Hæstiréttur íslands
Mál nr. 407/2012
Lykilorð
- Kærumál
- Dómkvaðning matsmanns
|
|
Föstudaginn 10. ágúst 2012. |
|
Nr. 407/2012. |
Íslenska ríkið (Óskar Thorarensen hrl.) gegn Skakkaturni ehf. (Páll Rúnar M. Kristjánsson hdl.) |
Kærumál. Dómkvaðning matsmanns.
Staðfestur var úrskurður héraðsdóms þar sem fallist var á beiðni S ehf. um dómkvaðningu matsmanns til að meta hvort tiltekið raftæki, svonefndur iPod touch, uppfyllti skilyrði tollflokkunar sem gagnavinnsluvél.
Dómur Hæstaréttar.
Mál þetta dæma hæstaréttardómararnir Garðar Gíslason, Árni Kolbeinsson og Jón Steinar Gunnlaugsson.
Sóknaraðili skaut málinu til Hæstaréttar með kæru 1. júní 2012, sem barst héraðsdómi sama dag og Hæstarétti ásamt kærumálsgögnum 12. sama mánaðar. Kærður er úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2012, þar sem fallist var á beiðni varnaraðila um dómkvaðningu matsmanns til að meta hvort tiltekið raftæki, svonefndur iPod touch, uppfylli skilyrði tollflokkunar sem gagnavinnsluvél samkvæmt auglýsingu nr. 142/2006 um breyting á viðauka I við tollalög nr. 88/2005 með síðari breytingum. Kæruheimild er í c. lið 1. mgr. 143. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála. Sóknaraðili krefst þess að hinn kærði úrskurður verði felldur úr gildi og kröfu varnaraðila hafnað. Þá krefst hann „málskostnaðar“ fyrir Hæstarétti að mati réttarins.
Varnaraðili krefst staðfestingar hins kærða úrskurðar og „málskostnaðar úr hendi sóknaraðila vegna reksturs málsins“.
Með vísan til forsendna hins kærða úrskurðar verður hann staðfestur.
Sóknaraðila verður gert að greiða varnaraðila kærumálskostnað eins og í dómsorði greinir.
Dómsorð:
Hinn kærði úrskurður er staðfestur.
Sóknaraðili, íslenska ríkið, greiði varnaraðila, Skakkaturni ehf., 200.000 krónur í kærumálskostnað.
Úrskurður Héraðsdóms Reykjavíkur 22. maí 2012.
Með matsbeiðni móttekinni 24. febrúar 2012 krafðist matsbeiðandi, Skakkiturninn ehf. þess, með vísan til XII. kafla laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála, að dómkvaddur verði hæfur og óvilhallur matsmaður til að meta hvort að varan, iPod touch, uppfylli skilyrði fyrir tollflokkun sem gagnavinnsluvél sem koma fram í töluliðum 1- 4 í 5. A. í 74. tl. 1. gr. auglýsingar nr. 142/2006 (A-deild Stjórnartíðinda, gildistökudagur 1. janúar 2007).
Matsþoli gerir þær kröfur að synjað verði um dómkvaðningu matsmanns.
Málið var tekið til úrskurðar 7. maí sl.
I
Matsbeiðandi er innflutningsaðili á vörum frá Apple. Meðal þess sem hann flytur inn er iPod touch lófatölvan. Matsbeiðandi kveður umrædda vöru vera ætlaða til notkunar sem hefðbundin lófatölva þ.e. til að vafra á netinu, fara í tölvuleiki, nota sem síma, bæta við hana margskonar tölvuforritum, spila tónlist og kvikmyndir o.s.frv. Allt þar til 1. nóvember 2011 hafi umrædd vara verið tollflokkuð af tollstjóra sem afspilunartæki þ.e. í tollflokk 8521.9029, en sá flokkur beri 7,5% almennan toll og 25% vörugjald. Þá tollflokkun telji matsbeiðandi hins vegar vera ranga og að iPod touch lófatölvuna eigi að tollflokka sem lófatölvu í tollflokk 8471.3000, en sá flokkur beri engan toll og engin vörugjöld.
