Hæstiréttur íslands

Mál nr. 333/1998


Lykilorð

  • Kynferðisbrot
  • Börn
  • Skaðabætur


Frá SM 08

                                                   

                                                              Fimmtudaginn 11. febrúar 1999.

Nr. 333/1998                                        Ákæruvaldið

                                                              (Bogi Nilsson ríkissaksóknari)

                                                              gegn

                                                              Valdimar Júlíussyni

 (Hilmar Ingimundarson hrl.)

Kynferðisbrot. Börn. Skaðabætur.

V var ákærður fyrir að hafa farið inn í herbergi skólahúss þar sem 12 ára stúlka, X, lá sofandi, fært hana úr nærbuxum, strokið ytri kynfæri hennar og strokið getnaðarlim sínum um innanvert læri hennar. Ættarmót stóð yfir í húsinu og voru bæði V og X á meðal gesta á mótinu og var V ölvaður. Þrátt fyrir staðfasta neitun V var hann sakfelldur, en framburður X um að hún hefði vaknað við athæfi hans fékk stoð í vætti móður hennar og systur sem komu að ákærða hálfklæddum í herberginu eftir að X hafði komist undan V og hlaupið til þeirra í mikilli geðshræringu.

Brot V þótti varða við 2. ml. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga og var hann dæmdur til fangelsisrefsingar. Þá var X dæmdur til að greiða V skaðabætur á grundvelli 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1953

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Pétur Kr. Hafstein, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hjörtur Torfason og Hrafn Bragason.

Málinu var skotið til Hæstaréttar 18. ágúst 1998 að ósk ákærða með vísun til    a-d liða 147. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála, sbr. 7. gr. laga nr. 37/1994. Af hálfu ákæruvaldsins er þess krafist, að refsing ákærða verði þyngd og hann dæmdur til greiðslu skaðabóta, eins og í ákæru greinir.

Ákærði krefst þess aðallega, að hinn áfrýjaði dómur verði ómerktur og málinu vísað heim í hérað til aðalmeðferðar og dómsálagningar að nýju. Til vara krefst hann sýknu ellegar þess, að refsing verði milduð. Þá krefst hann þess, að bótakröfu kæranda verði vísað frá dómi eða hún lækkuð.

Við málflutning fyrir Hæstarétti er ekkert fram komið, sem veitir líkur fyrir því, að niðurstaða héraðsdómara um sönnunargildi munnlegs framburðar fyrir dómi kunni að vera röng, svo að einhverju skipti um úrslit málsins, sbr. 5. mgr. 159. gr. laga nr. 19/1991. Verða sakarmat héraðsdóms og refsiákvörðun hans staðfest með skírskotun til forsendna dómsins.

Fyrir Hæstarétt hefur verið lögð greinargerð Hrefnu Ólafsdóttur félagsráðgjafa frá 8. febrúar 1999, en hún átti sjö stuðningsviðtöl við kæranda haustið 1997. Rennir skýrslan stoðum undir það almenna mat, að slík kynferðisleg áreitni og hér var um að ræða sé til þess fallin að valda unglingsstúlku ótta og öðrum sálrænum erfiðleikum, eins og raunin hafi orðið. Ákærði verður þannig bótaskyldur fyrir þá ólögmætu meingerð, sem hann hefur haft í frammi gagnvart kæranda, sbr. 26. gr. skaðabótalaga nr. 50/1993. Á hinn bóginn hefur ekki verið sýnt fram á, að lagaskilyrði séu til þess að dæma jafnframt þjáningabætur samkvæmt 3. gr. skaðabótalaga. Með þessum athugasemdum verður ákvörðun héraðsdóms um skaðabætur staðfest.

Ákvæði héraðsdóms um sakarkostnað verður ekki haggað. Ákærði skal greiða allan áfrýjunarkostnað málsins, eins og greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Héraðsdómur skal vera óraskaður.

Ákærði, Valdimar Júlíusson, greiði allan áfrýjunarkostnað sakarinnar, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð, 70.000 krónur, og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns fyrir Hæstarétti, Hilmars Ingimundarsonar hæstaréttarlögmanns, 70.000 krónur.

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 6. júlí 1998

Ár 1998, mánudaginn 6. júlí, er á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur, sem háð er í Dómhúsinu við Lækjartorg af Júlíusi B. Georgssyni, settum héraðsdómara, sem dóms­formanni og héraðsdómurunum Arngrími Ísberg og Hirti O. Aðalsteinssyni sem meðdóm­end­um, kveðinn upp dómur í sakamálinu nr. 466/1998: Ákæruvaldið gegn Valdimar Júlíussyni sem tekið var til dóms 15. júní sl.

Málið er höfðað með ákæru ríkissaksóknara dagsettri 5. maí sl. á hendur Valdimar Júlíussyni, kt. 130765-5809, Kleppsvegi 12, Reykjavík, „fyrir kynferðisbrot, með því að hafa aðfaranótt sunnudagsins 29. júní 1997, í herbergi á efri hæð skóla­húsnæðis Reykhólaskóla, Reykhólahreppi, fært stúlkuna X, tólf ára, úr nær­bux­um, og er stúlkan reyndi að bera náttkjól fyrir kynfæri sín rifið hann frá, strokið ytri kynfæri stúlkunnar og strokið getnaðarlim sínum um innanvert læri hennar, en eftir það tókst henni að komast á brott.

Telst framangreind háttsemi varða við 2. ml. 1. mgr. 202. gr. almennra hegn­ingarlaga, nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.

Þess er krafist að ákærði verði dæmdur til refsingar.

Í málinu krefst Hilmar Baldursson héraðsdómslögmaður, skaðabóta fyrir hönd X úr hendi ákærða, 2.350.000 krónur, auk dráttarvaxta samkvæmt III. kafla vaxtalaga, frá 28. júní 1997 til greiðsludags.“

Málavextir:

Aðfaranótt sunnudagsins 29. júní 1997, um kl. 4 hafði Y símleiðis samband við lögregluna á Patreksfirði og tilkynnti að grunur léki á að 12 ára hálfsystir hennar, til heimilis í Reykjavík, hefði orðið fyrir kynferðislegri misnotkun af hálfu manns að nafni Valdimar, þ.e. ákærða í máli þessu. Kvaðst Y vera stödd á ættarmóti í skólanum á Reykhólum og hefði atvikið átt sér stað skömmu áður í skólastofu þar sem stúlkan svaf. Kvað Y stúlkuna hafa komið til móður þeirra í miklu uppnámi og sagt henni hvað gerst hafði. Móðir þeirra hefði þá farið inn í skólastofuna þar sem atvikið gerðist og er hún kom þar inn hefði ákærði verið þar og að hífa upp um sig buxurnar. Ekki væri vitað nákvæmlega hvað gerst hefði í skóla­stofunni, en búið væri að hafa samband við hjúkrunarfræðing í Búðardal vegna málsins. Eftir að hafa rætt við Y um feril slíkra mála hafði hún samband við neyðarmóttöku Sjúkrahúss Reykjavíkur og í framhaldi af því var ákveðið að fara með stúlkuna til Reykjavíkur á barnadeild Landspítalans til skoðunar.

Lögreglumenn á Patreksfirði fóru að Reykhólum og voru þeir komnir þangað milli kl. 7 og 8 um morguninn. Þar hittu þeir fyrir J. Hann kvað málavexti vera þá að milli kl. 2 og 3 um nóttina hafi flest fólkið sem var að skemmta sér á ættarmóti verið statt í borðsal á miðhæð hússins er 12 ára uppeldisdóttir hans hafi komið hlaupandi niður í borðsal og gert þar vart við sig. Móðir hennar hafi farið með henni og telpan útskýrt fyrir henni hvað komið hefði fyrir. Hafi telpan sofið í herbergi á efstu hæð hússins, innst á ganginum, hægra megin, er snúi til austurs. Hún hafi verið sofandi í svefnpoka á dýnu á gólfinu og vaknað við að nakinn maður stóð yfir henni. Muni hún hafa sagt að maðurinn hafi sagt henni að hafa ekki hátt og vera ekki hrædd. Maðurinn hafi náð henni úr nærbuxunum og gert tilraun til að misnota hana, en hún með einhverjum hætti komist frá honum, hlaupið niður á næstu hæð og sagt móður sinni hvað hafi gerst. Hafi móðir hennar þegar farið upp og inn í her­bergið. Þar hafi hún komið að ákærða sem hafi þá verið að hífa upp um sig buxurnar. Móðirin hafi spurt ákærða, sem hafi verið undir áhrifum áfengis, hann hvað hann væri að gera þarna, en fátt orðið um svör. Ættarmótið hafi leyst upp í framhaldi af þessu og hafi ákærði yfirgefið vettvang um kl. 7 ásamt foreldrum, sambýliskonu og barni þeirra. Væri ekki vitað hvert þau ætluðu, en gert væri ráð fyrir að þau færu til Reykjavíkur.

