Hæstiréttur íslands

Mál nr. 504/2016

Tinna Róbertsdóttir (Bjarki Þór Sveinsson hrl.)
gegn
Virðingu hf. (Hlynur Halldórsson hrl.)

Lykilorð

  • Ráðningarsamningur
  • Uppsagnarfrestur

Reifun

T gerði ráðningarsamning við V hf. árið 2011 og samkvæmt honum var gagnkvæmur uppsagnarfrestur þrír mánuðir. V hf. gaf út svokallað erindisbréf 2012 til handa T sem regluverði samkvæmt leiðbeinandi tilmælum F nr. 5/2011 um stöðu og regluvörslu fjármálafyrirtækja. Deildu aðilar um hvort uppsagnarfrestur T færi eftir ráðningarsamningi hennar eða fyrrnefndum tilmælum F en þau kváðu á um lengri uppsagnarfrest. Var tekið fram að samkvæmt athugasemdum við 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998 hefðu tilmæli F ekki lagastoð í hefðbundnum skilningi og væru því ekki skuldbindandi á sama hátt og ákvæði reglugerða og reglna sem settar hefðu verið með heimild í lögum. Var því talið að það leiddi af lögmætisreglunni að F hafi ekki getað með tilmælum sínum vikið til hliðar ákvæði ráðningarsamnings aðila um þriggja mánaða uppsagnarfrest. Var því V hf. sýknað af kröfu T

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma Eiríkur Tómasson hæstaréttardómari og Ingveldur Einarsdóttir og Þorgeir Ingi Njálsson settir hæstaréttardómarar.

Áfrýjandi skaut málinu til Hæstaréttar 11. júlí 2016. Hún krefst þess að stefnda verði gert að greiða sér 5.691.390 krónur með dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu af nánar tilgreindum fjárhæðum frá 1. júní 2014 til greiðsludags, að frádregnum innborgunum 2. júní sama ár að fjárhæð 224.380 krónur, 1. júlí sama ár að fjárhæð 289.062 krónur, 1.ágúst sama ár að fjárhæð 289.062 krónur, 1. september sama ár að fjárhæð 242.205 krónur, 1. október sama ár að fjárhæð 185.976 krónur og 3. nóvember sama ár 185.976 krónur. Þá krefst áfrýjandi málskostnaðar í héraði og fyrir Hæstarétti.

Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.

Í héraði studdi áfrýjandi kröfu sína meðal annars þeim rökum að stefndi hefði staðið ólöglega að uppsögn hennar úr starfi. Hér fyrir dómi hefur áfrýjandi fallið frá þeirri málsástæðu.

Málsatvikum er lýst í hinum áfrýjaða dómi. Eins og þar greinir hóf áfrýjandi störf sem lögfræðingur og regluvörður hjá stefnda 1. febrúar 2011 og undirritaði ráðningarsamning samdægurs. Í 12. gr. samningsins kom fram að gagnkvæmur uppsagnarfrestur væri þrír mánuðir. Stefndi gaf út svokallað erindisbréf 23. febrúar 2012 til handa áfrýjanda sem regluverði samkvæmt leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 5/2011 um stöðu og verksvið regluvörslu fjármálafyrirtækja. Í erindisbréfinu var meðal annars skilgreint í hverju starf áfrýjanda sem regluvarðar fólst og tekið fram að regluvörður starfaði sjálfstætt, en sækti vald sitt til stjórnar stefnda sem staðfesti formlega ráðningu áfrýjanda með erindisbréfinu. Í því voru engin ákvæði um ráðningarkjör hennar.

Í 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998 um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi segir að Fjármálaeftirlitinu sé heimilt að gefa út og birta opinberlega almenn leiðbeinandi tilmæli um starfsemi eftirlitsskyldra aðila, enda varði málefnið hóp eftirlitsskyldra aðila. Í athugasemdum með frumvarpi til laga nr. 11/2000 sem breyttu umræddri lagagrein sagði um ákvæðið að slík leiðbeinandi tilmæli hefðu ekki lagastoð í hefðbundnum skilningi og væru því ekki skuldbindandi á sama hátt og ákvæði reglugerða og reglna sem settar væru með sérstakri heimild í lögum. Það leiðir af lögmætisreglunni að Fjármálaeftirlitið gat ekki, með leiðbeinandi tilmælum sínum nr. 5/2011, vikið til hliðar ákvæði ráðningarsamnings aðila um þriggja mánaða gagnkvæman uppsagnarfrest. Þá breytti erindisbréf til handa áfrýjanda 23. febrúar 2012, sem gefið var út samkvæmt fyrrgreindum leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins, engu um ráðningarkjör áfrýjanda, þar á meðal ákvæðinu um uppsagnarfrest.

Samkvæmt framansögðu verður hinn áfrýjaði dómur staðfestur um annað en málskostnað.

