Hæstiréttur íslands
Mál nr. 148/2004
Lykilorð
- Kærumál
- Málskostnaður
|
|
Mánudaginn 10. maí 2004. |
|
Nr. 148/2004. |
Pétur Stefánsson ehf. (Aðalsteinn E. Jónasson hrl.) gegn Erni Stefánssyni (Jónas Haraldsson hrl.) |
Kærumál. Málskostnaður.
Aðilar gerðu sátt um að fella mál sem Ö hafði höfðað á hendur P ehf. niður, en ágreiningur var um málskostnað fyrir héraðsdómi. Krafðist hvor um sig þess að honum yrði úrskurðaður málskostnaður. Í Hæstarétti var með vísan til ákvæðis í kjarasamningi sem tók til starfs Ö og þess að stefna Ö var gefin út degi áður en fyrsta greiðsla P ehf. til Ö féll í gjalddaga og málið höfðað eftir að P ehf. hafði innt greiðsluna af hendi, talið að málarekstur Ö fyrir dómstólum hafi ekki enn verið tímabær. Með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þótti rétt að hvor aðili bæri sinn kostnað af málinu fyrir héraðsdómi.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Gunnlaugur Claessen, Árni Kolbeinsson og Ólafur Börkur Þorvaldsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 5. apríl 2004, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 19. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. mars 2004, þar sem sóknaraðila var gert að greiða varnaraðila málskostnað í máli, sem lauk að öðru leyti með dómsátt. Kæruheimild er í g. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að sér verði dæmdur málskostnaður í héraði úr hendi varnaraðila, sem verði einnig gert að greiða kærumálskostnað.
Varnaraðili krefst þess að úrskurður héraðsdómara verði staðfestur og sér dæmdur kærumálskostnaður.
I.
Samkvæmt gögnum málsins var varnaraðila með bréfi sóknaraðila 4. júlí 2003 sagt upp störfum skipstjóra á fiskiskipinu Pétri Jónssyni RE 69 frá og með 5. sama mánaðar. Í bréfinu var meðal annars tekið fram að ástæður uppsagnarinnar væru óviðeigandi samskipti skipstjórans við áhöfnina. Varnaraðili krafðist skaðabóta úr hendi sóknaraðila vegna fyrirvaralauss brottreksturs úr skiprúmi með bréfi 18. júlí 2003. Þessu bréfi varnaraðila var ekki svarað af hálfu sóknaraðila. Höfðaði varnaraðili í kjölfarið mál gegn sóknaraðila til heimtu bótanna. Var stefna gefin út af því tilfefni 8. ágúst 2003 og birt 26. sama mánaðar. Málið var þingfest 10. september 2003 fyrir Héraðsdómi Reykjaness. Sóknaraðili tók til varna í málinu og lagði fram greinargerð 22. október sama árs. Áður hafði hann með bréfi 15. september sama árs lýsti furðu sinni á innheimtuaðgerðum varnaraðila. Í bréfinu var meðal annars tekið fram að ekki stæði annað til af hálfu sóknaraðila en að greiða varnaraðila laun fyrir þær veiðiferðir, sem farnar yrðu í uppsagnarfrestinum. Hefðu laun fyrir fyrstu veiðiferðina þegar verið að fullu greidd og áttatíu af hundraði launa fyrir aðra veiðiferð í samræmi við gildandi kjarasamning. Á dómþingi 1. desember 2003 krafðist sóknaraðili þess að dómari viki sæti í málinu með vísan til g. liðar 5. gr. laga nr. 91/1991. Var kveðinn upp úrskurður 3. sama mánaðar þar sem kröfu hans var hafnað. Þeirri niðurstöðu var hrundið með dómi Hæstaréttar 9. janúar 2004 í máli nr. 492/2003. Tók annar dómari við meðferð málsins. Á dómþingi 6. febrúar 2004 gerðu aðilar sátt um að fella málið niður, en ágreiningur var um málskostnað. Krafðist hvor um sig þess að honum yrði úrskurðaður málskostnaður. Gekk hinn kærði úrskurður 23. mars 2004 eins og áður var getið.
II.
Samkvæmt grein 9.17 í kjarasamningi milli Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og Landssambands íslenskra útvegsmanna, sem tók til starfs varnaraðila, skal útgerðarmaður ljúka uppgjöri og greiðslu til skipshafnar eigi síðar en sjö dögum eftir að endaleg skil liggja fyrir, þó aldrei síðar en 35 dögum eftir lok veiðiferðar. Skal áætla aflamagn eftir hverja veiðiferð og greiða 80% af áætluðu aflaverðmæti áður en næsta veiðiferð hefst. Fyrir liggur að varnaraðili átti rétt á þriggja mánaða uppsagnarfresti og launum fyrir þann tíma. Fór um uppgjör milli aðila eftir framangreindu ákvæði kjarasamningsins. Um var að ræða þrjár veiðiferðir á uppsagnartímanum. Önnur veiðiferðin á þessu tímabili hófst 9. ágúst 2003 og var greiðsla til varnaraðila vegna þeirrar fyrstu innt af hendi 15. ágúst sama árs. Samkvæmt þessu var stefna varnaraðila gefin út degi áður en fyrsta greiðsla sóknaraðila til varnaraðila féll í gjalddaga og málið höfðað 26. sama mánaðar og þar með eftir að sóknaraðili hafði innt greiðsluna af hendi. Málarekstur varnaraðila fyrir dómstólum var því enn ekki tímabær. Að þessu virtu og með vísan til 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 þykir rétt að hvor aðili beri sinn kostnað af máli þessu fyrir héraðsdómi.