Matsbeiðandi höfðað mál þann 25. mars 2011 (E-1420/2011) til að fá hnekkt úrskurði ríkistollanefndar nr. 2/2010. Þá var gerð sú krafa að viðurkennt yrði með dómi að tollflokka beri iPod touch lófatölvuna í tollskrárnúmer 8471.3000. Með úrskurði uppkveðnum 14. september 2011 var vísað frá dómi kröfu stefnanda um að viðurkennt verði með dómi að tollflokka beri iPod touch lófatölvuna í tollskrárnúmer 8471.3000.
Þann 1. nóvember 2011 tóku gildi lög nr. 121/2011 sem m.a. breyttu tollflokkun á afspilunartækjum og í kjölfarið var tollaflokkun á iPod touch breytt með ákvörðun tollstjórans í Reykjavík frá 21. nóvember 2011. Með vísan til lagabreytingarinnar krafðist stefndi því að málinu yrði vísað frá dómi og með úrskurði uppkveðnum þann 27. janúar 2012 var orðið við þeirri kröfu..
Matsbeiðandi kveður tilgang matsbeiðninnar vera að skera úr um það hvort að iPod touch lófatölvan uppfylli þau skilyrði fyrir skilgreiningu á tölvu (gagnavinnsluvél) sem fram koma í töluliðum 1 -4 í 5. A. í 74. tl. 1. gr. auglýsingar nr. 142/2006, en í máli E-1420/2011 hafi því verið mótmælt að þau væru uppfyllt.
Með matinu eigi að undirbyggja frekari málsókn á hendur íslenska ríkinu þar sem sótt verði endurgreiðsla á þeim gjöldum sem matsbeiðandi hefur greitt í samræmi við meinta ranga tollflokkun á lófatölvunni iPod touch.
II
Matsþoli byggir á að málinu nr. E-1420/2011 hafi verið vísað frá dómi með þeim rökum m.a. að huga verði að því að dómstólar skeri samkvæmt 60. gr. stjórnarskrár úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda og geti þannig ógilt ákvarðanir stjórnvalda ef þeim er áfátt að formi og efni til. Í frávísunarúrskurðinum komi fram að það leiði af þrískiptingu ríkisvaldsins, sbr. 2. gr. stjórnarskrárinnar, að almennt falli það utan valdssviðs dómstóla, sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991, að taka nýjar ákvarðanir um málsefni sem stjórnvöldum séu falin með lögum eða gefa þeim fyrirmæli um efnislegt innihald slíkra ákvarðana. Í úrskurðinum komi fram að stefnandi hefði hafnað því að þetta ætti við um viðurkenningarkröfu sína enda væri það ekki hlutverk tollstjóra að færa vöru til tollflokks heldur inn- og útflytjanda. í úrskurðinum. Fram komi í úrskurðinum að í 20. gr. tollalaga nr. 88/2005 segi að inn- og útflytjendur skuli færa vöru til tollflokks í viðeigandi tollskjölum samkvæmt almennum reglum um túlkun tollskrárinnar í viðauka I við lögin. Ef vafi leiki á tollflokkun vöru eða óski inn- eða útflytjandi eftir staðfestingu tollstjóra á tollflokkun vöru geti hann leitað eftir bindandi áliti tollstjóra á tollflokkun hennar, sbr. 21. gr. laganna, eins og fram komi í 2. mgr. 20. gr. þeirra. Flokkun vöru í viðeigandi tollflokk sé forsenda þess að unnt sé að leggja á aðflutningsgjöld með réttum hætti samkvæmt 109. gr. tollalaga. Í því ákvæði komi skýrt fram að tollstjóri annist álagningu þessara gjalda og þegar litið sé til ákvæða XIV. kafla tollalaga sé ljóst að við álagninguna sé tollstjóri ekki bundinn af færslu inn- eða útflytjenda á vöru til tollflokks í þeim tollskjölum er þeir láta tollstjóra í té. Fram komi í úrskurðinum að tilgangur viðurkenningarkröfu stefnanda hljóti að vera að binda hendur tollstjóra við álagningu aðflutningsgjalda. Ef á kröfugerðina yrði fallist fæli dómsorðið samkvæmt framansögðu í raun í sér fyrirmæli til hans um það hvernig haga bæri álagningu aðflutningsgjalda á vöruna. Þar sem löggjafinn hafi falið tollstjóra með skýrum hætti að annast álagningu þessara gjalda verði ekki talið að það sé á valdsviði dómstóla að kveða með beinum hætti á um flokkun vöru í tollskrá. Því beri að vísa hinum umdeilda kröfulið frá dómi sbr. 1. mgr. 24. gr. laga nr. 91/1991 um meðferð einkamála.