Áður en lögreglumennirnir komu að Reykhólum var búið að gera ráðstafanir til að koma telpunni til skoðunar á barnadeild Landspítalans. Engin vitni væru að þessu fyrr en telpan kom niður á hæðina þar sem fólkið var að skemmta sér. Að sögn J var herberginu lokað og enginn hafi farið þar inn fyrr en lögregla kom á vett­vang. Lögreglumenn skoðuðu vettvang og ljósmynduðu. Lá dýnan eins og hún var og skór voru í herberginu, sem áttu ekki að vera þar, líklega í eigu ákærða og var lagt hald á þá.

 Ákærði Valdimar Júlíusson, gaf skýrslu hjá lögreglu síðdegis sama dag og kvaðst saklaus af því sem á hann væri borið. Aldrei myndi hvarfla að honum að gera 12 ára gamalli stúlku eitthvað sem talist geti kynferðisbrot. Hann hafi komið til Reyk­hóla laust eftir kl. 19 á laugardeginum þar sem haldið hafi verið ættarmót sem á hafi verið um 50 manns, þ.m. móðir stúlkunnar og fjölskylda hennar. Kveðst hann ekki hafa hitt þá konu áður og fæsta af þeim sem þarna voru hafi hann séð áður. Fólkið hafi verið að snæða þegar hann kom og eftir matinn hafi allir farið í íþróttahúsið þar sem farið hafi verið í leiki og sungið. Hann hafi neytt áfengis um kvöldið og orðið mjög ölvaður. Úr íþróttahúsinu fór ákærði ásamt meginþorra fólksins aftur inn í borðsalinn, þar sem fólkið hafi setið við tvö borð. Börnin hafi einnig verið þarna. Ákærði ráfaði um húsið, eins og raunar allir gerðu, en eitthvað af fólkinu hafi þó farið að sofa. Húsið í skólanum sé á þremur hæðum, kjallari, jarðhæð og efri hæð í tveimur álmum og átti ákærði að sofa í kjallaranum.

Ákærði kveðst ekki muna atburði kvöldsins, enda verið mjög ölvaður. Kveðst þó vera viss um að hann hafi ekki gert neitt á hlut telpunnar. Hann minnist þess að allt í einu var borið á hann að hann hafi áreitt einhverja 12 ára gamla stúlku kynferðislega. Föðurbróðir hans hafi borið þetta á hann. Hann muni ekki hvar í skólahúsinu hann var þá staddur, en hann hafi verið kominn út úr húsinu þegar hann áttaði sig á því sem verið var að saka hann um. Ákærði minnist þess ekki að hafa farið úr einhverjum fötum um nóttina.

Ákærða var greint frá því að samkvæmt frásögn stúlkunnar hafi hún vaknað upp við það að getnaðarlimur hans straukst við innanvert læri hennar og að það hafi gerst í herbergi á efri hæðinni þar sem stúlkan lá á dýnu á gólfinu. Hún segði að ákærði hafi verið allsber og að hann hafi verið búinn að færa hana úr nærbuxum sem hún hafði verið í. Er hún reyndi að setja náttkjól fyrir kynfærin hafi ákærði rifið náttkjólinn frá, káfað á kynfærum stúlkunnar og sagt að hann ætlaði ekki að gera henni neitt. Þegar hún reyndi að rísa upp hafi hann ýtt henni niður á dýnuna aftur. Stúlkan hafi svo sloppið frá honum stuttu seinna og leitað ásjár móður sinnar. Ákærði kvað þetta vera „kjaftæði“. Þá var ákærða sagt að samkvæmt frásögn móður stúlkunnar hafi stúlkan komið til móður sinnar þar sem hún var á jarðhæð hússins og sagt henni að það væri maður í herbergi sem telpan hafði verið í. Móðirin hafi farið upp í her­bergið og þegar hún kom þangað hafi hún séð ákærða þar inni beran að ofan, en í síð­buxum og verið að eiga eitthvað við buxnaklaufina á þeim. Ákærði kveður þetta ekki rétt. Spurður um hvort ákærði hafi átt einhver samskipti við Y hálfsystur stúlk­unnar, um nóttina kveðst hann ekki muna eftir því og viti ekki hver sú kona sé.

Ákærði kveður ætlun sína hafa verið að gista á Reykhólum, enda átti ættar­mótið að standa fram á sunnudaginn, en eftir að þessar ásakanir voru bornar á hann hafi hann horfið frá því og þess í stað farið til Reykjavíkur ásamt þeim sem komið höfðu með honum og hafi þau komið þangað um kl. 7. Hann kveðst ekkert erindi hafa átt upp á efri hæð skólahússins og enga hugmynd hafa um hvað hann var að gera þangað annað en leita að áfengi. Hann ætti við drykkjusýki að stríða og hefði verið mjög ölvaður. Af þessum sökum hafi verið búið að fela allt áfengi fyrir honum. Við þær aðstæður sé hann getulaus til kynferðisathafna. Þá gæti hann enga skýringu gefið á því hvers vegna skór hans fundust í herberginu þar sem stúlkan svaf.

Kærandinn X, gaf skýrslu hjá lögreglu síðdegis sama dag. Hún kveðst hafa lagst til svefns í skólanum á Reykhólum um kl. 1 um nóttina. Fósturfaðir hennar hafi fært hana í annað herbergi þar sem hún lá á dýnu á gólfinu milli tveggja rúma. Enginn annar hafi þá verið í herberginu. Kveðst hún hafa vaknað um nóttina við að hún fann eitthvað strjúkast við vinstra læri sitt innanvert alveg uppi við klofið. Hún hafi áttað sig á að það var tippi sem strokist hafði við hana. Einnig fann hún þá að hún var ekki lengur í nærbuxunum og að búið var að opna svefnpokann. Kveðst hún, eiginlega áður en hún að opnaði augun, hafa sett náttkjólinn fyrir klof sitt. Um svipað leyti hafi hún opnað augun og séð hver þarna var, þ.e. ákærði, og hafi hann verið allsber. Ákærði hafi líklega beygt sig einhvern veginn yfir hana, en sennilega ekki legið ofan á henni. Þegar vitnið setti náttkjólinn fyrir kynfæri sín kveður hún ákærða hafa rifið kjólinn frá og káfað á kynfærum hennar með höndunum. Hafi hann sagt að hún þyrfti ekki að vera hrædd; hann ætlaði ekki að gera neitt og að þetta væri allt í lagi. Vitnið kveðst hafa reynt að rísa aftur upp, ýtt ákærða frá og sloppið frá honum og hlaupið fram, þar sem hún hafi leitað ásjár móður sinnar. Vitnið kvað ákærða hafa strokið með hendinni við klof hennar; hann hafi ekki farið með fingur inn í hana. Ákærði hafi ekki meitt hana nema þegar hann ýtti henni niður. Vitnið kveðst hafa öskrað á ákærða að hætta því sem hann var að gera. Hún segist ekki, svo vel sé, geta gert sér grein fyrir því hve langur tími leið frá því hún vaknaði og þar til hún slapp frá ákærða. Móðir hennar hafi þó verið búin að líta til hennar líklega hálftíma áður en þetta gerðist. Hún hafi ekki vaknað þá en móðir hennar hafi sagt henni það síðar.

