Hæstiréttur íslands
Mál nr. 384/2000
Lykilorð
- Börn
- Forsjá
- Aðild
- Óvígð sambúð
- Skipting sakarefnis
- Gjafsókn
|
|
Fimmtudaginn 1. mars 2001. |
|
Nr. 384/2000. |
X og Y(Dögg Pálsdóttir hrl.) gegn Z (Helgi Birgisson hrl.) |
Börn. Forsjá. Aðild. Óvígð Sambúð. Skipting sakarefnis. Gjafsókn.
Þau X og Y kröfðust forsjár dóttursonar síns A eftir að móðir hans lést í bílslysi. A slasaðist illa í bílslysinu og lá á sjúkrahúsi í rúman mánuð. Eftir það var hann vistaður á vistheimili barna þar til föður hans, Z, var fengin forsjá hans eftir að dómur féll í máli, sem höfðað var til viðurkenningar á faðerni A. Héraðsdómur skipti sakarefninu og dæmdi aðeins um málsástæðu sem laut að aðild. Taldi dómurinn sannað að foreldrar A hefðu verið í sambúð og því farið sameiginlega með forsjá barnsins. Því hefði Z átt að fara með forsjána eftir andlát móður skv. 1. mgr. 31. gr. barnalaga nr. 20/1992. Var Z sýknaður af kröfu X og Y vegna aðildarskorts þeirra. Hæstiréttur staðfesti héraðsdóminn með þeirri athugasemd að ótvírætt væri sannað að Z og móðir A hefðu verið í sambúð við fæðingu og því farið sameiginlega með forsjá barnsins við andlát hennar. Samkvæmt því hefði Z farið einn með forsjána eftir andlát móður A og gætu X og Y því ekki byggt aðild á 3. mgr. 31. gr. barnalaga.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Guðrún Erlendsdóttir, Haraldur Henrysson, Hrafn Bragason og Pétur Kr. Hafstein.
Áfrýjendur skutu máli þessu til Hæstaréttar með stefnu 12. október 2000. Þau krefjast þess að þeim verði dæmd forsjá drengsins A og stefndi verði dæmdur til að greiða þeim málskostnað fyrir Hæstarétti.
Stefndi krefst staðfestingar héraðsdóms og málskostnaðar fyrir Hæstarétti.
Áfrýjendur og stefndi hafa gjafsókn fyrir Hæstarétti.
Í héraði var sakarefni skipt með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Var aðeins dæmt um málsástæðu stefnda sem laut að aðildarskorti áfrýjenda. Samkvæmt 2. mgr. 151. gr. sömu laga verður því fyrir Hæstarétti eingöngu fjallað um sýknukröfu stefnda vegna aðildarskorts.
Drengurinn A er fæddur [...] 1996. Samkvæmt vottorði húseiganda að B [...], voru stefndi og móðir drengsins með íbúð á leigu þar frá 1. janúar 1996 til apríl sama ár. Samkvæmt þessu og öðrum gögnum málsins er ótvírætt sannað að stefndi og móðir drengsins voru í sambúð við fæðingu hans og fóru því sameiginlega með forsjá hans samkvæmt 1. mgr. 30. gr. barnalaga nr. 20/1992 er móðirin lést, enda stóð réttur barnsins til þess. Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. sömu laga fór stefndi einn með forsjána eftir andlát móðurinnar og geta áfrýjendur ekki byggt aðild á 3. mgr. sömu greinar. Afskipti barnaverndarnefndar Reykjavíkur af málinu breytir þar engu um. Samkvæmt þessu og að öðru leyti með vísan til rökstuðnings héraðsdóms ber að staðfesta hann.
Rétt þykir að málskostnaður fyrir Hæstarétti falli niður. Gjafsóknarkostnaður aðila greiðist úr ríkissjóði, svo sem nánar greinir í dómsorði.
Dómsorð:
Héraðsdómur skal vera óraskaður.
Málskostnaður fyrir Hæstarétti fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður áfrýjenda, X og Y, fyrir Hæstarétti greiðist úr ríkissjóði, þar með talin lögmannsþóknun 200.000 krónur.
Gjafsóknarkostnaður stefnda, Z, greiðist úr ríkissjóði, þar með talin lögmannsþóknun 200.000 krónur.
Dómur Héraðsdóms Reykjavíkur 12. júlí 2000.
