Hæstiréttur íslands

Mál nr. 752/2012


Lykilorð

  • Kærumál
  • Fjármálafyrirtæki
  • Slit
  • Kröfulýsingarfrestur


Mánudaginn 21. janúar 2013.

Nr. 752/2012.

SPB hf.

(Berglind Svavarsdóttir hrl.)

gegn

Nykredit Bank A/S

(Viðar Lúðvíksson hrl.)

Kærumál. Fjármálafyrirtæki. Slit. Kröfulýsingarfrestur.

N lýsti kröfu við slit SPB hf. sem slitastjórn þess síðarnefnda hafnaði á þeirri forsendu að N hefði lýst kröfu sinni eftir að kröfulýsingarfrestur rann út og var þeim ágreiningi vísað til úrlausnar héraðsdóms. Deildu aðila um það hvort undanþáguheimild 2. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. ætti við í málinu, og hvort slitastjórn SPB hf. hefði verið skylt að tilkynna N, sem búsettur var erlendis, um slitameðferðina. Talið var að slitastjórn SPB hf. hefði borið að senda N tilkynningu um slitameðferðina í samræmi við 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl, eftir að N hafði sent slitastjórninni bréf þar sem krafist var greiðslu þeirrar kröfu sem síðar var lýst við slitin. Þá var jafnframt talið að tilkynning slitastjórnar SPB hf. til N um að félagið væri í greiðslustöðvun gæti ekki leitt til þess að N hefði mátt vera kunnugt um slitameðferð SPB hf. Þar sem N hafði lýst kröfu sinni án ástæðulausra tafa eftir að hann fékk vitneskju um slitameðferðina, og fyrir boðun til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búi SPB hf., sbr. 2. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., var talið að krafa N kæmist að við slitameðferð SPB hf. sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. sömu laga. 

Dómur Hæstaréttar.

Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Markús Sigurbjörnsson, Helgi I. Jónsson og Ingibjörg Benediktsdóttir.

Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 11. desember 2012, sem barst réttinum ásamt kærumálsgögnum 20. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2012, þar sem krafa varnaraðila að fjárhæð 113.460.000 krónur var viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slit sóknaraðila. Kæruheimild er í 1. mgr. 179. gr. sömu laga. Sóknaraðili krefst þess að kröfu varnaraðila verði hafnað og sér dæmdur málskostnaður í héraði og kærumálskostnaður.

Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og kærumálskostnaðar.

Eftir að hinn kærði úrskurður gekk hefur nöfnum beggja málsaðila verið breytt eins og heiti málsins ber með sér.

Ágreiningur í máli þessu lýtur eingöngu að því hvort krafa, sem varnaraðili lýsti á hendur sóknaraðila, komist að við slitameðferð hins síðarnefnda. Svo sem greinir í hinum kærða úrskurði ákvað Fjármálaeftirlitið 21. mars 2009 að taka yfir vald hluthafafundar sóknaraðila, víkja stjórn hans frá og skipa honum skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 125/2008. Sóknaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 23. mars 2009 og átti hún að standa til 15. júní sama ár. Áður en sá tími var á enda runninn var honum skipuð slitastjórn 19. maí 2009 samkvæmt 4. mgr. 101. gr. fyrrnefndra laga um fjármálafyrirtæki, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tölulið ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög.

Samkvæmt 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, eins og henni var breytt með 2. mgr. 6. gr. laga nr. 44/2009, skal um efni innköllunar, kröfulýsingarfrest og tilkynningar eða auglýsingar vegna erlendra kröfuhafa beitt sömu reglum við slit fjármálafyrirtækja og við gjaldþrotaskipti. Frestur samkvæmt 2. mgr. 85. gr. laga nr. 21/1991 til að lýsa kröfum á hendur sóknaraðila rann út 3. nóvember 2009. Var sá frestur því á enda þegar varnaraðili, sem hefur starfstöð erlendis, lýsti kröfu sinni 22. desember sama ár. Samkvæmt 118. gr. laga nr. 21/1991 er meginregla þeirra sú að krafa fellur niður gagnvart þrotabú ef henni er ekki lýst á hendur því fyrir skiptastjóra áður en kröfulýsingarfresti lýkur, en frá þeirri reglu eru  undantekningar sem taldar eru upp í 1. til 6. tölulið greinarinnar. Segir þannig í 2. tölulið hennar að krafa á hendur þrotabúi falli ekki niður ef kröfuhafinn er búsettur erlendis og honum hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um gjaldþrotaskiptin, enda sé kröfunni lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu. Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991 er skiptastjóra jafnframt því að gefa út innköllun samkvæmt 85. gr. rétt að leita sérstaklega vitneskju um hvort einhver sá, sem kann að telja til kröfu á hendur þrotabúinu, sé búsettur erlendis. Komi fram vitneskja um slíkt er skiptastjóra rétt að tilkynna hlutaðeigandi svo fljótt sem verða má um gjaldþrotaskiptin, hvenær kröfulýsingarfrestur endi og hverjar afleiðingar það geti haft að kröfu verði ekki lýst innan frestsins.

Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar er ekki hald í þeirri málsástæðu sóknaraðila að vitneskja varnaraðila um greiðslustöðvun hins fyrrnefnda hafi getað leitt til þess að honum mætti vera kunnugt um slitameðferð sóknaraðila.

Óumdeilt er að sóknaraðila barst í hendur bréf varnaraðila 7. apríl 2009 þar sem varnaraðili fór fram á greiðslu þeirrar kröfu sem hann síðar lýsti samkvæmt framansögðu á hendur sóknaraðila. Samkvæmt því bar slitastjórn að fara að áðurnefndum fyrirmælum 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991 og tilkynna varnaraðila um slitameðferðina, en hann átti annars ekki raunhæfan kost á að lýsa kröfu sinni, sbr. til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 10. mars 2011 í máli nr. 14/2011. Því er ekki andmælt að varnaraðili hafi lýst kröfu sinni án ástæðulausra tafa eftir að hann fékk vitneskju um slitameðferð sóknaraðila. Kemst krafa varnaraðila því að við slitin. Samkvæmt þessu verður niðurstaða hins kærða úrskurðar staðfest.

Sóknaraðili verður dæmdur til að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.