Ákærði skýrði við meðferð málsins svo frá að hann hafi komið á ættarmótið á Reykhólum um kl. 20 á laugardeginum ásamt fjölskyldu sinni og mágkonu. Þá hafi flest fólkið verið komið og setið í borðsalnum og raunar verið á víð og dreif, úti að grilla eða inni að borða. Hann hafi gjört hið sama og hitt fólkið, þ.e. að grilla og svo farið inn í borðsal að snæða sinn mat. Þegar borðhaldinu var lokið hafi fólkið farið inn í íþróttasalinn í skólanum þar sem fram hafi farið dagskrá, en eftir hana, um eða eftir miðnætti, hafi fólkið farið aftur inn í borðsalinn að skemmta sér. Ákærði kveðst hafa neytt áfengis í verulegum mæli og byrjað þá neyslu um leið og hann kom á staðinn og haldið henni áfram fram eftir kvöldinu og fram yfir miðnætti. Ákærði kveðst lengst af hafa setið í borðsalnum eftir að fólkið hafði komið þar saman um eða eftir miðnætti, en farið á flakk um húsið og þá hitt einhverja. Mestallan tímann hafi hann verið í borðsalnum ásamt sínu fólki, setið þar, drukkið og skemmt sér. Þegar líða fór á nóttina hafi hann verið orðinn mjög ölvaður og fólkið verið farið að taka af honum vín, en með það hafi hann ekki verið sérlega ánægður, þannig að hann hafi farið að rölta um gangana og fengið sopa og sopa hjá fólki sem hann hitti. Yfirleitt hafi hann verið einn í þessum ferðum, rölt eitthvað um, farið síðan inn í borðsalinn aftur, setið þar góða stund, en farið síðan aftur á stjá.

Í einni af þessum ferðum sínum kveðst ákærði hafa farið úr borðsalnum og fram á ganginn og verið þar um stund. Þaðan hafi hann farið upp á aðra hæð hússins þar sem herbergjagangurinn er. Þar hafi öll herbergin verið lokuð nema það innsta. Hafi hann farið þar inn, en það hafi verið mannlaust. Stuttu síðar hafi upphafist mikil læti. Þá hafi Z komið og kallað hann öllum illum nöfnum og sagst ætla að kalla í föður hans og að hann ætti að bíða, og það hafi hann gert. Þegar hér var komið hafi þau verið komin fram á ganginn, en hann síðan farið aftur inn í herbergið, fengið sér sæti, farið úr skónum og beðið. Hann hafi aldrei skilið hvað Z var að tala um, en hún hafi sagst ætla að sækja föður hans og að hann væri rakinn dóni og óþverri og ætti að bíða, og það hafi hann ákveðið að gera. Því næst hafi það gerst að þarna hafi komið eitthvað af fólki, sem hann geri sér ekki grein fyrir hvert var, nema hvað foreldrar hans hafi komið, svo Z og Y. Þarna hafi verið læti og það hafi verið rifið í hann og hann tuktaður til og kýldur og með það hafi hann farið út. Síðan hafi liðið einhver tími þar til hann hitti föðurbróður sinn, en hann hafi sagt sér að verið væri að bera á hann kynferðislega áreitni gagnvart telpunni. Ítrekar ákærði að enginn hafi verið inni í um­ræddu herbergi þegar hann fór inn í það. Það sem honum sé gefið að sök í ákæru væri alrangt og hafi hann engar skýringar á hvers vegna þessi ásökun sé sett fram á hendur sér. Hann geti með engu móti ímyndað sér hvers vegna. Hann myndi atvik nokkuð vel þótt hann hafi verið búinn að neyta allnokkurs áfengis. Vitaskuld ekki lið fyrir lið, en það sem uppúr standi muni hann. Eftir að þessi ásökun hafði verið sett fram hafi hann ákveðið að yfirgefa staðinn og farið frá Reykhólum um kl. 8 um morguninn. Ákærði kannast við að ljósmyndirnar sem teknar voru í herberginu séu úr því herbergi sem hann fór inn í þessa nótt, en hvort þar hafi verið svipað umhorfs og myndirnar sýna muni hann ekki. Íþróttaskóna sem sæjust á myndinni kveður ákærði vera þá sömu og hann var í og klæddi sig úr inni í herberginu. Hann hafi þó enga skýringu á því hvers vegna hann fór úr skónum einmitt þarna. Hann hafi sem fyrr segir verið orðinn mjög ölvaður og helst viljað halla sér.

Nánar aðspurður um áfengisdrykkju sína kveðst ákærði hafa drukkið vodka, blandað í gosdrykk. Hann hafi verið með áfengið í 1,75 lítra brúsa og þegar þessir atburðir gerðust hafi verið „svona eftir í botninum“. Af eigin reynslu af áfengisdrykkju geti hann sagt að hann muni yfirleitt það sem gerist eftir slíka drykkju. Eins og gefur að skilja, þegar hann sé búinn að drekka svo stíft sem hann gerði, þá muni hann ekki glöggt einstaka atburði sem litlu máli skipti, en það sem upp úr standi muni hann alltaf. Hann muni t.d. þegar hann var að fara út í bíl að sækja meira áfengi og þegar verið var að taka af honum áfengið. Langar eyður séu ekki í minni hans þetta kvöld. Hann hafi hins vegar eftir talsvert mikið ferðalag verið mjög þreyttur.

 Ákærði kveður að verið geti að hann hafi farið inn í herbergið um eða upp úr kl. 3. Stúlkuna X hafi hann ekki séð fyrr en á þessu ættarmóti og ekkert af hennar fólki. Reki hann ekki minni til að hafa séð stúlkuna um kvöldið eða nóttina. Reyndar hafi verið haldin kynning í íþróttasalnum þar sem hver ættliður um sig hafi verið kynntur, en í huga hans standi ekkert þar upp úr. Þá fullyrðir ákærði að herberg­ið hafi verið mannlaust þegar hann fór inn í það. Þegar Z bar hann framan­greindum sökum hafi hann enga skýringu fundið þar á. Hann hafi ekki skilið hvað hún var að fara. Hið eina sem hann náði af því sem hún sagði sé að hún hafi sagt að hann væri dóni og að hann skyldi bíða; hún ætlaði að fara og sækja einhvern sem hann muni ekki hver er og hann hafi hlýtt henni, talið víst að það væri faðir hans sem hún ætlaði að sækja. Hann hafi farið aftur inn í herbergið, farið úr skónum, fengið sér sæti og beðið. Enginn annar hafi rætt við hann í herberginu.

Ákærði kveðst aldrei hafa haft hvatir til barna eða aðrar óeðlilegar kynhvatir. Þá hafi hann engan áhuga á kynlífi þegar hann sé ofurölvi, um það sé hann ekki fær. Ef hann detti í það vilji það á stundum teygjast svolítið; þá drekki hann og drekki og ef hann sé kominn yfir ákveðið stig, þá drekki hann sig til svefns. Ákærði kveðst muna að eftir að meintur atburður átti að hafa gerst hafi maður að nafni Þ kýlt hann. Þ hafi átt einhver orðaskipti við ákærða um eitthvað sem hann skildi ekki; það hafi verið gargað og gólað, en Þ hafi kýlt hann. Aðspurður hvernig hann hafi brugðist við, er hann hafði áttað sig á að hann var sakaður um kynferðisbrot gagnvart telpunni, kveðst ákærði í raun ekki hafa áttað sig á hvað var á seyði fyrr en hann var kominn út úr húsinu. Þá hafi hann farið að ræða við föðurbróður sinn og það hafi verið hann sem hafi sagt honum hvað hann átti að hafa gert. Aðspurður hvernig hann var klæddur þegar hann fór úr borðsalnum kveðst ákærði hafa verið í gallabuxum og bol. Þegar Z talaði við hann hafi hann verið í gallabuxum og bol. Áður en hann fór inn í herbergið hafi hann verið í borðsalnum ásamt fólkinu. Aðspurður hvort hann viti hve langur tími leið frá því að hann var í borðsalnum þar til sú staða kom upp að hann var borinn þessum sökum kveður ákærði það hafa verið stuttan tíma. Á leiðinni upp hafi hann hitt einhverja. Leiðin úr matsalnum að herberginu sé tiltölulega löng. Þetta sé stór bygging, en hann geti ekki áætlað hve lengi hann var að ganga þessa leið í rólegheitum, en það taki smástund. Ákærði kveður svefnpoka ekki hafa verið milli rúmanna og að það hafi ekkert verið ofan á dýnunni. Hann hafi hvorki orðið var við eitt né neitt. Það hafi enginn verið þarna inni og ekkert til að veita sérstaka eftirtekt.