Varnaraðili verður dæmdur til að greiða sóknaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Málskostnaður fyrir héraðsdómi fellur niður.
Varnaraðili, Örn Stefánsson, greiði sóknaraðila, Pétri Stefánssyni ehf., 100.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjaness 23. mars 2004.
Mál þetta er með stefnu sem birt var 26. ágúst s.l. höfðað af Erni Stefánssyni, kt. [...], Grundarhvarfi 9, Kópavogi gegn Pétri Stefánssyni ehf., kt. [...], Dalvegi 16, Kópavogi og voru gerðar þær kröfur að stefndi greiði stefnda 5.000.000 króna auk dráttarvaxta og málskostnað vegna kaupkröfu og að sjóveðréttur verði staðfestur í Pétri Jónssyni RE-69 fyrir framangreindum fjárhæðum.
Stefndi krafðist sýknu af kröfum stefnanda og að honum yrði tildæmdur málskostnaður með álagi.
Málsatvik er þau að stefnandi var skipstjóri á Pétri Jónssyni RE-69 sem er eign stefnda og hafði gegnt þeirri stöðu um langa hríð, er honum var sagt upp störfum fyrirvaralaust 5. júlí 2003, sbr. uppsagnarbréf undirritað í Bay Robert í Kanada 4. júlí 2003, en togarinn hafði verið á rækjuveiðum á "Flæmska hattinum" og skyldi næsta veiðiferð hefjast 6. júlí 2003, sem stefnandi fór ekki í svo sem til hafði staðið, heldur var honum afhentur flugmiði til heimferðar. Ástæðan sem gefin var fyrir uppsögninni voru samskiptavandamál milli stefnanda og áhafnar skipsins sem m.a. hefði leitt til uppsagnar.
Í uppsagnarbréfinu er ekki getið um það hvernig háttað verði greiðslu til stefnanda á uppsagnarfresti eða hvort honum verði greidd frekari laun. Í greinargerð stefnda kemur fram, að stefndi taldi stefnanda hafa brotið þannig gegn starfsskyldum sínum að vafasamt væri að hann ætti rétt á launum í uppsagnarfresti, en síðar hafi verið ákveðið að greiða honum laun í þriggja mánaða uppsagnarfresti til að forðast vandræði og möguleg málaferli. Var ákveðið að uppgjörið yrði miðað við aflatekjur skipstjóra í 6. veiðiferð skipsins, sem hófst 7. júlí 2003, 7. veiðiferð þess og svo hluta af 8. veiðiferðinni sem lauk 17. október 2003. Greiðslu samkvæmt þessu uppgjöri til stefnanda lauk eftir að mál þetta var höfðað og var sæst á málalyktir miðað við það, eftir að stefnandi hafði fullvissað sig um að uppgjörið væri rétt miðað við lögskráningu áhafnar skipsins.
Í þinghaldi 13. febrúar s.l. varð sátt um lyktir á grundvelli framangreindrar greiðslu, en ágreiningur var um málskostnaðarkröfurnar, en báðir aðilar halda fast við kröfur sínar í þeim efnum og lögðu ágreiningsefnið í úrskurð.