Dómsorð:

Hinn kærði úrskurður er staðfestur.

Sóknaraðili, SPB hf., greiði varnaraðila, Nykredit Bank A/S, 350.000 krónur í kærumálskostnað.

Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 28. nóvember 2012.

Mál þetta, sem tekið var til úrskurðar 31. október sl., var þingfest 7. febrúar 2011.

Sóknaraðili er Forstædernes Bank A/S, Kalvebod Brygge 47, Kaupmannahöfn, Danmörku.

Varnaraðili er Sparisjóðabanki Íslands hf., í slitameðferð.

Sóknaraðili krefst þess aðallega að krafa hans að fjárhæð 120.541.367 krónur verði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, við slitameðferð varnaraðila.

Þá krefst sóknaraðili þess að honum verði dæmdur málskostnaður úr hendi varnaraðila að mati dómsins eða samkvæmt málskostnaðarreikningi.

Varnaraðili krefst þess að kröfu sóknaraðila verði hafnað og að viðurkennd verði sú afstaða slitastjórnar að taka kröfu sóknaraðila ekki inn á kröfuskrá. Þá er krafist málskostnaðar að mati dómsins auk virðisaukaskatts af málflutningsþóknun.

Málavextir

Hinn 28. ágúst 2007 gerðu sóknaraðili og Nordic Service Apartments A/S (NSA) með sér lánssamning, þar sem sóknaraðili lánaði NSA allt að 95.000.000 danskra króna. Til tryggingar skilvísum og skaðlausum greiðslum NSA samkvæmt lánssamningnum veitti varnaraðili bankaábyrgð upp að 5.000.000 danskra króna með yfirlýsingu 9. ágúst 2007. NSA stóð ekki við skuldbindingar sínar gagnvart sóknaraðila samkvæmt lánssamningnum. Af þeim sökum sagði sóknaraðili upp samningnum með bréfi 17. mars 2009 og gjaldfelldi greiðslur samkvæmt honum. Ekki er deilt um að krafa sóknaraðila er hærri en sem nemur fjárhæð bankaábyrgðar varnaraðila, þannig að ábyrgðin varð virk að fullu. Fram kemur í fyrrnefndu bréfi sóknaraðila til NSA að krafa hans á hendur NSA hafi þá numið 99.561.013,86 dönskum krónum.

Fjármálaeftirlitið ákvað 21. mars 2009 að taka yfir vald hluthafafundar varnaraðila, víkja stjórn hans frá störfum og skipa honum skilanefnd í samræmi við þágildandi ákvæði 100. gr. a laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og þeim hafði verið breytt með 5. gr. laga nr. 125/2008. Varnaraðila var veitt heimild til greiðslustöðvunar 23. mars 2009 sem standa átti til 15. júní 2009, en áður en sá tími var á enda runninn var honum skipuð slitastjórn 19. maí samkvæmt 4. mgr. 101. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 5. gr. laga nr. 44/2009 og 4. tl. ákvæðis II til bráðabirgða við þau lög.

Slitastjórn gaf út innköllun til skuldheimtumanna er birtist í vefriti Lögbirtingablaðsins fyrra sinni 3. júní 2009. Upphaflegur kröfulýsingarfrestur var ákveðinn fjórir mánuðir eða til 3. október 2009. Með auglýsingu, sem birtist í fyrra sinn í Lögbirtingablaði 29. september 2009, var kröfulýsingarfrestur lengdur um einn mánuð, eða til 3. nóvember 2009. Varnaraðili kveður að auglýsing um innköllun til skuldheimtumanna hafi verið birt í dagblöðum 13. júní og 26. september 2009. Einnig hafi sérstök tilkynning verið send þekktum erlendum lánardrottnum með bréfum 22. júní og 28. september 2009.

Sóknaraðili krafði varnaraðila um greiðslu á grundvelli fyrrnefndrar ábyrgðaryfirlýsingar með bréfum frá 30. mars 2009, 7. apríl s.á, 14. júlí s.á og 21. ágúst s.á. Sóknaraðili kveður að einu viðbrögð varnaraðila hafi verið skeyti frá 21. apríl 2009, þar sem tilkynnt hafi verið um að varnaraðili væri í greiðslustöðvun, án frekari skýringa.

Sóknaraðili höfðaði mál á hendur varnaraðila með stefnu dagsettri 20. október 2009 fyrir héraðsdómi í Kaupmannahöfn (Københavns byret). Aðstoðarmaður varnaraðila í greiðslustöðvun sendi 11. desember 2009 bréf til dómstólsins þar sem fram kom að varnaraðili væri í greiðslustöðvun, auk þess sem slitastjórn hafi verið skipuð varnaraðila. Í bréfinu kemur einnig fram að kröfulýsingarfrestur hafi runnið út 3. nóvember 2009, en að kröfulýsing hafi ekki borist frá sóknaraðila.

Sóknaraðili fékk veður af efni bréfsins og lýsti í kjölfarið kröfum sínum á hendur varnaraðila með kröfulýsingu dagsettri og móttekinni 22. desember 2009. Sóknaraðili krafðist þess að krafa hans yrði viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila. Slitastjórn hafnaði kröfu sóknaraðila með vísan til þess að krafan hefði borist eftir lok kröfulýsingarfrests. Þá taldi slitastjórn ekki uppfyllt skilyrði 118. gr. laga nr. 21/1991 fyrir því að krafan kæmist að. Lögmaður sóknaraðila mótmælti afstöðu slitastjórnar í tölvuskeyti 11. ágúst 2010. Ekki tókst að leysa úr ágreiningi aðila og vísaði slitastjórn varnaraðila ágreiningi til Héraðsdóms Reykjavíkur með bréfi 29. október 2010.

Ágreiningur máls þessa lýtur aðallega að því hvort krafa sóknaraðila komist að við skipti varnaraðila á grundvelli 118. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl. nr. 21/1991.

Fyrir dóminn komu og gáfu skýrslur vitnin Bjarni Tómas Jónsson og Jón Auðunn Jónsson.