Rétt er að málskostnaður falli niður á báðum dómstigum.

Dómsorð:

Hinn áfrýjaði dómur skal vera óraskaður um annað en málskostnað.

Málskostnaður í héraði og fyrir Hæstarétti fellur niður.

 

 

 

Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 13. apríl 2016.

 

Mál þetta sem höfðað var 10. júlí 2015 af Tinnu Róbertsdóttur, Hólmavaði 10-22, 110 Reykjavík gegn Virðingu hf., Borgartúni 25, 105 Reykjavík, var dómtekið að lokinni aðalmeðferð sem fram fór 16. mars sl.

 

Stefnandi krefst þess að stefndi verði dæmdur til að greiða stefnanda 5.691.390 krónur ásamt dráttarvöxtum samkvæmt 1. mgr. 6. gr. laga nr. 38/2001 um vexti og verðtryggingu, af 935.484 krónum frá 1. júní 2014 til 1. júlí 2014, en af 1.870.968 krónum frá þeim degi til 1. ágúst 2014, en af 2.806.452 krónum frá þeim degi til 1. september 2014, en af 3.741.936 krónum frá þeim degi til 1. október 2014, en af 4.677.420 krónum frá þeim degi til 1. nóvember 2014, en af 5.691.390 krónum frá þeim degi til greiðsludags, allt að frádregnum innborgunum, 224.380 krónum þann 2. júní 2014, 289.062 krónum þann 1. júlí 2014, 289.062 krónum þann 1. ágúst 2014, 242.205 krónum þann 1. september 2014, 185.976 krónum þann 1. október 2014 og 185.976 krónum þann 3. nóvember 2014.

Að auki gerir stefnandi kröfu um málskostnað að skaðlausu úr hendi stefnda.

Stefndi krefst sýknu og málskostnaðar úr hendi stefnanda.

I.

Stefnandi hóf störf sem regluvörður og lögfræðingur hjá stefnda 1. febrúar 2011 og var ráðningarsamningur undirritaður sama dag þar sem ákveðið var að gagnkvæmur uppsagnarfrestur aðila væri þrír mánuðir. Upphaflega mun mestur hluti starfshlutfalls stefnanda hafa verið við lögfræðistörf, en minni í regluvörslu.

Í kjölfar leiðbeinandi tilmæla nr. 5/2011 frá Fjármálaeftirlitinu, í desember 2011, breyttist starf stefnanda en það byggðist eftirleiðis á erindisbréfi útgefnu af stefnda 23. febrúar 2012, á grundvelli tilmælanna. Eftir þetta var starf stefnanda mun meira tengt regluvörslu en almennum lögfræðistörfum. Í kjölfar athugunar Fjármálaeftirlitsins á starfsemi stefnda, sem hófst í desember 2012, var tekið fram í skýrslu frá janúar 2014, að eftirlitið teldi uppsagnarfrest stefnanda ekki í samræmi við tilmælin, og var vísað til hugmynda eftirlitsins í framangreindum tilmælum um að níu mánaða frestur hið minnsta væri heppilegur.

Eftir nokkurn undirbúning, sem hófst í apríl 2013, varð úr að stefndi og verðbréfafyrirtækið Auður Capital hf. runnu saman, en samþykki fyrir samrunanum var veitt á hluthafafundum beggja félaganna þann 8. janúar 2014 og heimilaði Fjármálaeftirlitið samrunann þann 17. janúar 2014 og formlega 22. þess mánaðar. Stefndi var yfirtökufélag samrunans og Auður Capital ehf. hið yfirtekna félag, en uppgjörsdagur var 31. ágúst 2013.

Á fyrsta stjórnarfundi hins sameinaða félags, sem haldinn var 8. janúar 2014, var farið yfir helstu framtíðarskipan. Þar var meðal annars ákveðið að sá sem hafði gegnt starfi regluvarðar Auðar Capital ehf. skyldi sinna því starfi í sameiginlegu félagi. Nýr regluvörður tilkynnti stefnanda 31. janúar 2014, að henni væri sagt upp störfum hjá stefnda. Stefnandi heldur því fram að þarna hafi henni verið tjáð að þar sem hún væri lögfræðingur, en ekki regluvörður lengur, væri uppsagnarfrestur hennar þrír mánuðir.

Fjármálaeftirlitið hafði veður af uppsögninni fyrir tilstuðlan stefnanda, telur stefndi, og sendi stefnda bréf þar sem spurst var fyrir um starfslokin. 