Mál þetta, sem dómtekið var 4. þ.m., var höfðað með stefnu, birtri 24. febrúar sl.
Stefnendur eru X, kt. [...] og eiginmaður hennar, Y, kt. [...], til heimilis að sama stað.
Stefndi er Z, kt. [...].
Dómkröfur stefnenda:
Að þeim verði dæmd forsjá barnsins, A, kt. [...].
Jafnframt krefjast stefnendur málskostnaðar úr hendi stefnda að skaðlausu eins og málið væri eigi gjafsóknarmál en stefnendur fengu gjafsókn í máli þessu með leyfi dómsmálaráðherra, dags. 7. des. 1999.
Dómkröfur stefnda:
Stefndi krefst sýknu af kröfum stefnenda.
Jafnframt krefst stefndi þess að stefnendur verði dæmdir til greiðslu málskostnaðar samkvæmt framlögðum reikningi eins og málið væri eigi gjafsóknarmál en stefndi fékk gjafsókn í málinu með leyfi dómsmálaráðherra, dags. 5. júní 2000.
Hinn 5. maí sl. var kveðinn upp úrskurður í málinu þar sem hafnað var kröfu stefnenda um að dómari skipaði barninu, A, talsmann til þess að gæta hagsmuna hans við úrlausn forsjármálsins og að dómkvaddir verði matsmenn til þess að kanna aðbúnað og þroska barnsins, tengsl við aðila málsins og sögu hingað til svo og forsjárhæfni og aðstæður málsaðila til að sinna uppeldi A eins og best verði á kosið. Úrskurður þessi var að því er varðaði kröfu stefnenda um dómkvaðningu matsmanns kærður til Hæstaréttar. Með dómi Hæstaréttar, uppkveðnum 2. júní sl., var úrskurðurinn staðfestur.
Við fyrirtöku í málinu 20. júní sl. var ákveðið með vísan til 1. mgr. 31. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála að skipta sakarefni málsins þannig að fyrst verði dæmt um málsástæðu stefnda, er lýtur að aðildarskorti stefnenda.
Málavextir
Dóttir stefnanda, X, Þ, eignaðist soninn, A, [...] 1996. Á þeim tíma voru þau stefndi og Þ í óskráðri sambúð, að sögn stefnda. Hann segir sambúðina hafa staðið frá því í júní 1994 þar til Þ andaðist í umferðarslysi 16. september 1996. Stefnendur telja sambúð Þ og stefnda ósannaða.
Barnið, A, slasaðist í sama umferðarslysi og móðir þess andaðist. Vegna slyssins dvaldist barnið á sjúkrahúsi til 24. okt. 1996. Að þeim tíma loknum var barnið vistað á vistheimili barna í Reykjavík þar til 5. desember 1996.
Hinn 23. okt. 1996 sóttu stefnendur til barnaverndarnefndar Reykjavíkur um að fá barnið, A, í varanlegt fóstur.
Samkvæmt framlögðu læknisvottorði var stefndi mikið frá vinnu í þrjú ár vegna bakverkja sem endaði með brjósklosaðgerð 21. okt. 1996. Stefnda var bannað að vinna nema létt störf næstu tvö árin eftir aðgerð.
Þá er Þ andaðist hafði ekki verið gengið frá formlegri faðernisviðurkenningu vegna barnsins. Að tilhlutan barnaverndarnefndar Reykjavíkur var höfðað mál á hendur stefnda til viðurkenningar á faðerni barnsins. Fyrir dómi viðurkenndi stefndi að vera faðir barnsins. Í skjölum málsins kemur fram að stefndi var viðstaddur fæðingu barnsins og fór með móður barnsins í mæðraskoðanir. Eftir að farið hafði fram mannerfðafræðileg rannsókn til greiningar á faðerni barnsins var stefndi dæmdur faðir þess með dómi, uppkveðnum í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 28. nóv. 1996.
Frá 5. desember 1996 hefur barnið verið í umsjá föður síns.
Hinn 13. febrúar 1997 var Steinunn Guðbjartsdóttir hdl. skipuð sérstakur lögráðamaður barnsins af yfirlögráðandanum í Reykjavík. Verkefni hins sérstaka lögráðamanns var að koma fram fyrir hönd barnsins við skipti á dánarbúi móður hans. Jafnframt var lögráðamanninum falið að innheimta þær bætur sem barnið kynni að eiga hverju nafni sem nefnast, varðveita bótaféð og taka afstöðu til ráðstöfunar þess.