Málsástæður og lagarök sóknaraðila

Sóknaraðili kveður ágreining málsins eingöngu lúta að því hvort krafa hans komist að við slitameðferð varnaraðila samkvæmt 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. Kröfulýsingarfrestur hafi verið runninn út þegar sóknaraðili lýsti kröfu sinni 22. desember 2009, samkvæmt 118. gr. og 2. mgr. 85. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, eins og þeirri grein hafi verið breytt með 6. gr. laga nr. 44/2009. Sóknaraðili telur hins vegar að 2. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 taki til kröfulýsingar sóknaraðila, enda taki ákvæðið til aðstæðna líkum þeim sem uppi eru í þessu máli. Krafa sóknaraðila falli því ekki niður gagnvart varnaraðila við slitameðferð hans, heldur beri varnaraðila að viðurkenna hana.

Skrifstofur og starfsstöð sóknaraðila séu erlendis og honum hafi því hvorki verið né mátt vera kunnugt um slitameðferðina, kröfumeðferðina eða skipan slitastjórnar, sbr. 2. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991. Sóknaraðili hafi lýst kröfu sinni án ástæðulausra tafa eftir að hann hafi fengið upplýsingar um slitameðferð varnaraðila, en það hafi verið þegar honum hafi borist afrit bréfs aðstoðarmanns varnaraðila í greiðslustöðvun frá 11. desember 2009. Þá hafi sóknaraðili lýst kröfu áður en boðað var til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar við slitameðferð varnaraðila. Öll skilyrði 2. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 séu þannig uppfyllt og krafa sóknaraðila komist því að við slitameðferð varnaraðila.

Sóknaraðili hafi beint kröfu um greiðslu að varnaraðila, meðal annars með bréfum frá 30. mars, 7. apríl, 14. júlí og 21. ágúst 2009. Einu viðbrögð varnaraðila hafi verið stutt svar 21. apríl 2009, þar sem tilkynnt hafi verið um að varnaraðili væri í greiðslustöðvun, án frekari skýringa. Stefna sóknaraðila á hendur varnaraðila sé dagsett 20. október 2009 og hafi varnaraðili því vitað um málshöfðunina í Danmörku allnokkru áður en kröfulýsingarfrestur við slitameðferð varnaraðila rann út. Varnaraðila hafi því verið kunnugt um kröfur sóknaraðila. Varnaraðili hafi jafnframt haft fullt tilefni til þess og verið í lófa lagið að tilkynna sóknaraðila um slitameðferðina eða að kröfulýsingarfrestur rynni út 3. nóvember 2009. Það hafi varnaraðili hins vegar ekki gert. Í ljósi aðstöðumunar aðila að þessu leyti, bæði varðandi vitneskju um stöðu varnaraðila á hverjum tíma og að því er varði möguleika á sönnun málsatvika, sé eðlilegt að varnaraðili beri hallann af því athafnaleysi sínu.

Sóknaraðili mótmælir því að hann hafi vitað eða mátt vita af slitameðferð varnaraðila og tímamörkum kröfulýsingarfrests við slitameðferðina. Sóknaraðili hafi krafið varnaraðila bréflega um greiðslu. Þá hafi sóknaraðili einnig höfðað mál á hendur varnaraðila fyrir héraðsdómi í Danmörku með stefnu 20. október 2009. Það skjóti skökku við ef sóknaraðili hefði vitað að kröfulýsingarfrestur varnaraðila rynni út 3. nóvember 2009, en samt sem áður sleppt því að lýsa kröfu á þessum tíma. Það verði að leggja til grundvallar að sóknaraðili hafi ekki vitað um slitameðferðina.

Hafa verði í huga sönnunaraðstöðu aðila málsins. Í almennum reglum íslensks réttar um sönnun sé gengið út frá því að ekki verði gerð krafa um að menn sanni að eitthvað hafi ekki gerst. Sóknaraðili hafi hvorki vitað né mátt vita um slitameðferð varnaraðila. Sóknaraðila sé þó ómögulegt að færa fram beina sönnun þar að lútandi. Sóknaraðili hafi bent á að kringumstæður hafi verið með þeim hætti að ófært og ósanngjarnt sé að telja að hann hafi haft eða átt að hafa slíka vitneskju. Það standi varnaraðila nær að sanna vitneskju sóknaraðila um slitameðferð varnaraðila, eða kringumstæður sem bendi til slíkrar vitneskju.

Sóknaraðili vísar til þess að hann sé erlendur kröfuhafi varnaraðila. Óumdeilt sé að varnaraðili hafi vitað að sóknaraðili ætti kröfur á hendur honum. Samkvæmt 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, hafi varnaraðila borið að tilkynna sóknaraðila svo fljótt sem verða mátti um slitameðferðina, hvenær kröfulýsingarfrestur rynni út og um afleiðingar þess að kröfu væri ekki lýst innan frestsins. Ákvæðið hafi að geyma hátternismælikvarða, sem varnaraðila hafi borið að hlíta. Þá skyldu hafi varnaraðili vanrækt. Sú vanræksla hafi verið saknæm, þar eð hún hafi falið í sér brot gegn lagareglu og slík vanræksla hafi eðli máls samkvæmt bein áhrif á réttarstöðu aðila þessa máls. Ætla verði að sóknaraðili hefði lýst kröfu sinni innan kröfulýsingarfrests ef varnaraðili hefði sinnt þessari skyldu sinni, en varnaraðili beri sönnunarbyrði fyrir hinu gagnstæða. Varnaraðili verði þar af leiðandi að bera hallann af því að hafa vanrækt framangreinda skyldu að senda tilkynningu til sóknaraðila. Sú lögskýring sé ótæk að varnaraðili og aðrir kröfuhafar hans geti hagnast á því að varnaraðili hafi vanrækt þá lögboðnu skyldu að tilkynna erlendum kröfuhafa um slitameðferðina og kröfulýsingarfrest.

Erlendir kröfuhafar þeirra íslensku banka og sparisjóða sem farið hafi í slitameðferð á undanförnum misserum hafi haft litla eða enga vitneskju um í hvaða stöðu viðkomandi fjármálafyrirtæki hafi verið og þýðingu greiðslustöðvunar þeirra. Jafnvel þótt erlendur kröfuhafi hafi fengið vitneskju um greiðslustöðvun tiltekins banka á Íslandi, jafngildi það ekki vitneskju um slitameðferð eða kröfulýsingarfrest við slitameðferð viðkomandi banka, enda sé um tvö ólík úrræði að ræða. Kröfuhafar varnaraðila og annarra íslenskra fjármálafyrirtækja hafi eðlilega ekkert vitað um slitameðferð þeirra, nema þeim væri tilkynnt um það sérstaklega eða auglýsingin birt þeim. Því sé ekki fyrir að fara í tilviki sóknaraðila.