Kærandi skýrði svo frá við meðferð málsins að hún hafi sofið í herbergi sem móðir hennar og stjúpfaðir, ásamt henni, höfðu til umráða. Tvö rúm hafi verið í her­berginu og á gólfinu milli þeirra hafi verið dýna sem vitnið svaf á, en hún hafi verið í náttkjól og nærbuxum. Meðan hún svaf hafi hún fundið að eitthvað straukst við lærið á henni og hafi hún í fyrstu haldið haldið að þetta væri draumur og því haldið áfram að sofa. Síðan hafi hún fundið þetta aftur, litið við og þá séð mann, sem hún þekkti hvorki né hafði séð áður, en hann hafi verið allsber. Vitnið kveðst hafa komist að raun um að hún var ekki í nærbuxunum og að náttkjóllinn var uppbrettur. Hún hafi sagt honum að gera þetta ekki, en hann hafi ekki hlustað á hana og hún hafi reynt að ýta honum frá. Hann hafi kippt harkalega í handlegginn á henni og ýtt henni niður. Hún hafi þá staðið upp, gefið manninum olnbogaskot og hlaupið niður til að sækja móður sína. Saman hafi þær farið upp og þegar móðir hennar kom að manninum hafi hann verið að klæða sig í buxurnar. Hafi móðir hennar farið með hana fram á ganginn fyrir framan herbergið. Þá hafi maðurinn komið þangað og verið með ljótt orðbragð, sagt við móður hennar alls konar ljót orð. Móðir hennar hafi síðan farið og sótt systur vitnisins.

Kærandi kveður manninn ekkert erindi hafa átt inn í herbergið hjá henni. Hann hafi verið í kjallaranum, en þetta hafi verið á efstu hæð. Helstu ættingjar hennar hafi verið þarna uppi og hann hafi ekkert erindi átt þarna upp og hún viti ekki hvað hann var að gera þarna uppi. Tippið á honum hafi verið frekar hart. Kvaðst hún hafa orðið vör við að það straukst við hana innanvert á hægra læri. Þegar hún vaknaði hafi hún legið á maganum, en snúið sér við og þá séð manninn. Hann hafi beygt sig yfir hana og það hafi verið þá sem tippið straukst við aftanvert lærið á henni mjög ofarlega. Hún hafi fundið fyrir því og að það var fremur hart. Hann hafi sett náttkjólinn upp og þegar hún vaknaði hafi hún ekki verið í nærbuxunum, en í þeim hafi hún verið þegar hún fór að sofa og með náttkjólinn niður um sig. Svefnpokinn hafi verið alveg opinn, en hún hafi verið með hann upprenndan yfir sér þegar hún fór að sofa. Telur vitnið að maðurinn hafi togað náttkjólinn upp til að komast betur að henni. Þá hafi hann komið við hana með höndunum. Hann hafi strokið hana um lærið aftanvert eiginlega við kynfærin, aftan frá, tvisvar sinnum. Hún hafi þá snúið sér við, og séð manninn og reynt að ýta honum frá sér, en þá hafi hann tosað í handlegginn á henni fremur harka­lega og togað hana til sín. Hún hafi áfram sagt honum að gera þetta ekki, staðið upp og gefið honum olnbogaskot og hlaupið niður. Maðurinn hafi sagt við hana að þetta væri í lagi, þetta yrði allt í lagi, það gerðist ekkert. Nánar aðspurð kveðst vitnið hafa legið á maganum og hliðinni með höfuðið á hliðinni þegar maðurinn strauk hendinni við eða á kynfæri hennar.

Fyrst á eftir hafi hún verið mjög hrædd og eiginlega ekki getað ímyndað sér að þetta hefði gerst. Hún hafi verið í viðtölum hjá félagsráðgjafa, en sé hætt því fyrir nokkru. Þegar hún er ein heima á kvöldin sé hún fremur smeyk. Henni finnist það óþægilegt og hafi viljað hafa herbergi sitt nær svefnherbergi móður sinnar og stjúp­föður.

Kærandi lýsir manninum þannig að hann sé meðalmaður að hæð eða e.t.v. rétt rúmlega það, með lítilsháttar skollitað skegg og hár í sama lit. Hún hafi ekki tekið glöggt eftir augnalitnum, en sig minni að hann hafi verið blár eða eitthvað í þá áttina. Hann hafi ekki verið með mjög dökka húð, ekki beint hvítur og milli 26-30 ára gamall. Hann hafi alls ekki verið feitur, fremur í meðallagi. Þá minnti vitnið að hann hafi ekki verið loðinn á bringunni

Eftir þetta kveðst vitnið aðeins hafa séð manninn þegar fósturfaðir hans var að tala við hann á svölunum, þó ekki vel. Móðir hennar hafi einnig talað við manninn og þetta hafi verið sami maðurinn og var inni í herberginu hjá vitninu, um það sé hún alveg viss. Hins vegar hafi hún hvorki þekkt manninn og aldrei séð hann áður.

Kærandi kveðst sem fyrr segir hafa legið ofan í svefnpoka á milli rúmanna og hafi hann verið nokkurn veginn alveg upprenndur. Hún sé ekki viss hvað varð um svefnpokann eftir að hún fór niður og viti ekki hvað gerðist í herberginu eftir að hún fór. Hún hafi ekki sofið í herberginu eftir þetta því þau hafi farið heim um nóttina, svo að segja strax. Hún hafi ekki, svo heitið geti, sofið meira þessa nótt.

Kærandi kveður sér ekki hafa gengið neitt tiltakanlega verr í skóla eftir atvikið, en henni finnist óþægilegt ef félagarnir eru að ræða um svona nokkuð, þá líði henni dálítið illa. Þetta hafi ekki komið beinlínis niður á náminu. Sér hafi fundist best að loka þetta inni, ekki verið að segja mörgum frá þessu. Ef hún geti ætli hún að reyna að loka þetta inni og reyna að gleyma þessu.

Kærandi kveðst hafa gengið í svefni þegar hún var yngri og einnig oft fengið martraðir. Móðir hennar hafi haldið að þetta væri eitthvað þess háttar; hún hafi séð óttasvipinn, en samt farið með henni upp. Hún fái drauma þar sem verið sé að ógna henni. Sérstaklega eftir þetta fái hún drauma þar sem verið sé að elta hana með hníf, líkt og sjáist í hryllingsmyndum. Það hafi verið meira um það áður.

Þegar kærandi kom niður í borðsal kveðst hún hafa verið í náttkjólnum, sem sé frekar síður, einum fata. Hún hafi hvorki reynt að bíta manninn né klóra heldur gert mest með höndunum, ýtt honum með olnboganum. Hún hafi öskrað, en ekki ýkja hátt, hún sé ekki raddsterk. Einhverjir hafi verið sofandi í herbergjum við hliðina, en þau hafi öll verið læst. Hún viti þó að stelpa, sem var í herberginu á móti hennar, varð vör við að reynt var að opna hjá henni, en dyrnar hafi verið læstar.

Þegar kærandi vaknaði fannst henni eitthvað koma við lærið á sér. Kveðst hún í draumnum hafa haldið að þetta væri það sem það raunverulega var, það hafi verið hart. Þegar hún fann þetta hafi hún haldið að þetta væri draumur, en hvað hana var að dreyma áður myndi hún ekki. Hún kveðst halda að maðurinn hafi verið lítillega ölvaður, hann hafi verið frekar þvoglumæltur. Hann hafi haft nokkurn veginn fullt jafn­vægi, þó ekki alveg. Maðurinn hafi verið sterkur. Þegar hann tosaði hana til sín hafi það verið frekar vont. Hún hafi fengið rispu, hann hafi klórað hana í leiðinni eða eitthvað hafi rekist í hana. Þótt ekki hafi það komið fram hjá læknunum sem skoðuðu hana minni hana að það hafi komið lítil rispa á höndina.