Hinn 5. maí 2000 kvað úrskurðarnefnd í vátryggingamálum upp úrskurð þar sem úrskurðað var að stefndi ætti rétt á greiðslu skaðabóta fyrir missi framfæranda skv. 13. gr. skaðabótalaga.
Skjöl málsins bera með sér að mikill ágreiningur hefur verið milli málsaðila varðandi umgengni stefnenda við A. Jafnframt sýna þau ítrekaðar bréfaskriftir stefnenda til barnaverndarnefndar Reykjavíkur og Barnastofu vegna aðbúnaðar og umönnunar barnsins hjá stefnda, svo og vegna afgreiðslu málsins hjá barnaverndarnefnd Reykjavíkur.
Með bréfi Félagsmálastofnunar Reykjavíkur, dags. 6. janúar 1997, var stefnendum tilkynnt m.a., að samkvæmt bókun barnaverndarnefndar, dags. 10. des. 1996, teljist afskiptum nefndarinnar af málefnum barnsins, A, lokið. Í bréfi þessu er tekið fram að ekkert hafi komið fram annað en að stefndi sé vel hæfur til þess að annast og fara með forsjá sonar síns. Hinn 13. janúar 1997 skrifuðu stefnendur Barnaverndarstofu vegna málsins. Barnaverndarstofa skrifaði Félagsmálastofnun Reykjavíkur bréf, dags. 22. janúar 1997. Bréf þetta tók barnaverndarnefnd m.a. sem tilkynningu skv. 12. gr. laga nr. 58/1992 um vernd barna og ungmenna. Bréf þessi eru einungis lítill hluti bréfa þeirra sem farið hafa á milli stefnenda, barnaverndarnefndar Reykjavíkur og Barnaverndarstofu. Þessi bréfaskipti hafa haft í för með sér könnun barnaverndarnefndar Reykjavíkur á högum barnsins. Ekki er að sjá í skjölum málsins að Barnaverndarnefnd Reykjavíkur hafi séð ástæðu til athugasemda vegna aðbúnaðar barnsins hjá föður sínum.
Hinn 5. janúar 1999 kvað sýslumaðurinn í Reykjavík að ósk stefnenda upp úrskurð um umgengni þeirra við barnið, A. Sú umgengni sem þar var úrskurðuð gekk ekki eftir. Hinn 12. ágúst 1999 kvað sýslumaðurinn í Reykjavík upp úrskurð þar sem stefnda var gert að greiða dagsektir í ríkissjóð, 4.000 kr. á dag, frá uppkvaðningu úrskurðar þar til barnaverndarnefnd Reykjavíkur tilkynni sýslumanninum í Reykjavík að stefndi hafi látið af tálmunum á umgengni samkvæmt úrskurðinum frá 5. janúar 1999. Ekki mun hafa orðið af umgengni stefnenda við barnið eftir uppkvaðningu þessa úrskurðar. Hinn 18. maí 2000 kvað sýslumaðurinn í Reykjavík upp úrskurð þar sem stefnda var gert að greiða 4.350 kr. á dag frá dagsetningu úrskurðar þar til hann hafi látið af tálmunum á umgengni samkvæmt úrskurðinum frá 5. jan. 1999.
Málsástæður og lagarök stefnenda
Stefnendur byggja kröfu sína um forsjá drengsins, A, á því m.a. að þau geti boðið drengnum upp á traustar og farsælar uppeldisaðstæður og þannig tryggt velferð barnsins. Persónulegir eiginleikar þeirra geri þau að vel hæfum forsjáraðilum fyrir barnið. Þau geti með því að fara með forsjá barnsins gefið því kost á nánu og góðu samneyti við móðurfjölskyldu sína og eðlilega umgengni við alla fjölskyldumeðlimi sína.
Jafnframt byggja stefnendur á því að rétt sé að velja milli aðila í máli þessu eingöngu út frá hæfni hvors aðila um sig með tilliti til hagsmuna drengsins en ekki með tilliti til þess hver fari með forsjána í dag. Varðandi það atriði byggja stefnendur á því að forsjá drengsins hafi aldrei átt að vera færð til stefnda með þeim hætti sem gert var, þ.s. barnaverndarnefnd hafi farið með forsjá drengsins og hafi ekki átt að láta hana frá sér án þess að rannska hvað best væri fyrir barnið og hvaða forsjáraðili gæti best tryggt eðlileg uppeldisskilyrði fyrir barnið. Forsjá barnsins sé þannig komin til stefnda fyrir mistök eða a.m.k. ekki nægilega vönduð vinnubrögð barnaverndarnefndar Reykjavíkurborgar og því eigi núverandi forsjárskipan ekki að hafa áhrif á mat dómsins í máli þessu.