Allt frá byrjun októbermánaðar 2008 hafi stór hluti vinnu íslenskra lögmanna falist í aðstoð við feikistóra kröfuhafa hinna íslensku banka. Umræddir kröfuhafar hafi enga vitneskju haft um slitameðferð bankanna, kröfulýsingarfresti og meðferð krafna, og hafi þeir því þurft á leiðsögn íslenskra lögmanna að halda um einmitt þessi atriði. Sóknaraðili geti ekki séð hvernig unnt sé að halda því fram að sóknaraðili hafi haft, eða átt að hafa, vitneskju um slitameðferð varnaraðila, þegar þessir stóru kröfuhafar hafi ekki haft hana.

Sóknaraðili sundurliðar kröfu sína á eftirfarandi hátt:

1) Höfuðstóll (5.000.000 danskar krónur)

113.460.000 krónur

2) Dráttarvextir frá 20. október til 22. desember 2009 (66.667 danskar krónur)

1.512.808 krónur

3) Kostnaður við innheimtu í Danmörku (91.400 danskar krónur)

2.074.049 krónur

Samtals

117.046.857 krónur

4) Innheimtuþóknun með virðisaukaskatti

3.484.919 krónur

5) Ritun kröfulýsingar

9.591 króna

Samtals

120.541.367 krónur

Höfuðstóllinn byggist á bankaábyrgð að fjárhæð 5.000.000 danskra króna, sem varnaraðili hafi veitt vegna skulda NSA við sóknaraðila eins og áður er rakið. Bankaábyrgðin hafi orðið virk þar sem NSA hafi vanefnt lánasamninginn. Dráttarvaxta sé krafist frá 20. október 2009 í samræmi við dönsk vaxtalög og ákvæði ábyrgðaryfirlýsingarinnar frá 9. ágúst 2007, en stefna í máli sóknaraðila gegn varnaraðila sé dagsett 20. október 2009. Krafa um innheimtuþóknun í Danmörku byggist á kostnaði sóknaraðila og reikningum við vinnu lögmanna þar í landi við innheimtu kröfu sóknaraðila. Þessir kröfuliðir hafi upphaflega verið í dönskum krónum. Kröfurnar séu færðar yfir í íslenskar krónur eftir skráðu sölugengi dönsku krónunnar 22. apríl 2009 (1 dönsk króna = 22,692 krónur), sbr. að sínu leyti 3. mgr. 99. gr. laga nr. 21/1991. Krafa um innheimtuþóknun byggist á gjaldskrá Landslaga – lögfræðistofu.

Sóknaraðili byggir einkum á almennum reglum dansks samningaréttar og kröfuréttar um skuldbindingargildi samninga og efndir fjárskuldbindinga samkvæmt efni sínu. Þá vísar sóknaraðili til danskra réttarreglna um ábyrgðarloforð og bankaábyrgðir. Í fyrrnefndri ábyrgðaryfirlýsingu varnaraðila sé kveðið á um að danskar réttarreglur skuli gilda um ágreining aðila vegna ábyrgðarinnar. Sóknaraðili byggir einnig á almennum reglum íslensks réttar um sömu efni, enda séu hinar dönsku og íslensku reglur efnislega þær sömu. Sóknaraðili byggir einnig á lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., einkum 113. og 118. gr. og á 3. mgr. 102. gr. og öðrum ákvæðum XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Við munnlegan málflutning benti sóknaraðili á að túlka beri íslensk lög til samræmis við EES-samninginn og reifaði sjónarmið sín til stuðnings því. Mótmælti varnaraðili því að nýjar málsástæður þar að lútandi kæmust að í málinu.

Málskostnaðarkrafa byggist á 129. og 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sbr. 2. mgr. 178. gr. laga nr. 21/1991.

Málsástæður og lagarök varnaraðila

Varnaraðili byggir á því að þar sem sóknaraðili hafi ekki lýst kröfu fyrir slitastjórn varnaraðila fyrr en 22. desember 2009, eftir lok kröfulýsingarfrests 3. nóvember s.á., þá sé hún of seint fram komin og falli því niður samkvæmt 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sbr. 4. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki.

Varnaraðili vísar til þess að upphafsákvæði 118. gr. laga nr. 21/1991 sé meginregla um áhrif vanlýsingar kröfu. Þess sé getið í athugasemdum með þeirri grein að þessi regla komi með óbeinum hætti fram í 111. gr. fyrri laga um gjaldþrot nr. 6/1978 en byggt hafi verið á þessari meginreglu um langan aldur í dómaframkvæmd og fræðikenningum. Undantekningar séu gerðar frá þessari meginreglu sem taldar séu upp í sex töluliðum í ákvæðinu en varnaraðili telji enga þeirra eiga við í þessu máli.

Varnaraðili mótmælir því að sóknaraðili hafi hvorki verið né mátt vera kunnugt um slitameðferð varnaraðila og að krafa hans komist því að við slitameðferðina, sbr. 2. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991. Þvert á móti hafi sóknaraðili haft alla vitneskju um stöðu mála og slitameðferð varnaraðila. Fyrrnefnt ákvæði sé undantekning frá meginreglunni um vanlýsingaráhrif kröfu og beri því að skýra hana þröngt auk þess sem sóknaraðili verði að sanna að undantekningin eigi við.

Um form og efni innköllunar, kröfulýsingarfrest og tilkynningar til þekktra erlendra kröfuhafa hafi farið eftir ákvæðum 85. og 86. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, eins og síðastnefnda ákvæðinu hafi verið breytt með 6. gr. laga nr. 44/2009. Allar almennar upplýsingar um slitameðferð varnaraðila hafi verið tiltækar á ensku á heimasíðu hans. Varnaraðili hafi því uppfyllt allar lögbundnar skyldur sínar.