 

Stefnanda var boðinn starfslokasamningur, þar sem gert var ráð fyrir því að stefnandi þyrfti ekki að hafa fasta viðveru á skrifstofunni eftir uppsögn og þyrfti ekki að vinna fulla vinnu á uppsagnarfresti. Stefnandi skrifaði aldrei undir samninginn. Nokkur ágreiningur er um það hvort fallið hafi verið frá kröfu um vinnuskyldu á uppsagnarfresti, með öllu eða ekki, um annað framlag stefnanda, og einnig um áhrif þess að stefnandi varð veik á uppsagnarfresti. Er um þetta fjallað í löngu máli í stefnu og greinargerð. Dómurinn telur á hinn bóginn ekki ástæðu til að rekja þessi atvik máls enda verður ekki séð að þau hafi þýðingu fyrir úrlausn sakarefnisins. Það blasir enda við, og lögmaður stefnda staðfesti sérstaklega aðspurður fyrir dómi, að fyrirvaralaust fullnaðaruppgjör vegna þriggja mánaða uppsagnarfrests hefur þegar farið fram og engar kröfur verða gerðar vegna þess. Lögmaðurinn staðfesti einnig að sjónarmið um vinnuskyldu á uppsagnarfresti skiptu heldur ekki máli varðandi það úrlausnarefni hvort stefnanda bæri þriggja eða níu mánaða uppsagnarfrestur.

Stefnandi var í sambandi við núverandi regluvörð og gerði ítrekaðar kröfur um að greidd yrðu út til viðbótar laun sem næmu sex mánaða uppsagnarfresti en stefndi synjaði slíku. Ágreiningur aðila snýst því einvörðungu um það hvort stefnanda hafi borið níu mánaða uppsagnarfrestur, þ.e. sex mánuðir til viðbótar þeim sem ágreiningslaust er að þegar eru uppgerðir.

Stefnandi gaf aðilaskýrslu fyrir dómi.

II.

Stefnandi kveðst byggja á því að hún eigi rétt á níu mánaða uppsagnarfresti. Stefnandi vísi til þess að hún hafi verið regluvörður hjá stefnda frá ársbyrjun 2012 og hafi erindisbréf verið útgefið þess efnis þann 23. febrúar 2012.

Stefnanda hafi verið, samkvæmt 130. gr. laga nr. 108/2007, skylt að ráða regluvörð til starfa og réð félagið stefnanda til verksins. Stefnandi kveður það engu máli skipta þótt hún hafi verið titluð sem lögfræðingur sem sinna skyldi regluvörslu samkvæmt upphaflegum ráðningarsamningi. Hún hafi borið réttindi og skyldur sem regluvörður gagnvart stefnda, og öfugt.

Regluverðir fjármálafyrirtækja hafi níu mánaða uppsagnarfrest með vísan til tilmæla Fjármálaeftirlitsins nr. 5/2011, en í stjórnháttayfirlýsingu stefnda frá árinu 2011 komi fram að regluvörður stefnda fylgi leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 5/2011 um stöðu og verksvið regluvörslu fjármálafyrirtækja. Stefndi hafi krafist þess að stefnandi starfaði eftir hinum leiðbeinandi tilmælum Fjármálaeftirlitsins og með því hafi hann skuldbundið sig til að virða ákvæði tilmælanna um réttindi regluvarða.

Stefnda hafi borið að gæta að gildandi ákvæðum laga og reglna um regluverði, vegna ráðningar, starfa og uppsagnar stefnanda, og borið að fara eftir reglum um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja nr. 1050 frá 14. nóvember 2012.

 

Í 3. gr. reglnanna segi að stjórn skuli ráða regluvörð eða staðfesta formlega ráðningu hans. Sé regluvörður ekki ráðinn af stjórn, taki ráðning hans gildi þegar stjórn hafi staðfest ráðningu hans. Með sama hætti skuli ráða staðgengil regluvarðar. Þá skuli Fjármálaeftirlitinu tilkynnt tafarlaust með formlegum hætti um ráðningu regluvarðar og staðgengils hans og skal tilkynningunni fylgja afrit af þeim hluta fundargerðar stjórnar sem fjalli um ráðningu regluvarðar eða staðgengils hans. Sama tilkynningarskylda hvíli á stjórn þegar regluverði sé sagt upp.

Ákvörðun um uppsögn regluvarðar skuli tekin af stjórn, og regluverði skuli þá veitt tækifæri til að greina frá afstöðu sinni til starfsloka, án aðkomu framkvæmdarstjóra, áður en til ákvörðunar stjórnar kemur. Innri endurskoðun hafi eftirlit með störfum regluvarða og því skuli greina innri endurskoðun skriflega frá því ef regluvörður hættir störfum og ástæðu þess.

Stefnandi samþykkir að stefndi hafi fylgt þessum ákvæðum við ráðningu stefnanda og hafi stefndi meðal annars gefið út embættisbréf vegna starfa stefnanda sem regluvarðar. Hið sama sé hins vegar ekki að segja um uppsögn og uppsagnarfrest stefnanda.