 Aðspurð hvers vegna hún hafi ekki hlaupið öskrandi og æpandi niður í borðsal til móður sinnar, hafi hún lent í þessum aðstæðum, kvaðst hún hafa verið óttaslegin. Hún hafi verið hágrátandi og ekki einu sinni hugsað um það. Hún hafi hlaupið niður til móður sinnar, sem hafi setið svo að segja við dyrnar á borðsalnum og potað í hana og hún hafi komið strax með sér upp. Hún hafi hvorki öskrað né kallað á neinn á leið­inni niður, einungis verið grátandi, óttaslegin og hrædd og á eftir hafi hún grátið mjög mikið, þegar verið var að ræða við manninn.

 Maðurinn í herberginu hafi ekki verið áberandi ölvaður. Hann hafi ekki verið mjög skýrmæltur, en jafnvægið hafi verið nokkurn veginn í lagi. Fannst vitninu hann vera fremur sljór og lengi að meðtaka. Hann hafi sagt við hana: „Þetta verður allt í lagi, það gerist ekkert, þetta lagast bara allt.“ Hún hafi sagt honum að láta sig vera og gefið honum olnbogaskot og þá hafi hann tosað hana til sín. Maðurinn hafi ekki tosað mikið í náttkjólinn, aðallega höndina, og kjóllinn hafi ekki rifnað. Hún hafi ýtt honum niður og hann hafi dottið á dýnuna, tosað laust í kjólinn og þá hafi hún snúið sér við. Hann hafi þá verið að standa upp og hafi hún þá gefið honum olnbogaskot og hlaupið út. Þegar hún var staðin nokkurn veginn upp, og var í þann veginn að hlaupa út úr her­berginu, hafi hún ýtt honum niður og hann hafi dottið á dýnuna. Er hann var í þann veginn að standa upp hafi hann tekið laust í kjólinn.

Þegar kærandi var 10-11 ára gömul kveðst hún oft hafa vaknað upp við martraðir og talað upp úr svefni; raunar einnig fyrir þann aldur, en mest á þeim aldri. Auk þess að tala upp úr svefni hafi hún átt það til að ganga í svefni. Martraðirnar hafi fyrir atburðinn mestmegnis gengið út á ofbeldi með hnífa og fleira í þeim dúr, þar sem verið var að reyna að drepa hana, en ekki kynferðislegt ofbeldi. Eins og hún hafi áður sagt hafi hún vaknað upp og fundið að eitthvað hart kom við hana og hún talið að þetta væri draumur. Hana hafi ekki verið að dreyma eða með martröð þá nótt, en hún viti ekki hvað hana dreymdi, en þegar þetta kom hafi hún haldið að sig væri að byrja að dreyma eitthvað. Hún hafi haldið að þetta væri draumur og bylt sér lítillega, haldið að hún gæti losnað við drauminn. Þegar hún reyndi að hugsa um eitthvað annað hafi þetta komið aftur, upp úr þurru, og þá hafi hún litið við og séð mann sem hún þekkti ekki. Hún hafi aldrei séð ákærða fyrr eða síðar, aðeins í þetta eina skipti. Þetta hafi verið 80 manna ættarmót, en útilokað sé á að hún sé að rugla saman mönnum. Hún gæti fullyrt það vegna þess að hún myndi örugglega þekkja manninn. Hún hafi litið beint framan í hann eftir að hún fór upp með móður sinni, en einnig þegar hún var að ýta við honum. Þá hafi hún séð lítið eitt framan í hann og þegar hún fór upp með móður sinni hafi hún séð á hliðina á honum.

Vitnið Z, skýrði svo frá við meðferð málsins að fjöl­skylda hennar hafi verið á ættarmóti. Börnin úr fjölskyldu hennar hafi að líkindum farið að sofa um eittleytið, á efri hæðinni. Í stuttu máli sé þetta þannig að hún hafi farið þarna upp um kl. 2:15 um nóttina. Þá hafi flestir verið niðri í sal að syngja og það hafi verið þá sem hún ákvað að ganga einn hring um og líta inn í herbergin, sökum þess að hún var í fyrirsvari með húsnæðið. Dóttir hennar hafi verið þar fastasvefni í svefnpoka á dýnu á gólfinu. Einnig hafi hún litið inn í fleiri herbergi, m.a. hjá barna­börnum sínum. Hún hafi svo farið aftur niður og sest inn í salinn og setið þar við glerdyr. Á að giska 15 mínútum síðar hafi telpan komið niður og sá vitnið hana standa fyrir utan dyrnar og var telpan mjög skelkuð á svipinn. Kveðst vitnið hafa staðið upp í skyndingu og spurt telpuna hvað komið hefði fyrir, og hún svarað að það væri maður í herberginu hennar. Vitnið kveðst þegar í stað hafa hlaupið með telpunni upp í her­bergi. Þá hafi maður verið þar inni og sneri hann í þær baki. Var hann að hysja upp um sig buxurnar, var ber að ofan og berfættur, með buxurnar svo að segja á mjöðm­unum. Vitnið kveðst hafa spurt manninn hvað hann væri að gera þarna og hvort hann hefði gert eitthvað við telpuna. Maðurinn hafi verið mjög dónalegur við vitnið og haft í frammi óviðurkvæmilegt orðbragð, öskrað á hana og sagt að hann hafi ekkert gert við hana. Kveðst vitnið hafa ákveðið að sækja eldri dóttur sína Y, sem var í borð­salnum og tekið telpuna með sér. Hafi Y farið upp ásamt vitninu og telpunni og þá hafi maðurinn enn verið í herberginu. Eftir að Y var komin upp hafi vitnið farið aftur niður til að sækja mann sinn og tengdason, en Y ákveðið að halda þar kyrru fyrir á meðan til að reyna að halda manninum á vettvangi.

Vitnið kveður sér hafa brugðið mjög þegar hún sá svipinn á telpunni er hún sá hana fyrir utan dyrnar. Ljóst hafi verið að eitthvað mjög alvarlegt hafði gerst sem hrætt hefði telpuna. Hún hafi ekki verið grátandi, en náföl og stjörf í framan. Frásögn telpunnar hafi verið á þá leið að hún hafi fundið að maður lá ofan á henni og hún hafi ekki vitað hvort hún var vakandi eða sofandi. Hún hafi verið sofandi og ekki áttað sig á þessu, en hún hafi fundið að það var maður inni í herbergi hennar. Telpan hafi sagt vitninu að hún hafi ekki vitað hvort þetta var í vöku eða draumi, hvort þetta var svefn eða vaka. Hún hafi þrisvar sinnum reynt að ýta manninum frá sér, en hann sagt við hana að hún skyldi ekki hafa hátt, hann ætlaði ekki að meiða hana. Telpan hafi sagt að hún hafi náð að sleppa í þriðja skiptið og að hún hafi fundið í millitíðinni að hún var ekki í nærbuxum. Við það hafi telpunni brugðið mjög og hafi hún þá reynt að setja náttkjólinn fyrir, milli fóta sér til að verja sig, en hann hafi tekið náttkjólinn frá og hún hafi reynt allt hvað hún gat að halda honum þar. Telpan hafi einnig sagt vitninu að þegar hún var að reyna að ýta manninum frá hafi komið til lítils háttar stimpinga með þeim hætti að hann hafi þrýst henni niður og hún brotist um. Maðurinn hafi meitt hana eitthvað þegar hún var að brjótast um, en hún hafi sagt að það hafi gerst þrisvar. Í þriðja skiptið hafi hún sloppið. Aðspurð hvort telpan hafi lýst því nánar hvað hann gerði við hana kveður vitnið þau hafa spurt hana hvort hún hafi fundið til og hvort hann hafi komið við hana að neðan. Hún hafi neitað því og sagt að hún héldi að hann hafi ekki farið inn í sig, en hún hafi sagt að hún hafi fundið tippið á honum, eins og hún orðaði það, við lærið á sér og einnig hafi hún sagt að hann hafi strokið um hana að neðan og að hún hafi verið að reyna að verja sig með því að reyna að setja náttkjólinn fyrir, en hann hafi tekið hann frá.  