Það hafi verið vilji móður dregnsins að þau færu með forsjá hans félli hún frá, enda hafi þau verið í góðum tengslum við hana og barnið allt fram að fráfalli hennnar. Móðir barnsins hafi með athöfnum sínum og athafnaleysi sýnt að hún hafi ekki viljað að stefndi færi með forsjá dregnsins. Hún hafi komið í veg fyrir það með því að skrá sig ekki í sambúð með stefnda eftir fæðingu drengsins sem hefði valdið sjálfkrafa feðrun hans skv. ákvæðum barnalaga og með því að ganga ekki frá feðrun barnsins. Þar að auki hafi móðir barsins kennt það við sjálfa sig en ekki stefnda. Þar sem stefndi hafi ekki verið með forsjá barnsins á meðan móðir þess lifði sé í alla staði óeðlilegt að stefndi hafi fengið forsjána sjálfkrafa nokkru eftir fráfall hennar án vandlegrar rannsóknar á forsjárhæfni stefnda og getu til að annast ungabarn.
Enn fremur byggja stefnendur á því að stefndi hafi ekki nægilegt forsjárhæfi til að geta boðið barninu upp á bestu uppeldisskilyrði, m.a. vegna eigin ístöðuleysis og fjárhagserfiðleika. Aðbúnaður barnsins sé ófullnægjandi hjá föður.
Um lagarök vísa stefnendur til ákvæða barnalaga nr. 20/1992, aðallega 3. mgr. 32. gr., 34. gr. og 36. gr. Með vísan til 1. mgr. 34. gr. barnalaga i.f. óska stefnendur eftir því að málið verði rekið með hraði.
Við munnlegan málflutning var því haldið fram af hálfu stefnenda að sambúð stefnda og Þ sé ósönnuð og þar af leiðandi hafi þau stefndi og Þ ekki farið með sameiginlega forsjá barnsins. Á meðan Þ var á lífi hafi hún og stefndi ekki verið í skráðri sambúð og barnið ófeðrað.
Réttur stefnenda til þess að krefjast forsjár barnsins byggist á 3. mgr. 31. gr. barnalaga.
Málsástæður og lagarök stefnda
Stefndi byggir sýknukröfu sína í fyrsta lagi á aðildarskorti stefnenda. Á heimild 3. mgr. 31. gr. barnalaga, að fela öðrum en foreldri forsjá barns, reyni því aðeins ef foreldri andast sem hefur eitt farið með forsjá barns og ekki sé sambúðar- eða stjúpforeldri til að dreifa. Ljóst sé að stefndi og Þ hafi verið í óvígðri sambúð þegar Þ andaðist. Samkvæmt 1. mgr. 31. gr. barnalaga sé forsjá í höndum beggja foreldra búi þau saman. Um skilgreiningu á sambúð er vísað til 3. mgr. 2. gr. barnalaganna, þar sem efnislega segi að um óvígða sambúð sé áskilið að hennar sé getið í þjóðskrá eða ótvíræð gögn séu að öðru leyti um að foreldrar búi saman. Þau gögn liggi fyrir í máli þessu og þegar af þeirri ástæðu sé ekki lagagrundvöllur fyrir málshöfðun stefnenda. Eigi þau ekki aðild að máli um forsjá drengsins og beri því að sýkna stefnda vegna aðildarskorts.
Það hafi ekki verið í verkahring barnaverndarnefndar Reykjavíkur að taka ákvörðun um hvert barnið færi við andlát móður því stefndi hafi lögum samkvæmt farið með forsjá hans. Dómstólar fari ekki með barnaverndarstarf og geti þar af leiðandi ekki gripið inn í forsjá stefnda. Það séu eingöngu barnaverndaryfirvöld sem geti haft afskipti af forsjánni og gripið til íþyngjandi ráðstafana, en þá því aðeins að fullvíst megi telja að líkamlegri eða andlegri heilsu barnsins sé hætta búin vegna þess að foreldrið sé augljóslega vanhæft til að fara með forsjána.