Stefndi hafi ekki veitt stefnanda tækifæri til þess að greina frá afstöðu sinni til starfslokanna án aðkomu framkvæmdarstjóra, áður en til ákvörðunar stjórnar kom eins og áskilið er. Þá virðist sem svo að niðurstaða stjórnar um uppsögn stefnanda hafi ekki verið færð til bókar eða innri endurskoðun tilkynnt skriflega um uppsögn stefnanda eða ástæðu hennar, eins og áskilið sé skv. 15. gr. í kafla 2.2.1 í hinum leiðbeinandi tilmælum. Þá hafi Fjármálaeftirlitinu ekki verið tilkynnt skriflega um uppsögn stefnanda eða sendar skýringar á starfslokum hennar, heldur einungis um ráðningu nýs regluvarðar. Þá hafi tvær vikur liðið frá því stjórn tók ákvörðun um að segja stefnanda upp þar til henni var tilkynnt um uppsögnina. Á þeim tíma hafi stefnandi meðal annars veitt starfsmönnum stefnda viðskiptaheimildir fyrir eigin viðskiptum, án umboðs stjórnar stefnda.

Stefnandi kveðst byggja á því, með vísan til framangreinds, að framkvæmd stefnda á uppsögn stefnanda hafi brotið gegn framangreindum ákvæðum reglna um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja nr. 1050 frá 14. nóvember 2012, sem og tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 5/2011 og hafi uppsögn stefnanda af þeim sökum verið ólögmæt.

Stefnandi telur stefnda bundinn af tilmælum Fjármálaeftirlitsins enda komi fram í svokallaðri stjórnháttaryfirlýsingu stefnda frá 2013 að regluvörður stefnda fylgi þessum tilmælum. Af því leiði að stefnandi telji sig sjálfa bundna af þeim ákvæðum.

Í öðrum kafla tilmælanna um stöðu regluvörslu fjármálafyrirtækis sé sérstaklega kveðið á um uppsagnarfrest regluvarða í undirkafla 2.2.4. sem ber yfirskriftina „Starfsöryggi og þóknun starfsmanna regluvörslu“. Þar segi að Fjármálaeftirlitið telji starfsöryggi regluvarðar órjúfanlega forsendu fyrir sjálfstæði regluvörslu. Því skuli uppsagnarfrestur regluvarðar samkvæmt ráðningarsamningi vera það langur að hann veiti nægjanlegt starfsöryggi og skuli uppsagnarfrestur þannig vera níu mánuðir hið minnsta. Stefnandi bendir á að stefndi telji sig bundinn af þessum tilmælum en hún bendir jafnframt á að tilmælin séu í raun leiðbeiningar Fjármálaeftirlitsins til skýringar á lágmarkskröfum laga og reglna og með hvaða hætti Fjármálaeftirlitið telji að virt séu gildandi lög og reglur. Þrátt fyrir þetta hafi stefndi hvorki virt hinn níu mánaða uppsagnarfrest stefnanda, né sagt stefnanda upp störfum með lögmætum hætti.

Stefnandi kveður vinnuframlag sitt ætíð hafa staðið stefnda til boða á uppsagnarfresti, allt frá 31. janúar 2014, að undanskildu því tímabili er stefnandi var óvinnufær, þ.e. frá 9. febrúar til 1. maí 2014.

Dómurinn telur ekki ástæðu, samanber athugasemd í umfjöllun um málsatvik, að tíunda í dómnum frekari sjónarmið sem stefnandi teflir fram varðandi vinnuframlag á uppsagnarfresti eða áhrif veikinda hennar, enda ekki sjáanlegt hvaða áhrif það hefur á ágreiningsefni málsins miðað við þær kröfur sem gerðar eru.

Varðandi fjárhæð kröfu sinnar upplýsir stefnandi að stefndi hafi greitt henni laun og launatengd gjöld fyrir mánuðina febrúar, mars og apríl 2014, en það samsvari þremur mánuðum af hinum níu mánaða uppsagnarfresti.

Stefndi hafi hins vegar ekki orðið við kröfum stefnanda um greiðslur í uppsagnarfresti vegna maí, júní, júlí, ágúst, september og október 2014, sem samsvari sex mánuðum af hinum níu mánaða uppsagnarfresti. Því sundurliðist fjárkrafa stefnanda með eftirfarandi hætti:

Laun í uppsagnarfresti, vegna maí 2014                                                                 849.128 kr.

Laun í uppsagnarfresti, vegna júní 2014                                                                 849.128 kr.

Laun í uppsagnarfresti, vegna júlí 2014                                                                  849.128 kr.

Laun í uppsagnarfresti, vegna ágúst 2014                                                              849.128 kr.

Laun í uppsagnarfresti, vegna september 2014                                                     849.128 kr.

Laun í uppsagnarfresti, vegna október 2014                                                                          849.128 kr.

Samtals krafa vegna launa í uppsagnarfresti:                                                                    5.094.768 kr.

Orlof maí til október 2014, 6 mánuðir x 10,17%                                                   518.138 kr.