Matsþoli byggir á að í raun feli matsbeiðnin í sér að matsmaður endurskoði bindandi álit tollstjóra og úrskurð ríkistollanefndar. Það standist ekki að matsmaður framkvæmi slíka endurskoðun og því ekki að matsgerðin nái fram að ganga. Sömu rök eigi við og fram koma í framangreindum úrskurði héraðsdóms frá 14.9.2011. Hér sé á ferðinni lögfræðilegt úrlausnarefni sem aðeins verði endurskoðað af dómstól en ekki af matsmanni. Samkvæmt 2. mgr. 60. gr. laga nr. 91/1991 leggi dómari sjálfur mat á atriði sem krefjast almennrar þekkingar og menntunar eða lagaþekkingar. Telur matsþoli að þau sjónarmið eigi við varðandi úrlausnarefni þetta. Telji dómur þörf á að fá til liðs við sig sérfræðing um tollflokkun eða um vöru þá sem um er fjallað eigi hann þess kost á að fá til liðs við sig sérfróðan meðdómanda en það er að mati matsbeiðanda hvorki hlutverk matsmanns né í samræmi við XII. kafla laga nr. 91/1991 né önnur ákvæði laga um meðferð einkamála varðandi matsmenn að framkvæma það mat sem lýst er í matsbeiðni.
III
Samkvæmt 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 er aðila, sem hefur lögvarinna hagsmuna að gæta, heimilt að beiðast dómkvaðningar matmanns þótt hann hafi ekki haft uppi kröfu vegna matsatriðis í dómsmáli ef það er gert til að staðreyna kröfu eða sanna atvik að baki henni.
Matsbeiðandi kveður tilgang matsbeiðninnar vera að undirbyggja frekari málsókn á hendur íslenska ríkinu þar sem sótt verði endurgreiðsla á þeim gjöldum sem matsbeiðandi hefur greitt í samræmi við meinta ranga tollflokkun á lófatölvunni iPod touch. Matsbeiðandi, sem óumdeilt er að hefur lögmætra hagsmuna að gæta, hyggst með matinu staðreyna hvort að iPod touch lófatölvan uppfylli þau skilyrði fyrir skilgreiningu á tölvu (gagnavinnsluvél) sem fram koma í töluliðum 1 -4 í 5. A. í 74. tl. 1. gr. auglýsingar nr. 142/2006.
Verður með hliðsjón af framangreindu að telja að skilyrði 1. mgr. 77. gr. laga nr. 91/1991 fyrir öflun matsgerðar séu fyrir hendi.
Í matsbeiðni er krafist mats á sérfræðilegu álitaefni, þ.e. hvort iPod lófatölvan sé gagnavinnsluvél í skilningi tilvitnaðra ákvæða auglýsingar nr. 141/2006.
Samkvæmt 1. mgr. 46. gr. laga nr. 91/1991 hefur aðili forræði á því hverra gagna hann aflar til stuðnings kröfum sínum fyrir dómi. Er að meginreglu hvorki á valdi gagnaðila né dómara að takmarka þann rétt umfram það sem leiðir af ákvæði 3. mgr. sömu lagagreinar þar sem kveðið er á um að ef dómari telji bersýnilegt að atriði sem aðili vill sanna skipti ekki máli eða að gagn sé tilgangslaust til sönnunar geti hann meinað aðila um sönnunar færslu.
Þar sem ekki liggur fyrir að svör við matsspurningunum skipti ekki máli við úrlausn máls þess sem matsbeiðandi hyggst höfða verður matsbeiðanda ekki meinað að afla svara dómkvaddra matsmanna við matsspurningunum, enda ber hann kostnað af matsgerð og hann tekur áhættu af notagildi hennar sem sönnunargagns fyrir dómi..
Samkvæmt framansögðu og með vísan til 1. mgr. 61. gr. laga nr. 91/1991 er fallist á að umbeðin dómkvaðning matsmanna fari fram.
Ekki voru hafðar uppi kröfur um málskostnað.
Þorgerður Erlendsdóttir héraðsdómari kveður upp úrskurð þennan.
Úrskurðarorð
Umbeðin dómkvaðning skal fara fram.