Vitnið kveðst hafa vitað deili á manninum, þótt hún þekki hann ekki persónu­lega. Hann hafi virst vera rólegur þegar hún kom þarna upp og hann hafi verið að draga upp um sig utanyfirbuxurnar, verið með þær á miðjum lendunum, og minnti vitnið að það væru gallabuxur. Maðurinn hafi verið ber að ofan og berfættur, í nær­buxum innanundir utanyfir­buxunum og sneri baki í vitnið, en sneri sér við þegar vitnið kom. Vitnið kveðst ekki hafa séð föt af manninum í herberginu, en skór hafi verið þar inni, einhvers konar strigaskór. Henni hafi ekki virst hann vera undir áfengisáhrifum. Hún hafi veitt því eftirtekt að hann hafði verið að neyta áfengis í borðsalnum og e.t.v. drukkið meira en aðrir, því flestir hafi verið með létt vín. Hann hafi virst vera áberandi drukknari en aðrir og þau hafi tekið eftir að það var meiri hávaði í honum. Vitnið kveðst ekki hafa veitt því eftirtekt hvenær hann fór út úr borðsalnum, enda ekki verið að fylgjast sérstaklega með honum. Á borðsalnum hafi dyrnar verið lokaðar til þess að trufla ekki þá sem sváfu á efri og neðri hæðum hússins.

Vitnið kveður telpuna hafa átt það til, þegar hún var yngri, að vakna hrædd og hafi þetta minnt vitnið örlítið á það. Kveðst vitnið í fyrstu hafa haldið að telpan hafi fengið mikla martröð. Hafi þetta e.t.v. verið það fyrsta sem vitninu datt í hug; er þetta martröð, hefur hana bara verið að dreyma. Ekkert slíkt hafi þó gerst í seinni tíð. 

Þegar vitnið kom inn í herbergið með telpunni og maðurinn var enn að klæða sig kveðst vitnið hafa beint þeirri spurningu til hans hvort hann hafi gert eitthvað við hana. Hann hafi engu svarað. Kveðst vitnið hafa sagt þetta aftur og aftur og virtist því hann vera hálfsljór, a.m.k. hafi hún ekki séð nein viðbrögð hjá honum. Vitnið kveðst síðan hafa farið fram á ganginn og haldið utan um telpuna og þá hafi hann komið á eftir og verið mjög æstur. Hafi hann verið með skæting, húðskammað vitnið og öskraði í eyra á þess. Kveðst vitnið hafa verið dauðhrætt við manninn og haldið að hann ætlaði að ráðast á þær. Fannst vitninu framkoma mannsins annaðhvort benda til að hann væri hræddur eða hann vissi upp á sig einhverja sök. Kveðst vitnið hafa verið mjög undrandi á þessum miklu og skyndilegu við­brögðum þar sem hann hafi virst fremur rólegur inni í herberginu.

Vitnið kveðst ekki hafa veitt því eftirtekt hvort breytingar hafi orðið á svefn­venjum telpunnar eftir þennan atburð, en fyrst á eftir hafi hún verið mjög óttaslegin sem hafi m.a. lýst sér í því að hún hafi verið hrædd um að hann myndi koma og hefna sín á henni. Telpan hafi skömmu áður verið búin að færa sig í herbergi nær inngang­inum, en eftir atvikið hafi hún viljað færa sig í herbergi innar í íbúðinni. Allan sl. vetur hafi hún aldrei viljað vera ein og hafi ekki getað hugsað sér að vera ein á kvöldin.

Vitnið kveðst ekki hafa neytt mikils áfengis þetta kvöld. Þau hafi verið með rauðvín með matnum og ekki annað áfengi.

Vitnið kveður það hafa verið um kl. 2:15 sem hún leit til dóttur sinnar, en atvikið hafi átt sér stað um kl. 2:30. Um kl. 2:10 kveðst vitnið hafa farið úr borð­salnum og gengið um húsið. Hún hafi verið tiltölulega fljót að því, lokað leikfimi­salnum og síðan hafi hún farið niður aftur og 15-20 mínútum síðar hafi atvikið gerst. Hún hafi verið um 5 mínútur í þessari ferð því hún hafi eingöngu farið inn í leikfimisalinn og upp á efri hæðina þar sem börnin sváfu. Vitnið kveðst ekki minn­ast þess að telpan hafi minnst á það við sig að hún hafi slegist við ákærða, velt honum um koll og gefið honum olnbogaskot, heldur hafi hún sagt að hún hafi reynt hvað hún gat til að ýta honum frá. Hún hafi reynt það tvisvar og hann hafi komið aftur niður og hún hafi sloppið í þriðja skiptið og hlaupið burtu. Vitnið kveðst halda að þegar það fór í yfirferðina um ganga hússins hafi verið sofandi fólk í herbergjunum í námunda við herbergi dóttur hennar. Hún hafi aðeins farið inn í þau tvö herbergi sem tilheyrðu henni. Öll hin hafi verið lokuð, en á ganginum séu fimm eða sex herbergi. Greinilegt sé að enginn hafi heyrt öskrin í dóttur vitnisins, enda kveðst vitnið ekki vera viss um að telpan hafi öskrað svo mjög; hún hafi ekki einu sinni spurt hana að því. Telpan hafi sagt vitninu að hún hafi reynt að brjótast undan manninum og sagt að hún hafi ekki vitað hvort hún var vakandi eða sofandi. Þegar telpan uppgötvaði að þetta var ekki draumur hafi hún reynt hvað hún gat að ýta manninum burt frá sér.

Vitnið kveður telpuna hafa lýst því nákvæmlega fyrir sér hvað gerðist 5-10 mínútum eftir atvikið. Hún hafi farið með telpuna niður, tekið hana afsíðis og beðið hana að segja sér frá því sem gerst hafði. Y, eldri dóttir vitnisins, hafi einnig komið undir eins niður.

Vitnið Y skýrði svo frá við meðferð málsins að þegar umrædd­ur atburður átti sér stað hafi fólkið verið í matsal skólans og hafi verið búið að sitja þar í 1-2 klukkustundir. Hafi ákærði verið eini maðurinn sem sjá mátti áfengi á og hafi hann verið sá eini sem nauðsynlegt var að hafa lítilsháttar afskipti af. Vitnið kveðst ekki hafa veitt því eftirtekt þegar ákærði hvarf úr salnum og hafi hún ekkert vitað fyrr en móðir vitnisins kom niður og bað vitnið að koma upp. Telur vitnið að þá hafi klukkan verið á bilinu tvö til hálf þrjú. Kveður vitnið móðir sína hafa komið niður með telpuna í eftirdragi, skelfingu lostin, og beðið vitnið að koma og sagt vitninu í flýti að maður væri í herbergi telpunnar, og hún viti ekki hvað hann hafi gert við hana. Vitnið kveðst hafa hlaupið upp á gang með mæðgurnar á eftir sér og inn í herbergið. Þá hafi hún séð ákærða sitja þar álútan á öðru rúminu. Kveðst vitnið hafa rokið á ákærða og dregið hann fram með sér til þess að geta kallað í móður sína sem vitnið vissi að var á eftir sér. Eftir að hafa dregið ákærða fram kveðst vitnið hafa beðið móður sína að fara niður og kalla í mann vitnisins og mann móður hennar og biðja þá að koma. Þau hafi ekki átt nein sérstök orðaskipti þegar hún dró hann fram, en vitnið hafi hálfpartinn hvæst á ákærða og spurt hann hvað hann væri að gera þarna, en hann hafi engu svarað. Eftir að mennirnir voru komnir þarna upp og ákærði var kominn í þeirra hendur kveðst vitnið hafa viljað athuga hvernig mæðgunum liði og ákveðið að fara til þeirra. Þær hafi þá verið komnar aftur niður á jarðhæðina og kveðst vitnið hafa sest hjá þeim og spurt telpuna hvað gerst hefði og farið yfir það með henni hvort ákærði hefði gert henni eitthvað. Telpan hafi sagt að tippið á honum hafi strokist við sig. Hún hafi spurt telpuna hvort hún héldi að hann hefði farið inn í hana, en hún hafi sagt að hún vissi það ekki. Vitnið kveðst einnig hafa spurt telpuna hvort það hafi verið sársauki, en því hafi hún neitað og af þeim sökum hafi vitnið talið eða vonað að svo hafi ekki verið.