Desemberuppbót 2014 (73.600/45x43,4)                                                                 71.030 kr.

Greidd desemberuppbót 2014                                                                                            - 30.667 kr.

Samtals krafa vegna desemberuppbótar:                                                                 40.363 kr.

Orlofsuppbót maí til október 2014 (39.500/45*43,4)                                                            38.121 kr.

Samtals fjárkrafa:                                                                                                                   5.691.390 kr.

Til frádráttar fjárkröfu stefnanda komi greiðslur frá Vinnumálastofnun, er stefnandi fékk vegna maí, júní, júlí, ágúst, september og október 2014. Sundurliðist greiðslur stefnanda frá Vinnumálastofnun með eftirfarandi hætti:

 

Greiðsla frá Vinnumálastofnun vegna maí 2014                                                  224.380 kr.

Greiðsla frá Vinnumálastofnun vegna júní 2014                                               289.062 kr.

Greiðsla frá Vinnumálastofnun vegna júlí 2014                                                    289.062 kr.

Greiðsla frá Vinnumálastofnun vegna ágúst 2014                                                242.205 kr.

Greiðsla frá Vinnumálastofnun vegna september 2014                                   185.976 kr.

Greiðsla frá Vinnumálastofnun vegna október 2014                                            185.976 kr.

Samtals greitt frá Vinnumálastofnun:                                                                                  1.416.661 kr.

Um dráttarvexti vísist til 1. mgr. 6. gr. vaxtalaga nr. 38/2001. Gjalddagi hvers mánaðar sé 1. næsta mánaðar á eftir.

Stefnandi kveðst styðja kröfur sínar við lög nr. 28/1930, um greiðslu verkkaups, lög  um orlof nr. 30/1987, meginreglur kröfuréttar, meginreglur vinnuréttar, kjarasamninga, sem og tilmæli Fjármálaeftirlitsins. Krafa um málskostnað styðjist við 1. mgr. 130 gr. laga nr. 91/1991. Um varnarþing vísi hún til 1. mgr. 33.gr. sömu laga.

III.

Stefndi vísar til ráðningarsamnings aðila frá 1. febrúar 2011 en í 12. gr. hans sé ákvæði um að uppsagnarfrestur sé þrír mánuðir. Þennan samning hafi stefndi virt og greitt stefnanda laun í frestinum þrátt fyrir að stefnandi hafi brugðist skyldum sínum um vinnuframlag eða að mæta á vinnustað. Á þessum samningi verði að byggja úrlausn málsins.

Stefndi kveðst mótmæla því að stefndi eigi rétt til níu mánaða uppsagnarfrests. Tilmæli Fjármálaeftirlitsins nr. 5/2011 frá 12. desember 2011, sem stefnandi vísi til, séu gefin út samkvæmt 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998. Í ákvæðinu sé kveðið á um að eftirlitinu sé heimilt að gefa út slík leiðbeinandi tilmæli um starfsemi eftirlitsskyldra aðila. Í athugasemdum með frumvarpi til þessa ákvæðis, segi að tilmæli sem þessi hafi ekki lagastoð í hefðbundnum skilningi og séu því ekki skuldbindandi á sama hátt og ákvæði reglugerða og reglna sem settar séu með sérstakri heimild í lögum. 

Stefndi bendir á að tilvísað erindisbréf fjalli ekki um ráðningarkjör stefnanda, heldur sé það einungis staðfesting stjórnar stefnda, á ráðningu stefnanda. Hvergi sé þannig kveðið á um níu mánaða uppsagnarfrest. Þá hafi bréfið verið úr gildi fallið þegar stefnanda var sagt upp, auk þess sem engin lagaskylda kveði á um að regluverði sé sett slíkt skipunarbréf. Því verði enginn réttur byggður á því í málinu.

Þá bendi stefndi á að leiðbeinandi tilmæli Fjármálaeftirlitsins hafi ekki lagagildi þannig að megni að víkja til hliðar ákvæðum ráðningarsamnings aðila. Þau séu einungis leiðbeinandi eins og orðalagið „heppilegt að litið sé til 9 mánaða hið minnsta“ gefi til kynna. 

Stefndi vísar til lögmætisreglunnar, þ.e. að ákvarðanir stjórnvalda þurfi að eiga sér stoð í lögum. Almennar leiðbeiningar, tilmæli eða skoðanir stjórnvalda séu ekki skuldbindandi nema þau hafi viðhlítandi lagastoð, sérstaklega ef þau hafa í för með sér fjárhagslega íþyngjandi skuldbindingar fyrir þann sem ákvörðun beinist að. Hvergi í lögum sé kveðið á um uppsagnarfrest regluvarða og í tilmælunum sé heldur hvergi sagt hver uppsagnarfrestur skuli vera heldur einungis hvað sé heppilegt í þeim efnum. Stefnandi geti því ekki, á grundvelli slíkra skoðana stjórnvalds, vikið til hliðar samningi aðila og byggt frekari kröfurétt á hendur stefnda á þeim grunni.