Verði ekki talið sannað að sóknaraðili hafi vitað um slitameðferðina byggir varnaraðili á því að hann hafi mátt vita um hana. Sóknaraðili hafi verið í viðskiptum við íslenska aðila, einstaklinga og fjármálafyrirtæki (BYR) þannig að honum hafi átt að vera fyllilega ljósar aðstæður hér á landi. Það fjármálahrun sem hafi orðið hérlendis hafi ekki getað farið fram hjá sóknaraðila sem fjármálastofnun.

Varnaraðili hafnar því að honum hafi verið kunnugt um kröfur sóknaraðila vegna stefnu sem sóknaraðili hafi gefið út í Danmörku. Varnaraðili hafi ekki verið í beinum viðskiptum við sóknaraðila heldur hafi verið um skilyrta ábyrgð að ræða og ekkert fram komið er hafi staðfest að það skilyrði væri komið fram. Varnaraðila hafi auk þess ekki verið kunnugt um tilvist stefnunnar fyrr en 17. nóvember 2009. Í kjölfarið hafi varnaraðili sent bréf til dómsins sem hafi orðið til þess að málið hafi verið fellt niður.

Varnaraðili hafi sent sóknaraðila símskeyti 15. apríl 2009 þar sem fram komi að varnaraðili væri í greiðslustöðvun. Sóknaraðila, sem fjármálastofnun, ætti öðrum fremur að vera kunnugt um réttaráhrif greiðslustöðvunar og vandséð sé hvernig tilkynningin um greiðslustöðvun hefði átt að bera með sér frekari skýringar. Íslensku gjaldþrotalögin byggist á hinum dönsku þannig að réttaráhrif greiðslustöðvunar og gjaldþrotaúrskurðar séu hin sömu í íslenskum rétti og dönskum. Fyrrgreint símskeyti varnaraðila til sóknaraðila, ásamt því fárviðri er ríkt hafi á fjármálamörkuðum um allan heim hafi þannig gefið sóknaraðila fullt tilefni til að bregðast við og gæta að sinni réttarstöðu. Honum hafi verið í lófa lagið, eins og öðrum kröfuhöfum, að senda fyrirspurn, kanna réttarstöðu sína, leita eftir upplýsingum t.d. á heimasíðu bankans o.s.frv. Sóknaraðili hafi sent nokkur kröfubréf en ekki stefnt varnaraðila fyrr en í lok október. Þá hafi margir mánuðir verið liðnir frá tilkynningu þeirri er hann hafi fengið um greiðslustöðvun varnaraðila. Sóknaraðili hafi þannig sýnt af sér verulegt tómlæti, sérstaklega í ljósi ástandsins á Íslandi sem hafi verið alkunna.

Varnaraðili mótmælir því að hann eigi að bera hallann af því að hafa ekki tilkynnt sóknaraðila sérstaklega og með sannanlegum hætti um slitameðferð og kröfulýsingarfrest. Varnaraðili hafi uppfyllt sínar lagaskyldur með útgáfu innköllunar, auglýsinga og tilkynninga en hann hafi enga sérstaka leiðbeiningaskyldu umfram það til einstakra kröfuhafa. Ekki sé fortakslaust skylt að senda erlendum kröfuhöfum tilkynningar heldur tiltaki 86. gr. laga nr. 21/1991 eingöngu að skiptastjóra sé það rétt. Í athugasemdum við þá grein sé sérstaklega áréttað að skiptastjóra sé ekki skylt að senda slíkar tilkynningar eins og hafi verið samkvæmt eldri lögum. Lög nr. 21/1991 kveði ekki á um afleiðingar þess ef slík tilkynning sé ekki send. Í öllu falli teljist það ekki vera saknæm vanræksla vegna brots á lagareglu að senda ekki slíka tilkynningu.

Varðandi þá málsástæðu sóknaraðila að erlendir kröfuhafar bankanna hafi ekki haft neina vitneskju um slitameðferð bankanna, kröfulýsingafresti o.þ.h. og því þurft á leiðsögn íslenskra lögmanna að halda, þá telur varnaraðili að þessir erlendu kröfuhafar hafi að fyrra bragði sett sig í samband við íslenska lögmenn vegna þess að aðstæður hér á landi hafi ekki farið á milli mála. Vandséð sé af hverju sóknaraðili hafi ekki brugðist eins við.

Verði á það fallist að krafa sóknaraðila komist að við slitameðferð varnaraðila sem almenn krafa þá byggir varnaraðili á því að eingöngu verði viðurkennd krafa að fjárhæð 113.460.000 krónur. Engin lagaheimild sé til þess að fallast á vexti eða innheimtukostnað frá 22. apríl 2009, sbr. 1. tl. 114. gr., sbr. 1. mgr. og 1. ml. 3. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sbr. 6. gr. laga nr. 44/2009. Þá hafi málskostnaður aðila verið felldur niður samkvæmt ákvörðun réttarins í Kaupmannahöfn. Efni danskra réttarreglna að þessu leyti breyti engu um það að upphafsdagur kröfumeðferðarinnar miðist við gildistöku laga nr. 44/2009 sem hafi verið 22. apríl 2009. Kröfur sem til falli á almennar kröfur eftir þann dag lúti fyrirmælum laga nr. 21/1991 um rétthæð krafna og beri að fara með þær samkvæmt 114. gr. sömu laga.

Varnaraðili byggir á lögum nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., sérstaklega 85. gr., 86. gr., 114. gr. og 118. gr., svo og meginreglum gjaldþrotaréttarins. Þá er einnig vísað til XII. kafla laga nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki, sbr. lög nr. 44/2009, með síðari breytingum. Málskostnaðarkröfu sína styður varnaraðili við XXI. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, sérstaklega 130. gr.

Niðurstaða

Eins og fyrr greinir snýst ágreiningur máls þessa aðallega um það hvort krafa sóknaraðila, sem hann lýsti fyrir slitastjórn varnaraðila 22. desember 2009 eftir lok kröfulýsingarfrests 3. nóvember s.á., komist að við skipti varnaraðila á grundvelli 118. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Sú meginregla kemur fram í 1. mgr. 117. gr. og 118. gr. laga nr. 21/1991 að sá sem vill halda uppi kröfu á hendur þrotabúi skuli lýsa henni fyrir skiptastjóra áður en kröfulýsingarfresti samkvæmt 2. mgr. 85. gr. sömu laga lýkur, en ella fellur krafan niður gagnvart búinu nema einhver af undanþágureglum 1. til 6. tl. 118. gr. eigi við. Samkvæmt 2. tl. 118. gr. fellur krafa ekki niður sé kröfuhafinn búsettur erlendis og hafi hvorki verið kunnugt né mátt vera kunnugt um gjaldþrotaskiptin, enda sé kröfunni lýst án ástæðulausra tafa og áður en boðað er til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búinu.

