi hann enda sagt að hann gæti ekki hugsað sér að vera á spítalanum. Segir læknirinn að varnaraðila vanti innsæi í ástand sitt.  Læknirinn segir ekki enn hafa verið hægt að greina mein varnaraðila.  Þó liggi það fyrir að hann sé haldinn sturlun en ekki sé enn vitað hvort hún stafi eingöngu af langvarandi fíkni­efnanotkun eða annarri truflun, svo sem geðklofa.  Hann hafi ekki viljað gefa upplýsingar um sjúkdómssögu sína en þó muni hann hafa verið á réttargeðdeild í [ . . . ].  Segir læknirinn að hann svari vel lyfjum og virðist vera vanur þeim og því ekki fengið miklar aukaverkanir.  Fái varnaraðili ekki lyfjasprauturnar áfram sé hætt við því að hann fari í sama farið og áður og fái hann að ráða sér muni hann fara af geðdeildinni.  Sé því nauðsynlegt að hann sé sviptur sjálfræði og séu 6 mánuðir hæfilegur tími í því sambandi.  Varnaraðili geti ekki lifað eðlilegu lífi eins og komið sé fyrir honum.  Til þess vanti hann innsæi í sjúkdóminn og í þá meðferð sem hann fái.  Sé enn grunnt á reiði og ofsóknarhugmyndum hjá honum.  Læknirinn segist ekki vita til þess að varnaraðili hafi sýnt af sér ofbeldi eftir að hann kom á spítalann en hann hafi þó verið ógnandi í framkomu.  Hann geti matast og hirt um sig sjálfur og auk þess sé hann áttaður á stað og stund.  Aftur á móti eigi hann í erfiðleikum með samskipti við annað fólk og sé hann með ofsóknarhugmyndir gagnvart umhverfi sínu.  Aukist innsæið hjá honum geti hann hugsanlega búið út af fyrir sig en það verði þó að vera undir eftirliti og í samvinnu við lækni.  Eins og mál standi í dag sé ekki hægt að segja hvort varnaraðili fái fullan bata af meini sínu en það geti hugsast.  Hugsanlegt sé að hann hafi ekki fengið viðunandi læknismeðferð áður en læknirinn telur líklegt að unnt verði að veita honum hana nú.

Varnaraðili hefur komið fyrir dóminn.  Var tal hans allt með annarlegum blæ. M.a. sagði hann Hjálpræðisherinn ágirnast eigur hans til þess að geta selt þær í Kola­portinu.  Var að skilja að það væri ástæðan fyrir því að hann hefði nú verið lokaður inni á sjúkrahúsi.

Dómarinn telur að nægilega hafi verið sýnt fram á það að varnaraðili sé haldinn sturlun og sé vegna hennar ófær um að ráða högum sínum sjálfur.  Þá verður að telja ólíklegt að hann taki þeirri læknismeðferð sem nauðsynleg er, nema hann sé sviptur sjálfræði.  Ber því með vísan í a- liðar 4. gr. lögræðislaga að taka beiðni sóknaraðila til greina og ákveða að varnaraðili skuli sviptur sjálfræði í sex mánuði. 

Samkvæmt 1. mgr. 17. gr. lögræðislaga ber að greiða úr ríkissjóði allan málskostnað, þar með talda þóknun til talsmanns varnaraðila, Halldórs H. Backmans hdl., 40.000 krónur.

Pétur Guðgeirsson héraðsdómari kvað upp úrskurðinn.

Úrskurðarorð:

Varnaraðili, X, heimilislaus maður í Reykjavík, en nú dveljandi á geðdeild Landspítalans við Hringbraut, er sviptur sjálfræði í sex mánuði.

Málskostnaður, þar með talin þóknun til skipaðs talsmanns varnaraðila í málinu, Halldórs H. Backmans hdl., 40.000 krónur, greiðist úr ríkissjóði.