Þá bendir stefndi á að í hinum leiðbeinandi tilmælum felist engin stjórnvaldsákvörðun sem beinist að stefnanda eða skapi honum réttindi og geti hann því engan rétt byggt á þeim.

Tilmælin skapi því stefnanda engan rétt og ekki heldur almenn umfjöllun í stjórnháttayfirlýsingu stefnda fyrir árið 2013 um að regluvörður fylgi þessum tilmælum. 

Stefndi kveðst mótmæla því að uppsögn stefnanda hafi verið ólögmæt. Fjármálaeftirlitið hafi verið upplýst degi fyrir samruna Auðar Capital hf. og Virðingar hf., sem fram fór 31. janúar 2014, um það hvernig regluvörslu yrði háttað og því síðan tilkynnt, 6. febrúar 2014, um starfslok stefnanda.

Stefndi kveðst og mótmæla því að reglur nr. 1050/2012, einkum 3. gr., eigi við um uppsögn og ráðningu stefnanda. Reglurnar séu settar á grundvelli 132. gr. laga nr. 108/2007, um verðbréfaviðskipti, og eigi einungis við um útgefanda fjármálagerninga sem teknir hafi verið til viðskipta á skipulegum verðbréfamarkaði eða verslað er með á markaðstorgi fjármálagerninga, samanber 130. gr. laganna. Stefndi gefi ekki út slíka fjármálagerninga og því eigi reglurnar ekki við.

Stefndi telur á hinn bóginn að horfa beri til reglugerðar 995/2007 en þar séu þó engin ákvæði sem hafi þýðingu við úrlausn málsins. Í d-lið 3. mgr. 6. gr. sé einungis kveðið á um að sú aðferð sem sé nýtt til ráðningar starfsmanna við regluvörslu megi ekki vera líkleg til að hafa áhrif á hlutlægni þeirra sem ráði til starfa.

Stefndi kveður nauðsynlegt að líta til þess hver ástæða uppsagnar stefnanda var og sjónarmiða að baki þess að Fjármálaeftirlitið telji æskilegt að uppsagnarfrestur regluvarða sé ríflegur. Þar sé einkum vísað til þess að uppsagnarfrestur sé til þess falinn að veita nægilegt starfsöryggi. Stefndi áréttar að tilmælin víki ekki til hliðar ráðningarsamningi aðila og einnig að stefnandi hafi haft rúmlega tvö ár frá því að tilmælin voru birt til að óska eftir breytingu á ráðningarsamningi sínum en gerði það ekki.

Þau sjónarmið sem rakin eru í hinum leiðbeinandi tilmælum um nauðsyn langs uppsagnarfrests eigi ekki við stefnanda, sem sagt var upp í kjölfar samruna tveggja félaga þar sem niðurstaða stjórnar varð sú að ekki væri þörf fyrir tvo regluverði.

Stefndi kveðst byggja á því að hann hafi efnt ráðningarsamninginn við stefnanda og það hafi hann gert umfram skyldu. Það sé almenn regla vinnuréttar að uppsögn hafi ekki áhrif á réttarstöðu starfsmanns í starfi og því beri aðilum að virða efni samningsins út uppsagnarfrest. Stefnandi hafi ekki sinnt vinnuskyldu sinni á frestinum og því fyrirgert rétti sínum til launa.

Í varakröfu kveðst stefndi krefjast þess að frá launum verði dregnar atvinnuleysisbætur til stefnanda á tímabilinu og aðrar launagreiðslur sem stefnandi hafi fengið. Þá mótmælir hann dráttarvaxtakröfu og segir að krafa stefnanda, ef viðurkennd, geti ekki borið dráttarvexti nema frá dómsuppsögu.

Stefndi kveðst vísa til almennra reglna vinnuréttar, samninga- og kröfuréttar. Um málskostnað vísi hann til 123. og 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála.

IV.

Ágreiningslaust er að aðilar gerðu með sér ráðningarsamning 1. febrúar 2011 þegar stefnandi hóf störf hjá stefnda. Jafnframt að gagnkvæmur uppsagnarfrestur á samningnum var samkvæmt 12. gr. hans, þrír mánuðir. Þá verður ekki séð að ágreiningur sé um það að ráðningarsamningi þessum var ekki sagt upp eða gerðar á honum breytingar með samkomulagi aðila fram til þess tíma er stefnanda var sagt upp störfum hjá stefnda, enda var uppsögnin byggð á samningnum. Samkvæmt málatilbúnaði aðila var eina formlega breytingin sem gerð var á starfslýsingu og ábyrgð stefnanda á því tímabili sem hún var við störf hjá stefnda, erindisbréf sem stjórn félagsins gaf út 23. febrúar 2012 í kjölfar þess að Fjármálaeftirlitið gaf út 12. desember 2011, „Leiðbeinandi tilmæli um stöðu og verksvið regluvörslu fjármálafyrirtækja“ sem eru númer 5/2011. Í grein  2.2.2 eru tilmæli frá eftirlitinu um að slíkt erindisbréf sé gefið út og jafnframt tiltekið hvaða atriði eigi að skrá þar. Þar er einkum um að ræða ákvæði um óhæði, um aðgang regluvarðar að upplýsingum, meginhlutverk regluvarðar og skyldur. Enginn áskilnaður er í tilmælunum um að kveðið skuli á um uppsagnarfrest í erindisbréfi og ekkert slíkt ákvæði er í erindisbréfi því sem gefið var út til handa stefnanda.