Þegar vitnið hafði lokið við að ræða við telpuna kveðst hún hafa farið aftur upp og séð að foreldrar mannsins voru ekki komnir þangað. Hafi sér flogið í hug að rétt væri að láta þau vita og því hafi hún farið niður í matsalinn og náð í föður ákærða, beðið hann að koma til að ræða við þær og skýrt honum í stórum dráttum frá því hvað þær teldu að gerst hefði. Að því búnu hafi faðir ákærða farið upp og skömmu síðar hafi hún einnig farið upp aftur. Út á svölum hafi hún hitt ákærða og foreldra hans að máli til að segja þeim að þau hygðust ganga lengra í málinu. Í framhaldi af því kveðst vitnið hafa farið út í bíl og hringt í lækninn í Búðardal og í lögregluna á Patreksfirði. Síðan hafi þau haldið af stað til Reykjavíkur.

Þegar vitnið kom inn í herbergið kveður hún ákærða hafa verið verið klæddan galla­buxum, berfættan og beran að ofan. Þetta hafi verið sami maðurinn og sá sem þurfti að hafa afskipti af í borðsalnum fyrr um nóttina. Vitnið kveðst ekki hafa veitt því eftirtekt hvort skór voru í námunda við ákærða. Það hafi ekki verið fyrr en eftir á sem henni var sagt að skór hefðu fundist þar. Vitnið kveðst heldur ekki hafa séð neina flík af ákærða. Þegar hún kom út á svalir minni hana að ákærði hafi verið kominn í stuttermabol, hvítan að lit, en hún hafi engar flíkur séð í herberginu, heldur ekki þennan stuttermabol. Vitnið kveður svefnpoka hafa verið milli rúmanna í herberginu. Hún viti það vegna þess að búið hafi verið um telpuna þar um kvöldið. Vitnið og móðir þess hafi séð um að búa um börnin í herbergjunum tveimur sem voru hlið við hlið.

Vitnið kveðst ekki muna hvernig ákærði var klæddur þegar hún sá hann í matsalnum. Hún kveðst hafa neytt áfengis. Vitnið og maðurinn hennar hafi verið með áfengisflösku sem þau deildu með sér. Hún telji þá áfengisneyslu ekki hafa skert athyglisgáfu sína. Vitnið kveðst ekki treysta sér til að hafa eftir þau orð sem fóru á milli hennar og ákærða. Hún hafi spurt hann hvað hann hafi verið að gera, en hún hafi svo til ekkert fengið upp úr honum af viti. Það sem hann sagði hafi verið í þeim dúr að hann hafi spurt hvað hún væri að skipta sér af því. Sama gilti þegar hún fór út á svalir og hitti ákærða og foreldra hans. Það hafi verið í sama dúr. Hann hafi reyndar verið mjög sérkennilegur til augnanna, eða dofinn til augnanna, en hann hafi alltaf staðið í fæturna og getað beitt tungunni.

Þegar vitnið ræddi aftur við telpuna hafi hún verið bærilega róleg og vel getað lýst málavöxtum. Að mati vitnisins hafi telpan verið skýr í hugsun og ekki hafi verið nein „panikk“ á henni. Þegar þær mæðgurnar spurðu hana aftur út í atvikið, hafi þær spurt hana hvort hún myndi vilja kæra, því það hafi þær gert áður en þær ákváðu að hringja í lögregluna. Þá hafi telpan tekið þá ákvörðun, þótt viðurkenna beri að þær hafi verið leiðandi í því. Vitninu hafi því fundist telpan vera róleg allt kvöldið og sé það raunar mjög svo hennar einkenni. Telur vitnið að telpan hafi verið að lýsa raun­verulegum atburðum. Hún hafi verið yfirveguð og róleg og lýst þessu svo nákvæm­lega að annað hafi aldrei hvarflað að sér.

Vitnið Þ, skýrði svo frá við meðferð málsins að hann hafi verið við gítarspil í borðsalnum. Þar hafi hann fyrst tekið eftir ákærða. Greinilegt var að einhverjir höfðu áhyggjur af honum, vegna þess hve órólegur hann var og báðu hann að setjast. Vitnið kveðst þó ekki hafa getað merkt að hann væri ofurölvi. Vitnið giskar á að um kl. 2 hafi tengdamóðir hans kallað á hann og hann hlaupið upp og þá hafi ákærði verið þarna uppi á gangi, þeim sama og vitnið hafði herbergi á. Kveður vitnið tengdamóðir sína hafi sagt sér hvað um væri að vera. Vitnið kveðst hafa reiðst og verið brugðið, en byrjað að ræða við ákærða og komið hafi til lítilsháttar stimpinga milli þeirra. Eftir þetta hafi verið haft samband við hjúkrunar­fræðing og lögreglu. Um morguninn hafi lögreglan svo komið.

Vitnið kveðst hafa komið að ákærða fyrir framan herbergið sem hann hafði verið inni í. Hafi hann verið í buxum og skyrtu, sem hafi ekki verið hneppt nema e.t.v. að einhverju leyti. Hvernig buxurnar og skyrtan voru á litinn mundi vitnið ekki, enda hafi hann verið reiður og hrópað að ákærða, sem hafi svarað vitninu fullum hálsi. Vitnið kveðst hins vegar ekki hafa farið inn í herbergið sem ákærði átti að hafa verið inni í. Þá kvað vitnið ákærða hafa verið undir áhrifum áfengis, en hann hafi ekki verið ofurölvi. Sjálfur hafi hann verið búinn að drekka tvö glös af rauðvíni og ekki fundið til teljandi áfengisáhrifa.

Vitnið kveður þá vitneskju sem hann hafði þegar hann fór upp hafa verið þá að maður væri inni í herbergi telpunnar og hafi reynt að hafa mök við hana og vitaskuld hafi hann reiðst við að heyra þetta. Hafi þetta orðið til þess að vitnið fór að tuskast við ákærða, en það hafi tekið fljótt af þar sem fleiri hafi komið þarna að. Hvaða orð ákærði notaði í orðaskiptum þeirra kveðst vitnið ekki muna, en hann hafi svarað vitninu fullum hálsi. Kveðst vitnið viðurkenna að hafa ráðist að ákærða og slegið hann högg í andlitið, en telur að það hafi hann gert eftir orðaskipti þeirra. Ákærði hafi haldið föstu taki í vitnið og það hafi verið þá sem vitnið sló ákærða þetta högg.

Auk þessa komu fjögur vitni fyrir dóminn. Þykir rétt að gera stuttlega grein fyrir framburði þeirra.

 Vitnið Aðalbjörg Jóna Björnsdóttir, kveðst hafa setið til borðs með ákærða greint sinn. Kveður vitnið ákærða hafa drukkið mjög stíft og hann orðið mjög ölvaður. Þá bar vitnið að reynt hafi verið að halda víni frá ákærða. Vitnið kveðst hafa misst af ákærða í um 5 mínútur og eftir það hafi lætin upphafist. Ákærði hafi verið klæddur gallabuxum og bol.

Vitnið Jón Hallgrímur Sigurðsson, kvað ákærða hafa verið dauðadrukkinn og erfitt hafi verið að ná sambandi við hann. Vitnið varð ekki vart við þegar ákærði fór úr salnum, en hann hafi verið klæddur bol og gallabuxum.

Vitnið Maríanna Guðríður Einarsdóttir, kveðst hafa setið við sama borð og ákærði og hafi hann verið mjög drukkinn. Kveðst vitnið hafa tekið áfengi af honum. Vitnið kveðst hafa vitað þegar ákærði fór úr salnum, en hve lengi hann var í burtu vissi vitnið ekki. Það hafi þó verið frekar skammur tími. Vitnið kveðst ekki hafa séð hvert ákærði fór.