Lög nr. 21/1991 byggjast á þeirri meginreglu að við gjaldþrotaskipti skuli allir kröfuhafar þrotamanns sitja við sama borð og kröfur þeirra hljóta sömu meðferð. Í samræmi við þetta hafa dómstólar slegið því föstu að undantekningar frá þessari meginreglu skuli almennt ekki skýra rýmra en eftir orðanna hljóðan.

Með 6. gr. laga nr. 44/2009, sem tóku gildi 22. apríl 2009, var 102. gr. laga nr. 161/2002 orðuð upp á nýtt. Samkvæmt 1. mgr. 102. gr. laganna gilda við slit fjármálafyrirtækis sömu reglur og við gjaldþrotaskipti um gagnkvæma samninga þess og kröfur á hendur því að öðru leyti en því að dómsúrskurður um að það sé tekið til slita leiðir ekki sjálfkrafa til þess að kröfur á hendur því falli í gjalddaga. Fram kemur í 2. mgr. sömu greinar að þegar fjármálafyrirtæki hefur verið skipuð slitastjórn skuli hún tafarlaust gefa út og fá birta í Lögbirtingablaði innköllun vegna slitanna og gildi reglur laga nr. 21/1991 um efni innköllunar, kröfulýsingarfrest og tilkynningar eða auglýsingar vegna erlendra kröfuhafa. Þá kemur fram í 4. mgr. sömu greinar að ákvæði XVIII. kafla og 5. þáttar laga nr. 21/1991 gildi um meðferð krafna á hendur fjármálafyrirtæki við slit þess, þar á meðal um áhrif þess að kröfu sé ekki lýst.

Fram kemur í athugasemdum við 7. gr. frumvarps þess sem varð að lögum nr. 44/2009, að í 2. mgr. 102. gr., væri lagt til að upphafsráðstafanir slitastjórnar verði að gefa út og fá birta innköllun vegna slitanna. Lagt væri til að um þetta gildi sömu reglur og er að finna í lögum nr. 21/1991. Í því felist, sbr. 86. gr. þeirra laga, að senda þurfi öllum erlendum kröfuhöfum, sem fjármálafyrirtæki viti hvar eru með heimili, tilkynningu um slitin og innköllun og birta auglýsingu ef talið er að kröfuhafar séu erlendis, en ekki vitað hvar þeir séu eða hvernig verði náð til þeirra. Óhjákvæmilegt sé að hafa þennan hátt á, þótt ljóst sé að stundum geti fjöldi erlendra kröfuhafa skipt hundruðum þúsunda. Ástæðurnar séu bæði þær að innköllun, eins og hér um ræði, hafi þau áhrif, sbr. 118. gr. laga nr. 21/1991, að ef kröfu er ekki lýst innan kröfulýsingarfrests komi hún ekki til álita við slitin og oftast þýði það að kröfuhafinn glati öllum möguleikum á að fá fullnustu hennar í heild eða að hluta af eignum fjármálafyrirtækis. Auk þess myndi önnur regla fela í sér brot á jafnræði í garð erlendra kröfuhafa, en slíkt færi í bága við eitt þeirra meginsjónarmiða sem tilskipun 2001/24/EB sé reist á. Þá verði ekki séð að það sé viðurhlutameira fyrir fjármálafyrirtæki að annast sendingu slíkrar tilkynningar um innköllun en önnur fyrirtæki sem hafa mikinn fjölda viðskiptamanna erlendis. Um efni innköllunar og fresti gildi sömu reglur og í lögum nr. 21/1991 og þarfnist það ekki skýringar.

Í 86. gr. laga nr. 21/1991 er mælt fyrir um ráðstafanir sem skiptastjóra er rétt að grípa til í því skyni að erlendir kröfuhafar fái vitneskju um gjaldþrotaskipti. Fram kemur í 1. mgr. greinarinnar að jafnframt því að gefa út innköllun samkvæmt 85. gr. laganna sé skiptastjóra rétt að leita sérstaklega vitneskju um hvort einhver sá, sem kunni að telja til kröfu á hendur þrotabúinu, sé búsettur erlendis og komi fram vitneskja um slíkt sé skiptastjóra rétt að tilkynna hlutaðeigandi svo fljótt sem verða má um gjaldþrotaskiptin, hvenær kröfulýsingarfrestur endi og hverjar afleiðingar það geti haft að kröfu verði ekki lýst innan frestsins. Í 2. mgr. greinarinnar er svo fyrir mælt að telji skiptastjóri ástæðu til að ætla að lánardrottnar kunni að vera búsettir erlendis, sem ekki sé vitað hverjir séu eða hvar verði náð til, sé honum rétt að fá birta auglýsingu erlendis með sama efni og tilkynning samkvæmt 1. mgr.

Í athugasemdum við 85. og 86. gr. frumvarps er varð að lögum nr. 21/1991, kemur fram að samkvæmt 86. gr. sé skiptastjóra ekki skylt að grípa til þeirra aðgerða sem þar sé fjallað um, en þær gætu einkum þjónað þeim tilgangi að koma í veg fyrir að erlendir lánardrottnar gætu komið að kröfum eftir lok kröfulýsingarfrests í skjóli 2. tl. 118. gr. Með þessum ákvæðum sé ,,lögð til breyting frá 2. mgr. 87. gr. laga nr. 6/1978 því samkvæmt þeirri reglu er ávallt skylt að beina sérstakri tilkynningu um gjaldþrotaskipti til allra þekktra lánardrottna, bæði hér á landi og erlendis. Er skemmst frá því að segja að þeirri skyldu hefur nánast aldrei verið sinnt í framkvæmd, enda nánast ógerningur að fylgja umræddri reglu og tæplega heldur neitt almennt tilefni til þess.“

Samkvæmt 2. gr. laga nr. 2/1993 um Evrópska efnahagssvæðið skal meginmál EES-samningsins hafa lagagildi hér á landi og samkvæmt 3. gr. laganna skal skýra lög og reglur, að svo miklu leyti sem við á, til samræmis við EES-samninginn og þær reglur sem á honum byggja. Því verður í máli þessu fjallað um þau sjónarmið sóknaraðila sem fram komu við munnlegan málflutning og varða túlkun íslenskra laga til samræmis við EES-samninginn, en þau eru ekki talin fela í sér nýjar málsástæður heldur lagarök.

Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 167/2002 frá 6. desember 2002, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn, var tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/24/EB frá 4. apríl 2001, um endurskipulagningu og slit lánastofnana, tekin upp í EES-samninginn.

Samkvæmt 1. gr. tilskipunarinnar, eins og hún hefur verið birt á íslensku í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, gildir hún ,,um lánastofnanir og útibú þeirra sem stofnuð eru í aðildarríkjum öðrum en þeim þar sem aðalskrifstofa þeirra er…“. Samkvæmt þessu gildir tilskipunin aðeins um starfsemi lánastofnana sem hafa útibú í öðrum aðildarríkjum Evrópska efnahagssvæðisins.

Í 14. gr. fyrrnefndrar tilskipunar er fjallað um tilhögun upplýsingamiðlunar til þekktra lánardrottna. 1. mgr. greinarinnar á íslensku, eins og hún hefur verið birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins, er svohljóðandi: ,,Þegar slitameðferð hefst skulu stjórnvöld eða dómsmálayfirvöld heimaðildarríkisins eða skiptastjórinn upplýsa án tafar alla lánardrottna, sem hafa lögheimili, fasta búsetu eða aðalskrifstofu í öðrum aðildarríkjum, um það nema í tilvikum þegar í löggjöf heimaaðildarríkis þess er ekki krafist að kröfunni sé lýst til að hún fáist viðurkennd.“

Með 11. gr. laga nr. 130/2004, sem tóku gildi 1. janúar 2005, var m.a. nýju ákvæði, 104. gr., bætt við lög nr. 161/2002 um fjármálafyrirtæki. Ákvæðið ber yfirskriftina ,,Slit á lánastofnun með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru EES-ríki. Kveðið var á um í 4. mgr. ákvæðisins að væri þekktur kröfuhafi lánastofnunar búsettur í öðru ríki innan Evrópska efnahagssvæðisins skyldi skiptastjóri án tafar tilkynna honum um upphaf skiptanna. Í tilkynningunni skyldi greina frá kröfulýsingarfresti, hvert beina skyldi kröfulýsingu og afleiðingum vanlýsingar í samræmi við reglur sem ráðherra setti.. Með lögum nr. 108/2006 var fyrri málslið ákvæðisins breytt þannig að í stað orðanna „í öðru ríki innan evrópska efnahagssvæðisins“ segir nú aðeins „í öðru aðildarríki“. Fram kemur m.a. í almennum athugasemdum við frumvarp það sem varð að lögum nr. 130/2004 að með því séu lagðar til breytingar á lögum nr. 161/2002 til að innleiða í íslenskan rétt ákvæði tilskipunar ráðsins nr. 2001/24/EB. Í athugasemdum við 11. gr. frumvarpsins kemur fram að með ákvæðinu séu innleidd ákvæði 9. og 13. gr. tilskipunarinnar.

Hinn 5. október 2006 gaf ráðherra út á grundvelli 4. mgr. 104. gr. laga nr. 161/2002 reglugerð nr. 872/2006 um tilkynningu og birtingu ákvarðana um endurskipulagningu fjárhags og slit lánastofnana. Þar kemur fram í 4. gr. að skiptastjóri lánastofnunar skuli láta birta auglýsingu um ákvörðun um slit lánastofnunar í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og a.m.k. tveimur innlendum dagblöðum í hverju gistiríki. Sé þekktur kröfuhafi lánastofnunar búsettur í öðru aðildarríki innan Evrópska efnahagssvæðisins eða aðila að stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu skuli skiptastjóri tilkynna honum um upphaf skiptanna. Tilkynningin skuli vera í formi auglýsingar og þar skuli fram koma upplýsingar um kröfulýsingarfrest, hvert beina skuli kröfulýsingu og viðurlög við vanlýsingum. Auglýsing samkvæmt 1. og 2. mgr. skuli birt á íslensku og skuli fyrirsögn hennar vera, Innköllun vegna gjaldþrotaskipta, kröfulýsingarfrestur, á öllum tungumálum aðildarríkja Evrópska efnahagssvæðisins.

Að mati dómsins verður að túlka 4. mgr. 104. gr. laga nr. 161/2002 með hliðsjón af forsögu og lögskýringargögnum við ákvæðið, sem áður hefur verið gerð grein fyrir, á þann veg að það gildi eingöngu um slitameðferð lánastofnana með höfuðstöðvar á Íslandi og útibú í öðru EES- eða EFTA-ríki eða Færeyjum. Fram kom við munnlegan málflutning að varnaraðili hafi aldrei rekið útibú erlendis. Af því leiðir að ákvæði 4. mgr. 104. gr. laga nr. 161/2002 og reglugerðar nr. 872/2006 gilda ekki um slitameðferð varnaraðila.