Þá er það einnig ágreiningslaust að engar athugasemdir eða umkvartanir höfðu verið gerðar við störf stefnanda, heldur var ástæða þess að stefnanda var sagt upp störfum sú að stefndi sameinaðist öðru fyrirtæki, þar sem fyrir var annar regluvörður. Stjórn stefnda hafi talið óþarft að hafa tvo slíka og því ákveðið að segja öðrum regluverðinum upp í kjölfar sameiningarinnar.

Eins og að framan er rakið telur dómurinn það engu máli skipta, við úrlausn þess ágreinings sem hér er einkum uppi, að fjalla um hvort stefndi hafi fallið frá kröfu um vinnuskyldu stefnanda á uppsagnarfresti, eða hvort stefnandi hafi þá mátt með réttu líta svo á að sú hafi verið raunin, og þá áhrif þessa á úrlausn málsins. Þá verður ekki séð að þörf sé á umfjöllun um áhrif þess að stefnandi veiktist á uppsagnarfresti og hefði þá ekki getað sinnt vinnuskyldu teldist hún hafa verið til staðar. Hvorki stefnandi né stefndi tengja þessi atvik við stefnukröfur sínar. Aukinheldur verður ekki séð að það skipti máli hvernig uppsögn stefnanda bar að og hvort stefndi hafi staðið rétt að henni eða ekki. Það verður enda ekki séð að stefnandi byggi kröfur sínar á þessum atriðum þótt hann kjósi að fjalla um þau í stefnu málsins og telji uppsögnina hafa verið ólögmæta, sem stefndi mótmælir. Dómurinn telur a.m.k. að það skorti á útskýringar á samhenginu milli umfjöllunar stefnanda um þetta atriði, afleiðingar þess að lögum, eða áhrif á kröfugerð stefnanda, þ.e. hvernig meint ólögmæti uppsagnar leiði til þess að uppsagnarfrestur skuli þá vera níu mánuðir í stað þriggja, en það er eina stefnukrafan. Þrátt fyrir þetta, verður því slegið föstu, að ekki verður fallist á að þau atriði, sem stefnandi tiltekur að leiði til þess að uppsögnin hafi verið ólögmæt, séu þess eðlis að skapi stefnanda bótarétt.

Stefnandi byggir kröfu sína til níu mánaða uppsagnarfrests einkum á fyrrgreindum tilmælum Fjármálaeftirlitsins nr. 5/2011, og telur stefnda bundinn af þeim. Enda líti stefndi sjálfur svo á, en sú afstaða hans hafi birst í útgáfu erindisbréfs til stefnanda samkvæmt fyrirmælum tilmælanna. Það er vissulega svo að í kafla 2.2.4, lið 20, um starfsöryggi og þóknun starfsmanna regluvörslu, er umfjöllun um mikilvægi þess að slíkum starfsmönnum sé tryggt visst lágmarksöryggi og að æskilegt sé að uppsagnarfrestur sé ríflegur og níu mánuðir nefndir sem heppilegt viðmið að mati eftirlitsins. Þessi sjónarmið styðjast við augljós rök þegar horft er til þess hlutverks sem regluverði í fjármálafyrirtæki er ætlað og eðli regluvörslu. Það er hins vegar að mati dómsins engan veginn hægt að líta svo á að þessi tilmæli séu bindandi í þessu tilliti, og hafi þá bundið fjármálafyrirtæki frá útgáfu þeirra. Hið sama gildir eðli máls samkvæmt, um lið 21 í sama kafla tilmælanna. Þar er lýst sjónarmiðum sem eftirlitið telur að hafa beri í huga við ákvörðun launakjara regluvarðar. Þau skapa regluverði hins vegar engan sjálfstæðan og beinan rétt til launahækkunar eða leggja skyldur á fjármálafyrirtækið, aðrar en þær að því ber að horfa til þessara sjónarmiða, þegar mótuð er umgjörð um regluvörslu fyrirtækisins, samanber til að mynda þá stefnuyfirlýsingu sem birtist í 1. mgr. 1. gr. laga nr. 161/2002, um fjármálafyrirtæki.