Vegna þess ágreinings gaf skýrslu í málinu Lárus Jónsson, kt. 200564-2279, Sunnuvegi 15, Reykjavík, sem er skrifstofustjóri og útgerðarstjóri hjá stefnda. Hann kvað hafa verið gert upp við stefnanda vegna 6. veiðiferðar Péturs Jónssonar RE-69 og hafi þá verið lagt inn á bankareikning stefnanda miðað við það uppgjör, en veiðiferðinni hafi lokið 5.-6. ágúst 2003. Hann kvað stefnanda hafa haft mjög oft samband við hann eftir að hann lét af störfum, m.a. spurt um aflabögð togarans t.d. í lok 6. veiðiferðar. Hann kvað stefnanda ekki hafa verið tilkynnt sérstaklega um greiðsluna inn á bankareikning hans 15. ágúst s.l., en er hann hafi haft samband við hann fljótlega á eftir 19. eða 20. ágúst hafi hann ekki vitað um að lagt hafi verið inn á reikning hans, en fengið að vita það. Í vikunni á eftir hefði stefnanda hringt í hann og verið að tala um veiðina í Flæmska hattinum, og kvaðst Lárus þá hafa furðað sig á því við hann, að hann væri að halda þessu máli til streitu eftir að búið væri að greiða honum og hann þá vísað til þess, að lögmaður hans sæi um þetta. Hann hefði þá ekki blandað sér í það. Lárus kvaðst ekki hafa vitað annað en að það hafi átt að greiða stefnanda laun í uppsagnarfresti. Hann kvað stefnanda ekki hafa verið tekinn út af launskrá, en hætt hafi verið að greiða honum vikulega kauptryggingu og hefði það verið gert í samráði við LÍÚ, en talið væri að menn sem ekki væru að vinna um borð í skipi og væri ekku lögskráðir á það, ættu ekki rétt á kauptryggingu og væri þá miðað við þá stöðu, sem gæti komið upp, ef ekki aflaðist fyrir kauptryggingu. Það hafi átt að gera upp við stefnanda miðað við mánaðarmótin. Hann hafði fyrirmæli um að greiða stefnanda allar þrjár veiðiferðirnar og vissi hann ekki hvað réði því, að í öðru tilviki skyldi vera miðað við annað, þ.e. veiðiferðir sem hlutaðeigandi hefði farið, ef ekki hefði komið til uppsagnar. Hann kvað venju að greiða 80% af aflahlut fljótlega eftir lok veiðiferðar, en lokauppgjör færi svo fram, er aflinn hafi verið seldur. Stefnanda hafi samt verið greidd 80% aflahlutar 15. ágúst s.l., en áður hafi stjórn stefnda beðið að það yrði látið bíða og það svo verið ákveðið 14. ágúst að greitt skyldi.
Niðurstaða.
Af uppsagnarbréfinu til stefnanda, framburði Lárusar skrifstofu- og útgerðarstjóra hjá stefnda og öðrum gögnum málsins um samskipti aðila verður ráðið, að stefndu telja, að stefnandi hafi alvarlega brotið af sér í starfi og hættu að greiða honum laun með venjulegum hætti og verður ekki betur séð, en að stefndu séu að íhuga hvort stefnandi eigi rétt á launum í uppsagnarfrestinum vegna brots hans og alla vega er honum haldið í óvissu um það, þar til um 20. ágúst sl. að fyrir liggur ákvörðun stefnda um að greiða honum laun í uppsagnarfresti m.v. aflahlut skipstjóra í veiðiferðum, sem voru farnar á þeim tíma. Við þessar aðstæður var það eðlilegt að lögmaður stefnanda sendi stefnda innheimtubréf til að fá úr því skorið, hvort stefndi ætlaði að greiða þau laun, sem stefnandi taldi sig eiga rétt á í uppsagnarfresti. Bréfi lögmannsins var ekki svarað, þó að marka megi að það hafi komið hreyfingu á mál stefnanda sbr. það sem kemur fram í málskostnaðarreikningi stefnda. Samt leiddi það ekki til að stefnanda væri greidd laun í byrjun ágúst s.l. sbr. það sem kemur fram í framburði Lárusar, að gera hafi átt upp við þá sem væri á uppsagnarfresti eða ekki við vinnu um borð í skipinu m.v. mánaðarmót.
Miðað við að engin viðbrögð urðu gagnvart lögmanni stefnanda við bréfi hans verður að telja rétt að hann hafi undirbúið málsókn á hendur stefnda. Hins vegar telur dómurinn að eftir að það lá fyrir um 20. ágúst s.l. að stefndi ætlaði að greiða stefnanda laun í uppsagnarfresti hafi stefnandi átt að hætta við málsóknina eða fresta henni þar til að útséð yrði um það, að greiðslur þessar yrðu inntar af hendi. Telja verður að stefnda hafi verið heimilt að greiða stefnanda laun í uppsagnarfrestinum með venjulegum hætti þ.e. 80% af laununum m.v. aflahlut eftir að veiðiferð var lokið og svo lokauppgjör 2-3 vikum síðar er gengið var frá sölu aflans. Í máli þessu verður stefndi að bera halla af því að láta undir höfuð leggjast að tilkynna lögmanni stefnanda að stefnanda yrðu greidd laun í uppsagnarfresti, en tilefni var til þess vegna innheimtubréfs hans og hefði getað komið í veg fyrir að til málshöfðunar kæmi. Stefnandi þykir því eiga rétt til þóknunar eða málskostnað vegna kostnaðar sem af því leiddi að hefja málsókn í máli þessu og verður við ákvörðun hans höfð hliðsjón af því að kröfugerðin hefði miðast við gjaldfallin laun er stefnan var útbúin.
Samkvæmt þessu ber að dæma stefnda til að greiða stefnanda kr.186.750,- í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti og er fallist á kröfu stefnanda um sjóveðrétt í frystitogaranum Pétri Jónssyni RE-69 fyrir framangreindri fjárhæð.
Úrskurð þennan kveður upp Guðmundur L. Jóhannesson héraðsdómari.
ÚRSKURÐARORÐ
Stefndi, Pétur Stefánsson ehf., greiði stefnanda kr. 186.750,- í málskostnað að meðtöldum virðisaukaskatti og er staðfestur sjóveðréttur í frystitogaranum Pétri Jónssyni RE-69 fyrir fjárhæðinni.