Áður er gerð grein fyrir ákvæðum 1. og 2. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991 og 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sem og lögskýringargögnum við þessi ákvæði. Í þeim lögskýringargögnum við 86. gr. laga nr. 21/1991 og 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002, sem fyrr eru rakin, er ósamræmi um það hvernig túlka eigi ákvæði 1. og 2. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991. Í 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 segir að um ,,tilkynningar eða auglýsingar vegna erlendra kröfuhafa“ skuli beita ,,sömu reglum og við gjaldþrotaskipti“. Verður þannig ekki ráðið af texta ákvæðisins að til hafi staðið að breyta inntaki 86. gr. laga nr. 21/1991, eða setja sérreglu um slíkar tilkynningar eða auglýsingar við slitameðferð fjármálafyrirtækja. Á hinn bóginn kemur skýrt fram í áður tilvitnuðum ummælum í greinargerð með frumvarpinu sem varð að lögum nr. 44/2009 að senda þurfi ,,öllum erlendum kröfuhöfum, sem fjármálafyrirtæki veit hvar eru með heimili, tilkynningu um slitin og innköllun…“ og færð fram rök fyrir þeirri afstöðu. Þær röksemdir snúa að nokkru leyti að sérstöðu slitameðferðar fjármálafyrirtækja. Að mati dómsins verður því að skýra 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 á þann veg að ákvæðið feli í sér sérreglu um tilkynningu eða auglýsingar vegna erlendra kröfuhafa við slitameðferð fjármálafyrirtækja, þannig að við slitameðferð sé skylt að senda öllum erlendum kröfuhöfum sem slitastjórn fjármálafyrirtækis veit hvar er með heimili, tilkynningu um slitin og innköllun í samræmi við ákvæði 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991.

Við mat á því hversu langt slitastjórn eigi að ganga í því efni verður að leggja til grundvallar að ef slitastjórn hefur vitneskju um að erlendur aðili kunni að telja til kröfu á hendur þrotabúinu þá verði skylda slitastjórnar samkvæmt framansögðu virk.

Hvað varðar vitneskju slitastjórnar varnaraðila um kröfu sóknaraðila þá liggur fyrir að krafa hans byggist á yfirlýsingu varnaraðila um bankaábyrgð upp að tiltekinni fjárhæð í dönskum krónum vegna lánssamnings sóknaraðila við þriðja aðila. Það var skilyrði fyrir greiðsluskyldu varnaraðila að viðsemjandi sóknaraðila stæði ekki í skilum með skuldbindingu sína gagnvart sóknaraðila. Var krafa sóknaraðila á hendur varnaraðila þannig háð skilyrði sem varnaraðili gat ekki vitað hvort væri uppfyllt fyrr en honum bærist um það tilkynning frá sóknaraðila. Sóknaraðili kveðst hafa sent varnaraðila fjögur bréf á tímabilinu 30. mars 2009 til 21. ágúst s.á. og krafist greiðslu. Komið hefur fram í málinu að varnaraðila barst bréf sóknaraðila frá 7. apríl 2009, þótt því sé mótmælt af hans hálfu að honum hefðu borist önnur bréf sóknaraðila. Varnaraðila mátti því vera ljóst, þegar bréf sóknaraðila frá 7. apríl 2009 barst honum, að sóknaraðili kynni að eiga kröfu á hendur honum. Bar varnaraðila þá að senda sóknaraðila svo fljótt sem verða mætti tilkynningu um slitin og innköllun í samræmi við ákvæði 1. mgr. 86. gr. laga nr. 21/1991 og 2. mgr. 102. gr. laga nr. 161/2002 en fyrir liggur að svo var ekki gert.

Sóknaraðili er búsettur erlendis. Því er ekki mótmælt að hann hafi lýst kröfu sinni án ástæðulausra tafa, sbr. 2. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 og fyrir boðun til skiptafundar um frumvarp til úthlutunar úr búi varnaraðila. Af gögnum málsins verður ráðið að varnaraðili svaraði bréfi sóknaraðila frá 7. apríl 2009 með skeyti 15. apríl s.á. þar sem fram kom að varnaraðili væri í greiðslustöðvun.

Greiðslustöðvun er tímabundið úrræði skuldara sem á í verulegum fjárhagserfiðleikum og vill freista þess að koma nýrri skipan á fjármál sín með aðstoð aðstoðarmanns, sem hann hefur ráðið í því skyni, sbr. 1. mgr. 10. gr. laga nr. 21/1991. Réttarreglur um greiðslustöðvun miða að því að veita skuldara svigrúm til að koma nýrri skipan á fjármál sín án þess að vanefndaúrræði og fullnustugerðir kröfuhafa íþyngi honum. Meðal þeirra skilyrða sem skuldari þarf að uppfylla til að veitt verði heimild til greiðslustöðvunar er að honum sé ekki sýnilega þegar orðið skylt að krefjast gjaldþrotaskipta á búi sínu vegna ákvæða 2. mgr. 64. gr. laga nr. 21/1991, sbr. 4. tl. 2. mgr. 12. gr. sömu laga. Slitameðferð samkvæmt 12. kafla laga nr. 161/2002 miðar hins vegar að því að koma eignum fjármálafyrirtækis í verð og greiða viðurkenndar kröfur og gilda reglur laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti að miklu leyti um slitameðferðina. Er hér því um verulega ólík úrræði að ræða og gat vitneskja sóknaraðila um greiðslustöðvun varnaraðila því ekki leitt til þess að honum mætti vera kunnugt um slitameðferð varnaraðila. Varnaraðili hefur upplýst að auglýsing um innköllun til skuldheimtumanna hafi verið birt í dagblöðum 13. júní 2009 og 26. september s.á., en ekki í hvaða dagblöðum auglýsingin hafi birst eða hvort hún hafi verið birt í dagblöðum í Danmörku, heimalandi sóknaraðila.

Samkvæmt öllu ofangreindu eru skilyrði 2. tl. 118. gr. laga nr. 21/1991 uppfyllt og fallist á að krafa sóknaraðila að höfuðstólsfjárhæð 113.460.000 krónur komist að við slitameðferð varnaraðila sem almenn krafa samkvæmt 113. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl., en kröfur um dráttarvexti og kostnað, sem til hefur fallið eftir 22. apríl 2009, ber að fara með sem eftirstæðar kröfur samkvæmt 114. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl.

Í ljósi atvika málsins og þess að veruleg vafaatriði eru uppi í málinu verður hvor aðili látinn bera sinn kostnað af því, sbr. 3. mgr. 130. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.

Ingveldur Einarsdóttir héraðsdómari kveður upp þennan úrskurð.

Ú r s k u r ð a r o r ð:

Krafa sóknaraðila, Forstædernes Bank A/S, að fjárhæð 113.460.000 krónur, er viðurkennd sem almenn krafa samkvæmt 113. gr. laga nr. 21/1991 um gjaldþrotaskipti o.fl. við slitameðferð varnaraðila, Sparisjóðabanka Íslands hf.

Málskostnaður fellur niður milli aðila.