Sambýliskona ákærða vitnið Hafdís Hrönn Björnsdóttir, kveðst hafa farið að sofa klukkan að verða eitt um nóttina. Þá hafi ákærði verið mjög ölvaður.

Í vottorði Jóns Kristinssonar barnalæknis og Þóru Fischer kvensjúkdóma­læknis varðandi telpuna, dagsettu 4. júlí 1997, kemur fram að stúlkan var skoðuð af ofangreindum læknum á Landspítalanum um kl. 13:30 þann 29. júní s.á. Þar segir að við almenna líkamlega skoðun barnalæknis sé ekkert óeðlilegt að finna, engin ytri áverkamerki. Við skoðun á kvið sé ekkert athugavert, útlimir séu eðlilegir og ekki merki um áverka á ytri kynfærum. Við skoðun kvensjúkdómalæknis komi ekki fram nein merki um nýlega áverka. Er niðurstaða skoðunarinnar þessi: „Eðlileg skoðun og engin merki um nýlega áverka. Skoðun þessi afsannar þó hvorki né sannar, að telpan hafi orðið fyrir kynferðislegri misbeitingu.“

Niðurstaða.

Ákærði hefur frá upphafi neitað sakargiftum og gefið þá skýringu að hann hafi í miklu ölvunarástandi, eftir að búið var að fela fyrir honum áfengi, ráfað um skóla­húsið í leit að áfengi. Þegar hann kom inn í herbergið á efstu hæð hússins, sem hann var inni í þegar móðir telpunnar kom þar að honum, hafi það verið mannlaust. Fullyrðir ákærði að hann hafi verið klæddur í þunnan stuttermabol og gallabuxur þegar móðir telpunnar kom inn í herbergið. Fullyrðing móðurinnar um að hann hafi verið ber að ofan og verið að hysja upp um sig buxurnar þegar hún kom að honum í herberginu sé beinlínis röng. Hann hafi hins vegar, eftir að hún var farin, fengið sér sæti á öðru rúminu og tekið af sér skóna þar sem hann hafi verið mjög þreyttur og ölvaður og ætlað að leggjast til hvíldar í herberginu. Af þessum sökum hafi hann verið skólaus þegar Z kom öðru sinni að honum í herberginu. Hann muni atburði sem upp úr standi þótt hann verði mjög ölvaður og því sé hann viss um að hann hafi ekkert gert á hlut telpunnar.

Framburður kæranda hefur verið stöðugur um að hún hafi vaknað upp við að allsnakinn maður var inni í herberginu hjá henni og að maðurinn strauk getnaðarlim sínum við læri hennar og þegar hún varð þess áskynja að hún var ekki í nærbuxunum og náttkjóllinn var upp um hana hafi hún reynt að bera náttkjólinn fyrir kynfæri sín. Hafi maðurinn rifið hann frá og strokið eða þuklað ytri kynfæri hennar. Eftir lítils háttar stimpingar hljóp telpan síðan niður í matsal og sótti móður sína.

Móðir telpunnar hefur borið að er hún kom í herbergið hafi ákærði verið þar fyrir, ber að ofan og skólaus að hysja upp um sig buxurnar. Hálfsystir telpunnar, sem kom skömmu síðar inn í herbergið sá ákærða sitja þar á rúmi, berfættan og beran að ofan.

Eftir að hafa hlýtt á framburð telpunnar velkist dómurinn ekki í vafa um að hún var að lýsa raunverulegum atburði kynræns eðlis. Hefur framburður hennar verið skýr og greinargóður í öllum meginatriðum við rannsókn og meðferð málsins og hafi eitt­hvað út af brugðið er þar um smáatriði að ræða.

Það er álit dómsins að framangreindur framburður kæranda og þessara tveggja vitna sé trúverðugur og að ákærði hafi ekki gefið trúverðuga skýringu á ferðum sínum og veru í herberginu.

Að framansögðu virtu er það álit dómsins að eigi sé varhugavert, þrátt fyrir staðfasta neitun ákærða, að telja sannað að hann hafi gerst sekur um þá háttsemi sem honum er gefin að sök í ákæru. Varðar atferli ákærða við 2. ml. 1. mgr. 202. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940, sbr. 10. gr. laga nr. 40/1992.

Ákærði hefur níu sinnum gengist undir sátt og átta sinnum hlotið dóm á tíma­bilinu frá 1983 til 1997. Í mars 1983 hlaut ákærði sekt fyrir nytjastuld og umferðar­lagabrot og í maí s.á. hlaut hann sekt fyrir umferðarlagabrot. Í ágúst sama ár hlaut ákærði sekt fyrir umferðarlagabrot og í febrúar 1986 hlaut hann sekt fyrir líkams­meiðingar af gáleysi og umferðarlagabrot. Í júlí 1987 hlaut ákærði sekt fyrir ölvun við akstur og var sviptur ökuleyfi í einn mánuð og í júní 1990 hlaut ákærði sekt fyrir ölvunarakstur og var sviptur ökuleyfi í tvö ár. Í desember 1990 hlaut ákærði sekt fyrir umferðarlagabrot og í mars 1991 hlaut hann sekt fyrir umferðarlagabrot. Loks hlaut ákærði í mars 1996 sekt fyrir umferðarlagabrot. Ákærði hlaut fyrsta dóminn í júní 1983, tveggja mánaða fangelsi, skilorðsbundið í tvö ár, fyrir skjalafals og þjófnað. Í júlí 1986 var ákærði dæmdur í þriggja mánaða fangelsi, skilorðs­bundið í þrjú ár, auk sektar, fyrir þjófnað. Í febrúar 1987 var ákærði dæmdur í fimm mánaða fangelsi, þar af þrjá mánuði skilorðsbundna í þrjú ár, fyrir þjófnað. Dómurinn frá í júlí 1986 var dæmdur með. Í desember 1989 var ákærði dæmdur í fimm mánaða fangelsi fyrir fjársvik. Skilorðshluti dómsins frá í febrúar 1987 var dæmdur með. Í janúar 1991 var ákærði dæmdur í tveggja mánaða fangelsi fyrir hilmingu og í mars s.á. var ákærði sak­felldur fyrir skjalafals og umferðarlagabrot, hegningarauka, en ekki gerð sérstök refs­ing. Í nóvember 1992 var ákærði dæmdur í fjögurra mánaða fangelsi fyrir ölvunar- og sviptingarakstur, en inn í refsinguna voru felldar eftirstöðvar reynslulausnar, 102 dagar, sem ákærða hafði verið veitt í apríl 1991. Loks var ákærði dæmdur í 30 daga fangelsi í apríl 1997 fyrir akstur sviptur ökurétti.

Refsing ákærða þykir hæfilega ákveðin fangelsi í fjóra mánuði.

Ákærði hefur mótmælt bótakröfu þeirri sem höfð er uppi í málinu á hendur honum og gerð er grein fyrir í ákærunni. Sundurliðast krafan þannig: Þjáningarbætur skv. 3. gr. laga nr. 50/1993 150.000 krónur og miskabætur skv. 26. gr. sömu laga 2.350.000 krónur. Engin gögn hafa verið lögð fram til stuðnings kröfunni. Allt að einu þykja efni til að dæma kæranda miskabætur er þykja hæfilega ákveðnar 200.000 krónur ásamt vöxtum eins og nánar greinir í dómsorði.

Loks ber samkvæmt 1. tl. 165. gr. laga nr. 19/1991 um meðferð opinberra mála að dæma ákærða til greiðslu alls sakarkostnaðar eins og nánar greinir í dómsorði.

Dómsorð:

Ákærði, Valdimar Júlíusson, sæti fangelsi 4 í mánuði.

Ákærði greiði X 200.000 krónur ásamt vöxum skv. 7. gr. vaxtalaga nr. 25/1987 frá 29. júní 1997 til 6. júlí 1998, en með dráttarvöxtum skv. III. kafla sömu laga frá þeim degi til greiðsludags.

Ákærði greiði allan sakarkostnað, þar með talin saksóknarlaun í ríkissjóð 100.000 krónur og málsvarnarlaun skipaðs verjanda síns, Jóns Egilssonar héraðs­dómslögmanns, 100.000 krónur.