Um lagarök er af hálfu stefnda vísað til barnalaga, einkum 29. gr. og 31. gr.
Forsendur og niðurstaða
Telja verður að um misritun sé að ræða í stefnu þá er vísað er til 3. mgr. 32. gr. barnalaga nr. 20/1992 en þar er kveðið á um samninga foreldra um sameiginlega forsjá. Í 31. gr. barnalaga er fjallað um forsjá við andlát forsjárforeldris. Í 34. gr. er fjallað um ágreining foreldra um forsjá og í 36. gr. um bráðabirgðaforsjá.
Í samræmi við það sem haldið var fram af hálfu stefnenda við munnlegan málflutning er við það miðað að stefnendur byggi málatilbúnað sinn á 3. mgr. 31. gr. barnalaga. Grein þessi er svohljóðandi:
“Við andlát foreldris, sem farið hefur eitt með forsjá barns, hverfur forsjá þess til hins foreldrisins. Fela má öðrum forsjá barnsins, komi fram ósk um það og sé það álitið barninu fyrir bestu.”
Fullyrðingar af hálfu stefnenda um að móðir barnsins hafi viljað að þau færu með forsjá barnsins, félli hún frá, eru ósannaðar.
Í heilsufarsbók barnsins og ónæmisskírteini er barnið skráð Júlíusson.
Ágreiningur er með aðilum um það hvort stefndi og Þ hafi verið í sambúð við fæðingu barnsins, A, eða ekki. Þau voru ekki í skráðri sambúð.
Þegar litið er til framlagðra gagna, m.a. þess að stefndi fór með móður barnsins í mæðraskoðanir á meðan hún gekk með barnið, stefndi var viðstaddur fæðingu barnsins, stefndi aðstoðaði móður barnsins við vinnu hennar við ræstingu hjá R um tveggja ára skeið og stefndi og móðir barnsins hjálpuðust að við framfærslu fjölskyldunnar, þykir ljóst að um sambúð var að ræða sbr. 3. mgr. 2. gr. barnalaga. Barnið, A, átti því rétt á forsjá beggja foreldra sinna skv. 1. mgr. 30. gr. barnalaga á meðan móðir þess lifði.
Þar sem ekki hafði verið gengið formlega frá faðerni barnsins við andlát móður þess var að tilhlutan barnaverndarnefndar Reykjavíkur höfðað mál á hendur stefnda til viðurkenningar á faðerni barnsins. Fyrir dómi gekkst stefndi við faðerni barnsins og að genginni mannerfðafræðilegri rannsókn til greiningar á faðerni barnsins var kveðinn upp dómur í Héraðsdómi Reykjavíkur hinn 28. nóvember 1996 þar sem dæmt var að stefndi teldist faðir barnsins.
Þar sem stefndi og móðir barnsins voru í sambúð, og hafa því í raun farið sameiginlega með forsjá barnsins skv. l. mgr. 30. gr. barnalaga, fer um forsjá barnsins eftir andlát móður þess skv. 1. mgr. 31. gr. barnalaga, þ.e. forsjáin er í höndum stefnda eins. Í greininni er tæmandi talning á því hverjum megi fela forsjá barns látins foreldris, sem farið hefur með forsjá barnsins sameiginlega með hinu foreldrinu, en það er maki eða sambúðaraðili hins látna foreldris, sem einnig hefur farið með forsjá barnsins, ef það er talið barninu fyrir bestu. Þegar af þessari ástæðu er ekki lagagrundvöllur fyrir málshöfðun stefnenda á hendur stefnda í máli þessu.
Ber því að sýkna stefnda af kröfum stefnenda í máli þessu.
Eftir atvikum þykir rétt að málskostnaður falli niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnenda, þ.e. þóknun lögmanns stefnenda, Þorbjargar I. Jónsdóttur hdl., 350.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.
Gjafsóknarkostnaður stefnda, þ.e. þóknun lögmanns stefnda, Helga Birgissonar hrl., 350.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.
Auður Þorbergsdóttir héraðsdómari kveður upp dóminn.
D ó m s o r ð:
Stefndi, Z, skal vera sýkn af kröfum stefnenda, X og Y, í máli þessu.
Málskostnaður fellur niður.
Gjafsóknarkostnaður stefnenda, 350.000 kr., greiðist úr ríkissjóði. Gjafsóknarkostnaður stefnda, 350.000 kr., greiðist úr ríkissjóði.