Tilmælin eru gefin út á grundvelli 2. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi, samanber breytingu sem varð á ákvæðinu með 2. gr. laga nr. 11/2000. Af ákvæðinu verður alls ekki ráðið að tilmæli, sett á grundvelli þess, skuli hafa einhverja þá stöðu sem stefnandi byggir á. Tekið er beinlínis fram að það feli einungis í sér heimild en ekki skyldu Fjármálaeftirlitinu til að setja slík tilmæli. Í athugasemdum í frumvarpi því sem varð að lögum nr. 87/1998 segir í umfjöllun um ákvæðið, sem á sér fyrirmynd frá Norðurlöndunum: „Í 2. mgr. er gert ráð fyrir að Fjármálaeftirlitið geti gefið út sams konar leiðbeinandi reglur eða tilmæli, en hefðir hafa ekki enn skapast um þetta hér á landi. Þessar reglur mundu ekki hafa lagastoð í hefðbundnum skilningi og eru því ekki skuldbindandi á sama hátt og ákvæði reglugerða og reglna sem settar eru með sérstakri heimild í lögum. Þær geta hins vegar orðið grundvöllur krafna Fjármálaeftirlitsins um úrbætur með tilvísun til heilbrigðra og eðlilegra viðskiptahátta.“ Af skýru orðalagi ákvæðisins og þessum athugasemdum með frumvarpinu, sem og tilmælunum sjálfum, er að mati dómsins fullljóst hver tilgangurinn með setningu þeirra var og hvers eðlis þau séu.

Því verður að leggja til grundvallar að til að breyta efni þess ráðningarsamnings sem í gildi var á milli aðila hefði þurft til, sannanlega ákvörðun stefnda og nýjan samning á milli aðila eða viðbót við fyrri ráðningarsamning. Það erindisbréf sem gefið var út af stjórn stefnda til tólf mánaða, 23. febrúar 2012, geymir engin ákvæði um uppsagnarfrest eða önnur slík starfskjör stefnanda. Það fjallar aðeins um, eins og fram er komið, óhæði regluvarðar, aðgang að gögnum, hlutverk, regluverk og slík atriði. Engin skylda er lögð á fjármálafyrirtæki, hvorki samkvæmt lögum, reglum né í grein 2.2.2 í tilmælunum, að fjallað sé um uppsagnarfrest eða slík kjör regluvarðar í erindisbréfi sem þessu. Tilvísun stjórnar stefnda til þess að erindisbréfið sé gefið út samkvæmt tilmælunum, getur ein og sér, án frekari skýringa, ekki skapað stefnanda þann rétt sem hún krefst í máli þessu. Það er ósannað að einhverjar breytingar hafi verið gerðar á uppsagnarfresti stefnanda áður en henni var sagt upp störfum, og ekki er, samanber framangreint, fallist á að aðgerðir stjórnvalda hafi leitt til þess, í formi almennra óskuldbindandi en leiðbeinandi fyrirmæla, að réttur stefnanda til uppsagnarfrests hafi aukist úr þremur mánuðum í níu, án þess að sérstaklega hafi verið um slíka breytingu samið. Því verður ráðningarsamningur aðila frá 1. febrúar 2011 lagður til grundvallar við úrlausn þessa máls í samræmi við meginregluna um skuldbindingargildi samninga og gagnkvæmur uppsagnarfrestur í vinnusambandinu talinn þrír mánuðir.

Þá verður ekki séð að 130. gr. laga nr. 108/2007 um verðbréfaviðskipti undirbyggi stefnukröfur málsins líkt og stefnandi heldur fram og hið sama gildir um reglur um meðferð innherjaupplýsinga og viðskipti innherja nr. 1050/2012, samanber fyrri umfjöllun um þýðingu þess fyrir stefnukröfur málsins hvort stefndi hafi staðið löglega að uppsögn stefnanda eður ei. Ákvæði um regluvörslu í reglugerð nr. 995/2007, um fjárfestavernd og viðskiptahætti fjármálafyrirtækja, hafa heldur ekki áhrif á niðurstöðu málsins.

Með vísan til alls framangreinds verður stefndi því sýknaður af kröfum stefnanda. Samkvæmt þessum úrslitum og með vísan til 1. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, verður stefnandi dæmdur til að greiða stefnda málskostnað sem þykir hæfilega ákveðinn 400.000 krónur.

Af hálfu stefnanda flutti málið Bjarki Þór Sveinsson hæstaréttarlögmaður og af hálfu stefnda Hlynur Halldórsson hæstaréttarlögmaður.  

Lárentsínus Kristjánsson héraðsdómari kveður upp dóm þennan.

                                                                               D Ó M S O R Ð

Stefndi, Virðing hf., er sýknaður af kröfum stefnanda, Tinnu Róbertsdóttur.

Stefnandi greiði stefnda 400.000 krónur í málskostnað.